Latest stories

  • Upphitun: Heimsókn til Gylfa og félaga!

    Athugasemd: Tæknin hefur verið að stríða okkur all hressilega í dag. Síðan en blessunarlega komin upp aftur en öll plugin eru óvirt. Það stendur til bóta sem fyrst en áður en tími gefst til að finna út úr því setjum við inn upphitun Ingimars sem hann birti á Facebooksíðu Kop.is. 


    Í gær var ég að leiðsegja breskum hóp og spurði í hálfkætingi hvort einhverjir Everton menn væru í hópnum. Ein stelpan rétti upp hönd, hálfskömmustuleg, ég sagði að það væri leitt að heyra. Við grínuðumst aðeins um fótbolta, Liverpool og Gylfa. Mér fannst sanngjarn að spyrja hana hvort hún hefði einhver skilaboð til lesenda kop.is.

    „Time for another slip up“ sagði hún glottandi og ég sá eftir að hafa lofað að prenta svarið hennar óritskoðað.

    Á morgun mætast Liverpool og Everton í tvöhundruðþrítugastaogþriðja sinn. Everton hefur ekki unnið grannaslaginn síðan í október 2010, Jakielka og Baines voru þá í byrjunarliðinu, og það eru 22 ár síðan Liverpool heimsótti Guttagarð undir lok titilatlögu. Það var 1997, þegar Liverpool gat náð toppsætinu þegar fjórir leikir voru eftir. Leikurinn fór 1-1 og ekkert varð úr að Liverpool kláraði það mót efstir.

    Þjálfarar bæði Liverpool hafa talað um að þessi leikur sé eins og úrslitaleikur heimsmeistaramótsins. Það myndi ekkert kæta Everton menn meira en að koma höggi á titilvonir okkar manna. Eins og ferðamaðurinn orðaði það við mig í gær: „If Liverpool win the league, I can‘t visit my home for about five years.“

    Everton

    Síðan Origi vann kraftaverkið á Anfield hefur tímabilið farið til fjandans hjá bláa helmingi Liverpool. Þeir unnu einn leik af sjö í desember, tvo af sex (annan í bikarnum) í janúar og einn af fjórum í febrúar. Algjört hrun, sem útskýrist líklega að einhverju leiti að hópurinn er ekki nógu breiður fyrir desember brjálæðið á Englandi og svo er liðið búið að vera lengi að ná sér í gangi eftir það.

    Silva er einn af þjálfurunum sem er með mjög ákveðnar hugmyndir um hvernig á spila og þarf tíma til að láta þær ganga upp. Hann vill spila 4-2-3-1, hann leggur meiri áherslu á varnarleik en margir ungir þjálfarar og spilar með kantmenn sem falla djúpt til baka þegar liðið verst. Liðið pressar ekki jafn stíft og til dæmis Liverpool og Spurs, en reyna frekar að velja réttu augnablikin til að pressa og ná boltanum. Þegar boltinn næst bruna vængmennirnir upp völlinn og reyna að skapa hættu.

    Málið er að það tekur tíma að láta svona kerfi ganga upp og Silva er ekki búin að hafa nægan tíma til að þjálfa kerfið í leikmannahópinn almennilega. Vandamál Everton í ár eru í raun bara tvö: Þeir eru ekki nógu góðir í vörn, né nógu góðir í að skora. Almennt hefur Silva byggt lið sín á traustum varnaleik, þeir eru bara búnir að halda hreinu sjö sinnum í vetur. Gylfi er búin að skora ellefu í deildinni í vetur, sem er mjög gott hjá miðjumanni. Richarlison er með 10 en aðrir leikmenn hafa skorað lítið sem ekkert. Theo Walcott er t.d. bara með 3 mörk í vetur og Calvert-Lewin, aðal sóknarmaður liðsins, er með 5.

    En ekkert af þessu skiptir máli á morgun. Þetta er grannaslagur og form liðanna skiptir voða litlu, þetta verður stríð.

    Þegar Everton spilaði við Cardiff í vikunni var það eftir 17 daga pásu og spurning hvort Silva haldi sig við eins óbreytt lið og hann getur. Baines er að glíma við meiðsli en Jagielka kom inn í liðið gegn Cardiff og spilaði bara vel. Það voru fleiri spurningamerki við að Schneiderlin kæmi inn í liðið, margir hreinlega búnir að gleyma að hann væri til. Ég ætla að spá að Gomes taki sæti hans í byrjunarliðinu en annars verði liðið óbreytt.

    Okkar menn

    Manchester City tók þrjú stig af Bournemouth og endurheimti þar með toppsætið. Þessi blessaða titilbarátta ætlar að verða sú mest spennandi í mörg ár og engin skekkjumörk hjá okkar mönnum.

