Opinn þráður – gömul ferðasaga

Stundum er eins og forráðamenn fótboltafélaga átti sig ekki á því að félagsskiptaglugginn er allur janúarmánuður. Maður myndi ætla að megnið að viðskiptum janúar félagsskiptagluggans myndu eiga sér stað á fyrstu dögunum enda hafa menn ekkert haft að gera í vetur annað en undirbúa þennan glugga. Þetta er þó alls ekki svona og í staðin er alltaf að því er virðist beðið með þetta fram á síðasta dag. Þetta ár ætlar ekki að verða neitt öðruvísi hjá okkur, vonum bara að þessi gluggi verði líkari janúar 2013 heldur en janúar 2012 þegar engin viðskipti áttu sér stað.

Það er a.m.k. ekkert að frétta eins og er, varla verið að slúðra um leikmenn til Liverpool nema þá helst blm. sem maður hefur aldrei heyrt minnst á áður og aðrir álíka twitter sérfræðingar.

En svona í ljósi þess að það er langt í næsta leik og framundan er hópferð kop.is ætla ég að henda inn ferðasögu sem hefur ekki komið hingað inn áður. Þetta er frá ferð sem við pennarnir fórum saman í maí á eigin vegum. Þetta var engin hópferð sem við vorum í þarna en klárlega grunnurinn að þeim ferðum sem við erum að smíða núna.

Kristján Atli skrifaði ferðasögu hingað inn á sínum tíma en Hallgrímur Indriða bað mig svo um að gera ferðasögu fyrir Rauða Herinn nokkrum vikum seinna. Rauði Herinn er auðvitað málgang félaga í Íslenska Liverpool klúbbnum.

Ég veit ekkert hvort nokkur hafi áhuga á að lesa þetta en eins og ég segi, það er lítið að frétta…

Miklu meira en bara 90 mínútur af fótbolta


Stundum verður mönnum á og þá er bara að taka afleiðingunum. Rauði Herinn óskaði eftir ferðasögu frá mér í þetta fína og fjölskylduvæna blað og ég var búinn að svara áður en að ég fór að rifja upp fyrri ferðasögur í þessu ágæta blaði. Fallegar sögur af upplifun fjölskyldufólks, jafnvel í sinni fyrstu ferð á Anfield. Já ég var ekki í þannig ferð! Ég fór með félögum mínum á vefsíðunni kop.is, þeim Kristjáni Atla, Magga og SSteini. (Einar Örn átti skýrslu þessa helgi og fékk því ekki að fara með).

Við hópinn bættist óvænt vinur okkar Sveinn Waage sem var fararstjóri í ferð á vegum Liverpool klúbbsins og fyrir þeirri viðbót var ekki hægt að fá neina slysatryggingu með svona skömmum fyrirvara. Með honum var auðvitað hópur snillinga sem gerði þetta að, mig langar að segja með öllu ógleymanlegri ferð, en það væri ekki alveg satt. En mér er sagt að það hafi verið húrrandi fjör þá parta ferðarinnar sem eru aðeins í móðu.

Flöskudagur 03.05.13
Eftir alveg tveggja tíma svefn eða svo hittumst við ferskari en Geir Ólafs kl 5:45 í Keflavík. Leifsstöð gekk áfallalaust fyrir sig fyrir utan að ég keypti líklega verstu samloku síðan brauðið var fundið upp, a.m.k. ef miðað er við verð og höfðatölu, eitthvað sem ég geri aldrei aftur. Ég þurfti að fá mér tvær humlasúpur á Panorama barnum til að jafna mig á þessu ógeði.

Sigursteinn litli var kvefaður þegar við fórum út sem gerði það verkum að hann sló met þriggja ára gamals barns í að fá hellu/þrýsing fyrir eyrun í aðfluginu að flugvellinum í Manchester, ég áttaði mig satt að segja ekki á þessu í fyrstu og hélt að fyrrum formaðurinn hataði Manchester bara svona mikið.

