Sádi-Arabía kaupir Newcastle

Amanda Staveley heitir breska viðskiptakonan sem er að taka við sem framkvæmdastjóri Newcastle, þetta er nafn sem stuðningsmenn Liverpool kannast ágætlega við. Stavenly er með afburða traust viðskiptasambönd í Mið-Austurlöndum og hefur verið helsti ráðgjafi leiðtoga þar í fjárfestingum á Vesturlöndum. Það munaði raunar ekki miklu að hún hefði tekið við sama hlutverki hjá Liverpool árið 2008 er hún fór fyrir fjárfestingasjóði sem kallast Dubai International Capital sem var langt komið með að kaupa 49% hlut George Gillett í Liverpool.

Raunar hafði þessi sami fjárfestingastjóður handsalað kaup á Liverpool rúmlega ári áður eftir tveggja ára samningsviðræður við David Moores en DIC dró lappirnar of lengi. Það er ástæðan fyrir því að samið var við Gillett og Hicks, upphaflega hafnaði Liverpool boði Gillett þar sem þeir töldu DIC mun vænlegri kost. Gillett kom svo aftur hálfu ári seinna með nýjan viðskiptafélaga, Tom Hicks. Þannig að Liverpool var mjög nálægt því að enda í eigu Emírsins í Dubai með Amanda Staveley sem framkvæmdastjóra félagsins.

Sama ár (2008) var PCP Capital Partners fyrirtæki Staveley helsti ráðgjafi Mansour fjölskydunnar í kaupum á 16% hlut í Barclays bankanum breska. Seinna það ár hjálpuðu þau Abu Dhabi United Group við kaupin á Man City og eru talin hafa fengið um £10m í þóknun fyrir.

Stavenly tekur sæti í stjórn Newcastle og verður framkvæmdastjóri félagsins a.m.k. til að byrja með. Hún er að fronta kaupin og á raunar 10% hlut í gegnum félag sitt PCP Capital Partners. Auk hennar samanstendur fjárfestahópurinn af byggingarverktökum (Reuben Brothers) sem einnig eiga 10% hlut og svo PIF (Saudi Arabia’s Public Investment Fund) sem er þegar grafið er niður á raunverulega eigendur ekkert annað en Sádi Arabía. Rétt eins og Abu Dhabi United Group er ekkert ennað en Emírinn í Abu Dhabi. Þetta eru ensk knattspyrnulið í ríkiseigu Olíuríkja frá Mið-Austurlöndum, dulbúin reyndar sem óháðir fjárfestingasjóðir.

Miklu stærri og miklu verri

Kaup PIF eiga sér töluverðan aðdraganda, Amanda Staveley mætti fyrir fjórum árum á leik Newcastle og Liverpool á St. James Park og héldu margir að hún væri enn á ný að reyna kaupa Liverpool. Það kom þó fljótt á daginn að svo var ekki og núna var hún ekki að sinna erindagjörðum “smátitta” frá Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum heldur aðalmanninum á þessum slóðum, MBS.

Tökum þessa mynd aðeins með fyrirvara en eitthvað á þessa leið er munurinn á auðæfum Sádanna vs t.d. eigendum Man City og PSG.

Samanlagt er talið að auðæfi konungsfjölskyldunnar í Sádi Arabíu með Saudi Aramco olíusjóðnum sé um $1.4 trilljón. Jóakim Aðalönd átti einu sinni svona mikið í tanknum góða. Hvað enska fótboltann varðar þíðir þetta að eigendur Newcastle eiga bókstaflega endalaust af peningum.

Hvað þeir ætla sér að gera með Newcastle er hinsvegar ekki alveg ljóst en mjög líklega fylgja þeir því módeli sem við höfum séð hjá Man City og PSG. Newcastle gæti þess vegna orðið einu leveli meira. Þau segjast strax ætla að fjárfesta í innviðum og á svæðinu i heild sem er einmitt það sem var gert í Manchester og París. Það er samt enginn að búast við því að þetta gerist allt bara í janúarglugganum. Forsvarsmenn eigendahópsins tala um kaupin á Newcastle sem part af verkefni sem þeir sjá fyrir sér allt til ársins 2030.

Afhverju er þetta svona umdeilt?

Fyrir það fyrsta þá er erlendum ríkjum ekki heimilt að kaupa ensk knattspyrnulið, eitthvað sem enska úrvalsdeildin leggur sig fram við að horfa framhjá í afar augljósu eignarhaldi stjórnvalda í Abu Dhabi og nú Sádi-Arabíu í gegnum “fjárfestingafélög”.

Hér á Kop.is hefur áður verið fjallað um eigendur bæði Man City og PSG. Báðir eigendahópar er vægast sagt vafasamir, bæði lið hafa beinlínis víðsvitandi svindlað á öllum FFP reglum og komist upp með það og þá erum við ekki einu sinni farin að ræða hvernig eigendur þessara liða sem eru einræðisherrar í sínum heimalöndum stjórna þessum löndum.

Eigendur Newcastle láta eigendur Man City og PSG virka eins og smákrakka í samanburði. Það er t.d. alls ekki langt síðan MBS sendi menn á flugvélum einmitt í eigu PIF til Tyrklands til að murrka lífið úr og búta líkið á Jamal Khashoggi blaðamanni Washington Post sem var ekki nógu hliðhollur stjórnarháttum í heimalandinu fyrrverandi. Þetta er bara toppurinn á toppnum á ísjakanum.

