Lovren, Gerrard, nýr búningur

Gleðilegan föstudag. Afsakið veðrið.

Það eru nokkrar áhugaverðar fréttir úr herbúðum okkar manna í þessari leikjalausu viku. Í morgun var það staðfest að Dejan Lovren hefur skrifað undir nýjan langtímasamning við félagið. Hann er 27 ára og hefur leikið fyrir Liverpool í þrjú ár. Það eru ekki allir sammála um ágæti Lovren en þessi samningur þýðir væntanlega að Klopp er með hann í sínum áætlunum og hann verður þarna áfram a.m.k. næsta vetur.

Þá kynnti félagið nýjan heimabúning fyrir leiktíðina 2017/18. Lovren er einmitt í henni á myndinni hér að ofan. Hvað finnst ykkur? Ég persónulega hugsa að ég fari í fyrsta skipti í nokkur ár út í búð og kaupi mér þessa. Ótrúlega flott treyja, bæði nýtískuleg og minnir á treyjurnar frá gullöldinni okkar fyrir þrjátíu árum.

Þá er Steven George Gerrard orðinn stjóri U-18 liðs Liverpool. Neil Critchley, sem stýrt hefur liðinu, tekur við U23-liðinu í staðinn þannig að hann er klárlega að fá stöðuhækkun til að koma Gerrard fyrir.

Ég held að það sjái allir í hvað stefni: ef stjórastarfið reynist eiga vel við Gerrard verður hann orðinn U23-stjóri áður en langt um líður og þá er nokkuð borðliggjandi að hann verði næsti knattspyrnustjóri Liverpool FC þá og þegar að Klopp hverfur af vettvangi, sem verður vonandi ekki alveg á næstunni. En það er ljóst í hvað stefnir með Stevie G.

Eitthvað fleira? Orðið er laust. Góða helgi.

14 Comments

 1. Flottur búningur.
  En veit einhver hvenær helstu styrktarsambingar Liverpool renna út eins og við NB á treyjum og Standard Chartered?

 2. Flott að semja við Lovren aftur. Hann var einfaldlega ekki góður fyrsta árið en það er allt annað að sjá hann í dag. Hann er ekki besti miðvörðurinn í deildinni en hann og Matip hafa verið frekar góðir saman þegar þeir ná að spila.
  Hann er líka ekki að fá einhvern ofurlaun heldur rétt undir 100þ pund á viku og tel ég þetta bara gott fyrir Lovren og klúbbinn.
  S.s Matip, Lovren, Gomez + nýjan miðvörð í sumar og auk Klavan sem vara vara skeifu.

 3. Ekki þarf að afsaka veðrið neitt, 7 gráðu hiti kl 8 í morgun, logn og dumbungur.
  Ég verð að viðurkenna að fram að þessu hef ég ekki verið aðdáandi Lovren og var lengi vel að vonast til að hann yrði seldur. Heilt yfir hefur hann alls ekki unnið fyrir laununum sínum en ég ætla að gefa honum séns. Ef hann spilar heilt tímabil eins og hann spilaði best í vetur í nokkrum leikjum þá verð ég sáttur annars ekki og hann má fara.
  Hörkubúningur og svo gleður það mig mikið að Gerrard skuli vera komin til starfa.

 4. Varðandi Lovren, einkum þrennt:

  1) Ánægðurmeð að hann verður áfram hjá LFC
  2) Set spurningamerki við þessi háu laun hans
  3) Set spurningamerki við tímasetninguna um að tilkynna um samninginn, en Lovren var lélegasti maður vallarins í leiknum á móti Palace fyrir nokkrum dögum.

  Það er morgunljóst að það verður keyptur nýr heimsklassa hafsent í sumar. Algert forgangsatriði. Lovren verður þá örugglega 3. kostur………en Matip er mikil meiðslahrúga og því hætt við því að Lovren muni spila mikið næsta tímabil.

  Nýji búningurinn geggjaður og ég mun pottþétt kaupa hann, bæði liturinn og hvítu rendurnar mjög flott. Mjög ánægður með að festa Gerrrard hjá klúbbnum okkar.

 5. Hef engar áhyggjur af Lovren ef Hendo helst heill til að vera fyrir framan hann og Matip, annars vantar einhverja varnarsinnaða vél á miðjuna, þá held ég að þeir myndu báðir líta vel út.

 6. Fínt að semja við Lovren en það vantar samt einhvern klassa miðvörð í hópinn sem og alvöru leikstjórnanda. Hendo er því miður allt of brothættur og er bara ekki þessi leiðtogi sem við þurfum.

  Nýji búningurinn er mjög flottur.

  Flott að Gerrard sé kominn með þjálfarastöðu hjá klúbbnum og hefur vonandi góð áhrif á strákana.Ég vona svo að hann verði jafn farsæll í þjálfun eins og inni á vellinum.