Liverpool klúbburinn og Vita sáu um að trylla hópnum með hraði frá Manchester yfir til Liverpool undir styrkri stjórn Waage sem fór yfir helstu kosti og ókosti hvorrar borgar fyrir sig, hlutlaust mat. Flest vorum við á Jury´s Inn hótelinu sem er fínt hótel í rölt færi frá miðbænum við hliðina á paríasrhjólinu og Echo Arena.

Enginn okkar félaganna var fara í sína fyrstu ferð til Liverpool, gríðarlega mikið langt í frá en allir vorum við sammála um að Liverpool borg hefur breyst alveg gríðarlega til hins betra undanfarin ár og er í raun orðin algjör snilldarborg þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Miðbærinn er ein þétt heild þar sem hægt er að versla fyrir allann pengininn (staðfest), þarna eru fjöldinn allur af veitingastöðum og barirnir eru hver öðrum skemmtilegri. Við vorum auðvitað ekkert að fara í Everton hverfin “on the dark side” hinumegin við Mersey ána en miðbærinn er með þeim skemmtilegri.

Við félagarnir fórum með göfug markmið niður í bæ strax við komuna til Liverpool, Bítlasafn, verslanir o.þ.h. en enduðum inni á barnum hans Carraghers sem var bókstalfega fyrsti barinn við komuna niður í bæ. Þar tókst ég af illri nauðsyn á við eitthvað sem myndi sóma sér vel sem áskorun hjá vinahópum í svona ferðum, þ.e. “taka tvistinn” á þessum bar. Það var ekki einu sinni hægt að læsa, svo mikil hafa átökin verið hjá þeim sem hafa verið á undan!

Eftir stutt stopp hjá Carragher barnum röltum við upp stiga og inn á barinn fyrir ofan. Það var eitt mesta menningarsjokk sem ég man (ekki) eftir, sjaldan séð hús sem ber eins lítið með sér að utan vera svona stórt að innan. Þessi staður heitir Bierkeller og þeir selja fleiri hundruð tegundir af bjór sýndist okkur. Það hætti að skipta máli er við eins og sannir Íslendingar sáum að eina bjórtegundina seldu þeir í líters krús. HVER SAGÐI SKÁL?

2013-05-03 17.41.25

Næsta sem ég man var vakna á Pizza stað við hliðina á hótelinu eftir 1-20 mínútna lúr. Þar týndum við kennara bjórskólans (Waage) og fórum spenntir á pöbbarölt undir leiðsögn hins þaulvana og goðsagnakennda Liverpoolfara Sigursteins (SSteinn).

Hann vildi byrja á Adelphi hótelinu sem ku vera vígalegt. Þar rann fljótt af mér er við gengum í flassið á gestum árlegu tattú ráðstefnunnar sem var í gangi á þessu hóteli. Kallið mig fordómafullann en ég verð hræddur um Magga í kringum fólk frá norður Englandi sem er með tattú í andlitinu og með fleiri en 20 “eyrna”lokka. SSteinn fékk ”örlítið” að heyra af þessum mistökum sínum það sem eftir lifði pöbbaröltsins hans sem endaði aftur á hótelbarnum á Jury´s án þess að við Maggi fengjum svo mikið sem að þefa af bjór.

Fljótlega áttuðum við okkur á því að klukkan var í engu samræmi við stemmingu og ástand þannig að við skiptum Svenna út fyrir Indriða, ábyrgan faðir sem var í Liverpool borg með 18 ára syni sínum sem drekkur ekki og var í nauðsynlegum hrókasamræðum við kærustuna uppi á hótelherbergi. Við hentumst þar með aftur niður í bæ. Maggi fékk núna að leiða eftir að við rákum Steina og fórum við inn á hvern tóma skemmtistaðinn á fætur öðrum áður en BIERKELLER!!! öskrum mínum var loksins svarað. Taka 2, líters krúsir, dansað upp á borðum og heim að sofa þegar byrjað var að sópa skemmtistaðinn.

