Upphitun: Watford / CL dráttur: Man City

Uppfært (EMK):
UEFA fékk Shevchenko til að draga í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar og hann dró að sjálfsögðu það einvígi sem stuðningsmenn City og Liverpool vildu líklega hvað síst. Hundleiðinlegt að ensku liðin hafi dregist saman á þessu stigi

Svona raðast þetta:
Liverpool – Manchester City
Juventus – Real Madrid
Barcelona – Roma
Sevilla – Bayern Munchen

Ekki að þetta verði ekki hörku leikir, Liverpool er eina liðið sem hefur unnið Man City í deildinni í vetur en það er ljóst að okkar menn þurfa að eiga toppleik til að endurtaka leikinn. Hjálpar ekki að seinni leikurinn er á útivelli.

Til gamans má geta þess að 1% lesenda Kop.is vildu þetta einvígi:

Kunni betur við Shevchenko þegar hann var að láta Dudek verja frá sér vítaspyrnu!


Íslendingasagan

Fyrir gráglettni örlaganna fellur upphitun fyrir Watford aftur mér í skaut en ég gerði fyrri leik liðanna skil í upphafsleik leiktíðarinnar. Sú upphitun dugði þó eingöngu til góðs sóknarleiks Liverpool en lakari varnarframmistöðu í 3-3 jafntefli og því dugar ekkert annað en betrumbætur í annarri tilraun. Þar sem sagnfræði milli Watford og Liverpool var sæmilega afgreidd í það skiptið þá er vel við hæfi að fjalla lítillega um Íslands-sagnfræði hinna gulrauðu í staðinn.

Af mörgu er að taka en langefstur á blaði í því ættartré er Dalvíkingurinn Heiðar Helguson sem spilaði 228 leiki fyrir Watford og skoraði í þeim 76 mörk. Herra Helguson þarf enga kynningu en sá sem rífur kröftugan kjaft við Kahn er með sönnu karl í krapinu og enginn snáði í snjónunum. Árið 1999 var hann keyptur á 1,5 milljón punda til Lundúna-liðsins frá Lilleström og var þá dýrasti leikmaður í sögu liðsins en það áttu eftir að reynast kjarakaup. Með réttu er hetjan Heiðar í hávegum hafður þar á bæ og nýlega deildi Watford þessari mögnuðu markasyrpu af bestu bombum bardaga-blondínunnar en eitt markanna er gegn LFC árið 2000 í 2-3 sigri grænklæddra Liverpool-manna á Vicarage Road.

Suðurnesjakappinn Jóhann Birnir Guðmundsson spilaði einnig með liðinu í tvö ár og afrekaði 2 mörk í 22 leikjum en hápunktur í veru hans hjá Watford kom máske á Laugardalsvelli þegar hann skoraði 2 mörk í 2-3 sigri gestanna á stórveldi Knattspyrnufélags Reykjavíkur í 100 ára afmælisleik svart-hvítu hetjanna. Meistari Sigursteinn Gíslason og Bjarki Gunnlaugsson skoruðu mörk heimamanna en KR voru gríðarlega vel mannaðir þetta árið með goðsagnirnar Gumma Ben og Þormóð Egilsson í liðinu sem varð svo Íslandsmeistari um haustið eftir 31 ára eyðumerkurgöngu. Því ber að leggjast á bæn og fara með Fowler-vorið um að bið okkar Púlara verði skammvinnari en Evrópuvina þeirra í Vesturbænum. Þá ber einnig að nefna að af sama 100 ára afmælistilefni var haldin epísk Elton John helgi á Rauða Ljóninu þar sem Maggi Kjartans og Ruth Reginalds héldu uppi fjörinu langt fram á nótt. Ó hvað glöð var vor aldraða æska á síðustu öld.

Talandi um æfingaleiki Watford hér á landi þá brá svo við að í janúar 1987 gerði vetur konungur vart við sig á Bretlandseyjum og þar sem enskurinn er frægur fyrir uppgjöf sína gagnvart smá slyddu og slabbi þá var fjölda leikja aflýst víða um breska grund. Haldið var norður til Íslands í margrómaða miðsvetrarblíðuna hér á landi og spilaður æfingaleikur á gervigrasinu í Laugardal gegn úrvalsliði úrKR, Fram og Val.

