Toulouse á fimmtudagskvöldi

Leikur nr. 4 af 6 í riðlakeppni EL er framundan, en okkar menn flugu til Toulouse í dag og spila þar gegn heimamönnum kl. 17:45 á morgun. Verkefnið er einfalt: sigur þýðir einfaldlega að Liverpool er svo gott sem búið að vinna riðilinn. Það eina sem kæmi fyrir sigur Liverpool undir þeim kringumstæðum væri ef:

  1. Union St. Gilloise myndi vinna sinn leik á morgun gegn LASK
  2. Union St. Gilloise myndi svo í framhaldinu vinna báða sína leiki sem liðið ætti eftir
  3. Liverpool myndi tapa báðum sínum leikjum sem eftir væru (þar á meðal næst síðasta leiknum gegn botnliði riðilsins á Anfield þann 30. nóv)

Þetta þarf n.b. allt að gerast.

Með sigri er sumsé 2. sætið tölfræðilega tryggt, og 1. sætið væri svo gott sem tölfræðilega tryggt. Gleymum ekki að liðin í 2. sæti þurfa að spila gegn liðunum sem enda í 3ja sæti í Meistaradeildinni, ætli það sé einhver séns að United nái þangað upp? Það væri allavega rosa næs upp á leikjaálag að gera að sleppa við þann leik. Ekki það að Liverpool getur unnið hvaða lið sem er sem það ætlar sér að vinna, en prógrammið gæti orðið ansi þétt þegar líða fer á leiktíðina.

Það má því alveg reikna með því að Klopp taki þennan leik á morgun talsvert alvarlega. Vinnum hann og fáum þá aðeins meira svigrúm til að nota breiddina, sérstaklega í síðasta leiknum gegn Union St. á þeirra heimavelli.

Andstæðingarnir

Hannes gerði Toulouse ágæt skil í upphitun fyrir leik liðanna á Anfield, leik sem Liverpool vann 5-1 svona ef einhver var búinn að gleyma. Kíkjum nú samt aðeins í sögubækurnar og á landakortin…

Þessi “smábær” telur rétt tæplega hálfa milljón manns, eða eins og eitt Ísland og fjórðungi betur. Bærinn er staðsettur í suðurhluta Frakklands, einhverja 150 km frá landamærum Frakklands og Spánar. Mögulega hafa einhverjir heyrt bæinn kallaðan “Bleiku borgina” (Ville rose), en það kemur til vegna þess byggingarefnis sem er mikið notað í gömlu húsin og er leir úr nærumhverfinu. Þá er Airbus fyrirtækið staðsett í borginni og er þar með daglegan rekstur þó fyrirtækið sé tæknilega skráð í Hollandi. Sjálfsagt eitthvað tengt sköttum.

Knattspyrnulið Toulouse var stofnað rétt fyrir seinna stríð, og þó liðið hafi e.t.v. ekki náð að skipa sér í hóp þeirra allrabestu eða þekktustu í Frakklandi, þá hafa þeir unnið einhverja titla eins og gengur, núna síðast bikarkeppnina, og þeirra þekktasti leikmaður hlýtur að vera ólíkindatólið Fabian Barthez.

Eftir að liðið mætti á Anfield hefur það spilað tvo leiki í frönsku deildinni: gegn Montpellier og Le Havre, og tapaði báðum þeim leikjum. Svo ekki er velgengnin neitt að drepa þá um þessar mundir. En munum: liðið vann bikarkeppnina í fyrra, svo eitthvað geta þeir. Vonum bara að þeir hrökkvi ekki loksins í gang á morgun.

Okkar menn

Þá er það staðan á okkar mönnum. Klopp og Kelleher voru með blaðamannafund í dag, þar kom fram að Virgil væri eitthvað lumpinn og tæki því ekki þátt í leiknum á morgun. Eins er Jones víst ennþá eitthvað tæpur aftan í læri, og Klopp talar um að við sjáum hann ekki aftur fyrr en eftir næsta landsleikjahlé – semsagt, hann kemur hvorki við sögu á morgun né á sunnudaginn gegn Brentford. Þá er Gravenberch eitthvað tæpur, svo við sjáum hann tæpast á morgun. Hins vegar er Alexis Mac Allister í leikbanni gegn Brentford vegna fjölda gulra spjalda, svo það má fastlega reikna með honum á miðjunni á morgun. Líkurnar á því að Endo spili eru bara alveg ljómandi, svo eigum við ekki að vonast eftir því að Mac fái að sýna hvað í honum býr í öðru hlutverki en í sexunni?

