Gúrkutíð…

Það er þriðjudagur – og gúrkutíð. Í kjölfar sigurs enskra á Króötum í gær, 4-2, er lítið rætt um annað en ágæti Wayne Rooney og væntanlega mótherja Englendinga, heimamenn í Portúgal. Það er meira að segja svo lítið rætt um annað en enska landsliðið að það hefur varla verið minnst á sölu Steven Gerrard. Sem er gott … okkur Púllurum veitti ekki af dagsfríi frá þeirri sturlun.

Annars langar mig bara að nota tækifærið og óska nágrönnum vorum í Danmörku og Svíþjóð til hamingju með að hafa slegið út hið grútleiðinlega lið Ítala í kvöld. Ekki það að ég hafi neitt á móti Ítölum, frábært fótboltalið og stórkostlegir knattspyrnumenn þarna inn á milli … en mér fannst það á HM 2002 og mér hefur fundist það aftur í sumar, að þeir spila allt of neikvæðan og leiðinlegan fótbolta. Þeir geta miklu meira en þeir hafa verið að sýna og ég vona bara að þessi skammarganga þeirra í kvöld verði til þess að Ítalir hristi upp í fótboltamálunum heima fyrir hjá sér og mæti til leiks á næsta stórmót með sóknarbolta í huga. Sem Svíar og Danir gerðu – og eiga því fyllilega skilið að komast í 8-liða úrslitin. Til hamingju!

Á morgun: Milan Baros v/s morðingjar knattspyrnunnar. Já, ég veit þetta uppnefni var eitt sinn notað á Liverpool en ekki meir. Nú eru það augljóslega Þjóðverjar sem eru að þessum titli komið – leiðinlegra fótboltalið hef ég aldrei séð og sá fáheyrði atburður átti sér stað sl. laugardag að ég slökkti á leik á EM, ég hreinlega nennti ekki að horfa á leik Þjóðverja og Letta. Þeir eru þetta leiðinlegir!

Mín spá, svo það sé skjalfest: 4-0 fyrir Tékka og Baros með þrennu. Er ekki um að gera að vera bjartsýnn? 😀

Ein athugasemd

  1. þeir spila allt of neikvæðan og leiðinlegan fótbolta

    Leiðinlegan get ég skilið, en hvernig spilar maður neikvæðan fótbolta?

Guess who!

Chelsea vill fá Gerrard. Döööh!