Upphitun: Porto

Það eru níu löng ár síðan Liverpool kjöldró Real Madríd í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar, síðan þá hafa okkar menn ekki komist á þetta stig keppninnar og því óhætt að segja að tilhlökkunin sé töluverð og ekki skemmir að andstæðingurinn er áhugaverður og frá borg sem var valin ágangastaður Evrópu árið 2017.

Portúgal dregur nafn sitt frá Porto, upphaflega hét borgin Portus Cale sem var sambland af Keltnestu og Latnesku en fyrstu heimildir fyrir byggð í Porto eru Keltneskar. Á Portúgölsku er nafn borgarinnar sagt með ákveðnum greini “o Porto” sem olli misskilningi þegar nafn borgarinnar var þýtt yfir á ensku og er oft vísað í Oporto bæði í bókmentum og töluðu máli.

Porto hefur tvö viðurnefni, annað er höfuðborg norðursins en þessi næst stærsta borg Portúgal telur 2,4 milljón íbúa. Hitt viðurnefnið fyrir borgina er borgin ósigrandi (Cidade Invicta). Knattspyrnulið borgarinnar er nú ekki ástæða þessa viðurnefnis en það væri þó ekki svo fjarri lagi. Það er íbúum Porto í blóð borið að verja sitt heimasvæði og þeir hafa gert það vel hingað til. FC Porto hefur sannarlega staðið undir því viðurnefni, þangað fara ekki mörg lið og koma með eitthvað til baka.

Pinto da Costa


Porto er eitt af risunum þremur í Portúgal ásamt Lissabon liðunum Benfica og Sporting. Yfirburðir þessara liða í sögu Portúgölsku deildarinnar eru svo mikilar að aðeins tvö önnur lið hafa unnið titilinn í sögu keppninnar. Eins og gefur að skilja er fjölmargar mikilvægar goðsagnir í sögu Porto, bæði leikmenn og þjálfarar sem hafa skirfað nafn sitt með bleki í sögubækur félagsins. Hjá Porto er það þó hvorki leikmaður eða þjálfari sem stendur uppúr heldur áttræður forseti félagsins og maðurinn á bak við mestalla nútímasögu Porto, Pinto da Costa. Þar er á ferðinni skrautlegur maður og verulega umdeildur í Portúgal.

Pinto da Costa hefur tengst Porto með einum eða öðrum hætti alla tíð. Hann er fæddur og uppalin í Porto og var farinn að mæta á leiki sem barn. Þegar hann varð 16 ára keypti amma hans handa honum hlut í Porto og varð hann þar með meðlimur númer 26,636. Hann byrjaði að vinna fyrir Porto tvítugur hjá hokký deild félagsins. Hann var mjög útsjónasamur og þróaðist jafnt og þétt í starfi og tók að sér störf fyrir fleiri deildir félagsins. Hann var kominn í stjórn 32 ára sem yfirmaður allra áhugamannadeilda félagsins og var í þrjú ár.

Costa hafnaði boði Américo de Sá að vera með á hans framboðslista í forsetakosningum 1971 og yfirgaf Porto. Fimm árum seinna ákvað hann að snúa aftur til Porto vegna óánægju með gengi félagsins. Porto var að ganga í gegnum lengstu titlaþurrð í sögu félagsins og hafði ekki unnið titil síðan 1959. Til að strá salti í sárin var mikill uppgangur hjá Boavista á sama tíma. Litla liðið í Porto vann bikarinn þá um vorið í fyrsta sinn en stjóri þeirra var José Maria Pedroto vinur Costa og fyrrum leikmaður Porto. Það sem fyllti mælin hjá Costa var þegar Braselíumaðurinn Amarildo ákvað á síðustu stundu að ganga frekar til liðs við Boavista heldur en Porto sem var líka á eftir honum. Vinir Costa, sumir í stjórn Boavista skutu á hann að Boavista væri orðin stærri klúbbur en Porto. Það þoldi Costa illa og hafði samband við Américo de Sá forseta félagsins. Þeir ákváðu að hann yrði þá um vorið á lista Sá sem yfirmaður knattspyrnudeildarinnar er Sá var endurkjörin forseti 1976. Fyrir kosningar var hann búinn að semja við vin sinn Pedroto um að taka við Porto næðu þeir kjöri og taka hann þar með frá Boavista. Hann er því fyrsti stjórinn sem Costa réði til Porto en hann hefur í gegnum tíðina sýnt mikla kænsku og hugrekki er kemur að þjálfaramálum.

Porto vann bikarinn árið 1977 og endaði þar 18 ára bið eftir stórum titli, deildina unnu þeir svo næstu tvö árin á eftir. Porto náði ekki að vinna þriðja árið í röð árið 1980, mikil togstreita var í stjórn félagsins sem endaði með því að Costa sagði af sér eftir ósætti við Sá og Pedroto hætti sem stjóri. Fimmtán leikmenn neituðu í kjölfarið að spila fyrir Porto. Þetta leiddi til þess að hópur stuðningsmanna gerði uppreisn gegn Sá og vildi Costa aftur og þá sem forseta félagsins.

