Napoli- Dökka hliðin

Napoli var síðasta liðið sem stuðningsmenn Liverpool vildu fá þegar dregið í riðla í Meistaradeildinni. Ef að það er ítalskt lið í pottinum er það alltaf neðst á óskalistanum, sérstaklega hjá þeim hópi stuðningsmanna sem ferðast á útileikina. Það er ekki af ástæðulausu.

Auðvitað hjálpar ekki að Liverpool var einnig með Napoli í riðli á síðasta tímabili en aðalástæðan er vegna þess að það er almennt alls ekkert spennandi að fara til Napoli sem stuðningsmaður andstæðinganna og alveg sérstaklega ekki fyrir stuðningsmenn enskra liða.

Napoli er þannig séð ekkert sérstaklega hættulegri borg heima að sækja sem stuðningsmaður Liverpool en aðrar ítalskar borgir, Liverpool á mun lengri og alvarlegri sögu með öðrum ítölskum liðum en í hvert einasta skipti sem ensk lið mæta ítölum furðar maður sig á því afhverju þau fá ennþá að vera með.

Þetta er í þriðja skipti sem þessi lið mætast í Evrópu á þessum áratug og hingað til hefur ítarleg umfjöllun um bæði liðið og borgina verið á jákvæðum nótum, Pizza, Maradona, Gjaldþrot, endurkoma og hinn skrautlegi Aurelio de Laurentiis eigandi félagsins. Núna er kannski kominn tími til að kynna sér dökku hliðina á Napoli og það sem borgin er líklega þekktust fyrir.

Camorra – ein hættulegustu glæpasamtök í heimi

Burt séð frá fótbolta er Napoli ein af hættulegri borgum Evrópu og Campania héraðið heimavöllur einnar hættulegustu glæpaklíku álfunnar.

Mafían er helst tengd við eyjuna Sikiley en í Campania héraðinu á Suður-Ítalíu varð til önnur tegund af Mafíu sem er jafnvel hættulegri, þrautseigari og sterkari en sú ímynd sem við höfum af Mafíunni. Napoli er höfuðstaðurinn í Campania.

Camorra á rætur að rekja til 18.aldar og eru ein elstu og stærstu glæpasamtök heims. Camorra er ekki beint Mafía heldur meira laustengt net minni gengja sem eiga ákveðin svæði og vinna nokkuð óháð hvort öðru. Stjórnunarstrúktúrinn hjá Mafíunni er meira pýramída fyrirkomulag eins og við þekkjum úr Hollywood. Innbyrðisátök eru því miklu líklegri innan Camorra þegar ein klíkan (eða fjölskyldan) reynir að stækka sitt umráðasvæði eða koma sér inn á markað sem önnur klíkja stjórnar, á móti er erfitt að drepa samtökin niður því ef einn foringi fellur er allt eins líklegt að í staðin komi fleiri en eitt gengi með nýja forystumenn.

Ein af meginreglum Camorra er að starfa undir yfirborðinu og er stórhættulegt að tjá sig mikið opinberlega um starfsemina. Því kemur ekki á óvart að uppruni samtakanna sé svolítið á reiki en fyrstu opinberu heimildirnar fyrir notkun á orðinu Camorra ná aftur til ársins 1735 þegar Napolí var ennþá konungsríki. M.ö.o. er saga Camorra lengri en saga Napoli sem partur af Ítalíu eins og við þekkjum landið í dag.  Orðið er talið vera blanda af capo (yfirmaður) og morra sem var vinsæll veðmálaleikur á Campania svæðinu.
Þegar yfirvöld í bönnuðu þennan vinsæla leik sáu menn tækifæri sem fólst í því að bjóða upp á vernd frá löggunni sem þróaðist út í það að þeir sem vildu spila og veðja á Morra leikinn borguðu millilið sem sá um lögguna (t.d. með mútum og ógnunum). Starfsemi sem hratt vatt upp á sig og varð grunnurinn að samtökum sem kennd voru við leikinn.

Camorra er samt ekki orð sem meðlimirnir eða íbúar Napoli nota almennt, þar er jafnan talað um O´Sistema (kerfið). Fyrstu opinberu heimildirnar fyrir Camorra samtökunum eru frá 1820 er lögreglan fann heimildir fyrir stöðugum og vel skipulögðum undirheimasamtökum sem teygði anga sína um allt samfélagið.

Camorra náði á stuttum tíma völdum á götum Napoli og besta dæmið um völd þeirra voru í uppreisn sem gerð var gegn Konungsveldi Napoli árið 1848. Pólitískir uppreisnarmenn þurftu stuðning almennings til að steypa konungi og leituðu til Camorra og borguðu fyrir þeirra hjálp. Camorra stjórnuðu í raun fátækari hverfum borgarinnar og gera enn. Eftir þessa uppreisn fengu meðlimir Camorra jafnvel sæti í æðstu stöðum innan stjórnkerfisins.

