Klopp vs Guardiola

Ótrúlegur munur á leikmannamarkaðnum

Pep Guardiola hafði orð á því í sumar að Man City liðið hans fengi ekki þá virðingu sem það ætti skilið fyrir að vinna alla bikarana sem voru í boði á Englandi á síðasta tímabili. Skiljanlegt sjónarmið að mörgu leiti enda eitt besta tímabil félagsliðs á Englandi en fókusinn var þrátt fyrir það miklu meiri á Liverpool. Bæði vegna rosalegrar atlögu að titlinum sem var spennandi fram að síðasta leik og auðvitað vegna afreka Liverpool í Meistaradeildinni.

Það er ekkert rosalega hressandi þegar liðið sem vann deildina með 100 stigum vinnur hana aftur árið eftir með 98 stigum og tekur báða hina bikarana líka, sérstaklega ekki í ljósi þess hvernig þeir fóru að því. Þar liggur stóra ástæðan fyrir því að Man City og upp að vissu marki Guardiola fá ekki það hrós eða virðingu sem þeir telja sig eiga skilið. Það er erfitt að hrífast með vægast sagt vafasömu Olíuríki sem dælir sjóðum ríkisins í rekstur Man City og beygir og brýtur þær reglur sem þarf til að koma liðinu í fremstu röð. Þjálfarar, leikmenn og starfslið félagsins er vissulega meira og minna í heimsklassa og að ná virðingaverðum árangri, enda einmitt það sem Abu Dhabi var að kaupa.

Guardiola er klárlega einn allra besti knattspyrnustjóri í heiminum, þess vegna er hann einmitt hjá Man City núna. Abu Dhabi meira að segja fékk til sín mennina sem voru á bak við tjöldin hjá Barcelona þegar hann var þar. Það er samt erfitt að meta að fullu hversu góður stjóri Guardiola er vegna þess að hann hefur alltaf stjórnað liðum með stjarnfræðilegt forskot á helstu keppinauta heimafyrir. Barcelona var vissulega í samkeppni við svipað dýrt og gott Real Madríd lið en hann tók við liði með Messi, Initesta og Xavi svo fáeinir séu nefndir. Geggjað lið og Guardiola á heilmikið í því og hjálpaði þessum mönnum að verða eins góðir og þeir urðu.

Hjá Bayern tók hann við liði sem var búið að kaupa alla bestu leikmenn keppinautana heimafyrir. Hann tapaði samt 0-5 samanlagt fyrir Real Madríd í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á fyrsta tímabili. Árið eftir á sama stigi keppninnar vann Barcelona, hans gamla lið fyrri leikinn 3-0 án þess að Bayern næði skoti á markið og einvígið búið. Síðasta árið hans í Þýskalandi tapaði Bayern fyrir þriðja spænska liðinu í undanúrslitum, Athletico Madríd.

Hann hefur á ellefu árum aðeins upplifað það tvisvar sem stjóri að hans lið vinni ekki deildina, unnið átta en eitt tímabilið var hann í fríi frá þjálfun. Þrátt fyrir allt þetta er hann ekki besti knattspyrnustjóri í heimi að mínu mati. Hann ennþá frekar en Jose Mourinho á alveg eftir að sanna sig með liði sem nær árangri umfram væntingar. Sigur í öllum leikjum (bókstaflega) er á pari við væntinar hjá Man City. Forskotið sem Man City hefur á leikmannamarkaðnum umfram Liverpool er svo galið að það er varla hægt að bera liðin saman, gerum það samt.

Leikmannakaup Man City og Liverpool

Guardiola tók við Man City árið 2016 í kjölfar þess að Leicester City vann deildina en Man City hafði þá ekki unnið Úrvalsdeildina tvö tímabil í röð. Þegar Chelsea vann 2015 endaði City með 79 stig. Leicester árið var City með 66 stig sem er magnað fyrir þann mannskap sem þeir voru með og £152m leikmannakaup fyrir tímabilið.

Guardiola kom inn en náði ekki að breyta gengi liðsins mikið á fyrsta tímabili þrátt fyrir £168m leikmannakaup og enga leikmannasölu, liðið endaði í þriðja sæti með 78 stig, tveimur meira en Liverpool í 4.sæti. Jurgen Klopp var þarna búinn að stýra liði Liverpool síðan í október 2015 en ekki búinn að kaupa neina leikmenn ennþá. Þeir byrja því að byggja sín lið upp í sama glugga sumarið 2016 en alls ekki frá sama byrjunarreit.

Hópurinn sem Guardiola tók við sumarið 2016 kostaði £438.6m. Þ.e. samanlagt kaupverð hópsins árin áður en Guardiola tók við liðinu. Kaupverð liðsins sem Jurgen Klopp tók við var £247,1m. Rúmlega £190m munur.  Síðan þá hafa bæði félög átt í miklum viðskiptum, bæði kaup og sölur á leikmönnum.