Komið var saman lista fyrir kosningar 1982 og vann listi Costa með 95% atkvæða en kosningaþáttaka hafði aldrei verið betri. Stuðningsmenn Porto treystu Pinto da Costa augljóslega og hafa raunar gert það allar götur síðan og sjá ekkert eftir því. Hann hefur verið sakaður um spillingu, einu sinni var hann sakaður um að hafa hagrætt úrslitum og Porto tapaði stigum en félagið var svo á endanum sýknað af þeim ásökunum. Hann hefur alltaf verið mjög mikill Porto maður, talað borgina upp og skotið frast á Lissabon og liðin þar. Rígurinn milli Porto og Lissabon liðanna hefur vaxið gríðarlega á tíma Costa.

Fyrsta verk Cosa sem forseti félagsins var að ráða Pedroto aftur sem þjálfara en samvinna þeirra átti eftir að hafa langvarandi áhrif á strúktúrinn hjá Porto og það hvernig félaginu er stjórnað. Pinto da Costa kemur ekki að þjálfun Porto og þannig árangri liðsins hverju sinni. Hans styrkleiki felst m.a. í því að horfa fram í tímann, finna rétta þjálfara, oft áður en þeir verða frægir og leikmannakaup Porto er eitthvað sem við skoðum betur í aðskildum hluta þessarar færslu, þar stenst Costa enginn snúning.

Bestir í Evrópu

Pedroto var á sínum tima mjög góður leikmaður og hann var frábær stjóri. Hann lagði grunninn að því sem síðar kom og var kominn með Porto í úrslitaleik í Evrópukeppni bikarhafa tveimur árum eftir að hann tók aftur við liðinu. Juventus vann þann leik 2-1 í leik sem helst er minnst fyrir vafasama dómgæslu Ítölunum í hag, ekki í fyrsta skipti. Pedroto var að smíða frábært lið sem var tilbúið í frekari sigra en hafði skömmu fyrir Úrslitaleikinn greinst með krabbamein. Hann hætti eftir Juventus leikinn og lést ári seinna.

Artur Jorge fyrrum leikmaður Porto og Benfica var 38 ára þegar hann tók við af Pedroto. Hann tók við góðu búi og byggði heldur betur ofan á það. Porto vann deildina loksins aftur ´85 og endurtók leikinn ´87 og fór sem fulltrúi Portúgal í Evrópukeppni Meistaraliða. Á þessum árum var öllum ensku liðunum meinað að taka þátt í Evrópukeppnum sem auðvitað dregur töluvert úr vægi keppninnar þau ár enda vantaði bestu liðin (hvað væru stjörnurnar á búningi Liverpool margar hefði félagið fengið að vera með frá 85-90?). Ef að stuðningsmenn Liverpool og enskir stuðningsmenn almennt áttu skilið sex ára bann í Evrópu er alveg ljóst að UEFA átti skilið jafn langt ef ekki lengra bann frá því að halda slíka viðburði, þetta er önnur saga sem var betur reyfuð hérna.

Fjarvera ensku liðanna opnaði leiðina fyrir önnur lið og Porto nýtti sér það komst í úrslit 1987 þar sem firnaserkt lið FC Bayern beið þeirra. Þjóðverjarnir voru miklu sigurstranglegri og var það því töluvert sjokk þegar Porto vann leikinn 1-2 og voru þar með konungarnir í Evrópu. Staðan var 1-0 fyrir Bayern í hálfleik en alsíringurinn Raban Madjer jafnaði með hælspyrnu í seinni hálfleik áður en Juary skoraði sigurmarkið. Að skoða með hælspyrnu var kallað að taka Madjer í mörgum löndum eftir þetta.

Porto hélt áfram að raka inn titlum heimafyrir á tíunda áratugnum, m.a. fimm deildartitla í röð. Sporting vann deildina árið 2001 en síðan þá hafa Banfica og Porto skipt titlunum á milli sín og bilið er bara að stækka á hin liðin.

Pinto da Costa er ennþá æðsti maður Porto, liðið hefur unnið deildina 20 sinnum á hans tíma hjá félaginu, bikarinn 12 sinnum, Evrópukeppni Meistaraliða tvisvar og UEFA Cup (Evrópudeildin) tvisvar.

Þannig að já, Pinto da Costa er goðsögn á meðal goðsagna hjá Porto.

Samkeppnisforskot Porto

Utan Portúgals er Pinto da Costa eiginlega ekki þekktur fyrir ótrúlega titlasöfnun Porto undir hans stjórn heldur fyrir það hvernig félagið er rekið og þá helst ótrúlegan árangur þeirra á leikmannamarkaðnum. Við fyrstu sýn mætti halda að hann væri göldróttur. Svo er nú ekki og þó að það sé mjög margt sem Porto er að gera mjög vel þá eru þeir með forskot á vissum stöðum, nákvæmlega það sama við á um Benfica sem þrátt fyrir að hafa unnið færri titla er jafnan talið vera stærsta liðið í Portúgal.

