Upphitun: Aston Villa & Steven Gerrard á Anfield

Jói Kalli í sérútgáfu af Gullkastinu

Jólahátíð flóðljóss og fótboltafriðar er gengin í garð og við þau tímamót er ávallt kjörið tilefni til hátíðlegra hittinga með fornum félögum í fallegu umhverfi. Því er vel við hæfi að ein allra skærasta jólastjarna og fyrrum fyrirliði Liverpool snúi aftur á Anfield á aðventunni til að heimsækja sinn gamla heimavöll þar sem hann er dýrkaður og dáður í nútíð og þátíð.

Við bjóðum því velkominn til leiks hinn einstaka Stevie G í hlutverki stjóra AVFC og til að hita almennilega upp fyrir endurkomu slíks stórhöfðingja þá fáum við annan harðtæklandi og skarpskjótandi miðjuherforingja sem spilaði á sínum tíma fyrir Aston Villa: Jóhannes Karl Guðjónsson!

Öskrum þessa upphitun í gang!!!

Mótherjinn

Liverpool-goðsögnin Steven Gerrard tók við stjórnartaumunum hjá Aston Villa fyrir rétt um mánuði síðan eftir stórgott gengi og skoskan meistaratitil norðan landamæranna með Glasgow Rangers. Í Miðlöndunum tók hann við ágætu boltabúi á Villa Park sem var þó lent í kröggum og kröppum dansi með 5 deildartöpum í röð og sú súra taphrina kostaði Dean Smith starfið. Á örstuttum tíma hefur Stevie G kveikt mikinn eldmóð hjá leikmannahópnum sem hefur með miklum krafti og baráttu skilað 3 sigrum í 4 fyrstu deildarleikjum undir hans stjórn.

Í raun er þetta draumabyrjun fyrir Gerrard í sínu fyrsta EPL-stjórastarfi og gleður margan Púlarann sem lítur á hann sem “starfsmann í þjálfun” og framtíðararftaka Jürgen Klopp þegar fram líða stundir. Allt ofangreint gerir heimkomu Stevie G við stjórnarvöl Aston Villa einstaklega spennandi stórviðburð en einnig baneitrað bjúgaldinhýði sem bitið gæti okkur í boltabakendann.

Til að fara yfir allt þessu tengdu þá er Skagamaðurinn skotfasti og þrautseigi þjálfarinn, Jóhannes Karl Guðjónsson, tekinn tæpitungulausu tali en hann er góðkunningi þáttarins eftir góð helgispjöll um tíma sinn hjá Leicester og Burnley. Jói Kalli fullkomnar því heilaga þrennu sína með þessum þrumufleyg og hér fyrir neðan má hlýða á ómþýða rödd hans í sérútgáfu af Gullkastinu:

 

 

Að þessum gáfulegu gullorðum gæðadrengsins Jóa Kalla sögðum þá veltum við fyrir okkur uppstillingu og liðsskipan mótherjans frá Miðlöndunum. Miklar líkur eru á að Steven Gerrard geti og muni stilla upp óbreyttu byrjunarliði frá sigurleiknum gegn Leicester City um síðustu helgi og pistlahöfundur mun veðja á slíkt hið sama. Helsta vangaveltan myndi snúa að því hvort að Matt Targett kæmi inn fyrir Ashley Young í vinstri bakverðinum eða hvort Danny Ings nái heilsu til að sleppa á bekkinn en spáin um byrjunarliðið er eftirfarandi:

Líklegt byrjunarlið Aston Villa í leikskipulaginu 4-3-3

Liverpool

Rauði herinn mætir rauðglóandi heitur og í funandi fantafótboltaformi inn í þennan heimaleik gegn Aston Villa. Jólavertíðin sem hófst eftir grábölvað landsleikjahlé gæti ekki hafa farið betur af stað með 6 sigra í 6 leikjum í öllum keppnum og lengi megi sú sigurhrina halda áfram (7,9,13). Herr Klopp gat leyft sér þann munað að hvíla mjög marga lykilleikmenn í miðri viku með fjölda bekkjarmanna og unglinga sem fengu að spreyta sig með frábærum árangri.

Þrátt fyrir hálfgerða B-liðsuppstillingu þá vannst yfirburðarsigur á efsta liðið Seria A á þeirra heimavelli og það segir meira en mörg orð um það sjálfstraust og sigurstemmningu sem ríkir í liðinu um þessar stundir. Næsti leikur gegn Newcastle er 5 dögum eftir þennan leik þannig að mín forspá er sú að við stillum upp okkar allra sterkasta liði í von um að vinna öflugan og öruggan heimasigur.

