Spá Kop.is – fyrri hluti

Stoppið klukkuna, kveikið á prentvélunum.

Ofurtölvan hefur verið leyst af hólmi af okkur, spámönnum kop.is! Að venju þá rúllum við í gegnum spá fyrir komandi tímabil í enska boltanum sem hefst á föstudagskvöldið, okkar menn stíga til leiks á laugardaginn.

Dyggir lesendur þekkja fyrirkomulagið. Allir pennar síðunnar senda spá og raða upp liðum í sæti 1 – 20 og gefa sætin öfuga stigagjöf, þ.e. 1.sætið fær 20 stig og svo niður í að liðið í 20.sæti fær 1 stig. Samanlögð stigatala gefur svo samtölu og liðunum er raðað upp í þeirri röð á þann hátt að deildin þarf ekkert að fara af stað, bara raða þessu svona upp…eða ekki!

Ef þannig fer að lið eru jöfn að stigum í heildarútkomu okkar 10 sem spána gerum þá er það lið fært ofar sem að fær hærri spá hjá einum okkar og þá er það auðvitað bara spá fyrir því að eingöngu muni muna markatölu í vor.

Leggjum í hann, í dag miðvikudag förum við í neðri hlutann, liðin sem við röðum í sæti 11 – 20 og á morgun fimmtudag er það efri hlutinn. Fyrsta upphitun fer svo í loftið á föstudag og á laugardaginn er það svo leikþráður og skýrsla.

Þetta er að detta í gang!

20.sæti Brentford 24 stig

Brentford er afskaplega skemmtilegt verkefni sem gaman er að horfa til. Þetta litla lið í London hefur síðustu 10 ár verið að styrkja grunn sinn á meðal risanna í höfuðborginni. Jafnt og þétt bætt við áhangendahópinn um leið og dönsku eigendurnir (sem eiga líka Midtjylland) hafa styrkt leikmannahópinn með afskaplega sniðugum leikmönnum sem hafa nú skilað býflugunum í deild þeirra bestu. Stjórinn þeirra Thomas Frank hefur byggt upp sóknarlið sem hefur verið skemmtilegt að fylgjast með en nú er verkefnið stórt, of stórt að þessu sinni í okkar augum. Stærstu leikmannakaup sumarsins eru hafsentinn Kristofer Ajer frá Celtic og miðjumaðurinn Frank Onyek frá Midtjylland en við munum horfa sérstaklega til þess hvort U21s árs landsliðsmarkmaðurinn okkar Patrik S. Gunnarsson verður hluti hópsins í vetur og það verður líka gaman að sjá hvort fyrrum unglingsPúlarinn Sergi Canos spjarar sig í Úrvalsdeildinni. Brentford er skemmtileg viðbót við deildina en munu ekki ná að halda sæti sínu. Þeir munu þó nota reynsluna til að styrkja klúbbinn sinn og verða reglulega á meðal 20 bestu á næstu árum.

19.sæti Watford 29 stig

Watford með sína skrautlegu eigendur fá næstneðsta sæti í spá okkar fyrir veturinn. Í raun má segja að Watford sé kannski númeri ofar en Brentford, liðið kemur frá útborg London, með erlenda eigendur sem hafa keypt töluvert af minni spámönnum utan Englands og raðað saman liði sem er of sterkt fyrir Championshipdeildina en ekki nægilega gott til að vera alvöru lið á meðal þeirra bestu til lengri tíma. Þeir hófu tímabilið í fyrra ekkert rosalega vel og algerlega óvænt skiptu þeir um stjóra! Að venju leituðu þeir til Suður-Evrópumanns en sá var að stýra liði Dynamo Tbilisi í Georgíu þegar hann fékk símtalið og tók flug til Englands. Xisco heitir hann og er helst metinn sem öflugur varnarþjálfari, nokkuð sem Watford svo nýtti sér til fullnustu, voru afskaplega sterkir seinni hluta síðasta tímabils og flugu upp. Í sumar hafa þeir farið rólega um markaðinn en leitað í sínar vanalegu áttir og sótt leikmenn til Evrópu, stærsta nafnið Imran Louza, miðjumaður frá Nantes. Þeir fengu þó tvo reynslumikla menn úr efstu deild á frjálsri sölu, Joshua King kom frá Everton og Danny Rose frá Spurs. Þeirra langmest spennandi leikmaður er auðvitað vængmaðurinn Ismaila Sarr, hann hlýtur að verða áfram í deildinni þegar Watford detta niður, við erum alveg til í að fá hann til Liverpool til læriföðursins Sadio Mané.

