Þróun toppliðanna eftir Covid

Maí 2020 til Feb 2022

Áður en leikmannaglugginn opnaði sumarið 2020 á hátindi Covid óvissunnar tókum við saman breiddina hjá toppliðunum. Núna eru fjórir leikmannagluggar komnir frá þessari samantekt og gaman að skoða stöðuna aftur nú og eins skoða hvernig hóparnir hafa breyst á tveimur árum.

Liverpool

Hægt og hljóðlega er Liverpool búið að gjörbreyta leikmannahónum frá maí 2020.

Það eru sjö nýjir leikmenn komnir í hópinn á þessum tíma, þar af þrír úr akademíunni. Vonbrigða sumarið 2020 þar sem aðeins Diogo Jota, Thiago og Tsimikas bættust við hópinn eru farið að líta töluvert betur út núna.

Jota er hrein viðbót við sóknarlínuna. Hann setti Origi og Minamino strax aftar í goggunarröðina og er núna að gera það sama við Bobby Firmino. Það eru ekki margar níur í hinum liðunum sem við tækjum framyfir Jota núna.

Harvey Elliott er vissulega ekki beint akademíuleikmaður Liverpool þó hann komi þaðan í aðalliðið. Við erum að horfa á innkomu í deildina á leveli við Rooney, Milner og Owen þegar þeir komu 16-18 ára. Það er í raun galið að komast bara strax inn í byrjunarliðið hjá þessu Liverpool liði og hvað þá að gea það aftur strax eftir meiðsli. Þetta er Ballon D´or efniviður.

Curtis Jones er svo orðin töluvert meiri partur af liðinu í dag, það er magnað hjá honum og aðeins vanmetið að vera í og við byrjunarliðið hjá Liverpool rétt um tvítugt. Hvorugur þeirra Jones og Elliott er nálægt sýnu þaki sem leikmenn. Það má svo ekki vanmeta hvað þróun leikmanna eins og Trent, Elliott og Jones hjálpar Liverpool mikið á leikmannamarkaðnum við að sannfæra aðra efnilega leikmenn um ágæti félagsins. Kelleher er annar ungir sem hefur komið inn í hópinn, hann er í öðru sólkerfi í samanburði við Adrian.

Konate hefði í raun átt að koma ári fyrr enda er hann að fylla skarð Dejan Lovren. Hann hefur nú þegar tekið stöðina afgerandi af glermanninum Joe Gomez og er jafnframt að veita Matip alvöru samkeppni. Rosaleg styrking á hópnum.

Luis Diaz er svo bara galið spennandi viðbót og með honum er nú þegar hægt að sjá framtíðar sóknarlínu Liverpool jafnvel þó þríeykið yfirgefi félagið á næstu árum. Diaz – Jota – Elliott og svo er stutt í Kadie Gordon sem er rosalegt efni einnig.

Það er enginn lykilmaður kominn yfir hæðina og við sjáum á þessari viðbót að FSG er byrjað að endurnýja gullaldarliðið.

Hvað næst?

Næsta skref er líklega endurnýjun á miðsvæðinu og vonandi þá með alvöru statment leikmannakaupum. Keita, Ox, Milner og Minamino eru líklega ekki framtíðarleikmenn Liverpool og gætu losað pláss fyrir nýju blóði. Eins er spurning hvort einhver af Salah, Mané eða Bobby fari í sumar sem gæti sett sumarið í allt annað ljós.

Jude Bellingham væri draumurinn en Liverpool spilar einfaldlega ekki á þeim markaði og með Elliott, Jones og mögulega Fabio Carvalho er líklega engin þörf á framliggjandi miðjumanni. Mun líklegra væri dýpri miðjumaður sem gæti keppt við Fabinho og Henderson um stöðu. Aurélien Tchouaméni frá einmitt sama liði og Fabinho (Monaco) væri ekta leikmaður sem fellur undir þessa skilgreiningu. Mögulega Youri Tielemans hjá Leicester einnig en hann á aðeins ár eftir af samningi í sumar og ekki að eiga sitt besta tímabil, FSG hatar ekkert leikmenn með gæði sem aðrir vanmeta.

