Fjórum árum síðar

Fyrir fjórum árum skoðuðum við mynd af liði Liverpool eins og það var í byrjun janúar árið 2014, og bárum það saman við hóp Liverpool eins og hann leit út fjórum árum síðar. Á þessum tímapunkti, þ.e. í janúar 2018, var Coutinho nýfarinn, og Van Dijk nýkominn. Þetta þýddi að aðeins fjórir leikmenn voru enn eftir af hópnum síðan árið 2014: Henderson, Mignolet, Sturridge og Flanagan. Sá síðastnefndi lauk sínum samningi um vorið, og spilar nú í Danmörku. Mignolet og Sturridge náðu sem betur fer í medalíur með liðinu, en þeir fóru báðir frá klúbbnum sumarið 2019. Henderson er því sá eini sem er búinn að vera allan tímann síðan í janúar 2014 – og reyndar gott betur en það enda kom hann til liðsins sumarið 2011.

En þetta sýnir vel hve mikil endurnýjun fór fram fyrstu árin eftir að Klopp tók við.

Í póstinum spurði ég hvaða leikmenn við héldum að yrðu ennþá hjá félaginu fjórum árum síðar, eða núna í janúar 2022, og vísaði í sams konar spurningu sem ég hafði lagt fyrir á sambærilegum þræði á Reddit. Þar voru eftirtaldir leikmenn helst nefndir (í þessari röð): Van Dijk, Trent, Ox, Gomez, Bobby, Robbo, Matip, Keita, og Woodburn. Það er athyglisvert að allir þessir leikmenn eru ennþá hjá félaginu, aðeins Woodburn er á láni og er því ekki að spila með félaginu í augnablikinu. En það er líka áhugavert að skoða hverjir eru ekki á þessum lista. T.d. er Salah ekki á listanum, mögulega reiknuðu lesendur með því að hann yrði keyptur fyrir metfé. Kannski vorum við brennd af því að vera nýbúin að selja einn af okkar bestu mönnum til Barcelona, og héldum að Liverpool yrði áfram “feeder” klúbbur fyrir þessa allra stærstu. En viti menn, Klopp bara ýtti okkar mönnum upp og staðsetti félagið meðal þeirra allra bestu, og því er ekki lengur nein ástæða fyrir leikmenn að fara neitt ef þeir vilja spila meðal þeirra bestu (wink wink hóst hóst *Salah* hóst wink).

Skoðum aðeins hvaða leikmenn hafa svo farið frá félaginu á þessum fjórum árum sem nú hafa liðið:

Markverðir: Mignolet, Bogdan, Ward
Varnarmenn: Clyne, Lovren, Klavan, Moreno, Flanagan
Miðjumenn: Gini, Grujic, Lallana, Can, Markovic, Ejaria, Wilson
Sóknarmenn: Sturridge, Ings, Solanke
Leikmenn sem voru á láni: Kent, Randall, Chirivella, Allan, Awoniyi

Líklega eru þetta allt leikmenn sem okkur þykir vænt um sem fyrrum Liverpool leikmenn, en söknum kannski tæplega úr hópnum (nema auðvitað Ragnar “Clean Sheet” Klavan)

Og hverjir hafa bæst við?

Kíkjum fyrst hverjir hafa verið keyptir:
2018: Alisson, Fabinho, Keita
2019: Adrian, Elliott, Sepp
2020: Minamino, Thiago, Jota, Tsimikas
2021: Konate,
2022: Díaz

(Athugið að við erum að skoða tölfræðina frá 12. janúar 2018, þegar VVD var nýkominn til liðsins og er því ekki talinn upp hér.) Hér standa árin 2018 og 2020 upp úr, en við getum sagt að í augnablikinu séu fjórir (fimm með VVD) byrjunarliðsmenn í hópi fyrstu 11 (Alisson, Fab, Thiago, Jota). En það er áhugavert að á þessum fjórum árum hefur í reynd verið ágætis endurnýjun á liðinu, ef við gefum okkur að Elliott, Konate og Tsimikas verði orðnir fastamenn í fyrstu 11 á næstu misserum, þá má segja að á þessum fjórum árum hafi verið keyptir 7 byrjunarliðsmenn (8 með VVD). Ef sambærileg endurnýjun helst áfram á næstu árum þá þurfum við litlar áhyggjur að hafa.