Það hefur lengi verið betra að hafa Camorra með sér vilji maður ná til valda í Napolí. Vanity Fair vitnaði eitt sinn í dómara í Napoli sem orðaði þetta þannig að fyrir stjórnmálaleiðtoga væri einfaldara og markvissara að tala við Camorra yfirmann heldur en að reyna ná til 100.000 manns til að koma sínum skilaboðum áleiðis.

Viðurnefni Ciccio Cappuccio sem var æðsti maður Camorra frá 1869-1892 þegar hann dó var „Konungur Napolí“ en samtökin voru þá komin með mun meiri völd en þau höfðu áður en þeir stjórnuðu borginni með fjárkúgunum, ógnunum og blóðsúthellingum.

Stjórnvöld á Ítalíu hafa í meira en heila öld reynt að klekkja á samtökum eins og Camorra og hefur stundum orðið ágengt í þeirri baráttu. Margir meðlimir Camorra fluttu til Bandaríkjanna í upphafi 20.aldarinnar (og tóku upp svipaða starfsemi þar) og árið 1912 voru 27 meðlimir samtakanna dæmdir í samtals 354 ára fangelsi. Mögulega gerðu þessar aðgerðir aðeins illt verra því eins og einn gamall Camorra yfirmaður orðaði þetta:

“Campania can get worse because you could cut into a Camorra group, but another ten could emerge from it.”

Napoli þekkir í raun ekki annað en að lifa með Camorra og áhrif þeirra á samfélagið í gegnum tíðina eru gríðarleg og þó einhverjum árangri hafi verið náð í herör stjórnvalda gegn þeim stjórna þeir ennþá götum borgarinnar og stunda víðtæka starfsemi, alls ekkert bara í Napoli.

Camorra er með langt minni og dæmi um það er kaupsýslumaðurinn Domenico Noviello sem bar vitni árið 2001 gegn meðlimi Camorra klíku sem var að beita hann fjárkúgunum. Hann fékk lögregluvernd í kjölfarið allt til ársins 2008 er hann óskaði sjálfur ekki lengur eftir vernd. Noviello var myrtur viku seinna. Helvíti gáfuleg ákvörðun hjá honum blessuðum.

Fyrstu opinberu gögnin um Camorra Mafíun frá 1820 sýndu að það var einhver yfirstjórn á samtökunum þó strúktúrinn væri meira láréttur öfugt við kollenga þeirra á Sikiley. Innbyrgðisátök í undirheimunum Napoli hafa engu að síður verið tíð og sum þeirra gríðarlega blóðug.

Paulo Di Lauro

Grundvallaratriði samtaka eins og Camorra er að starfa undir yfirborðinu, sérstaklega núna þegar þeir eru undir mjög ströngu eftirliti stjórnvalda. Innbyrgðisátök og blóðsúthellingar eru slæm fyrir viðskiptin og glæpastarfsemin gengur best þegar “friður” ríkir í borginni.

Þegar eiturlyf fóru að verða stærri partur af starfsemi Camorra á áttunda og níunda áratugnum reis maður að nafni Paulo Di Lauro til valda í undirheimum Napoli, fyrst sem bókari hjá æðstu samtökum borgarinnar. Hann var rólegur og yfirvegaður með afburða þekkingu á viðskiptum undirheimanna en hélt sig alla tíð í skugganum, La Monica þáverandi yfirmaður samtakanna og hans nánasti samverkamaður var andstaðan. Samvinna þeirra endaði með blóðugu uppgjöri árið 1982 er Di Lauro og hans menn myrtu La Monica sem var eins og Di Lauro orðaði það orðin nógu ríkur og ofbeldishneigð hans og grimmd höfðu slæm áhrif á viðskiptin. Di Lauro tók í kjölfarið völdin sjálfur án þess að nokkur vissi það í raun utan “kerfisins”. Sagan segir að þegar La Monica var myrtur hafi Di Lauro skotið úr byssu í síðasta skipti, sko persónulega, hann lét aðra um það þegar þurfti.

Di Lauro vann algjörlega í skugganum og varð fljótlega hálfgerð goðsögn innan kerfisins, lögreglan vissi hinsvegar ekki einu sinni af tilvist hans svo árum skipti og hvað þá að hann væri í raun kóngurinn í Napoli. Besta staðfestingin á því er þegar hann mætti persónulega á fund með helstu Mafíu foringjum borgarinnar og lagði línurnar fyrir framtíðina og samvinnu gengjanna. Lögreglan komast á snoðir um þennan fund og handtók m.a. Di Lauro án þess að vita hver hann var í raun og veru og slepptu honum eftir yfirheyrslur skömmu seinna. Di Lauro mætti aldrei aftur sjálfur á slíkan fund.

Tíu árum eftir að hann tók við völdum var Di Lauro einn ríkasti maður Ítalíu en á sama tíma nánast algjörlega óþekktur utan undirheimanna. Camorra samanstóð af um 20 stærri gengjum sem hvert um sig réði yfir sínum svæðum og voru nokkuð frjáls þó allir virtu Di Lauro sem toppinn.

