Ferðasaga – Kop.is ferð janúar 2016

Hópferðir Kop.is og Úrval Útsýn eru á góðri leið með að festa sig í sessi og hófum við árið 2016 á okkar langstærstu ferð til þessa. Rúmlega 130 manns mættu í Leifsstöð eldsnemma morguns föstudaginn 15.janúar, allir mættir nema einn. Tilefnið var að heimsækja borgina heilögu og sjá þar leik Liverpool og Manchester United.

Það er lúmskt mikil vinna sem liggur að baki svona ferð og því var Maggi sendur daginn áður til að hitta fólk og undirbúa komu hópsins. svo hann gæti verið búinn að versla í H&M og Primark. Þetta var orðið vandræðalegt hjá honum í fyrri ferðum.

Að vanda get ég eingöngu fjallað um hópferðir Kop.is frá mínum sjónarhóli og eins og þeir sem fóru með okkur geta vottað er sá sjónarhóll alveg á mörkunum. Mín upplifun er þó bara ein af 130 mismunandi upplifunum ferðalanga, þarna var hver meistarinn á fætur öðrum með okkur og í sumum tilvikum gaman að tengja sama nafn og andlit virkra notenda síðunnar. Maður er stundum í þessum ferðum að hitta einhvern í fyrsta skipti sem maður hefur „talað við“ í mörg ár og nánast þekkir.

Föstudagur

Eina skilyrðið sem við settum var að mæta í stuði í Leifsstöð. Hjá okkur á Selfossi þýðir flug kl. 8:00 að það er ræs 3:30 og brottför frá Selfossi kl. 4:00. Grátlegt að helvítis flugvöllurinn var ekki byggður þar sem hann var upprunalega hugsaður. Brynjar vinur minn var á leið í ferðina með okkur í tilefni að 50 ára afmæli tengdaföður síns og fékk ég að fljóta með þeim.

Minnugur þess að allir ættu að vera í stuði setti ég stefnuna beint á barinn er inn í Leifsstöð var komið en var búinn að gleyma því að þar hefur einhver Feng Shui-fáviti fengið að ganga berserksgang og ekkert er lengur á sínum stað. Þar sem ég fann ekki gamla Panorama-barinn strunsaði ég bara fótgangandi alla leiðina til Sandgerðis eða þar um bil, enda okkar hlið það sem var hvað lengst frá inngangnum. Ég mundi að þar er einnig bar nálægt hliðinu og miklu styttra að labba þegar lokakall kemur í vélina. Flug til Bandaríkjana er pottþétt ódýrara ef maður flýgur frá þessum enda vallarins enda miklu styttra ferðalag. Skothelt plan, allt gekk upp nema ég áttaði mig ekki á að ég var bókstaflega sá eini sem las leikinn svona og sat einn á barnum í klukkutíma.

Tíu mínútum eftir að við fórum í loftið fékk Maggi símtal til Liverpool og á hinum endanum var stórvinur okkar hann Óskar, rokkarinn í hópnum. Hann hefur komið með okkur Magga í allar Kop.is-ferðirnar og þekkjum við kauða því ágætlega. Hann var búinn að vera í Noregi að vinna u.þ.b. 170 tíma vinnuvikur og kom svo gjörsigraður til Íslands að ekki einu sinni SSteinn í karaókí hefði getað vakið hann.

Maggi náði að útskýra fyrir honum að hann hefði misst af fluginu en það breytti því ekki að um svipað leyti og hópurinn var að mæta upp á hótel í Liverpool var Óskar mættur. Hann tók næstu vél til Manchester, lest þaðan og kviss bamm búmm, mættur. Stórkostlega gert.

Maggi tók á móti okkur á flugvellinum hans John Lennon.

