Upphitun: Toulouse mætir á Anfield

Franska liðið Toulouse mætir á Anfield á morgun en þeir komu síðast í heimsókn í umspili fyrir Meistaradeildina árið 2007 þar sem Liverpool vann 4-0 sigur þar sem Crouch, Hyypia og Kuyt (x2) skoruðu mörkin í fyrsta leik Lucas Leiva fyrir félagið. Einnig spilaði Sebastian Leto sinn fyrsta Liverpool leikk þann daginn, leikmaður sem ég hélt að yrði stjarna en þetta reyndist vera einn af fjórum leikjum hans fyrir félagið.

Þó félögin hafa ekki mæst nema í einu einvígi eru nokkrar tengingar milli félaganna en núverandi forseti Toulouse er enginn annar en Damien Comolli sem var ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá Liverpool árið 2010 og átti að vera einn sá allra færasti í bransanum og var mikið látið af honum og átti hann að sjá um að “money-ball” væða Liverpool en yfirgaf félagið 2012. Hann átti þó þátt í að ná í bæði Luis Suarez og Jordan Henderson og getum við þakkað honum fyrir það.

Hann er þó ekki eina tengingin því margir muna kannski eftir fréttum frá 2021 þegar fjárfestingahópurinn Redbird Capital Partners, með LeBron James innanborðs, keypti 10% hlut í FSG og varð þannig minnihlutaeigandi í Liverpool en þessi fjárfestingahópur er einmitt eigandi Toulouse í dag.

Toulouse er að keppa í evrópukeppni í fyrsta sinn síðan 2009 og komust inn með að vinna óvænt bikarkeppnina í fyrra en liðið endaði í þrettánda sæti í frönsku deildinni. Þeir hafa ekkert farið frábærlega af stað i ár heldur og sitja í tíunda sæti en gerðu þó jafntefli við PSG. Ætla ekki að ljúga því að ég hafi séð mikið af Toulouse en miðað við það sem maður les spila þeir góðan skyndisóknarbolta og eiga til að byrja leiki hratt, voru meðan annars komnir 4-0 yfir í bikarúrslitaleiknum í fyrra eftir aðeins hálftímaleik og því mikilvægt að byrja leikinn strax á fyrstu mínútu á morgun.

Þeirra mest spennandi leikmaður er án efa hinn 18 ára gamli markmaður Guillaume Restes sem varð aðalmarkmaður liðsins í ár og hefur verið að fá góða dóma en Toulouse virðist vera góður staður fyrir unga markmenn því þar byrjaði einnig Alban Lafonte sem er núna markmaður Nantes en var um tíma talinn einn allra efnilegasti markmaður heims.

Okkar menn

Klopp tilkynnti á blaðamannafundi að það verða breytingar á morgun en verðum samt líklega með sterkt lið og nýtum skiptingarnar. Eins og hefur verið talað um áður skiptir fyrsta sæti riðilsins miklu máli og ég held hann vilji klára það eins fljótt og hægt er.

Kelleher verður í markinu og ég held að við sjáum Quansah og Matip en ég held að Tsimikas og Trent verði í bakvörðunum. Trent missti af nokkrum leikjum í meiðslunum og ég held að hann og Gomez skipti þessum leik á milli sín og eins Tsimikas þarf að reyna að spila sig í gang í fjarveru Robertson en trúi því að ungi strákurinn Luke Chambers fái allavega hálftíma eða svo. Jones velur sig sjálfur þar sem hann er enn í banni í deildinni og Elliott hefur átt frábærar innkomur þannig hann fær líklega að byrja og ég hugsa að hann byrji á miðjunni en endi í sóknarlínunni þegar Salah fer útaf. Ef Gakpo er orðinn alveg heill mun hann byrja annars sjáum við líklega Darwin Nunez. Kemur líklega mest á óvart að sjá þarna Salah ég er alveg viss að hann byrji á morgun og fái frekar hvíldina í lokaleikjum riðisins þegar fyrsta sætið er klárt.

Spá

Þetta Toulouse lið er hættulegt en mun slakara lið en okkar spái 3-0 sigri þar sem Salah, Trent og Elliott skora mörkin.

3 Comments

  1. Salah velur sjálfan sig í liðið og Klopp samþykkir það en ég vil ekki sjá Trent spila þennan leik, Chambers fékk víst það hlutverk að dekka Salah á æfingum í vikunni þannig að vonandi fær hann þennan leik ásamt Gomes og Qansah og Matip.
    Miðjan ætti að vera sjálfvalinn með Jones, Endo og Elliot. Svo er ótrúlegt að lið eins og Liverpool eigi ekki unga stráka sem banka fastar á hurðina, vissulega er Ben Doak meiddur en úrvalið er annars ansi dapurt af ungum leikmönnum frammi.
    Við eigum að klára þennan leik þægilega og tryggja okkur efsta sætið þannig séð.

    5
  2. Maður hefur kannski helst áhyggjur af skortinum á ungum og efnilegum framherjum frá akademíunni. Þeir sem hafa verið efnilegir hafa annaðhvort ekki enn náð að stíga lokaskrefið upp í aðalliðið (Musialowski, Cannonier o.fl.), eða meiðst og misst flugið (Glatzel, Gordon, etc.). Doak verður vonandi undantekningin á þessari reglu, en ég vil bara ekkert fullyrða um slíkt hjá kappanum fyrr en við förum að sjá mörk og/eða stoðsendingar hjá honum.

    Það bárust fregnir af því að hinn nýkeypti 16 ára Trey Nyoni hefði sést á æfingum með aðalliðinu í morgun, en þá má hann ekki spila í Evrópudeildinni því hann var ekki skráður í hóp og er það nýkominn að hann sleppur ekki inn sem óskráður kjúklingur. Hefði alveg verið gaman að sjá guttann a.m.k. á bekk á morgun.

    5
  3. Sælir félagar

    Þetta er anzi sterkt byrjunarlið sem þarna er stillt upp. Einu veikleikarnir eru Tsimikas og Endo og þó ekki víst að Endo sé veikleiki á móti þessu liði. Hann er þó að fara í skóna þeirra Gravenberch og MacAllister og það eru býsna stórir skór svo maður tali nú ekki um Szobo. Þetta lið ætti að sigla þessu heim ef allt er eðlilegt og ég vona að svo fari. Eru annars ekki komin einhver stuttnefni á Ryan Gravenberch? Ég hlakka til ef Chambers kemur inná að sjá hann í skónum hans Robbo og hvernig þeir fara honum.

    Það er nú þannig

    YNWA

    2

Gullkastið – Liverpool Borg Er Auðvitað Rauð!

Liðið gegn Toulouse – róteringar og Chambers byrjar