    Eina alvöru spurningamerkið er hvort Firmino sé orðin alveg heill og þá hvort að hann byrji leikinn. Ætla að spá því að hann verði í besta falli á bekknum, ekki teknir neinir sénsar. Aðrir leikmenn sem eru á meiðslalista er Brewster, Lovren, Chamberlain og Gomez

    Varnarlínan segir sig sjálf og ef Firmino er úti finnst mér lang líklegast að við förum í sömu sóknarlínu og á móti Watford, Salah og Origi á köntunum og Mané upp á topp.

    Miðjan hinsvegar, hver veit? Fabinho er fyrsti maður á blað þar hvað mig varðar, Milner og Wijnaldum voru frábærir gegn Watford en held að Klopp róteri aðeins. Spurningin hvort Henderson eða Keita komi inn fyrir Milner. Ætla að giska á fyrirliðann og þá lítur liðið svona út:

    Spáin

    Ég get ekki sú hugsun til enda að Everton taki stig af Liverpool í þessum leik. Það skiptir þá voða litlu hvort þeir endi í áttunda eða fjórtánda sæti, þeir hafa að því einu að keppa í vetur að skemma fyrir okkar mönnum. Goodison er búin að vera frekar sofandi í vetur en stúkan mun vakna fyrir þennan leik og hávaðinn verður gríðarlegur.

    En Liverpool eru bara með miklu betra lið en Everton. Ég ætla að spá því að rauðu hetjurnar klári þetta 2-0, með mörkum frá Salah og Mané.

    KOMA SVO!
    Ingimar

  • Liverpool 5-0 Watford

    1-0 Mané (9 mínútu)

    2-0 Mané (20. mínútu)

    3-0 Origi (66. mínútu)

    4-0 Van Dijk (79. mínútu)

    5-0 Van Dijk (82. mínútu)

    Það voru margir óttaslegnir þegar liðsuppstillingin var opinberuð í dag og kvörtuðu undan sköpunarleysi en leikmenn liðsins voru greinilega búnir að fá sig fullsadda af markaleysi síðustu leikja og mættu af fullum krafti í þennan leik. Við komumst yfir eftir aðeins níu mínútna leik þegar Trent átti góða fyrirgjöf inn í teiginn þar sem Sadio Mané stökk manna hæst og stangaði boltan í netið. Ellefu mínútum voru svo sömu menn aftur á ferð en Trent stakk boltanum inn á Mané sem hefði verið kominn einn á móti markmanni en fyrsta snertingin sveik hann og hann missti boltan í burtu frá markinu. Hann lét það ekki á sig fá, heldur stökk han á eftir boltanum með Foster í bakinu og lyfti boltanum yfir hann með fallegri hælspyrnu og kom liðinu í 2-0. Masina, vinstri bakvörður Watford, átti mjög erfiðan fyrri hálfleik en Mo Salah lék sér að honum á tímum og var nokkrum sinnum nálægt því að bæta í forustuna en því miður tókst það ekki og endaði því fyrri hálfleikur 2-0 fyrir Liverpool.

    Það tók Liverpool síðan tuttugu mínútur að skora í seinni hálfleik. Divok Origi fékk þá boltan rétt vinstra megin við vítateiginn og tók á rás inn á teig með þrjá varnarmenn fyrir framan sig en enginn þeirra virtist vilja mæta honum svo hann hlóð bara í skot og hamraði boltanum á nærstöngina og gerði nánast út um leikinn. Besta tækifæri Watford manna kom næst og var það frekar líkt marki Leicester í 1-1 jafntefli liðanna fyrir nokkrum vikum. Robertson gerðist brotlegur úti á kanti fyrirgjöfin var hreinsuð en Masina skallaði boltan aftur inn á teig þegar varnarlína Liverpool var að pressa út en Trent spilaði André Grey réttstæðan en Alisson varði boltan aftur fyrir.

    Til að toppa allt þá náðið liðið einnig að vera hættulegt úr föstum leikatriðum því á 79. mínútu var brotið á Adam Lallana og Trent tók aukaspyrnunna beint á ennið á Virgil Van Dijk sem stýrði boltanum í netið. Mark sem maður bjóst við að sjá reglulega þegar Van Dijk samdi við liðið en föstu leikatriðin ekki verið upp á marga fiska til þessa. Nokkrum mínútum síðar áttum við aðra aukaspyrnu sem fór ekki alveg jafnvel en náðum að endurheimta boltan og koma honum á Robertson sem kom með aðra fyrirgjöf sem Virgil Van Dijk skallaði í netið og kláraði markaskorun Liverpool í leiknum.

    Bestu menn Liverpool

    Úff, oft hefur verið auðveldara að velja en ég fagna því þegar flest allir geta gert eitthvað tilkall til þess að vera maður leiksins. Mané virtist ætla að heimta þennan titill þegar hann setti fyrstu tvö mörk leiksins og leit mjög vel út spilandi sem fremsti maður, Mo Salah vaknaði til lífsins eftir tvo dapra leiki, Van Dijk setti tvö mörk og hélt Troy Deeney alveg niðri, Fabinho var mjög öflugur á miðjunni en maður leiksins hlýtur að vera Trent Alexander-Arnold sem lagði upp þrjú af fimm mörkum liðsins og var yngsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar til að leggja upp þrjú mörk í sama leiknum. Ótrúlegt hvað drengurinn er orðinn öflugur!

