Trent

Tímabilið 2015-2016 reyndist að mörgu leyti vera ansi örlagaríkt fyrir Liverpool. Þetta var jú tímabilið þar sem Brendan Rodgers fékk að fjúka, og Jürgen Klopp tók við. En það var fleira sem gerðist þetta tímabil, þar á meðal á undirbúningstímabilinu. Liðið hafði farið í ferðalag til Asíu þar sem nýjir leikmenn voru kynntir til sögunnar (eins og Firmino), og ungir og efnilegir leikmenn fengu tækifæri til að sýna sig og sanna. Fæstir þeirra gripu tækifærið. Maggi átti ágæta samantekt um þessa kjúklinga á sínum tíma, og þegar við skoðum þennan lista sjáum við að í raun er það aðeins Harry Wilson sem ennþá á einhvern séns á að komast að hjá klúbbnum, aðrir leikmenn reyndust einfaldlega ekki nógu góðir.

Viku fyrir fyrsta leik tímabilsins var liðið svo komið heim og spilaði æfingaleik við Swindon Town. Undir öllum hefðbundnum kringumstæðum hefði þetta átt að verða einn gleymanlegasti leikur liðsins á síðustu árum. Nema hvað að þarna sáum við í fyrsta skipti nafn á leikskýrslu sem átti heldur betur eftir að koma við sögu síðar, 16 ára uppalinn scouser með sinn fyrsta leik fyrir aðalliðið.

Trent Alexander-Arnold.

Mynd tekin í algjöru leyfisleysi af Google Maps, sem þurfti að sjálfsögðu að blörra andlitið. Annars hefðum við mögulega getað haft hugmynd af hverjum myndin er.

Umfjöllunin um leikinn á sínum tíma bendir til þess að hann hafi einfaldlega skilað sínu, án þess að hafa átt neina flugeldasýningu, enda var hann að stíga sín fyrstu skref með aðalliðinu. Reyndar voru þessi skref svo snemmstigin að nánast enginn hafði heyrt þetta nafn nefnt áður. Maggi kom a.m.k. af fjöllum í leikþræði/skýrslu um þennan æfingaleik, rétt eins og undirritaður og aðrir lesendur síðunnar (sjá athugasemdir við þráðinn).

Reyndar var það svo að við höfðum reyndar séð hann áður á Anfield. Bara ekki í Liverpool búningi, því sagan segir að hann hafi verið boltastrákur á leiknum alræmda; Liverpool-Chelsea í apríl 2014. Við ætlum nú ekki að gera nokkrum manni það að rifja þann leik upp (og ef einhver spyr “hvaða leik?” þá mun ég svara “nákvæmlega”).

En hann hlaut semsagt sína eldskírn sumarið 2015. Hann kom ekkert við sögu í aðalleikjum liðsins um veturinn, kannski ekki skrýtið því kappinn varð jú 17 ára í október, og þó við vitum öll hvað Klopp er tilbúinn að gefa ungum strákum sénsinn, þá virðist hann alltaf passa sig á því að gefa þeim nægan tíma til að þroskast líkamlega. Hann birtist því ekki aftur fyrr en næsta sumar, eða í æfingaleik gegn Tranmere. Þá gerði hann sér lítið fyrir og lagði upp sigurmarkið í þeim leik, mark sem Danny Ings skoraði. Fleiri æfingaleikir fylgdu í kjölfarið: Fleetwood Town, Wigan, Huddersfield, AC Milan, Roma (þar sem Mohamed nokkur Salah skoraði fyrir Roma), Barcelona (sá leikur fór 4-0, eitthvað könnumst við nú við svoleiðis úrslit), og svo afar misheppnaður leikur gegn Mainz daginn eftir. Allt leikir þar sem Trent kom við sögu, var fjarri því að vera mest áberandi leikmaðurinn, en var alltaf að skila dagsverki eins og ætla mátti að 17 ára unglingur myndi gera, og vel rúmlega það.

