Burnley á morgun

Gleðilega hátíð nær og fjær. Við erum öll væntanlega að springa úr áti og því ekki verra að hugsa um eitthvað annað en mat í smá stund; okkar menn heimsækja á morgun nýliða Burnley á Turf Moor-vellinum í Burnley. Þetta er átjánda umferð ensku Úrvalsdeildarinnar og að venju verða í boði þrjú stig. Enn fremur væri æskilegt að Liverpool hirti öll þrjú stigin að þessu sinni, það eru nú einu sinni jólin og svona.

Verandi nýliðar er spurning hvort við hefðum þurft að hlaða í upphitun á la Babú fyrir þennan leik en þar sem ég er ekki Babú og maðurinn sjálfur er búinn með risaupphitanakvótann (helvítis Meistaradeild) verður þetta að duga: BURNLEY er sjötíu og þrjú þúsund og fimm hundruð manna bær (plús mínus fæðingar & andlát per dag) í Lankaskíri norður-Englands, eða fyrir ofan Bolton eins og við vitringarnir orðum það gjarnan. Þetta lærði ég á Wikipedia og Google laug því að mér að það taki bara 63 mínútur að keyra á milli Anfield og Turf Moor. Laug segi ég því Google reiknar ekki með traffík og hún er verri í Englandi. Ekki verri en [insert name], bara verri almennt.

lfc_burnley

Nema hvað, Turf Moor er lítill og krúttlegur völlur á skala Úrvalsdeildarinnar, tekur tuttugu og eitt þúsund fjögur hundruð og eina manneskju í sæti auk Sean Dyche sem arkar hliðarlínuna og stýrir nýliðunum af stakri prýði. Það er jú ástæða fyrir því að lið sem er í fallsæti í Úrvalsdeildinni sé jafn stolt af knattspyrnustjóranum sínum og hér ber við, það átti nákvæmlega enginn von á því að Burnley Football Club færu upp í Úrvalsdeild fyrir ári síðan en á einhvern ótrúlegan hátt tókst Dyche að töfra það fram með minni buddu til leikmannakaupa en Liverpool eyðir í grasið á Anfield (nei, í alvöru). Meðal leikmanna má helst telja framherjana Danny Ings og Lukas Jutkiewicz og fyrirliðinn heitir Jason Shackell, nafn sem ég hef aldrei heyrt eða lesið áður, hvað þá séð spila knattspyrnu. Reyndar hef ég horft á nákvæmlega 75 mínútur með Burnley í vetur; fyrri hálfleik gegn Chelsea í ágúst þar til ljóst var að þeir ættu ekki breik í þá mótherja og svo drepleiðinlegan hálftíma gegn Manchester United í sama mánuði þar til ég ákvað að ég vildi frekar skúra gólfið en horfa á meira.

Engu að síður eru Burnley-menn með 15 stig en okkar menn með 22 stig; við erum sem sagt nær Burnley heldur en “Big” Sam Allardyce’s big boys of West fokking Ham í fjórða sætinu. Þannig að sýnd veiði en ekki gefin og allt það.

Af LIVERPOOL er það helst að frétta að það er lítið að frétta. Eigum við ekki bara að klára slæmu fréttirnar strax? Þetta eru jólin í fyrra vs jólin í ár:

B5oM4g7CQAEWvbW

Fokking úff. Við vitum öll hvað hefur gengið á og það er ástæðulaust að draga það allt aftur upp úr kjallaranum, ekki síst ef við viljum halda jólamatnum niðri aðeins lengur, en þetta er auðvitað langt því frá að vera nógu gott. Brendan Rodgers hefur varið gengið að undanförnu og sagt að aðeins eitt tap í síðustu átta leikjum bendi til bjartari tíma hjá Liverpool. Menn hafa skotið þau orð niður á flugi og minnt hann kurteislega á það á móti að liðið hefur aðeins unnið tvo af síðustu níu deildarleikjum og tapað fjórum þeirra sem er alls ek… æji nei þar fór jólasteikin. Sorrý.