Það að Kelleher skyldi mæta á blaðamannafundinn segir okkur að hann spili, og eigum við þá ekki að prófa að stilla þessu svona upp:

Kelleher

Gomez – Matip – Quansah – Tsimikas

Elliott – Endo – Mac Allister

Doak – Gakpo – Díaz

Eins og gengur eru þarna nokkur vafaatriði. Gomez er jú búinn að spila helling: rúman klukkutíma gegn Luton, allan leikinn gegn Bournemouth, en vissulega bara örfáar mínútur gegn Forest. Það er nú samt líklegra en hitt að Klopp vilji byrja með hann í hægri bak, og svo með Kostas vinstra megin, en kannski kemur Trent inná í seinni.

Szoboszlai sýndi það í leiknum gegn Luton að hann er bara mannlegur og getur ekkert djöflast á miðjunni í tveim keppnisleikjum í hverri viku endalaust. Hans þjónustu er óskað á sunnudaginn gegn Brentford, svo vinsamlegast leyfa honum að sitja á bekknum takk. Í mesta lagi að gefa honum korter í lokin. Ekki það að í ljósi þess að Jones og Gravenberch verða ekki leikfærir, þá verður hreinlega ekkert um svo marga valkosti að ræða ef/þegar þarf að skipta mönnum inn. McConnell flaug með liðinu og gæti komið inn á miðjuna sem varamaður, en er reynslulítill og verður tæplega hent út í djúpu ef staðan verður tæp. Gleymum svo ekki líka að leikurinn á sunnudaginn í deildinni er mikilvægur: þar spila hvorki Mac Allister né Curtis Jones, og Gravenberch mögulega tæpur. Þá eru hreinlega ekki svo margir eftir. Þetta er því ákveðið einstigi sem þarf að feta.

Framlínan er svo ennþá pínku hausverkur. Það hreinlega má ekki spila Salah of mikið, jújú hann vill spila alla leiki en á sunnudaginn gegn Brentford þarf hann að vera í topp formi. Svo veit maður svosem ekkert hvernig staðan er á Díaz: mannræningjarnir búnir að lofa trekk í trekk að sleppa pabba hans, en ekkert gerist. Kannski treystir hann sér ekki til að spila, en við sáum hvað hann var fær um á þessum örfáu mínútum sem hann fékk gegn Luton. Díaz í formi getur gert út af við hvaða varnir sem er. Við stillum Doak upp í byrjunarliði þó svo hann sé bæði ungur, óreyndur, ekki búinn að skora fyrir aðalliðið, og nýkominn úr meiðslum, en látum það ekki koma okkur á óvart þó Klopp byrji með hann á bekknum. En ef svo færi þá er erfitt að sjá annað en að Salah byrji, og veistu já ég bara veit ekki með það.

Hvað sem því líður. Þetta lið okkar á vel að geta afgreitt þetta franska lið. Spáum klassískum 3-1 sigri eftir að liðið lendir undir í byrjun leiks.

KOMASO!!!

2 Comments

  1. Takk fyrir upphitunina Daníel, ég vona að við þurfum ekki að eyða miklu púðri í þennan leik og klárum þetta helst í fyrri hálfleik með sterku liði strax frá byrjun sem má þá breyta fljótlega í seinni hálfleik. Líklega verður þetta þó gambítur fram á lokamínutur. Ég myndi vilja sjá Nunes , Díaz og Salah byrja en líklega er það frekja.

    Spái því miður erfiðum leik en þetta hefst 2-1 held ég

    1

Stelpurnar fá City í heimsókn í Continental bikarnum

Byrjunarliðið gegn Toulouse