Porto á morgun í Meistaradeildinni! (uppfært)

Loksins! Eins og það hafi ekki verið nógu góðar fréttir að fá ensku deildina af stað aftur um nýliðna helgi, þá hefst riðlakeppni Meistaradeildarinnar þennan veturinn á morgun. Okkar menn spila strax á fyrsta leikdegi og það leik sem mætti á pappírnum kallast erfiðasti leikur riðilsins, leikur gegn Porto á útivelli í Oporto í Portúgal.

Porto-liðið er mjög sterkt, en hversu sterkt nákvæmlega er erfitt að segja til um. Þeir unnu Meistaradeildina vorið 2004 undir stjórn José Mourinho, ári áður en okkar menn unnu sömu keppni. Síðan þá hefur liðið mátt þola alls kyns blóðtökur og breytingar; Mourinho fór sama sumar með nokkra lykilmenn með sér, auk þess sem menn eins og Deco, Maniche, Costinha og nú síðast Anderson – sem fór til Man Utd – hafa sagt skilið við liðið. Liðið hefur farið vel af stað í vetur og unnið alla leiki sína í portúgölsku deildinni, enda verið með fádæmum sigursælir heima fyrir síðustu tíu árin.

Í dag er það sennilega portúgalski vængmaðurinn Ricardo Quaresma sem er þeirra skærasta stjarna, og sennilega sá leikmaður sem flestir Liverpool-menn hafa verið spenntir fyrir að fá til liðsins, utan Fernando Torres sem kom í sumar. Quaresma er fastamaður í portúgalska landsliðinu og skoraði m.a. gegn Chelsea á Stamford Bridge í Meistaradeildinni s.l. vor, þar sem Porto-menn voru hálftíma eða svo frá því að slá Chelsea út úr keppni.

Það vekur athygli að Porto-liðið hefur aldrei tapað á heimavelli fyrir enskum mótherjum, og þó hafa lið eins og Chelsea og Man Utd komið í heimsókn til þeirra á síðustu tveimur tímabilum. Þannig að það væri algjör flónska að ætlast til sigurs af okkar mönnum í Oporto annað kvöld. Sérstaklega ef tekið er mið af nýlegri sögu Liverpool gegn portúgölskum liðum; haustið 2001 mættum við Boavista í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og gerðum tvö 1-1 jafntefli, vorið 2006 slógu Benfica okkur svo út úr 16-liða úrslitum keppninnar með sigrum bæði í Lissabon og á Anfield í Liverpool.

Með öðrum orðum: jafntefli þarna, miðað við sögu og nýleg afrek, eru góð úrslit fyrir okkar menn.

Hvað liðið hans Rafa Benítez varðar er allt við svipað heygarðshorn og um helgina, býst ég við. Kewell og Aurelio eru farnir að æfa en eru ekki leikhæfir, á meðan ég efast um að Rafa treysti Javier Mascherano í þennan leik eftir þau ferðalög sem hann hefur lagt á sig síðustu tvær vikurnar með argentínska landsliðinu. Kannski er þetta góður leikur fyrir hinn brasilíska Lucas að stíga sín fyrstu skref í Meistaradeildinni?

Einn leikmaður sem verður þó klárlega í byrjunarliðinu er Fernando Torres. Hann var á bekknum um helgina og hefur **aldrei** leikið leik í Meistaradeild Evrópu, þannig að leikurinn annað kvöld verður honum stærri stund en flestum. Eins má búast við að menn eins og Steven Gerrard, Ryan Babel, John Arne Riise og Dirk Kuyt komi inn í liðið að nýju eftir að hafa verið á bekknum eða utan hóps um helgina.

**Uppfært:** *Opinbera vefsíðan staðfestir að Johnny Riise og Momo Sissoko missi af leiknum vegna meiðsla, en Fabio Aurelio komi inn í hópinn í staðinn. Ég ætla því að leyfa mér að breyta spánni um byrjunarlið. -KAR*

Ég spái því að Rafa stilli liðinu svona upp:

Reina

Finnan – Carragher – Agger – Arbeloa

Pennant – Gerrard – Alonso – Babel

Kuyt – Torres

**Bekkur:** Itandje, Hyypiä, Aurelio, Sissoko, Mascherano, Benayoun, Lucas, Leto, Crouch, Voronin. Veljið sjö af þessum níu

**MÍN SPÁ:** Þessi leikur leggst ágætlega í mig, en þó kannski meira af því að ég hlakka til að sjá Meistaradeildina fara af stað en að ég sé bjartsýnn á góð úrslit. Þetta gæti allt eins tapast, og yrði sennilega engin skömm að því gegn sterku liði eins og Porto, þannig að ég hlakka fyrst og fremst til að sjá skemmtilega rimmu tveggja sterkra liða.

