Latest stories

  • Upphitun: Southampton á Anfield

     

    Dýrðlingarnir mæta í dýrðina á Merseyside er SunnEnglendingarnir sækja höfuðborg Norður-Englands heim. Hinn rammþýski Jürgen Klopp fer í hugrænan sjómann við hinn austuríska Klopp í formi Ralph Hasenhüttl. Hver mun hafa betur í bardaga gallharðra germanskra? Ich weiß es nicht, aber wir spielen Fußball!!

    Vér skírum yður séra Jürgenhüttl af Suðurdýrðum. Far í friði.

    Mótherjinn

    Southampton byrjuð tímabilið illa og náðu ekki að vinna sigur í fyrstu 7 deildarleikjum tímabilsins og virtist vera sem slæmar forspár svartsýnna sparkspekinga væru að rætast fyrir sunnanmenn. Í síðustu 5 deildarleikjum hefur Saints þó tekist að vinna 3 sigra sem hefur hýft þá hraðbyr upp í 13.sæti deildarinnar og virðist sem þeim hafi tekist að trekkja sig í gang. En tap gegn Norwich í síðustu umferð var löðrungur raunveruleikans um að nóg væri eftir af blóðugri baráttu fyrir tilverunni í úrvalsdeild hinna bestu þetta árið.

    Hægt væri að rita mörg lærð orð um The Saints en það væri ólympíuæfing í óþarfleika þegar hægt er að fá alviturt akademískt korter með Yfir-Dýrðling Íslands og Encyclopedia Southamptanica; djassgeggjarinn, trompettröllið, vallarmeistarinn og lífskúnst-Nesbúinn Snorri Sigurðarson í sérútgáfu af Gullkastinu:

    Ein albesta djassplata Íslandssögunnar er toppeintakið Vellir og það er alltaf völlur á toppeintakinu Snorra!

    Að þeim spöku orðum mæltum þá er líklegt byrjunarlið Southampton neðangreint og líklega þeirra sterkasta uppstilling sem í boði er með lítil meiðsli í hópnum:

    Líklegt byrjunarlið Southampton í leikskipulaginu 4-4-2

    Tölfræðimolar

    • Liverpool hafa haldið hreinu í síðustu 5 heimaleikjum sínum gegn Southampton í öllum keppnum.
    • Liverpool eru ósigraðir í 21 af síðustu 22 úrvalsdeildarleik.
    • Liverpool hafa unnið Southampton í 7 af síðustu 8 leikjum liðanna í öllum keppnum.
    • Southampton hafa ekki náð að vinna sigur í 10 af síðustu 11 útileikjum sínum í Úrvalsdeildinni.

    Samheitalið

    Í ljósi gríðarlega mikilli leikmannatengsla Liverpool og Southampton þá er ekki annað hægt en að henda í samansafn af bestu XI manna sameiginlegu liði hins öfluga Liverhampton FC. Það samanstendur af leikmönnum sem hafa spilað fyrir bæði lið og margir seldir þráðbeint á milli. Það þarf enginn að segja mér að þetta lið yrði ekki dóminarandi stórveldi í enskri knattspyrnu!!

    Liðsuppstilling Liverhampton FC í leikskipulaginu 3-4-3

    Bekkurinn: Paul Jones, Barry Venison, Nat Clyne, Sammy Lee, Danny Ings, Rickie Lambert (vítaskytta af bekknum)

    Stillt yrði upp í sókndjarft 3-4-3 með góða vinnslumenn sem síhlaupandi vængbakverði í Ox og Adam. Grjóthörð vörn sem lætur granít gráta með Grobbelaar að grínast fyrir aftan en enginn kemst í gegn nema fuglinn fljúgandi. Jimmy Case sér um tæklingarnar á miðjunni og Jamie Redknapp um sykursætar spékoppasendingar og skotfastar aukaspyrnur. Í fremstu víglínu skallar Crouch boltann niður fyrir skotfætur Kevin Keegan og Sadio Mané ásamt öflugum varamönnum, Venisonum og vítaskyttum af bekknum. Getur ekki klikkað!