Fyrsta stopp var skoðunarferð um Anfield. Við höfum verið að prufa okkur áfram í þessum ferðum í samstarfi við Úrval Útsýn en það getur verið misjafnlega erfitt að fá flug á rétta flugvelli. Sést það best á því að Kop.is hefur ferðast til Liverpool frá Heathrow, Gatwick (London), Birmingham, Manchester og Glasgow … og þetta var bara okkar fimmta ferð! Núna var flogið beint til Liverpool og vorum við sem fórum í ferðina til og frá London hálf klökk yfir hvað þetta var lítið mál. Rútubílstjórinn leit meira að segja út fyrir að hafa keyrt rútu áður sem er töluverður bónus miðað við ferðina frá London, sá maður kom pottþétt bara fyrir tilviljun inn í bílinn og lagði af stað.

Tobbi Hjalta
Tobbi Hjalta skoðar Ol´ Big Ears í fyrsta skipti. Hans fyrsta skipti á Anfield.

Á meðan skoðunarferðirnar voru afgreiddar nýttu margir tímann og afgreiddu Liverpool-búðina í leiðinni, sem minnir mig á aðra reglu sem ég setti ferðalöngum fyrir ferðina, en kom því ekki alveg nógu vel til skila. Krakkar, alls ekki gera þetta:

Ótrúlegt en satt stóðust okkar tímaáætlanir og vorum við mættir á hótelbarinn klukkan 15:00 á auglýstan fundartíma með fararstjórum. Þetta er ekki okkar fyrsta skipti í þessum bransa, en með því að setja á fastan tíma á barnum komum við í veg fyrir að missa Magga í óvænta Primark-ferð. Það hjálpar líka töluvert í svona pakka að hafa SStein með enda hann búinn að fara svo oft út að hann var dottinn í spjall við einn af tour guide-unum á Anfield, þeir hafa þekkst í áratugi og Steini farið svo oft með honum rúntinn um völlinn að hann gæti líklega leyst hann af í forföllum.

The Vines

Dagskráin var þétt því að klukkan 18:00 vorum við búnir að taka frá hliðarsal á frábærum bar í miðborg Liverpool, hinum sögufræga Vines sem er betur þekktur sem The Big House í Liverpool og er á ská á móti Adelphi-hótelinu. Þangað inn náðum við að troða stærstum hluta okkar ferðalanga plús nokkrum aukalega enda mikið af Íslendingum í borginni á þessum tíma. Líklega voru um og yfir 120 manns mættir á The Vines í Pub Quiz og til að hlýða á þrjár gamlar kempur Liverpool fara yfir ferilinn sem og margt fleira.

Maggi og Ron

Maggi klár með Ron, vertanum á Vines. Þetta er ultra meistari, grjótharður Everton-maður reyndar en til gamans má geta að hann hefur farið með okkur alla rúnt um hótelið hans sem er hinum megin við götuna í hvert einasta skipti sem við komum til hans. Man ekki til þess að við höfum sent neitt til hans ennþá en getum þó svo sannarlega mælt með að þið skoðið The Liverpool-Inn enda erum við búnir að grandskoða staðinn.

KAR Vines

Kristján Atli opnaði samkomuna og bauð mannskapinn velkominn til leiks áður en skólastjórinn tók við og stjórnaði Pub Quiz. SSteinn var skipaður dómari en skeit illa upp á bak í því hlutverki og með sæmilegu jafnvægi milli mútna, dómarahneykslis og kæruleysis enduðu leikar þannig að Hr. Skallagrímur (Ívar Örn) vann ásamt Þorvaldi Hjalta og Manchester United-vini þeirra (Bjarna) sem náði að drekka í sig tilætlaðan fróðleik um okkar menn þarna á barnum. Reyndar mjög vel gert. Bjarna þekkja margir Liverpool menn líklega frá Barnaárshátíð Liverpoolklúbbsins (já það er United-maður búinn að sjá um það í 10 ár).

Reyndar var þetta Quiz líklega eitthvað furðulega samið því að maður ferðarinnar, Óskar, tapaði í bráðabana ásamt sínum makker. Óskar greyið rétt ný vaknaður og í engu standi til að vita svona mikið.

