Stjórnandi: Kristján Atli. Gestir: SSteinn, Einar Matthías og Maggi.
Í þessum þætti ræddum við tapið gegn Sevilla, gerðum tímabilið upp og litum til sumarsins. Þá heilsuðum við upp á nýjan markvörð Liverpool, Loris Karius.
Jurgen Klopp heldur áfram að raða inn mönnum snemma fyrir næsta tímabil.
Matip og Grujic komnir og nú hefur verið staðfest að Loris Karius sem var markmaður Mainz í vetur hefur nú skrifað undir langan samning við félagið.
Karius þykir einn efnilegasti markmaður Evrópu, 22ja ára gamall og átti frábært tímabil í Bundesligunni. Það er alveg ljóst að hér er komin samkeppni við Mignolet um aðalmarkmannsstöðuna næsta vetur sem er töluvert sterkari en þeir sem hafa keppt um hana undanfarin misseri.
Karius mun þó verða fjarri góðu gamni í upphafi næstu leiktíðar þar sem hann mun verða í landsliðshóp Þjóðverja á ólympíuleikunum í Rio.
Jurgen Klopp fékk í vetur nánast heilt tímabil sem undirbúningstímabil, auðvitað ekki bókstaflega en hann var með fullkomlega frítt spil í vetur og laus við alla pressu sem er mjög óvanaleg staða fyrir stjóra Liverpool. Hann hefur notað þennan tíma til að meta núverandi leikmannahóp og áður en hafist verður handa við að kaupa nýja leikmenn þarf að meta hvað er til staðar nú þegar. Þetta held ég að sé óvitlaust fyrir okkur að gera líka. Hópurinn er það stór núna að það er nánast öruggt að a.m.k. einn verður seldur á móti hverjum einum sem kemur inn.
Til að meta núverandi hóp finnst mér best að miða við spilaðar mínútur. Fyrir nokkrum vikum bar ég saman spilaðar mínútur í deildinni hjá Liverpool, Tottenham og Leicester og var alls ekki hissa á að sjá muninn á liðunum þar. Núna er ég búinn að taka þetta aftur saman fyrir okkar menn og nú með Evrópudeildinni inní (það eru ekki til upplýsingar um fjölda mínútna í bikarleikjunum).
*Hef þá ekki með sem hafa spilað minna en 5% af heildarmínútum í Deild og Evrópudeild.
Markmenn
Mignolet – Hann fékk nýjan fimm ára samning og mikinn stuðning frá Klopp. Hann spilar 92% leikjanna og þar af alla í Evrópu. Hann þarf meiri samkeppni næsta vetur og helst einhvern sem slær hann úr liðinu. Við sjáum það hjá flestum liðanna fyrir ofan Liverpool að þau hafa traustari og betri markmann og það telur gríðarlega. Óttast að hann verði í byrjunarliðinu í fyrsta leik næsta vetur en vona ekki.
Miðverðir
Lovren – Eins mikið og hann hefur nú spilað sig inn í liðið þá spilaði hann bara 55% af deildarleikjum Liverpool í vetur og 59% ef við teljum Evrópudeildina með. Það er rosalega dýrt að vera án síns besta miðvarðar (sem Lovren er í dag) í tæplega helmingi deildarleikjanna. Sáum hjá Leicester og Tottenham hvað það getur verið gott að hafa nánast alltaf sömu samæfðu vörnina leik eftir leik. Sakho – Nákvæmlega eins með Sakho í vetur og Lovren, þeir voru að spila jafn mikið en ekki ekki nærri allir þessara leikja var með þá saman í vörninni. Yfirvofandi leikbann Sakho er fullkomlega bölvað og hjálpar ekki til við að koma stöðugleika á vörnina. Eins gott að Matip og Lovren komi ferskir inn í mót í haust. Kolo Toure – Hann endaði tímabilið mjög vel og spilaði á endanum 31% af leiktímanum í deild og Evrópudeild í vetur. Fjarvistir í miðvarðahópi Liverpool sýna engu að síður að þörf er á betri valkosti þrjú en 36 ára Kolo Toure. Skrtel – Hann er líka að spila 55% deildarleikja Liverpool. Hann er að enda sinn feril hjá Liverpool ekki ósvipað Riise á sínum tíma. Loksins loksins var prufað að spila saman t.d. Sakho og Lovren og viti menn það var allt annað að sjá vörnina. Takk og bless Skrtel. Gomez – Klopp hefur öfugt við Rodgers verið að spila flestum í sinni bestu stöðu. Gomez er það mikið efni að hann fór 18 ára beint inn í byrjunarliðið hjá Rodgers en spilaði sem vinstri bakvörður. Það verður fróðlegt að sjá hvernig hann kemur undan meiðslum og eins hvar Klopp er að hugsa hann.
Alveg eins og 36 ára Toure er ekki heillandi sem þriðji valkostur þá er 19 ára Joe Gomez nýkominn úr langtímameiðslum ekkert voðalega heillandi sem 3.-4. valkostur heldur. (more…)
Við förum betur yfir þetta á næstu vikum og mánuðum en nú þegar liðið hefur lokið leik eftir 63 leiki á einu tímabili er ljóst að einhverjir hafa spilað sinn síðasta leik og nokkrir nýir koma í staðin.
ÚT
Án þess að hrófla mikið við kjarna liðsins á þessu tímabili er hægt að losa sig við 13 leikmenn. Bogdan – Mignolet hefur verið í samkeppni við Brad Jones og Adam Bodgan á tíma sínum hjá Liverpool. Nú þarf að koma inn markmaður sem er betri en þeir allir þrír. Toure – Myndi frekar vilja halda honum eða Lucas en Skrtel. Líklegt að a.m.k. einn af þeim verði áfram úr því að Sakho er í banni. Enrique – Loksins loksins, þarna er töluvert pláss á launaskrá að opna. Caulker Skrtel – Komið meira en gott. Ilori Lucas – Hann hefur verið við það að fara í mörg ár og ekki líklegur til að verða lykilmaður hjá Klopp. Allen – Ágætur í vetur en Liverpool þarf miklu meira afgerandi miðjumann en Joe Allen. Teixeira Sinclair – Verði honum af vind og skít. Benteke – Væri mikið til í að hafa hann sem 3-4. kost næsta vetur en gréti það ekkert að selja hann og fá t.a.m. inn Götze. Balotelli – (Góði guð, gerðu það) Alberto – Góður leikmaður sem fer eflaust á 5-10m.
Þarna inni eru ekki leikmenn eins og Markovic, Smith, Canos, Flanagan, Stewart og Wisdom sem gætu farið án þess að hafa of mikil áhrif á kjarna liðsins.
Eins held ég að það sé nokkuð ljóst að einhver af okkar lykilmönnum í vetur sé allt eins líklegir til að fara, vonandi ekki margir samt enda engin þörf á að umturna byrjunarliðinu og byrja alveg upp á nýtt. Þessi uptalning sýnir að það er svigrúm til að breyta gríðarlega miklu án þess að höggva neitt að ráði í kjarna liðsins. Þetta lið hefði náði miklu betri áragnri með lykilmenn heila (og minna leikjaálag).