Það er nóg til af góðum miðjumönnum sem passa í boxin hjá ofurnördunum hjá Liverpool sem sjá um að finna leikmenn. Það væri mjög úr karakter ef Jude Bellingham væri efstur á blaði þar en möguleiki ef hann er áltitin það rosalega góður. Liverpool finnur Luis Diaz í staðin fyrir að hjóla í helmingi dýrari Jadon Sancho, það á við um nánast allar stöður.

Eins þarf betra cover í hægri bakverði ef að framtíð Neco Williams er ekki hjá Liverpool. Það er hroðaleg tilhugsun að spila miðverði í stað Trent þegar hann er fjarverandi.

Man City

Guardiola er ekki búinn að kaupa neitt mjög marga leikmenn undanfarin tvö ár en félagið er engu að síður búið að eyða um €320m á leikmannamarkaðnum á móti sölu leikmanna fyrir um €170m.

Stóra breytingin hjá City er Ruben Dias í vörninni og betri stöðugleiki í þeirri stöðu. Nathan Ake er svo fínn €45 fjórði kostur. Flott endurnýjun hjá þeim á Otamendi og Eric Garcia.

Benjamin Mendy hefur vonandi lokið leik endanlega í þessari íþrótt en í hans stað hefur Cancelo komið frábærlega inn og er miklu betri leikmaður.

Rodri hefur fótað sig mjög vel undanfarin tvö tímabil og fyllir mjög stórt skarð Fernandinho vel.

Það var ekkert mál að henda í €100m Jack Grealish til að fylla skarð David Silva.

City á svo eftir að fylla skarð Leroy Sané úr því að Ferran Torres var seldur núna í janúar og auðvitað Sergio Aguero.

Ef maður skoðar hópinn hjá City er augljóst að þeir hafa sloppið nokkuð vel frá meiðslavandræðum og veikindum á þessu tímabili. Breiddin er góð en ekkert endalaus. Samanburður á breidd City og Liverpool lítur t.a.m. allt öðruvísi út í dag. Öfugt við Liverpool er aðeins einn leikmaður úr akademíu félagsins partur af aðalliðshóp félagsins. Það þrátt fyrir að Man City sé bókstaflega með bestu aðstöðu í heimi og sjálfan Pep Guardiola að stýra liðinu. Endurnýjun liðsins undanfarin tvö ár hefur engu að síður tekist nokkuð vel og færri mjög slæm leikmannakaup hjá þeim en stundum áður. Meðalaldur hópsins er mjög heilbrigður og ljóst að City er ekkert að fara á næstunni.

Hvað næst?

Það er nokkuð ljóst að þeir eru með einhver ofurkaup í huga í sumar. Haaland er mjög líklegur ef að þeir hafa gefið Kane upp á bátinn. Svo eru þeir auðvitað alveg líklegir í Bellingham slaginn einnig eða leikmenn í þeim gæða-og verðflokki. Afhverju ætti Mbappe t.a.m. að fara frekar til Real Madríd en (næst)ríkasta félagsins á Englandi í sumar ef þau bjóða svipað? La Liga er ekki deildin sem er á leiðinni upp næstu árin.

City keypti reyndar í janúar sóknarmann frá Argentínu sem gæti komið nokkuð tilbúinn til leiks í Evrópu, hann raðar inn mörkum í heimalandinu.

Chelsea

Töluverð endurnýjun hefur átt sér stað á tveimur árum hjá Chelsea. Tuchel tók við af Frank Lampard og hefur náð töluvert meira úr þessum frábæra leikmannahóp. Það var einmitt undarleg umræða um Chelsea fyrir tveimur árum, væntingarnar alls ekki í takti við að þetta er einn dýrasti leikmannahópur sögunnar.

Dýrasti markmaður sögunnar var svo lélegur hjá Chelsea að hann missti sæti sinn í liðinu og félagið gafst upp á honum. Mendy kom frá Frakklandi og á byrjunarliðssætið nokkuð örugglega. Chelsea er þar með búið að eyða einhverjum €105m í markmenn frá 2018.