Laugardagur 04.05.13

SSteinn var ekkert að grínast með að hann væri búinn að bóka borð á Tælenskum veitingastað kl: 12:00 og náði að sannfæra mig um að það væri bara í alvörunni ræs strax. Staðurinn heitir Thai Pan og er hægt að lesa um hann nánar á kop.is. Þar sá breskur vinur Steina um að panta fyrir okkur enda skildi ég ekki orð sem stóð á matseðlinum og hef raunar ekki hugmynd um það ennþá hvað var í matinn. Eina sem ég veit er að einn forrétturinn var með sósu sem ég myndi segja að væri það næsta sem ég hef komist því að borða eld í föstu formi og eftir það flaug afréttarinn niður nánast án þess að ég snerti hann meö höndunum. Gjörsamlega frábær staður og svo margir réttir í forrétt að við afpöntuðum aðalréttinn eftir að við fréttum að það væri ekki grín að við værum ennþá í forréttinum.

Eftir mat var Maggi búinn að mæla sér mót við vinafólk sitt sem ætlaði að fara í skoðunarferð um Anfield Road. Það var því miður bannað þar sem um sjónvarpsleik var að ræða sem verið væri að stilla upp fyrir, einungis hægt að fá skoða The Kop. Okkur Magga fannst það heldur slöpp afsökun og náðum að sannfæra hvorn annan um að líklega værum við betur settir á Park meðan þau færu að skoða völlinn, við vorum hvort er með miða í Kop daginn eftir.

2013-05-04 15.18.50

Þetta voru ákveðin mistök því að ég held að það sé engum hollt að sjá The Park semi tóman, ekki á leikdegi. Hvernig þessi hroðalegi staður getur verið svona mikil snilld á leikdegi er erfitt að skýra. Strákarnir settu um leið á mig áskorun um að toppa tvistinn á barnum hans Carragher, þ.e. inni á The Park á leikdegi. GLÆTAN frekar færi ég á útikamar á Þjóðhátíð á mánudagsmorgni. (innsk. Þessari áskorun hafa aðrir tekið síðar og er orðið partur af hetjudáðum í Liverpool ferð)

Laugardagsvöldið hófum við félagarnir svo á frumlegu nótunum og fórum aftur á tælenskan veitingastað, fínni staður en sá fyrri en með mest pirrandi hefð í sögu menningar. Þeir koma með bong hristu, og konu sem öskrar i hvert skipti sem einhver á afmæli, eitthvað sem fær mann til að meta Hard Rock og Fabrikkuna alveg upp á nýtt. Ólöglegur staður í þynnku.

Því næst fórum við á stað sem heitir Slaugherhouse og tókum við hús á Mark og Andy (from all over), snarrugluðum vinum Steina. Vel sjóaðir meðlimir The Kop til áratuga sem eru íslenskum harðkjarna stuðningsmönnum Liverpool vel kunnugir. Þetta er flottur ekta írskur pub með live músik sem myndi sigra auðveldlega í Bandinu hans Bubba 2 hérna heima.

2013-05-04 23.45.01

Allt var þetta hið besta mál þar til við ákváðum að færa okkur um set og á annan bar. Eitthvað snappaði í hausnum á Waage sem festist í McBastard, skoskri útgáfu af Svenna sem var alveg nægjanlega klikkaður fyrir. Á þessum 500 metrum náði McBastard að móðga flest þjóðarbrot jafnt (á bráðfyndinn hátt), brjóta af sér líkt og formaður Arsenal klúbbsins fékk að fara í fangelsi fyrir um árið sælla minninga og endaði þetta á því að öskra Bravehart style DEATH TO THE ENGLISH í miðborg Liverpool rétt áður en hann tjáði viðstöddum ást sína á Skotlandi og Pakistan (þetta er viljandi ekki alveg í samhengi).