INN
Félagið virðist vera langt komið með að klára megnið af leikmannakaupum næsta tímabils ef eitthvað er að marka alla áreiðanlegustu fjölmiðla tengdum Liverpool.
Joel Matip – Klárað í janúar, byrjunarliðs miðvörður frá góðu liði í Þýskalandi sem Klopp var með í huga áður en hann tók við Liverpool. Marko Grujic – Hjá Dortmund var Klopp ítrekað að kaupa leikmenn á þessum aldri og henda nánast beint í liðið. Margir þeirra flokkaðir sem heimsklassamenn í dag. Loris Karius – Eðlilegt að kaupa Karíus þar sem við erum nú þegar með bróðir hans, Baktus í markinu hjá okkur. Gríðarlega efnilegur þýskur markmaður sem hefur komið við sögu í öllum þeirra yngri landsliðum. Kannski ekki það sem við vorum helst að óska eftir en klárlega öflugri samkeppni við Mignolet en Jones og Bogdan. Piotr Zieli?ski – Sömu rök með þennan og Grujic. Hér þarf Klopp að fá að njóta vafans því þetta er alls ekki það sem maður var með í huga upp á að styrkja miðjuna. Hann er þó sagður passa mjög vel inn í pressuleikstíl Klopp, það er ekki tilviljun að þeir sigta hann svona afgerandi út.
Þessir fimm eru annaðhvort staðfestir eða mjög líklegir. Aðrir sem eru mikið í umræðunni eru. Mario Götze – Hann uppfyllir væntingar okkar um að kaupa heimsklassaleikmann. Kaup á honum myndu gera mjög mikið fyrir félagið, bæði móralskt og auðvitað hvað styrkingu varðar. En með enga Evrópukeppni á næsta ári og sóknarmannaflotann kominn aftur úr meiðslum er enginn rosaleg þörf á að breyta miklu sóknarlega. Ben Chilwell/Jonas Hector – Jákvætt að við erum orðuð við vinstri bakverði. Ég vill alls ekki selja Moreno en það var galið að fara inn í mótið án þess að hafa neitt einasta back-up (samkeppni) fyrir hann. Hector er góður varnarlega og þýskur landsliðsmaður. Um Ben Chilwell veit ég ekkert annað er að hann er sagður mikið efni, komst samt ekki í byrjunarlið Leicester.
Þarna er sannarlega verið að bæta við markmanni, miðverði, vinsti bakverði, tveimur miðjumönnum og sóknarþenkjandi leikmanni. Ferilsskrá Klopp sýnir að við eigum ekki að gera okkur vonir um 5-7 proven leikmenn í hæsta verðflokki. Undanfarin ár sýna okkur líka að það hefur ekkert verið að gefa okkur að ráði aukalega. En vonandi fáum við nú 1-2 í sama klassa og Götze. Heimsklassa leikmaður á góðu verði og frábærum aldri.
Ég bendi á færsluna fyrir neðan ef einhver vill dásama Kuyt, sem allir ættu að sjálfsögðu að gera!
Liverpool virðist ekkert ætla að velta sér upp úr úrslitunum í síðasta leik og virðast staðráðnir í að hefja undirbúning fyrir næstu leiktíð bara einn, tveir og bingó. (more…)
Við þurfum nýja færslu efst á síðuna. Ó, hvað við þörfnumst þess mikið að fá nýja færslu efst á síðuna!
Hey, vissuð þið að Dirk Kuyt skoraði 71 mark á 6 árum með Liverpool? Hér eru öll mörk Dirk Kuyt fyrir Liverpool:
Kuyt er þessa dagana að ljúka ferlinum heima hjá Feyenoord í Hollandi. Hann var að hjálpa þeim að vinna hollenska bikarinn og var síðan valinn leikmaður ársins í Hollandi í kjölfarið, en hann skoraði 19 mörk í 32 leikjum með liðinu í vetur. Kuyt er að verða 36 ára í júlí.
Oft hugsa ég hlýlega til þess þegar við höfðum Dirk Kuyt í liðinu okkar. Þá var liðið okkar svo gott að menn gátu leyft sér að tuða endalaust yfir því að hafa leikmann eins og Dirk Kuyt í liðinu, af því að mönnum fannst eins og allir ættu að vera Fernando Torres eða Steven Gerrard.
Ég gæfi ansi mikið fyrir að hafa svona 27 ára Dirk Kuyt í Liverpool í dag. Ja eða 35 ára Dirk Kuyt.
Allavega, nóg um Dirk Kuyt. Það er komin ný færsla efst á síðuna. Takk fyrir það, Dirk Kuyt.
Svo fór um sjóferð þá. Okkar menn mættu til Basel í kvöld og máttu þola 3-1 ósigur gegn Evrópudeildarsérfræðingunum frá Sevilla.
Jürgen Klopp stillti upp þessu liði í kvöld:
Mignolet
Clyne – Lovren – Touré – Moreno
Lallana – Milner – Can – Coutinho
Firmino – Sturridge
Bekkur: Ward, Skrtel, Henderson, Lucas, Allen (inn f. Lallana), Origi (inn f. Firmino), Benteke (inn f. Touré).
Gangur leiksins
Ég ætla að hafa þennan hluta eins stuttan og ég get af því að ég nenni honum ekki í kvöld. Sevilla byrjuðu miklu betur og maður var feginn að þeir voru ekki komnir yfir eftir kortér þegar leikurinn jafnaðist aðeins út. Daniel Sturridge skoraði geggjað mark á 35. mínútu með utanfótarsnuddu og Liverpool endaði hálfleikinn talsvert ofan á og virtust nálægt því að ná öðru marki en það tókst ekki og staðan í hálfleik var 1-0.
Helst var það umdeilt í fyrri hálfleik að okkar menn töldu sig í þrígang eiga að fá vítaspyrnu fyrir hendi andstæðings. Dómari leiksins, Jonas hinn sænski, dæmdi ekki á neitt þeirra sem var vægast sagt slappt því þetta voru allt réttilega vítaspyrnur, sérstaklega atriði 1 og 3. Það breytir því þó ekki að Liverpool var yfir í hálfleik.
Því miður lauk þar með þátttöku okkar manna. Sevilla voru búnir að jafna eftir 20 sekúndur (grínlaust) í þeim seinni. Tóku miðjuna, boltinn út á vinstri, skipt yfir á hægri þar sem Alberto Moreno var til varnar, lét klobba sig og Kevin Gameiro skoraði eftir auðvelda fyrirgjöf. 1-1 og okkar menn gjörsamlega rotaðir.
Meistararnir komust svo yfir á 64. mínútu þegar þeir léku auðveldlega upp völlinn, miðjan okkar galopin og Gameiro lagði boltann á fyrirliðann Coke sem skoraði með fallegu langskoti, óverjandi fyrir Mignolet. Coke innsiglaði sigurinn svo á 70. mínútu þegar tveir Liverpool-menn (Can og Milner sýndist mér) gaufuðu með boltann á miðjunni og gáfu hann óvart inn fyrir á Coke sem var rangstæður en eins og allir vita gildir það ekki þegar andstæðingur gefur. Hann skoraði, leikurinn var búinn. Lokatölur 3-1 og Spánverjarnir fögnuðu því frábæra afreki að vinna þessa keppni þrjú ár í röð.