Benfica og Porto eru meðal bestu liða Evrópu sem ekki spila í stóru deildunum fimm. Það gerir þeim mun erfiðara fyrir að vera samkeppnishæf að mörgu leiti en á móti hafa þau mikið forskot. Bæði lið eru þekkt fyrir eitt allra besta net njósnara sem fyrirfinnst, listi yfir selda leikmenn staðfestir það. Fljótt á litið virðast Benfica og Porto vera með ævintýralegt viðskiptamódel.

Það er þó ekki alveg allt sem sýnist með viðskiptamódel risanna í Portúgal. Reglurnar í Portúgal hafa verið mun minna þvingandi en þær eru hjá flestum öðrum í Evrópu auk þess sem Portúgal hefur töluvert forskot menningarlega á leikmenn frá Suður-Ameríku og þá sérstaklega Braselíu enda sama tungumál talað í báðum löndum. Eins eru þessi lið vel vakandi yfir öllum þeim sem skara framúr í heimalandinu.

Öfugt við flest önnur lönd í Evrópu er ekki kvóti á erlenda leikmenn í Portúgal þannig að þeir sem eru ekki frá löndum innan Evrópusambandsins eiga mun betri séns á að komast að í Portúgölsku deildinni. Þetta hentar ungum leikmönnum frá Suður-Ameríku mjög vel enda uppfylla flestir ekki reglur um að hafa spilað X marga landsleiki til að fá vegabréfsáritun og atvinnuleyfi líkt og þarf t.d. á Englandi. Eins hjálpar það að Portúgalska deildin er ekki ein af þeim sterkari í Evrópu þannig að ungir leikmenn fá meiri tíma þar til að bæta sig sem leikmenn í góðum liðum en þeir fengju á bekknum hjá öðrum stórliðum.

Porto, Sporting og Benfica eru það fyrir Portúgal sem Barcelona og Real Madríd eru fyrir Spán, þau ryksuga upp alla bestu ungu leikmenn Portúgal og lána svo oft til annarra liða meðan þeir eru að taka út þroska. Það er allt að því vonlaust fyrir önnur lið að keppa við þessa þrjá risa.

Allt þetta er stór partur af ástæðu þess að Porto og Benfica hafa fengið svona marga góða leikmenn undanfarin ár, oft á ótrúlega góðu verði. Aðalsamkeppnisforskot þessara liða og það sem hefur gert þessi lið samkeppnishæf í Evrópu er eignarhald þriðja aðila í leikmönnum liðanna. Bæði lið hafa vissulega yfir að ráða frábæru neti njósnara í bæði Portúgal og Suður-Ameríku en frábær árangur þeirra á leikmannamarkaðnum er mun frekar slakari reglugerðum í Portúgal að þakka en yfirburðum þessara liða í að finna efnilega leikmenn. Öll stóru liðin hafa öflug tenglsanet út um allan heim.

Vafasamir umboðsmenn eins og Jorge Mendes (GestiFute), Kia Joorabchian, Mino Raiola, Peter Kenyon (Doyen) og fleiri hafa keypt hlut í framtíð ungra leikmanna og hjálpað þeim með ferilinn gegn því að fá hlut af auglýsingatekjum og/eða söluvirði þeirra seinna. Þeir sem hafa hvað mest unnið í Suður-Ameríku hafa séð Porto og Benfica sem fullkomna stoppistöð fyrir þessa stráka. Þar komast þeir í mjög góð lið sem nánast alltaf taka þátt í Meistaradeildinni. Reglur í Portúgal gera það að verkum að auðveldara er að gefa þeim spilatíma og þannig margfalda virði þeirra á skömmum tíma. Það er jafnan mun dýrara að kaupa leikmenn sem hafa sannað sig í 2-3 ár í Portúgal heldur en að kaupa þá beint af Santos eða Sao Paulo og því fá Porto og Benfica þessa stráka á oft fáránlegu verði. Stundum er talað um að þessir strákar hafi verið seldir til hæstbjóðanda án þess að langa endilega að færa sig um set (sem er og hefur alltaf verið ólöglegt). Það sér það hver maður að pressan á þessa stráka er töluvert meiri þegar margir eiga orðið hlut í þeirra framtíð.

Þetta fyrirkomulag var bannað árið 2008 í Englandi þökk sé máli Tevez og Mascherano er þeir komu til Evrópu. West Ham var einmitt fáránlegt skref að manni fannst fyrir efnilegustu leikmenn Argentínu en seinna kom í ljós að eitt allra mesta krabbamein fótboltans, Kia Joorabchian var á bak við þessi viðskipti og hugmyndin klárlega að gera það sama hjá West Ham og gert hefur verið hjá Porto. Englendingar vildu ekki sjá þetta fyrirkomulag sem þeir líktu við þrælahald og bönnuðu í kjölfarið.