Hann var svo á bekk í fyrsta leik tímabilsins gegn Arsenal, þar sem Oxlade nokkur Chamberlain skoraði á móti okkar mönnum… gamalkunnugt stef.

Fyrsta skiptið hans í byrjunarliði var svo gegn Tottenham í deildarbikarnum. Aftur stóð hann sig vel. Fyrsta innkoman í leik í deildinni var gegn Middlesbrough í desember, og svo fékk hann fyrsta sénsinn í byrjunarliði í deild í janúar í leik gegn United. Hversu ljóðrænt er það að scouser fái að byrja sinn fyrsta deildarleik gegn rauðu djöflunum? Eyþóri fannst full ástæða til að hrósa honum sérstaklega í leikskýrslunni.

Nú var komið að því að fara að ákveða hvað við ættum að kalla kappann. Alexander-Arnold? Alexander? Arnold? Trent? TAA? Trent AA? Það voru ýmsar útgáfur sem dúkkuðu upp, og satt að segja erum við enn að sjá ýmiskonar útgáfur af nafni hans.

Leikjunum fór að fjölga eftir þetta, sérstaklega þar sem Clyne var að slást við eitthvað hnjask, en oftar var hann þó á bekknum. Í mikilvægum leik gegn Stoke var hann í einhverskonar vængbakvarðarhlutverki en þó jafnvel sem hreinræktaður vængmaður í einhverju sem var hugsanlega 4-5-1 uppstilling, en alla jafna var hann þó bara að spila sem bakvörður, og þá í stað Clyne.

Það sem gerist svo um sumarið átti eftir að reynast hafa mikið að segja um framhaldið, en Clyne meiðist á baki. Upphaflega var talið að þessi meiðsli myndu halda honum frá keppni fram í febrúar 2018, en reyndin varð sú að Clyne spilaði fyrst í apríl 2018. Þetta var tækifærið fyrir Trent, sem var þarna hárréttur maður á réttum stað, búinn að umgangast aðalliðið í tvö ár, þar af eitt ár að mestu á bekknum en með stöku innkomu.

Við tók tímabilið 2017-2018, og það þarf í sjálfu sér ekkert að rifja upp með lesendum hvernig það gekk. Trent spilaði flesta leiki, og festi sig í sessi sem aðal hægri bakvörður liðsins. Hann kynnti sig til leiks á stóra sviðinu í leik gegn Hoffenheim þar sem hann skoraði beint úr aukaspyrnu, og sýndi þar að hann er einn fremsti spyrnumaður liðsins.

Og eftir tímabilið 2018-2019 var óhætt að segja að Trent hafi verið kominn í hóp bestu hægri bakvarða heims. Það tímabil átti hann flestar stoðsendingar hjá Liverpool, og aðeins Eden Hazard og Ryan Fraser áttu fleiri stoðsendingar í deildinni. Hann og Andy Robertson hafa átt nánast fast sæti í bakvarðarstöðum í liði ársins, og skiptir þá afskaplega litlu hver er að setja slíkt lið saman.

Hann var valinn í enska landsliðið fyrir HM sumarið 2018. Við reiknuðum nú flest með að hann yrði þar í algjöru aukahlutverki, og það varð svosem reyndin, en þó fékk hann mínútur í leik þar sem England gat leyft sér að rótera svolítið. Og í júní 2019, þegar Þjóðadeildin alræmda kláraðist, þá má segja að hann hafi farið að banka all hressilega á dyrnar sem kandídat í að vera fyrsti kostur hjá Gareth Southgate í hægri bakvarðarstöðuna. Í leiknum um þriðja sætið gegn Sviss var Kyle Walker settur til hliðar, og Trent byrjaði leikinn. Margir töluðu um hann sem einn af bestu leikmönnum liðsins í þessum leik, hann átti líklega einhverjar 7 fyrirgjafir sem voru hver önnur nákvæmari, og það var í raun bara fyrir einstakan klaufaskap í fremstu mönnum Englands að það yrðu ekki úr þessu mörk.