Guardiola er búinn að kaupa leikmenn fyrir samtals £659,4m og selja á móti fyrir £165,8m. Nettó hefur Man City undir stjórn Guardiola því eytt £493,6m í leikmenn umfram sölu á leikmönnum til að Guardiola geti keppt á jafnréttisgrundvelli við Klopp. Þetta er að meðaltali £164,8m á hverju tímabili á móti £41,4m sölu eða 123,4m að meðaltali í nettó eyðslu á tímabili. Hvernig þessar fjárhæðir ganga upp innan FFP væri mjög fróðlegt að heyra því þetta er fyrir utan launakostnað.

Frá þeim tíma er Jurgen Klopp tók við Liverpool hefur félagið keypt leikmenn fyrir £393,4m sem er ekki nema £266m minna en Man City er búið að kaupa undir stjórn Guardiola, £66,5m að meðaltali á leikmannaglugga. Forskot sem Guardiola veitir ekkert af en segir bara hálfa söguna.

Liverpool er á sama tíma búið að selja leikmenn fyrir £323,9m sem er rétt tæplega helmingi meira en Man City. Stærsti munurinn er Coutinho sem Liverpool seldi fyrir £142m en Guardiola hefur aldrei nokkurntíma þurft að selja risaleikmann gegn sínum vilja líkt og Liverpool gerði á miðju tímabili í tilviki Coutinho. City liðið var fyrir með t.d. Sterling, annan lykilleikmann sem Liverpool hefur selt í tíð FSG sem telur ekki í þessari jöfnu.

Þannig að þessi fjögur tímabil sem Guardiola hefur verið stjóri Man City hefur félagið keypt leikmenn fyrir £266m meira, selt fyrir £158m minna sem gerir £424m meira nettó eyðsla í leikmenn. Hann fær £106m í forskot á hverju tímabili og tók við liði sem kostaði £190m meira.

Nettó eyðsla Man City í tíð Guardiola er £123m í hverjum glugga á á meðan Klopp hefur samtals þessi fjögur tímabil eytt £69,5m nettó. Liverpool er búið að eyða 56% í leikmannakaup af þeirri fjárhæð sem City er að eyða að meðaltali.

Eruð þið líka farin að horfa á afrek Klopp vs Guardiola í aðeins öðru ljósi?

Klopp fékk næstum tímabil í forskot

Jurgen Klopp tók við eftir að glugganum lokaði 2015 þannig að hann ber ekki ábyrgð á leikmannakaupum Liverpool það sumar og satt að segja er hann ekki sjálfur að finna réttu leikmennina til Liverpool, ekki frekar en Guardiola hjá Man City. En förum samt einu ári aftar til að skoða munin á kaupum og sölum liðanna frá tímabilinu sem Klopp tók við.

Þetta er sumarið þar sem Liverpool þurfti að fylla skarð Gerrard, Sterling og Johnson svo dæmi sé tekið sem og Suarez sem mistókst fullkomlega að fylla árið áður. Man City eyddi £152m í leikmenn þetta sumar, seldu fyrir £78m. Liverpool keyptu fyrir £82m og seldu fyrir £54,6m,


Man City liðið 2015 vs 2019

Guardiola tók við Man City liði sem hafði ekki unnið deildina tvö tímabil í röð og bætti gengi liðsins lítillega með £168,9m glugganum sumarið 2016. Hinsvegar hrökk liðið vel í gang eftir gluggann 2017 þar sem hann fékk litlar £272,2m til viðbótar í leikmannakaup. Það var hundrað stiga tímabilið.

Ederson, Bernardo Silva, Kyle Walker, Danilo, Benjamin Mendy og Aymeric Laporte komu allir í sama glugganum. Varnarlína uppá £215m í einum glugga! Samt eru þeir að grenja úr sér augun yfir meiðslum Laporte í nokkra mánuði núna en engin gagnrýnir hversu léleg breiddin er m.v. fjárútlát.

Leikmannasölur á móti voru £94,7m og bar þar hæst líklega Jadon Sancho sem var seldur á £8m. Hann er líklega verðmætastur af þeim öllum í dag

Svona var hópurinn sem Guardiola tók við árið 2015 vs liðið núna

Markmannsstaðan er miklu betur mönnuð í Ederson en kaupverð markmanna City samanlagt er ekki langt frá því sem Alisson og Adrian kostuðu Liverpool.

Miðvarðastaðan er ótrúlega vængbrotin hjá City m.v. kaupverð leikmanna í þeirri stöðu í tíð Guardiola og eins áður en hann tók við. City hefur eytt mun meira í miðverði í tíð Guardiola en Liverpool sama hvað þeir vilja mikið tala um kaupverðið á Van Dijk.

