Landslagið á toppnum eftir Covid19

Þegar framtíðin er svo óljós að það er ekki einu sinni víst hvenær og hvort núverandi tímabil verði yfirhöfuð klárað er ljóst að mjög erfitt verður að spá í framtíðina. Sumarglugginn sjálfur er meira að segja í fullkominni óvissu og erfitt að meta hvernig landslagið verður á þeim markaði í kjölfar Covid19. Líklega er besta staðan að þurfa ekki að hrófla mikið við hópnum í sumar. Berum liðin aðeins saman og leggjum út frá því mat á framtíðina

Man City

Þegar við vorum að spá í framtíðina á sama tíma fyrir ári snerist umræðan að miklu leiti um að hópurinn hjá City væri að komast á aldur í einhverjum tilvikum og hungrið yrði mögulega ekki eins mikið og hjá Liverpool eftir rússíbanareiðina 2018/19.

Það eru veikleikar í vörninni og brottför Vincent Kompany hefur ekki verið leyst, hvorki innan né utan vallar. Kaup á bakvörðum hafa alls ekki gengið þrátt fyrir takmarkalaus fjárútlát og þó Rodri sé hörku leikmaður fyllir hann ekki skarð Fernandinho á miðjunni sem hefur verið einn vanmetnasti leikmaður deildarinnar undanfarin ár. Endurkoma Kevin De Bruyne sem hefur spilað næstmest allra leikmanna City hefur ekki dugað neitt til og getur liðið mest fengið 87 stig úr þessu. Eru með 2 stig af þremur að meðaltali í leik það sem af er móti.

City er hinsvegar í góðum málum í öllum bikarkeppnunum og gætu alveg átt hörkutímabil þar þrátt fyrir vonbrigðin í deildinni og geta sannarlega komið aftur á næsta tímabili.

Pep Guardiola verður að öllum líkindum áfram með liðið en það hefur ekki leynt sér að mótlætið í deildinni hefur farið verulega illa í hann og aðeins mátti greina þreytumerki á honum. Eins gæti slappt gengi núna skrifast að einhverju örlitlu leiti á þreytu leikmanna á stjóranum. Það er verulega krefjandi að spila mjög lengi undir þetta krefjandi stjóra. Hann hefur a.m.k. aldrei verið lengur með neitt lið sem stjóri en fjögur tímabil. Á móti er hann mun reyndari núna en hann var hjá Barcelona og pressan og áreitið miklu minna enda Man City miklu minna félag en Barcelona. Þeir eru alveg samkeppnishæfir innanvallar en það hafa ekki nálægt því jafn margir áhuga á öllu sem gerist hjá Man City (24/7).

Aðal óvissan er tveggja ára bannið sem búið er að dæma Man City í frá Evrópu eftir að það var sannað að félagið braut víðsvitandi FFP regluverkið. Það eitt og sér væri mjög mikið áfall haldi sá dómur og eins er spurning hvort enska knattspyrnusambandið verði ekki að bregðst eitthvað við líka?

Raheem Sterling var þegar byrjaður að pissa utan í Real Madríd fyrir Covid og við þekkjum hvernig hann lætur þegar hann vill fara. Kevin De Bruyne án Meistaradeildarinnar í tvö ár þegar hann ætti að vera á hátindinum?

Annar óvissufaktor er hvort slakað verði á FFP reglunum tímabundið og eigendum leyft að koma með fjármagn inn í félagið til að bregðast við Covid19. Það myndi svosem ekki breyta miklu hjá Man City enda hafa eigendur þeirra gert það hvort sem er en það myndi auðvitað ennþá frekar brengla samkeppnisstöðuna í boltanum ef olíuveldin fá að leika sér með ríkisfé óhindrað. Eins væri það auðvitað rosalegur forsendubrestur fyrir fjölmarga eigendur evrópskra knattspyrnuliða sem komu inn í sportið m.a. vegna FFP.

City hefur oft virkað í mun betri málum fyrir nýtt tímabil en nákvæmlega núna.