Áhugamennirnir íslensku í minniháttar leikæfingu náðu virðingarverðu 1-1 jafntefli gegn Watford með enska landsliðsmanninn Luther Blissett framlínunni en John Barnes var því miður hvíldur og hálfu ári síðar var hann seldur til Liverpool sælla minninga. Í úrvalsliðinu öfluga voru Guðni Bergsson og Þorgrímur Þráinsson hafsentar með Willum Þór Þórsson, Andra Marteinsson og Rúnar Kristinsson á miðjunni og Pétur Pétursson í framlínunni  svo einhverjir séu nefndir. Einvalalið einstakra víkinga en nóg um nostalgíuna og aftur í nútíðina.

Mótherjinn

Mikið er um meiðsli í herbúðum gestanna en þó verða Troy Deeney og Richarlison í framlínunni og í þeim felst talsverð ógn fyrir okkar misgóðu varnarlínu. Útivallarform þeirra gulrauðu hefur ekki verið gott og þeir eiga við það lúxusvandamál að vera í 10.sæti með 36 stig fjarri fallhættu þannig að stóra spurningin felst í hugarfarinu komandi inn í leikinn.

Hinn splúnkunýi  spænski þjálfari Watford sem tók við í janúar heitir Javi Gracia Carlos og hefur stýrt liðinu til sigurs og taps í hárfínu jafnvægi eða þrjú skipti hvort um sig. Við hverju má búast frá gestunum er því vandsvarað þar sem Arsenal fór létt með Watford í forleiknum á undan og ef okkar menn skora snemma leiks þá gæti eftirleikurinn verið auðveldur (7,9,13).

Liverpool

Rauði herinn mætir með sært stolt eftir síðustu helgi og þó að Þórðargleði í miðri viku hafi kætt stuðningsmenn þá breytir það litlu fyrir leikmennina sem þurfa að gíra sig aftur í gang og á sigurbraut. Eftir þennan leik verður langdregið landsleikjahlé og því þarf Klopp ekki að stunda neinar taktískar sparnaðaraðgerðir með næstu leiki í huga. Sterkasta liði verður stillt upp en þó geri ég ráð fyrir nokkrum breytingum í kjölfar misgóðrar frammistöðu sumra leikmanna á Old Trafford.

Mitt hundsvit segir mér að þríeykið í framlínunni verði óbreytt en á miðjunni taki kafteinninn Henderson við stýrinu á freygátunni og Wijnaldum snúi aftur úr pestabælinu. Lovren á skilið bekkjarsetu eftir síðasta leik og Alexander-Arnold líka þannig að mín spá er að Matip og Gomez fái þeirra sæti og jafnvel gæti Moreno fengið smá sprett en Robertson er þó líklegri til að halda byrjunarliðssætinu. Liðsuppstillingin væri því eftirfarandi:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

Spakra manna spádómur

Það verður grjóthörð ákveðni hjá okkar mönnum að bæta upp fyrir skipbrotið í nágrannasveitarfélaginu þannig að allt kapp verður lagt á að komast aftur á beinu brautina og skora eins mörg mörk og hægt er fyrir landsleikjahlé. Mín bjartsýna spá verður sú að þau áform gangi fullkomlega eftir með vel matreiddri markasúpu að hætti hússins.

Niðurstaðan verður 4-0 sigur með mörkum frá Salah, Mané, van Dijk og Henderson úr víti en þó verður Firmino maður leiksins með 3 stoðsendingar. Bon appetit.

YNWA

31 Comments

 1. Sælir félagar

  Nú er hafin hin endanlega barátta um fjórða til annað sætið í deildinni. Viðbjóðurinn á Gamla klósettinu skildi eftir ljótt ör á liðinu í þeirri baráttu en það er samt ekkert í boði annað en sigur í leiknum á morgun. Allir leikir sem eftir eru eiga að vinnast nema ef til vill leikurinn við Chelsea hann gæti farið í jafntefli og jafnvel tapast á Brúnni.

  Milli okkar og Olígarka liðsins eru ekki nema 4 stig svo við megum alls ekki við því að tapa leik eða missa niður í jafntefli. Svo einfalt er það. Þar af leiðir er ekkert í boði nema sigrar í öllum leikjum sem eftir eru en jafntefli á Brúnni í vor sleppur til. Ég spái að okkar menn mæti í þennan leik og spili til sigurs á heimavelli og sýni að síðasti leikur var slys. Mín spá 5 – 1.