Árið 2015 tilkynnti FIFA loksins að banna ætti eignarhald þriðja aðila, þeir samningar sem þegar voru í gildi fá að renna sitt skeið en þessi tegund viðskipta er nú bönnuð alls staðar í heiminum. Hvaða áhrif þetta kemur til með að hafa á Portúgölsku liðin er óljóst.

Það hefur einnig verið pressa heimafyrir að takmarka fjölda erlendra leikmanna í hverju liði til að tryggja framþróun heimamanna, koma upp 6+5 reglu eða álíka. Slíkt hefur ekki náð í gegn ennþá.

Porto hefur selt leikmenn fyrir €768m

Þrátt fyrir allt þetta er ekki hægt að horfa framhjá því að árangur Porto á leikmannamarkaðnum er rosalegur. Til að ná aðeins utan um hversu vel þetta módel hefur gengið hjá Porto er ágætt að renna yfir þá leikmenn sem þeir hafa selt frá því Porto vann Meistaradeildina árið 2004.

Söluvirði er samtals um €768m ef horft er í stóru sölurnar. Flestir þessara leikmanna voru keyptir á aðeins brotabrot af söluvirðinu eða uppaldir hjá félaginu og hafa flestir farið til stærri liða í Evrópu. Porto hefur hinsvegar ekki fengið nærri því alla þessa upphæð enda flestir þessara leikmanna ekki að fullu í eigu Porto.

Aðeins 33% af þessum stóru leikmannasölum eru Portúgalskir leikmenn, rest eru aðkeyptir leikmenn sem hafa nánast allir verið seldir með hagnaði. Það er því ekki alveg tilviljun að umboðsmenn frá Portúgal og Suður-Ameríku hafi náð að koma sér upp eins ógnarsterkri stöðu á markaðnum og raun ber vitni.

Tvær stjörnur

Porto er ekki aðeins eitt af risunum í Portúgal, félagið er einnig eitt af þeim stóru í knattspyrnusögu Evrópu og hefur tvær stjörnur á sínum búningi fyrir það afrek að hafa unnið Meistaradeildina tvisvar sinnum. Seinni stjarnan var saumuð á búninginn ári áður en Liverpool bætti sinni fimmtu við er Jose Mourinho og lærisveinar hans unnu eftirminnilega.

Jose Mourinho var hjá Sporting þegar Bobby Robson var stjóri þar. Hann kom ungur inn í þjálfarateymi Robson þar en var um leið nokkurskonar túlkur fyrir Robson. Mourinho kom skilaboðum Robson til leikmanna og ávann sér fljótlega traust bæði Robson sem og leikmanna, það fór ekkert á milli mála að þarna var mikið efni á ferðinni og var Mourinho mikilvægur partur af þjálfarateymi Robson og fylgdi honum frá Sporting til Porto og þaðan til Barcelona. Þegar Robson hætti og Van Gaal tók við ákvað Mourinho að halda áfram hjá Barcelona og vann í tvö ár með Van Gaal eða þar til hann tók við landsliði Hollands. Mourinho fór heim til Portúgal og réði sig sem sem aðstoðarstjóra Jupp Heynckes hjá Benfica en tók óvænt við liðinu eftir aðeins fjórar vikur. Hann var eins og vanalega ekki óumdeildur og er Benfica kusu sér nýjan forseta var Mourinho talin valtur í sessi. Hann lét á þetta reyna og fór fram á nýjan samning sem var hafnað og sagði hann upp fyrir vikið, eftir aðeins níu leiki sem stjóri félagsins.

Sumarið eftir (2001) tók Mourinho við União de Leiria og náði frábærum árangri á fyrri hluta tímabilsins, svo góðum að Pinto da Costa sá sér leik á borði í janúar 2002 og fékk hann aftur til félagsins, nú sem aðalstjóra. Costa lét Mourinho alveg eftir sviðsljósið og lofaði Mourinho titli næsta tímabil á eftir og stóð við það. Porto lét ekki nægja að vinna deildina heldur unnu þeir Evrópudeildina einnig eftir sigur á Celtic í úrslitum. Porto fullkomnaði svo þrennuna með því að vinna bikarinn einnig.

Sigur Porto í Meistaradeildinni 2004 er rétt eins og fyrri titill félagsins einn af þeim óvæntari í sögunni, töluvert óvæntara en sigur Liverpool árið eftir. Þeir enduðu í öðru sæti í riðlinum á eftir Real Madríd. Man Utd beið í 16-liða úrslitum þar sem Porto vann eftir mark á 90.mínútu á Old Trafford. Líklega var búið að gera ráð fyrir sigri United í þessum leik því andstæðingarnir á öllum næstu stigum keppninnar hafa sjaldan verið þægilegri í sögu þessarar keppni, með ekkert of mikilli virðingu fyrir viðkomandi liðum. Lyon beið í 8-liða úrslitum og dugði 2-0 sigur í Porto til að klára það einvígi. Af öllum liðum beið Deportivo La Coruña í undanúrslitum og endaði einvígið gegn þeim samanlagt 1-0 eftir góðan sigur á Spáni. Porto var því komið í úrslit á nýjan leik og af öllum liðum hafði Monaco sylsast í úrslitaleikinn eftir frábæra sigra á m.a. 8-3 sigur á Deportivo í riðlakeppninni og í 8.liða og 4.liða úrslitum voru Real Madríd og Chelsea send heim.