Ræðumenn kvöldsins voru mættir alveg 45 mínútum á undan áætlun þökk sé Ron vini okkar, klukka er ekki alveg hans sterkasta hlið en þeir voru minna en ekkert stressaðir og hlustuðu bara á Magga stjórna Quiz-inu. Kempurnar þrjár voru annars þeir Alan Kennedy, Terry McDermott og David Johnson. Mögulega ekki þekktustu fulltrúar félagsins nú árið 2016 en allt leikmenn sem spiluðu stórt hlutverk þegar liðið var upp á sitt besta. Kennedy skoraði tvisvar sigurmarkið í úrslitaleik Evrrópukeppni Meistaraliða og er enn talinn einn besti vinstri bakvörður í sögu félagsins, McDermott var frábær leikmaður hjá Liverpool og hefur verið viðloðandi boltann nánast síðan hann hætti sem leikmaður. Þetta var aðeins hans þriðja skipti sem svona ræðumaður og keyrði hann frá Newcastle fyrir þessa samkomu. David Johnson myndaði síðan sóknardúett með Kenny Dalglish og skoraði t.a.m. 27 mörk eitt tímabilið áður en Ian Rush tók við keflinu. Hann var ekki allan sinn feril hjá Liverpool en var engu að síður frábær leikmaður á sínum tíma og líklega bestur af þeim félögum sem ræðumaður.

Meðalaldurinn í salnum var einnig þannig að þetta voru ekki eins óþekkt nöfn og yngri lesendur kynnu að halda. Eins voru þetta leikmenn frá þeim tíma er knattspyrnumenn gátu lifað nokkuð eðlilegu lífi meðal almennings og hafa frá kannski öllu fjörugri hlutum að segja frá sínum ferli, innan sem utan vallar.

McDermott - Kennedy - Johnson

Til að gera langa sögu stutta fóru þeir félagar á kostum og gáfu heilmikið af sér, langt umfram það sem samið var um. Alan Kennedy var í rúman klukkutíma að spjalla við þá sem vildu eftir að þeir höfðu lokið sér af og hefði líklega komið með okkur á frekara djamm hefði hann ekki verið á bíl. Eða svo sagði hann. Mikill meistari.

Sigurvegarar Pub Quiz og ræðumenn kvöldins.

Formlegri dagskrá var lokið einhverntíma milli 21 og 22 (gisk) og var þá stefnan hjá okkur félögunum tekin á fleiri öldurhús borgarinnar. Guð má vita hvert við fórum áður en endað var á Bierkeller en þangað fórum við og beindum öllum þeim sem spurðu. Þar var allt eins og það á að vera, ölvun á lokastigi, allir uppi á borðum og hreinlega afleit þriggja manna hljómsveit að spila sem samanstóð af túbuleikara og tveimur söngvurum, allir í þýskum þjóðbúningi. Það er ekki hægt að útskýra þennan stað en þarna skemmtum við okkur alltaf konunglega. Óljóst rámar mig í konga-dans þar sem ég fylgdi bara United-manninum Bjarna sem ég gæti trúað að hafi byrjað dansinn sem taldi örugglega yfir 100 manns á tímabili og fór tvo hringi. Tónlistinni er annars best lýst þannig að ég hótaði að fara úr að ofan ef þeir myndu taka Fíllinn hún Nellý næst.
Bierkeller
Hin fullkomna blanda af hljómsveit.

Þrúðmar (pabbi Steina) var með í ferðinni og var mjög nálægt því að taka Sverrir á þetta (Kop-ferðin 2013) og láta henda sér út af Bierkeller fyrir að dansa uppi á borðum. Hann var í banastuði en kom svekktur til mín er við vorum að fara af Bierkeller og sagðist þurfa að fara með Steina upp á hótel í háttinn enda hann orðinn syfjaður. Þrúðmar greyið var heldur betur til í meira glens. Kop.is-ferðir eru hugsaðar sem frábær kostur t.d. fyrir feðga í fótboltaferð en þeir þurfa þá jafnan að sýna ábyrgð og hugsa fyrir börnunum. Kristján Atli nýtti einnig tækifærið og fór upp á hótel til að strauja fötin sem hann ætlaði að vera í daginn eftir. Við Maggi héldum áfram.

