23. maí, 2005
Úff, í dag er mánudagur, sem þýðir að það eru tveir dagar í leikinn! Ég veit ekki með ykkur, en ég hef varla verið viðræðuhæfur í dag, ég get ekki hugsað um neitt annað en úrslitaleik Meistaradeildarinnar, í dag. Kærastan gafst upp á að ná sambandi við mig í hádeginu, samstarfsmennirnir nú síðdegis og meira að segja mamma hefur ekki reynt að hringja aftur, síðan ég reyndi að segja henni símleiðis af hverju Josemi gæti tekið góðar vítaspyrnur í morgun!
Að öllu gríni slepptu, þá er ég að verða orðinn alveg fáránlega stressaður! Við Einar höfum hitað ærlega upp yfir nýafstaðna helgi, fjallað um úrslitaleikinn almennt, leikvanginn sem leikurinn verður spilaður á og í gær um mótherjana, AC Milan frá Ítalíu. Því finnst mér við hæfi í dag, næstsíðasta upphitunardaginn, að fjalla aðeins um liðið okkar: LIVERPOOL FC
Ég get náttúrulega ekkert nýtt sagt ykkur sem lesið þessa síðu, það þarf ekkert að segja mönnum hér hvað Liverpool hefur unnið marga titla eða hvert gengi liðsins í vetur hefur verið. Þið vitið þetta öll, og við Einar höfum dælt þúsundum orða í að lýsa gengi liðsins í leikskýrslunum í vetur. Nei, þess í stað ætla ég aðeins að reyna að spá í það hvers við getum vænst af liðinu okkar á miðvikudaginn. Með öðrum orðum, hvernig leggur Rafael Benítez þennan leik upp, fyrir leikmönnum liðsins?
Ég fékk fréttir af því í dag að Stephen Warnock hafi verið skilinn eftir heima þegar liðið flaug til Istanbúl í dag, á kostnað Josemi sem muni þá koma inn í hópinn. Það meikar svo sem sens, þar sem vinstri vængurinn okkar er vel kóveraður í hópnum - Traoré, Riise, Kewell, García - en við eigum bara Josemi sem varaskeifu fyrir Finnan. Þar sem engar aðrar óvæntar fréttir var að fá af hópnum í dag geri ég fastlega ráð fyrir að hópurinn sem flaug til Istanbúl hafi litið svona út:
Jerzy Dudek, Scott Carson - Jamie Carragher, Sami Hyypiä, Steve Finnan, Djimi Traoré, Josemi - Steven Gerrard, Xabi Alonso, Dietmar Hamann, Igor Biscan, Vladimir Smicer, Antonio Núnez, Harry Kewell, John Arne Riise, Luis García - Milan Baros, Djibril Cissé.
Átján manna hópur. Ef Rafa hefur tekið einhverja aukamenn með, uppá meiðsli á æfingu á morgun að gera og slíkt, þá hafa það sennilega verið John Welsh og/eða Anthony Le Tallec, úr því að hann skildi Stephen Warnock eftir. Sumum finnst kannski hart að skilja Warnock eftir heima, þar sem hann átti frábæran leik gegn Bayer Leverkusen á útivelli í þessari keppni, en Josemi átti þrjá frábæra leiki í Meistaradeildinni í haust - gegn Mónakó heima og Deportivo heima & úti - og eins og ég sagði áðan, þá er hann eina varaskeifan okkar hægra megin í vörninni.
Þetta er sem sagt hópurinn. Úr þessum hóp finnst mér síðan, í ljósi þess að Dietmar Hamann er orðinn heill heilsu, nokkuð auglóst hvernig Rafa Benítez mun stilla liðinu upp - fyrir utan eina stöðu. Ég veit EKKERT hvor framherjinn mun byrja inná, Baros eða Cissé. En liðið okkar verður því 99% örugglega svona:
DUDEK
FINNAN - CARRAGHER - HYYPIÄ - TRAORÉ
GARCÍA - ALONSO - HAMANN - RIISE
GERRARD
BAROS/CISSÉ
Sem sagt, á móti jólatrénu hjá AC Milan, 4-3-2-1 kerfinu, munum við spila 4-4-1-1. Ef við brjótum leikskipulag liðanna niður í svæði á vellinum, finnst mér líklegt að eftirfarandi verði þau svæði sem mest mun bera á, og þar verði þeir leikmenn sem geti ráðið úrslitum:
Vörn Liverpool v/s Sókn Milan: Fyrir það fyrsta, þá fá þeir Carragher og Hyypiä það erfiða hlutverk að dekka besta framherja Evrópu - að mínu mati - út úr leiknum. Andriy Schevchenko er yndislegur leikmaður, og ef einhver getur unnið leiki upp á eigin spýtur þá er það hann. En auk þess þá þarf vörnin að hafa nóg fyrir hlutunum, hvort sem að Crespo/Inzaghi spilar frammi með honum eða Rui Costa fyrir aftan hann. Eitt skæðasta vopn þeirra er eftir sem áður Kaká, sóknartengiliðurinn sem leikur fyrir aftan fremsta mann. Hamann þarf að hafa góðar gætur á svæðinu fyrir framan vörnina og aftan miðjuna og gæta þess að Kaká nái ekkert að athafna sig þar, en Finnan þarf líka á aðstoð að halda. Kaká hefur mjög gaman af því að sprengja upp vinstri hlið vallarins, oft studdur af Seedorf og jafnvel Maldini eða Kaladze í bakverðinum, og láta sig vaða á fullri ferð á hægri bakvörð andstæðinganna. Þarna gætum við verið veikir fyrir, þar sem ég er ekki viss um að García sé maðurinn til að hjálpa Finnan að stöðva þessar vinstrisinnuðu sóknarárásir Milan-manna. En við vonum það besta.