    Slæmur dagur

    Þá kannski helst Masina sem átti mjög erfiðan dag gegn Liverpool en ef ég þyrfti að velja okkar megin þá yrði það líklega Daniel Sturridge sem var líklegast að missa af öllum möguleikum á mínútum með góðri frammistöðu Origi í dag.

    Umræðupunktar

    • Mörk, mörk og aftur mörk, það er bara svo miklu skemmtilegra að horfa á fótboltaleiki þar sem mörk eru skoruð og mjög jákvætt að sjá Mané og Salah aftur svona spræka
    • Trent að sýna hvað hann er öflugur, vona að það hafi verið vegna meiðslanna sem hann var á bekknum um síðustu helgi.
    • Tottenham tapaði enn og aftur í dag og sagði að öllum líkindum bless við titilbaráttuna
    • City náði að leggja West Ham af velli 1-0 úr vítaspyrnu. Fótbotlinn er gullfiskur og allt í einu, eftir alla dómsdagaspár síðustu daga erum við in-form liðið í titilbaráttunni.

    Næst mætum við grönnum okkar í Everton á sunnudaginn. Þeir náðu loks að spyrna við í gær og unnu Cardiff 3-0, það er einmitt liðið sem Watford gekk frá um síðustu helgi svo vonandi sjáum við Liverpool liðið sem mætti í dag á Guttagarði á sunnudaginn!

  • Byrjunarliðið gegn Watford

    Þá er byrjunarliðið dottið inn fyrir Watford leikinn í kvöld og lítið þar sem kemur á óvart. Firmino er ekki með eins og búist var við og Henderson fer einnig á bekkinn enda spilar hann sjaldan marga leiki í röð og grannaslagur um helgina.

    Alisson

    Trent – Matip – Van Dijk – Robertson

    Wijnaldum – Milner – Fabinho

    Salah – Origi- Mané

    Bekkur: Mignolet, Keita, Henderson, Lallana, Shaqiri, Sturridge, Camacho.

    Áhugavert að sjá að Origi fær byrjunarliðssætið fram yfir Shaqiri sem flestir vildu sjá koma inn. Það þýðir þá líklega að Salah verður áfram úti hægra megin og Origi fær það gríðarstóra verkefni að fylla í skarð Bobby Firmino.

    Hefði sjálfur verið til í að sjá Keita byrja frekar en Milner í dag þar sem Keita hefur verið að vaxa undanfarið en treysti Klopp fullkomlega fyrir þessu og nú er um að gera að sækja þrjú stig í kvöld!

    Lið Watford í dag er svo eftirfarandi: Foster, Janmaat, Mariappa, Cathcart, Masina, Capoue, Hughes, Doucoure, Pereyra, Deulofeu, Deeney

  • Gullkastið – Toppsætið endurheimt á Old Trafford

    Andi Mourinho sveif ennþá yfir Man Utd á Old Trafford um helgina í hrútleiðinlegum leik. Rétt eins og Bayern pakkaði United í vörn og komst allt of léttilega upp með það. Það var nóg annað að frétta í þessari viku, Kepa bjargaði deildarbikarnum, Rodgers er mættur aftur í Úrvalsdeildina og Tottenham tapaði stigum. Liverpool á svo tvo leiki framundan á mjög skömmum tíma.

    Bendum á að Upphitun fyrir Watford er hér í færslunni fyrir neðan

    00:00 – Gott stig en illa farið með gott tækifæri
    39:10 – Kepa bjargaði helginni
    51:40 – Brendan Rodgers mættur aftur til Englands
    59:00 – Leikir gegn Watford og Everton framundan

    Stjórnandi: Einar
    Viðmælendur: SSteinn, Maggi og Maggi Þórarins (Beardsley)

    MP3: Þáttur 229

  • Upphitun: Watford mætir á Anfield

    Örlög mín virðast sú að hita upp fyrir Elton John og gulröndóttu vini hans í Watford. Á öðru tímabili mínu hjá Kop.is þá er ég að taka mína þriðju upphitunaratrennu að liðinu frá Hertfordskíri. Jómfrúarskrifin um John Barnes ásamt Íslendingarbókarsafnfærslu um herra Helguson hljóta að gera mig að sérfræðingi um Watford að meðaltali og miðað við höfðatölu.

    Ég þruma því í þriðja gang í þokkalega færslu um teinótta býfluguliðið frá höfuðborginni.

    Mótherjinn

    Watford geta mætt til leiks á Anfield með ansi mikið sjálfstraust og kokhraustir. Ekki það að þeim hafi gengið vel á þessum guðdómlega grasbletti í Liverpool enda er þeirra record þar alger hörmung (eingöngu unnið einn leik á Anfield í sinni sögu). Ástæðan fyrir því að þeir geta mætt vel stefndir er sú að frá 10. desember að þá hefur Watford náð mikilli upprisu með flottum úrslitum og á köflum spilað hörkugóðan fótbolta. Það hefur skilað þeim 8 sigrum í síðustu 15 í öllum keppnum og bara 2 tapleikjum sem á þeirra mælakvarða og jafnvel Ole Gunnars mælikvarða er fjandi gott. Sjöunda sætið er þeirra og það er efsta sætið sem er í boði á eftir topp 6 sérdeildinni í Premier League.