Bierkeller og Rubber Soul

United-maðurinn Bjarni var í fyrsta skipti í Liverpool síðan 1999 en kominn í þvílíka flennigírinn að hann tók við stjórn á kráarröltinu á þeim hópi sem ég var með. Mínusinn við þann hóp var að þeir voru allir upp á sitt besta á afleitum áratug í tónlist og stefnan því tekin á næsta 80’s-bar og beint í kokteila sem litu út eins ef regnbogi hefði pissað í glösin.

Þegar inn á gólfið var komið tóku Bjarni og Maggi völdin á dansgólfinu ásamt einum sem sennilega átti blómaskeiðið á Bítlatímabilinu en með aðstoð þeirra félaganna náði hann ótrúlegum takti við Karma Chameleon, sérstaklega skipti þar máli að halda á honum í millikaflanum, skólastjórinn leysti það verk vel af hendi. Ég man svo sem ekki í smáatriðum eftir framhaldinu en hló upphátt er ég fór að lesa SMS-samskipti mín daginn eftir. Það var ekkert á færi hvers sem er að halda í við Bjarna og því þurfti stundum að nota tæknina til að halda hópinn.
SMS
Ég vissi ekki hvar Rubber Soul var fyrr en ég sá hann aftur á laugardagskvöldið. Sá staður verður skyldustopp héðan í frá, klárlega.
Rubber Soul

Upp á hótel var ég mættur 3:30 eða nákvæmlega sólarhring eftir að ég vaknaði. Það var einmitt þá sem Kristján Atli áttaði sig á þeim mistökum að hafa lagt til að við yrðum saman í herbergi. Í þessari ferð var okkur Magga splittað upp þó óljóst sé að það verði reynt aftur. Bæði er vegna þess að það bergmálar víst svo hátt þegar maður sefur meirihluta nætur inni á baðherbergi, eins vegna þess að við höfum einstakt lag á því að vera fullkomlega rólegir og óhjálpsamir. Maggi hefur aldrei munað staf meira en ég frá því komið er úr leigubílnum eftir djamm, helvítið hann Kristján man allt.

Maggi fór í sitt herbergi og ákvað að trúa Steina fullkomlega þar sem hann lá yfirvegaður og alklæddur á rúminu eins og hann hafði verið rétt sestur til að klæða sig úr sokkunum. Enda var svarið svo einfalt og yfirvegað þegar Maggi spurði hvort Steini vildi ekki leggja sig betur í rúmið. „Nei, ég er bara fínn“ var svarið. Þá auðvitað stendur það!

Steini vaknaði svo ferskur á laugardeginum (sem var aðeins á annan veg á sunnudeginum – meira síðar) opnaði vinstra augað og rétti úr sér um leið af yfirvegun um leið og hann tjáði sig rétt um mál næturinnar: „Núnú – ég hef víst ekki haft tíma til að fara úr fötunum“ – en hafði þó á einhverjum tíma nætur ákveðið að leggjast á rúmið alla leið. Sem var útaf fyrir sig góður árangur!

Laugardagur

Eitt mesta ofmat sögunnar snýr að kaflanum um að Jesú hafi risið upp frá dauðum. Hann var pottþétt í betra standi en ég var klukkan rétt rúmlega 9:00 daginn eftir þegar ég rankaði við mér og reis einmitt upp frá dauðum.

En þökk sé viðvarandi áfengismagi í blóði frá kvöldinu áður og tvöföldum Treo í vatn var ég mættur í morgunmatinn sem var í boði á hótelinu. Þetta er í svona þriðja skipi sem ég mæti á slíkan viðburð á ævinni. Kristján Atli var búinn að boða það að fararstjórn yrði formlega til viðtals milli 10 og 11 sem líklega gerði útslagið að maður lét sjá sig í morgunmatnum.