Frábært lið Porto skrifaði nafn sitt í sögubækurnar með 3-0 sigri á Monaco og bætti þar með annarri stjöru við búning félagsins.

Tveggja liða deild

Mourinho tilkynnti strax eftir leik að hann væri að fara frá Porto og tók þá um sumarið tvo lykilmenn með sér til Chelsea. Versta höggið var þó þegar Deco fór til Barcelona. Porto hefur alla tíð síðan verið í Evrópukeppni en aldrei náð nálægt því sömu hæðum og 2004. Heimafyrir er deildin nánast bara milli Benfica og Porto.

Eftir að Mourinho fór voru þrír stjórar á sama tímabilinu, okkar maður Pinto da Costa í vandræðum. Félagið var þar að auki bendlað við Apito Dourado sem var veðmálahnreyksli sem skók Portúgal en var sýknað endanlega mörgum árum seinna. Porto náði sér þó fljótlega á strik aftur og vann deildina aftur árið eftir og næstu þrjú ár þar á eftir líka. Frá 2006-2013 vann Porto deildina öll árin nema eitt. Tímabilið 2010-11 var sérstaklega gott, þá var hinn ungi Villas Boas stjóri liðsins en hann hafði áður verið í þjálfarateymi Mourinho. Undir hans stjórn fór Porto taplaust í gegnum mótið og vann allar keppnir sem í boði voru.

Til að fullkomna þetta tímabil komst Porto á nýjan leik í úrslitaleik í Evrópu, núna í Europa League þar sem þeir mættu samlöndum sínum í Braga og unnu 1-0 með marki frá Falcao.

Villas-Boas hélt áfram að herma eftir Mourinho og fór til Chelsea þá um sumarið.

Porto hefur engan titil unnið síðan 2013 og er þetta mesta titlaþurrð félagsins á tíma Pinto da Costa. Þetta er þó líklega að fara breytast í vor miðað við formið sem Porto er í á þessu tímabili. Staðan í deildinni er svona

Porto er tveimur stigum á undan Lissabon liðunum með leik til góða en takið eftir að stigasöfnun er 2,62 stig að meðaltali í leik. Þeir hafa skorað 53 mörk en fengið á sig aðeins 10 í 21 leik. Skoðið vörnina hjá okkur til að átta ykkur á því hversu mikið betri vörnin er hjá þeim.

Estádio do Dragão

FC Porto er staðsett um fjóra kílómetra í norð-austur frá gamla miðbænum í Porto. Gamli heimavöllur félagsins Estádio das Antas var byggður um 1950 og tók allt að 95.þúsund manns þegar mest lét en mætti illa nútímakröfum í fótboltanum. Árið 1999 fékk Portúgal EM 2004 og var ákveðið að nýta tækifærið og byggja alveg nýjan völl frá grunni nokkur hundruð metrum frá Estádio das Antas.

Bygging vallarins tók um tvö ár og er áætlað að kostnaður hafi verið um €98m og tekur rétt rúmlega 50.þúsund manns í sæti.

Pinto da Costa á nafnið á vellinum og það var ekki flókin hugsun á bak við það, Estádio do Dragão er vísun í viðurnefni félagsins sem og logo félagsins (Drekarnir). Opnunarleikurinn var 16.nóvember 2003 gegn Barcelona og var þetta ekki síður stór dagur í sögu Spánverjanna því þetta var fyrsti leikur Leo Messi í aðalliði Barca.

Porto var eins og áður segir illviðráðanlegt á vellinum strax frá byrjun og endaði fyrsta tímabilið sem Evrópumeistarar, deildarmeistarar og bikarmeistarar. Árið 2004 hófst EM í Portúgal svo á Estádio do Dragão.

Þetta er alvöru fótboltavöllur þar sem áhorfendur sitja nálægt vellinum.

Porto liðið í dag

Þjálfari liðsins í dag er gamalkunnugt nafn, Sérgio Conceição. Hann er einn af fjölmörgum þjálfurum Porto á tíma Pinto da Costa fyrrverandi leikmaður liðsins. Hann skipti reglulega um lið sem leikmaður og spilaði í fimm mismunandi löndum og var partur af “gullaldarliði” Portúgal. Hann hefur verið svipað stöðugur sem stjóri en unnið sig jafnt og þétt upp. Hann hefur starfað í nokkrum löndum og jafnan stoppað mjög stutt við. Síðast var hann hjá Nantes í Frakklandi þar sem hann sneri gengi liðsins frá því að stefna niður um deild í baráttu um Evrópusætin. Þetta dugði honum til að landa draumastarfinu, FC Porto þar sem hann hefur farið mjög vel af stað.

