Spáuppgjör 2021-2022

Það er ekki seinna vænna en að gera upp spádómsgáfur (sic!) okkar kop.is manna frá síðasta ári, enda um það bil korter í næsta mót. Þetta gerum við enda á hverju ári.

Eins og venjulega settumst við niður síðasta haust, kíktum í kristalskúlur, telauf og fleira (ekki endilega saman samt), og komumst að ákveðinni niðurstöðu (sjá póstana frá Magga: fyrri hluti og seinni hluti). Sú niðurstaða gekk ekki alveg eftir (eins og langoftast), en í stuttu máli þá vorum við hópurinn samanlagt með frávik upp á 3.0 þegar spáin í heild sinni er skoðuð. Eða eins og skáldið sagði: “Not great, not terrible”. Reyndar voru síðustu tvö tímabil þar á undan með hærra frávik, og því má halda því fram að við höfum verið að bæta okkur.

Einstakir pennar voru svo með meira eða minna frávik eins og gengur (þar sem frávik upp á 0 segir að manni hafi tekist að spá rétt til um öll sætin). Besta einstaka frávikið kom hjá Halldóri, en hann var með frávik upp á 1.9. Næstu menn voru með frávik upp á 2.8: Hannes og Sigurður Einar deildu þeirri tölu. Frávikið hjá undirrituðum? Förum ekki út í svoleiðis smáatriði hér.

Til gamans er ágætt að bera þetta saman við spátölvuna sem fivethirtyeight notar til að spá fyrir um deildina í upphafi hverrar leiktíðar (sjá hér). Ofurtölvan var með frávik upp á 2.0, sem er vissulega betra en frávikið hjá Kop.is hópnum í heild sinni, en verra en hjá Halldóri, hann hlýtur því titilinn ofurtölva ársins að þessu sinni.

Hvaða lið voru okkur erfiðust? Það var fyrst og fremst Leeds sem við spáðum 8. sæti, en reyndust rétt sleppa við fall þegar upp var staðið, og reyndust vera með frávik upp á 9 sæti. Eins reyndust Brentford ekki jafn áfjáðir í að falla eins og við héldum. Hefði okkar spá gengið eftir hefðu þeir endað í neðsta sæti, en það 13. var niðurstaðan, frávikið var því upp á 7 sæti. Everton komu svo þar fast á eftir. Everton koma svo að sjálfsögðu þar rétt á eftir, þeir hefðu lent í 10. sæti skv. spánni en enduðu í því 16., og því frávik upp á 6 sæti.

Síðan er það Excel skjalið góða sem heldur utan um spárnar í podcastinu. Eins og venjulega er haldið utan um hvort þeir Einar Matthías, Steini og Maggi spái rétt fyrir um úrslit (sigur/jafntefli/tap), og fæst eitt stig fyrir slíkt, og svo fást 2 stig aukalega ef markatalan reynist rétt. Í þetta sinn er erfitt að bera saman heildarstigafjöldann enda voru menn misduglegir að mæta í podcast (sumir þurftu að láta kjósa sig formann Kennarasambandsins og svo var sitthvað fleira að flækjast fyrir). Við deilum því í fjölda podcasta hjá hverjum og einum, og fáum út spáhlutfall út frá því. Þar reyndist Steini bera höfuð og herðar (eða mögulega kannski bara rétt kollinn) yfir þá hina félaga sína, með spáhlutfall upp á 0.93, Maggi var með 0.92 og Einar með 0.87. Semsagt, að meðaltali krækti Steini sér í 0.93 stig í hverju podcasti, þar sem spáin er nú lang oftast sú að okkar menn vinni sinn leik, þá segir þetta okkur að Steini er ögn naskari að giska á rétta markatölu.

Nóg um þetta að sinni, næsta spá bíður handan við hornið, og fyrsti leikurinn fer að bresta á!

Fyrsti leikur í deild.

Upphitun: Fyrsti deildarleikur tímabilsins vs. Fulham á Craven Cottage