Síðasta Kop.is-ferð var í maí á síðasta ári og var ég í borginni á sama tíma. Þá eins og nú var einn alveg frjáls dagur sem endar oftast með að menn kíkja í búðir. Til að rétta kvöldið áður aðeins af settumst við niður á kaffihúsi í hádeginu til að borða og fá okkur kannski 1-2 Stellur. Sá hópur var ekki alveg rétt samansettur og endaði hádegisverðurinn svona:

34 pints

Því miður höfðum við ekki Sverri Jón og Ludwig Siemsen með okkur núna og fór dagurinn því full mikið í búðir. Hafði Magga að vanda með mér til halds og trausts enda ekki kallaður Mr Primark fyrir ekki neitt.

Ein synd frá kvöldinu áður var samkomulag sem ég gerði við Braga Brynjars, Tryggva Tryggva og Þóri, aðdáanda Kolo Toure Nr.1 á Íslandi. Við myndum allir frá okkur Kolo Toure aftan á svarta búninginn, hann er hinn nýji Aly Cissokho Kop.is-ferðanna!

Toure þórir

Klikkuðum á að láta mynda okkur saman en stóðum allir við það að kaupa Kolo Toure búning á laugardeginum. Hér er Þórir kominn í gallann og hefur sjaldan verið betri.

En þó við Maggi næðum ekki 34 Stellum yfir hádegismatnum þá vorum við ekkert að versla í fyrsta skipti og pössuðum að hafa helst stopp eftir hverja búð til að þorna ekki upp. Þannig þraukuðum við í gegnum daginn og endaðum á The Vines aftur þar sem Everton var að etja kappi við Chelsea. Þar inni var auðvitað töluvert af Everton-mönnum og óhætt að segja að örlað hafi aðeins á Þórðargleði er þeir fengu á sig jöfnunarmark á 98. mínútu sem var í þokkabót kolrangstaða eftir að þeir höfðu sjálfir komist yfir í uppbótartíma. Greyin.

Hluti hópsins var þó í betri málum en við á sama tíma. Það er orðin hefð að einhver hluti hópsins hitti á einhvern af leikmönnum liðsins og í þetta skiptið var það Daniel Sturridge sem kíkti á Hafliða Breiðfjörð og félaga hans:

Sturridge
(Mynd stolið af Facebook-síðu Ellerts Daníelssonar)

Eftir erfiðan dag fórum við Maggi upp á hótel til að skipta yfir í bingógallann og keyra okkur aðeins í gang fyrir átök kvöldsins. Eitthvað gekk mér illa með skyrtuna og reif mikilvæga tölu af, bölvað helvíti bara. Ég er bæði hálf sjónlaus og með fullmarga þumalputta til að þræða tölu á skyrtu og fékk því Magga til að aðstoða mig við þetta. Tók herlegheitin upp og setti á Snapchat af okkur hlæjandi að reyna að sauma tölu á skyrtu án nálar, tvinna eða hæfileika til að framkvæmda þetta. Þetta gekk ekki hjá okkur.

Þessu var ég öllu búinn að gleyma þegar ég kom heim aftur en það fyrsta og nánast eina sem konurnar í vinnunni spurðu að þegar ég mætti þangað var hvort okkur hefði tekist að setja töluna aftur á. Krakkar ekki senda Snapchat í glasi.

Eitthvað vorum við búnir að benda fólki á að skoða af frábærum veitingastöðum borgarinnar og eiga þar pantað borð með góðum fyrirvara. Stór hópur fór á Bem Brazil og eins fóru margir á veitingastað Jamie Oliver. Raunar hefur sá hópur verið svo öflugur að eftir helgina fékk Kristján Atli póst frá þeim um að koma í samstarf við síðuna um einhver afsláttarkjör. Hvað fenguð þið ykkur eiginlega að borða þarna inni?

