Englandsmeistararnir heimsækja Brighton

Það er komið að þriðja leiknum hjá hinum rauðklæddu (ókrýndu enn sem komið er) Englandsmeisturum eftir að titillinn var í höfn. Vorum við búin að minnast á að Liverpool varð enskur meistari eftir 30 ára bið? Ég er ekki viss um að það hafi komið nægilega oft fram.

Nú skal haldið í heimsókn til Brightonborgar og knúið dyra hjá bláliða-heimamönnum. Það kann að hljóma undarlega að byrja á að lýsa yfir áhyggjum enda var liðið okkar að tryggja titilinn á mettíma, því ekkert lið hefur tryggt sér nafnbótina með jafn margar umferðir óspilaðar. En ef við rýnum aðeins í tölurnar, þá sést að útivallaform okkar manna hefur nú kannski ekki verið neitt hoppandi frábært. Það er alveg óþarfi að rifja upp hvernig síðasti útileikur fór, við skulum bara segja að þar hafi þynnkan haft yfirhöndina. Þar á undan kom fyrsti leikurinn eftir Covid hlé, borgarslagur á Goodison Park sem endaði með markalausu jafntefli. Við þurfum svo að leita aftur til 29. febrúar til að finna næsta útileik, en sá leikur var gegn hinum gulklæddu Watford mönnum og endaði með 0-3 tapi (það fyrsta á leiktíðinni!). Það þarf því að fara aftur til 15. febrúar til að finna útileik í deildinni þar sem Liverpool tókst að skora, í leik gegn Norwich sem lauk með 0-1 sigri eftir mark frá Sadio Mané. Semsagt: ekkert útivallarmark í deild síðan um miðjan febrúar. Það er júlí, bara ef einhver skyldi ekki hafa áttað sig á því.

Ekki það að manni finnist líklegt að markaþurrðin haldi áfram út í það óendanlega. Þó svo að titillinn sé tryggður þá eru nokkur skotmörk ennþá í sigtinu:

Það stærsta þeirra hlýtur að vera stigamet City sem þeir settu fyrir tveim árum með því að fá 100 stig á leiktíðinni 2017-2018. Þetta stigamet getur Liverpool bætt, en verður þá að vinna a.m.k. 4 leiki af þessum 5 sem eru eftir (nú eða vinna 3 og gera 2 jafntefli, en þá verður metið bara jafnað en ekki slegið). Og þar sem 3 af þessum 5 leikjum sem eru eftir eru á útivelli (Brighton, Arsenal, Newcastle), þá einfaldlega verður liðið að fara að skora ef þetta á að ganga eftir. Svo er annað met sem væri gaman að slá, en það er mesti munur á milli 1. og 2. sætis. Í dag stendur það met í 19 stigum, og ef vel gengur ætti að takast að slá það, sérstaklega í ljósi þess hversu vel (illa) City mönnum gengur að vinna fleiri en 2 leiki í röð (hint: það hefur ekki enn tekist á þessu tímabili hjá þeim). Eins spilar þar inn í að Liverpool er með 23ja stiga forystu á toppi deildarinnar sem stendur, og því eru líkurnar ekkert alslæmar að það takist að slá það met.

Önnur met sem liðið gæti slegið eru smávægilegri: flestir sigurleikir á einni leiktíð, flestir sigurleikir á heimavelli og fleira þess háttar, sum hver sem munu nást sjálfkrafa ef stigametið á annað borð næst úr þessu. Ég er nokkuð viss um að Klopp er alveg með stigametið á bak við eyrað, en svo á hinn bóginn vill hann líka spila nokkrum leikmönnum í gang. Þar erum við að tala um menn eins og Minamino sem er til þess að gera nýkominn til liðsins og er ekki enn farinn að sýna almennilega hvað í honum býr, nú og svo kjúklingana okkar: Jones, Elliott, Williams, jafnvel Hoever.

Curtis Jones var jú að skrifa undir nýjan samning á laugardaginn og fagnaði því með sínu fyrsta deildarmarki daginn eftir. Harvey Elliott var að skrifa undir sinn fyrsta atvinnumannasamning við félagið, en hann varð 17 ára í apríl og mátti því ekki skrifa undir slíkan samning fyrr en þá. Neco Williams hefur verið að fá mínútur í lok síðustu þriggja leikja, og planið er sjálfsagt að gefa þessum strákum nægilega margar innáskiptingar þannig að þeir fái medalíu. Það er svo einna helst spurning hvað gerist varðandi varamenn í miðvarðarstöðurnar. VVD og Gomez eru auðvitað sjálfvaldir í byrjunarliðið á meðan þeir eru heilir, en í augnablikinu er Matip frá út þessa leiktíð og Lovren er víst að glíma við eitthvað smá hnjask. Það er því ekki loku fyrir það skotið að við sjáum Hoever á bekknum á miðvikudaginn. En hvort hann nái nægilega mörgum leikjum til að eiga medalíu er svo kannski annað mál. Einhver hvíslaði að liðið gæti í reynd úthlutað vissu magni af medalíum burtséð frá leikjafjölda, ég sel það ekki dýrara en ég keypti. Það gæti semsagt þýtt að Lonergan endi með medalíu í vasanum.

