Liverpool 1 – 2 Sevilla

Mörkin

0-1 Nolito (37. mín)
1-1 Origi (44. mín)
1-2 Pozo (90. mín)

Gangur leiksins

Liverpool byrjaði nokkuð vel, en Sevilla komu svo betur inn í leikinn eftir 5-10 mínútur. Á 13. mínútu áttu þeir hættulega sókn, okkar menn náðu boltanum en Wijnaldum missti boltann á hættulegum stað, boltinn barst að vítateig en Lonegan kom út og átti vörslu sem minnti bara mjög svo á Alisson nokkurn Becker. Sevilla héldu áfram að vera hættulegri framávið og áttu nokkur hálffæri og skot/skalla framhjá. Á 37. mínútu kom Lonegan svo engum vörnum við þegar Nolito fékk sendingu inn á teig og afgreiddi boltann óverjandi í fjærhornið uppi. Við þetta hresstust okkar menn aðeins, og á 44. mínútu tók Trent hornspyrnu sem Nat Phillips skallaði í varnarmann, þaðan barst boltinn á Divock Origi og hann afgreiddi hann örugglega í netið.

Á þessum tímapunkti var leikurinn farinn að harðna óvenju mikið í ljósi þess að um æfingaleik var að ræða, dómarinn gaf m.a. nokkur gul spjöld, og hefði átt að gefa rautt spjald skömmu fyrir leikhlé þegar Banega rak hægri olnbogann í Harry Wilson og bætti svo um betur með því að slá hann í andlitið með vinstri. Banega var á þessum tímapunkti kominn með gult og af einhverjum óskiljanlegum orsökum fékk hann ekki annað gult. Dómarinn var hugsanlega með það í huga að um vináttuleik var að ræða, en það má hins vegar ekki gleymast að það þarf engu að síður að dæma á svona brot, rétt eins og ef um hefðbundinn kappleik væri að ræða.

Sem betur fer var stutt í hálfleik, og þá skiptu Sevilla menn 9 mönnum út af, þar á meðal téðum Banega. Okkar menn svissuðu öllu liðinu út, svo þeir sem hófu leikinn í seinni voru Mignolet í marki, Hoever, Gomez, Lovren og Larouci í vörn, Fabinho, Milner og Adam Lewis á miðju, og Kent, Jones og Brewster frammi.

Mignolet átti nokkrar góðar vörslur en okkar menn voru ekki að skapa mikið af færum. Á 60. mínútu skiptu Sevilla síðustu tveim inná, og þá kom m.a. inná frakki nokkur að nafni Gnagnon. Hann kom heldur betur við sögu á 76. mínútu þegar Sevilla sóttu fram, Lovren braut sóknina á bak aftur og okkar menn sneru vörn í sókn. Sjálfsagt hefði verið hægt að dæma á tæklinguna hjá Lovren, a.m.k. lá leikmaður Sevilla áfram á vellinum þó þeir væru búnir að missa boltann. Larouci fékk boltann við miðlínu, sótti inn á miðsvæðið, hoppaði upp úr einni tæklingu en var þá bara sparkaður niður. Dómarinn gaf honum beint rautt spjald, og var það fyllilega sanngjarnt. Hann og aðrir Sevilla leikmenn voru eitthvað að mótmæla þeim dómi, sem er algjörlega óskiljanlegt. Larouci var borinn af velli á börum, Lewis fór í bakvörðinn og Curtis Jones á miðjuna, en Bobby Duncan kom inn á í framlínuna.

Okkar menn voru skiljanlega áfjáðir í að sækja sigurmarkið og hefðu átt að gera það ef allt hefði verið eðlilegt, en ekki hafðist það. Curtis Jones var líklega næstur því að skora eftir góða undirbúningsvinnu hjá Brewster, en skaut beint á markvörðinn. Hins vegar sluppu Sevilla menn í gegn á 90. mínútu, varnarvinnan hjá Hoever og Gomez var ekki nógu góð, og Pozo náði að skora ósanngjarnt sigurmark.

Hvað lærðum við á leiknum?