    Liverpool

    Okkar menn hafa mætt gríðarlega öflugir til leiks eftir landsleikjahléið með mögnuðum sigri á Arsenal og snyrtilega framkvæmdu skylduverkefni gegn Porto. Þriðji heimaleikurinn í röð fer því fram við bestu aðstæður þar sem sjálfstraustið er í botni og leikformið í góðum gír með fínum róteringarbónusum og batnandi meiðslalista. Klopp og allir Púlarar gera því kröfu um áframhaldandi kraft í frammistöðu liðsins til þess að ná að halda öflugum dampi í toppbaráttunni.

    Hafa ber þó í huga við liðsvalið að næsti deildarleikur sem fer fram næsta miðvikudagskvöld er lítill innanbæjarslagur gegn Everton og Rafa Benitez. Með það í huga er mín spá um liðsuppstillingu sú að margir af þeim sem fengu róterandi hvíldarskiptingu gegn Porto haldi sæti sínu í liðinu og þar er ég sérstaklega að tala um Tsimikas, Tiago og Oxlade Chamberlain.

    Einnig held ég að Matip fái hvíld eftir tvo leiki í röð og verði sparaður fyrir bláliðana þannig að Konate heldur einnig sínu sæti en fái VVD sér til halds og trausts. Sama gæti gilt um Minamino þar sem Jota er að koma úr smávægilegum meiðslum og betra væri að hafa hann til taks á bekknum ef vel gengur og hægt er að hvíla Salah eða Mané. Fyrirliðinn Henderson verður einnig sparaður fyrir borgarslag Bítlanna þannig að liðsuppstillingin gæti verið á þessa leið:

    Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3

    Spakra manna spádómur

    Heimaleikur gegn Southampton telst skyldusigur fyrir tititilvonir og væntingar Liverpool og þar má engu skeika í harðri baráttu við misbláa keppinauta. En fyrir Southampton væri gott jafntefli gulli betra og Snorri Djass-Dýrðlingur spáir leiknum 1-1 með mörkum frá Salah og Che Adams.

    Sjálfur ætlar pistlahöfundur að gerast svo spádómslega vaxinn að giska á 3-1 sigur þar sem fyrrum Saints-mennirnir Salah, Virgil og Minamino skora fyrir heimamenn en Ward-Prowse setur sárabótarmark fyrir gestina.

    YNWA

  • Liverpool 2-0 Porto

    Þægilegur 2-0 heimasigur á Porto og 15 stig af 15 mögulegum í því sem átti að vera tricky riðill. Við sættum okkur við það!

    Jurgen Klopp hróflaði aðeins við byrjunarliði sínu undanfarna leiki og settust meðal annars þeir Trent, Fabinho, Jota og Van Dijk á bekkinn. Tyler Morton byrjaði sinn fyrsta leik í Meistaradeildinni, Konate kom í miðvörðin og Minamino byrjaði frammi með Salah og Mane.

    Það var kraftur í þessum leik og var ógnað á báða bóga en samt þó ekki þannig að manni fannst liðin líkleg til að refsa að ráði lengi vel. Porto byrjuðu af krafti og var greinilega mun meira í húfi fyrir þá en Liverpool í kvöld og tókst þeim nokkrum sinnum að komast í álitlegar stöður bakvið vörn Liverpool en skotin þeirra voru ekki merkileg.

    Sadio Mane skoraði laglegt mark í fyrri hálfleik eftir flottan bolta frá Thiago en var dæmdur rangstæður í VAR sem var að minnsta kosti mjög tæpt. Liðin voru jöfn þegar flautað var til hálfleiks.

    Það var svo Thiago sem skoraði fyrsta mark leiksins með geggjuðu skoti fyrir utan teig eftir að boltinn barst til hans úr teignum eftir fast leikatriði. Fast og hnitmiðað skot í fjærhornið, gjörsamlega galin skottæknin í því!

    Þá fór þrótturinn svolítið úr Porto og Liverpool gerði skiptingar. Henderson og Robertson komu inn á og skoraði Salah fljótlega annað markið í leiknum og gulltryggði sigurinn. Morton átti hnitmiðaða sendingu fram völlinn á Salah sem spilaði vel með Henderson og komst inn í teig og skoraði með flottu skoti. Hann er eitthvað annað góður!

    Minamino skoraði en það var dæmt af, Origi fékk vítaspyrnu eftir að það var brotið á honum svona meter fyrir utan teig sem var réttilega leiðrétt og leikurinn fjaraði svo bara út.