Porto náði 45 stigum fyrir áramót af 51 mögulegu, töpuðu ekki leik en gerðu þrjú jafntefli. Einu tapleikir tímabilsins voru í Meistaradeildinni, fyrst gegn mjög öflugu Besiktas liði og svo úti gegn Naby Keita og félögum í Leipzig. Porto rústaði Monaco t.a.m. tvisvar, 3-0 og 5-2 og endaði riðilinn í öðru sæti á eftir Besiktas.

Líklega hefur frábær varnarleikur Porto heimafyrir mest með styrk deildarinnar að gera því liðið lak inn 10 mörkum í Meistaradeildarriðlinum og Sérgio Conceição stendur meira fyrir sóknarþenkjandi fótbolta. Líklega er hægt að kalla hann nútíma stjóra í ekki ósvipuðum anda og Klopp þannig séð.

Porto hefur lengst af lagt upp með afbrigði af 4-4-2/4-4-1-1 kerfinu. Líklega ekki ólíkt Leicester að mörgu leiti en þeim líður þó betur með boltann en Leicester. Þeir pressa andstæðinginn hátt á vellinum en stilla upp tveimur þéttum línum og beita baneitruðum skyndsóknum. Kantmennirnir leita mikið inn á miðsvæðið og fá overlap frá bakvörðunum. Sóknarmennirnir tveir eru fremstu varnarmenn liðsins og aftast á miðjunni er varnartengiliður, með áherslu á varnarleik.

Frammi eru jafnan tveir öflugir Afríkumenn, þeir Aboubakar og Marega. Aboubakar er samlandi Joel Matip og hefur skorað 25 mörk í öllum keppnum það sem af er vetri á meðan Malí maðurinn Moussa Marega er með 14 mörk. Samvinna þeirra er mjög góð og skiptast þeir stanslaust á að vera fremsti maður. Ef eitthvað er hægt að lesa í sögu Porto þá er þetta síðasta tímabil Abobakar hjá félaginu. Hann er reyndar tæpur fyrir þennan leik.

Á miðjunni hefur Danilo Pereira verið aðalmaðurinn, hann er djúpur á miðjunni og mjög öflugur varnarlega og er undir smásjánni hjá öðrum stórliðum Evrópu. Hann meiddist á kálfa fyrir stuttu og gæti misst af leiknum gegn Liverpool.

Iker Casillas hefur verið aðalmarkmaður Porto undanfarin ár en hann hefur þó misst sæti sitt í liðinu undanfarið til José Sá.

Liverpool

Klopp var með annað auga á Porto leiknum núna um helgina, hvíldi t.a.m. Henderson og liðið náði nokkuð þægilegum seinni hálfleik á suðurströndinni. Porto var á sama tíma að keppa í deildinni heimafyrir.

Það eru nokkur alveg örugg nöfn í byrjunarliðinu

Karius

Gomez – Lovren – Van Dijk – Robertson

Wijnaldum – Henderson – Can

Salah – Firmino – Mané

Karius verður væntanlega áfram í markinu, efast um að Mignolet taki núna Meistaradeildina eins og Karius gerði þegar Mignolet sá um deildarleikina. Karius hefur líka verið að finna sig vel undanfarið. Ef að Joe Gomez er heill tippa ég á að hann komi inn í byrjunarliðið fyrir Trent sem þó hefur verið flottur undanfarið. Matip spilaði gegn Southampton en ég mynd samt giska á að Lovren taki Porto leikinn með Van Dijk. Robertson er svo að halda Moreno út úr liðinu og gerir það líklega áfram. Verðum að fara frá stöðuga varnarlínu.

Henderson kemur pottþétt inn á miðju, Can verður einnig pottþétt í byrjunarliðinu og líklega Wijnaldum. Gini spilar stóru leikina, væri samt til í að fá Ox eða Lallana frekar.

Sóknarlínan segir sig auðvitað sjálf.

Spá:

Ég hef nú meira spáð í veðrið fyrir þennan leik heldur en úrslit. Það verður að vera skaplegt til að hægt sé að yfirgefa þennan helvítis klett. Það er svo útlit fyrir rigningu í Porto sem gerir ekkert til. Málið er nefnilega að við verðum nokkrir af Kop hópnum á vellinum á miðvikudaginn og erum fullkomlega að flippa út af spenningi.

Þessi leikur held ég að verði mjög erfiður en set 2-3 sigur á Liverpool. Salah stimplar sig inn með þrennu.

28 Comments

  1. Takk fyrir frábæran lestur … Finnst mjög gaman og fróðlegt að lesa pistla um mótherja okkar í Evrópu ?
    Takk fyrir mig og ætla setja 1-3 á þennan leik

  2. Þetta er bara að bresta á, doktorsritgerðin komin.
    Takk fyrir það.
    Ég spái jafnteflisþriller 2-2.
    Heldur okkur við efnið heima.
    Góða skemmtun kop-arar.
    YNWA

  3. Sæl og blessuð.

    Þetta verður þrælerfitt í alla staði. Liðsmenn ekki búnir að fá langa hvíld frá síðasta leik og ferðalagið. Vonandi varð Premier-Air ekki fyrir valinu að koma þeim þangað suðreftir.

