Úlfarnir heimsóttir í bikarnum

Ay, here we are with problems at the top of the league

– Bill Shankly

Jú svona má lýsa stöðunni eftir leikinn á fimmtudaginn, a.m.k. ef marka má ákveðna aðdáendur. Sem betur fer er þetta álit nú í miklum minnihluta, og langflestir aðdáendur Liverpool njóta þess að vera á toppnum í deildinni þegar hún er rúmlega hálfnuð.

En nú vendum við okkar kvæði í kross, og beinum athyglinni að bikarkeppninni. Þegar dregið var í henni núna fyrir áramótin fengu hinir rauðklæddu það hlutskipti að heimsækja Úlfana, í annað skipti á skömmum tíma, þar sem liðin mættust jú í deildinni á vetrarsólstöðum.

Þá er líka vert að minnast þess að liðin mættust í téðri bikarkeppni fyrir tveim árum. Það var í lokin á hörmulegu tímabili í janúar þar sem nánast allt gekk á afturfótunum, og því lítil ástæða til að rifja þann leik upp, ekki nema þá helst fyrir þær sakir að Jón Daði Böðvarsson kom inn á í þeim leik.

Þar að auki er óhætt að fullyrða að leikmennirnir sem muni ganga inn á völlinn á mánudaginn verði allt aðrir en þeir sem gengu inn á Anfield fyrir tveim árum. Jú, það er svosem ekki ólíklegt að scouse-arinn Conor Coady verði aftur í liði Wolves, og af okkar mönnum erum við ennþá með í okkar þjónustu (og leikfæra) þá Wijnaldum, Firmino, Origi, Woodburn, Moreno og Ejaria sem kom til baka úr láni frá Gerrard og félögum hjá Rangers núna á dögunum. En meira um það á eftir.

Úlfarnir

Úlfarnir hafa staðið sig með miklum ágætum á leiktíðinni eins og Ingimar tók fyrir í upphitun fyrir leikinn núna í desember. Liðið var virkt á leikmannamarkaðinum í sumar, og bætti við sig allnokkrum leikmönnum eins og t.d. Rui Patricio sem kom frá Sporting Lisbon í kjölfar árásar sem var gerð á leikmenn liðsins í vor, Adama Traoré sem kom frá Middlesbrough, og er af mörgum talinn hraðasti leikmaðurinn í deildinni, og ýmsir fleiri. Þessi kaup þeirra í sumar hafa gert það að verkum að liðið er nú búið að taka stig af öllum toppliðunum. Tja, nema einu.

Þeir þurfa ekki að hugsa um neinar aðrar keppnir, eru hvorki í meistaradeildinni né Evrópukeppninni, og duttu út úr deildarbikarnum í september með tapi gegn Leicester í vítakeppni þar sem Danny okkar Ward varði þrjár spyrnur. Næsti leikur þeirra í deildinni er á mánudaginn eftir viku, og þá gegn City á Etihad. Það eru því ágætar líkur á því að þeir stilli upp annaðhvort sínu sterkasta liði eða nálægt því.

Liverpool

Þá að okkar mönnum. Samkvæmt Klopp þá eru Gomez og Matip ennþá frá, þó það styttist óðum í að þeir verði leikfærir. Það verður að teljast afar líklegt að þeir leikmenn sem mest hefur mætt á upp á síðkastið fái að hvíla á mánudaginn, því ef ekki í þeim leik, þá veit maður ekki hvenær sú hvíld ætti að koma. Framundan er hörkubarátta í deildinni, sem og tveir gríðarlega mikilvægir leikir gegn Bayern í lok febrúar og byrjun mars, og mikilvægt að vera ekki með dauðþreytt aðallið á næstu vikum. Klopp staðfesti á blaðamannafundinum fyrir leik að Mignolet fái sénsinn milli stanganna, jafnvel þó svo að Alisson sé auðvitað eins fjarri því að þurfa hvíld eins og mögulegt er. Af leikmönnunum sem léku fyrir tveim árum og eru taldir upp hér að ofan, þá telst Woodburn ennþá vera á láni hjá Sheffield United, jafnvel þó svo hann hafi kíkt heim af og til og spilað með U23 liðinu. Það er því afar ólíklegt að við munum njóta hans krafta á mánudaginn. Ejaria er vissulega kominn til baka, en ef maður þekkir Klopp rétt þá er hann aldrei að fara að setja í byrjunarliðið leikmann sem er nýkominn til baka úr misheppnuðu láni. Moreno verður líka í byrjunarliðinu ef eitthvað er að marka áðurnefndan blaðamannafund, og því lítur út fyrir að þetta blaður hans í fjölmiðlum fyrir skemmstu hafi ekki haft neikvæð áhrif á möguleika hans á að byrja. Svo erum við með leikmenn sem hafa verið á bekknum upp á síðkastið: Keita, Lallana, Origi, Sturridge. Það væri ekki ólíklegt að við fengjum að sjá þá alla á mánudaginn. Solanke og Clyne eru auðvitað farnir, svo ekki koma þeir við sögu.