Reece James hefur komið sterkur úr akademíu Chelsea sem er farin að skila aðeins meiru í aðalliðið eftir að hafa dælt út góðum gæðum í önnur lið í u.þ.b. áratug. Tomori sem fékk séns undir stjórn Lampard skilaði eins töluverðu í kassann er hann fór til AC Milan.

Thiago Silva hefur komið sterkur inn í vörn Chelsea og var að framlengja samning sinn hjá þeim þrátt fyrir að vera orðin 37 ára.

Chilvell var mikil bæting á Alonso og Chelsea reyndi að fá Emerson til baka út láni í janúar í kjölfar langtímameiðsla Chilvell en án árangurs. Fínt samt að eiga Alonso sem vara vinstri bakvörð.

Saul Niguez var mikið til umræðu í sumar enda stór biti á leikmannamarkaðnum fáanlegur á sanngjörnu verði. FSG var sakað um töluvert metnaðarleysi á leikmannamarkaðnum og það féll í grýttan jarðveg að ætla treysta frekar á Elliott og Jones ásamt auðvitað Keita og Ox sem voru búnir að ná sér af sínum meiðslum. Lítið farið fyrir þeirri umræðu hinsvegar eftir því sem líður á tímabilið. Klopp og félagar virðast vita ágætlega hvað þeir syngja, sama má klárlega segja um ofurnördana sem hjálpa til við leikmannakaup.

Tuchel er svo nánast búinn að skipta út framlínunni. Willian, Pedro, Giroud og Abraham allir farnir og inn fyrir þá komu yngri og/eða meira spennandi gæði í Havertz, Ziyech, Werner og Lukaku.

Chelsea er annars með svo stóran leikmannahóp alltaf að þeir geta leyft sér að lána leikmenn eins og Conor Gallagher, Giroud, Batshuayi, Emerson, Gilmour, Bakayoko, Drinkwater og Moses.

Hvað næst?

Það er spurning hvað verður um sjóði eiganda félagsins ef að Rússar fara í stríð við Evrópuríkin með tilheyrandi viðskiptaþvingunum sem mikið eru í umræðunni núna? Chelsea þarf svosem ekki mikið að gera á markaðnum en það er spurning hvor þeir leiti ekki að sóknarmanni þriðja gluggann í röð ef Lukaku og Werner fara ekki að smella betur saman við liðið.

Man Utd

Ole Gunnar Solskjaer er því miður farinn þrátt fyrir að vera einn skemmtilegasti stjóri United í sögunni. Hann hélt starfinu lengi vel vegna þess að hann var að endurnýja liðið ágætlega og topparnir hjá félaginu áttuðu sig á að slíkt gerist ekki á einni nóttu. Nú er komin smá reynsla á þessa endurnýjun hjá United.

De Gea er ennþá í markinu og hefur nú verið að ná vopnum sínum aðeins til baka undanfarin misseri eftir góða dýfu með liðinu.

Það er enginn að tala um AWB sem betri bakvörð en TAA lengur, já það voru í alvöru United menn sem voru alveg á þessu bara á síðasta ári. Hann væri í öðru sólkerfi varnarlega og ekki mikið síðri sóknarlega. Hvorugt hefur nokkurntíma verið nálægt því að vera rétt.

Hlutabréf í Harry Maguire hafa ekki beint hækkað frá 2020. Gleymum ekki að hann er dýrari en Virgil van Dijk! Rafael Varane kom í sumar með CV sem bókstaflega einn besti miðvörður í heimi hefur eins verið í miklum vandræðum í enska boltanum. Enska deildin er erfiðari en sú spænska og holning United er bara grín m.v. það sem hann er vanur hjá Real. Bailly og Jones eru svo bara ennþá þarna helsprækir.

Miðjan er án gríns óbreytt hjá United frá maí 2020, Matic er núna tveimur árum hægari. Fred er á undan Pogba í byrjunarliðið og bæði Lingard og Mata er nánast ekki partur af liðinu, hafa spilað lítið sem ekkert í vetur.

Jadon Sancho er loksins kominn frá Dortmund og United á hann nokkurnvegin inni ennþá. Hann er rétt eins og Donny van der Beek miklu betri leikmaður en hann hefur náð að sýna hjá United.