City er búið að kaupa bakverði fyrir samtals £188,9m síðan Guardiola tók við og samt vilja þeir styrkja þessa stöðu næsta sumar og hafa verið að nota miðjumenn þarna. Klopp hefur á sama tíma búið til besta bakvarðapar í heimi fyrir samtals andvirði Kevin Stewart. Er þessi rándýra bakvarðasveit City mikið betri en sú sem var fyrir þegar Guardiola tók við?

Aftari hluti miðjunnar er líklega svipað sterkur og hann var. Fernandinho er kominn á aldur eftir að hafa verið einn sá besti í bransanum í þessari stöðu. Rodri er töluvert betri en Fernardo og Gundogan mun sterkari en Delph.

Bernardo Silva fyrir gamlan Yaya Toure er hörku bæting á miðjunni en á móti er David Silva fjórum árum eldri núna. De Bruyne er svo kominn í sitt gamla form. Frábær miðja í stað frábærrar miðju.

Sóknarlínan er eins mun öflugri, fjölbreyttari og yngri núna en hún var 2015. Góð kaup í öllum lykilmönnum sem keyptir hafa verið. Eðlilega enda City að meðaltali með 99 stig í deildinni undanfarin tvö tímabil, þetta er sóknarlína upp á rúmlega £200m.

Kaupverð núverandi hóps er £800m eða £361m meira en hópurinn kostaði þegar Guardiola tók við. Þar fyrir utan eru leikmenn að andvirði £36m sem komast ekki í aðalliðshópinn. Samtals hefur Man City í tíð Guardiola keypt leikmenn fyrir £57m sem aldrei hafa verið partur af hópnum.

Liverpool liðið 2015 vs 2019

Jurgen Klopp tók við Liverpool liði sem endaði tímabilið 2014/15 með 6-1 tapi gegn Stoke City eftir 1-3 tap gegn Crystal Palace. Liðið var í 10.sæti eftir 8.umferðir þegar Klopp tók við haustið 2015 með árangur 3-3-2 eða 12 stig af 24 mögulegum. Tímabilið á undan endaði liðið í 6.sæti.

Til þess að eiga einhvern möguleika í þetta Man City lið Guardiola og það fáránlega forskot sem þeir hafa á leikmannamarkaðnum þurfti Liverpool að vera allt að því fullkomið á leikmannamarkaðnum. Þetta er fyrir utan alla samkeppnina frá United, Chelsea, Arsenal og Everton sem öll hafa eytt meira  nettó á leikmannamarkaðnum en Liverpool frá sumrinu 2015.  Eins Tottenham sem var líkt og Liverpool að spila töluvert “yfir getu”.

Kaupverð leikmanna 2015/16 og 2019/20

NASA er ekki einu sinni með tækni til að sýna almennilega þann mun sem er á Alisson og Simon Mignolet. Elítulið geta ekki bætt sig mikið meira í þessari stöðu.

NASA er líka að vinna í módeli til að skýra muninn á Alberto Moreno og Andy Robertson. Hvað þá að skotinn hafi kostað minna!

Það er 20-30 marka munur á Virgil van Dijk með bara einhverjum og öllum öðrum varnarlínum Liverpool á þessum áratug. Hann er ekki síður góð bæting utanvallar ef við berum hann saman við dýrasta miðvörð Liverpool þegar Klopp tók við, Mamadou Sakho.

Matip er miklu betri leikmaður en Skrtel en ekki nærri því jafn áreiðanlegur hvað heilsufar varðar. Lovren 2019 eftir fjögur ár undir stjórn Klopp er svo mun betri leikmaður en Lovren 2015. Joe Gomez 22 ára er einnig mikil bæting frá Joe Gomez 18 ára og Kolo Toure 34 ára.

Fabinho, Wijnaldum og Henderson er líklega vanmetnasta miðja í heiminum í dag. Þeir rótera reyndar mun meira en aðrir í liðinu en þetta er kjölfestan í liði sem hefur tapað einum leik af síðustu 58 leikjum og unnið Meistaradeildina í millitíðinni. Fabinho var sérstaklega púslið sem vantaði en liðið fór líka í úrslit Meistaradeildarinnar árið áður en hann kom.

Naby Keita fyrir Joe Allen á svo eftir að gera þennan samanburð ennþá ótrúlegri áður en þetta tímabil er úti nema hann haldi áfram að vera jafn oft meiddur og Allen var.

Sóknarlína Liverpool er síðan varla samanburðarhæf við það sem Klopp tók við 2015. Firmino var btw varamaður á eftir Benteke, sóknarmanni með ofnæmi fyrir markaskorun. Salah og Mané eru báðir betri en Coutinho en kostuðu samanlagt helmingi minna en fékkst fyrir Coutinho.

Kaupverð núverandi samsetningar af Liverpool liðinu er samtals £488m eða £240,9m meira en liðið sem Klopp tók við. Það er magnað í ljósi þess að nettó eyðsla er að meðaltali £18,5m á þessu tímabili.