Við Maggi náðum okkur á strik eftir „ekki-saumaskapinn“ og það var mission hjá okkur að finna ítalskan stað en þar sem okkur fannst Jamie vera full langt frá Matthew-stræti þá völdum við annan og þar tókst hið ómögulega. Ég sofnaði ekki ofan í pítsuna – nokkuð sem telst tímamót hjá mér á ítölskum veitingastöðum í Kop.is-ferðum! Þjónninn þurfti hins vegar að skera sneiðarnar ofan í mig.

(Innskot MaggiKlárlega einn af hápunktum ferðarinnar!)

Næsta stopp var Cavern Club, þar inni var rjúkandi stemming og fjöldi manns úr okkar hópi. Cavern er auðvitað skyldustopp fyrir þá sem eru að koma til borgarinnar í fyrsta skipti en við höfum mjög gaman af því hversu margir hafa nýtt Kop.is-ferðirnar til að láta loksins verða af því að fara til Liverpool. Það voru svona 4-5 í þessari ferð í sinni fyrstu ferð í tilefni af stórafmæli sem er frábært.

Fararstjórar

Þetta er svona það gáfulegasta sem náðist af okkur fararstjórunum saman, bæði frá Kop.is og Liverpool klúbbnum.

Óskar var að sjálfsögðu mættur og settist við trommusettið, hann er heldur betur langt frá því að vera eins ragur við Bítlalögin og í fyrstu ferðinni hans 2013 og gæti líklega leyst trommuleikara húsbandsins alveg af núna.

Eins og áður er nefnt þá var allt að verða vitlaust á Rubber Soul og því var að sjálfsögðu haldið þangað, þegar ljóst var þó að dansfélaginn frá kvöldinu áður var ekki á staðnum þá varð það stopp styttra og í staðinn nýttu margir sér það að hótelbarinn er opinn til 4:00 þegar þeir komu heim af djamminu um kvöldið og fengu sér einn (til viðbótar) fyrir háttinn.

Fyrir algjöra tilviljun vaknaði Kristján Atli aftur um það leyti sem ég var að koma heim á hótelherbergi. Ótrúlegt!

(Innskot (KAR): Já ég á það einmitt til að vakna án tilefnis um miðjar nætur, það tengist því ekkert að Einari fylgja hljóð sem gætu helst átt við innrás herliðs.)

Sunnudagur

Það eru þrír hlutir sem ég var ennþá að hlæja af eftir að ég var kominn heim úr ferðinni, eitt af þeim var SMS-ið um Rubber Soul, annað á þeim lista átti Kristján Atli skuldlaust.

Kvöldið áður höfðum við komið þrír í sömu lyftunni upp á hótelherbergi, ég, Maggi og Steini. Við vorum því allir svipað ferskir daginn eftir en þó allir með það á hreinu að vera mættir niður í lobbý fyrir tíu til að afhenda miða á leikinn.

Kristján Atli var hinsvegar búinn með sína átta tíma klukkan u.þ.b. 08:00 og fór að huga að morgunmat. Hann fékk skýr skilaboð frá mér um að hver svefnmínúta væri upp á líf og dauða og ég færi ekki tvisvar í morgunmat sama áratuginn.

Maggi og Steini voru í herberginu við hliðina og ákvað Kristján í góðmennsku sinni að banka hjá þeim, eftir langa mæðu opnaðist hurðin og eftirfarandi samtal átti sér stað:

Kristján Atli: Sælir, ég ætlaði bara að láta ykkur vita að það er miðaafhending eftir einn og hálfan tíma.
SSteinn: (Af einlægni og fullkomlega frá hjartanu) „Og hvað með það?“

Það var því bæði þökk sé Kristjáni Atla og þrátt fyrir Kristján Atla að við vorum allir mættir niður í lobbý fyrir klukkan 10:00 og gekk greiðlega að koma öllum miðum í réttar hendur, öllum nema einum.

