Ferðasaga Kop.is: febrúar 2014

Um nýliðna helgi hélt Kop.is í sína aðra hópferð til fyrirheitna landsins. Eftir vel heppnaða fyrstu ferð í október í fyrra var ákveðið að setja upp aðra ferð í vetur og var stefnan tekin á leikinn gegn Swansea nú seint í febrúar. Það er skemmst frá því að segja að áhuginn á ferðina fór fram úr öllu hófi og þurfti meðal annars að panta flug til annarrar borgar (Glasgow) en upphaflega var áætlað (London) til að koma sem flestum með í ferðina.

Í þetta sinn voru undirritaður og SSteinn fararstjórar og með í för voru 29 eldhressir Púllarar og einn hress Arsenal-maður. Sá var með syni sínum í för en sá yngri er grjótharður Púllari (uppeldið sennilega í öfuga átt á þeim bænum enda reyndi strákurinn ákaft að mennta föður sinn yfir helgina, án árangurs). Stefnan var tekin með flugi til Glasgow, þaðan með rútu til Liverpool en þar átti að heyja orrustu gegn Swanselóna frá Wales, liði sem kann sko alveg að spila knattspyrnu get ég vottað fyrir í dag.

Friðrik Auðunn kann að pakka niður fyrir Kop.is-ferð!
Friðrik Auðunn kann að pakka niður fyrir Kop.is-ferð!

Föstudagur

Eftir allt of langa ökuferð (frá mér í Hafnarfirði til Keflavíkur með „stuttum“ útúrdúr upp í Grafarvog að sækja Steina) allt of snemma vorum við komnir upp á Panorama-barinn í fríhöfn Leifsstöðvar. Þar byrjaði hópurinn að finna okkur smám saman og við hittum flest alla hressa. Sumir voru reyndar hressari en aðrir og reyndu strax að koma Tópas-skotum ofan í fararstjórana, og klukkan ekki orðin sjö á föstudegi. Það gekk misvel. Þaðan var hoppað í stutta flugferð til Glasgow þar sem við tók skemmtileg rútuferð til Liverpool. Skemmtileg segi ég af því að við nýttum tímann og héldum hressandi Kop.is Pub-quiz í rútunni. Því lauk með sigri Vestmannaeyinganna Sigursveins og Bergs í þreföldum bráðabana og ég fullyrði að þeir Benni Jón og Helgi Valur sem lutu í lægra haldi í bráðabananum vilja aldrei heyra minnst á Milan Jovanovic aftur (frekar en við hin).

Í verðlaun fengu þeir Svenni og Bergur gjafainneign hjá Úrval Útsýn og ReAct hvor sem er ekki amalegt. Þá geta þeir flogið fljótlega út aftur með Úrval Útsýn í Liverpool-bolum frá ReAct. Svona á þetta að vera.

Nú, á Casartelli Posh Pads-hótelið var komið síðdegis á föstudag og við tók fyrsti af þremur frábærum dögum í Liverpool. Menn voru fljótir út að skoða borgina og fá sér í gogginn. Um kvöldið var svo haldið veglegt Kráarkvöld á Sir Thomas Hotel-barnum og var hlaðið í drykki og veitingar í boði Úrval Útsýnar. Í ferðinni í haust var svo mikið af mat að það var ákveðið að minnka skammtinn um helming fyrir þetta kvöld en engu að síður vorum við ekki nálægt því að klára veitingarnar. Ég veit ekki hvað menn halda að við Íslendingar borðum venjulega stóra skammta en það lá við að maður móðgaðist.

Nú, eftir Kráarkvöldið lá leiðin í gegnum miðbæinn (og Cavern Club) niður á Bierkeller þar sem þeir hörðustu fóru inn og misstu hökuna í gólfið, sem eru algeng viðbrögð þegar menn mæta í fyrsta skiptið inn á þennan magnaða stað. Allt á fullu, allt troðið af fólki sem stendur uppi á bekkjum og dansar. Það var lítið annað að gera en að fá sér væna krús af mjólk og slást í hópinn.

Reyndar var öryggisgæslan í strangari kantinum þessa helgina og það fór svo að a.m.k. einum Íslendingi var vísað út fyrir að stíga upp á borðin á hverju af kvöldunum þremur. Við höldum fram sakleysi okkar og viljum meina að þarna hafi verið ráðist gegn okkur sem þjóðflokki. Ég bíð aðgerða Alþingis í þessu máli.

Engu að síður klikkar Bierkeller aldrei og þar voru kvöldin enduð alla helgina. Þvílíkur staður!