Í dag er hann ekki lengur einn efnilegasti bakvörðurinn í fótboltanum, og hann er hættur að banka á dyrnar að komast í hóp þeirra bestu. Í dag er einfaldlega talað um Trent sem annaðhvort besta hægri bakvörðinn í heiminum í dag, eða þá að hann sé einn af 2-3 bestu. Vefmiðillinn FourFourTwo setti hann t.a.m. í efsta sæti þegar tekinn var saman listi yfir bestu hægri bakverði í heiminum. (Á sambærilegum listum fyrir vinstri bakvörð og markvörð voru Andy Robertson og Alisson Becker báðir settir í 2. sæti). Þá telur Transfermarket að hann sé verðmætasti bakvörðurinn í heiminum í dag:

Þessar tölur voru vissulega gefnar út áður en Covid-19 faraldurinn hófst, svo það er óvíst að neinn þessara leikmanna færi á þessar upphæðir í dag, en það ætti ekki að breyta neinu um röðina.

Hversu gaman er það að fara frá því að vera í stöðugum vandræðum með báðar bakvarðastöðurnar, yfir í að eiga núna tvo bestu bakverðina í boltanum í dag?

Umræðan um að hann eigi eftir að verða fyrirliði Liverpool í framtíðinni er ansi hávær, og hann var í raun ekki búinn að vera lengi í aðalliðinu þegar fólk fór að tala um þetta. Það að vera með scouser sem fyrirliða Liverpool er vissulega nokkuð sem okkur dreymir um, sérstaklega eftir Gerrard tímabilið. Trent hefur líka látið hafa það eftir sér að þetta sé langtímamarkmiðið. Hins vegar er ekki alveg ljóst hvenær þetta gerist. Henderson er óumdeilt fyrirliðið liðsins í dag, og verður það sjálfsagt á meðan Klopp er stjóri, og á meðan Hendo er leikfær. Það hefur talsvert verið talað um að van Dijk taki svo við af Henderson, en vissulega hefur ekkert verið ákveðið í þeim efnum. Við fengum vissulega að sjá hvernig liðið plumar sig með Virgil sem fyrirliða núna í febrúar þegar Hendo meiddist og van Dijk tók við fyrirliðabandinu, og ekki var nú árangurinn neitt til að hrópa húrra fyrir. Á hinn bóginn væri ósanngjarnt að dæma Virgil sem fyrirliða á jafn stuttu tímabili og það nú var. Það myndi nú samt ekki koma neitt á óvart þó við sæjum Trent með fyrirliðabandið einhverntímann í framtíðinni, þó ekki hafi hann náð að verða yngsti fyrirliði liðsins. Það er annar scouser sem ber þann titil í dag – Curtis Jones, og hver veit nema við verðum með tvo scousera sem fastamenn í liðinu í framtíðinni? Það væri nú ekki leiðinlegt.

Þá hefur umræðan um bestu stöðu Trent á vellinum verið lengi í gangi. Á að færa hann yfir á miðjuna? Það var lengi vel það sem margir héldu, en í dag eru sífellt fleiri á þeirri skoðun að hann hafi einfaldlega tekið hægri bakvarðarstöðuna, og endurskilgreint hana á eigin forsendum. Undirritaður er a.m.k. á því að það sé engin ástæða til að færa hann eitthvað til, nema mögulega sem hluti af taktískum viðbrögðum í stöku leikjum. Klopp hefur jú sýnt að hann er hrifinn af því að hafa fjölhæfa leikmenn innan sinna raða, leikmenn sem geta fært sig til á vellinum eftir þörfum. Það má vel vera að Trent muni færa sig yfir á miðjuna í stöku leikjum, og þá sérstaklega ef við sjáum Neco Williams koma meira við sögu, en að hægri bakvarðarstaðan verði áfram hans aðal staða.