18.sæti Norwich 40 stig

Kanarífuglarnir hennar Deliu Smith eru fyrstu mótherjar okkar í deildinni og við teljum þá falla með hinum nýliðunum niður í næst efstu deild. Þeir fá þó afar háa stigatölu fyrir lið sem á að falla og eru því það lið í botn þremur sem við teljum að eigi mestan sénsinn á að halda sér uppi. Þeir fóru beint niður 2020 en ákváðu að halda tryggð við Daniel Farke sem stjóra og uppskáru öruggan sigur í Championshipdeildinni á síðasta tímabili. Liðið sem var síðast í efstu deild var afskaplega sóknarsinnað lið sem gerði heiðarlega tilraun til að leika á þann hátt á meðal þeirra bestu, eignuðust alveg vini með þeirri leið en skítféllu. Farke breytti aðeins um brag í fyrra, hann þétti varnarleikinn töluvert og það varð grunnurinn að sigri þeirra í deildinni, fengu á sig 36 mörk í 46 leikjum og þar af um þriðjung í fyrstu 10 leikjunum. Þeirra stóra nafn er ennþá Finninn magnaði Pukki en í sumar bætti Norwich við sig leikmönnum sem eiga að hjálpa þeim töluvert. Þeir sóttu bandaríska framherjann Josh Sargent og bosníska vængmanninn Milot Rashica til Werder Bremen og skoska dýnamóinn Billy Gilmour fengu þeir lánaðan frá Chelsea, allt spennandi leikmenn sem verða lyklar í því að halda þessu liði uppi auk heimavallar sem hefur reynst þeim vel í gegnum tíðina. Það höldum við þó ekki að muni takast, jafnvel þó Luis Suarez sé ekki að spila reglulega á móti þeim. Þetta fall mun þýða brotthvarf Farke sem mun þó fá flott starf í kjölfar vinnu hans með Norwich.

17.sæti Burnley 46 stig

Í ensku deildinni eru lið sem keppa um efsta sætið, lið sem berjast um Meistaradeildarsæti, lið sem að keppa að Evrópudeildar- eða Sambandsdeildarsætum og svo eru lið sem keppa um 17.sætið og það að vera áfram í deild þeirra bestu. Til að vinna þá baráttu þarftu bæði að vera heppinn en ekki síður með afskaplega skýran fókus á að kreista fram stig á öllum mögulegum stöðum á allan mögulegan hátt. Við teljum Jóhann Berg og félaga í Burnley vinna þá keppni í vetur og halda sér uppi enn eitt árið. Það er alveg augljóst að Burnley fara undir okkar húð, eina liðið sem við unnum ekki heima á meistaratímabilinu okkar og slógu taplausa heimaleikjaröð LFC í fyrra með leikstíl sem við gleðjumst ekki yfir (þó vissulega við sem Íslendingar þekkjum það að styðja ólseig og skipulögð varnarlið með vel útfærðum skyndisóknum og föstum leikatriðum) og stjórann Dyche sem hikar ekkert við að þenja sig í okkar átt. Samkvæmt þeim síðum sem meta virði leikmannahópa ensku liðanna eru Burnley ódýrasta lið deildarinnar og geta því alveg borið höfuðið hátt. Heimavöllurinn þeirra er gamaldags breskur völlur með að sögn afskaplega skemmtilega stemmingu sem einfalt er að renna og kynna sér þegar maður er í Liverpool enda borgin bara um klukkutíma akstur frá Merseyside. Í sumar hafa þeir farið afskaplega rólega á leikmannamarkaðnum, Nathan Collins er ungur hafsent sem þeir keyptu frekar dýrt frá Stoke og þeir sóttu Wayne Hennesy sem varamarkmann. Jább krakkar, samkvæmt okkar spá verða Burnley áfram í næstu spá hjá okkur, en það verður naumt og gæti brugðið til allra átta í þeirri baráttu.