Emery vs Klopp
Byrjum á fílnum í herberginu. Unai Emery vann stórsigur í taktískri baráttu við Jürgen Klopp hér í kvöld. Hans lið var greinilega vel undirbúið í byrjun leiks og svaraði hápressu Liverpool vel, virtist halda bolta betur og vera minna stressað. Þegar leið á hálfleikinn náðu okkar menn meira inn í leikinn og sérstaklega voru Lallana og Firmino iðnir að vinna með boltann fram og aftur í sókninni, á meðan sóknarlína Sevilla ógnaði ekkert.
Emery svaraði því mjög skýrt í hálfleik því strax eftir hlé var brotið á sérstaklega Lallana í nánast hvert skipti sem hann fékk boltann, auk þess sem Gameiro fór að taka hlaup inn fyrir varnarlínu okkar í hvert sinn sem Sevilla kom upp með boltann og allt í einu var vörn okkar galopin og í miklum vandræðum með að missa hann ekki oft inn fyrir.
Og það verður að segjast eins og er að Jürgen Klopp hafði engin svör. Hann beið of lengi með skiptingarnar og breytti engu fyrr en liðið var lent undir á 64. mínútu og þá fannst mér hann velja rangar skiptingar þegar hann tók fyrst Firmino og svo Lallana, sem höfðu verið langt um skárri heldur en Coutinho og Milner í kvöld. Miðja Sevilla stjórnaði vellinum alveg eftir hlé en hann setti Henderson og Lucas ekki inná til að hjálpa vonlausum Can og horfnum Milner/Coutinho og beið of lengi með að setja Allen loksins inná.
Þetta var bara ekki góð frammistaða hjá Klopp í kvöld, því miður. Stjórinn okkar er frábær og ég hef fulla trú á honum en ég sá erfiða tölfræði í kvöld á Twitter; þetta er fimmti úrslitaleikurinn í röð sem Klopp tapar með Liverpool eða Dortmund.
Klopp verður að gera betur næst.
Þetta lið
Við höfum haldið í vonina í allan vetur, leyft stemningunni að byggjast upp fyrir þessari keppni sem oftast hefur verið afskrifuð eða nánast talin fyrir mikilvægari keppnum, af því að við vonuðumst eftir að okkar menn gætu afrekað hið nánast ómögulega. Að vinna Evrópubikar, panta sér sæti í Meistaradeild Evrópu næsta haust og komast á blóðbragðið sem öll lið sem vinna reglulega titla hafa ávallt á tungunni.
Þessi von varð að rústum einum í kvöld. Það er mikilvægt að hafa í huga að þessi eini leikur breytir ekki miklu um stóradóm leikmanna nú þegar við siglum inn í stórt sumar og fyrsta alvöru leikmannaglugga Klopp. Ef liðið hefði unnið í kvöld var það ekki sönnun þess að það væri fullkomið og þyrfti litlar breytingar, og fyrst þetta tapaðist þá verðum við að forðast að henda sjónvarpsskjánum í gólfið og heimta brunaútsölu á línuna.
Að því sögðu, þá var þetta algjör skita. Þetta er annar úrslitaleikur liðsins á fjórum mánuðum og í báðum þeim leikjum eru allt of margir leikmenn sem einfaldlega mæta ekki til leiks. Bæði á Wembley og hér í kvöld er okkar mest skapandi leikmaður, Phil Coutinho, gjörsamlega ekki með. Í báðum leikjum gefur Albi Moreno mark með vægast sagt skammarlegri varnarvinnu. Í bæði skiptin er miðjan ekki með eins og hún leggur sig og varafyrirliðinn meðal efstu manna á Missing Persons-lista Scotland Yard.
Við vonuðum að þetta kvöld yrði byrjunin á einhverju sem myndi stigmagnast upp í frábæra deild og Meistaradeild næsta vetur. Þess í stað var þetta mjög líklega síðasta hrösun liðs sem hefur marga góða eiginleika, er um margt efnilegt en einfaldlega of gallað til að geta verið krafið um velgengni í núverandi mynd.
Einn stærsti gallinn í þessu liði er hugarfarið. Í kvöld þurftum við leikmenn sem gætu staðið upp og skrifað nafn sitt í þykkar og glæsilegar sögubækur félagsins. Ég myndi segja að Daniel Sturridge og Kolo Touré hafi svarað því kalli. Aðrir fá á bilinu 5,5 og niður í algjöra falleinkunn. Jafnvel maður eins og Lallana sem var mjög góður í fyrri hálfleik á að skammast sín fyrir þann seinni. Um lakari kollega hans ætla ég að segja sem minnst.
Það er sennilega það sem er erfiðast að kyngja. Í kvöld var engin barátta, ekki einu sinni pirringur yfir því að það gengi illa. Dómarinn snuðaði menn að þeirra eigin mati um þrjár vítaspyrnur í fyrri hálfleik en samt var enginn að hópast að honum og þrýsta á hann í seinni hálfleik. Menn voru ekki einu sinni að fremja pirringsbrot eftir að ljóst var í hvað stefndi og menn stóðu frammi fyrir eigin máttleysi.
Það var bara ekki neitt. Sturridge kom okkur yfir með frábæru langskoti og svo bara gáfust menn upp við fyrsta mótlæti. Og á hliðarlínunni stóð stjórinn og hafði sýnilega ekki næga trú á bekknum sínum til að bregðast við því.
Framtíðin
Það er komið sumarfrí! Ég veit ekki með ykkur en ég þarf frí frá þessu Liverpool-liði. Án djóks. Liðið jafnaði eigið met í leikjafjölda í vetur og það skilaði nákvæmlega engu. Meira að segja glæst ævintýri gegn United, Dortmund og Villareal eru að engu orðin af því að liðið drullaði á sig í úrslitaleiknum.
Þannig að ég ætla að ljúka þessu svona: takk fyrir veturinn Brendan Rodgers, takk fyrir veturinn strákar. Þið reynduð en þið voruð bara ekki nógu góðir. Takk fyrir viðreisnina Jürgen, leitt að hún gekk ekki upp að lokum.
Sjáumst aftur í lok júlí, og þangað til vona ég að Jürgen Klopp og félagaskiptanefndin fræga skili þeirri vinnu sem þörf er á. Þeirra tími er kominn.
16:26 (Kristján Atli): Nú eru tæpar 90 mínútur í byrjunarliðin, rúmlega tveir tímar í leikinn sjálfan. Það er svo sem ekki mikið að frétta en maður er að heyra óljóst slúður að utan um að Divock Origi gæti jafnvel byrjað leikinn í kvöld á kostnað Daniel Sturridge. Það yrði óvænt, jafnvel þótt Origi sé heill og hafi staðið sig vel í vor trúi ég varla öðru en að okkar besti leikmaður verði í liðinu í kvöld.
Sjáum til. Spennan magnast allavega, maður drekkur í sig svipmyndir frá Basel og telur niður.
14:39 (Óli Haukur):
Engar áhyggjur! Þið getið hætt að leita! Steven Caulker, hann er víst enn leikmaður Liverpool, er fundinn – hann er greinilega heill á húfi einhvers staðar en það sást síðast til hans þegar hann kom inn á sem framherji einhvern tíman í upphafi árs.
