Porto mæta á Anfield

Annað kvöld mæta Porto á Anfield í 8 liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Annað árið í röð er Liverpool í 8 liða úrslitum þessarar keppni, og annað árið í röð mætast þessi lið í útsláttarkeppninni, þó viðureignir þessara liða í fyrra hafi reyndar verið í 16 liða úrslitum.

Spennustigið fyrir leik þessara liða á Anfield í fyrra var vissulega lægra en nú er, og var satt að setja alveg við núll gráður, enda höfðu okkar menn svo gott sem gert út um einvígið í fyrri leiknum úti í Portúgal með 5-0 sigri þar. Undirritaður mætti á leikinn á Anfield, en ákvörðunin um að fara á þann leik var tekin áður en fyrri leikurinn fór fram, og skal ég alveg játa að hugsanlega hefði maður ekkert verið að hafa fyrir þessum leik vitandi úrslitin á útivelli. Enda fór það svo að sá leikur fór 0-0, líklega eini markalausi leikur okkar manna á síðustu leiktíð (leiðréttið mig endilega ef það er ekki rétt).

Líkurnar á því að leikurinn á morgun fari 0-0 eru vissulega til staðar. Við minnumst þess t.d. að fyrri leikur Liverpool og Bayern í 16 liða úrslitunum fór einmitt 0-0, og að það er ekki eini 0-0 leikur tímabilsins (annað dæmi: leikirnir við City á Anfield og Everton á Goodison Park koma t.d. upp í hugann). En við skulum vona að sóknartríóið okkar verði á skotskónum og niðurstaðan verði helst nokkur mörk í plús þegar seinni leikurinn fer fram úti eftir rúma viku.

Andstæðingarnir

Liðið sem mætir á Anfield er líklega með ögn meira sjálfstraust heldur en liðið sem mætti í fyrra. Núna mæta þeir sem ríkjandi deildarmeistarar í Portúgal, sigurvegarar síns riðils í Meistaradeildinni síðasta haust, þeir eru komnir í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar annað árið í röð, og í stað þess að falla úr leik í 16 liða úrslitum eins og í fyrra eru þeir komnir í 8 liða úrslitin. Liðið gekk í gegnum nokkrar breytingar síðasta sumar eins og gengur. Frá liðinu fóru kappar eins og Ricardo Pereira sem fór til Leicester og Diago Dalot sem fór til United. Þá var kunnuglegt nafn á lista yfir þá sem fóru frá félaginu, því fyrrum Liverpool leikmaðurinn Joao Carlos Teixeira var þar á meðal. Hann lék svosem aldrei mikið með Porto, en hann sást í 8 leikjum með félaginu fyrir tveim tímabilum, og var svo á láni hjá Braga á síðasta tímabili. Einn af mörgum fyrrum leikmönnum Liverpool sem manni þótti efnilegur á sínum tíma, en náði ekki að stíga næstu skref upp á stóra sviðið.

Til klúbbsins hafa svo nokkrir leikmenn komið í síðustu tveim gluggum. Skal þar helstan telja Éder Militao sem kom frá Brasilíu í ágúst síðastliðnum, og nú þegar er farið að orða hann við ýmis stórlið í Evrópu.

Liðið lék við Roma í 16 liða úrslitum, og að jafnaði mætti segja að það að slá út lið sem komst í undanúrslit Meistaradeildarinnar árið áður hljóti að teljast mjög gott, en þó má ekki gleyma því að Roma missti jú Alisson síðasta sumar, og var þar um að ræða skarð fyrir skildi. Roma vann reyndar fyrri leik liðanna á Ítalíu 2-1, en Porto vann þann seinni 3-1 á sínum heimavelli.