Söluverð liðanna sem Guardiola og Klopp tók við 2015

Kaupverð hópsins sem Guardiola tók við var £191m meira en hópurinn sem Klopp tók við hjá Liverpool. En hvert var söluvirði þessara leikmanna og hverjir eru ennþá í þessum liðum?

Af þessum hópi Liverpool sem kostaði £247,1m að sjóða saman er nú þegar búið að selja leikmenn fyrir £282m. Salan á Coutinho er “bara” helmingurinn af þeirri fjárhæð. Skömmu áður en Liverpool seldi Coutinho var félagið búið að selja bæði Suarez og Sterling. Man City hefur aldrei þurft að selja slíkan leikmann gegn sínum vilja. Michael Edwards á skilið fálkaorðina fyrir hinar £140m sem félagið hefur skrapað saman með sölu á leikmönnum sem náðu ekki í gegn hjá Klopp en þjónuðu margir sínu hlutverki í einhvern tíma. Bara þessar £20,5m fyrir markmennina er enn eitt verkefnið fyrir NASA. Samt missti félagið menn eins og Emre Can og Moreno frítt

Þrátt fyrir þessa fjárhæð eru ennþá níu leikmenn á mála hjá Liverpool og virði þeirra er töluvert. Það segir líka sitt um innkaupastefnu FSG að þarna eru bara tveir leikmenn sem létu samninginn renna út því ekki var hægt að losna við þá. Annar þeirra en Toure sem kom frítt og var ekki á löngum samningi og hinn er Daniel Sturridge. Meiðslasaga Clyne og Lallana gera það að verkum að þeir eiga heima í þessum flokki einnig.

Man City hópurinn hinsvegar sem kostaði £438m að setja saman hefur skilað £62,5m í söluvirði. £220m minna en Edwards hefur náð úr þessum hópi Liverpool.

Iheanacho er eina alvöru leikmannasalan sem skilaði góðum hagnaði. City hafa hinsvegar keypt leikmenn undanfarin fjögur ár og selt aftur með góðum árangri samhliða sölu á uppöldum leikmönnum.

Þetta sýnir líka hvað Guardiola tók við þroskuðu liði árið 2016. Hluti af hópnum sem vann fyrstu titla félagsins undir stjórn Abu Dhabi var að komast á aldur og helstu lykilmenn liðsins undanfarin ár voru hjá félaginu áður en Guardiola tók við. Aguero, David Silva, Fernandinho og Otamendi eru allir að komast á aldur og söluvirði þeirra mjög takmarkað í dag. Sterling og De Bruyne voru einnig hjá félaginu áður en Guardiola tók við því.

Það er alls ekki hægt að segja að Man City hafi farið illa með þær fjárhæðir sem þeir hafa sett í liðið, en að vinna deildina á Englandi er engu að síður lágmarkskrafa. Hvað þá bikarkeppnirnar m.v. þá andstæðinga sem City hefur fengið undanfarin ár í þeim keppnum. Þeir fengu einhvernvegin Burton Albion í undanúrslitum deildarbikarsins í fyrra og unnu samanlangt 10-0, vúhú. Þeir fengu Watford í úrslitum bikarsins og unnu 6-0.

Bara þarna er góður partur af þeim litla áhuga sem er á árangri þeirra á síðasta tímabili. Hvernig í veröldinni hefur þetta lið ekki ennþá komist í úrslitaleik Meistaradeildarinnar?

Klopp vs Guardiola í gegnum tíðina. 

Það er erfitt að bera saman svona ólíka stjóra sem hafa verið að gera svona ólíka hluti.

Báðir tóku við uppeldisfélaginu í sínu fyrsta starfi. Klopp tók við Mainz, smáliði sem hafði aldrei komist í efstu deild og átti bókstaflega engan pening. Hann kom þeim ekki bara upp heldur lagði grunn að stöðugu félagi sem er ennþá í efstu deild. Það var ekkert Olíuríki á bak við skjótan uppgang Mainz, það var bókstaflega bara Jurgen Klopp. Guardiola var treyst fyrir Barcelona þrátt fyrir að hafa enga alvöru reynslu sem stjóri, liði sem hafði unnið deildina og meistaradeildina tveimur árum áður. Hann kom með skýra hugmyndafræði og smíðaði eitt besta lið sögunnar á grunni þess liðs í bland við efnilegustu yngriflokka sögunnar (auk auðvitað þeirra leikmanna sem Barca keypti).

Þetta er svipað og við þekkjum úr Football Manager. Það hafa allir sem hafa spilað þann leik tekið við besta liðinu og farið beint í að keppa um alla stóru titlana. Guardiola gerði það og hefur gert það meira og minna allan ferilinn. Eftir einhvern tíma verður þetta þreytt og þá er næsta áskorun að taka við minna liði og reyna byggja það upp. Klopp var meira þar og náði hlutfallslega ekki síðri árangri hjá Mainz en Guardiola hjá Barcelona. Pep var samt auðvitað að spila á allra stærsta sviðinu. Báðir komu með ferskar hugmyndir sem eftir var tekið og hafa breytt fótboltanum töluvert.

