Liverpool – Arsenal (Upphitun)

Þá er komið að því, það eru ekki fleiri landsleikir fyrr en í mars 2022! Þar fyrir utan þá er víst fótboltaleikur seinni partinn á laugardag, á besta tíma (17:30), þar sem að Arsenal kemur og heimsækir Liverpool á Anfield í leik sem verður líklega jafnari en þetta einvígi hefur verið undanfarin ár.

 

 

Sagan og formið

Það er komið talsvert langt síðan að Arsenal kom inn í þetta einvígi í betra formi en Liverpool. Þannig er það samt í dag. Arsenal tapaði fyrstu 3 leikjunum á tímabilinu en hefur ekki tapað síðan í ágúst og koma inn í þennan leik á 3 leikja sigurhrinu, ósigraðir í síðustu 8 deildarleikjum með 11 stig af síðustu 15 á meðan Liverpool hefur unnið 1 af síðustu 3 og einungis 2 af síðustu 5 með 8 stig af 15 mögulegum.

 

Annars hafa gestirnir ekki verið neitt sérstakir á útivelli, sitja í þeirri formtöflu í 11 sæti með 2 sigra, 1 jafntefli og 2 töp í 5 útileikjum. Liverpool að sama skapi oft verið betri á heimavelli, eru í 7 sæti í töflunni góðu, ósigraðir en einungis með 2 sigra og 3 jafntefli (Chelsea og City þar á meðal).

Annars er nokkuð athyglisvert að skoða gengi þessara liða það sem af er árs 2021. Fjölmiðlaumfjöllunin verið mjög ólík og lengi vel var talað um að Arteta væri valtur í starfi. Bæði lið hafa spilað 33 deildarleiki á árinu en Arsenal hefur tekið úr þeim 61 stig á meðan að Liverpool hefur hirt 58 stig. Auðvitað verður að hafa í huga að s.a. 2/3 af þessum leikjum var á síðasta tímabili þegar við spiluðum á miðjumönnum og fjórða/fimmta kost í miðverði – engu að síður er það ákveðið áhyggjuefni að stigasöfnun per leik er litlu betri það sem af er tímabils samanborið við það síðasta (2021/22: 2,0 per leik / 2020/21: 1,82 per leik).

Þrátt fyrir allt þetta er fróðlegt að skoða árangur Arsenal á Anfield síðustu árin. Það er það langt síðan þeir unnu þar síðast að Arteta og Ox voru báðir í byrjunarliði gestanna þegar það gerðist síðast í September 2012! Síðan þá hafa liðin spilað 10 leiki á Anfield, 6 sigrar og 4 jafnteli.

Arsenal

Fyrir utan Xhaka þá eru allir heilir hjá Arsenal. Það var eitthvað hvíslað með að Aubameyang væri tæpur en hann virðist vera klár í slaginn á samt Thomas Partey sem er einnig orðinn leikfær sem styrkir þá mikið.

Vörnin hjá þeim hefur smollið í síðustu leikjum, eingöngu fengið á sig 4 mörk í síðustu 8 deildarleikjum. Þar hafa Gabriel og Ben White náð að mynda öflugt miðvarðapar eftir erfiða byrjun. Smith Rowe hefur einnig verið að spila frábærlega upp á síðkastið og var valinn í landsliðshóp Englendinga núna í nóvember í fyrsta skiptið.

Annars á ég ekki von á neinum stórkostlegum breytingum hjá þeim. Finnst líklegt að Arteta stilli upp Odegaard í stað Lacazette en annas verði þetta svona::

Ramsdale

Tomiyasu – Gabriel – White – Tierney

Partey – Odegaard – Lokonga

Saka – Aubameyang – Smith Rowe

Liverpool

Það er heill hellingur að frétta af okkar mönnum og meiðslalistinn orðinn leiðinlega langur. Gomez, Milner, Keita, Jones, Elliot og Firmino verða allir frá vegna meiðsla á meðan að Henderson og Robertson eru tæpir eftir að hafa komið meiddir til baka eftir þessa yndislegu landsleiki sem allir hafa svona mikinn áhuga á. Þetta eru því 8 stykki, þar af líklega 4 byrjunarliðsmenn. Ofan á þetta kom Mané eitthvað tæpur til baka en hann hefur æft fyrir leik svo hann á að vera leikfær.

