Sunderland 0-1 Liverpool

Liverpool endaði árið með afar mikilvægum 1-0 útisigri gegn Sunderland. Klopp og lærisveinum hans tókst þar með að komast upp að hlið Manchester United og eru nú komnir í baráttuna um efstu sætin. Fínt að enda árið þannig og það vonandi gefur smá “boost” fyrir nýja árið.

Ég ætla að viðurkenna það að ég sá ekki fyrstu mínútur leiksins en á öllu virðist það hafa verið svipað upp á teningnum og það sem af leið leiknum. Liverpool með mesta yfirhöndina og áttu fleiri færi en Sunderland ógnuðu þó ágætlega á móti. Firmino byrjaði á að klúðra úr afar góðri stöðu en sýndi aðeins betri takta þegar Vito Mannone, markvörður Sunderland, náði að reka fingurgóma sína í skot hans sem endaði í stönginni og hann náði ekki að stýra fínum skalla aðeins lengra til hliðar og í netið. Clyne átti afar metnaðarfullt skot af guð-má-vita hve mörgum metrum en Mannone varði ágætlega.

Fyrrum leikmaður Liverpool Fabio Borini var nálægt því að skora en skot hans rétt framhjá og Mignolet þurfti að hafa sig allan við að slá skot Jermaine Defoe yfir markið. Það var markalaust þegar flautað var til hálfleiks en Liverpool þó eins og áður segir með meiri yfirhönd á leiknum.

Nær strax og flautað var til síðari hálfleiks tapaði Liverpool boltanum eftir miðju en vann hann strax aftur og eftir smá lipurt spil á miðjum vellinum barst boltinn til Clyne sem ætlaði að stinga boltanum inn fyrir vörn Sunderland en Adam Lallana rak tánna í boltann með þeim afleiðingum að hann féll svona fullkomlega fyrir Benteke sem stakk sér í gegnum varnarlínuna og skoraði með afar góðu skoti. Flott mark frá Belganum sem hefur nú skorað tvö sigurmörk Liverpool í röð.

Liverpool fékk svo aðeins betri tök á leiknum næstu mínúturnar eftir markið og fengu ágætis tækifæri til að skora og gera út um leikinn. Jordon Ibe klúðraði í góðri stöðu, Coutinho komst í fínar stöður en náði ekki góðum skotum og aftur tókst Benteke að klúðra einn á móti markmanni á loka andartökum leiksins!

Maður var guðs lifandi feginn þegar Kevin Friend dómari leiksins – finnst þetta alltaf jafn kaldhæðnislegt jafn – flautaði leikinn af. Ég var nú ekki beint sáttur með umræddan Friend sem gaf aðeins gult spjald á leikmann Sunderland sem gjörsamlega straujaði Sakho. Kannski er það rétt en fjandinn, þetta var svo sein og groddaraleg tækling að refsingin var ekki nálægt því að vera í samræmi við hugsanlegar afleiðingar tæklingarinnar gætu hafa haft.

Með sigrinum er Liverpool því komið með þrjátíu stig, jafn mörg og Manchester United, og eru nú níu stigum frá toppsætinu, fimm frá Tottenham og eitthvað álíka svo segja má að Liverpool sé nú – í bili allavega- komið af alvöru í þessa toppbaráttu aftur. Það er fínt að enda árið þannig og vonandi gefur það byr undir báða vængi á nýja árinu.

Líkt og í leiknum gegn Leicester þá var frammistaða Liverpool mjög góð. Ekkert sérstaklega falleg alltaf en liðið var þétt fyrir, barðist vel, pressan var fín og liðið skapaði sér fín færi en skoruðu kannski ekki eins mörg mörk og þeir hefðu átt að gera. Það er klárlega samt margt jákvætt sem má taka úr þessum tveimur frammistöðum og vonandi verður það raunin.

Emre Can var flottur á miðjunni í dag fannst mér og bakverðirnir ágætir. Ég er að verða svolítið hrifinn af Lovren og Sakho í hjarta varnarinnar og vona að þeir gefi manni ekki ástæðu til að finnast annað. Mignolet gerði það sem þurfti í markinu, Henderson var nokkuð fínn þar til hann fór útaf. Benteke skoraði gott mark og var að mér fannst bara að fúnkera ágætlega í þessum leik, hann skapaði nokkur ágætis færi, skoraði mark og hefði átt að gera annað – á meðan hann skorar mörk sem tryggir sigra þá getur maður ekki mikið kvartað er það nokkuð?