Þá er það spurningin um ungviðið. Curtis Jones er búinn að vera að banka fast á dyr aðalliðsins síðustu vikur og mánuði, án þess að hafa fengið sénsinn á bekknum, en nú gæti hans tækifæri verið komið. Ég spái því að hann verði að minnsta kosti á bekk, og jafnvel í byrjunarliðinu. Rafa Camacho hefur verið að minna á sig, og gæti líka vel komið við sögu. Miðverðirnir okkar, þeir Conor Masterson og Nat Phillips hafa báðir verið að glíma við meiðsli og ekki alveg ljóst hvernig staðan á þeim er, ég ætla að leyfa mér að efast um að þeir komi við sögu, því ég held að Klopp vilji alltaf spila mönnum sem hafa verið að æfa með aðalliðinu í talsverðan tíma. Það væri því ekki ólíklegt að við sæjum t.d. Lovren og Fabinho taka miðvarðarstöðurnar. En svo gæti líka vel verið að Klopp gefi hinum 16 ára Ki-Jana Hoever tækifæri á að verða yngsti leikmaður sem spilað hefur fyrir Liverpool í bikarnum, og sá þriðji yngsti til að spila fyrir klúbbinn í öllum keppnum. Hoever verður 17 ára núna síðar í janúar, er fæddur árið 2002, sem þýðir að hann var rétt nýskriðinn í grunnskóla þegar Geir Haarde bað Fowler að blessa Ísland. Alexander-Arnold var vissulega 17 ára þegar hann fékk sénsinn, svo það væru alveg fordæmi fyrir slíku. Hoever þykir ekki ósvipaður Virgil á velli, stór og stæðilegur. Hann kom til liðsins í ágúst, byrjaði fyrst með U18, en var svo færður yfir í U23, og hefur svo verið að æfa með aðalliðinu í einhverjar vikur. Hann gæti spilað í miðverði en einnig í annarri hvorri bakvarðarstöðunni.

Að lokum er alveg séns að við sjáum leikmenn eins og Bobby Duncan og fleiri koma eitthvað við sögu, en ég myndi þó telja það ólíklegt.

Af öllu framansögðu, þá ætla ég að spá liðinu svona:

Mignolet

Camacho – Lovren – Hoever – Moreno

Lallana – Jones – Keita

Origi – Sturridge – Shaqiri

Þetta er að sjálfsögðu mjög mikið skot í myrkri, og það kæmi líka alls ekkert á óvart þó Klopp myndi ekki henda þetta mörgum óvönum inn í byrjunarliðið, sérstaklega í ljósi þess að varnarlínan væri þarna ekki bara óvön að spila saman heldur líka mjög ung. Þetta verður sjálfsagt allt ákveðið í samráði við læknateymi liðsins og með líkamlegt ástand aðalliðsmanna í huga. En svo maður vitni enn og aftur í blaðamannafundinn hjá Klopp, þá sagði hann þar að hann hreinlega yrði að gera breytingar, og því bara spurning hve langt hann mun ganga í þeim.

Ef leikurinn endar með jafntefli þarf að spila aftur, og við erum með litla þolinmæði fyrir slíku hér á bæ eins og Einar Matthías hefur reynt að berja inn í hausinn á fólki minnst á lítillega í hlaðvörpum síðunnar. Við skulum því spá því að liðið merji 1-2 sigur, með mörkum frá Origi og Shaqiri.

KOMA SVO!

9 Comments

 1. The sale of Dominic Solanke means #LFC’s net spend is now just £1m in profit since 2014.

 2. Sælir félagar

  Já nettó eyðsla LFC er þannig að það verður að laga. Þrátt fyrir góða stöðu á mannskapnum þarf lítið að gerast til að hópurinn verði anzi þunnur af klassa byrjunarliðsmönnum. Clyne gæti talist til þess hóps og Solanke var við það að vera í þeim klassa. Nú hefur hópurinn þynnst sem þeim nemur og um leið og ég þakka þeim þeirra framlag þá vona ég að eitthvað verulega bitastætt komi inn.

