New Kids on the Block mæta Villa í bikarnum

Þá fer að bresta á með næsta leik okkar manna í deildarbikarnum, leiknum sem Klopp vildi hugsanlega losna við, og sem gekk erfiðlega að finna leikdag fyrir. Það að lið sé komið í 8 liða úrslit í bikarkeppni ætti nú almennt að vera tilefni til að tjalda öllu því besta þegar kemur að uppsetningu á liði, en í ljósi þess hve mörg verkefni eru í gangi hjá liðinu þá verður að fara aðra leið í þetta skiptið, og halda sig við liðið sem sló út Arsenal í síðustu umferð. Það þarf meira að segja að sleppa því að spila leikmönnum sem tilheyra aðalliðshópnum, en verða í Qatar þegar leikurinn við Villa fer fram. Lengi vel var talið að menn eins og Curtis Jones og Neco Williams myndu spila bikarleikinn og fljúga svo til Qatar strax að þeim leik loknum, en síðan kom í ljós að þeir tveir voru partur af hópnum sem flaug suðureftir í morgun. Þeir verða því fjarri góðu gamni á þriðjudaginn. Reyndar er það svo að einu leikmenn aðalliðsins sem ekki fóru til Qatar eru þeir Nathaniel Clyne, Joel Matip, Fabinho og Dejan Lovren, en þeir eru allir frá vegna meiðsla. Því er klárt mál að aðalliðsleikmenn munu ekki koma að þessum leik á neinn hátt.

Það má segja að leikur U23 liðsins við Chelsea núna um helgina hafi gefið ágætis vísbendingu um það hverjir munu spila núna á þriðjudaginn, því nánast allir leikmenn sem að jafnaði spila með U23 voru hvíldir, að undanskildum Curtis Jones sem var þó tekinn af velli í seinni hálfleik.

Í ljósi þess mun þessi upphitun einblína á þessi unglömb sem væntanlega munu spila, og við ætlum að skoða hvaða pjakkar þetta eru. En byrjum á því hver mun stýra ungviðinu.

Neil Critchley

Það verður þjálfari U23 liðsins, Neil Critchley, sem mun stýra liði Liverpool í þessum leik. Einhverjar pælingar voru um að Pep Lijnders myndi e.t.v. verða heima á meðan Klopp færi til Qatar, en svo verður ekki. Neil er búinn að vera hjá klúbbnum síðan 2013 og þjálfaði U18 fyrstu árin, en hefur stýrt U23 liðinu síðan 2017. Ferill hans sem knattspyrnumaður er nú ekki langur, en hann á að baki einn deildarleik fyrir Crewe.

Caoimhin Kelleher

Þessi 21 árs írski strákur er búinn að vera hjá Liverpool í rúmlega 4 ár, og hefur síðasta árið eða svo vakið athygli fyrir framgöngu sína, þannig að nú er hann ótvírætt fremstur í goggunarröðinni þegar kemur að markvörðum liðsins úr U23 og yngri hópum. Það má segja að hann hafi tekið framúr pólverjanum Kamil Grabara sem nú er á láni hjá Huddersfield.

Það hefur lengi verið ráðgáta meðal stuðningsmanna hvernig fornafnið hans er borið fram, en það mun víst vera ansi nálægt því að hljóma eins og enska nafnið Kevin. Líklega er “Kví-vín” nær lagi.

Klopp gaf það snemma út að Carabao bikarinn yrði einfaldlega keppni sem Kelleher ætti, og það hefur ekkert breyst þrátt fyrir að liðið sé komið þetta langt í bikarnum. Það er óhætt að segja að hann hafi tryggt liðinu sæti í 8 liða úrslitum með því að verja síðustu spyrnu Arsenal manna í vítakeppninni í síðustu umferð.