Allavega, byrjunarliðið. Mario Balotelli er klár á ný eftir heimskulegasta leikbann síðari ára, og er þar af nógu að taka þegar enska knattspyrnusambandið á í hlut, en að öðru leyti er allt við það sama síðan liðið tapaði 2-2 gegn Arsenal um helgina (já, það var 2-2 tap, ekkert kjaftæði). Lovren, Allen, Johnson, Flanagan og … grátur … gnístan tanna … snökt … Sturridge eru ennþá meiddir þannig að ég sé lítið því til fyrirstöðu að liðið gegn Arsenal haldist óbreytt í þessum leik. Reyndar myndi ég garga á Rodgers að setja Mignolet aftur í markið ef ég héldi að hann gæti mögulega heyrt í mér – við erum nær öll sammála orðið um að Simon Mignolet er ekki nógu góður til að vera framtíðarmarkvörður Liverpool en hann er samt margfalt betri en Brad Jones – en engu að síður á ég von á að Jones greiði sér á milli stanganna enda myndarlegasti maður Úrvalsdeildarinnar (það er þó eitthvað).

Fyrir framan Jones eru Skrtel, Touré og Sakho sjálfvaldir á meðan Lovren er meiddur og eftir frammistöðurnar gegn Arsenal þætti mér skrýtið ef Henderson og Markovic verða ekki áfram á vængjunum. Nema ef Rodgers róterar í jólaösinni, þá þykir mér það ekkert skrýtið. Gerrard og Lucas verja vörnina og gera allt nema gefa á hvorn annan og fyrir framan þá ættu Coutinho, Lallana og Sterling að eiga nóg til að skora mörk gegn þessu Burnley-liði. Við verðum að vona það allavega þar sem Liverpool þarf yfirleitt að skora þrjú eða fleiri til að vinna knattspyrnuleiki á þessu ári.

Balotelli verður ferskur inn af bekknum og aðrir hita upp í hálfleik og hlusta svo á fimmaurabrandara Jose Enrique í 90 mínútur fyrir aftan þjálfarateymið. Ég væri mikið til í að sjá hvort Emre Can er ennþá þreyttur eftir að hafa spilað heilar sjötíu mínútur gegn Chelsea fyrir átta vikum síðan (og verið besti maður vallarins þann daginn) en hey, maður fær ekki allt sem maður óskar sér, jafnvel þó það séu jólin. Settu Mignolet í markið og við erum dús, Brendan.

MÍN SPÁ: Mín spá? Ókei. Liverpool þarf að vinna þennan leik, Liverpool ætti að vinna þennan leik, Liverpool gjörsamlega getur ekki leyft sér að vinna þennan leik ekki. Þannig að við vinnum þennan leik, hallelúja og hósanna! Skrtel skorar í bæði mörkin og við tökum 5-1 sigur, svei mér þá ef Super Mario laumar ekki inn einu í lokin líka.

Smá jákvæðni í lokin, aðallega til að eyðileggja eftirréttinn ekki fyrir ykkur líka. Koma svo Liverpool, the goal is that way, YNWA og svona! Vinna! VERJAST! Berjast! Borini!

YNWA

26 Comments

 1. Þess má geta að skv. Bib theory þá gæti Suso komið við sögu, farinn að æfa aftur og svona. Ég á nú síður von á að hann byrji inná, en maður veit aldrei (var ekki planið að fara að hvíla Sterling?)

 2. Kristján Atli í jólagírnum, með jólabjórinn, í jólaskapi! :0)

  Snilldarpistill og svei mér þá ef ég er bara ekki orðinn bjartsýnn fyrir morgundaginn.

 3. Já, vonandi að það komi e-ð jákvætt frá leiknum.

  Varðandi Skrtel, þú varst örugglega að meina að Skrtel skori tvö mörk fyrir okkar menn, en í sitt hvorum hálfleiknum. Ekki satt ?