Næsta skref hjá Pep var ennþá minni áskorun í þýska boltanum þar sem hann tók við deildar- og evrópumeisturum FC Bayern. Liði sem hefur jafnan bara keypt þá leikmenn sem hafa skarað framúr hjá þeirra helstu andstæðingum. Klopp tók við Dortmund liði sem hafði verið gjaldþrota skömmu áður og byggði upp lið sem vann tvo titla og fór alla leið í úrslit Meistaradeildarinnar án þess að kaupa neinn leikmann sem var þekktur eða talin í heimsklassa áður en hann byrjaði að spila undir stjórn Klopp.

Flestir geta líklega verið sammála að Guardiola og Klopp eru bestu stjórarnir í boltanum í dag og hafa verið allan síðasta áratug. Það er hæpið að halda því fram að þeir hafi verið að keppa á jafnréttisgrundvelli en í Liverpool fékk Klopp í hendurnar alvöru tryllitæki sem þurfti aðeins að laga, mun stærra félag en Man City ef út í það er farið en ekki með olíuveldi á bakvið sig. Hvor þeirra er betri stjóri er smekksatriði og þrætugrunnur með engan endi.

Persónulega held ég að Klopp væri vel í stakk búinn til að gera svipaða hluti hjá Barcelona og Guardiola gerði. Messi, Xavi og Iniesta allir að koma upp í liði undir stjórn Klopp! Hann hefði klárlega getað náð sömu yfirburðum hjá FC Bayern og Pep var með. Hryggsúlan í liði Pep hjá Bayern kom frá Dortmund liði Klopp. Klopp er svo að sýna það hjá Liverpool að hann getur vel staðist það sem Pep er að gera á Englandi þrátt fyrir að taka við ódýrara liði og eyða 86% minna nettó á leikmannamarkaðnum.

Þá erum við ekki farin að bera saman árangur þeirra í Evrópu. Miðað við liðin sem Guardiola og Klopp hafa verið með er með ólíkindum að Guardiola hafi bara einu sinni farið með lið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á þessum áratug á móti þremur leikjum Klopp frá 2013. Klopp hefur verið stjóri liðsins í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í 43% tilvika síðan 2013. Liverpool undir hans stjórn hefur ekki ennþá tapað tveggja leikja einvígi í Evrópu. Það er meira að segja einn Evrópudeildar úrslitaleikur inni í þessari jöfnu þannig að eitt af þessum sjö tímabilum var Klopp ekki með lið í Meistaradeildinni. Hans lið hafa komist í úrslit í 50% tilvika þau ár sem Klopp hefur verið með lið í Meistaradeildinni frá 2013 og hitt árið fór hann í úrslit Evrópudeildarinnar. Magnað á tímum Messi, Ronaldo, PSG og Man City.

Hvað með Guardiola í hlutverki Klopp? Hefði hann náð sama árangri í Mainz eða með sambærilegu spænsku liði? Eða hefði hann tapað glórunni af pirringi? Úr því hann kom Bayern ekki í úrslitaleik Meistaradeildarinnar er ólíklegt að hann hefði gert það hjá Dortmund. Þessu verður aldrei hægt að svara en hann myndi klárlega standa sig vel og snarbæta hvaða lið sem er. Á því er engin vafi.

Eins og staðan er núna er mjög gott að Klopp er stjóri Liverpool.

 

30 Comments

 1. Ég vissu vel að það væri mikill munur á þessum liðum á leikmannamarkaðnum en nettó eyðsla liðanna kom mér samt á óvart. Það er galið að það sé svo mikill munur og magnað að City komist upp með þetta á tímum FFP.

  Leikmannakaup City og að vissu marki leikmannasölur undanfarin ár hafa alveg verið ágæt m.v. eðlilegt árferði, flest stór leikmannakaup ganga upp og nýtast liðinu á meðan það eru alltaf einn og einn sem eru flopp, þeir hafa léttilega efni á því. Munurinn er bara sá að það sem Klopp er að gera með Liverpool er sturlað.