  Smá þráðrán þar sem ég sá leikinn í gær.
  Mikið skelfing er ég feginn að loksins kom dómari sem henti fautanum Fellaini út af (annað var náttúrulega ekki í boði) Ég held að það sé varla til leikmaður sem fer meira í taugarnar á mér. Alveg sama hvar hann hefur spilað Everton, landsliðið eða með djöflunum. Óheiðarlegur tuddi sem hefur komist upp með allt of mikið í gegnum tíðina.
  Annars er ekki gaman að horfa á djöflana eða nokkuð annað lið sem Morinio þjálfar spila. Algjör skotgrafafótbolti sem hefur litið betur út hjá honum en hjá fátækari klúbbum sem ekki hafa sömu gæði í mannskap, en sama upplegg. Skilar samt árangri oft á tíðum. ( Ok, varnarsinnaður bolti)
  Aftur á móti er alltaf gaman að sjá City spila fljótandi fótbolta, eins spila Arsenal á góðum degi, Tottenham og Chelsea (eftir að Móri fór) skemmtilega.

  Okkar ástkæri klúbbur mætti svo spila alltaf eins og fyrir áramót 🙂

  YNWA

 7. Okkur vantar sterkari miðvörð en lovren! Hann er þvi miður ekki nógu góður.

 8. Mér finnst Matip/Lovren vera okkar langsterkasta par og höfu við náð nokkrum mjög góðum úrslitum með þá tvo.
  Skoðum miðverðina okkar í stórleikjunum.
  Arsenal úti Lovren/Klavan
  Tottenham úti Lovren/Matip
  Chelsea úti Lovren/Matip
  Man utd heima Lovren/Matip
  Everton úti Lovren/Klavan
  Man city heima Lovren/Klavan
  Man utd úti Lovren/Klavan
  Chelsea heima Lovren/Matip
  Tottenham heima Lucas/Matip
  Arsenal heima Klavan/Matip
  Man city úti Klavan /Matip
  Everton heima Lovren/Matip

  s.s 12 leikir þar sem hafa náðst góð úrslit. Lovren hefur spilað 9 af þeim og Matip 8. Þar af 6 saman.

 9. Nokkuð sáttur með Matip/Lovren miðvarðarparið sömuleiðis á þessum sólríka föstudegi 🙂 það sem hefur vantað uppá þessa leiktíð er að báðir hafa glímt við meiðsli, eins og reyndar flest allt liðið.
  Mér finnst Lovren okkar harðasti maður, hann sparkar menn niður og gefur olnbogaskot…það er nauðsynlegt að hafa svoleiðis nöttara í sínum liðum.

 10. Sælir félagar

  Það er fallegt af KAR að afsaka veðrið fyrst það er honum að kenna að það er eins og það er.
  Að öðru leyti er ég smmála LFC Forever hér að ofan. Eins finnst mér að það þurfi betri bakverði báðu megin einn varnartengilið í heimsklassa og og heimsklassa striker. Ég bið nú ekki um meira fyrir næstu leiktíð og heldur ekki minna.

  Sem sagt það sem talið er upp hér að ofan + heimsklassa miðvörð sem setur Lovren í 3 sæti í röðinni. Svo er þetta í fyrsta skipti í mörg ár sem mér finnst nýr aðalbúningur geggjaður. Mun slá í einn í sumar.

  Það er nú þannig

 11. líst vel á fréttir dagsins, búningurinn hrikalega flottur og flott að Gerrard fái u 18 liðið, gott líka að halda Lovren nema það þarf bara að kaupa betri miðvörð og Lovren getur komið inn af bekknum.

 12. Algjörlega geggjaður búningur! Minnir mann á gullaldarliðið okkar og vonandi mun hann reynast okkur sigursæll.

  Eg fíla Lovren, hann er baráttuhundur og án vafa í uppáhaldi hjá Klopp, það sést mjög vel þegar þeir fagna eftir leiki. Megi þeir fagna sem oftast í framtíðinni!

  Ekkert nema jákvætt með Gerrard, hann vonandi hefur þjálfaratötsið í sér og þá verður þetta engin spurning með hans framtíð sem og okkar.
  Mig langar svo að fá Rafa Benitez sem Director of football hjá okkur eftir nokkur ár. Hann er okkar maður og á heima hjá okkar liði.

 13. Búningurinn væri flottur ef hann væri ekki með þessu andskotans V-hálsmáli.

 14. “bæði nýtískuleg og minnir á treyjurnar frá gullöldinni okkar fyrir þrjátíu árum.”

  Say what?

  Fínt að hafa Lovren þarna, ágætur 2-3 kostur í vörnina

Podcast: Kaldur, blautur gúmmíhanski í smettið

Nokkur orð um stöðugleika