Sparta Prag – Liverpool

Evrópudeildin – 16-liða úrslit

Þungarokksveislan heldur áfram, áfram, áfram…

og næst á dagskrá: Evrópudeildin, gegn Sparta Prag í Prag.

Sparta Prag

Fyrir 13 árum lék Liverpool síðast við Sparta Prag. Það var líka í eina skiptið sem þessi lið hafa mæst – þ.e. eina viðureignin, en tveir leikir. Þá ritaði Einar Matthías setningu sem á líklega nákvæmlega jafnvel við í dag og þá: “Þá er biðin á enda og loks komið að leiknum sem líklega enginn okkar var að bíða eftir, AC Sparta Prag í fyrri leik 32.liða úrslita Evrópudeildarinnar.” Skýrslan í heild er hér og það er mjög gaman að lesa hana, Evrópu-Einar er var þarna upp á sitt allra besta eins og hann hefur reyndar verið alla tíð síðan.

Munurinn núna og þá er að leikurinn er í 16-liða úrslitum, Liverpool er í myljandi toppbaráttu í deildinni núna en árið 2011 var nýlega búið að reka Roy nokkurn Hodgson og Kenny Dalglish var nýtekinn við. Það er algjör eðlismunur á mannskapnum og gaman að sjá byrjunarliðið og vangaveltur Einars í upphituninni þar sem hann veltir m.a. upp nöfnum eins og Wilson, Kyrgiakos og Meireles. Leikurinn endaði síðan 0-0 í Prag. Ég ætla því ekki að þessu sinni að fara í gegnum sögu félagsins því Einar gerði því virkilega góð skil, sem og tékknesku öli og lestarkerfi Pragborgar auk ýmissa annarra skemmtilegra staðreynda og ekki staðreynda. Hins vegar ætla ég að skoða liðið þeirra eins og kostur er. Thomas Repka er ekki lengur að spila með þeim enda orðinn fimmtugur og flottur eins og ég. Liðið þeirra verður væntanlega eitthvað á þessa leið:

Markvörðurinn verður Peter Lindahl. Hann er danskur og á ágætan feril að baki og eflaust einhverjir Íslendingar sem kannast við hann.

Ég er ekki alveg viss á hvernig þeir stilla upp fyrir framan Peter markmann, fimm manna lína gegn Liverpool er ekkert ólíkleg. En allavega þykir mér líklegt að Angelo Preciado verði hægra megin í einhverri mynd, bakvörður eða kant-bakvörður, Martin Vitik, hinn danski Sörensen, fyrirliðinn Krejci verða miðverðir og loks Tomas Wiesner líklega vinstra megin í vörninni. Einhvern veginn býst ég við því að þeir raði sér upp, það er ekkert víst að það verði í þessari röð.

Á miðjunni verða einhverjir af eftirtöldum: Kaan Kairinen, Quazim Laci, Markus Solbakken, Veljko Birmanevic, Lucas Haraslín og Matej Rynes. Líklega verða Finninn Kairinen, Daninn Solbakken, Serbinn Birmanevic og Tékkinn Haraslín á miðjunni og loks tékkneski framherjinn Jan Kuchta uppi á topp að gera ekki neitt. Þannig að ég giska á einhvers lags útfærslu á 5-4-1/3-4-3 hjá þeim. Þeir byrja eflaust af krafti fyrstu mínúturnar og leggjast svo niður í þéttan varnarpakka.

En þetta er nú bara eitthvað hraðsoðið hjá mér út frá því sem ég gat lesið mér til um liðið. Hvort einhverjir aðrir verði í liðinu eða hvort ég hafi giskað á 10, 11 eða 12 leikmenn verður bara að koma í ljós. Þjálfarinn er svo danskur, Brian Piske heitir hann – eins og kannski má sjá á verulega danskri slagsíðu í hópnum.

Leiðin þeirra í gegnum riðlakeppnina var ekki alveg einföld, þeir voru með Real Betis, Rangers og Limassol frá Kýpur í riðli og gerðu m.a. jafntefli við Rangers, sem er nú bara ekkert sérstakt. Það sem er hins vegar sérstakt er að þeir unnu Galatasaray 4-1 á heimavelli í síðustu umferð, þannig að það er alveg hægt að hræðast liðið smávegis. Þeir töpuðu reyndar 3-2 í Tyrklandi gegn þeim.