    Þetta var alls ekki fullkomin frammistaða hjá Liverpool en margt jákvætt. Bakverðirnir Neco Williams og Tsimikas hafa átt betri dag en voru ekkert slakir, Salah og Mane ógnuðu en manni fannst þeir aldrei fara upp úr öðrum gír. Minamino átti ágæt moment en heilt yfir náði hann ekki að setja mark sitt á leikinn. Matip og Konate voru flottir á köflum en lentu stundum, skiljanlega svo sem, skrefi á eftir hröðum sóknarmönnum Porto. Mér fannst miðjumennirnir standa upp úr í dag, Chamberlain átti flottan leik og hefur verið frábær upp á síðkastið og er orðinn alvöru kostur í liðið sem er flott. Morton stóð sig mjög vel, var sterkur til baka og átti margar góðar sendingar í kvöld, rosalega spennandi strákur sem við fáum vonandi að sjá meira af á næstu vikum og mánuðum.

    Maður leiksins var Thiago. Hann er mættur aftur og what a player! Hefði getað fengið stoðsendingu en skoraði í staðinn glæsilegt mark, var flottur gegn Arsenal og heldur áfram í kvöld. Það er sterkt að fá hann aftur í hópinn og vonandi helst hann heill.

    Annars var þetta bara skyldusigur, 15 stig á toppi riðilsins og tíu stigum á undan Porto sem er í 2.sætinu. Fáranlegt!

    Það er svo leikur gegn Southampton um helgina og við viljum klárlega þrjú stigin þar.

  • Sterkt en róterað lið gegn Porto

    Liverpool gerir nokkrar breytingar á liðinu sem mætir Porto í næst síðasta leik liðsins í riðlakeppni Meistaradeildar þessa leiktíðina en því mátti búast við þar sem liðið er nú þegar búið að vinna riðilinn með fullt hús stiga eftir fjóra leiki.

    Alisson

    Williams – Matip – Konate – Tsimikas

    Chamberlain – Morton – Thiago

    Salah – Minamino – Mane

    Bekkur: Kelleher, Adrian, Van Dijk, Fabinho, Jota, Origi, Phillips, Milner, Henderson, Trent, Robertson

    Tyler Morton, sem hefur verið að koma vel inn í aðalliðið í vetur fær óvænt en samt ekki svo óvænt sæti í byrjunarliðinu í kvöld. Hann kom inn á í sínum fyrsta deildarleik um helgina og er þetta mjög spennandi strákur.

    Chamberlain hefur verið mjög flottur undanfarið og Thiago er kominn til baka úr meiðslum og lúkkar vel. Minamino er svo frammi með Salah og Mane en hann skoraði gott mark þegar hann kom inn á gegn Arsenal.

  • Liverpool – Porto (aftur), upphitun

    Þegar dregið var í riðla fyrir Meistaradeildina í ár vissu allir að B-riðilinn var dauðariðill. Ríkjandi Spánarmeistarar Atletico Madrid, Porto lið sem er hokið reynslu, hinir fornfrægu AC Milan og Liverpool sem þrátt fyrir hörmungartímabil árið á undan eru alltaf líklegir í Evrópu. Ef litið er á söguna var þetta líka rosalegur riðill, samtals fimmtán evrópumeistaratitlar í bikarskápunum. Spekingar spáðu spennu í þessum riðli og að allt gæti gerst.

    Það sem gerðist var að lærisveinar Klopp snýttu riðlinum svo gjörsamlega að eftir fjórar umferðir er staðfest að riðilinn er unninn. Það eina sem er í húfi fyrir Liverpool í þessum síðustu tveim leikjum er sá aukapeningur sem UEFA gefur fyrir sigurleiki, að Liverpool geti orðið fyrsta enska liðið til að vinna alla leikina í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, og stoltið.

    Ég efa að Klopp sé að hugsa um einhver met, en hann er keppnismaður og vill vinna þennan leik, en væntanlega verður engin séns tekinn á tæpum leikmönnum.

    Það má færa rök fyrir að fyrsti leikur þessara liða undir stjórn Klopp hafi verið besti leikur Mané

    Andstæðingurinn – Porto

    Porto menn eru orðnir okkur púllurum mjög kunnir. Þeim hafa verið gerð góð skil hér áður, enda er þetta sjötti leikur liðanna á fjórum árum. Ég ætla að gera gömlum Kopverjum þann greiða að linka ekki á elstu fréttina á síðunni um Porto, sem var um sigur þeirra í Meistaradeildinni 2004. Í kommentaþræðinum þar má finna nokkra góða menn að ræða hversu geggjað væri að fá þjálfara Porto til Liverpool. Nafn þjálfarans? Mourinho.