  Ef við tökum launakostnað með í jöfnuna batar þessi samanburður ekkert fyrir City

  Var að vinna með tölur héðan https://www.transferleague.co.uk/liverpool/english-football-teams/liverpool-transfers

  Spurning um að gera aðra færslu næst og bera saman Man Utd og Liverpool í sama tímaramma? 🙂

  41
 2. Skemmtileg grein hjá þér. Eina Villan sem ég sá að Laporte kom í Janúar og fékk hálft tímabil til að aðlagast áður enn þessi monster varnargluggi kom hjá City. Engu að síður sést berlega að á 6 mánuðum kaupa þeir nýtt sett af bakvörðum Hafsent og Markmann og já varabakvörð í þokkabót :O

  Það má líka hrósa Klopp fyrir eitt hann vinnur með leikmenn ég efast um að Robertson eða Trent hefðu fengið sama tækifæri hjá Pep. Leikmenn virðast líka bæta sig hjá Klopp og taka næsta skref í þróun ég er ekki að segja að þeir geri það ekki hjá Pep enn Klopp hefur vinninginn þar í gegnum öll þessi ár. Ég man þegar Pep tók við Barcelona þá tók hann Sergio Busquets upp í aðalliðið og gott ef Pedro fylgdi líka upp. Ég veit ekki hvort hann tók einhvern upp í Bayern og City Hafa Foden sem fær ekki marga sénsa. Jordan Sancho fer frá City til Dortmund var það kannski vegna þess að Pep Gefur ekki academy strákunum tækifæri sem Klopp hefur reglulega gert hjá öllum sínum klúbbum?

  9
 3. Sælir félagar

  Takk fyrir frábæran samanburð á þessum tveimur stjórum. Frá mínum bæjardyrum séð hefur Klopp vinninginn á öllum póstum, hvernig sem á það er litið og þetta er algerlega hlutlaust mat.

  Það er nú þannig

  YNWA

  15
  • Já, Klopp myndi ég alltaf velja fram yfir Pep. Algjörlega ískalt mat hjá mér líka 😉

   2
 4. Takk fyrir þetta flotta yfirlit. Pep er ágætis stjóri en langt frá því að vera sá besti. Hann hefur aldrei stýrt öðrum liðum en þeim sem eru annaðhvort með alla bestu leikmennina eða alla peningana. Ég hef ekkert á móti Pep en nánast hver sem er í stjórasæti hefði unnið titla með superliði Barcelona. Gaman væri að sjá hann stýra miðlungsliði og reyna að gera það betra eða koma því í fremstu röð. Því finnst mér það vera smá óvirðing gagnvart Ferguson, Wenger og jafnvel Klopp að telja Pep betri en þeir. Ferguson hafði þann hæfileika að vinna titla með lið sem aðrir hefðu varla talið nothæft í toppbaráttuna.
  Samanburður á fjárútlátum liðanna er athyglisverður. Stjórnendur Liverpool leggja mikið upp úr gæðakaupum og að leikmenn falli inn í félagið og að hugmyndafræði Klopp. Að mynda heild. Veit ekki með MC þar sem virðast vera til allir peningar í heimi en hvað með sálina og samstöðuna bæði meðal leikmanna og stuðningsmanna. Þar held ég að Liverpool standi framar, jafnvel miklu framar . Lið MC er vissulega frábært, með marga afburða leikmenn og td besta miðjumanna heims í sinni stöðu. En hve margir ungkálfar fá séns að spila?

  9
  • Alls ekki sammála því að Pep sé langt frá því að vera einn af þeim bestu, finnst það alveg óumdeilt og þessvegna er hann bæði að stýra elítu liðunum og bæta þau lið töluvert. Hann fær samt rosalegt forskot.

   Finnst þetta bara sýna betur hversu fáránlega gott starf er unnið hjá Liverpool núna, alls ekki bara af Klopp þó hann sé mikilvægasti hlekkurinn heldur á öllum sviðum.

   8
 5. Einar, ég sagði reyndar ekki að hann væri langt frá því að vera einn af þeim bestu. Ég skrifaði að hann væri langt frá því að vera sá besti. Á því er mikill munur. Hann getur verið á topp 10 og er því hópi þeirra bestu án þess að vera sá besti sem ég tel hann alls ekki vera. Stjóri sem fær allt upp í hendurnar, peninga, bestu leikmennina og fullkomna umgjörð hlýtur að geta gert eitthvað úr því.

  6
 6. Þeir eru ólíkir Pep og Klopp. Til að spila þann fótbolta sem Guardiola vill spila þarftu rosaleg gæði og Guardiola er búinn að koma sér þannig fyrir að hann klúbbar eins og Barcelona, Juve og PSG myndu reka hvern sem er til að geta ráðið hann. Ég hef trú á að Guardiola rói á önnur mið í sumar eða taki sér frí. Það sést langar leiðir að Klopp og LFC eru að valda honum andlegum erfiðleikum og mögulega búnir að keyra hann upp í nokkrar maníur. Guardiola hefur sagt að hann vilji ekki dvelja lengi á hverjum stað.

  Þessir þjálfarar eiga það þó sameiginlegt að þeir bæta nánast alla leikmenn sem þeir þjálfa. Talandi um eyðslu City þá mega þeir eiga það að þrátt fyrir mikla eyðslu og talsvert fleiri flopp á markaðnum en LFC þá virðast þeir vinna eftir kerfi og kaupa leikmenn áður en þeir ná að toppa. T.d. er áhugavert að bera saman kaup United og City þar sem United virðist ekki vinna eftir neinu kerfi.