Grein Vanity Fair um Di Lauro frá 2012 náði vel utan um völd hans í samfélaginu

Within the community he was known mythically as “The Man.” Within his own organization he was known as “Pasquale.” He was the phantom, the unseen power who had transformed the northern districts of Naples into Europe’s greatest drug emporium, but also employed many thousands of people and had effectively banished street crime from Secondigliano and Scampia. By the mid-1990s, rape, robbery, assault, and theft had all but disappeared. You could walk anywhere you wanted at any hour. If you had a car or motor scooter, you could park it anywhere without worry, except perhaps for the radio (because, after all, this was Italy).

When the important newspaper Il Mattino published an article about illicit gambling in the districts, Di Lauro ordered that the gambling stop—and it did, permanently, within 48 hours. When he decided that the traditional business of extorting protection money from local shopkeepers was causing more trouble than it was worth, he ordered not only that it be halted but that his men start paying full prices, and even thank the shopkeepers for their services. It was strange, but they did. For this and all the favors he gave, he was widely loved—and still is. People say that the difference between Di Lauro and a saint was that Di Lauro delivered the miracles faster.

Lögreglan komst fyrst að því að Di Lauro og hans hans gengi væru yfirhöfuð til er einn af fyrrum meðlimum Camorra var handtekinn og fór að kjafta frá um samtökin. Di Lauro dró sig fyrir vikið ennfrekar í hlé og fór varla úr húsi. Lögreglan vissu engu að síður ekki einu sinni hans raunverulega nafn fyrr en mörgum árum seinna enda jafnan notað viðurnefni þegar rætt var um hann innan kerfisins.

Það er í raun ótrúlegt hvernig lögreglan komst á snoðir um hver hinn raunverulegi Di Lauro er og hvaða stöðu hann gengdi. Kennari 10 ára sonar hans var að skamma frænda Di Lauro í skólanum sem varð til þess að sonur Di Lauro öskraði á kennarann og hlaut að launum kinnhest. Di Lauro skammaði son sinn fyrir að vera með stæla í skólanum en menn Di Lauro litu á þetta sem gríðarlega móðgun hjá kennaranum og gengu í skrokk á honum fyrir virðingarleysi í garð fjölskyldu æðsta Mafíuforingja Napoli. Þetta var alls ekki að skipun Di Lauro sem ætlaði ekkert að aðhafast frekar í málinu.

Kennarinn var ekki skarpari sem svo að hann klagaði árásins til skólayfirvalda (pottþétt aðkomumaður) og var Di Lauro boðaður í yfirheyrslu hjá lögreglunni þar sem útskýrði að hann væri verslunarrekandi og vissi ekkert um þetta mál. Lögreglan gat ekki aðhafst frekar og sleppti honum en þó ekki áður en þeir höfðu tekið myndir af Di Lauro venju samkvæmt.

Frá sjónarhóli lögreglunnar var ekkert óvenjulegt við yfirheyrslu Di Lauro fyrir utan að allar símalínurnar sem lögreglan var að hlera til að klekkja á mafíunni voru rauðglóandi og aðal umræðuefnið handtaka Pasquale, viðurnefni sem notað var fyrir Di Lauro. Lögreglan lagði saman 2+2 og áttaði sig á að þeir höfðu í raun verið að yfirheyra æðsta mann undirheima Napoli. Myndin sem tekin var á löggustöðinni fyrir hálfgerða rælni er ein af fáum myndum sem til er af Di Lauro.

Di Lauro hvarf dýpra inn í undirheimana í kjölfarið og færði sig milli staða en var eftir sem áður tiltölulega öruggur enda ekki margir að fara kjafta í Napoli. Stjórnvöld þurftu því áfram að vinna í myrkri og voru ekki tilbúin með handtökusipun á Di Lauro (og 61 af hans samverkamönnum) fyrr en fjórum árum seinna, árið 2002. Nokkrir af hans nánustu samstafsmönnum voru handteknir, þ.á.m. einn af sonum hans en ekki Di Lauro sem var ennþá við stjórnvölin.

Það var ekki fyrr en árið 2004 er Di Lauro missti son sinn í mótorhjólaslysi sem hann fór að missa tökin. Hann var bugaður af sorg og ákvað að láta völdin í hendur elsta sonar síns, hins þrítuga Cosimo sem var lýst sem geðsjúklingi þekktum fyrir hrottaskap sinn.

Hann var í nokkra mánuði að missa völdin í borginni, hans stefna var alveg öfug á við pabba hans, Cosimo fannst önnur gengi fá of mikið fyrir sinn snúð og vildi að þau myndu starfa meira sem starfsmenn Di Lauro fjölskyldunnar frekar en sjálfstæðar einingar. Þetta er veruleg einföldun á atburðarás sem leiddi til Scampia átakanna, endaloka valdatíðar Di Lauro fjölskyldunnar og endaloka “friðar” á götum Napoli.

Scampia átökin

Átök glæpagengja með tilheyrandi blóðsúthellingum hefur eins og þessi lesning gefur til kynna verið daglegt brauð í Napoli alla tíð. Upplaup Cosimo og í kjölfarið fall Di Lauro fjölskyldunnar leiddi engu að síður af sér verstu gengjaátök Camorra á þessari öld og jafnframt ein þau þekktustu. Scampia er hverfið sem þau eru kennd við en það er fátækrahverfi í Norður-Napoli og helsti heimavöllur Camorra. Þar voru skráð yfir 100 morð árið 2004 og árið eftir byrjaði ekki vel þegar 12 manns voru myrtir á 10 dögum. Til að setja þetta í smá samhengi er Scampia um 80.000 manna úthverfi í Napoli. Rúmlega 100 morð!

