Á sama tíma eftir 4 ár

Núna nýlega birtist þessi mynd á Reddit. Hún sýnir hópinn eins og hann leit út fyrir tímabilið 2013-2014. Það sem er athyglisvert er að af öllum þessum hópi manna þá eru aðeins fjórir leikmenn eftir: Henderson, Sturridge, Mignolet og Flanagan. Aðrir eru hættir, hafa verið seldir, nú eða reknir. Og ef við skoðum þessa fjóra sem eftir standa, þá er Sturridge mögulega á leiðinni til Ítalíu, sama gæti átt við um Mignolet, Flanagan líklega á leið í grjótið, og í raun bara Henderson sem gæti mögulega átt einhverja framtíð hjá klúbbnum. Þetta eru því allsvakaleg umskipti á ekki lengri tíma.

Þá spyr maður sig: hvernig verður staðan eftir 4 ár? Undirritaður ákvað því að spyrja lesendur /r/LiverpoolFC hvaða leikmenn þeir teldu að yrðu enn í liðinu eftir 4 ár, þ.e. í janúar árið 2022. 16 svöruðu með afgerandi hætti, og að meðaltali voru um 8.6 leikmenn nefndir í hverju svari. Það er semsagt reiknað með að heldur fleiri verði enn til staðar eftir 4 ár heldur en eru núna fjórum árum eftir 2013/2014 tímabilið ágæta. Mögulega skýrist það af því að fólk telji líklegra að nú séum við með stjóra sem verði e.t.v. enn við stjórnvölinn eftir þennan tíma, eða hugsanlega að fólk telji meðalaldurinn vera þannig að leikmenn séu komnir til að vera. Ein skýring gæti líka verið sú að fólk telji að leikmannakaupin síðustu árin hafi e.t.v. verið gáfulegri heldur en árin þar á undan.

En hverjir gætu svo þessir 9 leikmenn verið? Þessir fengu a.m.k. flest atkvæði:

  1. Virgil van Dijk – 15 stig
    Já flestir telja að við séum komin með framtíðarleikmann með nýjustu kaupunum. Þarf kannski ekki að koma á óvart.
  2. Trent Alexander-Arnold – 14 stig
    Fólk virðist hafa litla trú á því að Scouserinn okkar sé að fara neitt annað.
  3. Alex Oxlade-Chamberlain – 14 stig
    Fólk hefur trú á því að Chambo muni reynast okkur vel, því tæpast væri hann enn á staðnum annars eftir 4 ár? Ég held að síðustu vikur hafi sýnt okkur að hann hefur allt til að bera til að vera a.m.k. næstu 4 ár hjá klúbbnum.
  4. Joe Gomez – 13 stig
    Fólk virðist líta svo á að vörnin okkar sé komin til að vera, og þrátt fyrir að Joe okkar hafi verið ögn mistækur eru líkur á að hann muni læra með tímanum og verða bæði öflugur og mikilvægur í vörninni.
  5. Bobby Firmino – 11 stig
    Hver veit, kannski verður gerður við hann samningur til lífstíðar? Margir virðast a.m.k. vera á því að þessi litríki (*hóst* gul spjöld fyrir fagnaðarlæti *hóst*) framherji okkar verði hér áfram. Sumir tala jafnvel um hann sem mögulegan fyrirliða.
  6. Andy Robertson – 9 stig
    Skotinn með stállungun er búinn að vera að vinna sig inn í hjörtu Liverpool stuðningsmanna á síðustu vikum, og margir vilja sjá hann hér til langframa. Segir ekki sagan líka að Liverpool vinni aðeins titil með Skota innanborðs?
  7. Joel Matip – 7 stig
    Eins og áður sagði virðist fólk líta svo á að vörnin okkar sé orðin bara ágætlega mönnuð, og telja að Matip verði áfram innanborðs næstu 4 ár.
  8. Naby Keita – 7 stig
    Keita er vissulega ekki opinberlega orðinn Liverpool leikmaður, en það voru engu að síður margir sem nefndu hann.
  9. Ben Woodburn – 7 stig
    Þó svo að prinsinn af Wales hafi fá tækifæri fengið í vetur, þá megum við ekki gleyma að hann er aðeins 18 ára (verður 19 á árinu), og verður því aðeins 22ja ára í janúar 2022.