Þið megið geta hvern var ekki glæta að vekja.

Rétt áður en við héldum út á völl fórum við Kristján Atli upp á herbergi hjá okkar manni og börðum hurðina næstum af hjörunum án þess að hann rumskaði. Fórum því með miðann hans á The Park þar sem Óskar var mættur skömmu síðar og sagðist hafa vaknað við eitthvað bank. Hann hafði ílengst á hótelbarnum kvöldið áður og farið langt með að leysa heimsmálin áður en hann sofnaði og var því eðlilega þreyttur.

Leikurinn

Stemmingin fyrir leik var að vanda góð og stigmagnaðist eftir því sem leið að leiknum. Við búum vel að því inni á The Park að þekkja vel til nokkurra fastra pósta þar inni sem reyndar nýta nánast allan tímann í að gera látlaust grín að aðdáendum Liverpool frá Noregi eða Íslandi. Guð hjálpi ykkur að koma með half-n-half trefil að þeim þar sem annar helmingurinn fer undir Man Utd. Það er svo nánast útilokað eftir gott djamm með þeim félögum að fá ekki lagið “Samll town in Norway, you’re just a small town in Norway” á heilann, sungið í þeirri merkingu að Ísland sé aðeins smábær í Noregi.

Leikinn sjálfan hef ég ekki áhuga á að fjalla sérstaklega um. Einar Örn gerði það ágætlega hér stax eftir leik.

Þetta var í fyrsta skipti sem ég sé Liverpool tapa leik, þetta var einnig í fyrsta skipti sem Kop.is fær ekki sigurleik. Þar fyrir utan var þetta bara rán um hábjartan dag enda þurftu okkar menn að hafa töluvert fyrir því að ná að tapa þessum leik. Hrikalega svekkjandi úrslit fyrir okkur Púllara en ekkert sem skemmir ferðina, reyndar voru nokkrir United-menn með í hópnum og voru þeir kátir eftir leik. Eini gallinn fyrir þá var að vera Liverpool megin en þeir komu a.m.k. allir lifandi af leiknum.

Úrslit leiksins voru eini risapósturinn í ferðinni sem við höfðum ekki stjórn á. Skítur skeður.

Það var alveg skítkalt á Anfield og eftir leik höfðum við ekki tíma til að bíða í 1-2 tíma á The Park eftir að umferðin myndi róast. Hlutabréf í Steina hækkuðu því töluvert er hann náði leigubíl þar sem við stóðum aftast í u.þ.b. 300 manna strætóröð.

Ferðalok

Rútuferðin út á flugvöll tók 20-30 mínútur sem var verulega þægilegt en John Lennon Airport er kannski ekki stærsti flugvöllur í heimi, ég veit a.m.k. ekki hvað var í gangi en þau voru tvö og handskrifuðu alla vélina inn.

Eitthvað vesen var þó á tveimur ferðalöngum þess efnis að engin fundust vegabréfin og var gerð heljarleit að þeim og hálft hótelið ræst út til að skoða herbergin og slíkt. Síðar kom á daginn að hægt væri að komast í gegnum þetta á ökuskírteininu en þá var vesenið að einn úr hópnum hafði skipt um eftirnafn frá því hann fékk bílpróf. Þetta hafðist fyrir rest með nokkur hundruð símtölum o.þ.h.

Þessu missti ég alveg af þar sem ég fór á undan inn í Fríhöfn en fór næstum að gráta (úr hlátri) þegar vel pirraður Steini sagði mér frá þessu, þetta er nákvæmlega vesenið sem allir nenna út á flugvelli á sunnudegi eftir station helgi og tapleik gegn United.