Chelsea

Þrátt fyrir félagsskiptabann og söluna á Edin Hazard hefur leikmannahópurinn stækkað á þessu tímabili og virkar mun heilsusamlegri til framtíðar. Það er í raun ótrúlegt hversu fáir ungir leikmenn hafa komið úr akademíu Chelsea í aðalliðið í ljósi þess að þeir hafa verið með bestu akademíu Englands í um áratug. Frank Lampard fékk meira svigrúm en aðrir stjórar félagsins og hefur nýtt félagsskiptabannið sem ákveðið tækifæri. Tammy Abraham, Mason Mount, Tomouri, Hudson-Odoi og Loftus-Cheek gætu allir átt framtíð fyrir sér hjá félaginu og Christian Pulisic gæti fyllt skarð Hazard.

Að því sögðu er Lampard ennþá á byrjunarreit og alls ekkert víst að hann taki liðið upp á næsta level. Hann fær ekkert mörg tímabil hjá Roman til að slípa þessa ungu stráka saman. Hann þarf á sama tíma að halda áfram að endurnýja liðið sem vann síðasta titil.

Chelsea hyggst alveg örugglega blanda sér í baráttuna á leikmannamarkaðnum í sumar eftir félagsskiptabann en þökk sé þessum ungu leikmönnum er þörfin ekkert rosaleg. Líklega eru arftakar Willian og Pedro sem dæmi nú þegar partur af hópnum.

Chelsea var að gefa eftir og hleypa United baráttuna um Meistaradeildarsæti sem gæti orðið þeim dýrt og eins er ennþá óvissa um áhuga Romans á félaginu. Nýr völlur var sem dæmi settur á ís og er ekkert að fara af stað alveg á næstunni.

Myndi búast við Chelsea sterkari á næsta tímabili eftir þetta mótunartímabil.

Man Utd

Miðað við stöðuna sem félagið var komið í og þá fjármuni sem fara í gegnum félagið er með ólíkindum hvað þeir hafa afrekað að vera lélegir undanfarin misseri. Þar er ekki beint við eigendurna að sakast enda fá stjórar United meira en nóg fjármagn á leikmannamarkaðnum en okkar maður Ed Woodward er vissulega á vegum Glazer fjölskyldunnar, hann veit auðvitað ekki neitt.

Ole Gunnar er að einhverju leiti í sömu stöðu og Lampard. Hann er alls ekki að gera nærri því nógu vel m.v. væntingar sem gerðar eru til félagsins en liðið sýnir á sama tíma potential reglulega sem dugar til að halda stuðningsmönnum temmilega góðum (í bili). Solskjaer er að gera nokkuð brutal breytingar hjá United og ungu strákarnir fá svo sannarlega séns. Það voru nokkuð margir leikmenn komnir á tíma hjá félaginu og hafa verið látnir fara þrátt fyrir að það sé ekki endilega búið að finna arftaka þeirra.

Lukaku fór og í staðin var traustið sett alfarið á Rashford og hinn 17 ára Mason Greenwood (+Ighalo sem hefur spilað 61 mínútu í deildinni). Sanchez fór á láni til Ítalíu ásamt Young og Smalling. Van Bissaka hefur styrk liðið töluvert á meðan Maguire stendur alls ekki undir verðmiðanum, hann bætir samt vörn United.

Bruno Fernandes er svo gott sem búinn að fylla skarð Pogba hvort sem þeir spila svo saman eða ekki. Luke Shaw og nýliðinn Brandon Williams hafa verið töluvert vaxandi þó framför og ástundun fari klárlega til Fred. Hann er ekki alveg þessi grínkarakter lélegur og fyrstu mánuðirnir hans gáfu til kynna.

Þetta er kannski ekki algalin hugmynd hjá United að prufa að gefa sínum eigin leikmönnum séns og þróa þá áfram því eftir að Ferguson hætti hafa flest öll stór leikmannakaup misheppnast. Félagið er á uppleið enda var lítið annað í boði. Meistaradeildarsæti myndi líklega hjálpa Solskjaer mjög mikið á leikmannamarkaðnum.