  Það er nú þannig

  YNWA

 2. Liverpool – Man City meistaradeildinni.
  Stutt ferðalag, þekkjum þá vel, höfum unnið þá á Anfield = BRING IT ON

 3. Gat verið verra, þeir henta okkur ágætlega því þeir nenna að spila alvöru fótbolta. Hef trú á okkar mönnum!

 4. Martraðardráttur að mínu mati. Til að bæta gráu ofan á svart þá fengum við heimaleikinn fyrst.

  Real Madrid, Bayern og Baca eiga greiða leið í undanúrslitin.

 5. Allir leikir erfiðir á þessu stigi keppninar og ef við ætlum okkur alla leið að þá þarf að fara í gegnum þetta lið fyrir lið 🙂

 6. Auðvitað fengum við enska liðið. Það hefði líka gerst ef það væru 6400 lið í pottinum og tvö ensk lið. Týpískt.

 7. Smá Þráðrán

  Það er misjöfn „hjálpin“ sem menn fá frá dómurum.
  Það er bara hneyksli að svona skuli geta gerst og sprotadómarinn alveg ofan í þessu. Alveg óháð því hvort þetta er Arsenal eða eitthvað annað lið sem ætti í hlut að þá hlytur að vera gerð meiri krafa á dómara en þetta. VAR dómari uppi í stúku gæti skorið úr um þetta á minni tíma en það tekur leikmenn að röfla í dómaranum.

  http://www.visir.is/g/2018180319244/sprotadomarinn-daemdi-viti-eftir-svakalega-dyfu-welbeck-sjadu-dyfuna-og-morkin

  Varðandi Watford leikinn að þá hef ég ekki trú á öðru en að við komumst aftur á sigurbraut og löndum góðum þrem stigum í hús.

 8. Svakalegt einvígi gegn city. Eina sem maður vildi alls ekki var þetta og eina sem maður vildi var allavega seinni leikinn á anfield en aupvitað fór þetta á versta veg. Er enn að melta þetta bara en kannski hentar okkur bara á gætilega að vera underdogs og fá lið sem sækir á móti okkur.. Manni á eftir að lyftast betur og betur á þetta..

 9. Sælir félagar

  Þetta var það sem ég síst vildi um það þýðir ekki að fást. Nú er óhjákvæmilegt að það kemst bara eitt enskt lið í undanúrslit en það er ekkert víst að það verði M. City. Þar verður látið sverfa til stáls og menn mæta í þá leiki með fullri einbeitingu. Þetta verður svakalegt einvígi og sigur í því færi langt með að verða virði efsta sætis í deildinni.

  Það er nú þannig

  YNWA

 10. Engin draumadráttur en við munum örugglega sjá mjög skemmtilega leiki milli tveggja frábærra liða.
  Það má sjálfsagt færa góð rök fyrir því að betra sé að fá fyrri leikinn úti í meistaradeildinni en það er tvíbent eins og við höfum svo oft séð. Ef við náum að vinna fyrri leikinn á Anfield þó ekki væri nema með einu marki þá verðum við í dúndurfæri til að klára City með jafn öfluga og fljóta framlínu og við erum með!
  Liverpool FC er á góðri leið, uppbyggingin er loksins markviss eftir mörg erfið ár. Hvernig sem rimman fer þá er frábært að sjá stígandann, kraftinn og leikgleðina hjá liðinu okkar sem ég hef haldið með í gegnum súrt og sætt í rúm 40 ár og ég hef fulla trú á því að Liverpool fari alla leið í úrslit í vor, hvers vegna ætti það ekki að geta gerst?
  Góða helgi félagar, YNWA 🙂

 11. Okei nóg um þessa meistaradeild það eru stærri fréttir i gangi. Lucas Leiva skoraði fyrir Lazio í gær?

 12. Svo hversdagslegt að mæta city, spilar í evrópukeppni og getur hjólað í útileikinn.
  Vildi ekki mæta city og bayern… vildi reyndar ekki mæta 5 liðum ef útí það er farið. En þetta er 8 liða úrslit champ league og þú ert að spila við bestu liðin, þýðir ekkert að kvarta. Við fáum amk 2 hörkuleiki, engar rútur og leiðindi(búið að sigta það út) vonum það besta og plís enginn meiðsli á næstunni takk

 13. Klopp er skiljanlega ósáttur við að Everton leikurinn er þremur dögum síðar og það sem versta er að hann er settur sem hádegisleikur sem er fáranlegt.