Við vonum að sjálfsögðu að Trent muni eiga langan og sigursælan feril með Liverpool. Hvernig sem fer, þá mun hann alltaf eiga eitt allra eftirminnilegasta augnablik í sögu meistaradeildarinnar á Anfield, augnablik sem gæti mögulega hafa breytt því hvernig lið undirbúa sig fyrir föst leikatriði eins og hornspyrnur. Við erum að sjálfsögðu að tala um “Corner taken quickly, ORIGI!” augnablikið gegn Barcelona í undanúrslitum meistaradeildarinnar vorið 2019. Það er hreint magnað að jafn ungur strákur og Trent var hafi haft kjarkinn til að taka þennan séns sem hann gerði, en jesúsminnalmáttugur hvað við erum öll fegin að hann tók þennan séns.

Og kannski var þetta dæmigert fyrir Trent sem leikmann. Hann þorir nefnilega að reyna hluti sem flestir aðrir myndu afskrifa, einfaldlega af því að það væru litlar líkur á því að þeir takist. Að taka horn áður en andstæðingurinn er búinn að skipuleggja sig er eitt slíkt, að reyna þversendingar er annað. Sumar þessara tilrauna misheppnast líka. En svo eru það hinar sem heppnast, og afraksturinn af slíku getur verið gríðarlegur.

Endum þennan pistil á laginu hans Trent sem áhorfendur hafa sungið svo oft síðustu mánuði. Takið vel undir!

27 Comments

  1. Geggjaður leikmaður og ástæða fyrir því að síðasta treyjan hjá mér er merkt með nr 66 : )
    Takk fyrir góðan pistil Daníel !

    7
  2. Flottur pistill. Trent gæti orðið besti bakvörður sögunnar.
    Annars þá var hollenska deildin því miður blásin af, enginn bolti þar fyrr en 1. september.

    5
    • Í sambandi við Hollensku deildina þá var ekkert sem sú deild gat gert því að stjórnvöld bönnuðu alla íþróttaviðburði.

      2
      • Sem er það sama og er buið að gera a Englandi.

        Allt það sem enska deildin hefur gefið út, er þvert a það sem stjórnvöld gefa út

  3. Flottur pistill, en að öðru sem kemur engu við í raun er ekki innkastið hjá TAA vitlaust tekið lyftir vinstri þegar hann kastar ? Hélt að LFC væru með svo góðan innkast þjálfara 🙂 þetta gæti samt verið stórfrétt fyrir mbl.is eða aðra íþróttasorpmiðla ?

    YNWA.

  4. Frábær pistill, takk!

    By the way, frábærar fréttir frá UEFA í gær. Þeir gáfu út í gær nokkurs konar tilskipun þar sem þeir leggja blátt bann við því að tímabilið verði ógilt í deildum í Evrópu. Þetta þýðir með öðrum orðum að ákveði viðkomandi knattpspyrnsambönd í hverju landi fyrir sig að ekki sé hætt að klára tímabilið út af Covid 19 þá verði að útkljá tímabilið út frá “sporting merit”. Þetta þýðir væntanlega það að deildin verði útkljáð miðað deildartöfluna í dag, með fyrirvara þó að reiknuð verði meðalstig á lið miðað við fjölda leikja sem hvert lið er búið að spila, en liðin eru auðvitað búin að spila mismarga leiki.

    Þetta eru auðvitað virkilega góðar fréttir fyrir okkur því þetta þýðir auðvitað að við verðum meistarar hvort sem deildin verður kláruð eða ekki.

    7
    • Ekki blátt bann við að ógilda leiktíðir nei, en þeir sögðu að deildir mættu fara þessa avg.per.game leið, þau lið sem falla yrðu ekki sátt með þessa aðferð.

      3
  5. Engir meistarar krýndir í Hollandi og engin lið upp eða niður. Hræddur um að þetta verði niðurstaðan ansi víðar en bara þar.