SWaage
SWaage

Félagarnir á herbergi 513 (KAR og Maggi) voru eitthvað stressaðir yfir leiknum og ákváðu að fara fyrr í bælið, við hinir vorum ekki alveg á sömu línu ákváðum að taka þetta bara svipað og kvöldið áður og vorum á endaum beðnir um að hætta að syngja þjóðlagasönga með írskum gestum Jury´s inn hótelsins ca. 4 um nóttina, skil ekki ennþá afhverju það mátti ekki.

Þunnudagur 05.05.13

Aftur var Steini ekkert að grínast daginn eftir, núna klukkan 9:30. Það sem verra var, hann virkaði ferskari en Páll Óskar yfir Eurovision. Minnugur heimsóknarinnar á Park daginn áður passaði ég mig á að gera dolluna á herbergi 512 fokhelda áður en ég fór niður og fékk mér humlasúpu í morgunmat.

Á Park vorum við mættir rétt rúmlega 10 og var staðurinn þá þegar þéttsetinn, við tókum þátt í öllum helstu hefðum á Park, smá söngvökvi, rennt í gegnum lagaprógrammið og ég meira að segja tók mér okkar helstu stjörnu til fyrirmyndar og beit Kristján Atla! Hann er ennþá að væla yfir því.

2013-05-05 11.10.27

Mest fannst mér þó gaman að sjá söngvana snúast bara um Liverpool og smá Everton þar sem við áttum leik við þá. Söngvar um United eða önnur lið ekki á lagalistanum og þaggaðir niður í fæðingu enda við ekki að spila við þá. Þetta er eitt af fjölmörgu sem sker Liverpool frá öðrum liðum og er vel.

Á leiknum stóðum við Kristján Atli saman í Kop og tókum m.a. þátt í þakka Everton mönnum fyrir stuðning þeirra í tengslum við Hillsborough meðfram því er við sungum You´ll Never Walk Alone.

article-2319077-19A2178A000005DC-571_634x286

Það má vera að þessi leikur hafi verið leiðinlegur en það var stórgaman að heimsækja The Kop og það sérstaklega á þessum leik. Við settumst ekki niður í eina mínútu á meðan leik stóð. Reyndar settist ég í hálfleik og sendi Steina SMS sem ég var búinn að gleyma er hann las það á hótelinu, þar stóð einfaldlega:

“Snýst völlurinn hjá þér líka?”

Prógrammið um kvöldið var svipað og hin kvöldin. Við hittum Mark og Andy stuttlega aftur ásamt fleiri innfæddum sem gjörsamlega hökkuðu Steina greyið í sig fyrir að líkjast starfsmanni Sky Sports óþægilega mikið. Veisla fyrir okkur hina.

Þaðan fórum við Kop menn ásamt fjórum öðrum íslendingum á hreint ótrúlegt Braselískt veitingahús. Þar fær maður bara spjald sem er grænt öðru megin og rautt hinumegin og meðan græna hliðin snýr upp þá dæla þeir bara endalaust af kjöti á diskinn, trikkið er s.s. ekki að fá ekki nóg að borða heldur að hafa vit á því að segja þeim að stoppa. Erfitt fyrir Íslendinga sem líta á kvöldmat eins og hvert annað kappát að lenda í svona en það er óhætt að segja þessi 18 ára sem drekkur ekki hafi rústað þessu “kappáti”.

Mánudagurinn á Englandi var Bank Holliday sem þýddi bara djamm á sunnudeginum líka og við gátum ekki yfirgefið Liverpool borg án þess að taka eitt kvöld enn á Bierkeller.

Núna fengu líterskrúsirnar pásu enda menn misjafnlega búnir á því. Jay Spearing vinur okkar var þó þarna að fagna því að vera kominn í sumarfrí og dansaði eins og Sæmi Rokk upp á bekk. Það eru reyndar merkingar á borðunum sem segja að það sé bannað að dansa upp á borði og það er furðu mikil þörf á þessari merkingu.