Di Lauro gengið leystist upp í nokkur gengi, yngri kynslóðin fór með Cosimo og aðrir fóru gegn honum. Önnur gengi leystust einnig upp en í seinni tíð hafa yngri og miklu hættulegri (vitlausari) gengi látið mikið meira til sín taka á götum Napoli en var í tíð Di Lauro. Þau eru í dag mun fleiri en áður og virðast vera stjórnlausari.

Þessi átök urðu m.a. til þess að innanríkisráðherra Ítalíu fjölgaði lögreglumönnum borgarinnar um 1.000. Það beit eitthvað og fjöldi mafíukónga var handtekin en starfsemi kerfisins sló varla úr takti. Mikið af þessum morðmálum eru ennþá óupplýst. Omertà er ítalskt orð yfir þagnareið sem er þekktur á Suður-Ítalíu og þarf engan fræðimenn til að útskýra afhverju fyrstu viðbrögð fólks sem búið hefur með samtökum eins og Camorra í tvær aldir séu ekkert endilega að hringja og tilkynna glæp sem það varð vitni af. Það er nánast mottó að það hefur afleiðingar að vitna gegn Mafíunni og það sem verra er á Ítalíu, margir treysta Mafíunni jafnvel betur en stjórnvöldum, þetta á hvergi betur við en í Napoli og kannski ekki af ástæðulausu.

Roberto Saviano, rannsóknarblaðamaður frá Napoli gaf árið 2006 út skáldsöguna Gomorrah sem fjallaði um starfsemi Camorra sem seinna var gerð kvikmynd útfrá sem og frábærir sjónvarpsþættir. Hann byggði söguna á sönnum atburðum eins og Scampia átökunum og raunverulegu fólki sem hann þekkti sjálfur. Hann lýsti uppvaxtarárum sínum í Napoli svona í viðtali sem tekið var á síðasta ári:

I was born in ’79, and at the end of the 80s there was an incredible Camorra war – 4,000 dead, three or four a day. I saw my first corpse in my first year of secondary school. Since then I’ve seen dozens. They didn’t shock me. As soon as we heard of one, my friends and I would immediately go see it. It was a way of saying, “we’re grownups” – anyone who didn’t look at corpses was still a child. Once we saw a Camorrista drowned in milk, in a mozzarella vat.

Verk og greinar Saviano hafa einnig mikið fjallað um uppgang svokallaðra barnagengja á götum Napoli sem alist hafa upp með Camorra og mynda jafnvel sín eigin gengi, jafnvel ennþá óheflaðari og meira brutal en þeir gömlu voru. Það er augljóst þegar maður horfir á Gamorrah þættina að Saviano þekkti sögu Di Lauro og Cosimo þó hans saga sé ekki um þá per se:

Mafias have always employed muschilli – little mosquitoes – in minor roles. But for a few years, in Naples, kids aged between 10 and 19 were in charge: they decided the drug deals, the money laundering, the executions…
None of them are doing it out of hunger. They’re pushed by a complicated reality where it’s almost impossible to make money legally: there are no decent jobs, unless a relative recommends you. So those with ambition are drawn to crime, even though they know they’re going to die: “If you die at 90, you die old news. If you die at 20, you die a legend.” Most of the kids the characters in the novel are based on are dead.

Hvernig taka svona unglingagengi á mótorhjólum með hnífa að vopni enskum fótboltaaðdáendum úr því að þetta er heimurinn sem þeir alast upp í?


Bók Roberto Saviano er sögð vera trúverðug lýsing á undirheimum Napoli og starfsemi Camorra enda ólst hann upp með samtökunum. Camorra líkaði enda ekki betur við verkið en svo að hann hefur notið verndar frá því bókin kom út árið 2006 og fengið fjölmargar líflátshótanir.

Barátta stjórnvalda á Ítalíu virkar allt að því vonlaus og ekki hjálpa stjórnmálamenn eins og Silvo Berlusconi sem er að öllum líkindum sjálfur Mafíuforingi og klárlega einn af spilltari mönnum landsins. Napoli hefur lengi verið ein af fátækari borgum landsins og upplifa borgarbúar að það sé litið niður til þeirra og jafnvel unnið markvisst gegn borginni. Liverpool og Napoli eiga kannski eitthvað sameiginlegt sögulega hvað það varðar.

Camorra eru á beinan eða óbeinan hátt atvinnuveitendur fjölmargra íbúa Napoli, lánveitendur og ýmislegt annað sem ekki er jafn auðsótt frá stjórnvöldum. Camorra hefur vafið sig inn í mest allt samfélagið með einum eða öðrum hætti og eru margir borgarbúar sagðir frekar vilja treysta á stjórn samtaka eins og Camorra frekar en stjórnvalda með sína Berlusconia.