Ég þurfti svo næstum því sjúkrabíl nokkrum dögum seinna þegar Kristján Atli fékk þessi skilaboð á Facebook:

Vegabréf

Steini tók þessu sérstaklega vel:

Vegabréfið steini

Húmorinn var svona aðeins í’ðí, smá þunnur og verulega þreyttur stigi og gerði það næstum útaf við mig er við Sigfinnur (bróðir Steina) stóðum í rólegheitum að spjalla er heldri maður í frakka strunsaði skömmustulegur út af kvennaklósettinu og framhjá okkur. Fáránlega fyndið.

Heim á Selfoss var ég að skila mér um hálf þrjú leitð um nóttina og tók mánudaginn eins og maður tekur þriðjudaginn jafnan eftir Þjóðhátíð. Samræðurnar á leiðinni heim frá flugvellinum snerust einmitt um það að taka bara úr lás þegar maður kæmi heim þannig að Dominos gæti bara komið alla leið inn í stofu með pizzuna daginn eftir.

Svona var þetta frá mínum sjónarhóli svona í „stuttu“ máli. Þetta var rosalega góður hópur sem við vorum með og vonum við auðvitað að allir hafi skemmt sér sem allra best.

Næsta Kop.is-ferð er áætluð strax í næsta mánuði.

Takk kærlega fyrir okkur
Einar, Kristján Atli, Maggi og Steini


Ferðasögur fyrri ferða Kop.is
Everton í maí 2013
Crystal Palace í október 2013
Swansea í febrúar 2014
West Brom í október 2014
QPR í maí 2015

8 Comments

 1. va ofund…. hlo upphatt nokkrum sinnum og langaði að lesa meira! frabær ferðasaga takk fyrir mig 🙂

 2. Glæsileg lesning.

  Ágætt að það eiga fleiri en ég erfitt með að vakna á leikdegi!

 3. Snilldarferðasaga. Hló líka nokkrum sinnum upphátt. Ég þakka kærlega fyrir mig. Passinn minn barst mér í pósti frá Cavern Club í vikunni 🙂

 4. Haha takk sömuleiðis Ívar Örn, hvað varstu að gera með vegabréfið á Cavern Club?!

  Allavega gott að bæði vegabréfin komu í leitirnar fyrir rest. Og nú vitum við að ökuskírteinið getur nægt í neyðartilfellum.

 5. Já ég hafði á engum tímapunkti náð að fókusa á að taka það úr jakkanum og geyma á hótelherberginu 🙂 En það sem verra er, svona vesenislega séð, þá hafði framkvæmdastjórinn á Cavern samband á fésinu snemma á sunnudagsmorgun til að segja mér frá passanum en ég fór ekkert á fésið allan sunnudaginn. Og ekki einu sinni á flugvellinum hafði ég rænu á því. En þetta blessaðist allt og þið fararstjórarnir voruð alveg stórkotlegir.

 6. Hvernig væri að henda inn þráð um félagsskipti – jú þessi ferðasaga er skemmtileg en menn vilja ræða annað núna.

  Innskot: Sjá feitletruð ummæli nr. 1. Það er ekkert að gerast hjá okkar mönnum eins og er á leikmannamarkaðnum.

 7. Gaman naf þessari ferðasögu og maður verður að taka þennan pakka með ykkur einn daginn.
  Annars er eg með fínt ráð fyrir þá sem geta ekki vaknað og jafnvel ráð sem gæti nýst fleirul og hefur gagnast mer vel i mörgum Liverpool ferðunum, SLEPPIÐ ÞVÍ BARA AÐ SOFA ÞESSA 3 DAGA og gerið það bara heima hja ykkur. Kannski i lagi að deyja 2 -3 i ferðinni i sma dott en annars fint að taka þetta bara svona að allra mestu án svefns, tek það reyndar fram að eg er vel ofvirkur og einnig er þetta svona létt djók en samt minnir mig að eg hafi tekið Liverpool oftar en einu sinni og aldrei sofnað neitt nema bara óvart i 1-2 tíma af og til i ferðinni.

Liverpool – West Ham 0-0

Næsta verkefni: Toppliðið