Tottenham

Fyrir ári síðan voru þeir að búa sig undir Úrslitaleik Meistaradeildarinnar og stuðningsmenn að upplifa sína bestu tíma sem stuðningsmenn félagsins. Núna ári seinna og tapi í þessum úrslitaleik eru þeir búnir að reka Pochettino, ná líklega ekki aftur í Meistaradeildina á næsta tímabili og eru með Jose Mourinho í brúnni, nánast andstöðuna við Pochettino.

Pochettino vissi það manna best að liðið hans væri komið á endurnýjun og fór ekki leynt með óánægju sína yfir því að fá ekkert að eyða á leikmannamarkaðnum. Chelsea keypti fleiri leikmenn í félagsskiptabanni en Tottenham eitt sumarið. Peningurinn fór í nýjan heimavöll og kostar að öllum líkindum skref til baka næstu árin m.v. hvert Pochettino var kominn með félagið.

Pochettino er langbesti stjóri Tottenham í nútímasögu félagsins og í raun ótrúlegt hvernig síðustu mánuðirnir spiluðust hjá honum og félaginu. Þeir bökkuðu hann ekkert upp, hann fékk eiginlega ekkert að endurnýja hópinn og er sagður hafa misst hluta af klefanum áður en hann fór. Hans næsta starf verður hjá liði sem er hærra en Tottenham í fæðukeðjunni.

Undir stjórn Jose Mourinho ætti Tottenham ágætis séns ef Saudi-Arabía myndi kaupa félagið og gefa honum þetta vanalega fjárhagslega forskot sem hann hefur unnið með á sínum ferli. Það væri fróðlegt að sjá Daniel Levy setja sama ramma á hann og Pochettino!

Arsenal

Liðið er í 9.sæti með 1,42 stig að meðaltali í leik og nýbúið að ráða nýjan stjóra sem er í sínu fyrsta starfi sem knattspyrnustjóri. Þetta gæti orðið basl!

Mikel Arteta er samt líklega mjög góður kostur fyrir Arsenal eins og staðan er núna og stendur fyrir fótbolta sem gæti sameinað betur pirraðasta stuðningsmannahóp enska boltans. En það er nánast algjör endurnýjun framundan og ef Arteta verður ennþá stjóri félagsins eftir 4-5 ár efast ég um að það verði mikið fleiri en 3-4 leikmenn eftir af núverandi aðalliðshópi.

Það þarf að skipta út nánast öllum í varnarlínunni, markmaðurinn þ.m.t. Mögulega gæti hann notað Bellerin og Tierny haldist þeir heilir ásamt Rob Holding. Saka efast ég um að verði bakvörður þó hann sé það núna, honum þarf Arteta að halda umfram nánast alla aðra í þessum hópi Arsenal.

Guendouzi er sá eini á miðjunni sem ég gæti alveg séð fyrir mér ennþá þarna eftir 3-4 ár. Kannski Joe Willock líka ef hann heldur áfram að þróast. Martinelli er svo gríðarlegt efni í sóknarlínunni.

Ætli næsta tímabil hjá Arsenal verði ekki svipað og Chelsea og United eru að taka núna, svokallað transitional period. Vinsælir stjórar sem eru að reyna breyta töluvert miklu og fá tíma til þess. Sumarið gæti orðið erfitt á leikmannamarkaðnum, bæði vegna Covid19 og eins þar sem félagið átti engan pening síðasta sumar og voru ekki í Meistaradeildinni í vetur og verða það ekki heldur næst. Það er löng leið til baka í topp 4.

Leicester

Þrátt fyrir aðeins tvo sigra í síðastu sex leikjum er Leicester í dauðafæri til að komast í Meistaradeildina á næsta tímabili og verðskulda það sannarlega. Eins og hópurinn hjá þeim er núna í samanburði við t.d. Arsenal og Tottenham er alveg eins líklegt að Leicester verði fyrir ofan þessi lið aftur á næsta tímabili. Þetta er stærri og betri hópur en vann tímabilið 2016.