 4. Sælir félagar

  Þá er hægt að snúa sér að því sem skiptir máli þegar jólasteikin er frá. Ég vil þakka KAR fyrir góða upphitunn og æsandi málflutning. Mér finnst skipta máli að hann og BR séu dús og sleppi þéringum í samskiptum sínum. Þannig nást betri tengsl og auðveldara að koma áríðandi atriðum til skila eins og því að Minjó á að vera í markinu út þetta ár.

  Hvað leikinn varðar þá er ekkert í boði nema vinna og það helst stórt. Ég þigg þó allar tölur í mörkum ef hærri tala er L’pool megin. Spái 1 – 3 og Balo gerir eitt hvort sem hann kemur inná eða ekki. Litli Cátur gerir annað og Marko það þriðja. Skrölti, þungamiðja varnarinnar, gerir svo eitt sjálfsmark í upphafi leiks til að berja okkar menn í gang.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 5. Takk fyrir þessa fínu upphitun.

  Ég er bjartsýnn á þennan leik, og ekki útaf því að þarna er andstæðingurinn “bara” Burnley.
  Heldur vegna þess að spilamennska Liverpool hefur stórbatnað í síðustu leikjum með pressubolta og ákefð og áhuga.

  Fáum líklega á okkur eins og eitt mark en skorum á móti 3 stykki 🙂

 6. Jebb, ég er bjartsýnn og spái 3-0 sigri. Þessi maður hér skorar tvö. Gleðileg jól!

  [img]http://i3.mirror.co.uk/incoming/article2919529.ece/alternates/s2197/Steven-Gerrard-Sings-The-Xmas-Hits.png[/img]

 7. Gleðileg Jól Púlarar!

  Það örlar á bjartsýni fyrir þennan leik…líklega í fyrsta skipti síðan í september. Eigum við ekki að segja sigur og Sterling geri hatrick.

 8. Burnley eru með 3W 2D 3L síðustu 8 leiki. Töp á mót Arsenal, Tottenham og QPR, Allir away leikir!

  Liverpool með 2W 3D 4L síðustu 8 BPL leiki. Unnið einn away like og einn heima..

  Þetta er ekkert gefins!

  Vona að Liverpool fari ekki með hálfan haus inn í þennan leik, það er bara ekki hægt.

  Spái samt sem áður naumum sigri 1-2, þetta þarf ekkert endilega að vera fallegt.

 9. Ég vill sjá öruggan sigur og að við höldum hreinu. Halda áfram spilla nýju leikaðferðina og hafa sama byrjunarlið sem spilaði gegn Arsenal.

 10. Stràkar/stelpur, vitið þið um pub eða stað til að horfa á Liverpool leiki í Orlando??

 11. Sigkarl (#4) – Við BR eigum í flóknu hjónabandi um þessar stundir. Hann gerir eitthvað á hverjum leikdegi sem pirrar mig en hringarnir eru enn bornir með stolti og einurð. Við erum hjá hjónabandsráðgjafa (Magga) um þessar mundir, vonandi horfir til betri vegar með hækkandi sól á lofti.

  Ef hann sækir ekki þrjú stig til Burnley á morgun fær hann samt pottþétt að sofa í sófanum annað kvöld.

 12. Guffi, horfði á Liverpool leik á Hooters þeim merka stað 2013

 13. Ætlaði að spurja að því sama og Guffi 🙂 er staddur í Orlando og væri til í að kíkja á Liverpool leik. Veit einhver um stað til þess?

 14. Hæ KAR það væri gaman að heyra ykkur þérast í hjónasænginni !

  Það er nú þannig.

  YNWA

 15. Þetta er skyldusigur fyrir okkar menn. Við eigum að taka Burnley hvort sem það er heima eða úti og það nokkuð sannfærandi – eða það ættum við að minnsta kosti að gera.

  Jólin hafa verið fín hingað til og ég vona að þau klárist ekki á glötuðum úrslitum. Rodgers og Liverpool gefa okkur 4-0 sigur í jólagjöf.