    Niðurstöðurnar hafa vera nokkuð einsleitar síðustu ár: 5-0, 0-0, 2-0, 4-1 og nú síðast 5-1. Fjórir sigrar og jafntefli, markatalan 16-2. Mönnum myndi fyrigefast fyrir að halda að þetta Porto lið sé ekki upp á marga fiska.

    En það er langt því frá að þeir lifi á fornri frægð. Kosturinn við að vera í áskrift að toppsætum í sinni deild er að komast ár eftir ár í Meistaradeildina og reglulega hafa þeir komist uppúr riðlinum. Þeir eru með öfluga blöndu af reynsluboltum og ungum og efnilegum.

    Svo er einn lykilmunur á liðunum í þessum leik: þeir hafa að einhverju að keppa. Þeir eru stigi á undan Atletico í riðlinum og eiga lokaleik við Spánverjana. Porto vita að ef hið ótrúlega gerist og þeir sigra á Anfield gætu þeir mögulega komist uppúr riðlinum fyrir loka leikinn (ef Milan tekur upp á að vinna Simone og hans menn). Porto vita líka að ef þeir tapa báðum leikjunum sem þeir eiga eftir gætu þeir mögulega endað í seinasta sæti riðilsins.

    Á sama tíma eru þeir í hörku glímu í Portúgölsku deildinni við hin stórveldin þar: Porto og Sporting eru með 29 stig hvor og einu á stigi á eftir þeim eru Benfica. Portúgalarnir hituðu upp með stíl fyrir leikinn annað kvöld. Þeir slátruðu Feirenese 5-1 í bikarnum og hafa þeir aðeins tapað einum af síðustu níu leikjum.

    Þeir náðu að hvíla nokkra lykilmenn um helgina og munar mestu um að Pepe spreytir sig á Anfield eftir að hafa meiðst í upphitun fyrir Liverpool og Porto síðast. Við munum líklega fá að sjá hann Grujic aftur, en hann hefur verið að gera fínt mót hjá Porto í vetur, eins og í fyrra. Þjálfarinn þeirra, Sergio Conceicao sagði á blaðamannafundi fyrir leik að Liverpool mættu eiga vona á harðara Porto liði. Líklega hárrétt. En það hefur verið sagt af góðum mönnum nýlega að þegar Liverpool spilar skiptir minna hvernig andstæðingurinn spilar og öllu hvernig Liverpool mætir til leiks.

    Okkar menn

    Klopp komst skemmtilega að orði í dag þegar hann sagði að á þessum tíma sé liðslæknirinn oft valdamesti maðurinn þegar kemur að byrjunarliðinu. Það er samt farið að rofa aðeins til í meiðslamálum, „aðeins“ Firmino, Jones, Gomez og Elliot eru staðfest úti. Allir aðrir æfðu eitthvað í gær þó nokkuð margir séu tæpir.

    Ég hef séð spekúlanta ganga svo langt að spá Kelleher í markinu, sem ég held að verði ekki. Við lærðum í fyrra að Klopp vill vinna evrópuleiki þó riðillinn sé dauður þannig að ég held að hann reyni að halda einhvers konar hrygg af reyndum mönnum. Þannig að ég spái Alisson og Matip í byrjunarliðinu, með Konate honum við hlið. Ég held að Tsimikas fái að halda sæti sínu en einhvern tíma verður Trent að fá hvíld og Neco Williams fær vonandi sénsinn á morgun.

    Á miðjunni er dæmið flóknara. Hendo, Keita og Milner eru allir tæpir þó þeir hafi æft, Thiago og Fabinho spiluðu um helgina gegn Arsenal. Finnst líklegt að Alex Oxlade Chamberlain fái að halda sæti sínu og flestir vilja að Tyler Morton fái að byrja eftir að hann kom inná gegn Arsenal. Svo er það spurning hver verður með þeim en ég ætla að giska á Thiago.

    Fremst á vellinum finnst mér augljóst að Minamino fái að byrja leikinn, spurning hver fær að hvíla. Líklegast að það verði Jota eftir höggið sem hann fékk nýlega. Þetta verður semsagt svona:

     

    Spá.