Laugardagur

Eftir léttan morgunverð fóru menn í bæinn en hittust svo kl. 14 á The Park fyrir utan Anfield. Við sáum John Terry, eða Tim Howard, eða Frank Lampard skora sigurmark Chelsea gegn Everton á lokasekúndunum og fengum netta ælu í hálsinn en þessi dagur átti eftir að einkennast af því að allir andstæðingar Liverpool í deildinni (fyrir ofan, a.m.k.) unnu sína leiki og juku því enn frekar pressuna á að ná góðum úrslitum daginn eftir.

Eftir þetta ælumark var farið í að koma hópnum á safnið og í skoðunarferð um Anfield. Þar lentu grunlausir fararstjórar í því að allar ferðir voru uppbókaðar, sem gerist ekki oft utan leikdags. Sem betur fer var því reddað og sérferð sett upp fyrir þennan stóra hóp seinna sama dag. Það er alltaf gaman fyrir menn að sjá völlinn í návígi, sérstaklega ef þetta er fyrsta ferðin út, enda fór hver einasti ferðalangur í túrinn og hafði gaman af.

Óttar Arsenal-maður fékk að sjá alvöru knattspyrnu í þessari ferð og heilsaði upp á Kolo Touré í leiðinni
Óttar Arsenal-maður fékk að sjá alvöru knattspyrnu í þessari ferð og heilsaði upp á Kolo Touré í leiðinni

Um kvöldið fóru menn út að borða. Stór hluti hópsins fór saman á Sapporo, frábæran japanskan veitingastað þar sem kokkurinn kemur og eldar fyrir þig og leikur ýmsar listir með egg og núðlur og fleira. Reyndar tókst ekki að fá borð fyrir tólf manns fyrr en klukkan að ganga ellefu á laugardagskvöld þannig að menn voru að borða aðalréttinn sinn að ganga miðnætti, eitthvað sem ég mæli ekki með, en við fórum að sjálfsögðu bara á Bierkeller á eftir og hristum af okkur slenið fram eftir nóttu. Enn og aftur var Íslendingi vísað út af Bierkeller fyrir að stíga upp á borðin og í þetta sinn fengu báðir fararstjórarnir að fljóta með út eftir að hafa reynt að stilla til friðar. Þeir eru ekkert að grínast öryggisverðirnir á þessum stað, frekar en öðrum stöðum í Liverpool-borg. Hvað um það, bara gaman að því og menn skemmtu sér konunglega þrátt fyrir þessar litlu uppákomur.

Sunnudagur

Dagurinn hófst á morgunverð á The Vines, lítilli og gamalli kráarholu við hlið Adelphi-hótelsins sem margir Íslendingar kannast við. Þar mætti goðsögnin John Aldridge og sagði sögur og hitaði upp fyrir leikinn á meðan menn átu beikon og bakaðar baunir. Reyndar var karlinn sennilega á einhverju skralli kvöldið áður því hann var seinn fyrir og hafði fyrrverandi hnefaleikahetjuna Ricky Hatton með sér í för. Hann var steinhissa þegar Íslendingarnir fóru að spyrja sig úr spjörunum varðandi Aly Cissokho, átti sennilega ekki von á því að fá Cissokho-aðdáendaklúbbinn í heimsókn, hvað þá frá Íslandi. Aldridge er samt alltaf skemmtilegur, segir skemmtilegar sögur, er hreinskilinn og svarar öllum spurningum. Í lokin fengu menn tækifæri til að taka í spaðann á honum og Ricky Hatton og taka af sér myndir með þeim að vild. Frábær byrjun á leikdegi.

Já, og það er vert að minnast á eitt. Á meðan við biðum steig Jón Þorberg upp á svið og tók “pulsu”-rappið sitt við mikla kátínu okkar Íslendinga og mikla furðu hinna gestanna frá Noregi og Dublin. Fyrir þá sem ekki þekkja Jón þá sló hann í gegn í Ísland Got Talent fyrir nokkrum vikum með þessu rappi:

http://www.youtube.com/watch?v=TVKytbQdkMU

Þetta tók hann fyrir steinhissa útlendinga á krá í Liverpool. Vel gert Jón, vel gert. Takk fyrir okkur.

Nú, að morgunverði loknum stukku menn í leigara upp á Anfield … eða fyrst The Park, að sjálfsögðu, þar sem menn vökvuðu sig aðeins og hituðu upp með söngsveit Scousera. Svipurinn á þeim félögum Friðriki og Guðjóni Hall þegar þeir tóku Gary Macca-sönginn var óborganlegur en eins og vanir menn vita er sá söngur u.þ.b. 300 erindi og tekur kortér að syngja.