    Við erum því annan leikinn í röð að mæta liði í deildinni á kolröngum tíma miðað við leikform andstæðingsins og allt það. En þannig er það bara. Stundum er betra að hafa vindinn með sér en það er líka oft hressandi að hafa hann beint í fangið. Við skulum þó gera ráð fyrir hefðbundnum aðferðum aðkomuliðs á Anfield þar sem að rútubílstjórinn verður í aðalhlutverkið við það að bakka bössinum beint fyrir markið. En sem klassískt enskt miðjumoðslið í ensku úrvalsdeildinni þá eru hinir gulröndóttu eitraðir í skyndisóknum og stunda upphlaup á vinnustöðum betur en íslenskir verkalýðsleiðtogar. Það verður því þungur róður í vinnunni hjá Rauða hernum og einbeitingar er krafist í nærveru 3 stiga hjá liði sem vill halda toppsætinu.

    Vinstri bakvörðurinn José Holebas verður í banni hjá Watford og þar er skarð fyrir skyldi enda með þeirra bestu mönnum í vetur en að öðru leyti eru þeir í góðum gír með sitt sterkasta lið. Javi Gracia mun því að öllum líkindum segja gracias og stilla upp sterku liði líkt og hér má sjá:

    Líklegt byrjunarlið Watford í leikkerfinu 4-4-2-0

    Liverpool

    Heimamenn mæta til leiks á miðvikudagskvöld með 1 stigs forskot á toppi deildarinnar og með tækifæri til að halda því ágæta sæti í það minnsta í eina ögurstundu lengur. Miðað við viðbrögð sumra stuðningsmanna þá mætti halda að Liverpool hefði skíttapað á Old Trafford síðasta hvíldardag og himnarnir væru að hrynja. Hins vegar skilaði hreint lak annan stórleikinn í röð okkur efsta sætinu og örlögin eru því enn í okkar höndum. Varnarjaxlinn og viskubrunnurinn Jamie Carragher lagði ágæta áherslu á þetta þegar hann sagði eftir leikinn að ef Liverpool tækist að vera enn á toppi deildarinnar á sunnudagskvöldið þá værum við í góðum málum eftir erfiðar tvær vikur.

    En til þess þarf að spila til sigurs á heimavelli og eftir varnarvinnslu síðustu leikja þá þarf sóknarleikurinn að stórbatna og koma þarf blessaðri blöðrunni í bláhornið. Ég geri ráð fyrir að til þeirra verka muni Klopp fá Keita inn á miðjuna og ég ætla að gerast svo djarfur að spá því að Lallana fái sénsinn einnig. Innkoma Adam í paradís yrði bæði til að hvíla okkar vinnusömu miðjumenn en einnig til að reyna að lífga upp á sóknarspilið. Þá ætti Trent Alexander-Arnold að fá hægri bakvarðastöðuna að nýju og Xherdan Shaqiri fær líklegast tækifæri vegna meiðsla Firmino. Ég hef einnig lúmskan grun um að Origi fái sénsinn en ætla ekki að leggja spádómsheiður minn að veðið fyrir slíkt enda verður hann líklegast sparaður fyrir 96. mínútuna á Goodison Park.

     

    Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

    Spakra manna spádómur

    Ég hugsa að leikmenn andi ögn léttari eftir álag og undirbúning fyrir tvo stóra leiki í röð. Vissulega ekki draumaúrslit í þeim en vel ásættanleg og heldur okkur í ágætri stöðu í báðum keppnum. Vonandi mun spennufallið virkja Rauða herinn til góðra verka og við fáum beittari sóknarleik með fleiri mörkum. Ég ætla því að vera brattur og bjartsýnn á að við náum að taka handbremsuna af og setjum í sóknargírinn á heimavelli. Mín spá er 3-0 sigur Liverpool og um mörkin munu sjá Mo Salah, Sadio Mané og Joel Matip.

    YNWA

  • Markalaust jafntefli á Old Trafford – Skýrsla

    „Fuc**** he**, what a sh** game“ – Jurgen Klopp við Óla Gunnar eftir leik.

    Það er ákveðin klisja um derby leiki um að maður nýtur þeirra ekkert sérstaklega á meðan þeim stendur. Hún var virkilega sönn um þennan leik. Ef þú hefðir boðið mér jafntefli fyrir leik hefði ég þegið það með þökkum, en eftir leikinn er maður bara með óbragð í munni.

    Leikurinn byrjaði á að Liverpool fékk óbeina aukaspyrnu inn í teig United. Eftir stutta sendingu Hendo negldi Milner boltanum í varnarmann United. Þetta reyndist besta færi í næstum hálftíma, en í millitíðinni gjörbreyttist leikurinn.