  Um þessar mundir er ekki ástæða til að vera taka áhættu á kjúklingum – nema ef til vill í bikarkeppninni. En munum að Úlfarnir eru alvöru lið og hjá þeim fáum við ekkert gefins. Þannig að það er spurning á hvað Klopp ætlar að leggja áherslu. Krafan í ár er bikar. Bikar af einhverju tagi hvort sem er FA bikar, Meistaradeildarbikar eða bikar allra bikara sem sigur í efstu deild á Englandi gefur. Hann þrái ég mest af öllu og vil leggja allt annað til hliðar fyrir hann.

  Það er nú þannig

  YNWA

 3. Sennilega munu einhverjir kjúklingar fá leik gegn Úlfunum. En spurning hve margir og hvort Klopp vill vinna þennan leik eða falla úr þessarri keppni eins og úr Deildarbikarnum í haust. FA bikarinn er “þægilegur” að því leiti að ef lið sigra hvern leik fyrir sig í venjulegum leiktíma, og ekkert vítaspyrnurugl, er hægt að komast í úrslit á tiltölulega fáum leikjum, held 6 með úrslitaleik. Líka er hægt að fá lið úr neðri deildum sem eru oft léttari andstæðingar. (Deildarbikarnum er líka með 6 leiki eins og FA). Það eru fáir leikir ef miðað er við CL þar sem leikirnir eru minnst 13 þeas ef lið byrja í riðlakeppninni. Það eru alltof margir leikir að mínu mati.
  Gaman verður að sjá hvernig stillt verður upp.

 4. ps. ef ég ætti að velja á milli FA og CL myndi ég frekar vilja FA bikarinn í ár, takk fyrir.

 5. Ég held að Klopp verði með sterkara lið en marga grunar, það kæmi mér ekkert á óvart að sjá bæði Van Dijk og Lovren í liðinu með Moreno og Hoever / Camacho í bakvörðunum. Svo myndi ég giska á einn ungann framar á vellinum ásamt Sturridge, Origi, Lallana, Shaqiri og Keita.

 6. Liðið er að keppa af alvöru í tveimur erfiðustu bikurum heims. FA cup er tímasóun. Leyfa bekknum að spreyta sig. Ef við komumst áfram er það í lagi. En tala um þessa dollu umfram góðan árangur í EPL eða UCL er firra.

 7. Ég er ekki sammála um að FA cup sé tímasóun. Þetta er bikar og mig langar að við vinnum svoleiðis. Ég vill sjá sterkt lið í þessari keppni svo við getum unnið Úlfana. Þó svo að við hvílum Alisson þá eigum við Mignolet. Hann verður í markinu, svo TAA, lovren, VVD og Moreno,
  Miðjan verður Keita, Fabinho, Henderson, frammi verða Sturridge, Origi og einn af skyttunum þremur.

 8. Sammála #7. Fa cup er stór bikar og stuðningsmenn vilja hann. Ég hefði nù haldið að metnaður klùbbsins sé að vinna the treble. Öss, er maður kominn fram ùr sér ì bjartsýni…heldur betur…top of the league!

  Það verður ròterað en ekki 2 til 4 kjùllar. Sé alveg fyrir mér Milner ì hægribak, Lovren og Fabinho ì miðverði, Moreno vælandi ì vinstribak. Miðjan Keita, Lallana og Shaq. Frammi Studge, Origi og Mane. Salah og Bobby graðir á bekknum ef á þarf að halda.

 9. Mig langar ekki að hljóma neikvæður en það verður bara svo að vera, en fyrir mér er það morgunljóst að ef Moreno spilar og VVD ekki við hliðina á honum til að bjarga málum! þá erum við út úr þessari keppni því Migno er ekki að fara bjarga neinu þarna í markinu nema með sterka vörn fyrir framan sig.
  Öll framlínan hjá Úlfunum leit illa út í deildarleiknum á móti okkur og er það bara vegna þess að besti leikmaður Liverpool VVD var með þessa fljótu kalla þeirra algjörlega í gjörgæslu og bara þess vegna fengu þeir allir 5 í einkunn fyrir þann leik ! ekki lélegir heldur lentu á varnarmúr sem þeir réðu ekkert við.
  Mikið vona ég samt að ég hafi rangt fyrir mér því ég held að það sé sálrænt séð ekki gott að tapa 2 leikjum í röð fyrir liðið.

Dominik Solanke til Bournemouth

Kvennaliðið fær Brighton í heimsókn