Vörnin er mjög þétt og ef eitthvað lið vill kaupa annanhvorn bakvörðinn eða Söyüncü er ljóst að sá hinn sami þarf að vera tilbúinn að borga hressilega fyrir það.

Sama á við um miðjuna hjá þeim sem er firnasterk og með ágæta breidd þar fyrir utan. Ndidi, Tielemans og Maddison hafa verið frábærir í vetur og eru allir á besta aldri.

Sprengjurnar á vængjunum þjónusta svo Vardy mjög vel og Brendan Rodgers kann svo sannarlega að fullnýta góðan sóknarmann fyrir framan markið.

Þetta er vel rekið félag með góðan stjóra og mjög vel mannað lið sem ætti ef allt er eðlilegt að halda áfram að bæta sig á næsta tímabili.

Liverpool

Jurgen Klopp hefur hægt og rólega verið að byggja upp þetta lið sem við erum að sjá toppa núna og er í raun á það góðum aldri að það er engin hrópandi þörf á miklum breytingum. Engu að síður er það ekki ásættanlegt fylgja sigri í Meistaradeildinni 2019 og titlinum 2020 eftir með kaupum á Takumi Minamino á gafaverði. Liverpool verður að hrista eitthvað smá upp í hópnum í vetur. Bæði til að veita núverandi hópi aðhald og eins til að undirbúa arftaka núverandi hóps. Það er sannarlega hægt að bæta núverandi hóp þrátt fyrir 27 sigra í 29 deildarleikjum.

Það þarf ekki að selja neinn af núverandi lykilmönnum, brottfarir á t.d. Shaqiri, Lallana, Lovren gætu skapað svigrúm fyrir 2-3 nýja og ferska leikmenn. Eitthvað í þessa átt.

Liverpool eyddi ekki neinum pening í leikmannakaup síðasta vetur þrátt fyrir árangur í bæði deild og Meistaradeild og ætti því klárlega að eiga svigrúm í núverandi glugga. Vonandi er Covid19 ekki að rústa sumarglugganum alveg. Liverpool sem dæmi tapaði Meistaradeildinni 2019 þegar Gareth Bale kom inná sem varamaður og kláraði leikinn (svona fyrir utan Karius þ.e.a.s.). Það er kannski ekki hægt að ætlast til að eiga slík gæði á bekknum en það er allt í lagi að búast við meiru en meiddum Shaqiri og nánast engum öðrum beinum varamanni á vængjunum sem dæmi. Tökum samt ekkert af Shaqiri sem átti auðvitað stóran þátt í sigrinum á Barcelona. Metnaðurinn á að vera allrabestu leikmenn í heimi (innan skynsamlega marka). Þeir vilja svo sannarlega koma til Liverpool núna.

Að því sögðu væri það engin heimsendir að fara inn í nýtt mót með ca. alla sömu aðalleikara, sérstaklega ekki ef ekkert verður um stórmót hjá landsliðum á þessu ári (eða í janúar).

Liverpool gæti líka að einhverju leiti þurft að gera eins og United, Arsenal og Chelsea hafa verið að gera undanfarið og gefið ungu leikmönnunum séns. Blessunarlega koma nokkrir til greina sem gætu undir réttum kringumstæðum komist á radarinn hjá Klopp. Covid19 ástandið gæti hjálpað þessum leikmönnum.

Væri ekki gáfulegra að halda Harry Wilson eitt tímabil og gefa honum loksins séns í stað þess að selja hann í Covid glugganum? Hann var mun hærra skrifaður en Mason Mount á sama tíma fyrir ári síðan og stóð sig mjög vel á láni hjá Bournemouth í vetur og var að gera merkilegri hluti en Shaqiri og Lallana hafa verið að gera sem dæmi. Marko Grujic er lykilmaður hjá liði í Bundesliga og vel látið af honum þar.