    Á tíundu mínútu byrjaði Marcus Rashford að haltra um völlinn, en hann var enga síður ekki einn af fjórum leikmönnum sem fóru út af meiddir í fyrri hálfleik. Á tuttugustu mínútu fór Herrera út af fyrir Pereira, fjórum mínútum seinna var það Mata sem vék fyrir Lingard, næstur var það Firmino sem haltraði af velli fyrir Sturridge og að lokum kláraði Lingard leik sinn og Alexis Sanchez kom inn á fyrir hann. Ég man ekki eftir öðru eins í einum hálfleik.

    Öll þessi meiðsli tóku taktinn úr leiknum. Þegar leið á hann færðu okkar menn sig upp á skaftið en það vantaði aftur og aftur síðasta boltann til að skapa hættuleg færi. Þrátt fyrir Liverpool væru meira með boltann voru það United menn sem áttu besta færið til að skora, þegar Lukaku laumaði boltanum gegnum vörn Liverpool á Lingard. Þá sýndi Alisson af hverju hann er heimsklassa markmaður, kom hlaupandi út í teiginn og náði að koma hendi á boltann áður en Lingard fór í kringum hann.

    Þegar seinni hálfleikur byrjaði vonaðist maður eftir að Liverpool myndu virkilega gefa allt í botn og klára leikinn. United voru vængbrotnir og rosalegt tækifæri til að sigra þá á þeirra heimavelli. Það gerðist ekki.

    Seinni hálfleikur var bara lélegur að hálfu Liverpool. Sóknarleikurinn hugmyndasnauður, engin ógn af miðjunni og Salah ósýnilegur. Ég hef sjaldan heyrt Old Trafford jafn háværan og í þessum leik og á meðan leikmenn United stigu upp og nutu sín í látunum, virtust okkar menn skreppa saman. Origi og Shaqiri komu inn á en ekki skánaði spilamennskan. Ég missti töluna á hversu oft okkar menn reyndu háa bolta inn í teiginn sem voru engin ógn og ekki eitt skot á ramman í seinni hálfleik.

    Þegar korter var eftir öskruðu allir stuðningsmenn Liverpool þegar Matip setti boltann eigið net, en sem betur fer var rangstæða dæmd á Shaw sem sendi fyrirgjöfina inn í markteig. United voru stórhættulegir í föstum leikatriðum í seinni hálfleik en sem betur fer virkaði rangstöðu gildra Liverpool í hvert skipti.

    Þessi seinni hálfleikur hefði getað varið fimm tíma langur, Liverpool hefðu ekki skorað. Ég var dauðfeginn þegar dómarinn flautaði leikinn af, eins og seinni hálfleikur spilaðist þá var mjög fínt að sleppa með punkt.

    Besti maðurinn.

    Eh? Þetta var rosalega flöt frammistaða, engin hjá Liverpool stóð sig frábærlega. Það eru helst hafsentarnir tveir og Alisson sem koma til greina, ætla að gefa markmanninum þetta fyrir vörsluna í fyrri hálfleik.

    Vondur dagur.

    Úff hvar á maður að byrja. Milner var slakur, Salah ósýnilegur, miðjuna vantaði neista og Mané var úr takti við liðið. Held að Salah verði að vera kallaður mestu vonbrigðin í þessum leik, í svona leik þarf stærsta stjarnan í liðinu að láta ljós sitt skína.

    Ýmsir punktar

    • Firmino fór á hækjum frá Trafford, það er gífurlegt áhyggjuefni.
    • Fjögur jafntefli í síðustu fimm leikjum í öllum keppnum, tvö markalaus í vikunni. Það er jákvætt að hafa ekki tapað þessum leikjum en við verðum að fara breyta þessu í sigra.
    • Vörnin er aftur orðin eins og klettur, þetta var fimmtánda hreina lakið á tímabilinu. Áhyggjuefnið er sóknarleikurinn. United, Leicester, West Ham og Bayern hefur öllum tekist að núlla hann út undanfarið, Klopp þarf að finna lausn á þessu og það strax í gær. Tvö mörk í síðustu fjórum leikjum er bara ekki nógu gott.
    • Skiptingarnar virkuðu ekki vel. Origi og Sturridge eru leikmenn sem ég fýla, en það verður að fá einhvern öflugri í sumar til að vera fjórði maður í sókninni.
    • Þrátt fyrir að ég gagnrýni miðjuna hér að ofan, þá drap hún svo gott sem alveg á Pogba, sem er búin að vera einn heitasti maður deildarinnar síðustu vikur.
    • Ef ég hefði beðið fram á kvöld með að skrifa þessa skýrslu, hugsa ég að hún væri jákvæðari. Það er frammistaðan í seinni hálfleik sem er að draga mann niður. Það er í raun mjög fínt að ná í stig á Trafford þegar spilamennskan er ekki betra en raun bar vitni.
    • Æ já, gleymdi næstum: Þrátt fyrir að 2019 hafi ekki verið frábært á vellinum, þá er Liverpool á toppnum þegar ellefu leikir eru eftir.

