West Ham á morgun!

Annað kvöld heimsækja okkar menn í Liverpool botnlið West Ham United í tuttugasta og fimmta deildarleik tímabilsins, í leik sem gæti orðið mjög áhugaverður. Eins og menn muna mættust þessi lið í bikarúrslitaleiknum í maí 2006 og þá voru Hamrarnir aðeins örfáum sekúndum frá sigri áður en ofurmark Steven Gerrard jafnaði metin, og Liverpool vann svo í vítaspyrnukeppni.

Í haust mættust liðin á Anfield þar sem glæsimark Daniel Agger bar helst til tíðinda í skyldusigri Liverpool. Miðað við framgöngu Gerrard og Agger í síðustu tveimur leikjum gegn Hömrunum er eðlilegt að maður spyrji sig hver ætli að skora glæsimark leiksins á morgun? 🙂

Annars hefur mikið gengið á hjá Hömrunum í vetur, og sem Íslendingar vitum við þetta allt og ég þarf ekkert að rifja upp. Þeir eru í fallsæti, Eggert kaupir liðið, Pardew er rekinn og Curbishley ráðinn, þeir vinna Man U í fyrsta leik Curbishley en eru enn í fallsæti tveimur mánuðum síðar, töpuðu á heimavelli fyrir Watford um helgina og eru úr leik í bikarnum, stálu Lucas Neill undan nefjum Liverpool með lyktinni af peningabúnti, og svo framvegis.

Af augljósum ástæðum, þá er þetta skyldusigur fyrir okkar menn sem eru heitasta liðið í ensku Úrvalsdeildinni síðustu tvo mánuðina. Liðið hefur tapað aðeins einum af síðustu tólf leikjum í Úrvalsdeildinni og gert tvö jafntefli, unnið níu, og markatalan í þessum tólf deildarleikjum er 23-1. Á sama tíma og okkar menn hafa halað inn heil 29 stig í tólf leikjum hafa West Ham aðeins halað inn níu stig í síðustu þrettán deildarleikjum, og eru með markatöluna 8-24 í þessum leikjum. Þannig að tölfræðin segir okkur greinilega að West Ham eiga ekki að hafa séns í okkar menn annað kvöld.

Þó er önnur forvitnileg tölfræði sem gerir mig eilítið stressaðan. Þann fimmta nóvember síðastliðinn unnu West Ham 1-0 baráttusigur á Arsenal á Upton Park, í frægum leik þar sem Arsene Wenger og Alan Pardew rifust heiftarlega í leikslok. Pardew var svo rekinn fljótlega í kjölfarið og Alan Curbishley tók við, og í fyrsta leik sínum vann hann Man U á Upton Park, 1-0, þann sautjánda desember. Þannig að þótt þetta West Ham-lið sé búið að vera grútlélegt í vetur og í bullandi fallbaráttu er engin spurning að þeir hafa hæfileikann til að lyfta sér aðeins á hærra plan á heimavelli gegn stóru liðunum, og sem slíkir eru þeir sýnd veiði en alls ekki gefin.

Hjá okkar mönnum eru aðeins langtímameiddir menn frá; Luis García, Harry Kewell, Momo Sissoko og Bolo Zenden eru fjarri en þeir þrír síðarnefndu eru víst óðfluga að ná heilli heilsu. Byrjunarliðið sem vann Chelsea svo sannfærandi fyrir níu dögum er allt heilt heilsu en ég hugsa að Rafa hafi stórleikinn sem framundan er um næstu helgi, við Everton á Anfield, til hliðsjónar og geri eina breytingu á því liði.

Eins og við vitum virðist Rafa frekar vilja nota Peter Crouch á Anfield, gegn liðum sem liggja aftarlega og reyna að pakka í vörn, á meðan Craig Bellamy er kjörið vopn á útivelli gegn liðum sem reyna að pressa okkur og skora. Annað kvöld geri ég fastlega ráð fyrir góðri stemningu á Upton Park og að heimamenn selji sig grimmt til að ná í annan baráttusigur gegn stórliði, og því er nánast pottþétt að Bellamy mun byrja inná. Að öðru leyti verður liðið óbreytt:

Reina

Finnan – Carragher – Agger – Aurelio

Pennant – Gerrard – Alonso – Riise

Bellamy – Kuyt

Bekkur: Dudek, Hyypiä, Gonzalez, Fowler, Crouch.

Ef þessi spá gengur eftir hjá mér getum við fastlega búist við því að Crouch og kannski Gonzalez líka taki stöður Bellamy og Aurelio í nágrannaslagnum um helgina, en ég býst fastlega við að sjá þetta byrjunarlið annað kvöld.

Hjá Hömrunum eru spurningarmerki yfir þátttöku Lucas Neill, sem er víst eitthvað lítillega meiddur (greyið) og fyrirliðans Nigel Reo-Coker sem hefur ekki átt sjö dagana sæla síðan Eggert réði Curbishley. Þá er Carlos Tevez eitthvað tæpur en fastlega er búist við að Javier Mascherano verði í hópnum á morgun, þrátt fyrir að bíða eftir leyfi til að ganga til liðs við Liverpool. Efast þó einhvern veginn um að Curbishley muni láta hann spila í þessum leik, en maður veit aldrei.

MÍN SPÁ: Þótt þetta West Ham-lið sé stemningslið verð ég að fylgja skynseminni, og hún segir mér að við eigum að vera allt of sterkir fyrir þetta West Ham-lið. Vörnin okkar heldur á morgun og við vinnum 1-0 eða 2-0 skyldusigur, vonandi án meiðsla eða annarra áfalla svo að Rafa hafi úr öllum mannskapnum að velja fyrir stórleik helgarinnar.

Áfram Liverpool!

6 Comments

  1. Þetta West Ham er ágætlega mannað lið og búið að bæta í hópinn fínum leikmönnum. Hins vegar virðist liðið ekki virka sem ein heild og þess vegna er mikill óstöðugleiki í leik liðsins. Þeir hafa undanfarið misst niður forystu í leikjum á skömmum tíma en einnig komið tilbaka þegar þeir hafa lent undir.

    Tapið geng Watford hlýtur að hafa verið mikið áfall fyrir Curbisley, Egger og co. og þess vegna gæti þessi leikur orðið ákveðinn vendipunktur hjá West Ham. Ég vona ekki og það er er rétt sem Kristján segir að við erum með mun betri mannskap og undir eðlilegum kringumstæðum vinna þennan leik.

    Ég veðja á 1-2 sigur okkar manna þar sem West Ham nær forystunni í leiknum með marki frá Carlton Cole. Gerrard og Bellamy skora fyrir okkur.

  2. >Liðið hefur tapað aðeins einum af síðustu tólf leikjum í Úrvalsdeildinni og gert tvö jafntefli, unnið níu, og markatalan í þessum tólf deildarleikjum er 23-1

    Rekum Rafa!

  3. Þetta gæti orðið spennandi leikur fyrir margar sakir. Það verður til dæmis gaman að sjá hvernig öll þessi kaup hjá West Ham ná að smella saman, þ.e. þeir sem komast strax í byrjunarliðið. Eitt er samt víst, ekki fáum við að heyra viðtökur Liverpool stuðningsmanna á Lucas Neill þar sem hann er víst meiddur og spilar ekki með á morgun! Það er alla veganna skarð fyrir skildi fyrir Hamranna.

  4. Já nákvæmlega Einar svo á Chelsea Blackburn á brúnni en Blackburn geta nú strítt þeim og tekið af þeim stig;)

Hvað á að gera við Momo?

Sissoko og Zenden með gegn Everton?