Næsti leikur er gegn nokkuð erfiðu liði West Ham á útivelli og fá okkar menn nær engan tíma til að hlaða batteríin fyrir þann leik. Útileikur á miðvikudagskvöldi og svo aftur útileikur á hádegi á laugardag – það er nú ekki merkilegur tími í “recovery” og undirbúning fyrir næsta leik.

43 Comments

 1. Hvaða aumingjaskapur var það að heimta ekki að fá þetta fífl Lens út af með rautt eftir að reyna að taka fótinn af Sakho!!!!???? Djöfulsins aumingjar.

 2. Fín 3 stig en Benteke verður að fara að klára einn á móti markmanni. Maður hefur ekki taugar í þessa vitleysu bara einu marki yfir á loka mínútunum.

 3. Sælir félagar

  Við þökkum fyrir þessi 3 stig. Þessi leikur var nákvæmlega eins og ég átti von á. Ég ætla ekki að ræða framistöðu einstakra leikmanna, það er betra að pústa áður en maður fer í það dæmi. Sumir eiga lof skilið en aðrir ekki og einstaka leikmaður virðist geta horfið algerlega á rennisléttum velli, rétt eins og þeir hafi afefnast. Það er merkilegur eiginleiki en gagnslítill.

  Hitt er ljóst að Liverpool þarf mann eða menn sem geta skorað mörk, klárað dauðafærin sín og á móti betra liði hefði okkur verið refsað grimmilega fyrir frammistöðuna við mark Sunderland.

  Það er nú þannig

  YNWA

 4. Ég ætla að kjósa að vera ánægður með það að benteke sé farinn að koma sér í þessar stöður sem koma upp með hlaupum í stað þess að vera brjálaður yfir nýtingunni…. í þetta skiptið.

 5. Með þessum siðasta leik ársins varð það ljóst að sá markmaður sem átti flest hrein lök árið 2015 er Simon Mignolet.

  Ég held að við höfum lengi verið að kalla eftir því að liðið nái að hala inn þessum “erfiðu” stigum, þ.e. leikir sem þarf bara að klára og það gekk vissulega eftir. Jújú, Benteke hefði alveg mátt skora þarna í lokin – þarf hann ekki bara að taka æfingar maður á móti manni? En 3 stig eru 3 stig.

  Annars er alveg óþægilega stutt niður í 11. sætið. Sannarlega ekkert hægt að taka fótinn af bensíngjöfinni. Og erfiður leikur framundan á móti West Ham eftir rúma 2 sólarhringa. Það er líka alveg ljóst að hópurinn má aaaaaalls ekki við því að þynnast meira vegna meiðsla.

 6. Sæl og blessuð.

  Þetta var taugatrekkjandi eins og góðir fótboltaleikir eiga að vera. Ekkert gaman að þessu ef ekki væri fyrir hina nagandi óvissu. Gæðin vissulega ekki mikil, en þetta lið er búið að vinna fullt af fínum liðum!

  Var hrifinn af Firminó, svona eftir að hann fann sig þarna fljótlega í fyrri hálfleik. Flott skot sem markvörður bjargaði með löngutöng og skallinn alveg ok. Er einhvern veginn góður kandídat fyrir góða samtalsmeðferð.

  Gaman að stúdera Benedikt. Hann er að finna fjölina sína, hendir í þríhyrning af og til og er að lesa þetta þokkalega á köflum. Kemur á óvart hvað hann er linur í návígjum og skallaeinvígum, svo ekki sé nú talað um lítið sjálfstraust í bráðabana. Skil þetta ekki alveg. Hef að á tilfinningunni að þetta verði Henderson-heilkenni. Hæfileikaríkur leikmaður, keyptur á mikinn pening, sem smám saman fær sjálfstraust og fer í hjartatransplant. Músahjartanu skipt út.

  En mikið er ég glaður að við skulum loksins, loksins, loksins eftir þrjá-fjóra sénsa verið komin upp að hinum vondu Sameiningarmönnum. Held að þetta sé allt á réttri leið.