16.sæti Crystal Palace 49 stig

Það eru nýjir tímar í Suður-London. Roy Hodgson ákvað sjálfur að komið væri gott og Palace notuðu tækifærið og endurnýjuðu ekki samninga við fast að því 20 leikmenn sína, þ.á.m. nokkra sem að höfðu bara átt mikilli velgengni að falla. Félagið vildi fara nýjar leiðir fram á við og sóttu Patrick Vieira til að stýra liðinu. Þeir hafa verið að spjara sig ágætlega í yngri liða keppnum í Englandi og ætla sér að nýta þá að sögn til að taka næstu skref. Þeir eyddu töluverðum upphæðum í hafsentapar þegar þeir keyptu Marc Guehi frá Chelsea og Joachim Andersen frá Lyon (var lykilmaður í liði Fulham í fyrra) og eru þessu dagana í alls konar leikmannaslúðri enda ennþá frekar miklar eyður í leikmannahópnum þeirra. Vieira hefur sagt það alveg klárt að Wilfred Zaha og Eberechi Eze séu alls ekki á förum frá Palace og þeir eru í algerri lykilstöðu í því verkefni að halda Palace áfram uppi í bland við heimavöllinn sem reglulega hefur mælst sá háværasti í efstu deild og er mikil gryfja. Við teljum Palace ná að halda sér uppi en verði í harðri fallbaráttu. Við erum alveg á því að það fari eins nú líkt og þegar Palace gerði síðustu tilraun til að færa sig frá breskum háloftabolta þegar þeir réðu Frank de Boer í verkið og ráku svo fjótlega. Vieira hefur ekki náð eftirtektarverðum árangri á ferlinum hingað til og hann verður látinn fara fljótlega til þess að einhver af fallbaráttuhetjunum ensku, Allardyce, Pardew eða Pulis mæta og halda liðinu svo uppi. Sem mun takast.

15.sæti Newcastle 54 stig

Mat okkar félaganna er að Newcastleliðið verði í fallbaráttu í vetur og það eru vissulega nokkrir sem telja þá munu rúlla niður sem kannski væri ekkert það versta fyrir þennan risa í norðaustrinu, bara fá nýja byrjun enn einn ganginn og þá mögulega fá nýtt eignarhald sem að væri alls ekki það versta fyrir þá að okkar mati. Steve Bruce hefur náð liðinu upp úr mesta fallbaráttubaslinu síðustu ár og byggt upp lið sem að er orðið svona “tough to beat” lið sem berst og djöflast þar sem innanum eru flottir leikmenn eins og Callum Wilson og Allan Saint-Maximin sem hafa að mestu séð um sköpun færa og markaskorun. Þegar við birtum okkar spá hafa þeir eingöngu keypt einn leikmann, þeir ákváðu að splæsa peningum í Joe Willock eftir að hann náði góðum árangri með þeim í fyrra og alls konar sögur hafa flotið um leikmenn í þeim gæðaflokki til þeirra. Liðið er enn til sölu og þangað til að það gerist verður þessi saga uppi á borði þeirra röndóttu, slagur um að vera í miðjupakkanum en þetta árið verður þeim erfiðara en í fyrra og gæti hæglega endað illa. Heilt yfir er það þó okkar mat að þeir séu of góðir til að falla, en ekkert meira.