    1
  6. 6.1 Mæli með að þú kynnir þér vel hvað þessi yfirlýsing UEFA þýðir í raun. Sérfræðingar í Englandi og flestir fjölmiðlar þar í landi hafa túlkað hana þannig að búið sé að útiloka að hægt sér að ógilda tímabilið vegna Covid 19 ákveði stjórnvöld að ekki sé hægt að klára þetta tímabil. Ef þú ert ekki sammála því og að þetta janframt séu góðar fréttir fyrir Liverpool þá er það bara þannig. Vissulega á eftir að verða umræða og ágreiningur með fallsætin, en það eru leiðir til að leysa það vandamál, m.a. með umspili.

    #7. Varðandi Holland. Stjórnvöld þar í landi eru búin að banna fjöldasamkomur til 1. september. Þar af leiðandi var ekki hægt að klára deildina. Ajax fékk ekki titilinn, eðlilega ekki, enda með jafnmörg stig og AZ Alkmar þegar deildin var stöðvuð vegna Covid 19. Ajax hefur verið áskrifandi að þessum titli síðustu 100 árin eða svo þannig að þetta skiptir ekki miklu máli fyrir þá. Ajax var auk þess búið að leggja til í byrjun apríl að deildin yrði stöðvuð vegna Covid 19. Hvernig í ósköpunum er hægt bera aðstæður í Hollandi saman við England, þar sem Liverpool er með 25 stiga forystu?? Auk þess eru ensk stjórnvöld ekki búin að taka neinar ákvarðanir með að stöðva þetta tímabil.

    Rétt er líka að benda á í þessu sambandi að Ajax verður fulltrúi Hollands í meistaradeildinni á næsta tímabili á meðan AZ þarf að fara í umspil. Tímabilið þar var því ekki ógilt.

    Ekki gleyma því heldur hvernig Belgarnir tækluðu þetta, Club Brugge, voru úrskurðaðir meistarar þar, enda með 15 stiga forystu (10 stigum minni en Liverpool). Áhugavert að þú, Liverpool-stuðningsmaðurinn, skulir ekki minnast einu orði á þá deild. Þar var deildin heldur ekki dæmd ógild og Evrópusætum var úthlutað í samræmi við stöðu liðanna í deildinni þegar hún var stöðvuð.

    6
    • Hvernig í ósköpunum er hægt að bera saman Hollensku og Ensku úrvalsdeildina þar sem við erum með 25 stiga forystu spyrðu. Einfalt: Ekkert lið búið að tryggja sér titilinn.
      Ég vil að við vinnum deildina í 38 leikja móti. Ef okkur verður gefinn bikarinn núna erum við fyrsta liðið í sögunni sem vinnur hann án þess að tryggja hann.
      Hvað varðar Belgísku deildina þá hef ég, Liverpool maðurinn heldur betur minnst á hana. Það gerðist talsvert áður og óþarfi að hjakkast endalaust í því. Hollenska deilsin var blásin af bara fyrir nokkrum dögum.
      .
      Til allrar hamingju hefur Boris Johnson, réttkjörinn forsætisráðherra Bretlands sagt að hann vilji hefja boltann á ný til þess að stytta fólki stundir.
      Kæmi ekki á óvart ef að ESBsinnarnir á þinginu reyni að koma í veg fyrir það, eins og þeir reyna að drepa niður allt jákvætt.

      3
      • ok. það er sem sagt niðurstaða þín að verði ekki hægt að klára deildina vegna covid 19 þá verði ekkert lið í Englandi meistari? Það sé sanngjörn og eðlileg niðurstaða? Hvað viltu gera með Evrópusætin og fallsætin? Ekkert kannski, bara ógilda tímabilið?

        Hvað um skosku deildina, fyrst þú vilt ekki hjakkast í “gömlu fréttunum”?

        1
      • Það er alveg hægt að klára deildina fyrir tómum völlum. Hægt að fara í það strax í maí.
        Frábært að Boris kallinn sé að leggja þessar línur, spillta ESB klíkan á þinginu reynir samt pottþétt að skemma þetta, eins og allt fyrir þeim frábæra manni!
        Hvað varðar skosku deildina tekur þeirra samband væntanlega ávkörðun um hvort verði farin Hollenska eða Belgíska leiðin.

