Heimsókn til Spurs! Upphitun

Á morgun, laugardaginn 11. Janúar munu Liverpool heimsækja Tottenham Hotspurs í Norður-Lundúnir. Þeir freista þess að viðhalda ótrúlegri þrettán stiga forystu sinni á toppi ensku deildarinnar. Mótherjinn er kunnuglegur. Tottenham voru andstæðingurinn þegar lærisveinar Klopp lyftu Evrópubikarnum fræga í sjötta sinn og þangað til fyrir svona tveimur voru það lið í Ensku deildinni sem hægt var að bera Liverpool best saman við. En við stjórnvölin í London er nýr stjóri og gamall óvinur. Kannski stærsti fjandi Liverpool síðustu tuttugu ár fyrir utan rauðnefinn fræga, maðurinn sem hefði kannski tekið við Liverpool ef örlögin hefðu verið aðeins öðruvísi, sem háði orðastríð við Rafa, var arkitekt einnar sárustu stundar stuðningsmanna Liverpool, sem hefur stýrt bæði Manchester United og Chelsea. Þið vitið hvern ég meina.

Tottenham Hotspurs.

Fyrir þremur eða svo árum var Spurs rökréttasta liðið til að bera Liverpool saman við. Bæði liðin mundu sinn fífil fegurri, bæði lið voru með stjóra sem var að ná frábærum árangri miðað mannskap, höfðu misst sína skærustu stjörnu til spænsks risa. Bæði lið voru að vinna í að stækka völlinn sinn og að reyna að ná fótfestu í meistaradeildasætunum. Þegar Liverpool steinlágu 4-1 fyrir Spurs á Wembley var það meðal annars sárt vegna þess að Tottenham var það lið sem maður sá hvað helst  fram á að Liverpool gæti steypt af stóli í topp fjórum pakkanum.

Það tímabilið rétt slefuðu Liverpool í meistaradeildarsæti á meðan Tottenham kláraði í þriðja. Þetta var tímabilið sem Spurs léku alla heimaleiki sína á Wembley.Tottenham voru sáttir með sitt og Liverpool náði að knýja fram ótrúlega röð úrslita í meistaradeildinni sem endaði í úrslitaleik í Kiev. Því fór sem fór þar.

Ári seinna var Liverpool aftur í úrslitaleiknum, að spila við Tottenham. Gengi Tottenham hafði byrjað að dala í deildinni þegar leið á tímabilið en þeir hugguðu sig við að þeir voru á hörku siglingu í Evrópu. Á sama tíma urðu Liverpool öflugri og öflugri. Þegar kom að úrslitastund unnu Liverpool. Stóri munurinn á liðunum í dag liggur í hvernig þau brugðust við sitthvoru tapinu á stærsta sviðinu. Árið eftir að Liverpool lenti í öðru sæti í Evrópu setti það nýtt stigamet í deildinni (fyrir lið í öðru sæti) og aðeins ótrúlegt gengi City kom í veg fyrir að liðið yrði Englandsmeistarar. Árið eftir að Tottenham tapaði úrslitaleiknum brotnaði liðið saman.

Gengi Tottenham í byrjun núverandi tímabils voru hörmun. Þeir unnu aðeins 3 af 12 fyrstu leikjum sínum og féllu út úr deildarbikarnum með tapi fyrir United. Ekki West Ham United eða Manchester United. Colchester United sem spila í d-deildinni. Einhverja breytinga var þörf og Daniel Levy tók sú ákvörðun að snúa baki í langtímahugsun og ráða mann sem hefur skilið eftir sviðna jörð hjá öllum fyrri liðum sínumÞetta þýðir að öllum líkindum að Mourinho mun gera það sem hann elskar að gera í stórleikjum. Pakka tveggja hæða lundúnarútu fyrir framan markið sitt, tefja frá fyrstu sekúndu og reyna að komast inn í hausinn á okkar mönnum. Hann er því miður ofboðslega góður í þessum myrku fræðum og það er undir Klopp komið að leyfa þessu ekki að hafa áhrifa á leikmenn okkar. Ég held að það vinni í alvöru með okkur að leikurinn sé á White Hart Lane, leikmenn finna meira fyrir því ef allur Anfield pirrast upp en ef útivallarhópurinn gerir það.

