beach
« LIVERPOOL: EVRÓPUMEISTARAR 2005!!! | Aðalsíða | Heimkoma »

26. maí, 2005
Dagurinn eftir... [eins konar leikskýrsla]

Þegar ég opnaði augun í morgun, þá sver ég að það eina sem ég heyrði var fuglasöngurinn fyrir utan gluggann, andardrátturinn í kærustunni við hliðina á mér, og fagnaðarlæti Liverpool-aðdáendanna frá því í gær. Já, hávaðinn í Atatürk-leikvanginum söng ennþá í eyrunum á mér í morgun, og í bland við frúna og fuglana þá var það eitthvert fallegasta hljóð sem ég man eftir að hafa heyrt.

Með öðrum orðum, eftir að hafa dreymt vel í nótt komst ég að því þegar ég vaknaði að þetta var ekki draumur. Við erum virkilega Evrópumeistarar! En hvernig gat þetta gerst? Í hálfleik vorum við 3-0 undir og það var nákvæmlega ekkert sem benti til þess hvað var framundan. Ég var búinn að afskrifa þetta í hálfleik, viðurkenni það fyllilega, enda skrifaði ég þetta í hálfleiknum:

Hvað er eftir? Rafa hlýtur bara að henda Cissé inná og láta slag standa í hálfleik, hann hlýtur að segja mönnum að spila seinni hálfleikinn bara upp á stoltið - betra að tapa 4-2 en 3-0 - og að rétta sinn hlut eins mikið og þeir geta. En þessi leikur er náttúrulega tapaður í hálfleik, þetta Milan-lið er allt of gott til að tapa niður þriggja marka forskoti á 45 mínútum.

Þvílík vonbrigði. Oh well, you’ll never walk alone, og okkar menn læra vonandi af reynslunni.

Hefði átt að vita betur. En rennum aðeins yfir þetta.

Fyrri hálfleikurinn fór 3-0 fyrir Milan, og hefði í raun getað endað stærra. Rafa tók þá ákvörðun að setja Kewell inn í liðið og hafa Dietmar Hamann á bekknum, en við fengum í raun aldrei að sjá hvort það hefði borgað sig taktískt eða ekki, því á innan við mínútu voru Milan-menn komnir yfir. Traoré, sem var ein taugahrúga í fyrri hálfleik, gaf klaufalega aukaspyrnu eftir 30 sek og Pirlo sendi hann stuttan inn í teiginn, þar sem Maldini sjálfur kom aðvífandi og negldi hann inn.

Rúmum hálftíma seinna áttum við að fá víti þegar Nesta stöðvaði gabbhreyfingu Luis García í teignum með handleggnum, en í staðinn lét dómarinn leikinn halda áfram og þeir náðu skyndisókn - Kaká spilaði Schevchenko innfyrir vörnina (aftur var Traoré í rugli) og hann gaf fyrir, þar sem Crespo rúllaði boltanum yfir línuna. Þremur mínútum síðar gaf Cafú frááábæra sendingu innfyrir á Crespo sem tók hann í fyrsta, og chippaði honum yfir öxlina á Dudek. 3-0 í hálfleik, game over.

Taktískt, þá held ég að Benítez sé ekkert endilega undanskilinn gagnrýni fyrir fyrri hálfleikinn. Miðað við það sem við sáum í síðari hálfleik, þá voru það mistök að hafa Hamann ekki inná frá byrjun, en eins og Gordon Strachan sagði í Guardian í morgun þá á ekki að dæma Rafa frá því hvernig hann stillti upp í byrjun leiks, heldur því hvernig hann brást við. Taktíkin hans í fyrri hálfleik fékk aldrei færi á að virka, þeir voru búnir að skora eftir mínútu og eftir það fór Plan A út um þúfur - því munum við aldrei í raun vita hvort að Kewell hefði getað skilað því sem þurfti í leiknum, þar sem leikurinn var varla byrjaður þegar hann breyttist.

Kewell fór síðan útaf meiddur eftir rúmar 20 mínútur, eftir mjög augljóst samstuð. Jú, ég neita því ekki að hann var meiddur og mjög, mjög svekktur yfir því að þurfa að yfirgefa völlinn strax (skil hann vel) en samt var eitthvað svo týpískt í því að þetta væri Kewell sem skyldi meiðast. Held að hann eigi bara að drífa sig í aðgerð í sumar og reyna eftir megni að jafna sig á öllum meiðslum - líkamlegum sem og andlegum - því ef hann ætlar að eiga sér framtíð hjá Liverpool þá verður hann að byrja ágústmánuð af krafti. Ekkert minna dugir.