Það er áætlað að í dag séu meira en 100 mismunandi gengi starfandi með allt að 10.000 meðlimi þó erfitt sé að áætla nákvæma tölu. Þessir 10.000 eru svo með nána samstarfsaðila, viðskiptavini og vini sem og tengsl með einum eða öðrum hætti sem ná yfir stóran hluta borgarinnar. Það er enginn einn í dag með álíka völd og viðskiptavit og Di Lauro hafði á sínum tíma.

Haft er eftir einum af lögfræðingum Camorra samtakanna í grein Vanity Fair að borgin myndi stoppa vegna fagnaðarláta kæmi Di Lauro aftur, en hann situr nú í einu víggirtasta fangelsi Evrópu þar sem hann hefur verið í nánast algjörri einangrun í rúmlega áratug.

“The anti-state is the state itself. It is the state, not the Camorra, that is strangling Italy.” She seemed to prefer the criminals to the officials. Most Neapolitans would agree. They demonstrate daily the extent to which they can live without Italy. And if Di Lauro ever came back, their celebrations would shut down the city.

Tengsl við stjórnmálin eru sterk og eiga meðlimir Camorra oftar en ekki í “samstarfi” við spillta stjórnmálamenn og hafa fengið úthlutað ýmsum verkefnum, t.d. byggingaframkvæmdum og sorphirðu sem Camorra hefur haft puttana í um áratuga skeið með hræðilegum afleiðingum sem ekki sér enn fyrir endan á. Svo slæmum að líklega verða verk þeirra á því sviði fleiri að bana en eiga sér stað í almennum blóðsúthellingum.

Undarlegt eins og það kannski hljómar hefur Napoli einmitt lengi verið þekkt fyrir vandræði sín þegar kemur að sorphirðu og úrgangslosun. Á fótboltaleikjum eru stuðningsmenn Napoli jafnan minntir á þessi vandræði borgarinnar á miður skemmtilegum nótum (“Fórnarlömb kóleru”, “Veik af plágunni”, “Þvoið ykkur aldrei með sápu” o.s.frv. á þessum nótum).

Spartacus réttarhöldin svokölluðu vörpuðu enn betra ljósi á skuggalega vanrækslu Mafíunnar um áratugaskeið. Réttarhöldin stóðu yfir í 10 ár og voru sögð vera uppreisn gegn Mafíuforingjum sem höfðu haldið ítölsku þjóðinni í heljargreipum. Á endanum voru 19 Mafíuforingjar dæmdir í lífstíðarfangelsi en um 500 vitni voru leidd fyrir dómara á meðan réttarhöldinum stóð og voru fimm þeirra myrt í kjölfarið. Spegillinn á RÚV fjallaði um málið á sínum tíma:

Mafían á Ítalíu hefur lengi mengað landið með eiturefnaúrgangi. Það var mengunin en ekki ofbeldið sem fékk mafíuforingjann Carmine Schiavone til að vitna gegn mafíufélögum sínum.

Nefnd á vegum ítalska þingsins er nú að rannsaka ógnvænlega aukningu í krabbameinstilfellum í nágrenni Napolí og hvort þau stafi af eiturefnalosun ítölölsku mafíunnar á síðustu áratugum. Mafían hefur fengið gríðarlega arðsama samninga um losun eiturefna sem iðulega eru urðuð með ólöglegum og ódýrum hætti. Það eru tveir áratugir síðan læknar tóku eftir aukinni útbreiðslu krabbameins í héraðinu í kringum Napolí. Frá þeim tíma hefur greindum æxlum í konum fjölgað um fjörutíu prósent og fjörutíu og sjö prósent hjá körlum.

Mafíuforinginn Carmine Schiavone, var lengi í forsvari fyrir glæpahóp sem urðaði ólöglega eiturefni í ítalska mold. Hann segir í samtali við BBC að afleiðingar þessarar mengunarstarfsemi hafi leitt til þess að hann ákvað að gerast uppljóstrari lögreglunnar – ekki allt ofbeldið og morðin. Carmine Schiavone bar vitni gegn mafíufélögum sínum í Spartacus Maxi réttarhödlunum. Hann var um tíma leiðtogi Casalesi mafíunnar sem var hluti af hinum illræmdu mafíusamtökum Camorra í Napolí. Hann snérist gegn félögum sínum og gerðist uppljóstrari en “penito” á ítölsku sem merkir eiginlega fullur iðrunar.

Þetta er að sjálfsögðu gríðarleg einföldun á starfsemi og sögu Camorra sem lifir mjög góðu lífi enn þann dag í dag og er helsta ástæða þess að Napoli er ennþá ein hættulegasta borg í Evrópu. Það er þó ekki þar með sagt að starfsemi Camorra sé svo víðtæk að þangað komi ekki ferðamenn eða fólki lifi ekki almennt sínu daglega lífi átakalaust. Síður en svo. Engu að síður fær maður aðeins hugmynd um þessi gengi sem vaða uppi á Ítalíu og við verðum var við ekki síst þegar okkar lið eiga leik gegn ítölskum liðum. Það fara í alvörunni miklu færri stuðningsmenn andstæðinganna á leiki í Napoli, sérstaklega í Evrópu og það ekki bara við um ensku liðin. Stuðningsmenn Napoli eru stoltir af þessu og allir inni á San Paulo leggjast á eitt við að gera andrúmsloftið eins óvinveitt og hægt er. Völlurinn sjálfur er m.a.s. ógeðslegur.