    Næsta verkefni er Watford á miðvikudagskvöld. Það er skyldusigur, svo einfalt er það.

  • Liðið gegn United!

    Jæja þá er ljóst hvaða ellefu hetjur fá það hlutverk að byrja á móti lærisveinum Óla Gunnars:

    Grái kallinn er Milner, Trent ennþá að komast í gang

    Á bekknum eru svo Trent, Lallana, Keita, Sturridge, Shaqiri, Origi og Mignolet.

    Semsagt Trent fer útaf fyrir Milner, Fabinho kemur inn á miðju í stað Keita og Van Dijk tekur sína stöðu. Ekki alveg liðið sem maður bjóst við, en líklega besta miðjan okkar og þar verður aðal orrustan háð.

    Til að verja Old Traffort hefur Norðmaðurinn stillt upp eftirfarandi liði:

    Það er ekki laust við að það sé komin gífurlegt stress í mann. Koma svo strákar!!!

  • Old Trafford á sunnudag

    Það er ansi langt síðan Liverpool lék síðast deildarleik og þegar flautað verður til leiks á Old Trafford á sunnudaginn eru orðnir einhverjir fjórtán eða fimmtán dagar síðan Liverpool rúllaði yfir Bournemouth á Anfield. Þá hófst tíu daga “frí” hjá Klopp og leikmönnum liðsins sem nýttu það í æfingarferð til Spánar og reyna að slípa sig betur saman fyrir atlöguna að titlinum.

    Síðastliðin þriðjudag tók Liverpool á móti Bayern Munchen í Meistaradeildinni þar sem liðin skildu jöfn í fyrri viðureign liðana og tekur nú við ansi áhugaverð hrina deildarleikja sem hefst á sunnudaginn þegar Liverpool heimsækir Man Utd á Old Trafford.

    Eins og staðan er í dag situr Liverpool í öðru sæti deildarinnar á markahlutfalli en á leik inni á Man City svo hagstæð úrslit úr leiknum mun skjóta Liverpool aftur í bílstjórasætið í deildinni. Það er því ansi mikið sem veltur á þessum leik fyrir Liverpool.

    Frammistaða Liverpool í leiknum gegn Bayern var nokkuð góð miðað við að það var enn einu sinni rót á miðvarðarstöðunni þar sem Van Dijk var í banni og Fabinho var í hjarta varnarinnar með Matip. Þeir sáu til þess að sterkir sóknarmenn Bayern, með Robert Lewandowski í fararbroddi, áttu ekki skot á markið í allan leikinn. Miðjan var ógnarsterk og Henderson alveg hreint frábær, sóknin átti nokkur góð augnablik en tókst ekki að taka færin sín.

    Ákveðnar frammistöður leikmanna munu klárlega setja Klopp í mjög erfiða stöðu þegar kemur að því að hann muni þurfa að velja byrjunarliðið fyrir þennan leik. Henderson var nær óaðfinnanlegur á miðjunni, Keita var líflegur og verið á góðu róli undanfarið, Wijnaldum var rosalega flottur og svo auðvitað hefur Fabinho verið mikilvægur hlekkur á miðju Liverpool en hann leysti af í miðverði í síðasta leik og átti góðan leik þar. Van Dijk kemur aftur í liðið og mun eflaust spila við hlið Joel Matip nema þá að Klopp hyggist nota Fabinho í miðverðinum og geta haft hina þrjá áfram á miðjunni. Hver veit?

    Trent Alexander Arnold er kominn aftur á ról eftir meiðsli og er það frábært, hann gefur Liverpool allt aðra vídd fram á við og er mikilvægur partur í uppspili Liverpool svo það er frábært að hann komi aftur inn. Það losar svo auðvitað um Milner svo hann getur komið aftur inn í myndina á miðjunni svo breiddin eykst töluvert við þetta.

    Lovren og Gomez eru enn frá vegna meiðsla, það var nokkuð vitað með Gomez en þetta dæmi með Lovren er orðið ansi böggandi enda ekki spilað síðan hann skokkaði í þessar tvær mínútur eða hvað það nú var gegn Wolves í upphafi árs. Fabinho hefur verið mjög flottur í miðverðinum þegar hann hefur þurft að spila það hlutverk en ég vil helst ekki þurfa að sjá hann þar aftur mikið lengur, hann á heima á miðjunni.

    Oxlade-Chamberlain og Brewster hafa tekið mjög jákvæð skref í endurhæfingu sinni frá meiðslum sínum og virðist Oxlade-Chamberlain vera byrjaður að æfa meira og meira með liðinu undanfarið en er enn frá. Það eru jákvæðar fréttir og vonandi munum við sjá hann aftur á vellinum á leiktíðinni.