Næstu menn inn voru Mané með 6 stig, Clyne og Winjaldum með 4, Karius, Moreno og Solanke með 3 og aðrir minna. Áhugavert fannst mér hve fáir reiknuðu með að Salah yrði hér eftir 4 ár. Þá voru leikmenn eins og Mignolet, Lovren, Milner, Can, Sturridge, Ward, Flanagan og Markovic ekki nefndir á nafn.

Einhver grínistinn nefndi Griezmann, og Klavan var einusinni nefndur á nafn, og þá sem sá sem hefði tekið við Klopp sem knattspyrnustjóri liðsins. OK mögulega var ekki full alvara að baki öllum svörunum.

Hér er að sjálfsögðu aðeins um framtíðarpælingar að ræða, og tíminn einn mun leiða í ljós hve stór hluti hópsins verður enn til staðar eftir 4 ár. Persónulega telur greinarhöfundur að það muni skipta miklu hvort Klopp haldi áfram með hópinn, eða hvort það verði skipt um knattspyrnustjóra á miðri leið (sem vonandi gerist ekki!)

Að lokum væri gaman að sjá hvað lesendur kop.is halda í þessum efnum. Hvaða leikmenn sjáið þið fyrir ykkur í liðinu í janúar árið 2022? Setjið endilega ykkar pælingar í athugasemdir. Við skoðum svo niðurstöðuna að fjórum árum liðnum.

28 Comments

  1. Clyne – Kemur með stöðugleika í liðið en verður notaður sem backup fyrir TAA eftir 2-3 ár.
    Gomez – Gæti verið sá sem spilar með VVD í miðverðinum eftir 4 ár. Ungur og efnilegur.
    TA-Arnold – Einn af efnilegustu scouserum til að koma upp síðan Gerrard. Verður orðinn númer 1 í hægri bak eftir 2-3 ár.
    V. Van Dijk – Besti miðvörður sem hefur verið keyptur síðan Hyypia var stolið á 2.5m.
    Robertson – Hrikalega efnilegur og spennandi, verðum að hafa amk einn skota.
    Wijnaldum – Verður sennilega bara squad player eftir 4 ár en hef trú á að hann verði áfram.
    Chamberlain – Á eftir að njóta sín hjá Liverpool og fer ekkert í bráð.
    Can – Vona að hann skrifi undir nýjan samning og ef það gerist verður hann lengi og mikið notaður hjá Klopp.
    Mane – Hann á eftir að finna sitt gamla form og verður öflugur í sóknarlínunni.
    Firmino – Verður orðin goðsögn hjá Liverpool eftir 4 ár ef Klopp verður ennþá við stjórnvölin.

    Svo verður að sjálfsögðu Keita sem er tæknilega séð ekki orðinn leikmaður Liverpool og auðvitað einhverjir kjúklingar ennþá eins og Woodburn og fleiri.

    Einnig held ég að Klopp verði þarna áfram eftir 4 ár ásamt einhverjum nýjum bikurum 😉

  2. Sælir félagar

    1) T.A.Arnold, V.vDijk, R.Firmino, A.Robertson, N.Keita, A.O.Chamberlain, S.Mané, M.Salah og svo L.Karius. Þetta eru þeir leikmenn sem ég held að Klopp muni halda hvað sem tautar og raular, allir nema ef til vill Karius ef hann stendur ekki undir því trausti sem Klopp leggur á hann.

    Þessi spá mín byggist á því að Liverpool sé hætt að selja sína bestu menn eins og Coutinho salan var gerð með hangandi hendi þar sem leikmaðurinn vildi fara hvað sem öllu öðru leið. Ég held að þessir leikmenn sem ég tel upp þarna vilji vera og verði hluthafar í meistaraævintýri Liverpool á komandi árum. Karíus set ég þarna því Klopp hefur trú á honum og þá trúi ég.