    Ég er ekkert að farast úr bjartsýni fyrir þennan leik. Held ef ég segi eins og er að þetta fari 2-2. Minamino og Salah koma okkar mönnum í góða stöðu fyrir hálfleik áður en einhver klúður valda því að Porto komist inn í leikinn og jafni. Það verðuru bara að hafa það.

    Er ég of bölsýnn? Hvernig spáið þið þessu? Eruð þið kannski í Liverpool á leið á leikinn?

  • Gullkastið – Af Molde ertu kominn, að Molde skaltu aftur verða

    Liverpool rústaði Arsenal enn eina ferðina á Anfield en það var ekki bara gleði um helgina, Man Utd sagði okkar manni á hjólinu mjög ósanngjarnt upp störfum. Meistaradeild í vikunni og þétta leikjaprógramm næstu vikur.

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn og Maggi

    MP3: Þáttur 357

  • Sigur hjá kvennaliðinu gegn Sunderland, þriggja vikna pása

    Eins og minnst var á í leikskýrslunni í gær, þá spiluðu stelpurnar okkar gegn Sunderland í gærkvöldi, í leik sem hófst þegar okkar menn voru um það bil að leggja smiðshöggið á 4-0 sigurinn góða. Það fór svo að leiknum lauk með 1-3 sigri hjá okkar konum, mörkin komu frá Daniels, Kiernan og Lawley. Uppstillingin var sem hér segir:

    Laws

    Robe – Fahey – Matthews

    Roberts – Furness – Holland – Hinds

    Lawley – Kiernan – Daniels

    Bekkur: Startup, Kearns, Wardlaw, Hodson, Humphrey, Parry, Bailey, Moore, Walters

    Semsagt, byrjunarliðið sem Matt er farinn að nota að mestu í deildinni.

    Hægt er að sjá helstu atriði úr leiknum á The FA Player (krefst innskráningar að venju).

    Önnur úrslit voru svo okkar konum sérlega hagstæð, bæði Durham og London City Lionesses töpuðu sínum leikjum svo skyndilega er Liverpool með þægilegt fjögurra stiga forskot á toppnum:

    Þetta þýðir að okkar konur verða á toppnum um jólin, enda næsti leikur í deildinni ekki fyrr en 19. des, en einn leikur í Continental Cup þann 15. des.

    Þetta er sérdeilis ánægjulegur viðsnúningur frá síðasta tímabili, sem stendur er útlit fyrir að liðið vinni sér sæti meðal þeirra bestu á næsta ári, en auðvitað er ekkert tryggt fyrr en önnur lið eiga ekki lengur tölfræðilegan möguleika á að ná Liverpool. Fögnum að sjálfsögðu stöðunni þrátt fyrir það, og tökum svo upp þráðinn að nýju eftir u.þ.b. 3 vikur.

  • Liverpool 4 – 0 Arsenal

    Liverpool fékk Arsenal í heimsókn á Anfield, og tókst núna ekki bara að halda tveggja marka forystu heldur tvöfalda hana, sem verður að teljast mjög jákvætt. Sigurinn kom í kjölfarið á erfiðri byrjun fyrir klúbbinn í dag, þegar bæði U18 og U23 töpuðu sínum leikjum í morgun.

    Mörkin

    1-0 Mané (39. mín)
    2-0 Jota (52. mín)
    3-0 Salah (73. mín)
    4-0 Minamino (77. mín)

    Gangur leiksins

    Leikurinn fór frekar hægt af stað, mikið verið að byggja upp spilið frá aftasta manni og fara varlega upp völlinn. Fyrsta alvöru færið kom á 29. mínútu þegar Trent átti fyrirgjöf inn á teig, Thiago átti skot sem Ramsdale varði en í lappirnar á Mané sem var samt ekki í jafnvægi og náði ekki almennilega skoti á markið svo boltinn barst í horn. Skömmu síðar kom annað svipað færi, góður samleikur milli Tsimikas og Mané á vinstri kantinum endaði með því að Kostas komst upp að endamörkum og gaf á Salah á markteig en aftur náði Ramsdale að þvælast nægilega fyrir til að koma í veg fyrir mark. Arsenal náðu að setja boltann í netið með mjög snyrtilegum samleik í gegnum vörn Liverpool, en eini gallinn var sá að Aubameyang var kolrangstæður þegar hann fékk sendinguna innfyrir og því réttilega dæmd rangstaða (og þurfti ekki VAR til).