Curtis Jones er farinn að banka fast og þarf mínútur til að halda áfram að þróast, hann er alvöru efni. Trent Alexander-Arnold þurfti töluverða heppni til að fá fast sæti í liðinu kornungur en það skilaði okkur líka besta hægri bakverði í heimi. Það væri rándýrt að fá annað talent upp úr akademíunni og Klopp hefur ítrekað sagt að þetta snúist ekki bara um rómantíkina sem felst í því að hafa uppalinn leikmann í liðinu. Hann sér mjög mikið virði í því að fá inn ungan og ferskan leikmann sem er alin upp frá barnsaldri í hugmyndafræði Liverpool undir stjórn Klopp og veit upp á hár hvað er ætlast til af honum. Hvort sem það yrði Jones eða einhver af hinum efnilegu strákunum sem eru á mála hjá félaginu núna skiptir ekki öllu. Klopp sýndi það hjá Dortmund að hann getur gert alvöru heimsklassa leikmann úr unglingi sem var skólaður til í hans fótbolta.

Rhian Brewster er orðin 20 ára og núna búinn að fá smjörþefinn af fullorðins fótbolta. Hann var bókstaflega eitt mesta efni í heimi fyrir 2-3 árum og algjörlega í sama gæðaflokki og Sancho, Odoi og Saka. Jafnvel hærra skrifaður. Það er ekkert út úr kortinu að hann gæti sprungið út hjá Klopp.

Harvey Elliott er einmitt svipað efnilegur núna og Brewster var á hans aldri og nú þegar farin að fá mínútur í aðalliðinu. Ki-Jana Hoever er líka búinn að spila slatta og var farinn að banka á aðalliðsdyr Ajax 16 ára.

Þarna er alvöru efniviður sem vonandi skilar 1-2 leikmönnum í hópinn hjá Klopp í sambland við leikmannakaup eins og Timo Werner, Jadon Sancho, Kai Havertz eða álíka.

Það væru vonbrigði að fara í gegnum annan glugga með Liverpool í bestu stöðu sem félagið hefur verið og gera nánast ekkert. Öfugt við hin skiptin sem Liverpool hefur gert atlögu að titilinum virðist þetta lið ekkert vera á leiðinni burt á næstunni og er klárlega í heilsusamlegustu stöðunni eins og staðan er núna.

Byrjum samt á að klára þetta tímabil.

 

2 Comments

  1. Varðandi upptalningu á ungum og efnilegum leikmönnum, þá er klárlega rétt að hafa Neco Williams í huga. Slúðrið er að Klopp sé mjög hrifinn af honum sem leikmanni og sjái hann fyrir sér sem hægri bakvörð nr. 2. Enda hefur hann sýnt það þegar hann hefur fengið tækifæri að hann er bæði frambærilegur varnarmaður, en líka ágætlega sókndjarfur og mjög vinnusamur. Í raun er hann eins og spegilmynd af Andy Robertson, og líklega líkari honum en Trent. Ég a.m.k. stórefast um að kaup á backup hægri bakverði séu neitt ofarlega á TODO listanum hjá Klopp.

    11
  2. Flott umfjöllun og fróðleg hjá EM eins og fyrri daginn. Ég trúi ekki öðru en að Jurgen muni bæta við hópinn í sumar – búið að daðra við Timo allt of lengi þannig að ekki við öðru að búast en að hann komi síðar í sumar.

    En júní handan við hornið og við færumst nær Englandsmeistaratitlinum – þetta er eins og í gamla daga þegar maður beið spenntur eftir jólunum. Við Liverpool aðdáendur munum fagna og gleðjast saman. Í því sambandi læt ég fylgja með hér tengil af Sky þar sem fjallað er um hvort Liverpool skuli spila nokkra leiki á hluthlausum velli eða á Anfield þegar styttist í titilinn………

    https://www.skysports.com/football/news/11095/11997920/how-could-fans-return-to-football-stadiums-the-sunday-supplement-panel-discuss

    4

Endurræsing á þjóðhátíðardaginn

Eitt ár frá Madríd