    2) Þeir menn sem hafa spilað leiki í vetur ég held að verði ekki þarna í framtíðinn vegna þess að þeir hafa verið seldir fljótlega eða eru og verða ekki nógu góðir fyrir meistaralið Liverpool eru til dæmis E.Can, J.Matip, N.Clyne, J.Gomes, G. Wijnaldum, J.Henderson, D.Sturridge, J.Milner, D.Solanke, A.Bogdan, D.Ings og ef til vill fleiri. Þarna sé ég mest eftir Ings því ég hefi alltaf haft mikla trú á honum en meiðslasaga hans hefir farið ferlega með þann dreng.

    3) Ég hefi líka grun um að A.Lallana, A.Moreno, D.Lovren, D.Ward, O.Ejaria, J.Gomez, N.Clyne, G.Wijnaldum og ef til vill fleiri verði í liðinu sem liðsmenn til skiptinga osfrv og stundum byrjunarliðsmenn eftir atvikum. Ath. Sumir leikmenn eru bæði í hópi 2 og 3.

    Inn í liðið eiga svo eftir að koma einn til þrír á hverju ári sem munu reynast klassaleikmenn og líklega koma einn til tveir í sumar en enginn núna í janúar nema Vv.Dijk. Þannig að liðið eins og það er í dag er það lið sem Klopp treystir til að ná amk. meistaradeildarsæti og ef til vill 2. til 3. sætinu.

    Það er nú þannig

    YNWA

  3. Skemmtilegar pælingar.

    Mér finnst þetta sýna að Klopp þurfi að fá 300 millur til að versla sem fyrst 3-4 heimsklassamenn. Árangurinn mun ekki láta á sér standa þá.

    Það þarf að koma á hefð á Anfield þegar leikmenn eru kynntir. Kynna þá fyrir framan 20-30 þúsund manns og selja treyjur og tekjur fara þá að tikka strax á móti vaxandi kostnaði.

  4. Minn listi er:
    Oxlade-Chamberlain – Sé hann sem framtíðar fyrirliða vonandi hjá Liverpool næstu 8-10 ár.
    Virgil van Dijk – Solid miðvörður
    Moreno – Komið sterkur inn og er ungur og verður góður næstu árin.
    Robertson – Sama og með Moreno, tel að þeir verði tveir um vinstri bakvörðinn næstu árin.
    Wijnaldum – Held að hann muni skila hlutverki sem góður squad player.
    Klopp og félagar verða líka amk næstu 4 árin held ég.

  5. Já og TAA, gleymdi honum held að Gomez eigi séns líka á að vera áfram en er ekki eins viss um hann.

  6. Hvað helduru Daníel að sé að frétta af E.Can?

    Það virtist eins og hann hefði ákveðið að fara til Juventus en núna eru fréttir að hugsanlega verði hann um kyrrt. Ætli viðsnúningurinn sé liðinu að þakka? Van Dijk mættur, Uxinn kominn í gang og liðið almennt að stimpla sig svolítið inn eftir að það leit út fyrir að liðið ætti ekki breik í Manchester liðin á tímabili.

    Það kæmi mér ekki á óvart ef bæði Manchester liðin, Chelsea og allir fari á eftir honum. Sterkur leikmaður á besta aldri sem er samningslaus. Þau eru öll að fara borga honum miklu meira heldur en Juventus.

    Vonandi er hann orðinn góður púllari og skrifar undir eða heldur til meginlandsins.

  7. Ég veit auðvitað nákvæmlega jafn mikið/lítið um stöðuna á Emre Can og hans samningsmálum eins og hver annar.

    Ég hef persónulega sveiflast svolítið með hann sem leikmann. Er hann að koma með það sem þarf til liðsins? Er hann nógu góður? Ég hef ekki verið viss, en í augnablikinu (og þá sérstaklega eftir frammistöðuna á móti City), þá vil ég að hann skrifi undir og verði áfram Liverpool leikmaður. Ef það er einhver vitglóra í kollinum á honum þá áttar hann sig á því að það er hvergi betra að vera.