Cavani er öflug viðbót frá því fyrir tveimur árum og allt þar til núna í janúar var Mason Greenwood að þróast í leikmanninn sem Martial og Rashford áttu að þróast í að verða.

Versta viðbótin við þennan hóp hlítur samt að vera prímadonnan Cristiano Ronaldo sem var keyptur undir lok félagsskiptagluggan bókstaflega til þess að Man City tæki ekki helstu hetju United manna. Þetta er ekkert sami Ronaldo og þeir seldu til Real Madríd og hefur ekki verið það lengi. Hann skorar áfram sín mörk en guð minn góður hvað koma hans virðist hafa grafið undan því sem Solskjaer var að reyna þróa með yngri leikmönnum.

United virðast í vetur hafa verið að glíma við það sama og Juventus undanfarið, Allegri stjóri Juventus sagði einmitt í viðtali í síðustu viku að Juventus snerist meira um liðið sem heild í dag frekar en “persónuleg markmið” og var augljóslega að skjóta á Ronaldo án þess að segja það beint.

Martial var orðið svo skemmt epli að hann fékk að fara á láni í janúar skömmu áður en uppljóstrað var um hvaða mann Greenwood hefur að geyma. Frá sjónarhóli United er hans mál vægast sagt gríðarlegt áfall enda ein helsta framtíðarstjarna félagsins.

Hvað næst?

Vá!

Það sem United þarf mest er alvöru stefna sem félagið vinnur eftir nokkuð óháð því hver stýrir liðinu og líklega er Ralf Ragnick maðurinn sem þeir ætla það hlutverk, hann verður stjóri út þetta tímabil eins og hann hefur stundum gert hjá Red Bull liðinum. Hann er hinsvegar hættulegur ef þeir ætla honum meira hlutverk Ed Woodward er kemur að því að móta og þróa stefnu félagsins til framtíðar. Afleitt að fá mann með viti í það hlutverk.

Varðandi sumarið þá hlítur United að vera með í baráttunni um Erik Haaland, Harry Kane, Jude Bellingham og hvað þeir heita allir því að þeir þurfa mest á því að halda (og hafa efni á því).

Það þarf á næstu árum að endurnýja skarð Greenwood, Martial, Cavani og Ronaldo er að verða 38 ára. Á miðjunni virðist ljóst að Pogba er að fara ásamt Lingard og Mata.

Viðurkenni að ég bjóst við því að minn maður Ed Woodward yrði búinn að styrkja United liðið betur á þessum tæplega tveimur árum.

Tottenham

Það er aðeins vanmetið hversu ofboðslega misheppnað Spurs hefur verið á leikmannamarkaðnum undanfarin ár. Dýrasti leikmaður hvers einasta leikmannaglugga undanfarin þrjú ár fór frá félaginu á láni núna í janúar. NDombèlé (2019), Lo Celso (2020), Gil (2021) kostuðu samanlagt um €133m. Tottenham hefur ekkert efni á svona mistökum.

Stóra málið hjá Tottenham er að þeir eru núna komnir aftur með alvöru stjóra eftir að hafa látið Pochettino fara. Argentínumaðurinn var nokkurnvegin eini alvöru góði stjórinn sem Daniel Levy hefur ráðið til Tottenham og hann sýndi ágætlega að það var bara heppni umfram það hversu klókur hann er því hann réði Mourinho sem eftirmann hans.

Síðasta sumar var vandræðalegt hjá Tottenham sem endaði með ráðningu Nuno Espírito Santo eftir að hans nafn ásamt átta öðrum var sett á svona lukkuhjól eins og er á English bar.

Antonio Conte er allt annað level og er hægt og rólega að fá varnarlínuna til að virka sæmilega. Romero er mjög góður, Dier og Sanchez hafa svo farið vaxandi undanfarið í fimm manna varnarlínu Conte. Prime Alderweireld og Vertonghen voru þó báðir betri leikmenn en það sem þeir eru að vinna með núna.

Undanfarin tvö ár eru þrír nýjir bakverðir komnir til félagsins og bæði komið með ágæta breidd og gæði.