14.sæti Southampton 60 stig

Við færum okkur á suðurströnd Englands þegar við hittum fyrir næsta lið, Dýrðlingana hans Ralph Rangnick Hasenhuttl. Þeir byrjuðu tímabilið í fyrra illa, þ.á.m. með 0-9 heimatapi fyrir Leicester, en ákváðu þó að halda trausti við verkefni Þjóðverjans Austurríkismannsins að búa til pressufótboltalið með áherslu á sóknarleik. Það virkaði, liðið hrökk í gang og drifið áfram af öflugri vinnu miðjunnar undir stjórn James Ward Prowse og mörkum Danny Ings fór liðið hratt upp töfluna og sigldu lygnan sjó. Í sumar varð liðið fyrir áfalli þegar ljóst varð að Ings vildi burt og fór að lokum til Aston Villa og þegar þetta er skrifað er líka verið að eltast við Prowse, ef hann verður seldur gæti staðan orðið allt önnur. Þeir sóttu einn markahæsta mann næstefstu deildar Alan Armstrong frá Blackburn og lánsmanninn Armando Broja til að bæta upp brotthvarf markaskorarans og þeir verða að hrökkva hratt í gang. Við höfum mikla trú á Rangnick Hasenhuttl og það er helst á því byggt að við teljum þá verða nokkuð örugga um sætið í deildinni þó vissulega einhverjir pennar telji liðið geta fallið. Það er þó ljóst að ef þessi spá gengur eftir þá er framþróun Southampton alls ekki sú sem þeir ætluðu sér og viðbúið að einhverjar breytingar verði gerðar hjá liðinu sem ætlar sér að vera stöðugt topp 10 lið í efstu deild.

13.sæti Brighton 70 stig

Við færum okkur aðeins til vesturs á suðurströndinni til að greina frá 13.sæti í spánni. Þar situr Albionliðið frá borgunum Brighton og Hove undir stjórn Graham Potter. Hér er á ferð síðasta liðið sem einhver okkar spáir falli en í okkar hópi er liðinu líka spáð alveg upp í 8.sæti og heilt yfir teljum við þá verða bara örugga um áframhaldandi veru í deildinni sem er auðvitað lykilatriðið fyrir klúbbinn. Potter er afskaplega taktískur stjóri sem byggir liðið upp á öflugri pressuvörn og afskaplega vel útfærðum skyndisóknum. Hér er alls ekki á ferð það sem talað hefur verið niður sem “rútulagnarbolta” þar sem að liðið er fínt í að halda boltanum og er í raun ekkert langt frá því að berjast um að verða miðjuklúbbur í deild þeirra bestu. Þeir hafa farið varlega á markaðnum í sumar, í raun bara sótt einn leikmann, miðjumanninn Enock Mwepu frá Salzburg og munu þurfa að bæta fleiri leikmönnum við áður en glugginn lokar. Þeir misstu sína helstu stjörnu, Ben White, frá sér og munu örugglega nota peninginn í að styrkja hrygginn í liðinu, fá inn hafsent í hans stað og þeir þurfa fleiri mörk til að ná þeim árangri sem við erum að spá þeim. Mwepu stígur inn á miðsvæði þar sem þeirra mest spennandi leikmaður, Yves Bissouma, hefur stöðugt verið að bæta sig og verður næsti leikmaður sem Brighton selur dýrt til þeirra stóru, mögulega strax næsta sumar. Þeir hafa verið mjög klókir á markaðnum og við teljum að svo verði núna síðustu daga ágústmánaðar og hæfileikar Potter til að ná stigum muni duga þeim til að verða örugglega á meðal bestu liðanna áfram næsta vetur.