 7. Sammála Sigkarli hvað varðar (markaskorarana) okkar. Í tvo leiki í röð er Benteke búinn að fara mjög illa með færi sem top-strækerar klára án þess að hugsa. Á móti kemur að hann hefur náð sex stigum í hús. Sá bara síðustu 20 mínúturnar af leiknum og Lucas er út frá þeim minn maður leiksins. Eini varnarmaðurinn milli vítateigs og miðju sem veit nákvæmlega hvað hann á að gera og gerir það.

 8. Vá hvað ég er orðin leiður á Christian Benteke. Þó að maðurinn hafi skorað sigurmarkið í kvöld á móti frekar lélegu liði þá er hann skelfilegur þegar hann er einn á móti opnu marki. Ég er bara búin að fá nóg. Út með hann og taktu þennan Firminio með þér.

 9. Flott 3 stig, eg bað herna fyrir leik um 3 stig sama hvernig þau kæmu og þau komu og því er eg mjög glaður.nuna er bara að halda afram og vinna west ham a laugardag, það verður mjög erfitt en liðið vonandi að fá aukið sjálfstraust.

 10. Mér fannst Benteke hreyfa sig miklu meira án bolta í kvöld en nokkru sinni áður. Það er jákvætt. En hvernig hann fer að því að klúðra þessum dauðafærum er rannsóknarefni.

 11. Ljótur en samt svo fallegur sigur !? 3 stig í safnið ! Alltaf gott að enda árið vel !

 12. Mér sýndist annað liðið vera miklu betra en hitt, fékk t.d. 3-4 dauðafæri á móti engu

 13. Hvað eru menn að væla yfir Benteke þegar hann skorar sigurmark annan leikinn í röð.

 14. Svo hjartanlega sammála Jan martin! Hvernig er hægt að bölva manninum sem á sigurmark í síðustu tveimur leikjum í röð!?! Mèr fannst þeir báðir frekar flottir í leiknum ss Firmino og big ben

 15. Glaður þigg ég stigin 3.

  Vörnin var fín þó Sakho hafi verið shaky í fyrri hálfleik. Bakverðirnir mjög góðir. Miðjan var einnig fín. Sóknin var hinsvegar mjög takmörkuð.

  Lallana og Benteke nenni ég nú varla að tala um. Firmino var svona af og á. Lagði upp 2 dauðafæri í lok leiksins, átt skot í stöng en þess á milli gat hann verið að klúðra mjög einföldum hlutum. Hæfileikar augljóslega til staðar.

  En þá að Coutinho. Þó hann hafi skorað 4-5 mörk úr langskotum á ferlinum er ekkert bara open season á að skjóta þegar hann fær boltann. Hann gerir ekkert annað, cut-ar inn og skýtur. Balotelli syndrome eiginlega nema Balotelli nennti ekki að taka skrefið til hliðar, skaut bara þar sem hann var.

  Hér er samanburður Coutinho við kollega hans. Algjörlega tilgangslaust að hafa hann inná. Vissulega á hann góðan leik inn á milli en þess á milli er hann jafnvel meiri farþegi en Lallana og þessir góðu leikir eru orðnir ansi sjaldséðir.

  Þetta er í raun vandamálið hjá Liverpool. Við sættum okkur ekki bara við svona meðalmenn, við kaupum treyju með þeim og dýrkum þá. Coutinho er ekki góður leikmaður! Var eiginlega bara eins og einhver hafi ákveðið að hann væri aðal maðurinn útaf einhverju sem ég skil ekki. Hann tekur horn, aukaspyrnur og næstum öll skot í öllum sóknum. Eins og hann byrjaði nú vel, þá má hann bara fara í þessa ímynduðu ferð sína til Barcelona mín vegna.

 16. 3 stig, en rosalega var þetta leiðinlegur leikur!!!!!!!!!

 17. Sæl og blessuð
  Það var gott að horfa. Mjög gott stig.
  Stolt.
  YNWA

 18. Frábært að sigra 1-0 tvisar í röð á örfáum dögum, það er góður kækur og megi það halda áfram sem lengst!

  Gleðilegt nýtt ár og það allt saman!