    Nú er brýnt að allir eigi sinn besta leik ef ekki á að fara illa. Vonum það.

    Já, og snilldar pistill!

  4. Takk fyrir skemmtilegan pistil.

    Þetta verður rosaleg viðureign og þarna er lið sem spilar fótbolta og fyrir vikið verður vonandi mikið fjör og hamagangur.

    4-3 fyrir LFC í rosalegum seinni hálfleik…

  5. Note to self: Ekki byrja að lesa Evrópu-upphitun a-la Einar Matthías um miðja nótt.

    Takk fyrir frábæra upphitun, ég er svei mér þá bara á tánum og vonast eftir útivallarmarki í skemmtilegum leik.

  6. Takk kærlega fyrir áhugaverða og frábæra upphitun en varðandi það að porto séu einungis búnir að fá á sig 10 mörk í deildinni er vegna þess að portúgalska deildin er algjört prump fyrir utan 2 önnur lið.

    Þeir munu lenda i andlegusjokki þegar pressan okkar fer á fullt enda hafa þessir leikmenn sem eru í portó liðininu núna ekki spilað við jafn gott lið áður og ég ætla að spá þessu 4-0

  7. Takk kærlega fyrir frábæran og upplýsandi pistil. Sannarlega eitt af stórliðum Portúgal og reyndar hörkulið á evrópskan mælikvarða. Vona svo sannarlega að andstæðingurinn sé nógu sterkur til að Klopp telji sig þurfa á öllum að halda. Spennandi leikir framundan og verður leikurinn í Portúgal verulega erfiður. Það eru engin bjálfalið í 16 liða úrslitum Meistaradeildar munum það. Áfram Liverpool.

  8. Sælir félagar

    Ég vil byrja á að þakka Einari M. fyrir frábærlega skemmtilegan og fróðlegan pistil fyrir leik Liverpool við Porto. Það búa engir stuðningsmenn á Íslandi við jafn magnaðar aðstæður í upplýsingagjöf og kynningu fyrir leiki. Þannig að ég efast um að nokkrir stuðningmenn í öllu universinu séu jafn vel fóðraðir og við. Greinar Einars M. eru kapítuli útaf fyrir sig og hafi hann ævarandi þökk fyrir.

    Hvað leikinn sjálfan varðar þá reikna ég með sigri okkar manna í þessum fyrri leik. Það styrkir liðið að Can verður í banni svo hann og Gini verða ekki saman á miðjunni. Þar vil ég sjá Lallan í byrjunarliðinu, einn mest skapandi leikmann okkar. Hann fyrir aftan sóknarlínuna og Hendo aftastan með Gini þar á milli (vakandi) til að styrkja bæði vörn og sókn. Það gæti orðið magnað. Við vinnum þennan leik 0 – 3 en munum svo gera 1 – 1 jafntefli heima.

    Það er nú þannig

    YNWA

  9. Svona vill maður sjá liðið.

    Karius – einfaldlega númer 1 í dag hjá okkur.

    TAA – Búinn að vera að spila vel eftir skituna gegn WBA. Gomez að koma tilbaka en TAA ferskur
    Lovren – mér finnst samstarf hans og Dijk vera betra en hjá Matip/Dijk
    Dijk – okkar besti varnarkall og framtíðar fyrirliði.
    Robertson – okkar besti vinstri bakvörður(flott kaup)

    Henderson/Millner/Winjaldum – þetta er útileikur og því um að gera að henda bara vinnuhestum sem passa vörnina og geta haldið miðsvæðinu. Þetta er á kostnað sóknarleiks en ég útileikur í fyrri leik í meistardeild er númer 1,2 og 3 að komast vel frá honum og geta klárað dæmi heima.

    Mane/Firminho/Salah – það er langt í næsta leik og því um að gera að keyra á þessum þremur.

    Þetta verður erfiður leikur en ef við erum skynsamir þá ættum við að geta náð góðum úrslitum og klárað dæmið á heimavelli.

  10. Sælir félagar

    Að mestu sammála sig. Ein hér að ofan en vil fá Lallana til að mata sóknina og skapa hættu ásamt okkar besta leikmanni Firmino

    Það er nú þannig

    YNWA

  11. Takk fyrir frábæra upphitun. Þetta verður æsispennandi leikur, við tökum þetta 1-2..

  12. Ég væri þokkalega til í að fá Dembele í staðinn fyrir E.Can

    Held að Van Dijk reddi þessu á morgun og við tökum þetta óvænt 1-0. Það spá allir markaleik en Karius er orðinn skítsæmilegur og við spilum varnarleik sem hefur ekki sjést hjá liðinu.

