Liverpool vann öruggan 3-0 sigur á Leeds sem hefði átt að vera miklu stærri en það. Liverpool spilaði leikinn frábærlega, stjórnaði öllum þáttum fótboltans, óð í færum og hefði átt að skora meira. Fótbrot Harvey Elliott eftir tæklingu leikmanns Leeds, sem fengu að komast upp með ansi mikið hjá dómara leiksins, setur hins vegar svartan blett á þennan annars frábæra sigur.
Alisson og Fabinho fengu að spila með Liverpool í dag eftir að FIFA og brasilíska knattspyrnusambandið ætlaði að meina brasilískum leikmönnum sem leika í ensku deildinni að spila því liðin meinuðu þeim að fara í landsliðsverkefni vegna Covid faraldurs í Brasilíu. Þeir byrjuðu leikinn, Thiago byrjaði sinn fyrsta leik og Elliott byrjaði sinn þriðja leik í röð.
Liðin byrjuðu leikinn af krafti og ljóst að það stefndi í hraðan og opinn leik um leið og hann hófst. Bæði lið náðu að fá hálf færi strax í upphafi leiks en fyrsta alvöru færið kom á 15.mínútu eða svo þegar frábær sending Salah endar hjá Jota sem tekur boltann á kassan en nær ekki nógu góðu skoti á markið. Skömmu síðar er leikstjórnandinn Matip að dandalast í kringum vítateig Leeds, hann þræðir boltanum inn á Trent sem keyrir inn af vængnum og leggur hann fyrir Mo Salah sem skorar flott mark. Verðskuldað fyrsta mark Liverpool í leiknum og Salah hafði verið alveg frábær í upphafi leiksins.
Það sem af lifði fyrri hálfleik þá var Liverpool stöðugt að ógna marki Leeds, komust í góð færi en tókst bara ekki að koma boltanum í netið og ná þessu mikilvæga öðru marki. Salah átti reyndar geggjaða fyrirgjöf á Thiago sem stangaði hann í netið en því miður var það dæmt af því Salah hafði verið rangstæður í aðdragandanum.
Liverpool hefði átt að vera meira yfir og Leeds í raun alveg getað verið manni færri þegar liðin héldu til hálfleiks en svo var ekki raunin. Það var alveg sama formúla í seinni hálfleik, Liverpool stýrði leiknum, Leeds komst ekki lönd né ströng, Liverpool skapaði færin og dómari leiksins leyfði Leeds að komast upp með það sem þeir vildu þegar kom að því að brjóta á leikmönnum Liverpool.
Loksins tókst Liverpool að skora aftur þegar Fabinho skoraði eftir að hornspyrna rataði á kollinn á Van Dijk sem barst svo til Fabinho sem tók boltann niður og skaut honum í netið. VAR gerði sitt besta til að ætla að taka það mark af þar sem að Mane stóð víst innan 10 metra frá markverðinum þegar Fabinho skaut en réttilega fékk það mark að standa.
Liverpool var að undirbúa skiptingu á 60.mínútu, líklega var Harvey Elliott að fara út af fyrir Jordan Henderson. Boltinn berst upp kantinn til Harvey Elliott sem er straujaður niður af leikmanni Leeds og sá maður ökklann hangandi niður í sokknum hans, Salah stóð við atvikið og viðbrögð hans voru á þá leið að þetta væri slæmt og var sjúkrateymi Liverpool mætt inn á völlinn löngu áður en leikurinn var stoppaður. Á viðbrögðum þeirra sem voru nálægt þessu þá var þetta slæmt og enn eitt brotið sem dómari leiks ætlaði að leyfa Leeds að komast upp með en hann dæmdi ekki einu sinni aukaspyrnu á þetta. Þeir í VAR herberginu náðu þó að grípa inn í og segja honum að veita leikmanni Leeds beint rautt spjald. Harvey Elliott var borin út af og skelfileg meiðsli fyrir þennan efnilega og frábæra leikmann sem var greinilega orðinn alvöru leikmaður í þessu Liverpool liði. Klopp segir að ökklinn hafi dottið úr lið en ekki brotnað sem er vonandi skárra af tvennu slæmu og vonum við að hann verði mættur aftur á völlinn fyrr en seinna.
Skiljanlega kom smá óróleiki í leik Liverpool sem voru í hálfgeru losti fyrstu mínúturnar eftir þetta. Leeds héldu áfram að tækla og náðu aðeins að ógna Liverpool sem svaraði þó í sömu mynt og fengu nokkur ansi góð færi, þá sérstaklega Sadio Mane en boltinn bara ætlaði ekki inn hjá honum!
Í sínu tíunda skoti í dag náði Mane hins vegar loksins að skora þegar hann tók við sendingu frá Thiago þegar hann snéri bakinu í markið, náði góðum snúning og þrumaði boltanum niður í fjærhornið. Verðskuldað mark hjá Mane sem þurfti gífurlega á því að halda. Hann hafði verið frábær í öllu nema því að klára færin sín í dag og með réttu hefði hann átt að skora fjögur í dag.
Þar við sat og Liverpool vann góðan 3-0 sigur og líta bara ansi vel út í upphafi leiktíðar en þó þannig að manni finnst þeir enn eiga töluvert inni sem boðar vonandi bara gott.
Van Dijk og Matip voru mjög öflugir í vörninni, bakverðirnir og þá sérstaklega Trent fannst mér. Framlínan var frábær, hápressan hjá þeim og færasköpunin var til fyrirmyndar. Þeir hefðu allir getað og mögulega átt að skora fleiri mörk. Mane var rosalega líflegur og komst í svo mörg færi en gekk illa að klára þau, Salah var frábær og skoraði mark en hefði í raun líka átt og getað fengið tvær geggjaðar stoðsendingar í dag. Elliott var líflegur en á tíma gekk honum pínu brösulega að klára metnaðarfullar sendingar sem komu liðinu í tvö eða þrjú skipti í pínu óþægilega stöðu.
Menn leiksins, ásamt Salah, eru klárlega Fabinho og Thiago sem voru frábærir á öllum sviðum í dag. Þeir vörðust fáranlega vel, stjórnuðu spilinu á miðjunni og tæknilega séð skoruðu þeir báðir góð mörk. Thiago lagði upp mark Mane og Fabinho skoraði annað markið. Þeir voru frábærir og eru svo ógeðslega góðir miðjumenn. Get ekki gert upp á milli þessara þriggja, þið getið valið sjálf einn þeirra ef þið viljið.
Næsti leikur er AC Milan í Meistaradeildinni í miðri viku og svo heimaleikur við Crystal Palace um næstu helgi.