Höjbjerg frá Southampton eru bestu kaup Spurs undanfarin tvö ár og Oliver Skipp er að fóta sig ágætlega í deildinni. NDombélé er nú líklega betri knattspyrnumaður en þeir báðir en náði alls ekki að sýna það hjá Tottenham.

Það er ekki hægt að tala um að Dele Alli hafi staðnað því honum hefur farið bara töluvert aftur og líklega hjálpaði innkoma Jose Mourinho honum hvað síst. Rosaleg vonbrigði fyrir Spurs að gefa Alli frá sér 25 ára því að hann var valinn besti ungi leikmaður tímabilsins bæði tímabilið 2015/16 og 2016/17. Ef allt væri eðlilegt væri hann að nálgast hátind ferilsins. Lo Celso er líka 25 ára og er svo langt frá liðinu að hann var lánaður til Spánar núna í janúar. Lamela fór á frjálsri sölu í sumar.

Liverpool eyðilagði janúargluggan að hluta til hjá Levy með því að ganga inn í Diaz dílinn en Barcelona bjargaði þeim á móti með því að taka Adama Traore. Bentancur og Kulusevski eru báðir spennandi leikmenn en virka ekkert mikið hærri gæði en það sem Spurs hefur verið að kaupa undanfarið. Þeir hafa það þó umfram aðra að þetta eru fyrstu leikmennirnir sem félagið kaupir í tíð Conte og ekki skemmir fyrir að þeir koma frá Juventus, liðinu hans Conte.

Níu nýjir leikmenn hjá Tottenham á tveimur árum, enginn af þeir úr yngriflokka starfi félagsins og þriðji nýji stjórinn. Hún hefur ekki beint verið sannfærandi hjá þeim endurnýjun Pochettino liðsins. Þeir hefðu kannski betur leyft honum að kaupa eitthvað smá?

Hvað næst?

Conte er nú þegar farinn að útvarpa því hversu óánægður hann var með janúargluggann og ef Tottenham ætlar að halda honum þarf Levy að opna veskið. Sala á Harry Kane gæti fjármagnað megnið af því.

Arsenal

Ef að Ole Gunnar var að taka til hjá United þá er það ekkert m.v. hvað Arteta er að gera hjá Arsenal og ekki var vanþörf á. Slæm leikmannakaup í nokkuð langan tíma skildu eftir bara ansi krefjandi verkefni fyrir Arteta sem er nú á ágætri vegferð með endurnýjun leikmannahópsins. Sérstaklega þá m.t.t. hverstu marga vandræðapésa hann hefur losað félagið við.

Það þarf einhver úr stéttarfélagi markmanna að útskýra fyrir mér hvernig það var ekki pláss fyrir Emi Martinez í byrjunarliði Arsenal þessi átta ár sem hann var hjá félaginu. Þetta er landsliðsmarkmaður Argentínu í dag hefur virkað mun meira sannfærandi hjá Aston Villa en Leno hefur nokkurntíma gert hjá Arsenal. Ramsdale fengi vissulega hlutverk markmannsins Kíklópana í Skot á Mark teiknimyndunum enda einn mesti sjónvarpsmarkvörslumarkmaður nútímans en er hann betri en Martinez?

Tomiyasu frá Japan virkar traustur bakvörður en ekki alveg í sama flokki og þessir gríðarlega spennandi sóknarbakverðir sem hafa verið að koma upp undanfarin ár. Öll toppliðin eru með betri hægri bakvörð og maður bjóst nú við því að Bellerín yrði einn af þeim bestu 26 ára.

Tavares er fínt back up í vinstri bakverði og Arsenal þarf á því að halda m.v. meiðslasögu Tierney.

White og Gabríel með alvöru djúpan miðjumann fyrir framan sig er mikil bæting á varnarlínunni frá því sem áður var enda Arteta búinn að losa félagið við fimm miðverði núna (Marí líka farinn á láni).

Thomas Partey var nú ekki beint gáfulegur gegn Liverpool um daginn en hann gefur Arteta meiri stöðugleika nú þegar hann er heill en menn eins og Torreira, Guandouzi (og Wilock) voru að gera. Frakkinn er reyndar búinn að vera mjög öflugur á miðjunni hjá Marseille en virðist vera vægast sagt erfiður í umgengni. Enn einn sem maður bjóst við meiru frá nú þegar hann er orðin 22 ára. Lokonga sem kom frá Belgíu í sumar þróast vonandi betur hjá þeim.