  8. Mjög áhugaverðar pælingar, hef skoðað þetta út frá svipuðum vinkli áður, þá hversu rosaleg leikmannaveltan hefur verið undanfarin ár. Óstöðugleikinn kemur að rosalega miklu leiti í kjölfar þess að enginn stjóri hefur náð meira en þremur tímabilum með Liverpool á þessum áratug. Fjórir mjög mismunandi stjórar sem allir hafa mjög ólíkar áherslur. Það er svo þrisvar sinnum búið að skipta út þeim sem hafa yfirumsjón með innkaupum síðan FSG keypti félagið. Það er því ekki að undra eftir á að hyggja að staðan sé svona. Liðið sem FSG keypti var komið á endurnýjun og hún var ekki nógu markviss(góð) fyrstu 4-5 árin, við sjáum það núna. Eins er auðvitað búið að selja nokkra af þeim sem við hefðum gjarnan viljað hafa ennþá.

    En byrjum á þessu, hvernig hefðum við svarað þessu í janúar 2014?

    Markmenn
    Mignolet, líklega hefðum við giskað á að hann yrði hérna ennþá (ekki viss um að við hefðum giskað á það í janúar 2015, 2016 og 2017).
    Brad Jones 32 ára var aldrei að fara endast hér í 4 ár.

    Bakverðir
    Vandræðastaða hjá Liverpool þá og Johnson 29 ára, Enrique 28 ára, Cissokho og Kelly voru aldrei líklegri til að endast mikið lengur. Líklega hefðum við hvað helst giskað á Flanagan sem vissulega er hérna ennþá en það er bara vegna þess að hann fékk of góðan samning eftir tímabilið 2014. Ekkert óeðlilegt við mikla veltu þarna.

    Miðverðir
    Toure, Agger og Skrtel hefðu líklega ekki fengið nein atkvæði. Sakho var líklega líklegastur enda þá 24 ára gamall og hörkuefni. Mikil velta þarna kemur ekki á óvart en við sjáum hérna hversu rosalega léleg vörnin (og markmenn) var árið 2014.

    Miðjumenn
    Hér hefði líklega enginn giskað á Luis Alberto og, Gerrard, eins var Lucas alls ekki samur og maður sá hann ekki endast eins lengi og hann gerði, enda var hann á leiðinni burt alveg frá 2014.
    Henderson er hérna enn og það var hægt að sjá það fyrir. Joe Allen var ekki stór partur af liðinu 2014 og klárlega ólíklegur til lengdar.

    Kantmenn
    Coutinho var klárlega maður framtíðarinnar og hefði maður vitað það eftir tímabil 2014 að Sterling yrði ekki hjá Liverpool eftir 4 ár hefði maður ekki tekið því vel. Svipað má segja um Jordon Ibe sem var þarna litlu minna efni en Sterling. Brottför Moses kom engum á óvart.

    Sóknarmenn
    Suarez var 27 ára þarna, auðvitað hefði maður vonast til að hann væri hérna ennþá.
    Ferill Sturridge síðan 2014 er eins og í hryllingsmynd, þetta gat ekki farið mikið verr og hann er hérna ennþá útaf því að hann fékk of stóran samning eftir þetta tímabil til að hægt væri að losa við hann.
    Aspas var alltaf líklegur til að stoppa stutt við, hefðu reyndar átt að halda honum frekar en Sturridge eftir á að hyggja.

    Líklega hefðu þetta því verið
    Mignolet – Flanagan – Sakho – Henderson – Coutinho – Sterling – Ibe – Sturridge og líklega Suarez. Aðeins 9 leikmenn og þrír af þeim voru seldir fyrir metfé í hvert skipti.

    Með því að skoða þetta svona er kannski hægt að meta betur hvað framtíðin virkar miklu bjartari hjá núverandi liði. Skoða það betur á eftir og svara þá spurningunni.