Nú, að upphitun lokinni var farið inn á völlinn. Eins og Eyþór gerði góð skil í leikskýrslu sinni var leikurinn snarklikkaður og óhætt að segja við fengum allan regnbogann af stemningu, pirringi, reiði og svo aftur fögnuði þennan daginn. Allir voru í frábærum sætum og urðu vitni að eftirminnilegum sjö marka þriller. Það er oft sagt að það séu engin slæm sæti á Anfield og það sannaðist enn og aftur þar sem ég og Steini fórum ásamt Friðriki og Guðjóni Hall í Anfield Road End (fyrir aftan ekki-Kop markið) og fengum þar öll mörk Liverpool í fyrri hálfleik og allan hasarinn þegar Swansea reyndu að jafna í seinni hálfleik. Frábær leikur og fróðlegt að sjá liðið í nærmynd (það er efni í annan pistil).

Eftir leik var eins og það tæki menn smá tíma að átta sig á að þetta hafi unnist. Hópurinn kom að mestu leyti inn á The Park aftur til að fagna aðeins áður en haldið var í bæinn og ekki skemmdi það lund manna að sjá Tottenham tapa fyrir Norwich sem þýddi að þessi dagur markaði möguleg þáttaskil í baráttunni um Meistaradeildarsætið. Og við vorum á staðnum til að fagna með Scouserunum. Best fannst mér að sjá Helga Val á Park eftir leik. Sá var nánast dreginn til Liverpool af vinum sínum, Benna Jóni og Valgeir, með engan áhuga á fótbolta almennt hvað þá Liverpool FC. Nema hvað, að leik loknum birtist Helgi Valur á Park í rauðri Suarez-treyju, með trefilinn um hálsinn og glottið allan hringinn. Vel gert Benni Jón og Valgeir, svona á að vígja menn!

Frá vinstri: Benni Jón, Helgi Valur, Valgeir og Steini. Helgi sefur sennilega með rauða trefilinn næstu daga enda orðinn grjótharður Púllari!
Frá vinstri: Benni Jón, Helgi Valur, Valgeir og Steini. Helgi Valur sefur sennilega með rauða trefilinn næstu daga enda orðinn grjótharður Púllari!

Um kvöldið var svo rúsínan í pylsuenda ferðarinnar tekin þegar allur hópurinn settist saman inn á Bem Brasil, frábært brasilískt steikhús, og át þar eins mikið og hægt var af kjöti af öllum gerðum. Þetta frábæra steikhús klikkar aldrei. Að því loknu tvístraðist hópurinn, sumir orðnir orkulitlir eftir langa helgi og tóku kvöldið snemma á hótelherbergjunum á meðan aðrir fóru á barinn og skáluðu fyrir vel heppnaðri helgi.

Frá vinstri: Hörður, Bergur, Ágúst, Svenni og Óskar. Vestmannaeyingarnir voru hæstánægðir á Park eftir leikinn.
Frá vinstri: Hörður, Bergur, Ágúst, Svenni og Óskar. Vestmannaeyingarnir voru hæstánægðir á Park eftir leikinn.

Mánudagur

Það var því ánægður og glaður hópur sem mætti í rútuna kl. 9 að mánudagsmorgni. Stefnan var tekin beint til Manchester og þaðan með flugi heim enda vilja menn sem minnst stoppa í Manchester. Tyggjóið og rauðvínið verslað í Leifsstöð og ferðinni slúttað í kjölfarið.

Fyrir hönd Kop.is og okkar Steina þakka ég ferðalöngunum bara vel fyrir okkur. Það er eitt að skipuleggja svona ferðir en það er alltaf spurning hvernig hóp maður fær. Við Steini teljum okkur hafa verið mjög heppna í þetta skiptið. Í hópnum voru eitt feðginapar, fjögur feðgapör, tvö hjónapör, tveir bræður (og tveir „þjáningarbræður“), einhverjir sjö Vestmannaeyingar, fjórir hressir úr Vík í Mýrdal, þrír frá Egilsstöðum og einn ofan af Akranesi og svo mætti lengi telja. Hópurinn var fjölbreyttur og skemmtilegur og stóðu sig frábærlega sem fulltrúar íslenskra Liverpool-aðdáenda.

Við Steini þökkum fyrir okkur og sjáumst vonandi í einni af næstu ferðum.