Napoli hefur engu að síður mér vitandi ekki verið bendlað mikið við Camorra, ekki með beinum hætti en það er nokkuð ljóst að þeir eiga töluvert af innanbúðarmönnum innan félagsins og Ultras hópar félagsins gefa sterkar vísbendingar um að einhverjir af þessum 10.000 manns í Camorra gengjum séu einnig fyrirferðamiklir í stúkunni.

Einn notenda Reddit orðaði þetta svona í umræðu um tengsl Napoli og Camorra:

I am from Napoli and yeah, basically everyone knows there are Camorristi among Napoli’s ultras. The Curva A in the stadium is especially renowned for hosting bad guys during the matches, that’s why most normal guys try to get tickets for Curva B first if they can. I live in an area where Camorra is extremely widespread and the same guys who shoot fireworks when drugs get here, do the same whenever Napoli football team wins a match. Cheering for the team is almost like a religion for most people here, and especially for people in the system.

De Laurentiis að missa tökin?

Leikmönnum hótað og ógnað af stuðningsmönnum (og eiganda) liðsins.

Það hefur margt breyst hjá Napoli síðan liðin mættust síðast og eru gríðarleg innanbúðarátök innan félagsins eftir slakt gengi undanfarið. Upphitun fyrir leikinn í Napoli á síðasta ári fjallaði um hinn skrautlega Aurelio De Laurentiis eiganda félagsins sem hefur núna farið laglega yfir strikið að mati leikmanna Napoli.

Hann boðaði viku æfingabúðir eftir 2-1 tap gegn Roma í byrjun mánaðarins, refsing vegna lélegs árangurs og áttu æfingabúðirnar að hefjast eftir Meistaradeildarleikinn gegn RB Salzburg sem endaði með jafntefli. Leikmenn liðsins neituðu að mæta og komu þeim skilaboðum áfram í gegnum Edo De Laurentiis son Aurelio sem er jafnframt varaforseti félagsins. Insigne fyrirliði Napoli talaði við Edo og var bakkaður upp af Dries Mertens, Callejon og Allan sem er sagður hafa öskrað á Edo.

De Laurentiis hefur vægast sagt tekið þessari óhlíðni leikmanna sinna illa, félagið var í fjölmiðlabanni megnið af þessum mánuði og er De Laurentiis ennþá sjóðandi og sagður íhuga að sekta leikmenn um 25% af launum fyrir að skaða ímynd félagsins. Hann er einnig sagður hafa hótað að selja þá leikmenn sem hafa haft sig mest í frammi. De Laurentiis fer eins og vanalega ekki hljóðlega um og hafa lætin í honum skapað raunverulega hættu fyrir leikmenn liðsins, gagnvart stuðningsmönnum félagsins. Þeir eru ekkert bara ógnandi gagnvart stuðningsmönnum andstæðinganna! Þeir sem eru sagðir vera leiðtogar þessarar uppreisnar hafa heldur betur fengið að finna fyrir því undanfarið og ef fréttaflutningur er réttur veltir maður því fyrir sér í hvaða ástandi þeir eru til að spila fyrir félagið.

Það var brotist inn á heimili Allan og þar rústað öllu um hábjartan dag til að senda honum skilaboð. Bílinn hans var einnig eyðilaðgur. Hann og ólétt kona hans og tvö börn eru flutt á hótel í kjölfarið og hafa lýst óánægju sinni á samfélagsmiðlum.

Eiginkona Lorenzo Insigne er flutt heim til foreldra sinna á meðan hann fór í landsleikjahléinu, hann er fyrirliði og aðalstjarna félagsins, fæddur og uppalin í Napoli.

Eiginkona Zielinski fór einnig heim til Póllands í landsleikjahléinu í kjölfar þess að bíllinn þeirra var skemmdur af stuðningsmönnum.

Kalidou Koulibaly og fleiri leikmenn liðsins eru eðlilega sagðir hafa ráðið lífverði til að verja sig og fjölskyldur sínar.

Stuðningsmenn eru einnig sagðir hafa mætt á æfingasvæði félagsins og heimtað virðingu frá leikmönnum félagsins.

Hvað svosem átökum innanhúss líður er Napoli ennþá með sterkt lið og þetta er ekki alvarlegra en svo að allir þessir leikmenn spiluðu í jafntefli gegn AC Milan um helgina.

Þetta gott lið og hentar Liverpool ömurlega virðist vera. Fyrri leikurinn tapaðist 2-0 en var engu að síður miklu betri af hálfu Liverpool en á síðasta tímabili. Robertson fékk á sig klaufalega vítaspyrnu á 79.mínútu og gerði þetta erfitt. Liverpool hefur komið til baka í öllum leikjum síðan. Napoli var svo auðvitað hársbreidd frá því að vinna útileikinn á síðasta tímabili og senda Liverpool úr keppni. Frá þeim leik virðist Liverpool hafa tekið skref uppá við á meðan Napoli er að glíma við töluvert mótlæti.