    Firmino skorar að sjálfsögðu eftir að Salah skýtur í hann og inn.

  13. Þetta verður eitthvað vona að liðið sé á öðrum stað en þegar riðlakeppnin fór fram!
    Segi bara eins og ónefndur handboltamaður sagði í vitali einusinni, rosalega er þetta gaman
    svona á þetta að vera rosalega spennandi…. tökum þetta 0-2 og Karíus maður leiksins.

  14. Hvað er annars að frétta af rannsókn FA á “rasisma” Firmino gegn leikmanni Everton? Komast menn bara upp með að ljúga svona alvarlegum hlutum upp á aðra leikmenn án þess að nokkuð sé gert í málinu?

  15. Talandi um Sælan og Firmino sem ég vona að hægt verði að gera samninga við til langrar framtíðar. Alveg með ólíkindum hvað Sælan féll vel inn í liðið frá byrjun. Liverpool er þekkt í sögunni m.a. vegna margra frábærra sóknarmanna en þeir hafa látið lítið fara fyrir sér eftir að Owen og Fowler liðu fyrir utan Suarez að að sjálfsögðu og eitt tímabil hjá Sturridge þegar hann náðist að haldast heill nærri heilt tímabil. Ekki má gleyma Torres sem var frábær þennan stutta tíma hjá liðinu. Sl 40 ár hafa, að ég held, þeir tveir sem skora mest fyrir liðið verið með 59 mörk. Núna eru Salah og Firmino komnir með 49 og nokkrir leikir eftir. Listinn;
    1983-84 I Rush 47, K Daglish 12. Alls 59
    1995-96 R Fowler 36, S Collymore 19. Alls 55
    2013-14 L Suarez 31, D Sturridge 24. Alls 55
    1985-86 I Rush 33, J Mölby 21. Alls 54
    1986-87 I Rush 40, S McMahon 14. Alls 54
    1989-90 J Barns 28, I Rush 26. Alls 54
    2007-08 F Torres 33, S Gerrard 21. Alls 54.
    1984-85 J Wark 27, I Rush 26. Alls 53

  16. Sælan á að sjálfsögðu að vera Salah en þessi helv sjálfvirka skrift á símanum er óþolandi fyrirbrigði.

  17. “Sælan” er samt alls ekki svo slæmt viðurnefni á Salah – og frekar viðeigandi;) Gæti best trúað því að mannanafnanefnd myndi samþykkja þetta.

  18. Samtal gærkvöldsins á mínu heimili.
    ég: það er Liverpool leikur annað kvöld
    konan: en það er valentínusardagur
    ég: Liverpool er hin stóra ástin í lífi mínu og Liverpool er búin að vera partur af mínu lífi mun lengur.
    Konan: En sú ást hefur miklu oftar svikið þig en ég.
    ég gat engu svarað en ég fæ samt að horfa af því að ég er vel giftur. 0-2 Fyrir Liverpool. Firmino og Lovren með mörkin.

  19. Nr. 14
    Neibb erum á öðrum bjór í Porto með ryðgaðar raddir eftir gærkvöldið. Orðum það þannig að Mo Salah er aðeins vinsæll hérna. Ekkert podcast í þessari viku.

  20. Skemmtið ykkur vel úti meistarar, vona að þið séuð búnir að átta ykkur á yfirburðum Super Bock gagnvart Sagres.

  21. #18 Þó að þetta sé óneitanlega skemmtileg tölfræði þá er töluverður munur á því að allir spili 442 og sóknarleikurinn fer í gegnum tvo sóknarmenn og svo því sem hefur rutt sér til rúms síðustu 20 árin þar sem 433 eða einhver útgáfa af því hefur verið mjög vinsæl og ætlast er að til þess að þrír sóknarmenn plús miðjumenn leggi til mörk. Án þess að hafa séð tölfræði um það myndi maður halda að samanlögð mörk tveggja markhæstu hafi lækkað hjá flestum klúbbum. Ég held hins vegar að meðal mörk á leik hafi ekki breyst mikið, a.m.k. síðan bannið við að senda á markmann var tekið upp.

  22. 3-0 Tap allan daginn erum ekki nógu góðir í meistaradeildina því miður.

  23. Snorri nr 26. Mikið rétt, liðsuppstilling hefur breyst mikið sl áratugi en þó hefur það verið hjá Liverpool að miðjumenn hafa löngum verið duglegir að skora og oft meðal tveggja markahæsti manna liðsins. McMahon, J Mölby og auðvitað Gerrard á seinni árum. Oft hafa jú miðjumenn verið vítaskyttur sem skekkir þetta aðeins en mörk eru svosem mörk hvaðan sem þau koma. Rush var t.a.m. aldrei vítaskytta en hugsið ykkur skorið hans ef hann hefði gert það eins og Sherer ofl goðsagnir. Eftir að rangstöðureglunni var breytt þá jókst markaskorun eitthvað en veit ekki hvað mikið.

Southampton – Liverpool 0-2

Porto – Liverpool: leikþráður