    Það var eftir rúmlega hálftíma leik sem leikurinn breyttist, en sú breyting kom úr óvæntri átt. Alisson átti sendingu fram sem Mané og Tomiyasu stukku upp í. Arteta fannst Mané brjóta eitthvað á Arsenal leikmanninum lét vel í sér heyra á hliðarlínunni. Klopp svaraði honum fullum hálsi, og þá brjálaðist Arteta og það þurfti að skilja þessa tvo annars dagfarsprúðu herramenn að. Oliver gaf þeim báðum gult spjald, en sá ekki ástæðu til að áminna Mané enda virtist endursýning staðfesta að þetta var bara hefðbundin barátta um boltann. En við þetta atvik var eins og stemmingin breyttist, Anfield vaknaði heldur betur og fór að hvetja okkar menn til dáða. Það skilaði árangri á 39. mínútu þegar Liverpool fékk aukaspyrnu hægra megin á vallarhelmingi Arsenal, Trent tók spyrnuna og sendi eina af sínum hárnákvæmu sendingum beint á kollinn á Mané sem var rétt við markteig og skallaði þar í jörðina og inn, óverjandi fyrir Ramsdale. 1-0 og það var mjög sanngjarnt. Mané fékk svo gult spjald áður en hálfleikurinn var úti, svo maður velti fyrir sér hvort Klopp myndi taka hann aftur útaf eins og gegn Atletico.

    Í síðari hálfleik hófst svo stórskotahríð í átt að Kop-stúkunni. Liverpool fékk hvert færið á fætur öðru, og Nallarnir gátu í raun þakkað Ramsdale að vera ekki búnir að missa Liverpool langt fram úr sér. Það stóð reyndar ekki mjög lengi, því á 52. mínútu átti sá Tavares leikmaðurinn sem var gestur á Anfield hræðilega sendingu sem átti að sjálfsögðu að rata á samherja en endaði í löppunum á Diogo Jota við vítateigslínuna. Jota tók nokkur Firmino-esque dansspor með boltann sem skildu White og Ramsdale eftir í grasinu, og hann endaði á að renna boltanum í autt markið. 2-0 og aftur mjög sanngjarnt, í reynd var frekar ósanngjarnt að þetta hefði ekki gerst fyrr.

    En gleymum því ekki að 2-0 forysta hefur fjarri því verið eitthvað sem Liverpool hefur getað stólað á, allt of oft hafði nákvæmlega þessi markamunur glutrast niður í leikjum gegn Brendford, Brighton o.fl., og því var maður fjarri því að vera eitthvað rólegur. En það hjálpaði reyndar að Liverpool virkaði mun öruggara í dag heldur en í þeim leikjum, hápressan var að virka vel og má segja að Oxlade nokkur Chamberlain hafi þar verið fremstur í flokki gegn sínum gömlu félögum.

    Þegar hér var komið sögu var Salah farinn að ókyrrast enda skoraði hann ekkert í síðustu tveim leikjum, og greinilegt að hann langaði ekkert að viðhalda því ástandi. Það lagaðist sem betur fer í sókn á 73. mínútu sem var sérdeilis falleg. Boltinn barst með einni snertingu á mann úr vörninni, Alisson sendi háan bolta á Tsimikas, sem skallaði á Jota, sem skallaði í hlaupaleiðina hjá Mané sem var sloppinn einn í gegn. Salah var með honum hægra megin, Mané gerði engin mistök þegar hann vippaði boltanum á Salah og hann átti í litlum vandræðum með að skila boltanum í autt markið. Sókn eins og þær gerast bestar, og Liverpool maskínan komin í fjórða gír. Já og það var nú ekki að sjá að það skorti bræðraþelið milli Salah og Mané þegar þeir fögnuðu saman þessu marki.

    Minamino og Hendo komu svo inná fyrir Jota og Ox, og það voru liðnar nákvæmlega 54 sekúndur frá því Taki kom inn á völlinn þar til hann var búinn að skora eftir ekkert mikið síðri sókn eins og í 3ja markinu, en þar endaði sóknin á því að Trent fékk sendingu upp að endalínu hægra megin við markið, renndi boltanum framhjá varnarmönnum Arsenal, beint í lappirnar á Minamino og aftur kom mark þar sem markaskorarinn gat varla annað en rennt boltanum í markið.