Ki-Jana Hoever

Þessi hollenski strákur er í raun bara nýkominn til félagsins, en hann var fenginn til klúbbsins sumarið 2018, þá aðeins 16 ára gamall. Fljótlega var hann farinn að vekja athygli fyrir framgöngu sína, og fékk kallið að æfa með aðalliðinu um haustið. Þar hélt hann áfram að vekja athygli, sérstaklega þegar hann náði ítrekað að halda Salah niðri á æfingum. Hans fyrsti leikur með aðalliðinu kom svo þann 7. janúar á þessu ári þegar Lovren meiddist á 4. mínútu í bikarleik gegn Wolves, Hoever kom inná og kláraði leikinn með stæl þó svo að því liði hafi nú ekki tekist að komast lengra í þeirri bikarkeppni. Fyrsta markið með aðalliðinu kom í 2-0 sigri á MK Dons fyrr í haust, og varð þar með fjórði yngsti leikmaðurinn til að skora fyrir aðalliðið, og er þar á eftir Ben Woodburn, Michael Owen og Jordan Rossiter.

Hoever er líklega miðvörður að upplagi, en hefur þó verið að spila sem bakvörður sömuleiðis. Ekki er alveg klárt mál hvort önnur staðan verður ofaná, og þá hvor þeirra.

Margir hafa verið í svipuðum vandræðum með að bera fram nafnið á Hoever eins og með fornafn Kelleher, réttasti framburðurinn virðist vera “húver” (eins og ryksugurnar), a.m.k. ef eitthvað er að marka hans eigin framburð í þessu viðtali.

Sepp van den Berg

Sepp er einn af þremur nýjum leikmönnum sem komu til klúbbsins síðastliðið sumar, og er þar í hópi með Adrian og Elliott. Hann er 17 ára Hollendingur sem mun skríða yfir 18 ára aldurinn núna um jólin, og hefur leikið tvo leiki með aðalliðinu, báða í Carabao bikarkeppninni, en hefur ekki komið nálægt aðalliðshópnum að öðru leyti. Við erum því með þrjá hollendinga í miðvarðarstöðunni, og líklega munu tveir þeirra leika í þessum leik.

Yasser Larouci

Þessi 18 ára alsírski/franski strákur kom til Liverpool í lok árs 2017. Hann skaust fram í sviðsljósið á undirbúningstímabilinu í sumar, en hann þótti standa sig með ágætum í hlutverki vinstri bakvarðar þegar hann var kallaður til. Upphaflega lék hann framar á vellinum, en var færður yfir í bakvarðarstöðuna á síðasta tímabili. Með U23 hefur hann þó leikið víðar en þar, jafnvel sem framherji á einum tímapunkti þegar framherjakrísa var í gangi. Annars var hann í aðalhlutverki í æfingaleik gegn Sevilla í sumar þegar hann var sparkaður gróflega niður og má í raun teljast heppinn að hafa ekki meiðst meira en hann þó gerði.

Pedro Chirivella

Spánverjinn Pedro Chirivella varð 22ja ára í vor, og sumum gæti fundist hann hafa verið hjá klúbbnum frá örófi alda. Það er ekki svo fjarri lagi, því hann kom til akademíunnar þegar hann var 16 ára og er því búinn að vera hjá klúbbnum í 6 ár. Líklega er Jordan Henderson eini leikmaðurinn sem er búinn að vera lengur á skrá (fyrir utan þessa uppöldu). Hann hefur átt nokkra leiki með aðalliðinu, þann fyrsta árið 2015 gegn Bordeaux, og nokkra leiki þar á eftir, en hefur svo verið á láni síðustu ár. Það var svo einmitt eitthvað klúður í pappírsvinnunni eftir síðasta lán sem gerði það að verkum að Liverpool fékk sekt upp á 100 þúsund pund fyrir að tefla honum fram gegn MK Dons, en nú er víst búið að afgreiða allt slíkt og hann kom m.a. aftur inná gegn Arsenal. Annars virðast tækifæri hans til að leika með aðalliðinu vera fá fyrir utan þessa deildarbikarkeppni, og það kæmi ekki á óvart þó hann myndi leita á önnur mið í lok leiktíðar.

Hans helsta staða er númer 6, þ.e. varnarsinnaður miðjumaður, og það er talið líklegt að hann byrji þar á þriðjudaginn.