 16. Þetta Burnley lið minnir mig ansi mikið á Derby County þegar þeir komust nokkuð óvænt upp í Úrvalsdeildina árið 2007 (minnir mig). Þeir eru með mikið af leikmönnum sem fáir þekkja og er þetta lið alltaf að fara lóðrétt niður aftur, en við unnum einmitt Derby 6-0 og væri alls ekkert svo ólíklegt ef við myndum jarða Burnley eitthvað svipað, þrátt fyrir slakt gengi á þessu tímabili.

  Ég spái nokkuð þæginlegum 4-0 sigri þar sem ekki mun reyna mikið á vörnina né Jones og mörkin munu koma frá Markovic, Gerrard og Lallana setur 2.

 17. Það er þá allavega komið á hreint hver er kerlingin í hjónabandi KAR og BR.:-)

 18. Sæl öll,
  Gleðileg jól og takk fyrir frábæra síðu.
  Það er alveg með ólíkindum að það hafi tekið BR allan þennan tíma og tvær mikilvægustu keppnirnar að átta sig á að það er best fyrir Liverpool að pressa hátt og neyða andstæðinginn í mistök. Liverpool er búið að vera í einhverjum dúttlgír í allan vetur, ekki vitað hvernig á að sækja og BR hefur aldrei kunnað að verjast. Þetta er alveg ótrúlegt að þora ekki í pressubolta nema með 3 miðverði, hvað gerðist eiginlega í sumar þannig að BR missti kjarkinn svona. Þótt sóknarleikurinn gangi betur núna vil ég hætta í snarasti þessu kerfi og fara í tígul miðju með Sterling inni á miðjum vellinum, alveg svakalegt að sjá breytinguna á drengnum eftir að hafa verið að drallast niður úti á kannti. Það er sorglegt að sjá Henderson úti á kannti og vonandi fær hann að koma inn á miðjuna sem fyrst. Liverpool verður að vinna þennan leik ásamt 85% af þeim leikjum sem eftir eru í deildinni til Þessu að eiga möguleika á CL (ekki séns). Þetta hörmungartímabil gæti alveg eins boðið upp á tap í dag eins og hvað annað en ég á von á því að Liverpool vinni þótt þeir fái markmaður á sig. Ég er ósammála þeim sem vilja Mignolet aftur í markið. Það er mikið meiri ró yfir vörninni með BJ í markinu og hann “dominerar” teiginn mikið betur og úthlaupin eru mikil bæting frá Mignolet. Það á bara að selja Mignolet og fá annan markvörð þó alls ekki þennan Mexikóa. Það á að gefa Can 10-20 min í hverjum leik, óskiljanleg frysting á þeim dreng. Vonandi vinnur Liverpool í dag en hvað gerum við stuðningsmennirnir ef Liverpool tapar?

 19. Þetta er ekkert flókið en staðan er þannig að okkar menn verða að vinna nokkra leiki i röð ekki seinna en NÚNA !!

  Byrjunarliðið verður liklega það sama og undanfarið þó eg vilji alla daga Mignole i markið frekar en Jones. Einnig væri hægt að setja Balotelli fremstan og taka Markovic ut i staðinn og færa þa Lallana eða Sterling i stöðu Markovic.

  eg ætla að spa þvi að okkar menn byrji að nyta færin i dag og skori 3 mörk ur 20 tilraunum og vinno 0-3 ..

 20. Erum við orðnir svona ómerkilegir að stöð2sport sýnir ekki einu sinni leikinn í dag?

 21. Alveg er það merkilegt, ég pirrast bæði yfir of neikvæðum komentum (svartsýnisraus) og of jákvæðum (jinxa) Ekki létt að vera ég, en spái sigri!

 22. Þannig að þeir sem kaupa áskrift af Stöð2sport2 til að sjá enska boltann sjá ekki leikinn….arg, eru þetta ekki vörusvik?

Gleðileg jól!

Byrjunarliðið á Turf Moor