    Ég ætla að giska á að Klopp muni stilla liðinu upp á þennan hátt:

    Alisson

    TAA – Matip – Van Dijk – Robertson

    Fabinho – Henderson – Gini

    Salah – Firmino – Mané

    Van Dijk mun augljóslega koma aftur inn í hjarta varnarinnar og ég held að hann muni færa Fabinho aftur á miðjuna. Ég held að Henderson og Wijnaldum munu pottþétt byrja þennan leik líka. Það er hálf ósanngjarnt en ég held að Keita muni taka sér sæti á bekknum og Klopp muni stilla upp hinum þremur, þó svo að þeir hafi ekki sama óútreiknanlega neista og Keita þá held ég að Klopp muni velja hina þrjá til að gera miðjuna eins þétta og öfluga og hann hugsanlega getur.

    Framlínan verður eflaust nokkuð augljós en það er þá kannski einna helst stöður þeirra og hlutverk sem gætu hliðrast eitthvað til en þessir þrír verða þarna. Það er alveg pottþétt. Í síðustu viðureign liðana stillti Klopp upp 4231 með Keita á vinstri væng og Mane á hægri en ég efast um að hann geri það sama fyrir þennan leik. Leikstíll og nálgun Man Utd er allt annað nú en síðast þegar liðin mættust á Anfield svo ég hugsa að Klopp muni leggja þetta upp með ögn meiri varkárni og muni virða útivöllinn og aðstæðurnar.

    Ég held að þessi leikur sé kannski á nokkurn hátt meira leikur sem má ekki tapast heldur en leikur sem þurfi endilega að vinnast svona ef við rýnum í stöðuna í deildinni og þá leiki sem eru eftir. Eins og áður segir þá mun eitt stig úr leiknum setja Liverpool alfarið í bílstjórasætið í deildinni áfram. Stig í pottinn og Liverpool er áfram skrefi á undan Man City sem þýðir að sama hvaða galdratölur City gætu komið með þá skipti það engu máli ef Liverpool skilar sínu. Það er staðan sem við viljum vera í og liðið ætlar sér að vera í. Þrjú stig eru auðvitað betri en eitt og ég efast ekki í augnablik um að það verði í huganum á Klopp og leikmönnum þegar leikurinn fer að hefjast. Ég að sama skapi held að sama hvað, liðið muni alls ekki vilja tapa þessum leik. Þetta eina stig er lágmarkið í leiknum, það telur og vegur þungt upp á framhaldið.

    Þetta verður þó líklega engin dans á rósum og má búast við mjög erfiðum leik. Þetta Man Utd lið er allt annað lið en við sáum koma á Anfield. Það lið var í algjöru þroti, hafði enga trú á verkefni sínu eða hreinlega vilja til að berjast fyrir stolti sínu. Algjört þrot og Liverpool kaffærði þeim eins og þetta væri bara lið eins og Newcastle, Watford eða eitthvað álíka lið að mæta á Anfield. Með fullri virðingu fyrir þeim liðum og allt það en Liverpool kom fram við Man Utd eins og lið sem var næstum tuttugu stigum á eftir þeim frekar snemma á leiktíðinni.

    Jose Mourinho var rekinn og Ole Gunnar Solskjær var ráðinn inn í tímabundna stöðu stjóra Man Utd og snéri gengi liðsins við. Þeir fóru á gott run og hafa unnið einhverja þrettán af fimmtán leikjum sínum í öllum keppnum síðan þá. Þeir gerðu jafntefli við Burnley í deildinni og töpuðu gegn PSG í Meistaradeild. Margt hafa verið þessir standard “skyldusigrar” sem lið með slíkan hóp á að klára sama undir hvaða kringumstæðum þeir ættu að vera í en þarna eru líka stórir sigrar gegn liðum eins og Chelsea, Arsenal og Tottenham.

    Helstu breytingarnar við þessi stjóraskipti þeirra er að það er komin meiri ástríða og gleði í þeirra leik og greinilegt að þungu fargi var létt af þeim eftir að Jose Mourinho var látinn fara. Það sést að mér finnst einna helst í þeirra helstu sóknarmönnum. Leikmenn eins og Rashford, Martial og sérstaklega Paul Pogba hafa fundið annan gír í sínum leik. Liðið er farið að skora meira, sækja af meiri frjálsræði og er meira skapandi en þrátt fyrir bros á vör og gaman þá eru enn ákveðin vandamál í þeirra liði sem slíkt getur ekki lagað bara sí svona.

    Liðið er enn í smá basli varnarlega, þó ekki eins miklu og áður en þeir fá á sig færi og eiga oft í vandræðum með að halda hreinu og hafa til að mynda ekki haldið hreinu á heimavelli undir stjórn Solskjær. Það má því alveg búast við að Liverpool fái færi og tækifæri gegn þeim en að sama skapi er þetta lið Man Utd töluvert líklegra til að refsa á móti. Ég hef ekki glóru um það hvernig ég haldi að þessi leikur muni fara en ég mun ekki vera hissa ef hvorugt liðið heldur hreinu.