 19. Já Shako fær mig alltaf til að skjálfa, hef ekki séð einn solid leik með honum en Lovren alltaf að stíga upp. En annars flottur vinnusigur og óheppni að hafa ekki náð stærri sigri.
  Nánast veit það fyrir víst að í betra liði(með betri framherja) þá kemur Coutinho til með að blómstra, frábærar sendingar og eins byrja hlutirnir oftar en ekki hjá honum.
  Benteke fer líkleg snemma heim úr áramótagleðinni til þess að æfa 1á1, flottur þegar “instinktið” æður en höndlar það ekki að þurfa að hugsa of mikið 🙂

  En flottur leikur og Frábær endir á árinu, svo bara Gleðilegt nýtt Liverpool ár og þakka fyrir það gamla 🙂

  YNWA

 20. Óskaplega sáttur með þessi stig og bara framar vonum að sjá liðið berjast fyrir þremur stigum. Alveg var ég handviss eftir að Ibe og Benteke klúðruðu í lokin fengum við á okkur jöfnunarmark en verulega góður varnarleikur þessa liðs gladdi mig í dag eins og gegn Leicester.

  Mignolet búinn að eiga tvo góða leiki, Lovren ekki stigið feilspor og bakverðirnir alveg eins og maður vill að þeir séu. Þeir eiga mikið lof skilið fyrir sínar frammistöður án bara varla nokkurrar hvíldar í vetur.

  Can og Hendo fínir inni á miðju en það veikti okkur talsvert þegar Lucas kom inná. Í næsta leik þurfum við menn sem geta djöflast og barist, það er lykilatriði að Hendo verði í treyju núna um helgina held ég. Lallana, Firmino og Coutinho allir á sama stað finnst mér. Þeir týnast á löngum stundum en gera svo fína hluti þess á milli. Coutinho reyndar mun færri en hinir tveir en mér finnst svo augljóst að þessir þrír verða ekki lengi allir inná í LFC liði hjá Klopp.

  Þeir eru lélegir í pressu fyrir aftan senterinn, skila litlu varnarlega og bara of miklir lúxusspilarar eitthvað. Ekki það að Firmino var óheppinn að skora ekki og/eða eiga stoðsendingu í kvöld en á löngum stundum var hann á tilefnislitlu joggi. Lallana er skástur í pressunni af þeim en hins vegar þarf hann að skila svo miklu meiru sóknarlega og með meiri reglu miðað við þær væntingar sem við höfum til hans. Það vantar að mínu mati meira “direct” spilara í alla vega tvær af þessum leikstöðum til að spila 4-2-3-1.

  Ekki síst þar sem mér fannst Benteke á allt öðrum stað núna en áður, var mikið inni í spilinu, sérstaklega eftir að hafa skorað og það gerðist ansi oft að hann þurfti að bíða lengi eftir stuðningi frá miðjunni þegar hann fékk boltann. Hann vill fá “direct” spil og alltof oft völdu þremenningarnir fyrir aftan að þvæla boltanum sín á milli frekar en að senda fram á við á hann og síðan koma í stuðning.

  Hann virðist hafa ókost sem margir senterar hafa glímt við, þegar að hann fær mikinn umhugsunartíma lendir hann í vanda, ef hann tekur snöggar ákvarðanir gengur betur. Það verður hægt að vinna með honum, hlaupið hans í gegnum vörnina í lokin var frábært en hann þarf að bæta við sig þegar hann er einn á einn (hvort sem varnar- eða markmaður er í marki) og fær svo langan undirbúningstíma.

  Það var samt alveg ljóst að hann var býsna glaður í dag og er að fá sjálfstraust sem er frábært…ég held enn í þá von að sjá hann og Sturridge saman í 4-4-2 í einhverjum leikjum…það gæti verið magnað.

  Allt í allt erum við þá í 7.sæti eftir fyrri umferð með haug af heimaleikjum framundan við þau lið sem að eru í kringum okkur. Ég var mjög ánægður að sjá Klopp ýta öllum spurningum um endann á tímabilinu frá sér. Sagði einfaldlega klúbbinn þokkalega sáttan við 30 stig á þessum tímapunkti og nú yrði bara tekinn einn leikur í einu. Nákvæmlega sem fókusinn á að vera.