    Skemmtileg pæling Daníel, óttast að þú standir við það að skoða þetta eftir fjögur ár!

  9. Henderson má líka fara. Hann passar ekki í þennan hóp. Nú þarf Klopp að spreða i góðan markvörð og þá verður maður sáttur. Áfram Liverpool.

  10. Það verður spennandi að já hvernig núverandi hópur þróast, Klopp hreinsaði vel til hjá Dortmund þegar hann kom þangað en hélt sig svo að miklu leiti við sama kjarna ár eftir ár. Missti reyndar lykilmann/menn á nánast hverju tímabili.

    Hann verður vonandi ennþá stjóri Liverpool eftir fjögur ár og liðið stöðugt samhliða því. Það er ekki hægt að byggja upp stöðugt lið sem keppir á öllum vígstöðum ár eftir ár með sömu bull leikmannaveltunni og við höfum séð hjá Liverpool undanfarin ár.

    Markmenn
    Allir markmenn liðsins eru á fínum aldrei og ættu alveg að geta verið hér eftir fjögur ár. Sá eini sem ég held að verði hérna ennþá er samt Kamil Grabara, þessir fjórir sem eru í aðalliðshópnum núna verða líklega farnir á innan við tveimur árum. Karius er þeirra líklegastur til að vera hérna ennþá.

    Bakverðir
    Clyne er bara 26 ára og hefur aldrei verið í álíka meiðslavandræðum og hann er í núna. Ef hann næst sér ætti alveg að vera grunvöllur fyrir því að hann verði ennþá 2022. Trent Alexander-Arnold heldur vonandi áfram að þróast eins og hann hefur verið að gera. Hann fær stærra hlutverk strax á næsta tímabili spái ég. Efast samt um að hann verði bakvörður 2022.
    Robertson og Moreno eru svo vonandi laust Liverpool í vinstri bakvarðastöðunni a.m.k. næstu fjögur árin og vonandi lengur. Hvar er þakið hjá báðum þessum leikmönnum?

    Miðverðir
    Van Dijk er keyptur til að leysa þessa stöðu a.m.k. næstu fimm árin. Vonbrigði ef hann verður ekki ennþá leikmaður Liverpool 2022.
    Joe Gomez er líklega efnilegasti varnarmaður í heimi í sínum aldursflokki. Óttast meira að missa hann a la Coutinho, Sterling, Suarez eða í önnur meiðsli frekar en að hann verði ekki eins góður og efni standa til núna þegar hann er 20 ára.
    Matip ætti klárlega að eiga inni 4 ár en ég efast um að Lovren og alls ekki Klavan sé framtíð Liverpool. Lovren er reyndar með samning til 2022 ef ég man rétt.

    Miðjumenn
    Wijnaldum og Ox tippa ég að verði hérna ennþá, Henderson, Lallana, Milner og Grujic held ég að verði farnir. Vonandi semur Emre Can við Liverpool en ég held að hann verði farin í sumar. Ovie Ejaria efast ég um að nái í gegn hjá Liverpool.
    Naby Keita verður hinsvegar leikmaður Liverpool 2022.
    Af ungu leikmönnunum verða Dixon-Bonner eða Curtis Jones eins góðir þá og efni standa til nú.

    Sóknarmenn
    Firmino, Salah og Mané er sóknartríó sem ætti að vera toppa sem leikmenn næstu fjögur árin. Vonandi verða þó komnir nokkrir fleiri með þeim í sama klassa tilbúinir að taka við (eða búnir að því). Af þessum óttast ég að það verði mestur slagur að halda Salah einhverntíma á næstu fjórum árum (eðlilega).
    Solanke og Woodburn ná vonandi að springa út hjá Liverpool og eins og staðan er núna er klárlega hugsað þá til a.m.k næstu fjögurra ára á Anfield.
    Ings, Origi og Sturrisge verða allir farnir

    Mun fleiri núna sem maður trúir að verði hérna ennþá eftir fjögur ár en maður hefði líklega giskað á árið 2014.