MIÐJAN: Hér mætast annars vegar þeir Gattuso, Pirlo og Seedorf og hins vegar þeir Hamann, Alonso og Gerrard. En málið er flóknara en svo að þetta séu bara þrír á móti þremur. Annars vegar þurfa miðjumenn Liverpool, og þá sérstaklega Hamann, að stoppa Kaká í að vaða uppi fyrir framan vörn Liverpool, sem og hjálpa bakvörðunum að loka á þá Seedorf/Kaká vinstra megin og Cafú hægra megin, sem er einhver sókndjarfasti bakvörður í heimi (vitiði um bakvörð sem er oftar dæmdur rangstæður en hann? ) … en á hinn bóginn þá þurfa Milan-menn ekki aðeins að hafa betur en Alonso, Hamann og Gerrard á miðsvæðinu, þeir þurfa líka að hjálpa vörninni sinni að loka á þá Riise og García sem sækja mjög hart upp vængina, og svo þurfa þeir líka að stöðva Steven Gerrard sem verður í essinu sínu og mun pottþétt taka hvert einasta tækifæri sem gefst til að reyna langskot, eða sprengja vörn Milan upp með einleik.
VÖRN MILAN v/s SÓKN LIVERPOOL: Vörn Milan er frábær, það þarf ekkert að fjölyrða um það, en hún hefur samt sína veikleika. Þá veikleika afhjúpuðu PSV-menn mjög greinilega í báðum leikjum undanúrslitanna, og ég er viss um að Rafa Benítez ætlar sér að nýta sér þessa veikleika. Til að byrja með þá er Cafú frábær sóknarbakvörður, en fyrir vikið skilur hann eftir sig svæði aftar á vellinum sem Nesta átti í vandræðum með að kóvera gegn PSV. Þar mun reyna á bæði Gerrard og Riise að komast í svæði, þeir munu pottþétt leita upp vinstri vænginn í skyndisóknum, í þeirri von að Cafú hafi skilið þar eftir opið svæði. Hinum megin er Maldini, frábær í alla staði, en er samt orðinn talsvert hægari en hann var hér í þátíð. Ég ætla ekki að gerast svo djarfur að spá því að Luis García geti farið illa með karlinn, en ef hann fær góðan stuðning meðfram hliðarlínunni frá Steve Finnan, ættu þeir tveir að geta komist í góð svæði framhjá kallinum.
Mikilvægasta sóknarsvæði Liverpool verður þó án efa miðsvæði varnarinnar hjá Milan. Hvort sem Baros eða Cissé verður frammi þá eru þeir báðir talsvert mikið fljótari en bæði Stam og Nesta - þeir sem eru í vafa um það þurfa bara að rifja upp hversu illa Baros fór með Stam og félaga í hollenska landsliðinu á EM í fyrra. Ef Baros eða Cissé fá að ná stjórn á boltanum og snúa með hann að marki Milan er hætt við að þeir skilji varnarmenn Milan eftir í startholunum. Þar að auki held ég að Gerrard gæti komið varnarlínunni þeirra í uppnám, ef hann nær að koma á hana með boltann - þá þurfa þeir að hafa áhyggjur af langskoti frá Gerrard, framherja Liverpool og jafnvel hlaupum Luis García. Andrea Pirlo er frábær miðjumaður en hann er ekki sama jarðýta og t.d. Hamann hjá okkur, og því held ég að hann muni ekki ná að halda nógu vel aftur af Gerrard.
Í stuttu máli, þá tel ég að möguleikar Liverpool á sigri felist í því að stöðva þá Kaká (vinstra megin), Schevchenko (á miðjunni) og Cafú (hægra megin) … og svo að ná að nýta sér það svæði sem Milan-miðjan mun vafalítið skilja eftir sig fyrir framan varnarlínuna, og svæðið sem Cafú skilur eftir sig þegar hann fer fram á völlinn. Ef Liverpool nær að nýta sér þessi svæði þá er hálfur sigurinn unninn, að mínu mati, en hafa ber í huga að leikmaður á borð við Schevchenko getur verið jarðaður í 89 mínútur … en hann þarf bara þetta eina færi, og þá getur hann unnið leikinn. Þannig að ég sé fram á spennandi leik á miðvikudaginn, leik sem mun einkennast af mikilli refskák tveggja taktískra snillinga, þeirra Ancelotti og Benítez!
Vonum svo bara að maður verði skælbrosandi á miðvikudag. Þetta yrði ekki leiðinleg sjón:
ÁFRAM LIVERPOOL!!!