Upphitun: Burnley á Turf Moor

 

Gullkastið

Það er erfitt að toppa hitastigið í suðupunktinum á Anfield þegar að Divock Origi setti sigurmarkið á síðustu mínútu borgarslagsins. En í það minnsta þarf að viðhalda velgjunni með vænni upphitun og þá dugar ekkert minna en að fá þrusugóðan þjálfara með himinháa vinningsprósentu á þjálfaraferlinum og stormandi stórskytta á yngri árum.

Við tökum tali engan annan en landsliðsmanninn frá Langasandi og Liverpool-áhangandann með langskotin: Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfara 1.deildarmeistara ÍA 2018 og leikmaður Burnley árin 2007-2010.

MP3: Þáttur 1501

Við þökkum Jóa Kalla kærlega fyrir hans sérlegu sérfræðiþekkingu og snúum okkur að föstum liðum eins og venjulega í upphituninni.

Mótherjinn

Burnley hafa verið í bullandi vandræðum frá upphafi leiktíðar. Frá því að hafa verið spútnik-lið síðasta tímabils þá hefur átt sér stað mikið stjörnuhrap og fallið verið hátt. Liðið er í fallsæti með einungis 9 stig eftir 14 leiki og næstflest mörk fengin á sig í deildinni eða rúmlega mark í leik með 29 bolta endurheimta úr eigin neti. Í síðustu 7 deildarleikjum hefur enginn sigur unnist og uppskeran tvö agnarsmá stig. Það er alveg ljóst að ef ekki á illa að fara hjá Jóa Berg & félögum að þá þarf að taka handbremsubeygju og koma liðinu í gír hið snarasta. En við Púlarar vonumst auðvitað til þess að sú upprisa bíði fram yfir næsta leik á miðvikudaginn í það minnsta.

Á síðasta tímabili þá háðu liðin mikla baráttu í leik á nýársdag á Turf Moor þar sem að Jói Berg skoraði jöfnunarmark en ofurhetjan og aristókratinn King Clean Sheet Klavan bjargaði deginum á síðustu stundu með sigurmarki. Íslenski vængmaðurinn var í meiðslum núna í nóvember en kom til baka í tapleik Burnley um síðustu helgi. Það munur um minna fyrir heimamenn þar sem að Jói hefur verið mest skapandi leikmaður liðsins það sem af er tímabils með 2 mörk og 4 stoðsendingar. Þetta verður því annar bardaginn í röð við íslenskan víking í liði mótherjanna en sem endranær verðum við að leggja þær þjóðlegu tilfinningar til hliðar og óska herra Guðmundssyni velgengni í öllum öðrum viðureignum en gegn Liverpool. Víkingaklapp fyrir því.

Sean Dyche mun líklega leggja upp með að reyna að þétta hripleka vörn liðsins og beita skyndisóknum gegn okkur, en það er í sjálfu sér ekkert nýtt fyrir Klopp & co. Augu allra Íslendinga verður að sjálfsögðu á landa okkar en Burnley luma á hættulegum leikmönnum í Defour og Lennon sem geta á góðum degi bæði skapað og skorað mörk. Þá er fyrrum enski landsliðsmarkvörðurinn Joe Hart á milli stanganna og Liverpool hafa ósjaldan skotið markmenn í stuð svona til hátíðarbrigða.

Að því sögðu er Dyche líklegur til að stilla sínu liði svona upp:

Líklegt byrjunarlið Burnley í leikkerfinu 4-4-1-1

Liverpool

Eftir kraftaverkabjörgunina í síðasta leik þá ættu okkar menn að vera með vind í seglin að nýju og mæta með sjálfstraust í leik gegn liði í fallbaráttunni. Auðvitað eru allir leikir í úrvalsdeildinni áskorun en þetta er skyldusigur í toppbaráttunni engu að síður og þó að hann sé á útivelli. Klopp neyðist líklega til að rótera mannskapnum eftir tvo orkufreka stórleiki gegn PSG og Everton, það þrátt fyrir að við séum að heiman en um næstu helgi er annar útileikur í Bournemouth. Við verðum að hleypa ferskum fótum í byrjunarliðið þar sem að stórleikir gegn Napoli og Man Utd bíða í næstu viku. Jólatörnin er að mæta okkur eins og snældubrjálaður snjóbylur á Akureyri: ferskt fannfergi sem þarfnast mokstrar en einnig hægt að hnoða í snjóbolta og skíða sér til skemmtunar. Erfitt verkefni en skemmtilegt.

Ég ætla að draga nöfn leikmanna úr hatti huga míns varðandi liðsuppstillingu en Klopp er til alls líklegur í leik sem þessum. Firmino hefur verið undir pari löngum köflum í vetur og fær smá hvíld með innkomu Sturridge. Lovren fær sénsinn en uppstokkun á bakvörðunum gæti einnig verið í kortunum. Henderson fyrirliði kemur aftur inn og fær ferska fætur með sér til að dreifa álaginu. Origi fær líka að koma aftur inná af bekknum. Það er þó allt eins líklegt að ég sé með hálft liðið rangt í þessum partýleik en þetta eru mínar tvær krónur um liðið sem hefur leik á miðvikudaginn.

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

Spakra Skagamanna spádómur

Við virðum visku Jóhannes Karls að sjálfsögðu þegar kemur að tippinu enda með eindæmum öflugur á því sviði. Hans ágæta ágiskun um 1-4 sigur Rauða hersins mun því að sjálfsögðu standa en til að fylla í eyðurnar þá mun ég skjóta á að Lovren, Sturridge, Salah og Mané sjái um að þenja netmöskvana.

Come on you REDS!

YNWA

6 Comments

  1. Þessi síða verður bara betri og betri. Takk kærlega fyrir mig!

  2. Takk fyrir þessa upphitun Magnús. Sammála flestu ma því að nokkuð verður hrókerað í liðinu en ég held sökum hins stífa prógramms framundan muni það halda áfram. Shagiri, Sturriggde, Keita og Fabhino spila sennilega nokkuð mikið. Ekki sammála þér Magnús um að þetta sé skyldusigur enda eru þeir sigrar ekki til gegn PL liðum. En nauðsynlegur sigur, það er ekki vafi. Svona leikur er snúinn, Burnley þarf nánast að spyrna í botninn og við þær aðstæður verða lið oft djöfulleg viðureignar. Býst við mjög erfiðum leik.

  3. Sælir félagar

    Takk fyrir magnaða upphitun Magnús og Jói Kalli. Ég þekki Jóa Kalla lítillega og þetta er mikill gæða drengur og veit alveg hvað hann er að segja þegar kemur að fótbolta. Ég vil gera hans orð að mínum og hefi engu við þau að bæta.

    Það er nú þannig

    YNWA

Dregið í FA Cup

Gullkastið – D1V0CK ORIGI!