Okkar menn

Síðan að Klopp kom til Liverpool hefur janúar (og kannski febrúar) verið hans Akkilesarhæll. Desember er klárlega á pappír erfiðasti mánuður ársins en síðan hann byrjaði hjá Liverpool hefur sigurhlutfallið í desember verið 73%, í janúar 41%. Jordan Henderson sagði nýlega að þjálfarinn væri búin að breyta áherslunum fyrir mánuðinn, meðal annars með því að gefa leikmönnum meir frítíma. Það sést kannski best í að Klopp nýtti bikarleikinn gegn Everton til að gefa nánast öllu aðalliðinu frí og bjó þannig til átta daga hvílld fyrir flesta leikmenn.

Það eru líka jákvæðar fréttir af okkar mönnum utan vallar. Við óskum Sadio Mané til hamingju með að vera valin leikmaður ársins af knattspyrnu sambandi Afríku. Salah hefur unnið þessi verðlaun tvö ár í röð, gott að þeir skipti þessu bróðurlega á milli sín.

Fyrir viku hefði málsgreinin um meiðslalista liðsins verið kallaður Meiðslabókin. En í Alex Oxlade sneri óvænt til baka á móti Everton. Matip og Shaqiri eru víst orðnir heilir og biðin styttist í Fabinho. Milner og Keita eru því miður enn þá meiddir og óvíst hvenær þeir snúa aftur.

Fyrir mér er bara ein spurning um byrjunarliðið: Verðlaunar Klopp Lallana fyrir frábæra frammistöðu á móti Everton eða mun vill þjálfarinn auka ógnina frá Oxlade-Chamberlain. Þó ég held að fátt myndi gleðja þann síðarnefnda eins og að skora á móti Tottenham held ég að Lallana verði í byrjunarliðinu, það er bara of stutt síðan Alex kláraði meiðslin.

Spá

Ég er hræddari við þennan leik en flesta síðustu leiki. Ekki að því að ég hræðist Tottenham, vegna þess að ég hræðist Mourinho. Í mínum huga er hann teiknimyndaskúrkur fótboltaheimsins sem hefur eingöngu þann tilgang að skemma fyrir hetjunum og eyðileggja það sem er fallegt. En þetta er tímabilið þar sem hið góða sigrar, eftir margar orrustur við vonda karlinn. 2-0 fyrir Liverpool og málið er dautt.

Kopverjar ættu að vita að flestir pennar síðurnar verða á Sport og Grill á morgun. Um að gera að mæta og taka þátt í rífandi stemmningu. Ég kemst ekki sjálfur, en biðla til lesenda sem mæta að skemmta sér vel og ávarpa þá félaga eingöngu sem „Heims- og Evrópumeistara.“

YNWA

 

 

14 Comments

 1. Sæl og blessuð.

  Þessi leikur er Hvannadalshnúkur fyrir Móra karlinn. Að tefja leik, pirra andstæðinga og drepa niður tempóið – það eru hans ær og kýr eins og pistlahöfundur segir réttilega. Þegar andstæðingurinn er á slíku skriði sem okkar menn á verður áskorunin ómótstæðilegt. Þessi Toni Pulis-de lux mun sannarlega reyna að standa undir orðsporinu og sýna fram á það í eitt skiptið fyrir öll að ekkert lið er of skemmtilegt, of framsækið, of gott til að hann geti ekki látið ískra í hjörum og sett líki í leiðindagír.

  Við vitum það á hinn bóginn að okkar menn þekkja til karlsins og þótt við eigum sárar minningar frá honum þá skulum við ekki gleyma því að í tvígang hefur hann fengið sekkinn eftir viðureign gegn okkar mönnum.