        3
  7. Ef ekki næst að klára deildina í júni/júlí þá ætti að klára hana í haust og stytta næsta tímabil.
    Segjum að deildin klárist í september og nýtt tímabil, sem væri 28 leikir, hæfist strax í kjölfarið.
    Þá væri einföld umferð, allir spila við alla, 19 leikir.
    Síðan yrði deildinni skipt upp í tvo flokka, efri 10 lið annars vegar og neðri 10 lið hins vegar.
    Einföld umferð, 9 leikir, samtals 19+9=28 leikir.
    Efstu 10 lið spila þannig tvöfalda umferð við lið í efri hlutanum en einfalda umferð við lið í neðri hlutanum.

    5
  8. Auðvitað á að klára þetta tímabil fyrir tómum völlum og hefja svo nýtt timabil í haust. Er alveg viss um að það verði niðurstaðan. Alt blir bra!

    4
    • Eigi er búið að ákveða hvor leiðin verðu farin, sú Hollenska eða sú Belgíska

    • Frakkar búnir að gefa út að þeir ætla ekki að ógilda tímabilið, með öðrum orðum þeir munu fylgja fordæmi Belga, Hollendinga og Skota (út frá “sporting merit”), þ.e. raða í Evrópusætin eftir stöðunni þegar deildin var stöðvuð, sennilega þá meðalstig á leik, þar sem liðin eru búin að spila mismarga leiki.

      UEFA er síðan slétt sama hvað aðildarþjóðirnar gera varðandi fallsætin og hverjir fara upp. Hver þjóð ræður hvernig hún tæklar þau ósköp. Það eiga eftir að vera tóm leiðindi í kringum það hjá öllum þeim þjóðum er ná ekki að klára tímabilið.

      Líka alveg á kristaltæru að PSG verða krýndir meistarar, líkt og Celtic í Skotlandi og Club Brugge í Belgíu, enda með 12 stiga forystu og leik til góða.

      3
    • Nei ég er sammála þetta lítur ekki vel út. Ef Enskir herma eftir þeim Frönsku og LFC fær titillinn í póst kassa þá verður okkur stanslaust nutað upp úr þessum titlli þ.e. vorum ekki bunir að vinna osfrv. þó svo að tæknilega séð erum við bunir að vinna hann.
      Ég bara nenni ekki svona óvissu og að þurfa að svara og rífast út af þessum titllli, það bara verður að klára þetta á Englandi.

  9. Eina sem við vitum er að við vitum ekki neitt.

    Þetta er eitthvað sem við höfum 0% stjórn á en samt er þetta að hafa mikil áhrif á mann hvernig þetta fer allt saman.
    Liverpool eru búnir að gera það sem þeir geta 25 stiga forskot og búnir að vera stórkostlegir í vetur.

    Eina sem hægt er að gera er að bíða. Þetta fer að vera svona Ladda grín og ég beið og ég beið og ég beið.

    Maður er búinn að bíða í 30 ár eftir þessu augnabliki og ef við fáum titilinn útaf einhverju stig per leik eða einhverji formúlu, mér gæti ekki verið meira saman. Við erum besta liðið í dag og þeir sem sjá það ekki eru líklega blindir af hatri (sjá DV/MBL íþróttaumfjöllun undanfarnar vikur) eða greindaskertur maður eins og P. Morgan(heldur með Arsenal og vill því að tímabilinu ljúku strax).

    7
  10. Okkar eini Boris Johnson er búinn að biðja liðin að undirbúa sig fyrir endurkomu boltans í byrjun júní. 5 skiptingar í leik og Roy Hogdson fær ekki að mæta á vellina sökum aldurs.

  11. Er ekki kominn tíma á nýja frétt eða podcast, voða máttlaus síðan eitthvað.

Gullkastið – Rúmlega mánuður án fótbolta

Gullkastið – Flautað af?