Kvennaliðið heimsækir Arsenal

Núna kl. 14:00 hefst næsti deildarleikur kvennaliðsins okkar, en þá heimsækja þær ríkjandi meistara Arsenal. Ekki verður nú sagt að við mætum sérlega vongóð í þann leik, verandi í neðsta sæti deildarinnar. Leikmennirnir okkar koma þó inn í leikinn á aðeins jákvæðari nótum en það, hafandi spilað við Blackburn Rovers Ladies á fimmtudagskvöldið og unnið þann leik 6-0, mörkin frá þeim leik má sjá hér. Þar skoraði Courtney Sweetman-Kirk m.a. sitt fyrsta mark á leiktíðinni, og vonandi að það hafi þar með brotið ísinn. Þá bar það einnig til tíðinda að scouserinn Missy Bo Kearns skoraði sitt fyrsta opinbera mark með liðinu, og það beint úr aukaspyrnu í uppbótartíma. Um að gera að taka eins marga jákvæða punkta úr þessum leikjum eins og hægt er.

En liðið sem mætir Arsenal núna kl. 14 mun líta svona út:

Preuss

Jane – Bradley-Auckland – Fahey – Robe

Bailey – Roberts
Lawley – Linnett – Babajide

Sweetman-Kirk

Bekkur: Kitching, Charles, Kearns, Murray, Hodson, Rodgers

Semsagt svipað lið og á fimmtudaginn, Niamh Charles á bekknum en Babajide fær aftur að byrja. Preuss er þó komin aftur í markið, og Sweetman-Kirk byrjar í stað Ashley Hodson sem fer aftur á bekkinn.

Eins og áður er leikurinn sýndur í The FA Player, og við uppfærum svo færsluna með úrslitum að leik loknum.


Leik lokið með sigri Arsenal, 1-0. Nú var fyrirfram vitað að okkar konur ættu á brattann að sækja, og út frá því eru þetta ekki verstu úrslit í heimi, en tap engu að síður. Munum samt að sami leikur tapaðist 5-0 á síðasta tímabili.

Það var Vivianne Miedema sem skoraði markið um miðjan fyrri hálfleik, en snemma leiks hafði fyrirliðinn okkar átt skot sem var varið í stöng. Annars náðu okkar stelpur ekki að ógna marki Arsenal að neinu marki, og er óhætt að segja að það sé Akkilesarhæll liðsins um þessar mundir. Liðið hefur ekki skorað mark í opnu spili í deildinni á þessari leiktíð, og alveg ljóst að það verður að lagast fyrr en síðar.

Ef staðan í töflunni í dag myndi ráða, þá félli liðið næsta vor. Við verðum að vona að stelpurnar okkar nái að bjarga þessari leiktíð, og svosem ekki útilokað að það sé hægt því þó liðið sé bara með 1 stig, þá eru næstu 2 lið með 3 stig, og aðeins eitt lið sem fellur í vor.

Næsti leikur verður á sunnudag eftir viku, og ekki verður sá leikur auðveldari því þá heimsækja okkar konur Manchester City.

Crystal Palace 1-2 Liverpool

Napoli- Dökka hliðin