Klopp talaði um að það yrði late fitness test á Robertson og Henderson sem hafa ekki æft með liðinu í vikunni en Fabinho missti af æfingu í gær (kom svo seint til baka) en átti að æfa í dag. Mané er orðinn klár, hefur æft síðustu daga og byrjar væntanlega á morgun. Ég ætla að skjóta á að Henderson spili en Tsimikas komi inn í stað Robertson sem verður þó á bekknum. Ég ætla að skjóta á að Klopp stilli þessu svona upp:

Alisson

TAA – Matip – Virgil – Tsimikas

Thiago – Fabinho – Henderson

Salah – Jota – Mané

Ég hvet menn til að hlusta á gullkastið frá því á mánudag þar sem m.a. var hitað upp fyrir helgina.

Spá

Ég ætla að skjóta á að okkar menn komi ákveðnir til leiks eftir vonbrigði síðustu umferðar. Þetta verður samt jafnara en það hefur verið síðustu ár. Það sem ég vil fyrst og fremst er sigur, en ég vil líka sjá góða frammistöðu. Varnarleikurinn er búinn að vera vandræði, það gengur ekki til lengri tíma að þurfa að skoða 3-4 mörk í leik til að ná í þrjú stig, við þurfum að fara að verjast miklu mun betur.

Ég ætla því að skjóta á 2-0 sigur okkar manna. Mané og Salah með sitthvort markið og allir sáttir.

Þar til næst

YNWA

 

6 Comments

  1. Vonandi förum við núna að sjá stöðuga miðju þar sem Fabinho og Thaigo eru í aðalhlutverkum og haldast heilir. Það er ekki hægt að vonast endalaust eftir slíku frá Naby Keita.
    Sóknarlínan ætti að vera nokkuð sjálfvalin í þessum leik en núna í fjarveru Firmino er mjög líklegt að leikmenn eins og Minamino og Origi fari að fá fleiri sénsa, tala nú ekki um ef við þurfum að treysta á þá í janúar. Ekki hægt að vera með eins marga slæma farþegar og á löngum köflum á síðasta tímabili.

    Tölfræði yfir 33 leiki er ansi nálægt því að ná yfir heilt tímabil og 58 stig er bara ekki nógu gott hjá Liverpool. Vonandi sjáum við aldrei aftur eins hörmulegan kafla undir stjórn Klopp og fyrstu mánuðir þessa árs voru. Þar eru stigin sem uppá vantar í samanburði við Arsenal.

    3
    • Alltaf gott að byrja grein á rangfærslu.. landsleikir strax í janúar hjá m.a. Salah og Mané, landslið beggja fara örugglega bæði í undanúrslit/úrslit. Þó ekki landsleikjafrí þannig við spilum án þeirra.
      Matip og VvD byrja líklega gegn Arsenal en alltaf gott að eiga Konaté til taks.

      2
  2. Sæl og blessuð.

    Þetta gæti orðið skita. Nallar búnir að stilla saman strengina og það er blessun í dulargerfi fyrir þá að hinn mistæki Granit skuli vera fjarri vegna meiðsla. Ægilegur fjöldi meiddur eða að skríða úr veikindum og gæti því spilað á takmörkuðu tempói.

    Meiðslasaga Liverpool eftir að Klopp tók við er slík að við hljótum að fara að beina sjónum að einhverju öðru en einberri óheppni. Þarna fer saman ákveðin taktík, með linnulausri pressu. Æfingaaðferðir og umgjörð utan um leikmenn að skipta einnig máli. Varamenn hafa ekki staðið undir væntingum. Þetta er m.ö.o. eitthvað sem Klopp og co. þurfa að fara að endurskoða.

    Horfi á leikinn í dag með rauðhvítum æskuvinum. Það gæti orðið þraut.

  3. Verðum bara taka þessi 3 stig allt annað er óásættanlegt og mér er sama þó að Arsenal hafi verið á góðu gengi undanfarið eigum alltaf að vinna þetta lið á heimavelli.
    Vill sannfærandi sigur mér er sama þó ekki verði haldið hreinu.

    2
  4. Sælir félagar

    Sammála RH, Sigur er það eina sem ég vil fá. Mér er nákvæmlega sama hvernig sá sigur fæst. Hann má vera skítugur dómaraskandall þess vegna. Í þessum leik sem verður hunderfiður er sigur það eina sem kemur til greina.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  5. Prósteinn á bæði lið í dag eitthvað sem segir mér að Jota verði okkur drjúgur i dag…3-1

    1

Bikarleikur hjá kvennaliðinu gegn Blackburn

Liðið gegn Arsenal