Það hafa alveg fleiri leikmenn komið til liðsins, þá yfirleitt ungir leikmenn sem hafa verið keyptir inn í akademíuna eða leikmenn eins og Ben Davies sem er nú alls ekki á aldri til að spila með akademíunni en hefur ekki náð leik með aðalliðinu hingað til.

Svo er ekki síður áhugavert að skoða lista yfir þá sem hafa komið upp úr akademíunni og hafa átt spretti með aðalliðinu, þ.e. hafa spilað sæmilega marga leiki:

Kelleher, Nat Phillips, Rhys Williams, Neco Williams, Curtis Jones, Tyler Morton

Allt fínir leikmenn sem hafa komið inn og gert gagn þegar meiðsli hafa hrjáð fyrstu 16-18 í aðalliðinu, kannski ekki leikmenn sem við sjáum fyrir okkur sem byrjunarliðsmenn hjá Liverpool til lengri tíma, en sem geta stokkið til og gert gagn þegar á reynir. Öll lið verða að eiga svoleiðis leikmenn, og ómetanlegt að geta fundið þá í akademíunni.

Við þennan lista mætti svo bæta þeim leikmönnum sem komu upp úr akademíunni, fengu sína sénsa, en voru svo seldir. Sumir þeirra voru vissulega keyptir fyrir einhverja smáaura, en langflestir þeirra voru svo seldir fyrir talsvert hærri upphæðir. Sem dæmi mætti nefna Harry Wilson, Rhian Brewster og Ki-Jana Hoever.

Auðvitað mætti tína til fleiri leikmenn sem hafa átt kannski tvo-þrjá leiki með aðalliðinu: Kaide Gordon, Leighton Clarkson, Conor Bradley, Owen Beck, Jake Cain o.fl., en enginn þeirra hefur náð að stimpla sig inn í aðalliðshópinn eins og hinir – enn. Gefum þeim nokkur ár til viðbótar til að sýna hvort þeir fari að banka af alvöru á dyrnar hjá aðalliðinu.

Við getum líklega dregið þetta saman í lokin: Klopp er búinn að gera mjög vel í því að endurnýja hópinn á hæfilegum hraða með kaupum á leikmönnum, ásamt því að gefa kjúklingum úr akademíunni séns eftir því sem möguleiki hefur verið. Munum að síðustu 4 árin hefur hann verið í blóðugri samkeppni við Guardiola og botnlausu peningahítina sem hann stýrir, og því í raun alveg magnað að svona margir ungir leikmenn hafi fengið tækifæri á þessum tíma.

Staðan árið 2026

En þá er það spurningin: hvernig verður staðan eftir 4 ár?

Nánar tiltekið: hverjir af eftirtöldum leikmönnum aðalliðs Liverpool verða ennþá á mála hjá félaginu?

Markmenn: Alisson, Kelleher, Adrian, Pitaluga, Karius
Varnarmenn: Trent, Robbo, Tsimikas, VVD, Matip, Gomez, Konate, Rhys
Miðjumenn: Henderson, Fabinho, Thiago, Keita, Ox, Milner, Curtis
Sóknarmenn: Salah, Mané, Firmino, Jota, Díaz, Elliott, Minamino, Origi
Leikmenn sem eru á láni: Nat Phillips, Neco Williams, Ben Woodburn, Ben Davies, Sheyi Ojo, Sepp van den Berg

Hendið endilega ykkar spá í athugasemd, takið sérstaklega eftir að núna nota ég orðalagið “á mála hjá félaginu”. Verður Milner e.t.v. kominn í þjálfarastöðu hjá yngri liðunum?