    Hér var búið að afgreiða þennan leik, binda slaufu utan um pakkann og senda hann af stað. Klopp gerði sína síðustu skiptingu þegar hann gaf hinum 19 ára Tyler Morton sínar fyrstu úrvalsdeildarmínútur og tók Thiago út af í staðinn. Morton skilaði sínu af miklu öryggi, Liverpool var reyndar komið í æfingaleikjahaminn og var ekki að reyna allt of mikið þessar síðustu mínútur. 4-0 sigur staðreynd, hefði getað orðið talsvert stærri ef menn hefðu nýtt færin ögn betur, eða ef Ramsdale hefði bara átt örlítið lélegri leik. En hann verður ekki sakaður um þessi úrslit, svo mikið er víst.

    Bestu/verstu menn leiksins

    Hér er reyndar mjög erfitt að taka einhvern út fyrir frekar en annan. Eins og áður sagði var Ox mjög öflugur í pressunni. Mané átti einn af sínum albestu leikjum á síðustu mánuðum. Fab var magnaður á miðjunni, og ryksugaði upp alveg ótrúlega. Salah var valinn maður leiksins á Sky, Trent átti tvær stoðsendingar og er því kominn með 9 slíkar í síðustu 6 leikjum í öllum keppnum. Aðrir leikmenn liðsins voru einfaldlega mjög öflugir og stóðu fullkomlega fyrir sínu.

    Last leiksins fer kannski til Arteta fyrir að espa leikvanginn svona upp, ekki það að við erum mjög sátt við svonalagað fyrst það hafði þessi áhrif.

    Umræðan eftir leik

    Þetta var gríðarlega mikilvægur leikur fyrir liðið til að koma til baka eftir leikinn gegn West Ham (sem töpuðu gegn Úlfunum fyrr í dag). Jafnframt var mjög gott að sjá að þrátt fyrir að bekkurinn væri þunnur, þá var liðið sem var inni á vellinum hverju sinni alltaf að gefa 100+%

    Annars er áhugavert að enn á Liverpool eftir að fá á sig mark með Kostas Tsimikas inni á vellinum. Maður gerir sér svosem engar grillur um að sú tölfræði haldist óbreytt út tímabilið, en mikið er gott til þess að vita að við skulum eiga tvo virkilega öfluga kosti í vinstri bakverði.

    Næstu leikir

    Kannski rétt að minnast aðeins á leik City og Everton á morgun, ekki það að Everton hafa aldrei gert Liverpool nokkurn skapaðan greiða í toppbaráttuslagnum, og við reiknum því ekki með neinu slíku á morgun. Eins væri líka mjög gaman ef Chelsea færu kannski örlítið að hiksta í deildinni. Er ég nokkuð að biðja um of mikið með því að óska þess? Nei hélt ekki.

    Næsti leikur er á miðvikudaginn þegar Porto koma í heimsókn á Anfield, og svo koma Southampton í heimsókn á laugardag eftir viku. Við skulum gera ráð fyrir að Klopp spili alveg sæmilega sterku liði gegn Porto jafnvel þó svo toppsætið í riðlinum sé tryggt, en auðvitað þarf líka að taka með í reikninginn leikjaálag og meiðsli. Sem betur fer eru menn eins og Milner, Keita, Robbo og Neco líklega að koma til baka og gætu sést á miðvikudaginn, kannski bara á bekk samt. Leikurinn við Saints í deildinni um næstu helgi er að sjálfsögðu gríðarlega mikilvægur í þessum toppbaráttuslag, en einbeitum okkur að einum leik í einu.

    P.s. stelpurnar okkar eru að vinna Sunderland 1-3 á útivelli í þessum töluðu orðum, í leik sem er hvergi sýndur á streymisveitum. Gerum honum skil með annarri færslu síðar.

  • Liðið gegn Arsenal

    Ekki ætla Chelsea að sleppa takinu af toppsætinu þessa helgina, en það breytir því ekki að okkar menn ætla sjálfsagt ekki að missa þá óþarflega langt fram úr sér, og ætla að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hirða 3 stig í dag.