Ég ætla þó að vera metnaðarfullur og spá okkar mönnum 2-1 sigri eftir að lenda undir. Quaresma stríðir Riise framan af og leggur upp mark Porto-manna en okkar menn taka öll völd í síðari hálfleik og uppskera tvö mörk. Torres skorar, enda ættu portúgalskir andstæðingar að henta spænskum bakgrunni hans í knattspyrnunni vel.

Meistaradeildin er að byrja. Okkar menn hafa farið í úrslit í tveimur af síðustu þremur keppnum, geta þeir gert það þrjú af fjórum? **Áfram Liverpool!**

29 Comments

 1. Nú er það ljóst að Riise verður ekki með vegna meiðsla sem hann hlaut í landsleikjunum en Aurelio kemur aftur inn í hópinn. Einnig verður Sissoko eftir heima hvernig sem stendur á því. Ég geri því ráð fyrir að við sjáum sömu varnarlínu og gegn Portsmouth um helgina. Svo geri ég ráð fyrir að Mascherano verði í byrjunarliðinu enda ansi mikilvægur í erfiðum útileikjum þar sem við viljum væntanlega liggja aftarlega og svo sækja hratt. Því giska ég á að Alonso byrji á bekknum en að öðru leiti er ég sammála þessu byrjunarliði. Ég giska á að þessi leikur fari 1-1, þetta er ekta svona jafnteflisleikur sambærilegur við fyrsta leikinn okkar í fyrra, úti á móti PSV. Torres skorar markið.

 2. Ég sá þetta. Búinn að uppfæra færsluna.

  Varðandi Alonso, þá spái ég honum í byrjunarliðinu af því að hann var tekinn útaf á laugardag. Mig grunar að það hafi verið gert til að eiga hann ferskan fyrir morgundaginn.

 3. Alonso kvartaði víst yfir einhverju smálegu í leiknum á laugardaginn og var þess vegna tekinn útaf.

 4. Ég stórefast um að liðið verði eins og þú giskar á, ekki bara er leikurinn erfiður , heldur er hann á útivelli og í keppni þar sem Rafa stillir alltaf upp varfærnislega í erfiðu útileikjunum.

  Ef ég ætti að giska á eitthvað þá væri það svona:

  ————–Reina
  —Finnan-Agger-Carra-Arbeloa
  Gerrard-Mascherano-Alonso-Pennant
  ———-Kuyt-Torres

  Hann myndi hafa Riise á vinstri ef hann væri heill, þar sem hann er sterkari varnarlega en Pennant, ég held að það sé ekki séns að spila með bæði Pennant og Babel á morgun, og gerrard & Xabi á miðjunni , það er “heimavallarliðið” eins og ég vil kalla það – þó að ég hefði ekkert á móti því að sjá liðið svona.

 5. Já, Alonso var sárþjáður þegar hann var tekinn útaf og þess vegna má ætla að hann byrji á bekknum og Mascherano kominn inn í staðinn, enda er hann “perfect” í svona leik sem byggist væntalega á þéttri vörn og snöggum hraðupphlaupum. Spurning hvort að Hyppia komi inn fyrir Carragher þar sem tveir leikir á fjórum dögum er kannski of mikið fyrir hann eftir þessi meiðsl. Hins vegar er líka spurning hvort Hyppia “gamli” geti ráðið við snögga tekníska leikmenn Porto…

 6. Þetta verður hörku leikur tveggja góðra liða. Erfitt er að ráða í byrjunarliðið en ég held að KAR sé nálægt því. Ég gæti reyndar vel trúað Rafa til þess að breyta leikkerfinu og spila 4-5-1 eða 4-3-3 á morgun en sjáum til.

  Þetta verður erfitt og ég skýt á jafntefli 1-1 þar sem við lendum undir.

 7. Ég yrði ekki hissa ef Rafa stillir upp 5 manna miðju með Torres einan frammi.

 8. Ég vill að við spáum númer 1,2 og 3 í ensku deildini og vill ég því sjá
  Hyypia, Leto og Crouch í liðinu.

  Ég vill að við hvílum Gerrard, Finnan, Carrager, Pennant og Torres. Í þessum leik.

