Upphitun: Leicester á Anfield og Jóhannes Karl í Kop-podcasti

Englandsmeistarar ársins 2016 eru mættir á Anfield akademísku korteri fyrir áramót til að spila síðasta Liverpool-leik ársins 2017. Til að hita almennilega upp fyrir heimsókn Refanna frá Leicester-skíri er fátt betra en að ræða við fyrrum leikmann þeirra sem hefur að auki verið eldheitur Púlari í hjarta frá barnaæsku. Við erum að tala um hinn grjótharða landsliðsmann, Merkurtúns-meistarinn og skapstóra skipperinn frá Skipaskaga, Jóhannes Karl Guðjónsson, sem veitti okkur viskufullt viðtal um tíma sinn hjá Leicester, Burnley og fleiri liðum ásamt ítarlegri Liverpool-greiningu og öðru gáfulegu góðgæti í tilefni jólanna.

Upphitunar-viðtalið við Jóa Kalla má finna í Kop-podcastinu hér fyrir neðan:

MP3: Þáttur 177

Því til sönnunar að umrætt ofurmark Jóa Kalla í viðtalinu séu engar ýkjur þá má bera dýrðina augum í þúvarps-myndbandi hér fyrir neðan. Get in there!

En að þessu ágæta spaks manns spark-spjalli sögðu er kominn tími fyrir hefðbundnari upphitunaraðferðir.

Það er komið að enn meiri upphitun!

Mótherjinn

Leicester er enn eitt liðið sem mætir okkur með tiltölulega nýjan stjóra enda hefur það verið lenska í úrvalsdeildinni þetta tímabilið að láta þá taka pokann sinn fyrsta tækifæri. Sex framkvæmdarstjórar hafa misst starfið það sem af er og hjá Leicester tók Claude Puel við af Craig Shakespeare fyrir tveimur mánuðum síðan. Í þeim leikjum sem Puel hefur stýrt þeim er niðurstaðan 5 sigrar, 4 jafntefli og 3 töp og því má segja að hann hafi komið þeim aftur á réttan kjöl enda komnir upp í 8. sæti í deildinni. Þó hefur eitthvað hikst verið upp á síðkastið en Leicester hafa tapað 3 af síðustu 4 leikjum í öllum keppnum og vonumst við eftir því að slíkt haldi áfram í a.m.k. einn leik í viðbót.

Sögulega séð þá hefur Leicester reynst Liverpool nokkuð óþægilegur ljár í þúfu og við höfum eingöngu 42% vinningshlutfall gegn þeim og 36% leikjanna hafa verið töp fyrir blárefunum. Það er því ekkert gefið gegn liði sem er vel skipulagt varnarlega með hafsentinn Harry Maguire í landsliðsformi og treystir á hraðar skyndisóknir match-winneranna Mahrez & Vardy. Leicester hafa einmitt fengið á sig og skorað mörk í hnífjöfnu hlutfalli og í þó nokkuð miklu magni með 30 mörk í hvorum flokk fyrir sig. Gestirnir á Anfield er því ólíkindatól sem gætu tekið upp á hverju sem er ef sá gállinn er á þeim, en allar líkur eru á að um líflegan markaleik verði að ræða miðað við þau 25 mörk sem hafa verið samtals skoruð í síðustu 7 leikjum liðanna.

Ég tel að Leicester muni stilla sínu liði upp á eftirfarandi máta:

Líklegt byrjunarlið Leicester í leikkerfinu 4-4-1-1

Liverpool

Rauði herinn er rauðglóandi eftir 5-0 sigur á svartklæddum Svönum í síðasta leik og hefur skorað 12 mörk í sínum síðustu 3 deildarleikjum. Leikirnir eru orðnir 14 talsins frá síðasta tapi í öllum keppnum og klárlega gríðarlega góður gangur á okkar mönnum. Þó er ávallt sá varnagli varðandi varnarleikinn að hann á það til að koma á óvart fyrir ástæður af verri gerðinni og hefur það fengið Klopp til að splæsa 75 milljónum punda í hollenska hafsentinn Virgil van Dijk. En við þurfum að bíða a.m.k. fram á næsta ár til að sjá hann í byrjunarliðinu og því lítið meira um hann að segja í tengslum við þennan leik.