Þeir leikmenn sem líklegastir eru til að skora (ef þeir ná þá að skora hjá Alisson á annað borð) eru þeir Fransisco Soares sem er með 19 mörk samtals á leiktíðinni, og Moussa Marega sem er með 17 mörk, þar af 6 í meistaradeildinni. Semsagt, tveir leikmenn sem gætu verið að detta í 20 mörk á leiktíðinni. Nú og svo er leikformið á liðinu í síðustu 5 leikjum ekkert ósvipað og hjá okkar mönnum: 4 sigrar og 1 jafntefli. Það er því ljóst að þetta eru engir aukvisar sem Liverpool er að fara að mæta.

Okkar menn

Hópurinn sem Klopp getur teflt fram er óvenju breiður. Það er þó eitt stórt skarð sem þarf að fylla, en Andy Robertson getur ekki spilað á morgun þar sem hann náði sér í gult spjald í uppbótartíma í seinni leiknum gegn Bayern. Langflestir telja einboðið að James Milner verði kallaður til og mæti aftur í vinstri bakvarðarstöðuna sem hann eignaði sér eins og frægt er orðið fyrir tveim árum síðan. Líkurnar á því að Alberto Moreno muni spila aftur fyrir Liverpool fara hratt minnkandi með hverjum leiknum sem líður, og voru svosem ekkert mjög miklar eftir bikarleikinn gegn Wolves í janúar (þó svo hann hafi einstaka sinnum sést á bekknum eftir það). Að öðru leyti eru líkur á því að Klopp vilji stilla upp sínu alsterkasta liði, enda næsti leikur ekki fyrr en á sunnudaginn þegar Chelsea mæta á Anfield. Og nú er bara spurningin: hvað telur Klopp að sé sitt sterkasta lið? Fremstu 3 velja sig sjálfir, vörnin velur sig sjálf (örlítill séns að Lovren fái séns í staðinn fyrir Matip samt), en spurning með miðjuna. Ef við gerum ráð fyrir að Milner fari í vinstri bak, þá er þetta spurning um Henderson, Fabinho, Wijnaldum og Keita, mögulega gæti Lallana fengið eitthvað hlutverk, en þessi meiðsli sem hindruðu hann í að spila á föstudaginn gætu vel komið í veg fyrir þáttöku hans á morgun.

Við skulum því spá þessu svona:

Eins og venjulega þá eru þarna nokkur vafaatriði. Wijnaldum þótti virka þreytulegur í leiknum á föstudaginn, kannski kemur Keita í hans stað. Mögulega fær Henderson annað taktískt hlutverk sem box-to-box leikmaður, en hann sýndi það einmitt í leiknum gegn Saints að hann kann það ennþá. Það er a.m.k. ólíklegt að Klopp fari að stilla upp í 4-2-3-1 með Hendo og Fabinho fyrir framan vörnina. Nú og svo er eins og áður sagði smá möguleiki að Lovren fái kallið fram yfir Matip, þó það sé ólíklegt þar sem samvinna Matip og van Dijk er búin að vera með ágætum upp á síðkastið.

Undirritaður spáir að sjálfsögðu sigri, en ég tel nánast engar líkur á að þessi leikur fari 5-0 eins og í fyrra. Við skulum segja að þetta verði svona mitt á milli leikjanna tveggja frá síðasta ári, og fari annaðhvort 2-0 eða 3-1. A.m.k. alveg klárt að Mané setur eitt ef ekki fleiri.

KOMA SVO!

9 Comments

 1. Eftir að hafa lesið viðtal við stuðningsmann Porto þá vildu þeir fá Liverpool bara til að sýna að þeir hafi bæt sig.
  Þeir ætluðu að sækja gegn Liverpool á síðustu leiktíð og klúðruðu einvíginu. Núna munu þeir verða mjög þéttir tilbaka og gefa fá færi sér. Við munum sjá leiktafir frá upphafs mín og viti menn leika leikaraskap þar sem menn velta sér nokkra hringi á meðan að þeir ákveða hvort að þeir ætla að halda um höfuð eða fætur.
  Við erm samt með sterkara lið og spái ég að við vinnum þetta 1-0 á heimavelli og svo 1-2 á útivelli þegar þeir þurfa að færa sig framar.
  Winjaldum er greinilega ekki 100% og fær líklega að byrja á bekknum og kæmi mér ekkert á óvart Keita haldi sæti sínu í liðinu og Henderson kemur í liðið.