Herbie Kane

Jú það passar, Liverpool er að sjálfsögðu með H. Kane innan sinna raða. Hér er um að ræða Herbie Kane, en hann er 21 árs Englendingur sem hefur verið hjá klúbbnum frá 15 ára aldri. Herbie hefur aldrei byrjað leik með aðalliðinu, en kom inná í leiknum gegn MK Dons og fékk heilar 8 mínútur plús uppbótartíma.

Isaac Christie-Davis

Þessi 22ja ára Walesverji kom til liðsins sumarið 2018, og hefur einusinni verið á bekk með aðalliðinu, en það var í bikarleiknum gegn Wolves núna í janúar.

Leighton Clarkson

Leighton Clarkson er einn þeirra leikmanna sem hefur aldrei leikið aðalliðsleik fyrir Liverpool, en var á bekk í bæði skiptin í Carabao bikarnum núna í haust. Hann gæti því fengið sínar fyrstu mínútur núna í vikunni.

Harvey Elliott

Harvey Elliott er yngsti leikmaðurinn til að leika í úrvalsdeildinni, en það gerðist í maí, 30 dögum eftir að hann varð 16 ára. Þá var hann ennþá leikmaður Fulham, en hann kom svo til Liverpool í sumar. Hann á því enn ágæta möguleika á að slá met Ben Woodburn yfir yngsta markaskorara liðsins en Ben var 17 ára og 44 daga gamall þegar hann skoraði í bikarleik gegn Leeds árið 2016. Harvey hefur því fram til loka þessa tímabils til að slá þetta met, og líklega verða tækifærin ekki mikið betri en í þessum leik.

Harvey hefur spilað í hægri vængstöðunni í þeim leikjum sem hann hefur leikið með aðalliðnu, og hefur þótt sýna afskaplega efnilega takta.

Rhian Brewster

Rhian Brewster ættum við svosem ekki að þurfa að kynna, enda hefur hann verið viðloðandi byrjunarliðið í talsverðan tíma, þó ekki eigi hann að baki neinar mínútur með aðalliðinu í deildinni ennþá. Þessi 19 ára piltur kom frá Chelsea árið 2014, þá 14 ára gamall. Klopp hefur lengi haft augastað á honum og hefur lengi talað um hann sem eitt mesta efni sem klúbburinn hefur átt. Brewster hefur svosem ekki sýnt allt það sem í honum býr ef eitthvað er að marka þetta álit Klopp (og ég held að hann viti ögn meira um hæfileika þessa drengs heldur en við hin sófasérfræðingarnir…), og það er talað um að með tilkomu Minamino í janúarglugganum verði Brewster leyft að fara á láni. Sjáum til hvernig það fer.

Meðal annarra sem gætu komið við sögu, verða e.t.v. á bekk eða jafnvel í byrjunarliði, eru markvörðurinn Ben Winterbottom, Elijah Dixon-Bonner, Luis Longstaff (sem er víst ekkert skyldur Newcastle leikmanninum), Tom Clayton, Billy Koumetio, Morgan Boyes og e.t.v. fleiri. A.m.k. er nokkuð ljóst að það verður áhugavert að sjá bekkinn, og líklegt að þar verði talsvert af nöfnum sem við höfum aldrei séð áður á leikskýrslu hjá aðalliðinu. Undirritaður verður svo að játa að hafa nákvæmlega enga hugmynd um það hver mun spila í hægri bakverði, fyrst Neco Williams er farinn til Qatar. Tony Gallacher er eitt nafn sem kemur til greina, Koumetio og Clayton gætu líka poppað þarna upp, en annars látum við það bara koma okkur á óvart. Clayton, Clarkson og Dixon-Bonner léku reyndar allir í 90 mínútur á laugardaginn gegn U23 liði Chelsea, og mögulega er það vísbending um uppstillinguna.