 9. Ég spái því að Arbeloa jarði Quaresma og Fernando Torres geri 2 mörk í 1-4 sigri Liverpool, þar sem markvörður Porto verður rekinn af velli snemma leiks fyrir að brjóta á Torres einn á móti einum. Gerrard skorar úr vítinu og Torres gerir næstu tvö áður en Babel klárar leikinn. Porto skorar svo úr aukaspyrnu undir lok leiksins sem gefin er fyrir tittlingaskít rétt fyrir utan teig.

 10. Mikið er ég feginn að Siggi E er ekki þjálfari Liverpool! 🙂

 11. Siggi E var nú eitthvað orðaður við aðstoðarstöðuna sem Paco skildi eftir. Bara orðrómur samt.

 12. Fer 1-2. Torres með bæði. Porto hlýtur svo að fá vafasamt víti dæmt á Agger fyrir að vera örvfættur en rétthentur en Reyna ver vítið.

 13. ætla að skjóta á þetta lið:
  Reina
  Finnan Agger Caragher Arbeloa
  Gerrard Mascherano Alonso Babel
  Kuyt Torres

 14. Ég vill sjá þetta lið

             Reina
  

  Arbeloa Hyypia Agger Aurelio(ef fitt)/ Finnan á hægri og Arbeloa V

  Babel mascerano Lucas Benayun

         Kyut   Crouch
  

  Ég vill ekki taka neina sénsa með Carrager,Finnan, Alonso og Gerrard en þeir hafa verið tæpir. Svo vill ég að Torres verður framherji númer 1 í deildini en verður númer 3 í meistaradeildini. Þannig að hinir fá að haldast líka heitir.

 15. Alonso verðu sennilega ekki með á morgun þá ætti Mascerano að fá að spila með Gerrard 🙂 sem mér finnst vera besta miðjan okkar.

  ég vill sjá liðið svona

         Reina
  

  Finnan Agger Hyypia Arbeloa
  Pennant Mascerano Gerrard Babel
  Kuyt Torres

  Gefa Carra hvild til að jafna sig betur.

 16. Svona spái ég þessu á morgun!

         Reina
  

  Finnan Carra Agger Arbeloa
  Pennant Mascerano Alonso Babel
  Gerrard
  Torres

 17. er þettað erfitt Alonso verður ekki með í kvöld torres og koyt frammi koyt var ekki notaður síðast ‘AFRAM LIVERPOOL 1-2 yes yes

 18. Reina
  Finnan Carra Agger Arbeloa
  Pennant/Benayoun Gerrard Macherano Babel
  Kyut Torres

  Þetta verður svona, eina spurningin er hvort Pennant byrji, var slappur á laugadaginn, býst ekki við að hann breyti vörninni en Aurelio og Lucas koma mjög sennilga við sögu í þessum leik.

 19. Þetta verður sögulegur leikur… 8-0 og Torres með 5 og Gerrard, Voronin og Babel með eitt hver.

 20. His team in full is: Reina, Arbeloa, Finnan, Hyypia, Carragher, Babel, Pennant, Mascherano, Gerrard, Torres, Kuyt. Subs to follow

 21. Mér finnst vanta svolítið upp á vinnsluna í okkar mönnum. Pennant er að eiga annan slakan leikinn í röð og svo finnst mér Torres ekki vera nógu hungraður. Ekki nóg að heita Torres og vera með númer 9 á bakinu, menn verða að vinna fyrir kaupinu :). Babel er líka fjarverandi í þessum leik, hefur ekki náð neinum takti, enda Liverpool sótt meira upp hægri kantinn. Vantar einhvern neista. Vona að seinni hálfleikur verði betri.

 22. Úff.. það er ekki hægt annað en að vera sáttur þessi úrslit, miðað við hvað liðið spilaði hörmulega. Nenni ekki að vera neikvæður gangvart ákveðnum leikmönnum, flestir spiluðu undirgetu og það var ekki að sjá sjálfstraustið sem einkenndi liðið fyrir landsleikja hlé.

  Mér þótti ótrúlegt að Rafa skildi ekki nýtt alla varmennina þegar þeir voru orðnir 10. Kuyt var nánast að æla blóði á kantinum. Ég hefði kosið að já Lucas á miðri miðjunni og Gerard í stöðunni hjá Kuyt. Greinilegt að Rafa treystir ekki Lucas í leik sem þennan, því miður.

Sitt lítið af hverju.

Porto 1 – Liverpool 1