12.sæti Wolves 86 stig

Nýtt leiktímabil hjá Úlfunum og nýr stjóri…en ekki nýtt þjóðerni þar á bænum. Hinir portúgölsku eigendur Úlfanna leituðu inn á það svið sem þeir oftast hafa gert til að finna stjóra í stað Nuno og völdu samlanda sinn Bruno Lage til að leiða liðið inn í það sem þeir kalla næsta skref í átt að toppslag deildarinnar og um leið skemmtilegri bolta. Lage er þekktastur í heimalandinu fyrir það að leiða Benfica til meistaratitils vorið 2019 eftir að hafa tekið við stjórn þeirra í janúar það ár. Hann hins vegar sagði upp tímabilið á eftir að lokinni hroðalegri úrslitahrinu sem svo sannarlega gerði hann frekar óvinsælan í Lissabonn. Hann hefur reynslu af því að hafa unnið í Englandi, var aðstoðarstjóri bæði hjá Swansea og síðar Sheffield Wednesday á sínum tíma og fær nú það verkefni að leiða Úlfana ofar en áður, með kjarna liðsins svo sannarlega portúgalskan. Miklu máli mun skipta fyrir þá að fá Raul Jimenez heilan aftur eftir slæm höfuðmeiðsli og Armand Traore verður enn mikilvægari en áður. Þeir skiptu um markmann í sumar og völdu að halda sig við heimalendur eigendanna þegar þeir keyptu José Sa til að fara í treyjuna hans Rui Patricio (treysti þó að það verði ekki þetta hallærislega 11 – númer á ekki að vera á markmanni) og hann á að hafa reynsluna til að valda því verkefni. Það verður fróðlegt að sjá hvernig vegferð þeirra gengur, það virtust ekki síður eigendurnir sem völdu það að láta Nuno fara þrátt fyrir góðan árangur hans og þeir eru býsna brattir að fara þessa leið. Við teljum þá enda neðan við miðju en alls ekki í neinni fallbaráttu. Hvort það er eitthvað sem þeir telja nóg á svo alveg eftir að koma í ljós.

11.sæti West Ham 107 stig

Síðasta liðið í fyrri hluta spárinnar okkar eru Hamrarnir frá austurhluta London undir stjórn David Moyes. Þeir áttu frábært tímabil í fyrra, voru á tímabili að berjast um meistaradeildarsæti en enduðu að lokum í 6.sæti og munu keppa í Evrópudeildinni í vetur. Það mun hafa áhrif á frammistöðu þeirra og þeir sogast niður að miðjunni aftur þar sem þeir hafa að mestu verið undanfarin ár. Það verður þó að benda á að töluverður stigamunur er frá þeim niður í 12.sætið og þeir því fyrsta liðið sem segja má að horfi í áttina upp frekar en niður. Þeir hafa verið mjög rólegir á markaðnum en hljóta að styrkja sóknarleikinn sinn sem var klárlega sá þáttur leiksins sem þá vantaði uppá að bæta enda þeirra aðalframherji, Antonio, alls ekki markamaskína. Þeir þurfa á því að halda að Yarmolenko haldist heill enda sá sem skapar langmest en býsna öflug miðja í formi Declan Rice, Tomas Soucek og Mark Noble verður áfram lykillinn að því að liðið nái árangri. Það er öllum ljóst að West Ham ætla sér miklu meira en það að lenda í 11.sæti. Þeir hafa verið að styrkja grunn félagsins all verulega síðustu ár og heimavöllurinn þeirra er hægt og rólega að verða til. Félagið situr tiltölulega eitt að stórum markaði í London (Leyton Orient þeirra næstu grannar) og eru á allt öðrum stað en áður þegar kemur að fjármagni. Við teljum þó liðið ekki vera á þeirri leið heldur verði miðjulið í vetur og að honum loknum kveðji Moyes á ný. Mögulega fer hann þá og tekur við af Solskjaer…enda “The Chosen One”…

Þarmeð lýkur fyrri hluta spárinnar okkar – á morgun kemur efri hlutinn og þ.á.m. hvað við segjum um okkar lið…

2 Comments

    • heldur betur en við erum að spá því að hann verður rekinn 😉

      2

Gullkastið – Tilbúnir í mót

Fantasy deild kop.is