Mánudagur 06.05.13

Enn á ný var ræs á fáránlegum tíma, nú til að ná rútunni til Manchester og í þetta skiptið var það ég sem var leiðinlega ferskur á meðan SSteinn var sigraður. Heim komum við um miðjan dag á mánudegi og tók flugið ca. fimm Entourage þætti með hléum.

Vonandi næ ég að koma því til skila að svona ferðir eru svo miklu meira en bara 90 mínútur af fótbolta, sem engu að síður eru alltaf svo ólýsanlega skemmtilegar að upplifa live. Hópurinn sem var með Svenna þarna úti var eins misjafn og þau voru mörg og úti á mismunandi forsendum, með það sameiginlegt að sjá leikinn. Leikurinn fór ekki alveg nógu vel en allir virtust sammála um að þetta var alveg fjandi gaman.

Verst að ég er í 10 leikja banni frá Anfield eftir að ég beit Kristján Atla.

Takk fyrir mig
Einar Matthías (Babu)

20 Comments

  1. Snilldar saga sem gerir mann bara enn spenntari fyrir jómfrúarferðinni á Arsenal leikinn í febrúar. Shiiiit hvað ég er orðinn spenntur 😀

  2. Þið eruð ekkert smá kostulegar fyllibyttur. Verst að maður er hættur að drekka.

  3. Ég leit ekki á neina upphitunarpósta eða uppstillingar fyrir Stoke leikinn og hélt því fyrst að ég væri að sjá ofsjónir þegar Lucas var farinn að þvælast ítrekað upp við teig og jafnvel endalínu heimamanna.

    Er búinn að pæla svolítið í þessu síðan og datt eitt í hug í sambandi við færsluna á Gerrard í djúpt holding hlutverk. Getur verið að BR sé að búa í haginn fyrir komu miðjumanns í janúarglugganum? Mikið væri gaman að fá einn háklassa mann á miðjuna og keyra á 4-4-2 með tígli, 4-2-3-1 með Suarez, Coutinho og Sterling fyrir aftan Sturridge. Hvort tveggja gæti komið ágætlega út meðan bakverðirnir eru ekki að bjóða upp á meira en við höfum séð undanfarið.

    Líklegt er að þetta sé önnur hliðrun/breyting til að koma SAS saman fremst á völlinn (eins og 3-4-1-2 á sínum tíma). Annar slíkur möguleiki væri auðvitað 4-1-3-2 með Gerrard einan að halda. Veit samt ekki hvort ég byði í það á móti sumum af sterkustu liðunum. Þetta gæti þó losað sprækari menn en Gerrard í að pressa og hrella andstæðinga án þess að fórna SAS. Gerrard m.ö.o. færður til að láta hina á miðjunni virka betur, en haldið í byrjunarliðinu upp á leiðtogaelementið, clutch sendingar og slíkt.

    Þessi hugleiðing hjá mér leiðir hingað: þrír af Henderson/Coutinho/Sterling/Allen fyrir aftan SAS og Gerrard í djúpu holding hlutverki? Ég get alveg séð það fyrir mér! Svo Lucas inni þegar á þarf að halda. Það er a.m.k. flott að reyna að stækka vopnabúrið fyrir heimaleikina á móti toppliðunum. Sum þeirra eru sem fyrr líkleg til að stjórna ferðinni á móti okkur eins og miðjan er búin að vera á köflum. Lucas/Gerrard á miðjunni getur nefnilega verið svolítið dauft, eins og þeir eru báðir stórfínir leikmenn.

    Ég held að við séum hársbreidd frá því að geta nánast skorað að vild, ef hlutirnir fara virkilega að smella fyrir aftan framlínuna og SAS haldast heilir og í formi. BR er greinilega enn að þreifa fyrir sér.