  11. Coutinho sagði að hann er handviss um að Salah fari i Madrid!. Hver segir svona um klúbbinn sem maður elskar. Honum er greinilega drull sama um Liverpool. Hann er basicly að vonast eftir því að Salah fari i Madrid!!. Annars hefði hann aldrei sagt þetta. Mitt álit á coutinho er komið svipað langt niður og álit mitt á Mourinho.

  12. Klopp var að gefa það út að Liverpool eru ekki líklegir til að kaupa fleiri leikmenn en útilokar samt ekkert 🙁

    Maður var að vonast til þess að Liverpool væri að allaveg með eitt nafn í huga en sá leikmaður er líklega að fara til Arsenal núna ef marka má slúðrir frá Þýskalandi.

    Í sambandi við framtíðarliðið þá er líklegt að meiri en helmingur liðsins verður ekki til staðar eftir 4 ár en gott væri að hafa ákveðinn kjarna til staðar t.d Firminho, Ox, Van Dijk, Keita, Gomez, Woodburn, Trent og Winjaldum. Þarna eru þrír varnarmenn, þrír miðjumenn og sóknarmaður. Svo má skreita þetta með heimsklassa markmanni og markaskorara(tel að bæði Salah og Mane verða farnir).

    Ef Klopp verður þarna enþá eftir 4 ár þá verð ég mjög sáttur því að ég tel að bikarsafnið okkar hefur stækkað aðeins og liðið mun vera að berjast á toppnum við Man City, Man Utd, Chelsea og Arsenal (Tottenham verða komnir úr þessu eftir söluna á Kane og stjórinn þeira tók við af Mourinho hjá Man utd)

  13. Mér sýnist flest lið í efri hlutanum vera að panikka í messym janúarglugga nema Lpool, Tottenham og City, I wonder why.
    Hef engar áhyggjur held að við og Tottenham munum berjast um 2. sætið og Chelsea og b liðið í Manchester um það 4. ?

  14. Skoðum aðeins hvað er í gangi
    Man City lítið að gera enda óþarfi að breytta
    Man utd líklega að fá sterkan sóknarmann en það var nákvæmlega það sem þeim vantaði á kostan fyrir leikmenn sem var búinn að drulla á sig hjá þeim.
    Chelsea – þeir eru að panikka og þegar Crouch og Carroll eru nöfnin árið 2018 þá er liðið á niðurleið.
    Arsenal – missa sinn besta leikmann en ég tel að þeir verða sterkari við að fá Henrikh Mkhitaryan og Aubameyang. Klefinn stórbatnar og Mkhitaryan á eftir að springa út hjá liði sem pakkar ekki í vörn.
    Tottenham – lítið að frétta af þeim en ég reikna með að þeir komi með eina leikmanna sprengju(þeir gera það oft) sem fáir sáu fyrir.
    Liverpool – Fær loksins alvöru miðvörð en missir líklega einn af sínum fáu heimsklassaleikmönum(Setjum Firminho, Salah og Mane líka í þann hóp).

    Það á mikið eftir að gerast af þessu móti og okkar menn þurfa að halda sér vel á tánum ef við ætlum að ná í top 4.

  15. Það kæmi mér ekki á óvart að Karíus yrði besti markvörður heims eftir tvö ár.

  16. Kæmi ekki á óvart að Karius fengi 1-2 mörk á sig á móti Swansea og Klopp þyrfi að kyngja þessu rugli sem fyrst og setja Mignolet beint aftur í markið.

  17. Ég spái að Van Dijk, Gomez, Mane, Robertson, TAA, Keita, Chamberlain og Wijnaldum verði hjá okkur að fjórum árum liðnum. Og já líka Karius. Ég er ánægður að hann fái sénsinn en ég hef trú á að hann nýti tækifærið. Að gamni fór ég á Youtube og skoðaði vörslur hjá honum hjá Mainz frá 2014-2016 og verð að segja að margar þeirra eru mjög góðar.
    https://www.youtube.com/watch?v=_kRWj7LFfFo

  18. @16

    Það væri óskandi.