Liverpool

Liverpool afgreiðir þennan riðil með sigri og getur sent varaliðið í RB Salzburg leikinn. Bæði væri það frábært uppá að létta á álaginu í desember en ekki síst til að losna við Napoli úr Meistaradeildinni. Klopp er ekkert að fara finna upp hjólið þegar kemur að byrjunarliðinu en rótar kannski mannskapnum eitthvað smá frá Palace leiknum:

Sett fram með fyrirvara að það er ennþá töluvert í leikinn. Milner er líklegur til að koma inn fyrir einhvern af Henderson, Wijnaldum eða Robertson. Ox eða Keita geta líka komið inn til að dreifa álaginu. Fabinho er í banni í næsta deildarleik og er hvort eð er alltaf að fara spila þennan leik.

Hef svosem ekki mikla trú á að Gomez komi inn í bakvörðinn og vona ekki en Trent hefur spilað alla leiki núna í langan tíma, líka með landsliðinu og þarf kannski einhversstaðar smá break.

Spá: 

Anfield do your thing! Það er kominn tími til að vinna þetta helvítis lið sannfærandi. Liverpool má ekki vera leikur sem þéttir Napoli liðinu saman, vonandi bætum við frekar við mótlætið og helst með sannfærandi hætti. Napoli tapaði stigum í Genk en vann 2-3 í Salzburg, þetta er ekki sama lið á útivelli. Eins mikið og ég vonast til að þetta verði sannfærandi held ég samt að þetta verði enn einn vesenis leikurinn sem blessunarlega endar með sigri

2-1 Salah – Mané.

19 Comments

 1. Mæli með að leggjast í baðkarið setja Don Giovanni óperuna og lesa þessa upphitun
  Takk fyrir mig

  18
 2. 10/10 fyrir þennan pistal, takk fyrir mig.

  Bournemouth 7 des úti
  Salzburg 10.des úti
  Watford 14.des heima

  Það væri frábært að klára þennan Napoli leik og geta gefið einhverjum stjörnum hvíld gegn Salzburg. Andy/Salah að berjast við smá meiðsli og hvernig væri að gefa Dijk einn leik í hvíld og leyfa Gomez að byrja með Lovren.

  Ég spái sanfærandi 3-0 sigri þar sem Mane, Firmono og Salah skora mörkin með bros á vör.

  6
 3. Skuggalegt í meira lagi. Svona þættir eins og Gamorrah sýna okkur veruleika óraunveruleikans. Rætur hins illa geta verið djúpar og seigar í mannsaldra.
  Napoli flói er þó með dásamlegri stöðum sem ég hef dvalið.
  Var kannski ekki í fátækrahverfunum í borginni.
  Capri, Sorrento, Pompeii svæðið og Villa Ketty.
  Hendi í eina með tómötum, mozzarella, basil og extra virgin á miðvikudaginn.
  Þeir ítölsku þrífast á svona andrúmslofti eins og myndast á Anfield og fara í ham.
  En þeir lenda á besta liði í heimi með Anfield á blasti og sjá ekki til sólar.
  4-1
  YNWA

  3
  • Já kannski rétt að árétta að ég hef nú þegar skrifað tvær greinar um Napoli sem fókusa töluvert meira á jákvæðar hliðar borgarinnar.

   6
 4. Fræðandi og skemmtileg sögustund. Okkar menn verða svo að spila mun betur enn í síðasta leik ef þetta á ekki að fara illa. Þetta er allavega mun betra lið en CP og með frabæran stjóra.
  YNWA

  4
 5. Ég verð að viðurkenna, að stundum stekk ég yfir málsgreinar í Evrópu-upphitunum Evrópu-Einars, þar sem ég er mjög lengi að lesa, en í þetta skiptið las ég allan textann án þess að stoppa eða athuga hvað væri mikið eftir. Þetta er í meira lagi áhugavert batterý. Takk fyrir þetta Einar.

  Það væri alls ekki líkt Liverpool að vinna þennan leik, þ.e.a.s. fara þægilegu leiðina uppúr riðlinum – við þurfum alltaf að fara leggjarbrjótsleiðina og gera hlutina meira spennandi. Ég hef nú samt trú á því að liðið okkar sé orðið það þroskað og sigurhefðin sé orðin svo sterk að við klárum þennan leik með yfirvegaðri frammistöðu leikmanna, þjálfara og stuðningsmanna. Við skulum leifa Napoli að kynnast veggnum góða, sem enginn kemst í gegnum eða getur klifrað yfir.

  Okkar sterkasta lið í þennan leik takk, miðjan sú sama og vann góðan sigur á Crystal Palace um helgina, Salah kemur inn í staðinn fyrir Oxlade og við erum tilbúnir. Vörnin ætlar að halda hreinu í þessum leik aldrei þessu vant (sennilega það eina neikvæða sem hægt er að finna varðandi úrslit það sem af er tímabili).

