Chelsea á morgun! (+viðbót)

Dæs. Ég er búinn að skrifa svo mikið um Chelsea í vetur að ég nenni varla að skrifa enn eina upphitunina fyrir leik gegn Chelsea. Fyrir þá sem vilja lesa það sem við Einar höfum skrifað um Chelsea í vetur þá getið þið nálgast það hér: umfjöllunarsafn okkar um Chelsea <|> leikskýrslan úr Deildarbikarnum <|> Liverpool mun vinna Chelsea! <|> John Terry leikmaður ársins

Í staðinn fyrir að fjalla um Chelsea í upphitun langar mig að breyta aðeins til. Við vitum allt um Chelsea, höfum séð þá vinna enska titilinn og Deildarbikarinn í vetur og vitum hvernig þeir munu stilla upp, hvernig þeir munu spila og hversu góðir þeir eru. Ég þarf ekkert að fjölyrða um það.

Þess í stað langar mig að tala aðeins um Meistaradeild Evrópu almennt. Átta menn sig á að þetta er í fyrsta sinn sem Liverpool spilar í undanúrslitum Evrópukeppni Meistaraliða – eins og hún hét síðast þegar við vorum í undanúrslitum – í 20 ár??? Þegar það gerðist síðast var Einar ekki byrjaður að fylgjast með Liverpool, man fyrst eftir að hafa horft á úrslitaleikinn sjálfan á Heysel, og ég var sennilega einhvers staðar útí sandkassa að moka í fötu á meðan pabbi öskraði á sjónvarpið. Það er svo langt síðan að Wayne Rooney var ekki fæddur! Það er langt.

Of langt, að mínu mati. Það var kominn tími til að Liverpool kæmi sér enn á ný í röð með fremstu og bestu liðum Evrópu. Eftir sigurinn í Evrópukeppni Félagsliða 2001 komumst við í 8-liða úrslitin í Meistaradeildinni vorið 2002, duttum þar út og höfum átt í erfiðleikum síðan. Vorið 2003 duttum við út í 8-liða úrslitum Evrópukeppni Félagsliða gegn Celtic og í fyrra duttum við út í 16-liða úrslitunum gegn Marseille. Þar var einn maður öðrum fremur ábyrgur fyrir brotthvarfi okkar úr keppni – Didier Drogba. Hann verður með á morgun og hlakkar örugglega til að hrella Liverpool enn og aftur.

Ég eyddi helginni í að vera pirraður yfir tapinu gegn Crystal Palace en á sunnudaginn las ég grein Paul Tomkins um tapið gegn Palace og leikinn gegn Chelsea, og það breytti áliti mínu aðeins. Við eyðum svo miklum tíma í að hafa áhyggjur af því hvort liðið komist í Meistaradeildina á næsta ári – nú í vor erum við, eitt fjögurra liða, enn með í Meistaradeildinni … hvernig væri að vinna þennan fjanda bara? Ekki að vera að velta okkur upp úr því hvort við verðum með eftir ár, þegar við gætum unnið hana NÚNA.

Þannig að ég hef ákveðið að láta pirringinn yfir 13 tapleikjum í deildinni ekki hafa nein áhrif á mig. Á morgun er Liverpool að spila gríðarlega mikilvægan, gríðarlega spennandi og örugglega hnífjafnan leik við Chelsea á Stamford Bridge í London. Það búast flestir við því að við töpum á morgun en ég mun fara í þetta einvígi með sama hugarfari og ég fór í Juventus-einvígið: það er frábært að hafa komist svona langt, ég ætla að skemmta mér yfir skemmtilegu einvígi og hvað sem koma skal verð ég sáttur með gengi liðsins í vetur.

MÍN SPÁ: Einhvers staðar las ég að Pako Ayesteran aðstoðarmaður Rafa hefði sagt honum af draumi sem hann dreymdi: Pako sagði við Rafa að hann hefði dreymt að Liverpool myndu tapa fjórum sinnum fyrir Chelsea í vetur en vinna fimmtu viðureignina og fara í úrslitaleikinn.

Innblásinn af bjartsýni Pako ætla ég að spá Chelsea 2-1 sigri á morgun í hnífjöfnum og æsispennandi leik. Þeir komast í 2-0 en undir lok leiksins skorar annað hvort Steven Gerrard – sem kann að skora mikilvæg mörk – eða Djibril Cissé ómetanlegt útimark. Við munum síðan flengja þetta Chelsea-lið á Anfield eftir viku og komast í úrslitaleikinn í Tyrklandi í næsta mánuði.

Á morgun: mikilvægasti leikur Liverpool FC í 20 ár. Ekki spurning. Koma svo Liverpool, sýnið þessum blánefjum úr hverju þið eruð gerðir!

You’ll never walk alone… 😀


**Viðbót (Einar Örn)**: Úfffffff, ég er orðinn spenntur.

Ég á að fara á ráðstefnu í Stokkhólmi á morgun og þar á víst að vera einhver voðaleg dagskrá annað kvöld, sem er EKKI FRÆÐILEGUR MÖGULEIKI á að ég mæti á 🙂

Ég þarf bara að finna mér einhverja góða afsökun, annars flý ég bara útum brunastigann. Það mun fátt geta haldið mér frá sjónvarpinu á morgun.