Semsagt, prófum að stilla þessu upp svona:

Kelleher

Hoever – VDB – Koumetio – Larouci

Kane – Chririvella – Christie-Davis

Elliott – Brewster – Dixon-Bonner

Að lokum verður ansi áhugavert að sjá hver mun bera fyrirliðabandið, því það eru ágætar líkur á að metið yfir yngsta fyrirliða Liverpool verði slegið núna á þriðjudaginn. Eftir að hafa lagst yfir gögn á LFCHistory.net yfir alla fyrirliða Liverpool og hvaða dag þeir spiluðu sinn fyrsta leik sem fyrirliði, og borið það saman við gögn um fæðingardaga þessara leikmanna, þá kom í ljós að yngsti fyrirliði Liverpool var Alex Raisbeck, en hann var rúmlega 20 ára og 8 mánaða þegar hann spilaði sinn fyrsta leik sem fyrirliði. Sá sem er í öðru sæti er piltur að nafni Steven George Gerrard, sem var rúmlega 22ja ára í sínum fyrsta leik sem fyrirliði. Og hver ætli verði fyrirliði gegn Villa? Ef það verður einhver þeirra Hoever, van den Berg, Larouci, Elliott eða Brewster, þá verður metið slegið. Kelleher, Chirivella, Kane og Christie-Davis eiga ekki möguleika á að slá metið.

Andstæðingarnir

Það hefur hingað til verið gert ráð fyrir því að Aston Villa muni stilla upp sínu sterkasta liði, en nú hafa þeir tapað þrem leikjum í röð í deildinni og eru í 17. sæti, með jafnmörg stig og Southampton sem eru í næsta sæti þar fyrir neðan. Þau tvö lið spila einmitt um næstu helgi, og því er ekki útilokað að Villa menn vilji setja alla athygli á þann leik. Það kæmi því ekki á óvart þó þeir myndu spila liði sem væri eitthvað sambland af aðalliðinu og mögulega með einhverja U23 leikmenn, en á hinn bóginn þá er líka örugglega freistandi fyrir þá að tefla fram liði sem er örugglega nægilega sterkt til að komast í undanúrslit, enda vita þeir í raun alveg nákvæmlega hvaða leikmönnum Liverpool er EKKI að fara að tefla fram. Plús það að ef þeir fara að tapa fyrir C-liði Liverpool, þá verður hlegið að því eitthvað vel frameftir næsta ári. Við skulum því reikna með þeim sterkum í þessum leik, og munum að aðalliðið okkar átti nú bara í mesta brasi með þá þegar liðin áttust við fyrr í haust.

Spá

Þegar við spáum fyrir um úrslit í þessum upphitunum þarf nú yfirleitt eitthvað mikið að gerast til að við spáum ekki sigri. Þetta “eitthvað mikið að gerast” getur t.d. verið að allt aðalliðið verði fjarverandi vegna þátttöku í HM félagsliða, og því ætla ég að spá því að aðallið Aston Villa hafi yfirhöndina í þessum leik, og vinni 3-1, og tel mig vera nokkuð bjartsýnan meira að segja. Reyndar er það svo að maður óskar þess bara helst að þetta unglingalið sem við sendum út á völlinn spili eins og enginn sé morgundagurinn, geri sitt allra besta, og það er auðvitað aldrei að vita hvert tilfinningin að spila með aðalliði Liverpool beri þessa pilta. En raunsæin fær að ráða í spánni, og líklegasta niðurstaðan er sú að þessu bikarævintýri ljúki á þriðjudaginn.

Ekki það, að næsta bikarævintýri bíður svo handan við hornið, því leikurinn við Everton í FA bikarnum er strax eftir áramótin, og hver veit nema eitthvað af þessum strákum verði kallaðir til þá. Og það kæmi ekkert á óvart að sjá eitthvað af þessum strákum fá leiki með aðalliðinu síðar meir.

5 Comments

  1. Þetta er ekki flókið. Þetta er stærsti leikur sem margir þessa stráka eru að fara spila so far á þeirra ferli. Leggja allt í þetta og sýna Klopp og þeir ætli að spila með stærsta klúbb heims þegar þeir verða full þroskaðir fótboltamenn. Spái 2-2 og Keheleheleheler verður hetjan.

    3
  2. Sælir félagar

    Takk fyrir ótrúlega vel unna kynningu á þessum krökkum. Hvernig sem fer þá er heiður fyrir þessa stráka að spila þennan aðalliðsleik og vonandi standa þeir sig vel þó tap sé að líkindum óumflýjanlegt.

    Það er nú þannig

    YNWA

    3

Kvennaliðið mætir Chelsea

Meistaradeildardráttur í 16 liða úrslit