Liverpool

Já það er nú það. Skammt stórra högga á milli, sigur gegn Nottingham Forest um síðustu helgi og stórveldisslagur (já það er bara eitt stórveldi í þeim slag) framundan við Manchester City. Sá leikur er á sunnudaginn og það er því alveg smá tími til að jafna sig og mér finnst ólíklegt að Klopp hvíli alla sem eiga að spila þar. Þetta eru líka 16-liða úrslit í Evrópukeppni og mikilvægt að ná í það minnsta sæmilegum úrslitum í leiknum. Án þess þó að skerða á nokkurn hátt möguleikana gegn City. Eitthvað hefur verið að kvisast út um meiðsli hjá Kelleher ofan á allt annað og það bendir því allt til þess að Bruce Grobbelaar standi í rammanum hjá okkar mönnum. Það er þó alls ekkert staðfest með það þannig að ég held honum inni.

Eins þykir ólíklegt að Dominik og Darwin spili stóra rullu, sérstaklega ef það er ekki þörf á því og líklegast að Mo spili bara alls ekki neitt. Svo eru það bara allir hinir sem eiga enn einhverjar vikur í að nái sér. Hópurinn verður því svipaður og gegn Forest, líklega einhverjar mannabreytingar á byrjunarliði og bekk.

Mín ágiskun á byrjunarlið er þessi:

Það er alveg jafn líklegt að Tsimikas, Gomez, McConnell og jafnvel Danns eða Koumas byrji þennan leik. Ég held að Konate verði 100% hvíldur og fari ekki einu sinni með út á flugvöll. Ég held að Klopp stilli upp sterkri varnarlínu og miðju svo það þurfi ekkert að gera allt of mikið í seinni leiknum á Anfield. Sem er bara eftir viku, rétt fyrir útileik gegn Manchester United í bikarnum. Sem KEMUR EKKI TIL GREINA AÐ TAPA. Þannig að það er nóg að gera og lítil tækifæri til að hvíla menn þótt þau séu vissulega orðin einhver. Leikurinn gegn City er sá síðasti í deildinni í þrjár vikur og ég hef grun um að hópurinn sem mætir til leiks gegn Brighton 31.mars verði töluvert öðruvísi en hópurinn sem er til taks núna.

Spá: 1-2. Meira að segja blanda af b- og c-liðinu okkar er betra en Sparta Prag. Over and out.

7 Comments

  1. Góða kvöldið. Ég verð í Liverpool frá fimmtudegi til mánudags ásamt tveim öðrum.
    Er einhver skemmtilegur bar/veitingarstaður til að horfa á Evrópuleikinn?
    Einnig má alveg koma með veitingastaði til að prófa hina dagana.

    3
  2. Á ég að þora að segja það…
    Með dagskránna framundan væri ég alveg til í Adrian í markið…
    Spáið í ef Kelleher meiðist… Sparta er nokkuð gróft lið. Adrian er nægjanlega góður og reyndur til að díla við svona leik.

    8
  3. Úff Adrian
    Auðvitað er alltaf hætta á meiðslum en hversu ógeðslega óheppnir þyftum við að verða til þess að hann myndi meiðast leikinn fyrir City leikinn.
    Halda Kelleher í markinu og vona það besta.

    En góðar fréttir, Salah er mættur á æfingar með liðinu og ætti að vera klár fyrir City leikinn.

    8
  4. Við þurfum að vera fagmanlegir í þessum leik. Þetta verður erfitt gegn mjög svo solid liði með geggjaðan heimavöll.

    Gefa Salah 45 mín, gefa Sly 60 mín, gefa Nunez 60 mín.

    Ég vill reyna að gefa Van Dijk og Mac Allister helst frí í þessum leik.

    Láta Tsimikas, Quansha, Clark og Gakpo 90 mín.

    Man city leikurinn á að vera í forgangi og reikna ég ekki með góðri frammistöðu í þessum leik.

    Spá 1-1 og við tökum því fagnandi.

    7
  5. Hvíla sem flesta í þessum leik. Ég er sammála að leyfa Adrian að byrja á móti Sparta. Við þurfum Kelleher ferskan á móti city.
    Fá sem flesta af okkar byrjunarliðsmönnum hvílda á móti shitty. Einhvern vegin finnst mér við vera “underdogs” í þeim leik svona fyrirfram. Góðar fréttir að Salah sé byrjaður að æfa aftur, vonandi er hægt að treysta lækna teyminu þannig að hann meiðist ekki aftur eftir korter.

    3
  6. Sælir félagar

    Hvílum eins og hægt er gefum Salah, Sobo og Darwin 20 mín og hvílum eins marga og mögulegt er. Meira hef ég svo sem ekki að segja um þennan leik sem kemur á bölvuðum tíma fyrir liðið. Jafntefli yrðu fín úrslit.

    Það er nú þannig

    YNWA

    6

Gullkastið – Toppslagurinn

Liðið gegn Sparta Prag