  Mér finnst stigasöfnunin í raun ásættanleg, sérstaklega miðað við öll þau meiðsl sem við höfum verið að glíma við. Mér skilst að Milner eigi séns á að spila gegn West Ham og jafnvel verði Sturridge í hóp. Það gæti skipt töluverðu máli…en framundan eru tveir alvöru útileikir sem vonandi berja áfram bein í mannskapinn, næsta mál er Carroll vinur okkar…það verður alvöru bardagi.

  Gríðarlegur léttir og frábært að landa svona sigrum, 0-1 baráttusigrar voru alltaf uppáhaldssigrarnir mínir í boltanum og eru það enn…þó maður sveiflist í allar áttir á meðan á leik stendur.

  Farið varlega með raketturnar elskurnar!!!

 21. Miðað við kommentin hérna hljótum við að hafa tapað þessum leik 4-0

 22. Þrjú stig! Allt mögulegt! Gleðilegt ár bræður og systur! YNWA!

 23. Þó svo að Coutinho hafi ekki verið að spila neitt sérstaklega vel undanfarið þá er hann augljóslega lang hæfileikaríkasti leikmaðurinn okkar (ásamt Sturridge þegar hann er heill). Frábærar sendingar lang oftast og fáránlega góða boltameðferð, ef að hann væri í liði eins og Barcelona þá myndi hann blómstra því þar eru alltaf réttar hreyfingar og hlaup í kringum manninn með boltann.

 24. Maggi #23 með allt sem ég vildi sagt hafa!! 🙂

  Frábær vinnusigur. Svona stig eru gulls ígildi. Hversu marga leiki hafa hinir illu sem við sitjum núna við hliðina á í töflunni unnið einmitt svona!? Óþolandi marga! Þarf ekki alltaf að vera einhver flugeldasýning. Það eru stigin sem telja. Emre Can fannst mér flottur á miðjunni í dag. Áberandi mikið í boltanum og í baráttuhug. Clyne og Moreno eru svo að stimpla sig inn meira og meira með hverjum leik sem hluti af hryggjarsúlunni í Liverpool liði Klopps. Næsti leikur verður hrikalega spennandi.

  YNWA

 25. #28

  Tölurnar tala sínu máli. Rosa auðvelt að vera góður í einhverjum hypothetical Barce leik. Ég hugsa að ég myndi skora meira sem framherji þar en hjá Liverpool, gerir mig samt ekki að hæfum fótboltamanni. Þetta er svona svipað eins og að senda á einhvern stað og segja að það hefði verið stoðsending ef einhver hefði verið þar. Rétt eins og Lallana, þá er þetta algjörlega tilgangslaus boltarakning sem skilar engu. Sendingar hverfandi enda skýtur hann við hvert tækifæri. Lélegur leikmaður.

 26. Nokkrir punktar. Athugið að ég kom að imbanum á 20 mín.

  Allir 4 í öftustu línu frábærir og ég undirstrika það að Lovren eigi heima þarna hægra meginn í kjarnanum.

  Can og Henderson dúó-ið er að looka mjög vel. Ég er að verða sérstaklega ánægður með Can. Að hann sé bara 21 árs er mér hulin ráðgáta. Hann hefur eitthvað leadership með sér, barátta, einbeiting og vilji. Hann á bara eftir að verða betri.

  Firminho sýndi góða takta. Var líflegri en oft áður og þurfum að fá fleirri svona leiki. Óheppinn að enda ekki með mark og stoðsendingu.

  Ég hef kallað eftir að sóknartengiliðir okkar eigi allavegana eina stoðsendingu í leik og nú hefur það gerst tvo leiki í röð (firminho og Lallana). Gott það.

  Ef Benteke skorar sigurmark í hverjum leik er mér sk**sama þó hann klúðri 10 dauðafærum í leik. Frábært að hann sé að fá sjálfstraust. Spái því að hann verði drjúgur seinni hluta móts.

  Annars frábært að vera komnir í baráttuna en þetta er til einskins ef menn mæta ekki í næsta leik sem verður MUN erfiðari en í kvöld. Óþoland stutt hvíld og hópurinn laskaður. Það er kominn smá græðgi í mig en ég er þegar orðin yfir mig stressaður með næsta leik.