Það verðu athyglisvert að sjá hvernig Rafa spilar þetta, þar sem við verðum núna á útivelli í fyrri leiknum, sem á að flestra mati að vera betra. Ætli Rafa verði þeim mun varkárari, eða reynir hann að sækja til að ná mikilvægu útivallarmarki.


Varðandi byrjunarliðið, þá hlýtur Rafa að fara í 4-5-1 á morgun með þetta byrjunarlið:

Dudek

Finnan – Carra – Hyypia- Traoré

Garcia – Biscan – Alonso – Gerrard – Riise

Baros

Svo verðum við með Kewell og Cisse á bekknum og ég spái því að við sjáum þá báða í leiknum á morgun. Rafa hefur að ég held mikið álit á Kewell og hann lítur eflaust á það sem mikinn styrk að geta notað hann að einhverju leyti á morgun.


En auðvitað er þetta rétt hjá Kristjáni. Kannski erum við Liverpool aðdáendur of vanir því að vera alltaf að hugsa um morgundaginn og næsta tímabil. Allt vesenið, sem við höfum lent í undanfarin ár hefur gert það að verkum að við erum alltaf að hugsa um næsta tímabil og hvernig hlutirnir verði betri þá, í stað þess að njóta dagsins í dag.

Þetta lýsir sér í því að svekkjum okkur gríðarlega á að verða ekki í Meistaradeildinni næsta tímabil í stað þess að njóta þess að vera í **undanúrslitum í ár**. Man U og Arsenal aðdáendur hafa ekki getað státað sig af slíkum árangri í mörg ár.

**Við erum í undanúrslitum Meistaradeildarinnar!** Gleymum næsta ári og njótum þess, sem er að gerast í dag. Fyrir marga lesendur þessarar síðu verða þetta sennilega stærstu Liverpool leikir, sem þeir hafa upplifað, svo það er eins gott að við njótum þess. 🙂

**Áfram Liverpool! Við getum klárað þetta!**

13 Comments

 1. >Ekki að vera að velta okkur upp úr því hvort við verðum með eftir ár, þegar við gætum unnið hana NÚNA

  Vá hvað þetta hefur algjörlega gleymst í þessari blessuðu umræðu!!!!

 2. Peter Schmeichel, Preben Elkjær og Brian Laudrup vilja meina að þetta sé Battle of Britain! Chelsea sé klárlega sigurstranglegra en Liverpool sé ítrekað búið að koma á óvart í CL og það geri þennan leik þann mest spennandi sem verið hefur í CL í mörg ár!!!!!!

  ooohhhhhh óvissan er gíðarlega….. en eitt er víst að bjór verður með og óbilandi stuðningur til okkar manna…..

  Ég hlakka svo til…

 3. manchester united og Arsenal aðdáendur hafa ekki getað státað sig af slíkum árangri í mörg ár.

  Manchester United getur nú reyndar státað sig af því að hafa unnið þessa keppni 1999.

 4. Ussss! Þvílík spenna, þvílík eftirvænting!

  Þetta verður ROSALEGT!

  Ekki gleyma því að chel$kí hafa rænt af okkur stigum í vetur og þjálfari þeirra er hrokafullur andskoti sem ég þrái að sjá tapa!!

  YNWA!

 5. Það er gaman að lesa á netinu að Luis Garcia er ekki hræddur við leikina gegn Chelsea og svo virðist sem okkar menn munu mæta kokhraustir og tilbúnir í slaginn í kvöld…. uuusss hvar endar þetta? Fullt af mörkum? Rauð spjöld? Tilfinningar og hiti? Vonandi allt þetta….
  Leikir tímabilsins í Englandi… enginn spurning.

 6. Ég ætla að gerast svo djarfur að koma með spá fyrir þessar viðureignir og spá því að þeir bláu munu vinna leikinn í dag 🙁 en Liverpool vinnur síðan auðvitað heimaleikinn sinn. 2-1 í kvöld og síðan 2-0 í seinni leiknum 🙂

 7. Óli Þ: “Ég ætla að gerast svo djarfur að koma með spá fyrir þessar viðureignir og spá því að þeir bláu munu vinna leikinn í dag 🙂 en Liverpool vinnur síðan auðvitað heimaleikinn sinn. 2-1 í kvöld og síðan 2-0 í seinni leiknum :-)”

  ég er ekki alveg að skilja, spáir að við töpum í kvöld og. vinnum síðan heimaleikinn 2:1 en 2:0 í seinni leiknum :confused:

 8. Ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum að leikurinn fari o-o
  í kvöld, og seinni leikurinn 3-1 :biggrin2:
  Koma svo !

 9. Já spáin var 2-1 fyrir kvöldið og 2-0 fyrir Lp í næsta leik, en ég hef nú aldrei verið þekktur fyrir að vera góður spámaður :biggrin2:

KEWELL og Baros í hópnum (uppfært)

Chelsea 0 – L’pool 0