  YNWA – Vona að við mætur dýrvitlausir í þennan leik og getum keyrt á þetta með stór sigri(efast um það) einfaldlega til að geta leyft köppum eins og Gomez/Shaqiri að fá að byrja síðari leikinn.

  14
 2. Held það sé mikið til í þessu hjá honum Sigurði hér að ofan, þeir munu nota öll trixin í bókini til að tefja og halda leiknum sem mest niðri, en við þekkjum þessa taktík erum eldri en tvæ vetur. þessi leikur fer
  5-0 no matter what.

  YNWA

  7
 3. Það er auðvitað gríðarlega óliverpúllegt að klára einvígi í fyrri leik útstláttareinvígis líkt og gerðist í fyrra.

  Porto þóttu í ár vera þægilegasti drátturinn í 8 liða pottinum og því er það skrifað í skýin að þetta einvígi verður eitthvað bras sem enginn átti von á. Ég spái því að mínir menn skilji eftir brekku í kvöld og Porto labbi út af með jafntefli og eitt eða jafnvel tvö mörk. Seinni leikurinn verði síðan einhver geðveiki sem við vinnum auðvitað. Það er einfaldlega það sem Liverpool gerir 🙂

  7
 4. Sæl og blessuð.

  Verum hrædd. Verum mjög hrædd. Þetta verður Chelsea 2014 revisited, endalaust tafs og vesen, háar tæklingar og ,,mundi ég þér kinnhestinn” á öllum stöðum á vellinum.

  Megum vera heppin ef við komumst klakklaust úr þessari rimmu. Skálum í púrtvíni ef við komumst upp úr þessu feni með óskaddaða lykilleikmenn og rétt hlutföll á mörkum.

  5
 5. Takk fyrir þessa yfirferð. Sammála því að ólíklegt sé að þessi leikur fari 5-0 en best er samt að gera nánast út um einvígið í fyrri leiknum. Erfiður leikur í deildinni kemur inn á milli Porto leikjanna og væri gott að geta komið með gott forskot í seinni leikinn og etv minnkað álagið á lykilleikmönnum. Ég vill bara alls ekki að einhverjir sénsar séu teknir í CL ef það kemur svo niður á deildinni.

  3
 6. Stuðullinn á Porto er 11/1 hjá William Hill, það er svipað og Huddersfield eru að gera. Mane gerði þrennu í fyrra. Okkar menn verða of sterkir fyrir þá.

  1
 7. Það sem ég meina er, Porto eru ekki að koma til að spila fótbolta, það reyndu þeir í fyrra og gekk ekki. Núna koma þeir til að spila ekkibolta, fólk getur lagt sitt mat á hvað það þíðir.

  YNWA

  5
 8. skorum 3-4 mörk og höldum hreinu.

  hef ekki áhyggjur af að liðið verði eitthvað ofurþreitt á móti chelsea um helgina, við erum að spila heima í kvöld en chelsea er að spila úti í evrópudeildinni á fimmtudag einhverstaðar lengst út í rassgati sem er mjög gott fyrir okkur og vonandi verða þeir með nett hangover á sunnudaginn.. þurfum bara að passa okkur á hazard, hann er greinilega að sýna allt sitt besta núna svo að real madrid kaupi hann skothelt í sumar.

  verður bara gaman.. svo auðvitað vonast maður til að crystal palace vinni city um helgina

  3
 9. Séu horfur góðar á sigri mun ég draga fram Liverpool ginflöskuna mína í leikhléi og blanda einn máttugan Liverpudlian G&T. Þetta er mjöður góður, Artisanal Organic English Gin 43% og merktur með sjálfum Liverfuglinum á flöskumiðanum. Undir fuglinum stendur letrað „Liverpool: since 1207”!

  Góðar stundir!

  8

Southampton 1-3 Liverpool

Liverpool – Porto – Byrjunarliðin klár!