Stóra spurningin verður hvernig Klopp mun nálgast það að spila tvo leiki með eingöngu einn dag til hvíldar á milli. Mun hann stilla upp sínu sterkasta liði á Anfield í von um að geta kafsiglt andstæðinginn sem fyrst og þannig náð að skipta mönnum útaf snemma leiks? Eða mun hann rótera hressilega með því að gefa bekkjarsetumönnum tækifæri á heimavelli en þó með sókndjörfu hríðskotabyssurnar tilbúnar á tréverkinu? Vandi er um slíkt að spá, en eitt er víst að alltaf verður ákaflega gaman þá.

Mín tilraun til að lesa í taktískar tiktúrur meistara Klopp:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

Klavan-vaktin

Vinningshlutfall virðingarverða varnarmannsins frá Viljandi hefur lækkað eilítið upp á síðkastið útaf tíðum jafnteflum og er núna komið niður í 59,5%. En að sama skapi hefur hinn rangnefndi Rangi-Ragnar einungis 6 sinnum verið í tapliði í treyju Liverpool og það er ekki nema 14,3% taphlutfall. Geri aðrir betur og það þarf Eista  í stærra lagi til að ná svona öflugum árangri!

Spakra manna spádómur

Við leyfum atvinnumannaágiskun Joey Gudjonsson að standa varðandi 4-1 úrslit í leiknum. Sjálfur ætla ég að taka mér það bessaleyfi að tilnefna Mané, Lallana, Salah og Klavan sem markaskorara rauðliða og Mahrez setur sárabótina fyrir bláklædda.

20 Comments

  1. Fjandinn, það er búið að hækka standardinn þegar kemur að upphitun fyrir leiki!

    Stórvel gert Mr. Beardsley og kærar þakkir Jói Kalli sömuleiðis.

    Klopp getur ekki annað en horft á næstu tvo leiki saman og líklega verða mjög margar breytingar milli leikja. Grunar að t.d. aðeins tveir af fab four byrji hvorn leik fyrir sig, skipti þ.e.a.s. með sér leikjum.

  2. Smá út úr takti hér enn væri ekki æðislegt að skipta út Can til Juventus og fá Paulo í staðinn og láta Móra fá meiri móra.

  3. You’ve outdone yourselves!

    Þetta var brilliant hlustun, takk fyrir mig!

  4. Stærsta verkefni Klopp á næstu daga er að ná að hámarka getu hóp síns til að spila tvo leiki á 48 klukkutímum – eitthvað sem ætti auðvitað ekki að vera að gerast í ensku úrvalsdeildinni, á hæsta leveli.

    Fyrir mér er bara eitt í stöðunni, að spila tveimur jafnsterkum liðum í leikjunum og vona að auka krafturinn í löppum hvíldra leikmanna gefi okkur 2 sigra. Burnley á leik á sama tíma á morgun og er með umtalsvert minni hóp að spila úr, að fara með úthvílt lið á Turf Moor gæti því orðið mikill bónus fyrir Liverpool. Mín tillaga myndi því vera þessi tvo lið hér að neðan, að því gefnu að allir séu heilir og Klopp sé tilbúinn að kasta VVD beint í byrjunarlið á fyrsta degi (sem er óliklegt).

    Í þessum tveim liðum spila aðeins 4 leikmenn yfir 90 minutur – Milner og Robertson skipta milli sín LB stöðunni og Ox og Can miðjustöðu.

    Mignolet
    Gomes – Lovren – Klavan – Robertson
    Can – Milner – Ox
    Mane – Firmino – Sturridge

    Karius
    TAA – Matip – VVD – Robertson/Milner (45/45)
    Winjaldum – Lallana – Can/Ox (45/45)
    Coutinho – Solanke – Salah

  5. Tek heilshugar undir með Herði. Einn af styrkleikjum Liverpool er breiddin og hún nýtist sérstaklega vel gegn t.d liðum eins og Burnley sem eru undir sama leikjaálaginu og Liverpool en hafa líklega ekki sömu breiddina og Liverpool. Sem þýðir væntanlega að Burnley gæti verið með þreyttara lið gegn okkur en við.

    Ég furða mig nefnilega oft yfir því að meira að segja fyrrum atvinnumenn eru að gagnrína þessar róteringar en það sem kemur á móti er að aðrir atvinnumenn gagnríndu Klopp í fyrra fyrir að rótera ekki nógu mikið á þessum tíma. Mér sýnist stigasöfnun vera ásættanleg, þrátt fyrir svekkjandi jafntefli og það sem betra er að enginn af okkar aðalásum er meiddur sem þýðir að við getum mögulega stillt upp okkar sterkasta liði gegn Man City því þá er leikjaálagið orðið mun minna en í jólavertíðinni sem er enn að ganga yfir.