Það hvernig liðinu verður stillt upp ræðst af nokkrum þáttum. Ef leikmenn eru tæpir fyrir verða örugglega ekki miklir sénsar teknir, þannig er t.d. Robbo eitthvað tæpur þó svo hann vilji meina sjálfur að hann geti leikandi spilað næsta leik, bara verst að Milner er líka að koma til baka úr meiðslum og fleiri varaskeifur liggja ekki á lausu. Álagið er svo talsvert um þessar mundir, núna er spilað á 3ja daga fresti og því nauðsynlegt að rótera eitthvað. Og svo að lokum þetta með að gefa þeim leikmönnum sem minna hafa spilað séns á að spila sig í gang og spila sig inn í plönin hjá Klopp. Er það mikilvægara heldur en stigametið? Tökum líka eftir því að þetta tvennt þarf alls ekki að útiloka hvert annað. En það er alveg ljóst að Klopp er nú þegar farinn að horfa til næsta tímabils, og vill geta komið eins sterkt inn í það tímabil eins og hægt er. Það verður lítil pása á milli 19/20 annars vegar og 20/21 hins vegar, og því full ástæða til að gefa þeim leikmönnum okkar sem mest hefur mætt á aðeins slaka núna yfir hábjargræðistímann.

Þetta gæti þýtt að leikmenn eins og Salah fái aðeins meiri pásu, en hafi það einhverntímann verið óljóst hversu mikilvægur liðinu hann hefur verið, þá vonum við að slíkt sé komið á hreint núna. Salah náði semsagt upp í 100 mörk + stoðsendingar í deild með skallanum á Curtis Jones í gær, og varð þar með sá leikmaður í ensku deildinni sem nær því takmarki í fæstum leikjum. Spáið í það. Við erum að horfa á leikmann sem mun enda í sögubókum Liverpool, megi hann vera hér sem lengst. Eins vonum við að Mané fái líka einhverja hvíld, en mark hans um helgina var 50. markið á Anfield fyrir Liverpool, og hann hefur sjaldan verið mikilvægari. Þeir eru auðvitað báðir í harðri baráttu um gullskóinn, og eru þar að slást við alveg sæmilega markaskorara: Jamie Vardy, Pierre-Emerick Aubameyang og Danny Ings. Það kæmi því lítið á óvart þó þeir tveir vilji fá sem allra flestar mínútur til að auka líkurnar að krækja í gullskóinn.

Klopp róteraði 3 mönnum frá sínu sterkasta liði í gær, og við skulum gera ráð fyrir að það verði eitthvað svipað uppi á teningnum á miðvikudaginn. Prófum að stilla þessu svona upp:

Ég geri mér grein fyrir því að ég er að lifa hættulega með því að segja að bæði Jones og Elliott byrji. Líkurnar á því að annar byrji eru ekki miklar, hvað þá báðir. En hei, ef það er ekki tilefni til að lifa hættulega núna, hvenær þá?

Ég bið svo ekki um mikið út úr þessum leik. Bara 3 stig, ekkert mark fengið á sig, mínútur fyrir kjúllana, og mark eða mörk hjá Salah og Mané svo þeir toppi listann um markakóngstitilinn. Jú og að það sleppi allir heilir frá leiknum.

KOMA SVO!!!

2 Comments

  1. Það er frábært einmitt á þessu tímabili að vinna titilinn svona snemma í leikjadagskránni einmitt vegna þess að það verður svo stutt á milli tímabila. Við, eitt liða, getum leyft okkur þann munað að hvíla leikmenn og koma öðrum í gang og stýrt almennt álaginu betur en önnur lið og undirbúið næsta tímabil. Það er mikilvægara en stigametið en djöfull væri samt sætt að ná því!

    4
  2. En ef við hefðum nú náð því að hanga inni í enska bikarnum og Meistaradeildinni eins og t.d. City, hvað þá? Það hefði nú verið meiri reisn yfir því en því miður… látum þann stóra duga 😉

    1

Liverpool 2-0 Aston Villa

Gullkastið – Afslappaður endasprettur