E.s.
Sorrý Steini, en við verðum að ljúka þessu á fyndnasta atviki ferðarinnar. Á föstudagskvöldið, þegar upp á hótelið var komið, óskaði ég Steina góðrar nætur og hann stökk upp í lyftuna. Ég sat áfram í lobbýinu að kíkja á netið og með mér var Ástþór frá Vík í Mýrdal. Nema hvað, Steini var ekki fyrr horfinn inn í lyftuna að strákurinn sem var á vakt í lobbýinu snýr sér að okkur Ástþóri og sýnir okkur tölvuskjáinn sinn. Á tölvuskjánum er mynd af manni sem við þekktum strax.

Og hann sagði: “Your mate, who just left, he looks exactly like a young Roy Hodgson.”

Það er óþarft að taka það fram að við biluðumst úr hlátri. Fyrir áhugasama er hér mynd af Steina og svo nákvæmlega myndin sem hann sýndi okkur af Roy Hodgson:

SSteinn er reyndar myndarlegur maður og nákvæmlega ekkert líkur Roy Hodgson. Ég skil ekki af hverju hann lendir alltaf í þessu en hann hefur oft verið talinn líkur Gary Neville sem er enn fáránlegra. Greyið Steini. Sorrý vinur minn.

Sjáumst í næstu ferð!

33 Comments

 1. Ég verð að upplifa svona ferð einn daginn , ég vona að ég komist með næst !

 2. Að fara í svona ferð er komin á bucket listann minn. Bara must áður en maður hittir Fowler sjálfan… en hey hann er jú að koma á árshátíð er það ekki 🙂

 3. hvaða KOP-spjallarar mæta á árshátíðina, væri gaman að vita 🙂

 4. Takk kærlega fyrir frábæra ferð, þetta var tær snilld í alla staði hjá ykkur félögum Kristján Atli og Steini. Þið hin sem voruð í ferðinni, takk fyrir samveruna. …. en þið hin sem ekki komuð með, ekki láta KOP.IS ferð framhjá ykkur fara aftur. Adios

 5. Gaman að litli bróðir (Jón pulsurappari) gat haldið uppi stuðinu þarna með ykkur, það er komið á “to do list” að kíkja í eina svona ferð með ykkur 🙂

 6. Steini á sér tvífara: halta þjóninn í Downton Abbey. Sterklíkir á fjórmenningamyndinni…

 7. Er þegar farinn að safna fyrir næstu (eða þarnæstu, eftir hvenær næsta verður) ferð og er langt kominn. Ég ætla mér í kop.is ferð!

 8. Það hefði mátt segja ansi margar skemmtilegar og svæsnar sögur, en Kristján Atli, þú þurftir að velja þessa ófyndnustu og verstu sögu sem komið hefur upp í Liverpool og er ég nú búinn að fara á yfir 100 leiki 🙂 Er með menn í að grafast fyrir um hver þessi næturvörður var.

  Annars var nú eitt suddalegt og ég vil nú ekki segja það berum orðum, en þeir vita það sem það vita. En hann Ástþór, hann nældi sér í 5.000 rokkstig á The Park á leikdegi rétt fyrir leik. Það er suddalegt afrek og verður seint leikið eftir að ég held.

 9. En vil bara annars taka undir orð KAR hér að ofan og þakka fyrir frábæra ferð með hrikalega skemmtilegum hóp, algjör eðal helgi að baki frá a-ö.

 10. Nr. 9

  Djöfullinn maður, respect. Ekkert Swaage svindl heldur bara klárað dæmið eftir settum reglum.

 11. Ástþór er enginn pappakassi eins og Sveinn Waage heldur kláraði málið með myndatöku og alles. Magnaður.

  Steini, þú ert sennilega sá eini sem fannst þetta ekki fyndið.

  Hvenær er svo næsta ferð? 🙂

 12. Maður fær fiðring í magann af að lesa þessar ferðsögur! Ég þarf bara að selja líffæri og skella mér með næst!

  Annars sjáumst við öll brakandi hress á Spot þann 22.mars

 13. Sælir félagar, hrikalega gaman að lesa þessa ferðasögu. Þar sem ég var nú í fyrri ferðinni þá fær maður nett flass back að lesa þetta, þessir kop bræður eru náttúrulega bara snillingar og ég mun pottþétt fara í aðra ferð með þeim,, vel gert strákar 🙂

  kveðja, Garðar Ólafss.