  Ég er ekki viss um hversu mikið það hefði hjálpað Klopp hefði hann haft ótæmandi vasa hjá LFC. Milner talar t.d. um það í bókinni sinni hversu samstilltur og hungraður í árangur hópurinn er. Hann talar líka um að Klopp hafi aukið æfingaálagið til muna eftir að hann tók við. Spilastíll Klopp krefst gríðarlegs úthalds og allir muna eftir fyrsta tímabili Klopps þegar liðið var orðið útkeyrt á 70. mínútu og misstu góð forskot í jafntefli og tap. Nú er staðan önnur og fyrir utan trúnna er aukið úthald að skila okkur mörkum í lok leikja og það virðist ekki gerast lengur að liðið sé að fá á sig mark eftir 80. mínútu.

  ´

  10
 7. Takk fyrir skemmtilega samantekt Einar….Mane kosinn bestur i Afríku sem var augljóst þar sem hann er að mínu mati bestur í fótboltaheiminum strákur sem er hógværðin uppmáluð forðast glans og glamúr skorar mörk úr öllum regnbogans litum verst þegar það þarf betur en allir aðrir sóknarmenn sem eg hef séð svo fátt eitt sé talið….

  18
 8. Þetta eru ótrúlegar tölur sem hafa farið í leikmannakaup hjá City, og mjög mörg af þeirra kaupum voru gerð áður en Neymar salan gekk í gegn og verð á leikmannamarkaðinum fóru upp úr öllu veldi.

  Takk fyrir áhugaverða grein.

  4
 9. Takk fyrir Einar og bara endilega koma með samanburð við ManU líka ég held að stóri munurinn á þeim samanburði við samanburðinn á Pep og ManC er kaup og árangur en ManU er bara kaup og lítill sem enginn árangur Það sýnir manni hversu geggjaður þessi klúbbur okkar er orðinn og kominn langt fram úr öðrum klúbbum á svo mörgum sviðum að maður er hættur að stressa sig yfir leikmannaglugganum og væri nokkuð sama þó hann myndi loka á morgun. Hversu oft t.d. grenjaði maður yfir vinstri bakvarðarstöðunni og datt í þunglindi þegar glugginn lokaðist og við fórum inn í tímabilið með Moreno einan í þá stöðu. Það er svo gjörsamlega búið að breyta þessum klúbb til betri vega að manni skortir kvörtunarefnin, þau eru bara ekki fyrir hendi lengur.

  YNWA

  5
  • Svona, svona, Henderson sendir nú enn einn og einn bolta til baka 😉

   9
   • Ekki eitt styggðaryrði um Henderson!

    Hann er maðurinn sem dansar með dollurnar!

    17
 10. Herra minn heitasti hattur!

  Þessi grein er algjör snilld. Takk fyrir mig.

  6
 11. Virkilega gaman að lesa þessa grein. Vegferð þessara tveggja stjóra er svo ólík að það má líkja því við að annar hafi fæðst með silfurskeið í munni, meðan hinn komið sér upp úr sárustu fátækt. En hvor um sig eru frábærir stjórar, þó ég þakki öllu sem hægt er að þakka fyrir að Klopp sé okkar stjóri.

  YNWA

  5
 12. Ég er á því að Klopp sé hinn fullkomni stjóri fyrir Liverpool en líka að Pep er það sama fyrir Man City.

  Klopp fangar ástríðuna og sögu Liverpool. Lætur liðið spila fótbolta þar sem gæði í bland við samheldni og baráttu haldast í hendur. Hann nær stuðningsmönnum á sitt band og má segja að hann nær að búa til svona verkamanns gæða lið.

  Pep lætur lið sín spila flottan fótbolta þar sem hægt er að kaupa öll þau gæði sem honum vantar í liðið. Hann er mjög ástríðufullur en áherslan á að yfirspila andstæðinginn er ofarlega í huga og hjá City þá fær hann tækifæri til að gera það með góðum árangri.

  4
 13. Talandi um leikmann sem tengist Gardiola og Man City. Leroy Sané er laus undan samningi við Man City 2021. Gæti verið að Liverpool sé að athuga þenn möguleika að fá hann yfir til okkar. ? Það væri allavega í anda Liverpool að fá hann á ekki neitt og miðað við það sem ég hef séð af honum, þá væri það leikmaður sem ætti erindi í byrjunarliðið. Passar mjög vel í hugmyndafræði Klopps. Hraður, vinnusamur og teknískur.

  Ég er nokkuð viss um að það eru umræður á bak við tjöldin varðandi leikmannamál og ég held að ástæða fyrir rólegheitum á markaðnum í sumar er vegna þess að Klopp og Edward vita vel af öllum þeim möguleikum sem eru í boði og hvenær þeir geta fengið bestu bitana á hagstæðu verði.