Miðjan og framlínan hjá Arsenal er hinsvegar orðin efniviður í alvöru heimsklassa ef þeir ná að halda þeim áfram saman hjá félaginu. Emile Smith-Rowe hefur verið frábær það sem af er tímabili en Arteta er að nota hann í nánast öllum stöðum norðanmegin við miðju. Mögulega þarf að negla hann niður í ákveðið hlutverk og láta hann þróast í því. Martin Ödegaard er eins að sýna hjá Arsenal að það er ástæða fyrir því að hann var efnilegasti leikmaður í heimi fyrir nokkrum árum. Smá vandræðalegt fyrir hann reyndar að verða ekki einu sinni besti norsarinn af sinni kynslóð. Til að skapa pláss fyrir þá eru búið að losa félagið við Mezut Özil og núna í janúar Maitland-Niles. Hvað gerðist hjá Özil er mjög erfitt að segja og eins voru nú gerðar töluvert meiri væntingar til AMN. Ekki langt síðan Lierpool var orðað við hann sem dæmi.

Aubameyang virðist hafa verið enn einn vandræðagemsinn í herbúðum Arsenal, hann hefur reyndar verið það allan sinn feril en unnið það upp með því að skora fullt fullt af mörkum. Hann var fyrirliði félagsins núna þar til í desember að hann varð svo toxic að Arsenal lét hann fara frítt elliheimilið í Barcelona. Lacazette er ennþá hjá félaginu en fer líklega í sumar, Aulas hjá Lyon hefur talað um endurkomu hans.

Næsta kynslóð er þar með tekin við og hún er gríðarlega efnileg. Saka er eitt besta efni heimsfótboltans og Jurgen Klopp var ekki að hrósa Martinelli ótilneyddur að ástæðulausu. Hann er alvöru góður. Auk þeirra á Arsenal svo auðvitað ennþá dýrasta leikmann í sögu félagsins nánast ónotaðan á þessu tímabili, Nicholas Pepé.

Hvað næst?

Miðað við hvað Arsenal losaði marga leikmenn í janúar er líklegt að verið sé að laga bókhaldið fyrir stóran sumarglugga 2022. Aðalatriði hjá þeim verður að halda sínum bestu leikmönnum og byggja áfram ofan á þetta spennandi lið.

Leicester

Hlutabréfin í Bredan Rodgers hafa hrunið helvíti hratt á þessu tímabili en það verður bara að taka inn í myndina meiðsli og veikindi sem hafa hrjáð liðið allt þetta tímabil.

Alveg eins og það er gjörsamlega fáránlegt að ætla fella stóra dóma um Liverpool liðið eftir síðasta tímabili. Eins er ágætt að hafa í huga að þetta félag hefur verið að spila vel fyrir ofan getu/fjárhag undanfarin ár.

Allir bakverðir liðsins hafa verið meira og minna í langtímameiðslum í vetur. Luke Thomas úr akademíu félagsins hefur því spilað megnið af þessu tímabili sem dæmi. Þeir eru þó aðeins farnir að sjá til sólar þarna.

Fofana meiddist út tímabilið strax í upphafi sem var gríðarlegt högg. Evans hefur einnig varið mikið frá á meðan Söyuncu og Vestergaard hafa verið svo slappir að Ndidi og Amartey hafa verið að spila í miðverði frekar en þeir.

Soumaré var ágæt viðbót við hópinn í sumar en Dewsbury-Hall sem kom úr akademíu félagsins hefur verið það mest jákvæða við þetta tímabil hjá Rodgers og félögum.

Lookman fyrir Demari Gray virkar nokkurvegin svipað en Patson Daka gæti orðið alvöru góður ásamt því að Rodgers hefur verið að ná Iheanacho vel í gang. Rodgers nær jafnan miklu út úr sínum sóknarmönnu. Þessir tveir gætu verið að taka við af Jamie Vardy sem er orðin 35 ára og hefur verið að glíma við meiðsli í auknum mæli.