Það ætti að útiloka Sevilla frá vináttuleikjum. Svona framkoma er einfaldlega ekki boðleg, og að leikmaður sparki annan niður án þess að gera minnstu tilraun til að ná boltanum, og í reynd var ásetningurinn 100% að sparka okkar mann niður, þetta bara á aldrei að sjást. Allra síst í vináttuleik, en ekki í kappleikjum heldur. Ef þetta hefði verið einangrað atvik þá mætti e.t.v. skrifa þetta á augnabliks brjálæði, en það voru bara fleiri atvik þar sem leikmenn þeirra voru allt of harðir. Það væri sjálfsagt hægt að segja ýmislegt um þetta lið, en gerum orð Klopp að okkar: It is much too early in the season to create headlines by saying what I think.

Kent er að gera alvöru tilkall til þess að vera í hóp. Hann átti nokkur ansi góð upphlaup í seinni hálfleik, og með meiri gæði í kringum sig hefði hann sjálfsagt getað átt stoðsendingu eða mark.

Lovren og Mignolet eru ekki tilbúnir að gefast upp. Báðir áttu ágætan leik, Lovren stjórnaði vörninni eins og herforingi, og var sjálfsagt besti miðvörðurinn í kvöld, reyndar átti Nat Phillips líka ágætan leik.

Að spila fótbolta á völlum sem ekki eru fótboltavellir í steikjandi hita er ekki endilega sniðugt. Við sáum þetta líka á föstudaginn, þar var völlurinn reyndar talsvert verri. Manni sýndist að Fenway væri í betra ásigkomulagi, engu að síður þurfti að breyta honum úr hafnarboltavöll í fótboltavöll á nokkrum dögum, og auðvitað væri best að spila bara á alvöru fótboltavöllum. Þá spyr maður sig hvaða áhrif hitinn hafi á leikmenn.

Munum svo að þetta eru jú bara æfingaleikir, og fínt að gera mistökin í þeim leikjum, frekar en þegar alvaran er tekin við.

Næst mæta okkar menn Sporting í New York á fimmtudaginn, og svo Napoli um næstu helgi, en þá verður liðið komið aftur til Evrópu.

6 Comments

  1. Sælir félagar

    Það er greinilegt að það vantar anzi mikið þegar besta sóknarlína í heimi er í fríi. Framkoma Sevilla í þessum leik var ekki boðleg og ekkert vit í að spila við svona vitleysinga. Það er helsti lærdómur þessa leiks. Hvað leikmenn varðar þá voru þeir þungir og hægir, mikil ónákvæmni í sendingum og sköpunin lítil. Markverðir Liverpool voru bestu menn liðsins í báðum hálfleikjum og segir það nokkuð um stöðu leikmanna á þessum tímapunkti.

    Þetta á allt eftir að lagast þegar líður á undirbuningstímabilið en tveir undanfarnir leikir hafa verið lítil skemmtun fyrir stuðningsmenn Liverpool. Nokkrir leikmenn eru lofandi en vinstri bakvörðurinn Larouci og Kent fannst mér standa uppúr. Jones var ágætur en Brewster hvarf algerlega allan seinni hálfleikinn og er það áhyggjuefni. VvD var ferlega ryðgaður en ég hefi engar áhyggjur af honum. Annars hlakka ég bara til þegar Salah, Firmin og og Mané koma þó langt sé i Mané þá kemur hann fyrir rest.

    Það er nú þannig

    YNWA

    5
  2. gott að þú nefndir Kent. Þessir strákar sem eru búnir að vera í láni geta verið á við góð leikmannakaup ef þeir hafa burði til að spila í ensku úrvalsdeildinni án þess að það bitni mikið á gæðum Liverpool.

    Ég held að einhverjir af þessum strákum fái séns og Klopp telji þá nægjanlega góða til að spila fyrir Liverpool. Það er megin ástæða fyrir rólegheitum á leikmannamarkaðnum. Það er nú einu sinni að þeir eru ekki stór nöfn og því eðlilegt að við sem sjáum þá ekki spila dags daglega höfum áhyggjur af því að þetta gætu verið mistök hjá Liverpool að berjast um bestu bitana á markaðnum í þessum sumarglugga.

    2

Sevilla – leikþráður

Gullkastið – Pre-Season Power Ranking