  2
 14. Það að eyða miklum peningum í leikmenn er ekki alltaf ávísun á árangur. Besta dæmið um það er PSG. Ég held að besti mælikvarðinn á hversu góður stjórinn er, það er hversu mikið liðið bætir sig og leikmenn innan liðsins og Þar ber Klopp höfuð og herðar yfir Gardiola og aðra stjóra í heiminum

  9
  • Algjörlega sammála og á þessu leveli er ennþá dýrara að kaupa árangur þó ennþá vinni ríkustu liðin jafnan sína deild og Meistaradeildina.

   PSG hefur verið mjög mistækt í Evrópu en á móti er mótið handónýtt í Frakklandi með Katar í deildinni.

   2
   • Það er ekkert skrýið að PSG er ekki að ná árangri í meistardeildinni. Liðið þarf varla að mæta til leiks í frönsku og vinnur nánast undantekningarlaust. Ef við horfum bara á síðustu ár þá hafa þeir tapað einvígum sem þeir voru búnir að vinna fyrri leikinn enn tapa á heimavell eða tapa jafnvel stórt fyrir Barce! Ætli ástæðan fyrir því sé hreinlega ekki bara þeir eru óvanir því að mæta erfiðum liðum spila erfiða leiki reglulega yfir árið?

    Við horfum á Liverpool og við getum gefið okkur það að á hverju tímabili erum við að spila 12 virkilega tense úrvalsdeildarleiki. Spænska deildinn töluvert öflugri og Real og Barca fá erfiða leiki inn á milli. Síðasta liðið sem gerði gott mót í frakklandi Monaco var gjörsamlega tætt eftir sigurinn Bernardo silva og Mendy til City Mappe PSG Fabinho LIverpool Lemar AMadrid og Bakayoko Chelshea! Sem sagt eina liðið sem hefur tekið PSG Alla leið og unnið var slátrað í dýrri útsölu!

    1
 15. Sæl og blessuð.

  Klopp ber ekki bara besti knattspyrnustjórinn – hann er fremstur í flokki leiðtoga í heiminum, hvort heldur er á sviði þjóðmála eða í fyrirtækjarekstri. Þetta segi ég grínlaust – ég man a.m.k ekki eftir neinum í fljótu bragði sem hefur heillað fólk jafn mikið, vinnur af slíkri ástríðu og nær um leið þeim ótrúlega árangri sem hann hefur gert. Hann er auðvitað uppi á þeim tíma þegar ördeyða ríkir í heimi leiðtoga, með Trump, Boris, Erdogan og hvað þeir heita allir hugsjónalausu lýðskrumararnir. Sú staðreynd gerir það þá enn brýnna að fylgjast með því hvernig hann vinnur og reyna að læra af.

  8
  • Er algerlega ósammála þér Lúðvík, finnst ekki við hæfi að blanda saman leiðtoga í fótbolta og einhverjum misvitrum pólitíkusum, sama hvernig á það er litið. Þætti gaman að sjá andlitið á Klopparanum okkar væri borin upp spurning í þessa veru. Nei höldum okkur við fótboltann.

   YNWA

   1
   • Hann er samt að segja að Klopp væri einmitt frábær leiðtogi utan fótboltans líka, miklu betri en núverandi leiðtogar flest allir ef ekki bókstaflega allir. Ekkert að því að velta þessari pælinu upp.

    Er t.d. einhver þjálfari í hópíþrótt á hæsta leveli að vinna betra starf?

    6
   • Út af fyrir sig á stundu milli stríða, þá er ekkert að því að velta svona pælingu upp, þó hún sé ansi langsótt, eiginlega bara gaman. Skal fúslega viðurkenna að ég myndi sannarlega vilja Klopp sem leiðtoga allra þeirra sem Lúðvík nefndi, og flestra annara leiðtoga þ.á.m. leiðtoga á Íslandi. Er sammála, það er leitun að þjálfara í hópíþrótt á hæðsta leveli sem vinnur betra starf, enda er Klopp einstakur.

    YNWA

    4
  • Er thad ekki thad naesta ad thu kallir Klopp Pirata? Thvilkt rugl ad blanda politik i thetta.

   1
 16. Búið að kassa inn 3,2 millur punda fyrir Allen. Árið byrjar í stórgróða.

  2
 17. Hlakka til þegar Pep fer í sumar. Hann er orðinn þreyttur og pirraður og vill annað.

  Annars er það orðið ljóst að við verðum að spila með B eða C-liðið í fjórðu umferð FA-bikarkeppninnar þar sem leiknum er troðið inn þann 26.jan. Við eigum leik á móti úlfunum 23.jan og svo á móti WH þann 29.jan.

  Vona innilega að Klopp hvíli alla burðarstólpana okkar í þessum bikarleik!

  1

One Ping

 1. Pingback:

Gullkastið – VARúlfar, Van Wilder og VaraVaraliðið

Heimsókn til Spurs! Upphitun