Hann er annars í góðum gír og sendi fallega kveðju til liðsfélaga sinna og óskaði þeim góðs gengis og þakkaði fyrir sig.
14:20 (EMK)
Þetta batnar bara, hérna eru stórvinir okkar, Mark, Barnsey og Andy að leiða sönginn, video tekið af opinberu facebook síðu Liverpool.
14:00 (EMK)
Sverrir Jón er að taka Istanbul böggið á nýtt level og er endanlega að ganga frá mér hérna. Þvílíkur snillingur.
13:37:(Óli Haukur):
Ég get svo svarið það annað hvort er klukkan stopp eða tíminn færist aftur á bak. Frídagur í vinnunni og maður reynir að drepa tímann með því að gera eitthvað en hamingjan hjálpi mér tíminn líður ekki! Ætli maður sé eitthvað smá spenntur?
Ef einhverjum vantar að drepa tímann í góðar 40 mínútur eða svo þá mæli ég með að allir horfi á þetta viðtal við Jurgen okkar Klopp. Þau eru mörg afar góð en þetta er líklega eitt besta viðtalið sem ég hef séð við hann, endilega tékkið á því. Ég ætla að horfa á þetta í þriðja skiptið á eftir!
Ó lord, hvað ég vil sjá þennan mann halda á bikarnum í kvöld!
Notum #kopis á twitter í tengslum við leikinn. Þannig fáum við umræðuna á twitter hingað inn líka. Þennan glugga höfum við svo sem næst efstu færslu í dag.
12:14:(SSteinn)
Er einhver þarna úti sem er með gott húsráð við algjörum og fullkomnum skorti á einbeitingu á eitthvað annað en leik kvöldsins? Væri alveg til í góðar ábendingar hvað það varðar. Það hlýtur einhver að luma á þessu, koma svo, því frumlegra, því betra. Mun velja bestu hugmyndina þegar líður á daginn og viðkomandi fær þvílík verðlaun, eða sér færslu inn í þessa súpu með þessu góða húsráði.
10:08:(EMK)
Notum #kopis á twitter í tengslum við leikinn. Þannig fáum við umræðuna á twitter hingað inn líka. Þennan glugga höfum við svo sem næst efstu færslu í dag.
9:38 (Kristján Atli): Það hafa margir verið að spyrja, bæði í ummælum á Kop.is, Twitter og víðar (og tveir hafa spurt mig í persónu í morgun) þannig að ég vil taka það sérstaklega fram hér að leikurinn í kvöld verður í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport. Þannig að það ættu allir að geta séð þetta.
Þá bendi ég á að ef það eru einhverjir íslenskir stuðningsmenn í Kaupmannahöfn þá var Einar Örn með umræður á Kop.is á mánudag um hvar væri best að horfa á leikinn þar í borg. Þar benti einhver á risaskjá á Østerbro Stadium sem mér skilst að Einar Örn ætli að reyna að kíkja á. Þannig að ef þið eruð í Kóngsins Köben, tékkið á því. Einhverjar fleiri borgir utan Íslands sem Kop.is-lesendur horfa á leikinn frá?
7:45 (Kristján Atli): Þá er hann runninn upp, miðvikudagurinn 18. maí árið 2016. Dagurinn í dag er merkilegur af því að Liverpool er að leika til úrslita í Evrópudeildinni í kvöld kl. 18:45 að íslenskum tíma.
Leikurinn fer fram í Basel í Sviss. Þar er hópur Íslendinga og heimildir mínar herma að bjór hafi nú þegar verið innbyrtur á staðnum, já og eflaust einhverjar pylsur líka.
Svona var stemningin í Basel í gærkvöldi. Það kemur engum á óvart að bærinn var málaður rauður:
Annars er það hefð hér á Kop.is að halda eins konar dagbók yfir daginn í aðdraganda leiksins stóra og þar sem þetta er þriðji Evrópu-úrslitaleikur Liverpool síðan Kop.is fór af stað förum við ekki að breyta út af reglunni núna.
Við munum uppfæra þessa færslu af og til í dag ef það er eitthvað að frétta og ljúka henni svo með því að setja inn byrjunarliðin klukkustund fyrir leik. Eftir það tekur leikskýrslan svo við vaktinni. Endilega takið þátt með því að tjá ykkur í ummælum við færsluna eða takið þátt í spjallinu á Twitter í dag.
Fyrir þá sem vilja svo fá alla innlifun frá Basel í dag mæli ég með opinberu samfélagsmiðlum LFC, sérstaklega Instagram og Snapchat sem verða uppfærðir reglulega í dag:
* @LFC á Twitter
* LiverpoolFC á Instagram
* lfc á Snapchat
Læt þetta nægja í bili. Hálfur sólarhringur í stórleikinn. Best að reyna að dreifa huganum aðeins.
Hvað segiði, eruði með einhver plön fyrir miðvikudagskvöldið? Kósýkvöld yfir Grey’s Anatomy og snemma að sofa, kannski?
Ekki? Er ég að gleyma einhverju? Það getur þó allavega ekki verið verra en hjá þeim sem gleymdi að taka með sér gervisprengjuna eftir neyðaræfinguna á Old Trafford um daginn.
Cut the crap! Á miðvikudaginn er loksins komið að því að Liverpool mætir Sevilla í úrslitaleik Evrópudeildarinnar þar sem Evróputitill, Meistaradeildarsæti, sigur, peningar og stolt er í húfi. Það er allt undir í þessum leik fyrir Liverpool. ALLT!
Meistaradeildarsæti gæfi Liverpool meiri pening í kassann og myndi gera félagið að enn meira heillandi liði fyrir leikmenn. Liðið stæði betur í að verjast áhuga annara liða á leikmönnum sínum (Barcelona ekki einu sinni láta ykkur dreyma um að taka Coutinho frá okkur). Félagið fengi frábært tækifæri til að skrifa nýjan kafla í Evrópusögu sína sem er nú þegar frábær og líklega einna mikilvægasti parturinn – frekar óreynt lið Liverpool fengi þarna risa stórt innlegg í reynslubanka sinn. Þeir hafa upplifað svekkjandi tap eftir tap í vítaspyrnukeppni gegn City í Deildarbikarnum í vetur og eiga eftir að upplifa tilfinninguna við það að sigra.
Engin Evrópukeppni á næstu leiktíð eða sæti í Meistaradeildinni verður raunin þegar leikurinn verður flautaður af á miðvikudagskvöld. Allt eða ekkert. Duga eða drepast. Örlög liðsins eru í þeirra eigin höndum, ekkert kjaftæði. Ekkert verið að vonast til að þetta lið vinni þetta lið og við vonandi náum þá árangri eða eitthvað þannig. Nei, þetta er einfalt Liverpool þarf að vinna og þarf að gera það á sínum forsendum og allt í húfi.
Það er geðveikt! Maður var spenntur fyrir úrslitunum í Deildarbikarnum og maður var spenntur fyrir viðureignunum gegn Manchester United, Dortmund og Villarreal en þessi leikur er að toppa þetta allt saman. Þetta er bara svo drullu spennandi – afsakið orðbragðið – og að Liverpool sé komið í úrslitaleik Evrópudeildarinnar er frábært. Að komast í úrslitaleikinn gefur liðinu samt ekki neitt, það er flottur áfangi að komast á þetta stg en það er alveg til einskis ef maður hefur ekkert til að taka með heim eftir leik. Tapararnir gleymast en sigurvegararnir ekki. Er Liverpool liðið taparar eða sigurvegarar?