    Ég tel Liverpool vera betra liðið af þessum tveimur og ætti klárlega að teljast sigurstranglegra liðið þó svo að þessi leikur sé á Old Trafford og allt það. Liverpool er það lið sem er með meira í húfi í þessum leik þó svo að Man Utd sé í harðri baráttu um 4.sætið þá er auðvitað 1.sætið undir hjá Liverpool og langþráður titill í húfi svo pressan er að sama skapi nær öll á Liverpool.

    Allt tal í kringum leikinn virðist snúast meira og minna um það hvort Liverpool nái aftur að grípa í stírið í baráttunni, hvernig þeim tekst að yfirstíga yfir þessa hindrun eða þá hvort að Man Utd takist að skemma titilvonir Liverpool. Það er rosalega lítið um það að menn séu að velta fyrir sér hvort að Meistaradeildarvonir Man Utd séu í húfi eða hvaða afleiðingar leikurinn geti haft á þá, það er meira á þá veg hvort þeim takist að skemma fyrir Liverpool. Það er held ég eitthvað sem ansi marga stuðningsmenn þeirra dreymir um frekar en það að næla í þrjá punkta.

    Nálgun Solskjær og Klopp á blaðamannafundum sínum fyrir leikinn fannst mér einkennast svolítið af þessu. Klopp talar um þetta sem eins og hvern annan leik þar sem stig er stig og allt það en Solskjær fer yfir í eitthvað tilfinningarunk, talar meðal annars eitthvað um að íhuga að gefa Alex Ferguson orðið í klefanum fyrir leik og eitthvað svona rugl. Hann vill kveikja á ástríðu sinna stuðningsmanna og talar upp þennan slag, sem er skiljanlegt en Liverpool sem er ekki í neinni beinni keppni við Man Utd virðist horfa á þetta aðeins öðrum augum. Eflaust ranglega orðað en önnur hlið leiksins virðist vilja virkja hjartað en hin virkja heilann.

    Þetta verður hörkuleikur tveggja liða á mjög ólíkum stöðum, undir mjög ólíkri pressu, með mjög ólíka eiginleika og mjög ólíka nálgun á þennan leik. Þetta verður fróðlegt og ansi erfitt en mikilvægt verkefni fyrir Liverpool vilji leikmenn landa þeim stóra í vor. Deildin ræðst auðvitað ekki bara á þessum leikjum en það eru fjögur ansi stórar viðureignir eftir sem gætu spilað ansi stórt hlutverk í því hver endar sem sigurvegari í vor – bæði Man City og Liverpool eiga eftir að mæta á Old Trafford og bæði lið eiga eftir að fá Tottenham í heimsókn, þarna gætu verið ansi stór og mikilvæg stig í boði fyrir þessi þrjú lið. Liverpool þarf að byrja á sínu og koma sér í bílstjórasætið með því að sækja stig, helst í fleirtölu, á Old Trafford.

  • Árshátíð: Miðasala á 25 ára afmælishátíð Liverpool klúbbsins

    Setjum þetta bara beint frá klúbbnum – þetta er alltaf frábært partý


    Sælir kæru félagar.

    Eins og kynnt hefur verið þá munu Tékkarnir Patrick Berger og Vladimir Smicer heiðra okkur á árshátíðinni 6. apríl næst komandi.

    Við lofum miklu fjöri að vanda, en ljóst er að þessi hátíð verður með þeim glæsilegri á 25 ára afmælisári klúbbs okkar góða.

    Við erum að opna fyrir miðasölu á heilum borðum fyrir 10 aðila alls, en alls fara 12 heil borð í sölu af 24.

    Reynsla okkar í gegnum tíðina hefur verið að margir hópa sig saman fyrir hátíðina og kaupa heil borð.
    Pantanir á borði berast á netfang okkar felagaskraning@liverpool.is

    Við vonumst til að miðasölukerfið verði klárt strax í næstu viku og opnum þá á alla sölu til allra með 12 viðbótar borðum.

    Miðaverð er 11.900 kr eða sama og í fyrra.

    Allar nánari upplýsingar fást á facebook síðu hátíðarinnar eða á netfangi okkar.
    https://www.facebook.com/events/1074155256097600/?active_tab=about

    mkv stjórnin

  • Gullkastið: Þýska stálið er sterkt

    FC Bayern sýndi afhverju þeir eru langstærsta lið Þýskalands en um leið gaf upplegg þeirra á Anfield til kynna þá virðingu sem borin er fyrir Liverpool um þessar mundir. Þeim fækkar hratt liðunum sem þora að mæta á Anfield og leggja upp með að spila sinn leik. Næstu helgi er svo enn stærri leikur, stærsti leikur Liverpool og Man United í langan tíma.

    00:00 – Intro – Berger og Smicer á Árshátíð Liverpoolklúbbsins
    05:20 – Rimman gegn Bayern
    37:50 – United umræða

    Stjórnandi: Einar
    Viðmælendur: SSteinn og Maggi.

    MP3: Þáttur 228

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close