Hvað næst?

Líklega er best fyrir eigendur félagsins að fara ekki á taugum og leyfa Rodgers að fara í gegnum þessa dýfu með liðinu. Þetta er ennþá fínn hópur sem á helling inni. Þurfa klárlega 1-2 miðverði en það er erfitt að spá í sumrinu hjá þeim þar sem þeir missa jafnan 1-2 lykilmenn.

Niðurstaða

Liverpool hefur styrkt sig betur undanfarin tvö ár en maður kannski áttar sig á og við sjáum það hjá hinum liðunum að það er ekkert endilega betra að kaupa marga leikmenn eða slá metið í fjárhæðum fyrir leikmenn. Harry Maguire er dýrari en van Dijk sem dæmi, Konate fyrir helmingi lægri fjárhæð er betri leikmaður en Harry. Er Jadon Sancho helmingi betri en Luis Diaz, verðmiðinn segir það. Hvort var gáfulegra að gefa Harvey Elliott traustið og mínútur eða kaupa Saul Niguez?

Eins sjáum við vel hversu mikilvægt það er að félagið hafi skýra stefnu og leikstíl sem hægt er að byggja í kringum. Klopp og Guardiola eru auðvitað í sérflokki hvað þetta varðar hjá sínum félögum sem um leið hjálpar öllum leikmannakaupum gríðarlega. Tuchel er að ná ágætum tökum á Chelsea og Arteta er langlíklegasti stjóri Arsenal frá því Wenger hætti.

Næsta sumar verið mjög áhugavert á leikmannamarkaðnum.

9 Comments

  1. Flott greining Einar, einkum er maður glaður að sjá minnst á Skot á Mark þættina sem höfðu mikin áhrif á heila kynslóð.

    Við sjáum væntanlega á næsta tímabili hvort Leicester fari að spírala niður á við eða hvort þeir séu orðnir hluti af efri hluti deildarinnar. Hef alltaf haft trú á Rodgers en hlutabréfin í honum hafa verið rauð lengi, ætli hann geti orðið betri stjóri eða er þetta þakið hans?

    1
  2. Virkilega góð grein, gaman að lesa. það sem ég er ánægðastur með viðbætur frá 2020 er að annað hvort hafa komið semi eða full uppaldir leikmenn inn í liðið. Síðan kaup á að virðist hárréttum þroskuðum leikmönnum, sem Klopp gerir aðeins betri enda kaupir Klopp ekki snillinga, hann býr til snillinga. Thiago er kannski viss undantekning, kemur sem snillingur er snillingur en smá brothættur, en þetta vissu okkar menn. Kaup á einhverjum prímadonnum er held ég ekki í kortunum, eins og Haaland eða Mbappe, það er ekki stællinn hans Klopp eða FSG, enda engin ástæða til að æra upp óstöðugan með gíga há launuðum spilurum innan um alla hina snillingana okkar sem fyrir eru, nei leyfum bara RM að hafa þær áhyggjur. Síðan kemur Fulham strákurinn í vor, þó manu sé núna bendlað við hann, þá kippi ég mér ekkert upp við það, það má hvort eð er ekki strákur fæðast í heiminum án þess að vera bendlaður við manu.

    YNWA

    3
  3. Sæl og blessuð.

    Það er gaman að lesa þennan pistil og hugleiða svo barlóm og eymdarvæl í okkur stuðningsmönnum við lok hvers leikmannagluggans á fætur öðrum. Ég er þar ekki undanskilinn:

    Robertson frá Hull – ertu að grínast?
    Fabinho frá Monaco – hver er það?
    Jota frá Wolves – bíddu er hann ekki alltaf á bekknum?
    Konate frá RedBull Leipzig – þekkir hann einhver?

    Hvar eru annars Pepe-arnir, Maguire-arnir, Aubamayang-arnir, Lukaku-arnir, Werner-arnir og allir hinir sem við þrábáðum um?

    Og niðurstaðan er þessi – komnir með svona líka flotta breidd og í dauðafæri á að bæta við brassi á þessu tímabili.

    Takk fyrir góðan pistil.

    3

Liverpool 3 – 1 Norwich

Gullkastið – Game on!