Þar liggur kannski stærsta vandamálið og mesti óttinn sem maður hefur fyrir þennan leik. Á pappír og á sínum degi er Liverpool sterkara liðið af þessum tveimur. Þið gætuð reynt að afsanna þá kenningu mína en ég mun ekki breyta um skoðun. Gæðalega séð, leikmannalega séð og allt það ætti þetta að vera Liverpool sigur í 7/10 skiptum. Það sem er að vinna með Sevilla fyrir þennan leik er sú sigurhefð sem þeir hafa skapað sér, þeirra leikmenn kunna að vinna og hafa unnið áður. Ég meina, come on, þetta er fucking þriðji úrslitaleikur þeirra á jafn mörgum árum. Þetta er fimmti úrslitaleikur þeirra á síðustu tíu árum og þeir hafa unnið alla fjóra sem þeir hafa spilað hingað til. Þeir eru reyndir sigurvegarar og þegar uppi er staðið þá getur það oft vegið þyngra en fótboltaleg gæði liðana.
Maður horfir í gegnum hópinn hjá Liverpool og maður sér að það eru ekki margir reyndir sigurvegarar þarna. Sturridge vann einhverja bikara með Chelsea en í nokkurn veginn varahlutverki. Kolo Toure hefur unnið titla og deildarkeppnir með Arsenal og Man City, Milner hefur unnið deildina og titla með City. Það er ekki mikil önnur sigur reynsla þarna. Moreno vann þessa keppni með Sevilla fyrir tveimur árum og Henderson var í liði Liverpool sem vann Deildarbikarinn undir stjórn Kenny Dalglish og þeir Skrtel og Lucas hafa nokkra titla á ferilskrá sinni – en Lucas til dæmis hefur held ég aldrei unnið í úrslitaleik með Liverpool að ég held og gott ef leikurinn í vetur var ekki bara fyrsti úrslitaleikurinn sem hann gat spilað með Liverpool á þessum níu árum.
Þannig er það, reynsluleysi Liverpool í þessum málum gæti verið úrslita factor í leiknum eða þá að þetta hungur í titil verði auka drifkraftur fyrir liðið sem vill komast á bragðið. Einhver staðar þurfa menn víst að byrja og hvað væri betra en að byrja þetta á sigri í Evrópukeppni?
Ef við rennum fljótt yfir Sevilla liðið þá ættu þeir að vera nokkuð klárir í þennan leik. Það er svolítið síðan þeir tryggðu sér þátttökurétt í Evrópudeildinni á næsta ári í gegnum spænsku deildina en þeir vilja að sjálfsögðu bæta við öðrum Evrópudeildartitli í safnið sitt og komast í Meistaradeildina á næstu leiktíð. Þeir eru líka að sama skapi í úrslitum spænska bikarsins og spila hann að ég held um næstu helgi.
Konoplyanka, kantmaður sem Liverpool menn ættu að kannast eitthvað við, meiddist á æfingu um daginn og var talinn tæpur fyrir leikinn. Hann hinsvegar spilaði í síðasta deildarleik þeirra og skiljanlega þá hvíldu þeir marga af lykilmönnum sínum í þeim leik. Klárlega með næstu tvo leiki sína í huga.
Vinstri bakvörður þeirra Benoit Tremoulinas, kantmaðurinn Jose Antonio Reyes og miðjumaðurinn Michael Krohn-Dehli eru meiddir og verða líklega ekki með á morgun.
Soria
Coke – Rami – Carrico – Escudero
Banega – N’Zonzi – Krychowiak
Vitolo – Gameiro – Mariano
Eins og sjá má þá er þetta mjög sterkt lið sem Sevilla getur stillt upp og þeir eiga svo leikmenn eins og Vicente Iborra, Konoplyanka og Fernando Llorente á bekknum.
Rami er öflugur miðvörður og Coke er sterkur í hægri bakverðinum. Miðjan þeirra er mjög sterk og mikill styrkur í henni en þeir Steven N’Zonzi, fyrrum leikmaður Stoke City, og Krychowiak sitja fyrir aftan Ever Banega. N’Zonzi og Krychowiak sjá svolítið um skítverkin á meðan að Banega er meira í hlutverki leikstjórnanda.
Það verða líklega Vitolo og Mariano á köntunum hjá þeim. Vitolo er nokkuð öflugur en ég bara veit ekki alveg nógu mikið um þennan Mariano annað en að hann er að upplagi hægri bakvörður en er að byrja flesta leiki þeirra þessa dagana á hægri kantinum og Konoplyanka er að koma mikið af bekknum seinna í leikjum.
Helsta ógn þeirra er klárlega framherjinn Kevin Gameiro sem hefur verið svakalega drjúgur í markaskorun fyrir þá og er kominn með einhver 28 mörk í 50 leikjum í öllum keppnum, þar á meðal sjö mörk í átta Evrópudeildarleikjum.
Stjóri þeirra, Unai Emery, er reyndur stjóri og er mikill bikarkeppna og Evrópudeildar sjéní. Honum tekst að gera Sevilla liðið afar þétt og vel skipulagt og reynsla hans og liðsins gerir þetta að afar erfiðu verkefni fyrir Liverpool. Sevilla hefur ekki unnið neinn útileik á leiktíðinni og vonandi heldur það áfram á morgun!
Fréttirnar af leikmannahópi Liverpool eru virkilega góðar fyrir þennan leik. Lykilmenn liðsins fengu góða hvíld frá því þeir spiluðu síðast og engin ný meiðsli hafa litið dagsins ljós (knock on wood). Jordan Henderson kom inn á í síðasta deildarleik og var mjög líflegur í 30 mínútur eða svo og Divock Origi hefur fengið grænt ljós og verður líklega á bekknum með Henderson. Danny Ings snéri aftur á völlinn eftir mjög löng meiðsl en því miður gagnast hann ekki liðinu á morgun þar sem hann er ekki í Evrópudeildarhópi liðsins lengur. Það ætti því aðeins að vera einn lykilmaður, Mamadou Sakho, sem verður ekki með í þessum leik. Danny Ward ætti líka að vera klár í slaginn og verður líklega á bekknum.
Klopp fór ekkert leynt með það um daginn og greindi frá því að þeir sem munu líklega byrja leikinn á morgun fengu frí gegn WBA þó kannski einhverjar stöður gætu verið í boði fyrir einhverja en reikna má fastlega við sama byrjunarliði og við sáum gegn Villarreal og Chelsea.
Mignolet
Clyne – Lovren – Touré – Moreno
Lallana – Milner – Can – Coutinho
Firmino – Sturridge
Þetta er mjög sterkt lið og ekkert hægt að kvarta undan því. Christian Benteke, Divock Origi, Joe Allen og Jordan Henderson verða líklega allir á bekknum svo breiddin og gæðin þar ætti að vera mjög góð. Þar verða líklega Martin Skrtel, Danny Ward og Brad Smith myndi ég giska á.