  Þetta gat samt verið miku verra því að við hefðum geta fengið útileik gegn liði sem er ekki á Englandi og inni þetta gætu verið mikil ferðalög sem myndi gera þetta enþá erfiðara.

  Þetta er samt staðan og þar sem það er gríðarlega þétt leikjaprógram í kringum þessa leiki þá þarf Klopp að vera klókur í róteringum í Everton leiknum.
  Við viljum hafa sterkt lið gegn nágrönum okkar en fyrir mér er það ekkert síðri leikur en Man City í meistaradeild.

  Númer 1,2 og 3 núna er samt að klára þennan Watford leik sem verður ekki auðveldur. Bæði af því að sjálfstraustið okkar hefur aðeins farið niður eftir að hafa ekki sigrað síðustu tvo leiki (Porto – Man utd) og að þeir eru physical lið sem kunna að drepa niður leiki ef þeir fá ekki á sig mark snemma.

 14. skv. official síðunni er leikurinn gegn Everton 8. apríl sem er tveimur dögum fyrir seinni leikinn gegn City

 15. Nr.16
  Já það var verið að breyta því Páló og Klopp frétti það rétt fyrir fund.

  ÓTRÚLEGT að setja þann leik á sunnudeginum fyrir það fyrsta með Liverpool ennþá í CL. Mjög gott að Klopp láti vel í sér heyra þegar hann er ósáttur við þessa bjöllusauði hjá FA, gera ekkert til að einfalda Meistaradeildarliðum Englendinga lífið sem kemur hvað helst niður á þeim sjálfum á endanum.

 16. Hef smá áhyggjur af því hversu fáir hafa áhyggjur af Watford. Eina sem menn tala um er Man.City sem er eftir 3 vikur. Vonandi að leikmenn Liverpool séu ekki í sama pakka.

 17. Ekki mjög bjartsýnn fyrir City leikina. Vona það bara það besta.

 18. Gaman að sjá að við höfum meiri völd hjá FA, en City! Flott að Everton leikurinn var fluttur, en ef ég man rétt þá þurfti City fyri 2-3 árum að spila við Chelsea tveimur dögum fyrir leik í CL og sendu þá unglingalið í þann leik.

 19. # 20 þess má geta að Klopp er ekki sáttur við þessa breyttingu og er það aðalega að leikurinn er hádegisleikur og gefur það okkur minni tíma að jafna okkur fyrir leikinn og Klopp hatar hádegisleiki því að þeir ná aldrei að komast á flug.

 20. Ágætt að mæta City núna. Aquero eitthvað í hnjaski sem og Sterling.
  Þegar lið eru komin þetta langt er erfitt að fá “auðvelda” leiki og alveg eins gott að klára þau strax, þá eru þau ekki að þvælast fyrir okkur seinna 🙂

 21. #18 alveg sammála allir að pæla í city en reikna með að labba yfir watford sem eru algjört jójó hafa átt marga flotta leiki í vetur og skíta þess á milli ég vona að leikmenn séu meira að hugsa um watford en city. Held samt við tökum watford 3-1 og vinnum city í vító karius tekur 3 ?

 22. Leikjaskipulagið og rótering á því sýnir glöggt að þótt ManUre er úr CL þá er FA-útibú ManUre enn á fullu.

 23. Vill ekki sja Jack Butland i liverpool. Búinn að fá á sig 2 léleg mörk gegn Everton

 24. Liðið okkar er komið og það er sama lið og var spáð í upphitun.
  Gomez, Winjaldum, Henderson og Matip inn TAA, OX, Milner og Lovren út

  Maður er hræddur fyrir þennan leik þar sem mér finnst umræðan hafa verið um allt annað en leikinn í dag.

 25. vinnum 4:0.. salah með 2, firmino með eitt og van djik með eitt.

  🙂

 26. Þessi leikur verður ekkert “ walk in the park” allir alltof kokhraustir hérna. Við rétt merjum sigur 2-1

Hvaða lið viljum við í næstu umferð?

Byrjunarliðið gegn Watford