Upphitun #1: Fyrir tveimur árum …

Jæja, þá er komið að því. Með þessari færslu minni hefst hnitmiðuð og þaulskipulögð upphitun fyrir væntanlegan úrslitaleik Meistaradeildarinnar milli AC Milan og Liverpool. Eins og flest ykkar geta (vonandi) séð erum við með niðurteljara í haus síðunnar þar sem þið getið fylgst með því nákvæmlega hvað er langt þangað til upphafsspyrna leiksins í Aþenu verður tekin. Í kvöld eru rétt tæpir sex dagar í leik og við ætlum að nota þessa daga í að koma með einn pistil á dag um liðin, leikinn og leikvöllinn.

En rétt áður en við rýnum í framtíðina er rétt að líta aðeins um öxl. Í maí 2005 var Liverpool Bloggið að ljúka sínu fyrsta tímabili í umfjöllun um liðið og klúbbinn. Við Einar Örn stofnuðum síðuna og héldum henni uppi tveir þetta fyrsta tímabil og við hituðum ærlega upp fyrir leikinn við AC Milan í Istanbúl. Svo gerðist það að Einar Örn fór ásamt mörgum öðrum Íslendingum út á leikinn og á meðan sat ég heima og uppfærði síðuna eins og óður maður, en dagbókin sem ég hélt á leikdag er enn í dag uppáhaldsfærslan mín á þessari síðu og það gleður mig mikið að tilkynna að önnur slík dagbók verður haldin á miðvikudaginn kemur, en þar munum við síðuhöfundar safna öllum okkar skrifum í eina færslu þar sem þið getið spjallað við okkur og hvert annað á meðan við bíðum óþreyjufull eftir leiknum sjálfum.

En fyrir tveimur árum, svo að við rifjum upp, var umfjöllun síðunnar í þessu formi og ég hvet ykkur til að lesa þessa pistla okkar Einars aftur. Þegar ég renndi yfir þá fyrr í vikunni (og svo aftur í dag) fékk ég svo mikinn hnút í magann, við að upplifa Istanbúl-dramatíkina aftur frá A til Ö, að ég varð svona þúsundfalt spenntari fyrir Aþenu-dramatíkinni fyrir vikið. Endilega rifjið upp með okkur uppfjöllunina fyrir, á meðan, og eftir Istanbúl 2005:

Níu færslur/pistlar sem fanga að mínu mati algjörlega hinn tilfinningalega rússíbana sem úrslitaleikurinn í Istanbúl var. Ég mæli sérstaklega með að þið lesið Dagbókina (og þá sérstaklega það sem ég skrifaði í hálfleik) og svo pistlana um heimkomu liðsins og heimkomu Einars. Ef þetta fyllir magann ekki af fiðrildum gerir það ekkert! 😉

Tæpir sex sólahringar í leik … niðurtalningin er hafin!

Snýr Gonzalez aftur til Spánar?

Upphitun #2: Istanbul – Þvílík ferð