Svo væri ekki úr vegi að bæta við kannski mikilvægasta atriðinu: hver mun stýra Liverpool árið 2026? Ef þið eruð í miklu stuði væri líka óvitlaust að nefna nokkur nöfn sem þið haldið að muni koma til Liverpool á næstu árum.

5 Comments

  1. Markmenn: Alisson verður áfram markvörður liðsins en Kelleher verður farinn í gott lið.
    Varnarmenn: Trent, Robbo, Tsimikas, VVD, Konate verða allir á sýnum stað en Matip og Gomez verða farnir annað. Annars út af aldri og hinn vill fá að spila meira.
    Miðjumenn: Fabinho, Keita, Henderson og Jones verða einu eftir.
    Sóknarmenn: Jota, Diaz, Elliott verða einu eftir.

    Það verður endurnýjun á liðinu að mestu fyrir utan að vörninn okkar verður mjög svipuð áfram. Salah verður seldur jafnvel í sumar, Bobby er á niðurleið, Mane tekur 2-3 tímabil í viðbót áður en við hleypum nýjum að.
    Henderson er stórt spurningarmerki en ég held að hann mun taka að sér James Millner hlutverkið að vera reynsluboltinn í klefanum án þess að spila of mikið. Hann verður þarna á síðustu metrunum áður en hann gæti klárað svo eitt Sunderland tímabil áður en fæturnir alveg gefa sig.

    Næsti stjóri Liverpool verður Steven Gerrard en ég er á því að kannski hefði verið betra að ráða Peter Krawietz sem myndi halda áfram með sama og Klopp var að gera.

    7
  2. Eftir 4 ár verður Klopp enn stjóri Liverpool þar sem hann framlengdi samning sinn til 2028 😀

    1
  3. Smá útúrdúr en hvernig getur Arteta verið valinn stjóri mánaðarins. Tapaði einum leik fyrir okkur en vann þrjá en klopp vann alla leikina í mars og meðal annars Arsenal. Þvílíka ruglið

    2
    • Segðu ..ég hlæ í hvert sinn sem þeir hlunnfara Klopp afþví bara..þeir gerðu þetta síðast líka algjörir trúðar sem eru þarna.
      Þetta á að vera viðurkenning fyrir þá sem standa sig best og eh hluta vegna eru þeir að ignora Liverpool og Klopp ekki veit ég afhverju.
      Trúðar

      2
  4. Ef marka má 4 árin á undan þá verða margir seldir til að fjármagna kaup á 1-2 stjörnum og til að tryggja að ungir leikmenn fái tækifæri með aðalliðinu.

    Enn hjá liðinu:

    Markmenn: Alisson, Pitaluga,
    Varnarmenn: Trent, Robbo, VVD, Konate
    Miðjumenn: Fabinho, Curtis
    Sóknarmenn: Jota, Díaz, Elliott

    Og 1-3 leikmenn úr akademíunni komnir í hóp, en erfitt að segja hverjir.

    Í þennan hóp vantar 1-2 góða enska leikmenn til að fylla kvótann. Getur maður látið sig dreyma um Bellingham? Eða að Cavalho (sem telst heimaalinn) komi og sé eins góður og sagt er?

    Þjálfari. Linders
    U-18 Milner

    Hendo verður farinn en mun koma aftur síðar (prófar að spila í USA/Asíu fyrir pening eða fer og þjálfar annars staðar). Sé hans leið ekki hann ekki sem ungliðaþjálfara eins og Milner nema hann geri eins og Gerrard og fari fyrst annað. Fyrrum aðal fyrirliði þarf að fara í burtu þegar hann dregur saman seglin.

Gullkastið í Apple Podcasts appinu

Watford eftir landsleikjahlé