    En ég ætla að veðja fimmtíukalli á móti því…

  19. Ég styð ákvörðun Herr Klopp að gera Karius no 1. Kannski ekki betri en Migno en getur ekki verið verri.Bíðum og sjáum til.

  20. Er einhver með tölfræði yfir mörk fengið á sig í leik, Miggs vs Karius?

  21. Karius er ekki búinn að vera heilla mig neitt hann má þá alveg byrja á því takk fyrir.
    Er ekkert að segja ég sé helsáttur við Migno heldur en það er meiri reynsla hjá Migno og það getur talið að halda cool head þegar á þarf.

    En Klopp er búinn að margsanna og sýna að hann veit nákvæmlega hvað hann vill gera og hann er óhræddur við að gera hlutina sem manni finnst kanski akkurat á þeirri stundu ekki meika sens en kemur svo oftast í ljós að hann veit alveg hvað hann er að gera þannig vonandi gengur þetta upp með Karius

  22. það er gott að þetta sé komið á hreint. það er ekki gott að vera rótera markvörðum í sífellt, hef fulla trú á að Karius eflist við þetta.

  23. Arsenal búnir að losna við meinið í klefanum og unnu sinn leik
    Man utd unni sinn 50/50 leik þar sem heimamen voru nálagt því að fá að minnstakosti stig.
    Chelsea kláraði sinn leik á fyrstu 10 mín

    Okkar strákar þurfa að halda áfram og klára sinn leik á mánudaginn. Þetta var flott gegn Man City en við fáum jafnmörg stig að vinna Swansea. Vona að menn séu ekki í vanmats gírnum og komi af fullu krafti inn í þennan.

  24. Suarez Messi og Cutinio verða varaskeifur eftir að koma til liðs við liverpool í kjölfarið að Barca verði hent út ú spænsku deildinni og að verða gjaldþrota í kjölfar sjáfstæðis Katalóniu.

  25. Eins skemmtileg og þessi hugsanatilraun er þá í grunninn vill maður bara að þessir góðu verði áfram hjá okkur en að hinir fari.

    Hafandi sagt það þá hafa öll meistaralið einhver meðalmenni (m.a.s. Johnny Evans á þrjár englandsmeistaramedalíur!).

  26. Skemmtilegar pælingar. Takk fyrir þennan þráð og greinarstúf. Ef horft er yfir leikmannahópinn í dag og reynt að gerast spámannlegur þá er hægt að ímynda sér nokkra leikmenn sem verða ekki í hópnum eftir fjögur ár. Báðir markmenn – Mignolet og Karius koma upp í hugann strax! Henderson.. held hann sé því miður ekki sá framtíðarleiðtogi sem Liverpool þarf og verður seldur á þessu eða næsta ári. Sturridge að sjálfsögðu – þarf ekki að fleiri orð um það! Lovren.. ef Virgil van Dijk er sú naglkjölfesta í vörnina sem allir púllarar eru búnir að vera að bíða eftir þá er framtíð Lovren hjá félaginu senn á enda. Eitthvað segir mér að Mané verði ekki hjá Liverpool eftir fjögur ár.. bara tilfinning! Hef meiri trú á að Salah verði til frambúðar. Moreno verður farinn og Flanagan líka. Þá er myndin hér að ofan orðin öll grá! Og það verða örugglega fleiri farnir. Það er mikil hreyfing á leikmönnum í atvinnuboltanum og fjögur ár langur tími í því tilliti. Það verður gaman að skoða þetta aftur fjögur ár og sjá hvernig staðan verður þá. Stóra spurningin er nátttúrulega hvað gerist á þessum árum hjá Liverpool! Spái því að langþráður draumur rætist… það er að koma að þessu! 🙂

    YNWA

Varnartengiliðurinn í útrýmingarhættu?

Mánudagur í Wales.