    Meiðslalistinn er óvenju lítill um þessar mundir og er það augljóst að það hefur mikið með þessar róteringar að gera. Í raun eru bara Henderson, moreno og Clyne þeir einu sem eru með langtímameiðsli og hinir með smávægilegt hnjask sem ætti að jafna sig á nokkrum vikum. Það er miklu minna heldur en ég hef verið vanur. T.d í fyrra minnir mig að það voru um ellefu til tólf leikmenn komnir á sjúkrabörunar og þar að auki var liðið orðið dauðþreytt, sem meðal annars orsakaði jafntefli gegn Sunderland.

    Ég er bjartsýnn á framhaldið.

  6. Algjörlega frábær upphitun, það er ljóst að það er búið að bæta nýrri vídd inn í upphitunarflóruna á Kop.is. Vel gert meistari Peter.

  7. Sælir félagar

    Gaman að nýjum töktum í upphitun og gott að heyra í Jóa Kalla. Góður drengur og góður Púllari. Ég hefi svo sem engu við upphitun að bæta nema ég vil Karíus í markið til lengri tíma. Tek að öðru leyti undir með Jóa Kalla og spái 4 -1

    Það er nú þannig

    YNWA

  8. Er ég bara klaufi, en ég finn ekki Podcastið í Podcast-veitunni minni. Gleymdist hugsanlega að hlaða því þar inn?

  9. Okei, takk fyrir frábæra upphitun! Toppiði þetta!

    Ég samgleðst Trent óendanlega mikið fyrir að hafa skorað sitt fyrsta EPL mark í síðasta leik, hann átti það svo sannarlega skilið og toppaði það síðan með fagni sem Gerrard stundaði mikið. Ég held að Clyne rölti ekkert inn í liðið eins og við bjuggumst við, bæði Trent og Gomes hafa verið flottir en mitt álit er að Gomes gæti orðið mun betri miðvörður en bakvörður og ætti að keppa við Matip um að fá að starta með Dijk frá og með áramótum.

    Ég er hinsvegar alls ekki bjartsýnn á þennan leik, þegar að við Liverpool menn fáum svona góðar fréttir eins og Dijk hafi verið keyptur er alveg típískt að tapa næsta leik til að ná okkur niður á jörðina og byrja að röfla aftur. En ég vonast og vill trúa á að okkar menn nái að knýja fram sigur. Eins og Hörður segir þá þarf að rótera liðinu heilmikið á milli leikjanna 30. des og 1. jan og ég ætla ekki að reyna að skjóta á byrjunarlið.

    Ég ætla að spá með trú og huga að við vinnum leikinn 3-2.

  10. Gameday og allt að gerast hjá okkur, sá manu á móti Leicster og þetta er erfitt lið fyrir okkur að mæta ef þeir fá að spila sin leik. Marhes sem ég gæti alveg sætt mig við í rauðri treyju er snjall að halda boltanum og skapa, bæði færi og hlaup og ef Vardy kemur á ferðinni þá er ekki margir að elta uppi en hef alla trú á okkur þó við gætum fengið einsog eitt í andlitið í byrjun leiks þá siglum við þessu 3-1 segi ég og skrifa. Ójá enn bæta síðuhaldarar sig þakkir fyrir allt árið og björt framtíð á næsta.
    Takkk.

  11. #11 í SoundCloud appinu mínu á þá er þáttur 171 sá síðasti sem ég sé en ef ég tek þetta í gegnum vafrann á símanum að þá opnast þetta með SoundCloud appinu. Mjög spes.

    En annars frábær upphitun og skemmtileg tilbreyting frá venjulegum upphitunum.
    Segi að við tökum þetta 3-1

  12. Þessi leikur er langt frá því að vera formsatriði. Okkur gengur ekkert svakalega vel á móti speedy gonzalez framherjum eins og J.Vardy, þess vegna ætla ég að vera hógvær og spá 4-0 fyrir okkur.

  13. Er nokkuð of seint að skoða það að kaupa annan miðvörð með VVD?

Podcast: VVD – viðbrögð við fréttum dagsins

Liðið gegn Leicester