    Liðið sem mætir út á Anfield kl. 17:30 verður svona skipað:

    Bekkur: Kelleher, Konate, Nat, Hendo, Minamino, Morton, Beck, Bradley, Gordon

    Talsvert af mönnum sem eru frá vegna meiðsla eða of tæpir til að vera á bekk; Firmino, Jones, Milner, Keita, Gomez, Elliott, Robertson, og auðvitað bættist Origi á þennan lista og er veikur. Meira að segja Neco er líka með stífan vöðva og er frá, en gæti komið aftur í miðri viku gegn Porto.

    Óvenju margir kjúklingar á bekk í dag, enda var eftir því tekið í leik U23 liðsins að það vantaði þessa fjórmenninga: Tyler Morton, Kaide Gordon, Owen Beck og Conor Bradley (auk James Balagizi sem er ekki með aðalliðinu að þessu sinni). Sé þá tæpast koma inn á í dag samt, hér er Klopp bara að venja þá við andrúmsloftið.

    Manni sýnist 3-3 vera tískuúrslit dagsins, en spáum samt að okkar menn merji sigur. Annaðhvort verða skoruð 3 mörk samtals í leiknum, eða þá að okkar menn ná að setja 3.

    KOMA SVO!!!

  • Liverpool – Arsenal (Upphitun)

    Þá er komið að því, það eru ekki fleiri landsleikir fyrr en í mars 2022! Þar fyrir utan þá er víst fótboltaleikur seinni partinn á laugardag, á besta tíma (17:30), þar sem að Arsenal kemur og heimsækir Liverpool á Anfield í leik sem verður líklega jafnari en þetta einvígi hefur verið undanfarin ár.

     

     

    (more…)

  • Bikarleikur hjá kvennaliðinu gegn Blackburn

    UPPFÆRT: leik lokið með 2-1 sigri Liverpool. Mörkin komu hvort í sínum hálfleiknum, bæði eftir hornspyrnur frá Bo Kearns. Jade Bailey með fyrra markið, og Taylor Hinds með það seinna eftir að hafa komið inná í hálfleik. Blackburn náðu svo aðeins að klóra í bakkann 5 mínútum fyrir leikslok, en sigurinn var meira en sanngjarn.

    Liðið er því taplaust í 11 leikjum í röð, sem verður að teljast bara ansi gott “run”, og það sem meira er að liðið hefur virkað dómínerandi eftir því sem hópurinn spilast betur saman.

    Meðal áhorfenda á pöllunum var ungur og efnilegur knattspyrnumaður að nafni Trent Alexander-Arnold.

    Nú er það bara Sunderland á laugardagskvöldið, sýnist sá leikur byrja rétt um það leyti sem leikur karlaliðsins við Arsenal er að ljúka.


    Það eru ekki nema u.þ.b. 10 dagar síðan kvennalið Liverpool mætti liði Blackburn síðast, þá var það í deildinni en í kvöld kl. 19 mætast þessi lið aftur og nú í Continental Cup, og það verður leikið á Prenton Park.

    Eins og venjulega sjáum við öllu meira B-lið í þessari keppni, þar sem óreyndari leikmenn fá færi á að sýna sig og sanna.

    Matt Beard stillir þessu upp svona:

    Startup

    Roberts – Silcock – Moore

    Parry – Bailey – Kearns – Daniels

    Hodson – Walters – Humphrey

    Bekkur: Laws, Matthews, Robe, Fahey, Furness, Hinds, Lawley, Kiernan

    Það er “the scouser in our team” Missy Bo Kearns sem ber fyrirliðabandið, ég held þetta sé fyrsti leikurinn þar sem hún byrjar með það en hún fékk að vera fyrirliði í nokkrar mínútur fyrr í haust áður en henni var skipt út af.

    Það verður að koma í ljós þegar leikurinn hefst hvort liðið sé komið aftur í 4-4-2, mögulega var 3-4-3 ekki að virka nógu vel gegn þessu liði í síðasta leik, en kannski eru Lucy Parry og Yana Daniels í vængbakvarðarstöðum. Nú kannski er þetta einhver allt önnur uppstilling. (EDIT: skv. LFCTV er þetta sama 3-4-3 uppstilling sem hefur verið í gangi síðustu vikur, svo við svissum yfir í það).

    Ekki mikið um lið Blackburn að segja, annað en að Mia Parry er þar á miðjunni, en hún er systir Lucy Parry.

    Leikurinn verður sýndur á öllum helstu samfélagsveitum Liverpool, þar á meðal á YouTube.

    Færslan verður svo uppfærð síðar í kvöld með úrslitum.

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close