  Gleðilega hátíð
  YNWA

 27. Hrikalega ánægður með,þennan sigur.
  Svona er maður taugaveiklaður.
  Vona að Studge mæti í næsta leik sem verður erfiður.
  Big Ben á bekkinn, annars óbreytt.
  Kannski Ibe fyrir Lallana með þeirri von að kúturinn detti inn.
  En ég vil 3 stig á laugardaginn, það er persónulegt.
  YNWA

 28. er ég einn um það að taka mitt ástkæra Liverpool lið fram yfir fjölskylduna mína? YNWA

 29. Mér finnst stundum eins og menn gagnrýni ranga menn og hóli að auki ranga menn. Benteke er bara framherji sem skorar í öðrum hvorum leik, hann er með stats um það allan ferilinn og er að gera það hjá okkur. Þó suarez og sturridge séu að skila miklu betri tölum þá er ég hræddur um að benteke verði aldrei þannig. En menn gagnrýna hann mikið fyrir það, kannski búast menn við meiru en þetta er akkúrat það sem við vorum að fá og það sem við borguðum fyrir.
  Svo er coutinho búinn að vera í guðatölu mjög lengi hjá mörgum stuðningsmönnum en hann skilar bara ekki þessum tölum. Þótt hann líti ótrúlega vel út á velli, með hreifingum og tækni, þá skilar þetta sér bara ekki í mörkum. Þó er ég mikill stuðningsmaður hans og vona bara að hann fari að spila eins og hann lætur sig líta út fyrir að vera.

 30. – Lovran er að sýna núna að þetta voru frábær kaup
  – Klopp þarf að fækka ´tíunum´… of mikið klapp og lítill afrakstur
  – Mér fannst áberandi, þrátt fyrir að hægja á öllu, hvað Lucas les leikinn vel
  – Benteke á ekki að nota fleiri en eina snertinu – þá er eins og heilinn í honum frjósi

 31. Góður útisigur! Átti ekki von á fallegum/skemmtilegum leik. Aðalmálið að mér fannst Sunderland ekki líklegir til að skora og Lpool hefðu hæglega getað skorað 4 mörk í þessum leik. Býst við erfiðari leik næst!

 32. Endum á sigri og byrjum vonandi á því líka. Árið 2015 verður minnst fyrir endalok Rodgers og nýtt upphaf með Klopp í brúnni. Bíð spenntur eftir næsta leik. Gleðilegt nýtt ár og takk kop.is og aðrir félagar fyrir árið og árin sem eru að baki. Egill.

 33. # 30, Jón.
  Ég er algjörlega ósammála þér. Það sem Coutinho vantar í sinn leik er stöðugleiki. Hann hefur sýnt það að hann hefur hæfileikana til að vera einn besti leikmaður heims. Stöðugleikinn kemur vonandi fljótt með aukinni reynslu, ég hef amk trú á því. Hann er einungis 23 ára gamall. Það væri glórulaust að selja hann á þessum aldri með bestu árin eftir, nýbúinn að skrifa undir langtíma samning, amk þyrfti mjög gott verð til að íhuga það.

  Þú segir tölurnar tala sínu máli, það er auðvitað rétt að hluta til þó oft verði að hafa meira í huga. Í hlekknum neðst er ég t.d. búinn að update matrix-ið þitt með öðrum leikmönnum sem væri hægt að bera Couthino við. Allt í einu er samburðurinn ekki svo slæmur. Ég held að við getum samt verið sammála um að þetta eru allt leikmenn sem eru annaðhvort í heimsklassa eða hafa hæfileikana í að komast þangað, alveg eins og Coutinho. Það er auðvelt að velja niðurstöður,sér í hag þegar það kemur að tölfræði. Stjórnmálamenn þekkja það vel. Vissulega er tölfræði af hinu góða, ekki misskilja, en hún segir ekki alltaf alla söguna.