Uppstilling Klopp fyrir leikinn ætti því að vera eftirfarandi:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3

Tölfræðin

  • Liverpool eru ósigraður í 24 af síðustu 25 úrvalsdeildarleikjum sínum.
  • Aston Villa hafa unnið 3 af fyrstu 4 deildarleikjum sínum undir stjórn Steven Gerrard
  • Liðin hafa mæst 96 sinnum á Anfield og þar hefur LFC unnið 60 leiki (62,5%) en Aston Villa eingöngu með 17 sigri (17,7%) og markamunurinn 210 vs. 102 mörk.
  • Liverpool-leikmenn með flest mörk gegn Aston Villa eru Robbie Fowler með 14 mörk og AVFC-stjórinn sjálfur Steven Gerrard með 13 mörk.
  • Liverpool hefur unnið ensku deildina 19 sinnum, FA Cup í 7 skipti og orðið Evrópumeistarar 6 sinnum.
  • Aston villa hefur unnið ensku deildina 7 sinnum, FA Cup í 7 skipti og orðið Evrópumeistarar í 1 skipti.

Kloppvarpið

Jürgen Klopp var hress og kátur í blaðamannablaðri dagsins og hafði eftirfarandi að segja:

Steven Gerrard hafði þetta að segja á móti:

Upphitunarlagið

Mesta menningarafrek Miðlanda Englands og Birmingham-borgar er klárlega súkkulaðisæta súpersexígrúppan Dúran Dúran. Því er upphitunarlag okkar upphitunarinnslags hið upplífgandi og viðbragsvekjandi The Reflex! Lagið tryllti lendur landans sama sumar og Bruce Grobbelaar sveiflaði sínum spagettíspírum í vítaspyrnukeppni árið 1984 en það ártal telst vera hápunktur mannlegrar tilveru samkvæmt ítarlegum rannsóknum og sagnfræðilegum heimildum:

Spakra manna spádómur

Spámennska okkar spjallandi sparkspekinga var á þá leið að heimamenn myndu vinna góðan heimasigur með eins marks mun þó að við værum ekki alveg á sama máli um lokaúrslitin. Jói Kalli spáði því að leikslok yrðu 3-2 í fjörugum fótboltaleik en ég var ögn íhaldssamari með forspá föður míns í fyrirrúmi með klassískan 2-1 sigur sem lokatölur.

Varðandi markaskorara þá er öruggasta spáin fyrir okkur báða að veðja á að Salah setji öll rauð mörk. Vitnum við þar til skákheimsmeistara Magnúsar Carlsen og hans snilldarhugsunar varðandi að hafa þetta bara einfalt og veðja alltaf á egypska kónginn!

YNWA

12 Comments

  1. Takk fyrir góða upphitun, það verða blendnar tilfinningar að sjá Gerrard keppast við að sigra Liverpool – en þetta verður efalaust góð skemmtun.

    1
    • litlar tilfinningar hjá mér.

      Hann verður andstæðingur í 90+ mín. Allt gamalt og gott geymt í þann tíma.

      1
  2. Þessi upphitun er eins og góð jólagjöf. Takk fyrir hana. #snillingar

    3
  3. Richard spurði í dag hvort Liverpool í dag sé betra/skemmtilegra en meistaraliðið 2020. Höfðinginn sagði svo vera.
    Verður erfitt að halda aftur af tárunum þegar Gerrard labbar inná völlinn.
    Eitt sem ég spurt mig að alla vikuna; mun Gerrard fagna ef að Villa skorar, jafnvel (ólíklegt) vinnur leikinn?
    YNWA

    1
  4. Sælir félagar

    Það er ekki miklu við að bæta upphitunina sem er afbragð. É fer því beint í spána mína sem er 3 – 1 og goðsögnin okksr fer sneyptur heim eða þannig. Ég hefi nefnilega enga trú á að pkkar menn láti taka sig í bólinu eins og æi fyrra. Bara alls ekki.

    Það er nú þannig

    YNWA

    1
  5. RH

    Ég sá ekki betur en hann væri á bekknum á Livescore. Annað þykir mér undarlegt að Minamino er eini á bekknum sem kalla mætti Framherji. Enginn Origi.

Meistaradeildin – Hvað bíður í 16-liða úrslitum

Liðið gegn Gerrard og félögum