    Ætli kafteinninn endi sem miðvörður – eða jafnvel markvörður – ef þetta trend heldur áfram? 🙂

    Já, þessi árans fótbolti getur verið snúinn svo það er best að ljúka þessu á einu spaugilegu úr Stoke leiknum: https://vine.co/v/hL7bAEHEvAl

  4. Stórskemmtileg frásögn þetta og gaman að fá annað sjónarhorn á það sem ég skrifaði um upphaflega.

    Og Babú , ég er enn með fokking bitfar á handleggnum! Það eru liðnir átta mánuðir!

  5. Strákar ef þið hafið einhverntíman velt því fyrir ykkur hvernig himnaríki lítur út, þá farið þið á Bierkeller!
    Að hoppa á milli borða (með 1lkrús í hendi) dansa í kringum borðin í halarófu (með líter krús í hendinni) og með hina hendina á öxlinni á næsta manni og á einhvern hátt náð að taka myndir og video á sama tíma er legendary.

    En annars gríðalega góð ferðasaga, tók nokkur hlátursköst og gaman að rifja upp mína ferð í huganum þegar við tókum UTD 1.sept með marki frá nr.15 sem ég naði btw video af………….en glataðist síðra nætur þegar partur af bjórnum í (líters krúsinni) á bierkeller ákvað að bleyta símann minn….
    Manni er farinn að kítla að fara á annan leik í vor….

  6. Ja ja, ef tessi frett er sönn ta er domarinn i leik stoke -liverpool buinn ad vidurkenna mistok, vitid hefdi aldrei att ad vera viti, eins og eg sagdi. (Ef frettin er sönn)

  7. Luis Garcia leggur skóna á hilluna. Mun aldrei gleyma því þegar hann skoraði sigurmarkið á móti Chelsea hér um árið.

  8. Varðandi dómara, þá var sektað Rodgers fyrir ummæli eftir Man City leikinn, hann sagði ekkert sem ekki mátti spyrja eftir þann leik.

    Væri fróðlegt að vita hvort dómaratríóið úr þeim leik hafi eitthvað beðið afsökunar. Þar var mun augljóslara og verra dæmi en þetta atvik með Sterling gegn Stoke.

  9. Jæja þà er það bara einn leikur í að maður fari aftur til mekka og sjài vonandi tvo toppleiki liv-everton heima og wba-liverpool úti og ég reddaði mér miðum í horninu með þeim þannig að þetta verður awsome:)

  10. Luis Garcia var góður leikmaður fyrir Liverpool og á maður fullt af góðum minningum frá þessum snilling. Hann vann vel fyrir liðið og gat búið til færi og skoraði mörg mikilvæg og glæsileg mörk.
    Hann átti það reyndar til að týnast í sumum leikjum og er því kannski líkur Couthino sem við eigum í dag en maður sá að hann var með hjartað á réttum stað og var stoltur að spila fyrir liverpool.

  11. Ég fór með pabba mínum í okkar fyrstu ferð á Anfield í Maí 2013,kom mér svakalega á óvart hvað var margt í boði þarna og miklu flottari borg en ég bjóst við.
    Ég og pabbi minn náðum að skoða nánast allt nema var svekktur að fá ekki að fara í skoðunarferð um Anfield.

  12. Nú fer að styttast í mína fyrstu ferð á Liverpool leik! Er ekki örugglega hægt að kaupa sér alla þessa hluti á vellinum; húfur, trefla og treyjur?

    Vitið þið hvað treyjur kosta?

  13. Frábær ferðasaga og virkilega skemmtileg lesning. Ég er einmitt sjálfur á leiðinni út í þriðja skiptið um helgina að sjá Liverpool vonandi slátra Villa mönnum. Djöfull sem maður er orðinn spenntur!

  14. oooggg þú kaupir þessa hluti í liverpool búðunum inní borginni, nema trefil þar geturðu valið á milli margra flotta á leikdegi fyrir utan anfield 😉

  15. Þar sem þetta er opinn þráður þá ætla ég að leyfa mér að spyrja. Er hægt að horfa á leikinn á laugardaginn á einhverjum pöbb á Bifröst?

Stoke 3 – Liverpool 5

Luis Garcia leggur skóna á hilluna