  Ég játa það (hélt ég myndi aldrei segja það) að ég vil sjá Lallana fyrsta klst. og svo Chambo vin okkar, ef allt er stíflað ennþá. Lallana kann þá list að reyna á þolrif anstæðinganna – þó ekki með hægagangi heldur hraðagangi. Það er því tilvalið að leyfa honum að ólmast og fá svo skotfastan Chambo inn á.

  Aldrei þessu vant ætla ég að leyfa mér að vera bjartsýnn. Við höldum uppteknum hætti frá United leiknum og skorum snemma. Þar með bregðast allar töflufundaforsendur Mórans og leiðin verður greið inn í vítateig þeirra hvítklæddu. Vinnum 0-3.

  6
 2. Sælir félagar

  Ég þakka Bjarna fyrir góða upphitun og skemmtilega. Ég hefi farið á heimavöllinn í Smáralindinni og þar komu tveir heimsmeistarar og heilsuðu upp á mig. Það var notaleg stund en leikurinn fór ekki vel (Napoli) þannig séð en við kláruðum það svo bara í Salzburg svo það kom ekki að sök.

  Hvað leikinn á morgun varðar leggst hann bara vel í mig. Spurningin er bara hvað tekst T’ham að halda hreinu lengi. Þegar fyrsta markið kemur (auðvitað frá okkar mönnum) verða þeir að skreiðast út úr rútunni. Þá opnast meira fyrir okkar mönnum og leikurinn vinnst örugglega. Ennþá hefur engum tekist að halda hreinu gegn okkur og Mótorkjafturinn “auðmjúki” mun ekki ná því að heldur. Mín spá 1 – 3 þar sem Son mun setja 1 í lok leiks þegar Virgillinn leyfir honum að skora því hann á svo bágt.

  Það er nú þannig

  YNWA

  5
 3. Verum á jörðini félagar, Móri mun fá alla rútubíla sem eru falir til að parkera, en við kunnum þessa taktík alveg ágætlega nú orðið. 1-3.

  YNWA

  3
 4. Minn draumur er 0-1 með einhverju heppnismarki eftir fremur vafasaman aðdraganda (svo Móri hafi eitthvað að tala um eftir leik).
  Það gleymist stundum að það er alveg nóg að vinna með einu marki 😉

  3
 5. Pepe Reina að koma aftur í ensku deildina eftir helgi og fer til Aston Villa, það verður gaman að sjá þann snilling aftur í deildinni.

  6
 6. Móra langar….hann á bara ekki séns….

  Það er nú þannig…..

  Gamli veit nú ýmislegt eða þannig eða eitthvað…æi halltu kjafti vinnum bara þennan leik fyrir Sigkarl……..fíla karlinn…..

  6
 7. Vil ekki sjá það að þeir setji mark á okkur vill fá enn eitt persónulegt met hjá klúbbnum með því að halda hreinu og því vil ég að þetta fari 0 – 2. Þetta er að sjálfsögðu helvítis frekja í manni en það er fyrir öllu að þetta fari vel.

  YNWA.

  4
 8. Í denn þegar heimsóknir tíðkuðust fólks á milli þá var móðir mín alltaf að tögglast á ,,Jónas hagaðu þér nú vel,, enga vitleysu, ok mútta. Trúið mér það gekk ekki eftir, þannig verður leikurinn á eftir, enda engin mútta að segja strákunum okkar að vera kurteisir, þeir eiga að vera eins ókurteisir sem hugsast getur.

  YNWA

  1
 9. Komiði sæl
  Undirritaður er í vandræðum vegna handboltans á sama tíma og Lfc er að spila.
  Án þess að fara of mikið inn í mínar flækjur þá vantar mig goðan link.
  Veit einhver hvort mbl er með leikinn beint í streymi eða hvar upplýsingar um það er að finna?
  Ynwa

Klopp vs Guardiola

Liðið gegn Tottenham