En allavega, Smicer kom inná en hafði hljótt um sig eins og í raun allt liðið fram að hálfleik. En ó, hvað það átti eftir að breytast…

Seinni hálfleikurinn tilheyrði Liverpool algjörlega. Rafa breytti í hálfleik, setti Hamann inn fyrir Finnan sem þurfti að fara af velli meiddur, en hann gerði líka breytingar á taktík. Hann fór í 3-5-2 með Carra og Traoré sitt hvorum megin við Hyypiä, Riise og Smicer í vængbakvörðum og Hamann, Gerrard og Alonso á miðjunni. García var síðan nánast framherji með Baros.

Hvað gerðist? Jú, Hamann átti einfaldlega stórleik á miðjunni, því hann ekki aðeins át Kaká og það svæði sem Milan höfðu sótt aðallega í gegnum í fyrri hálfleik, heldur losaði hann Alonso og Gerrard úr ánauð. Þegar þeir þurftu ekki lengur að sinna Kaká og hafa áhyggjur af svæðinu fyrir aftan sig, blómstruðu þeir! Gerrard var stórkostlegur, ég hef sjaldan séð annað eins frá honum og síðari hálfleikinn, og Alonso tók stjórnina á spilinu eins og honum einum er lagið. Það að þeir skoruðu báðir í þessum leik var engin tilviljun.

Eftir kortér var maður orðinn hás, við vorum búnir að jafna í 3-3. Gerrard hóf endurkomuna með frábærum skalla, svo átti Smicer frábært langskot sem Dida náði ekki alveg að verja og svo fékk Gerrard vítaspyrnu - eftir frábæran undirbúning García og Carragher - sem Alonso lét verja frá sér, en skoraði úr frákastinu. 3-3, og leikurinn í fullum gangi.

Eftir það vorum við með yfirburði á vellinum, en þeir fjöruðu svo smám saman út. Síðustu 10 mínútur leiksins eða svo fóru eiginlega bara í miðjuþóf, og bæði lið voru sennilega sátt við framlengingu þegar flautan gall.

Framlengingin var síðan jöfn, en þó meira Milan-megin. Það var greinilegt að það þurfti mikla orku hjá okkar mönnum til að jafna leikinn, því þeir voru bara búnir í framlengingunni. Milan-liðið reyndi af veikum mætti að sækja en áttu ekki mikla orku eftir sjálfir, og á endanum fjaraði þetta einhvern veginn bara út. Það var þó ótrúlegt að sjá Dudek verja frá Schevchenko - tvisvar - undir lok framlengingarinnar minnir mig. Þetta var einhver svakalegasta markvarsla sem ég hef séð, veit ekki ennþá hvernig hann fór að þessu, og þá fyrst fór mann að gruna að okkur væri ætlað að sigra í þessum leik!

Vítaspyrnukeppnin, og maður var varla búinn að segja ‘Ómar Ragnarsson’ þegar Serginho var búinn að skjóta yfir og Dudek búinn að verja frá Pirlo. 2-0 fyrir okkur og í raun var eftirleikurinn auðveldur. Þetta var bara spurning hver þyrfti að skora úr síðustu spyrnunni okkar, eða hvort að til þess þyrfti að koma. Og hvað gerðist? Jú, hetjan okkar í gær var Jerzy Dudek. Þótt liðið eins og það lagði sig hafi verið ömurlegt í fyrri hálfleik, og frábært í þeim seinni, þá held ég að öðrum fremur hafi sigurinn í gær tilheyrt Jerzy. Pólverjinn bjargaði okkur með ótrúlegri markvörslu frá Sheva í framlengingu og varði síðan tvær vítaspyrnur - og tók Milan-menn almennt séð á taugum í hverri einustu spyrnu - og á því fyrir vikið skilið að vera valinn MAÐUR LEIKSINS fyrir mér. :-)

Bara að sjá hann dansa Grobbelar-dansinn í hverri spyrnu - reyndar frekar fönkaða útgáfu af þeim dansi - var frábært, ég veit ekki hvert pabbi ætlaði þegar hann gerði það. Þetta voru einfaldlega örlög okkar, og hans, að vinna þessa vítaspyrnukeppni og lyfta þessari dollu!

Þegar öllu er á botninn hvolft þá tilheyrir þessi bikar miklu fleiri mönnum en bara þeim sem léku leikinn í gær. Þeir 14 sem spiluðu í gær, sem og þeir fjórir sem komu ekki inná af bekknum, og allir hinir níu sem léku í Meistaradeildinni fyrir liðið í vetur. Emlyn Hughes, sem lést í haust, þeir 39 sem létu lífið á Heysel-leikvanginum fyrir 20 árum í síðasta úrslitaleik Liverpool, þeir 96 sem létust á Hillsborough fyrir 16 árum síðan, Gérard Houllier sem “átti” alla nema tvo leikmenn liðsins sem hóf leik í gær, og síðast en alls ekki síst Rafael Benítez - sem fer nú á spjöld sögunnar sem goðsögn í lifanda líki hjá Liverpool FC.

Hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir leikmenn Liverpool? Stevie G fer ekki neitt, en hvað hina varðar verðum við bara að bíða. Við Einar pælum betur í því seinna, en nú skiptir máli að fagna. Jerzy Dudek verður kannski farinn í sumar og José Reina kominn í markið í hans stað, en það skiptir engu máli - í dag er Dudek hetjan okkar, riddarinn með hvítu hanskana! Og Vladimir Smicer, Dietmar Hamann, Igor Biscan, Milan Baros, þeir eru líka hetjur dagsins! Hver svo sem fer í sumar, þá eru þeir Liverpool-leikmenn í dag og við skulum hylla þá!

Þeir eru jú einu sinni EVRÓPUMEISTARAR Í KNATTSPYRNU ÁRIÐ 2005! smile

.: Kristján Atli uppfærði kl. 12:09 | 1404 Orð | Flokkur: Leikskýrslur
Ummæli (20)

Það er ein í boði á vef bbc. Hér er slóðin. http://news.bbc.co.uk/sol/shared/spl/hi/football/05/champions/wallpaper/html/wallpaper.stm Hefði hátéemmellað þetta ef ég fyndi hornklofa á þessu fartölvulyklaborði.

Haddi Thor sendi inn - 26.05.05 21:17 - (Ummæli #15)

Hér er góð hljóðskrá með brotum úr leiknum.
http://www.soundclick.com/bands/7/mrblast_music.htm
Skráin sem velja þarf er "radio 1 lfc track", einnig þarf að skrá sig inn í kerfið en það er þess virði.

Tók tenglana af YNWA.tv

Siggi Guð sendi inn - 27.05.05 01:02 - (Ummæli #19)
Senda inn ummæli

Athugið að það tekur smá tíma að hlaða síðuna aftur eftir að ýtt hefur verið á "Staðfesta".

Hægt er að nota HTML kóða í ummælunum. Hægt er að nota a href, b, br, p, strong, em, ul, li og blockquote

Við áskiljum okkur allan rétt til að eyða út ummælum, sem eru á einhvern hátt móðgandi, hvort sem það er gagnvart stjórnendum síðunnar eða öðrum. Þetta á sérstaklega við um nafnlaus ummæli.








:smile: :biggrin: :biggrin2: :blush: :confused: :laugh:

:mad: :rolleyes: :shock: :sad: :tongue: :wink:

Ummæli:


Muna upplýsingar?




Flokkar

Almennt · Auglýsingar · Enska bikarkeppnin · Enski Boltinn · Fjölmiðlar · HM 2006 · HM Félagsliða · Kannanir · Landslið · Leikmannakaup · Leikmenn · Leikskýrslur · Leikvangur · Liðsuppstilling · Liverpool · Meiðsli · Meistaradeild · Myndbönd · Sjónvarp · Slúður · Topp10 · Um síðuna · Upphitun · Vangaveltur · Veðmál · Þjálfaramál ·

Um Síðuna

Um Síðuna

Um höfundana

Aggi

Einar Örn

Hjalti

Kristján Atli

Sigursteinn

Síðustu leikir

·L'pool 1 - Blackburn 1
·Bolton 2 - L'pool 0
·Liverpool - Galatasary 3-2
·Liverpool 3-0 Tottenham
·L'pool 2 - N'castle 0

Síðustu Ummæli

Kiddi: Sá þetta á ynwa, en þangað kom það víst ...[Skoða]
Siggi Guð: Hér er góð hljóðskrá með brotum úr leikn ...[Skoða]
Kristján Atli: Ég þakka hrósið allir, og takk fyrir frá ...[Skoða]
Aggi: Hrósinu verður ekki ausið nógu mikið á y ...[Skoða]
Siggi Guð: Mæli með að hver einasti maður nái í eft ...[Skoða]
Haddi Thor: Það er ein í boði á vef bbc. Hér er slóð ...[Skoða]
Garon: + n :-) ...[Skoða]
Garon: Veit einhver hér hvað þetta er að gera í ...[Skoða]
Stjani: Fyrst og fremst vil ég óska öllum stuðni ...[Skoða]
Svavar: Gerrard fer ekkert, hef það svooooo á ti ...[Skoða]

Síðustu færslur

· Bordeaux á morgun!
· Gerrard meiddur
· L'pool 1 - Blackburn 1
· Liðið gegn Blackburn
· Rafa ber fullt traust til Reina.
· Blackburn á morgun

Tenglar

Einar :: EOE.is

Kristján Atli.com


NewsNow Liverpool

SKY

Liverpool Echo

BBC

Liverpool (official)

YNWA spjallborð

RAWK spjallborð

Soccernet

The Guardian

Daily Telegraph

Independent

LFC History

Liverpool.is

This Is Anfield

UEFA


Staðan í ensku

Tölfræði í ensku


The Liverpool Way Blog

RAWK blog

Kop Blog




Við notum
Movable Type 3.2

Efni þessarar síðu er birt undir skilmálum frá Creative Commons.

Creative Commons License