  3-0.

  YNWA

  5
 6. Þetta eru svakalega flottar ritgerðir hjá þér! Takk fyrir mig.

  Þetta verður erfitt hjá Napoli í kvöld.

  6
 7. Flott grein, eins og stuttur reyfari, sem heldur manni við efnið til loka. Stundum er talað um ,,ítala skratta,, þessi grein er ekkert langt frá því að styðja við þá sögn. En þetta verður flottur leikur sem ætti að enda bara á einn veg, öruggur sigur okkar manna 3-0.

  YNWA

  3
 8. Sælir félagar

  Takk Einar fyrir magnaða yfirferð um undirheima Napoli. Hvað leikinn varðar er ég ekki eins kokhraustur og margir hér. Ég er þó nokkurnveginn viss um að hann vinnst en ekki með neinum risatölum. Tvö – eitt er eitthvað sem ég get ímyndað mér eða 3 – 2 í hunderfiðum leik. Við sáum í fyrri leiknum að ítalirnir eru “engir muggar” eins og Maggi segir stundum.

  Það er nú þannig

  YNWA

  4
 9. “We´re not worthy, we´re not worthy”

  Takk Babú, geggjaður pistill ! Mæli svo með í kjölfarið á Maradona myndina fyrir þá sem ekki hafa séð hana. Sá hana einmitt á laugardaginn og svo kemur þessi líka frábæra upphitun. Napoli er kannski fínasta borg en held barasta að ég heimsæki Aleppo frekar en Napoli.

  Fannst þessi Maradona mynd meira sorgleg en eitthvað annað. Hann er bara trúður þarna í Napoli sem spyr hversu hátt hann eigi að hoppa þegar hann er beðinn um það. Líka sorglegt að ekki skuli hafa verið tekið fyrr í taumana á hans vandamálum.

  6
 10. Takk fyrir frábæran og fróðlegan pistil. Eins og fleiri vonar maður að Liverpool dragist aldrei gegn ítölskum liðum. Heimavellir þeirra eru svakalegir. En hvað um það okkar lið þarf að spila við Napoli tvö ár í röð og hefur lotið í gras í tveimur leikjum af þremur. Er til efs að svo slakur árangur sé gegn nokkru öðru liði sl árið. Í ljósi stöðnunar held ég að Klopp taki ekki neina sénsa og spili á sterkasta liði og þá til sigurs, ekkert jafntefli takk fyrir…
  … er dálítið kvíðinn fyrir þessu leik
  …svakaleg leikjatörn framundan
  … meiðsli í hópnum þó vissulega séu bjartari teikn þar en fyrir svosem viku
  … hvíla verður lykilmenn einhverja næstu leiki, VvD, TAA, Mane, Robertson. Sést hafa veruleg þreytumerki í nokkrum leikjum í haust. Maður vill ekki að þeir brenni bókstaflega upp fyrir áramót
  … á venjulegum degi er þetta 2-0 eða 3-1 sigur en eins og við vitum eru ekki allir dagar venjulegir. Sætti mig algjörlega við 1-0 sigur og þó sigurmarkið komi á 90+ mín

  7
 11. Það er skemmtilegt að fylgjast með hvað er í gangi á Ítalíu núna. De Laurentiis ákvað að láta verða að sektuninni sem búið var að tala um, 25% af mánaðarlaunum hvers leikmanns í sekt – ekki það að leikmenn hafi ekki efni á því, en sýnir virðingarleysið sem virðist bara verða meira á milli stjórnar og leikmanna&þjálfara. Alls ekki öruggt að Ancelotti mæti á fréttamannafund á morgun í kjölfarið. Frábær staða innan félagsins á, má ekki segja, viðkvæmum tíma.

  Annars bárust líka fréttir af því að hvorki Milik né Insigne verða með á miðvikudaginn.

  3
 12. Eins og alltaf takk fyrir Kopverjar frábær upphitun að vana held að við tökum þetta en segi 3-1 Firmino, Shala og svo kemur Trent og bætir fyrir frekar slakan leik síðast og setur 1 stk mark ársins.

  YNWA.

  2
 13. Sæl og blessuð.

  Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi um þetta leyti í fyrra að sjá viðureign þessara liða á Anfield. Það var dýrðarkvöld. Skilvirknin var alveg fullkomin í liðinu – Salah klínískur og Allisson blés sig upp eins og Barbapabbi þegar sá pólski Milik var kominn í gapandi dauðafæri.

  Nú leyfi ég mér (aldrei þessu vant) að vera bjartsýnn. Af hverju?

  1. Anfield Rocks
  2. Lykilmenn eiga að vera komnir í lag
  3. Napoli hefur engu skilað undanfarið og lítið getað á útivelli.
  4. Liverpool hefur á hinn bóginn ekki stigið fatal-feilspor í háa herrans tíð.

  Já, ég leyfi mér að gæla við öruggan 3-0 sigur.

  Takk meistarar og þvílík upphitun.

  3

Kvennaliðið heimsækir Arsenal

Gullkastið – Óþolandi lið ef þú heldur ekki með því