  Til viðbótar:
  – Hann var valinn í lið ársins á síðustu leiktíð í ensku úrvalsdeildinni. (PFA)
  – Hann var valinn besti leikmaður síðasta tímabils hjá Liverpool.
  – Hann hefur margoft verið valinn leikmaður mánaðarins hjá Liverpool, sennilega oftast af öllum þeim leikmönnum sem eru í liðinu núna seinustu tvö ár.
  – Hann var einnig valinn bestur af liðsfélögum sínum í Liverpool á síðustu leiktíð.
  – Frammistaða hans gegn City á seinustu leiktíð var valinn sú besta frá leikmanni af stuðningsmönnum Liverpool.
  – Hann var tilnefndur sem besti leikmaður deildarinnar (PFA) og besti ungi leikmaður deildarinnar (PFA). Hazard og Harry Kane unnu þau verðlaun.

  Gefðu mannimum séns þrátt fyrir nokkra leiki í röð þar sem hann hefur ekki verið uppá sitt besta. Hann hefur klárlega gríðarlegan potential og það er með ólíkindum að þú skulir ekki sjá það.

  http://www.squawka.com/comparison-matrix#premier_league/2015/2016/philippe_coutinho/165/165/2673/0/p|premier_league/2015/2016/alexis_s%C3%A1nchez/165/165/1581/0/p|premier_league/2015/2016/willian/165/165/7145/0/p|premier_league/2015/2016/anthony_martial/165/165/3926/0/p|premier_league/2015/2016/raheem_sterling/165/165/534/37/p#assists/key_passes/chances_created/goals_scored/successful_passes/shot_accuracy#avg

 34. Hvernig stendur á því að Mignolet er gagnrýndur hérna viku eftir viku samt heldur hann oftast hreinu. Benteke er hér gagnrýndur sömuleiðis viku eftir viku þó svo að hann skori tvö úrslitamörk og komi sér í fleiri dauðafæri. Ætla nú ekki einu sinni að byrja á öllum hinum leikmönnunum sem þið drullið hér endalaust yfir. Á nýju ári ætla ég ekki að koma aftur hingað inn á spjallborðið bara til þess eins að hlusta á einhverja meðalgreinda mannapa tjá sig um fótbolta. Gleðilegt nýtt ár.

 35. Sælir félagar

  Þá er maður búinn að pústa og hefur smá fjarlægð á leikinn í gær. Þegar ég skrifaði komment gærkvöldsins var ég í verulegu spennufalli eftir leikinn og perspektívið ekkert. Það að klúðra svona dauðafærum eins og Ibe og Benteke gerður settu mig í sama ástand og Magga. Ég var viss uym að Sunderland mundi jafna á loka mínútunum. En sem betur fer gerðist það ekki og ég eins og aðrir gat andað léttar.

  En að leiknum. Frábær 3 stig í hús og staða liðsins í töflunni ásættanleg þó markatalan mætti vera mikið betri. Frammistaða 7 öftustu var mjög góð og er þar enginn undanskilinn.

  Hvað hina varðar er ég í miklum vafa með þá alla. Þó ber að þakka Benteke fyrir tvö sigurmörk í röð og hreyfingar hans virðast vera að batna og einhver hugsun virðist stundum vera í hlaupum hans. Ef til er hann bara eins og einhver segir hér fyrir ofan, stræker sem skorar bara eitt mark í öðrum hverjum leik. Hinir þrír eru mér ráðgáta og vil ég helst ekki segja neitt meira um þá í bili.

  En sem sagt, ásættanleg staða og nú fara áramót í hönd. Megi næsta ár verða okkur öllum gæfuríkt og gjöfult, friðsælt og ánægjulegt. Gleðilegt nýár og takk fyrir það gamla.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 36. Það er alltaf hægt að velja tölfræði til að láta menn líta vel eða illa út. Það er ekkert langt síðan menn voru að hefja menn eins og Fabregas, Silva, Yaya Toure og Carzola upp til skýjanna. Coutinho er enginn eftirbátur þeirra hvað tölfræði varðar.
  Þessi umræða að spila ekki hæfileikaríkasta leikmanninum okkar er gjörsamlega glórulaus. Þetta er einn fárra leikmanna liðsins sem getur snúið leikjum eins síns liðs. Hann gerir það ekki í hverjum leik, en hvaða lið þykjumst við vera með til að gera svoleiðis kröfur? Barcelona?

  Umræðan hérna er merkilega súr miðað við hvernig gengi liðsins er smátt og smátt að þróast í rétta átt.

Liðið gegn Sunderland

Áramótauppgjör 2015