Það er mikill sóknarþungi í þessu liði og leikmenn þarna sem gætu tekið upp á því að klára leikinn upp á sitt einsdæmi ef þeir detta í gírinn. Emre Can hefur verið frábær undanfarið og mun hann þurfa að hafa fyrir hlutunum á miðjunni þar sem leikmenn Sevilla eru ekki hræddir við að fara í kontakt og eru mjög duglegir, James Milner þarf því að vera á tánnum líka á miðsvæðinu. Sóknin hjá Liverpool er virkilega flott, hún er hreyfanleg, ógnandi, dugleg og mjög fjölhæf svo við getum bókað það að varnarmenn Sevilla eiga örugglega eftir að eiga erfitt með svefn þegar þeir hugsa um að þurfa að mæta þeim. Lovren og Toure þurfa að halda sterkum framherja í skefjum en þeir hafa gert vel í þessari stöðu undanfarið og morgundagurinn verður vonandi engin breyting á.
Deildin var gífurleg vonbrigði – þó það hafi margt jákvætt litið dagsins ljós þar – og getur sigur á morgun breytt ásýnd okkar á tímabilinu til hins betra. Liðið hafnaði í 8.sæti í deildinni og náði ekki einu sinni að tryggja sér sæti í Evrópudeildinni á næstu leiktíð og endaði nokkuð langt frá þeim stað sem maður vildi sjá liðið. Tveir úrslitaleikir og meðalmennska í deildinni er ekki fallegur árangur ef maður fær ekkert út úr því. Ef liðið fer í tvo úrslitaleiki en tekur ekki bikar þá verður það að teljast gífurleg vonbrigði. Margt jákvætt sem maður getur tekið frá þessari leiktíð en árangurinn væri afar neikvæður. Sigur í Evrópudeildinni, þátttökuréttur í Meistaradeildinni gæti hins vegar gjörbreytt öllur. ÖLLU!
Leikmennirnir geta skrifað nafn sitt í sögu Liverpool og fyrir marga þeirra þá gæti þetta hreinlega “bjargað” ímynd þeirra hjá stuðningsmönnum félagsins. Skúrkar geta orðið hetjur og þeir geta heyrt nafn sitt sungið og kallað hærra og ástríðufyllra en nokkurn tíman áður. Þeir fá frábært tækifæri til að gera svo margt og þessi leikur mun segja okkur svo, svo mikið um leikmannahópinn okkar.
Elsku Jurgen Klopp, gerðu það komdu bikarnum á Anfield. Stýrðu liðinu í Meistaradeildina. Skráðu þig í sögubækurnar sem Liverpool goðsögn – gerðu það sem Houllier, Rafa Benitez, Bill Shankly, Bob Paisley, Joe Fagan og komdu með Evróputitil á Anfield.
Holy shit hvað ég er orðinn spenntur fyrir þessu!!
Eftir tvo daga leikur liðið okkar síðasta leikinn á leiktímabilinu 2015 – 2016 og sá er af stærri gerðinni þegar við mætum Evrópudeildarsérfræðingum Sevilla í úrslitaleik þeirrar keppni í svissnesku borginni Basel.
Þessi úrslitaleikur verður tólfti kafli úrslitasögu Liverpool FC í Evrópukeppni sem vert er að rifja upp og sá fjórði í röðinni þegar kemur að því að keppa um bikarinn sem er í sigurlaun þó að sú keppni hafi breytt um nafn og skipulag nokkrum sinnum í takt við áherslur um Evrópukeppnir.
Fairs cup
Evrópukeppnir hófu göngu sína árið 1955 þegar Evrópukeppni meistaraliða álfunnar lagði af stað, en á sama tíma var ákveðið að verðlauna þær borgir sem að héldu stórar viðskiptaráðstefnur í álfunni með keppni sem kölluð var Intercity Fairs Cup (eða bara Fairs cup) og í þeirri keppni léku semsagt fulltrúar þeirra borga, án tengingar við endilega árangur á heimavelli. Fyrsta keppnin stóð í þrjú ár og lauk með því að lið borgarinnar Barcelona vann lið London í úrslitaleik sem leikinn var heima og heiman. Þá var tveggja tímabila keppni sem lauk með því að Barcelona (nú algerlega lið knattspyrnufélags borgarinnar) vann Birmingham City og vinsældir þessarar keppni auk mikilli vinsælda Evrópukeppni meistaraliða varð til þess að vorið 1960 stofnaði UEFA nýja evrópukeppni, nú með þeim liðum sem að unnu bikarmeistaratitla í sínu heimalandi, “European cup winners cup” auk þess sem breytt var um brag og nú var fleiri liðum boðið úr hverri borg í Evrópu, t.d. léku bæði Edinborgarliðin Hibs og Hearts í keppninni 1961.
Áfram hélt keppnin í þessu formati en smátt og smátt var ákveðið var að keppnin myndi nú ekki lengur verða svolítið handahófskennt skipulögð – heldur yrði sett upp skipulag sem tengdist lokaniðurstöðu deildakeppna og þau lið sem næst stóðu því að verða meistarar fengju nú valrétt og endanlega var slitið í sundur einhver tenging við viðskipti í Evrópu og vináttuleikjahugmyndina. Það var svo haustið 1968 að endanlega var sett upp regluverk sem tengdist alfarið niðurstöðu deildakeppna og engin lið gátu lengur “sótt um” þátttöku í henni.
Það var þó ekki fyrr en gæðaárið 1971 (tengist alls ekki því að ég fæddist þá) að UEFA tók endanlega yfir stjórn keppninnar og ákvað að byggja á vinsældum keppninar og stofna formlega þriðju evrópukeppnina. Ein keppni yrði fyrir meistaraliðin (European Cup), ein fyrir bikarhafana (Cup winners cup) og þau lið sem voru ofarlega í deildarkeppnum álfunnar fengu nú þriðju keppnina sem var endurskírð og kölluð UEFA cup og Fairs cup því lögð niður.
Roger HuntOkkar menn í Liverpool stigu á svið Fairs cup nóvemberkvöldi í portúgölsku borginni Setubal (sem er þá sennilega einhvers konar kviðmágur Reykjavíkur) árið 1969 og ólíkt fyrstu viðureign félagsins í evrópukeppnum sem fram fór á Laugardalsvelli tapaðist leikurinn 0-1 og seinni leikurinn á Anfield varð mikill hasar, Portúgalirnir komust í 2-0 en þrjú mörk á lokakaflanum dugðu ekki til að við kæmumst áfram, mark Roger Hunt á síðustu mínútunni taldi ekki sem sigurmark í viðureigninni en leikurinn þótti mjög eftirminnilegur og kannski einhvers konar æfing í comebacksögunum okkar sem við eigum nokkrar síðan. Á síðasta keppnisári Fairs cup náði liðið svo í undanúrslit eftir að hafa lagt m.a. sterkt lið Hibernian frá Skotlandi og Bayern Munchen að velli en á undanúrslitahindruninni féllum við fyrir Leeds United sem náðu að sigra 0-1 á Anfield og síðan halda 0-0 á Elland Road á leið þeirra til að sigra keppnina eftir sigur á Juventus í tveggja leikja úrslitaviðureign.