 14. það væri hrikalega gaman að komast i svona kop.is ferð. það er komin timi a næstu ferð hja mer. ekki farið siðan eg sa suarez spila fyrsta leik sinn fyrir liverpool og skora i honum mark gegn stoke og endaði ferðina a stamford Bridge og sa torres spila fyrsta leik sinn með chelsea og það gegn liverpool, ad sjalfsogðu vann liverpool baða þessa leiki.

  eg væri til i kop.is ferð a liverpool – man utd , liverpool – everton eða liverpool – chelsea.. það væri ekkert leiðinlegt að sja liverpool – chelsea og syngja allann leikinn fock off chelsea fc sönginn …

  eg vil frekar sja storan leik þvi það er mikill munur a stemmningu a storu leikjunum eða litlu leikjunum.. menn þyrftu ekki að ottast að liverpiil myndi ekki vinna leikinn þvi þeir vinna einfaldlega ALLTAF ÞEGAR EG er a anfield, það hefur aldrei klikkað !!!

  taka td i haust tvöfalda ferð fra miðvikudegi til sunnudags með champions league leik miðvikudegi ( þar er alvoru stemmning ) og svo deildarleik a laugardegi, baða a anfield.. Það yrði rugluð ferð 😉

 15. Gera svo bara ráð fyrir svona 50 manns næst 🙂

  Ég ætla pottþétt með og ekki væri verra ef þið gætuð gefið manni doldinn fyrirvara á til að undirbúa jarðveginn heima fyrir og svona 🙂 áður en ákvörðun þarf að koma

 16. Snilldarlesning. Fór á Anfield í ágúst þegar við rústuðum manjú og mann er strax farið að klæja í kreditkortið. Þetta er best.

 17. Er vitað hvenær leikjaplanið fyrir haustið verður auglýst? Ég er búinn að sannfæra frúna um að við ættum að skella okkur á leik, tökum hugsanlega smá hjólaferð um Skotland í leiðinni. Eðlilega vill maður plana þetta fyrr en síðar.

 18. Sælir

  þakka öllum sem voru í ferðinni um liðna helgi fyrir frábæra skemmtun. Þetta var mín fyrsta ferð á Liverpool leik og ég er nokkuð viss um að það hefði ekki tekist svona vel til þó að ég hefði skrifað handritið sjálfur.
  Farastjórnin hjá þeim Kristjáni Atla og Steina var einstök og eiga þeir hrós skilið fyrir frábæra dagskrá og dekur við alla ferðalangana í þessari ferð, hótelið var einnig frábært og vel staðsett. leikurinn var svakalegur, bauð í raun uppá allt, algjör tilfinningarússíbani.

  Ekki skemmdi svo fyrir allar ferðirnar á Bierkeller,, frábær staður ,, er reyndar með spurningu fyrir Steina , , er með svona blátt deposit card frá Bierkeller ,, veistu hvað það er ? 🙂

  Að lokum mæli ég klárlega með ferð á Anfield með kop.is hvort sem fólk er að fara í sína fyrstu ferð eða bara spá í ferð yfir höfuð, það verður enginn svikinn af því.

  Takk fyrir mig

  kv Friðrik.

 19. Tottenham að fara detta úr UEFA cup á móti Dnipro, veit ekki hvort ég ætti að vera glaður með að þeir eru ekki betri en þetta eða leiður yfir því að þeir þurfi ekki að keppa auka leiki

 20. Ég sé ekki betur en þeir séu að svindla sér áfram, ótrúlegur leikaraskapur hjá Vertoghnen

 21. hjúkk, Spurs komnir áfram í uefa-cup. Megi þeir vera þar inni sem lengst!

 22. Europa League sigur gefur ekki neitt í ár nema heiðurinn og smáaur (m.v. CL). Eftir í keppninni eru mörg góð lið.

  Spurs fer núna áfram og fær Benfica í næstu umferð. Fyrri leikurinn er líklega á milli Chelsea og Arsenal leikjanna hjá Spurs og seinni leikurinn er þremur dögum áður en þeir koma á Anfield.

  Ég hélt mikið með Spurs í kvöld og ég hélt áfram að bölva hátt yfir því að hafa klúðrað Konoplyanka kaupunum í janúar. Hann er núna kominn í frí þar sem búið er að fresta tímabilinu í Úkraínu um óákveðinn tíma.

 23. Sælir ferðafélagar. Verð nú að setja hér inn nokkur orð um þessa frábæru ferð okkar! Frábær stemmning og truflaður leikur sem við fengum. Hótelið var flott á íslenskan mælikvarða en örugglega tæpar 9 stjörnur á þann breska!!

  Farastjórarnir, Steini og Kristján voru allt í öllu í ferðinni og fórnuðu sér oft fyrir fjöldann 🙂

  Fermingarbörnin úr Eyjum voru alsæl með ferðina og það sama getum við pabbarnir sagt.

  Takk fyrir okkur
  Svenni

Vangaveltur um varnarleik og breytingar milli tímabila.

Southampton á morgun