Fairs cup ævintýrinu lauk því án þess að okkur tækist að sigra þá keppni, arftaki hennar UEFA cup hófst í ágúst 1971 og rauðliðarnir frá Anfield höfðu blóð á Evróputönnum sínum eftir fall úr undanúrslitum European cup frá 1965 og tap í Cup winners cup úrslitum 1966 í ofanálag við þetta Leedstap. Stjóri liðsins, Bill Shankly nokkur hafði margoft lýst áhuga sínum á að sigra Evrópu og það var í UEFA cup sem honum loksins tókst að landa slíkum titli.
UEFA cup og fyrsti Evrópusigurinn
Liverpool lék ekki í keppninni árið 1971 – 1972 þar sem að við lékum þá í Cup winners cup eftir að hafa tapað úrslitaleiknum í FA cup árið 1971 fyrir tvennumeisturum Arsenal en haustið 1972 hófst fyrsta sigurganga Liverpool FC í Evrópukeppni og markaði þar með spor í sögu félagsins okkar sem hefur skilað tughundruðum þúsunda aðdáenda um álfuna (sennilega milljóna)
Liðið hóf keppni í 2.umferð og fór létt í gegnum AEK Aþenu 6-1 samanlagt. Dynamo Berlin var slegið út 3-1 samanlagt á leiðinni í 8 liða úrslit gegn öðru liði frá Austur Þýskaland sem var líka frekar einfalt að slá út, 3-0 samanlagt gegn Dynamo Dresden. Í undanúrslitunum biðu okkar meistarar keppninar frá tímabilinu á undan, feykisterkt lið Tottenham Hotspurs.
Fyrri leikinn á Anfield lögðu Spursarar upp með að verjast og okkar menn settu bara eitt mark þegar varnarmaðurinn Alec Lindsay skoraði með skalla eftir horn og niðurstaðan því 1-0. Seinni leikurinn var gríðarlega spennandi, Tottenham skoruðu í upphafi seinni hálfleiks en Steve Heighway jafnaði leikinn stuttu síðar og þurftu þá Spursarar að skora tvö mörk. Það tókst þeim ekki, náðu þó öðru marki og unnu 2-1 en við vorum komnir í úrslit á útivallarmarki. Í úrslitaleiknum beið okkar lið sem við áttum eftir að hitta síðar í öðrum evrópuúrslitum, þýska liðið Borussia Mönchengladbach.
Tommy Smith með bikarinn 1973Úrslitaviðureign UEFA cup var alltaf háð í tveimur viðureignum, heima og heiman. Fyrri leikurinn í úrslitaviðureigninni vorið 1973 var á Anfield sem var auðvitað pakkfullur og stemmingin gríðarleg. Liverpool rauk af stað í byrjun og þrýsti Þjóðverjunum í vörn þar sem þeir stóðu mest af leiknum. Þegar upp var staðið hafði unnist 3-0 sigur þar sem Kevin Keegan setti tvö mörk og varnartröllið Larry Lloyd skoraði það þriðja. Bæði lið brenndu af vítaspyrnum í leiknum – eða réttara sagt þá sýndu markmennirnir þvílíka takta í að verja spyrnurn, Keegan lét verja frá sér og kötturinn Clemence kvittaði það út. Eftirleikurinn átti því að vera nokkuð auðveldur að allra mati því töluvert átak þyrfti til að yfirvinna slíkan mun.
Þetta þýska lið var hins vegar gríðarlega sterkt og átti eftir að upplifa töluverða sigurgöngu á heimavelli. Seinni leikurinn varð alger spegilmynd þess fyrri, Þjóðverjarnir skoruðu tvö mörk í fyrri hálfleiknum og sóttu svo stanslaust allan síðari hálfleik án þess þó að koma boltanum framhjá Ray Clemence í markinu. Þegar lokaflautan gall brutust út mikil fagnaðarlæti hjá rauðliðunum hans Shankly sem hafði loksins tekist að vinna Evrópukeppni, fyrsti Evróputitill félagsins í höfn.
Þetta ár unnum við deildarmeistaratitilinn líka og árið 1974 síðan FA bikarinn. Við lékum því ekki í keppninni aftur fyrr en haustið 1975.
Titill númer tvö
Haustið 1975 steig Liverpool FC aftur í hringiðu UEFA cup eftir að hafa dottið mjög óvænt út úr Cup winners cup árið áður fyrir Ferencvarosc. Vorið 1975 áttum við líka frekar erfiða deildarútkomu undir stjórn nýs framkvæmdastjóra að nafni Bob Paisley sem átti enn úrtölumenn á meðal aðdáenda. Það lagaðist!!!
Fyrstu mótherjar okkar í þessari keppni voru Hibernian frá Skotlandi og við lentum í bölvuðu brasi með þá en unnum 3-2 samanlagt. Í 32ja liða úrslitum hrökk liðið þó vel í gang og stútaði Real Sociedad 9-1 samanlagt, 16 liða úrslitin voru öruggur 5-1 sigur á pólska liðinu Slask Wroclaw og í 8 liða úrslitum var Dynamo Dresden slegið út 2-1 samanlagt eftir slíkan sigur á Anfield í seinni leiknum. Í undanúrslitum beið okkar viðureign við Barcelona.
Fyrri leikurinn var á Nou camp og Paisley lagði upp með að liggja til baka, sækja hratt og nýta líkamsstyrk og hæð leikmanna sinna. Planið gekk upp, John Toshack skoraði strax á 13.mínútu og þrátt fyrir að Spánverjarnir næðu upp töluverðri pressu hélt varnarleikurinn og því gott veganesti fyrir seinni leikinn á Anfield. Liðið hélt sig við skipulagið frá fyrri leiknum að mestu þar. Phil Thompson skoraði eftir horn á 51.mínútu en Spánverjarnir jöfnuðu metin í næstu sókn og því voru það tens 40 mínútur sem liðu þar til flautað var til leiksloka og staðfest að Liverpool FC væri komið á ný í úrslit UEFA cup og mótherjarnir þar? Club Brugge! Í raun alveg magnað að við lékum fyrst til úrslita gegn Mönchengladbach og svo Club Brugge í báðum þeim Evrópukeppnum sem við unnum. Býsna sérstakt.
Haldið upp á 1-1 jafntefli og sigur í UEFA cup 1976…botninn vantar á bikarinn samt!Eins og 1973 þá var fyrri úrslitaleikurinn 1976 á Anfield og menn voru sigurvissir. Eftir 12 mínútur ríkti dauðaþögn þar sem gestirnir voru komnir í 0-2 og voru bara einfaldlega miklu sterkari, héldu boltanum vel og virtust hafa áttað sig á leikkerfi Liverpool. Í hálfleik breytti Paisley til, tók senterinn Toshack útaf fyrir miðjumanninn Jimmy Case og leikurinn snerist á haus. Case, Keegan og Kennedy skoruðu þrjú mörk á sex mínútum frá 60 – 66 (þekkiði einhvern annan leik með svipaðri útkomu) og það sem eftir lifði leiks reyndu menn það sem þeir gátu til að auka muninn sem tókst þó ekki og því eins marks forysta veganestið eftir 3-2 sigur.
Belgarnir hófu leikinn á heimavelli nákvæmlega eins og þann fyrri, komust í 1-0 eftir vítaspyrnu á 11.mínútu en Keegan jafnaði leikinn fjórum mínútum síðar. Við það jöfnunarmark virtist mesti vindurinn úr Belgunum og okkar menn sigldu leiknum heim með þessari lokastöðu, 1-1 og 4-3 sigur samanlagt. Paisley vann sinn fyrsta Evróputitil af fjórum.
Þeir sem vilja skoða myndband af þessari viðureign geta smellt á þennan tengil hér. Endalaust stuð og stemming á þessum árum og einfaldara að sjá hvers vegna Keegan var dáður!
Þriðji sigur eftir langa bið
Eftir árið 1976 lékum við ekki aftur í UEFA cup um langa hríð. Sigrar í European cup og/eða ensku deildinni þýddu það við lékum óslitið í bestu evrópukeppninni frá hausti 1976 til Heyselslyssins 1985. Í kjölfar bannsins að því loknu lékum við ekki aftur í Evrópukeppni fyrr en 1991 og þá var það í UEFA cup keppninni þar sem Genoa sló okkur út í 8 liða úrslitum. 1995 slógu Bröndby okkur út úr keppninni í 64ra liða úrslitum og á sama stað slógu Strasbourg okkur út 1997, vorið eftir náðum við í 32ja liða úrslit keppninnar en féllum út fyrir Celta Vigo og því ekki mikil glæsislikja yfir okkar árangri í Evrópu. Haustið 2000 voru 16 ár frá því við unnum titil þar og slakt gengi liðinna ára gaf engar stórar vonir um árangur á vettvangi Evrópu. En þá….
Við hófum leik í UEFA cup haustið 2000 með því að slá Rapid Bukarest út 1-0 samanlagt og síðan Slovan Liberec út næst 4-2 samanlagt. Í 32ja liða úrslitum unnum við Olympiacos 4-2 samanlagt en það var þó ekki fyrr en í 16 liða úrslitum sem má segja að vonir hafi kviknað að mögulega væri ævintýri í nánd. Þá vorum við dregnir gegn sterku liði AS Roma og töldu flestir sparkfræðingar að enn á ný myndi gamli Evrópurisinn Liverpool FC kveðja vettvanginn. Fyrri leikur viðureignarinnar var í Rómaborg og varð eign Michael nokkurs Owen sem skoraði tvö fín mörk. Þéttur varnarleikur skipulagður af Gerard nokkrum Houllier og framfylgt undir stjórn hafsentaparsins Hyypia og Henchoz var aðalsmerkið sem átti eftir að skila góðum árangri. 2-0 sigurinn í Róm dugði til sigurs í viðureigninni. Þrátt fyrir 0-1 tap á Anfield vorum við komnir í 8 liða úrslit þar sem okkar beið annað firnasterkt lið. Porto hét það og átti eftir að ná góðum árangri á Evrópuvettvangnum upp úr því að við slógum þá út. Nú var formúlan að liggja til baka á útivelli masteruð, við náðum 0-0 jafntefli áður en Murphy og Owen skoruðu í fyrri hálfleik seinni leiksins á Anfield og undanúrslitaviðureign gegn Barcelona beið.
Barca var með mikið sóknarlið en Houllier hélt sama skipulagi í fyrri leiknum á Nou camp. Stundum hefur skipulag hans í þessum leik verið nefnt 10 – 0 – 0 meðal gárunganna og það verður nú seint sagt að við hefðum fengið lof fyrir leikinn þann. Who cares!? Framundan var síðari leikur á Anfield sem réðst með vítaspyrnu Gary McAllister sem á sess í laginu góða um hann þegar við öll syngjum “how we loved your Barca pen”. Seinni hálfleikinn lokuðum við svo búðinni og við vorum komin í fyrsta úrslitaleikinn í Evrópu síðan 1985. Sá var haldinn á Westfalienstadion í Dortmund 16.maí 2001.
What a game that was!!!
Mótherjar okkar þetta skiptið var lítið spænskt lið, Deportivo Alaves sem hafði náð miklum árangri heimafyrir um nokkurt skeið og stimplað sig ágætlega inn í Evrópukeppnir. Fjörið hófst strax á þriðju mínútu þegar Markus Babbel setti fyrsta mark leiksins og ekki löngu síðar setti Steven Gerrard okkar mark númer tvö. Spánverjarnir áttu erfitt uppdráttar en skoruðu úr fyrstu sókninni sinni á 26.mínútu en önnur vítaspyrna frá McAllister í þessari keppni kom okkur í 3-1 fyrir hálfleik og allt virtist á réttum kúrs.
Á fjórum mínútum í upphafi seinni hálfleiks höfðu Spánverjarnir jafnað eins og þruma úr heiðskíru en við höfðum áfram tök á leiknum. Robbie Fowler kom inná og skoraði fjórða markið okkar á 72.mínútu en rétt fyrir lok venjulegs leiktíma jafnaði Alaves enn á ný, nú Jordi nokkur Cruyff og framlenging framundan í ótrúlegum leik.
Í framlengingu á þessum tíma var regla um svokallað “Gullmark” sem þýddi það að leik lyki um leið og einhver skoraði. Þetta þýddi frekar varfærinn leik en á 116.mínútu réðust úrslit leiksins. Liverpool fékk aukaspyrnu úti við hliðarlínu og hver annar en Gary McAllister stillti boltanum upp og dúndraði föstum innsving í teiginn þar sem varnarmaðurinn Geli fleytti boltanum í eigið mark og við trylltumst út um allan heim. Lokaflautið gall því og fagnaðarlæti rauðliða í Dortmund þetta kvöld eru enn til umræðu, auk þess sem þarna glumdi “You’ll never walk alone” á þessum velli á þann hátt að síðan þá hefur heimaliðið haft það lag í prógramminu sínu.
Liverpool stimplaði sig því aftur inn í Evrópu og eins og árið 1973 var það ávísun á frekari landvinninga.
Liverpool hóf leik í CL haustið 2001 og lék ekki aftur í UEFA cup því árið 2009 var keppninni breytt í núverandi fyrirkomulag, Europa League. Það ár tókum við þátt í EL eftir að hafa dottið út úr CL í riðlakeppninni og fórum alla leið í undanúrslit þegar Atletico Madrid sló okkur út. Sennilega hefði sigur í EL vorið 2010 haldið Rafa okkar í starfi…hvað sem okkur finnst um það.
Við höfum farið í keppnina þrisvar síðan án þess að leggja á hana nokkra áherslu en í vetur breyttist það eiginlega með drættinum í 16 liða úrslitin þegar við vorum pöruð saman við Man. United. Eftir að hafa slegið þá út höfum við haft auga á þessum úrslitaleik sem við leikum eftir tvo daga og bíðum svo spennt eftir.
Það eru í dag 11 ár síðan við unnum síðast evróputitil. Vonandi skrifum við fjórða kaflann í sigurbók þessarar ágætu keppni því nú eru enn stærri verðlaun í boði en bara bikarinn, nú fáum við sæti í Cl með sigri. Sem skiptir jú töluverðu máli.
Baselborg máluð rauð og vonandi markar sigur í EL eins og áður frekar evrópska landvinninga!!!