Það er t.a.m. dauðasynd að vera samkynhneigður í Sádi-Arabíu og alveg heil tvö ár síðan fimm menn voru afhöfðaðir fyrir einmitt það. Ekki árið 1619 heldur 2019. Kvennréttindi eins og við þekkjum þau á Vesturlöndum hljóma eins og skáldsaga fyrir MBS.

Sádi-Arabía ber einnig langmesta ábyrgð á ástandinu í Jemen sem er ein mesta hörmungarsaga í heiminum í dag. Gunnar Hrafn Jónsson blaðamaður á Vísi skrifaði t.a.m. fróðlegar greinar um ástandi í Jeman fyrir tveimur árum þar sem hann útskýrði ríkjandi trúarbrögð í Sádi Arabíu með eftirfarandi hætti:

Af hverju Newcastle

Yfirlýst markmið fjárfestingasjóða eins og eiga núna Newcastle, Man City og PSG er að dreifa tekjustreymi ríkjanna víðar þannig að þau þurfi ekki aðeins að treysta á Olíuauðinn. Sú auðlind gæti orðið töluvert minna mikilvæg á næstu áratugum og það vita stjórnvöld í þessum ríkjum. Newcastle er sem dæmi langt í frá eina fjárfesting PIF fjárfestingasjóðsins. Hinsvegar vekja kaupin á Newcastle líklega langmesta athygli og það var einmitt tilgangurinn.

Það er samt engan pening að hafa með beinum hætti í enska boltanum ekki miðað við hvernig eigendur þessara félaga moka í þau peningum. Enski boltinn opnar á aðra markaði, kemur eigendum þessara liða í annað sviðsljós og mögulega jákvæðara en þeir eru jafnan, sérstaklega á vesturlöndum. Sportswashing er besta orðið yfir þetta, þeir eru að reyna kaupa sér betri ímynd.

Newcastle verður seint sagt mest sexy félagið á Englandi og því aðeins spes að langríkasti eigandi íþróttaliðs í heiminum kaupi Newcastle. Ekki það að MBS sé sjálfur að fara skipta sér mikið af rekstri félagsins, ekki frekar en þeirra fjölmörgu verkefna sem PIF hefur keypt og fjárfest í undanfarin ár. Hvort sem það er í fyrirtækjarekstri eða íþróttum. Hann reyndar setti pressu á Boris Johnson á fundi þeirra í apríl um að heimila kaup PIF á Newcastle, ekki að það að PIF sé Sádi Arabíska ríkið, nei nei.

Newcastle er engu að síður ágætlega rótgróið úrvalsdeildarfélag, þetta er eina liðið í nokkuð stórri borg og með grjóthart fanbase sem hægt er að byggja ofan á. Kaupverðið er í takti við það auk þess sem nýjir eigendur koma inn í stað gríðarlega óvinsæls eiganda. Það mun kosta aukalega að fá stórar stjörnur til að flytja til Newcastle og næsti alþjóðaflugvöllur er líklega Edinborg í Skotlandi í um klukkutíma fjarlægð. Maður hefði haldið að t.d. Birmingham eða Aston Villa væru hentugri lið á betra markaðssvæði, jafnvel Leeds eða eitthvað af London liðunum.

Það verður a.m.k. fróðlegt að sjá hvað Newcastle gerir í janúarglugganum. Ef að þessi er að lesa rétt í bókhaldið á félagið gott svigrúm til að eyða ágætlega á leikmannamarkaðnum og það eru rosalega margir góðir leikmenn falir fyrir rétt verð enda mörg lið með góða leikmenn á of góðum launum sem erfitt er að losna við. Coutinho til Newcastle sem dæmi?

Whilst Mike Ashley is not popular In Newcastle, his legacy for new owners is a profitable club. In last 3 yrs profit £38m, factor in FFP adjustments for academy etc of about £50m & this means the new owners have an allowable FFP loss of £105m plus £88m= £190m+ to play with #NUFC pic.twitter.com/IPSMzn3p22

— PriceOfFootball (@KieranMaguire) October 7, 2021

Annað áhugavert er að Steven Gerrard hefur verið ofarlega á lista yfir stjóra sem taka við af Steve Bruce, en líklega verður búið að reka hann fyrir næsta deildarleik.

Stuðningsmenn Newcastle

Miðað við viðbrögð stuðningsmanna Newcastle er ljóst að þeir eru lítið að spá í mjög vafasömum stjórnunarháttum nýrra eigenda í heimalandinu. Félagið er að vinna stóra lottóvinninginn í þeirra augum og félaginu er borgið eftir fjórtán mjög löng ár af Mike Ashley.

Raunar hafa stuðningsmannahópar Newcastle barist fyrir þessum eigendaskiptum í nokkur ár. Sent inn stóra undirskriftalista til úrvalsdeildarinnar, sett pressu í fjölmiðlum o.s.frv. Þeir voru bókstaflega grátandi af gleði fyrir utan Sport Direct völlinn í gær, m.a. vegna þess að hann hættir að heita það fljótlega. Stuðningsmenn Newcastle hata allir með tölu Mike Ashley svipað mikið og við hötuðum (og hötum enn) Tom Hicks. Nema Hicks og Gillett áttu Liverpool í þrjú ár, ekki fjórtán. Það er klárlega mikið til í því að félagið stefndi aðeins í eina átt undir stjórn Ashley, sérstaklega núna undanfarin tvö ár á meðan hann hefur verið að reyna klára þessa sölu.

Dubai er ekki nærri því jafn voldugt ríki og Sádi Arabía en við hefðum líklega öll frekar viljað DIC fjárfestingarhópinn sem eigendur Liverpool árið 2008, bara til að losna við Hicks og Gillett.

Stavenly átti m.a.s. tveggja tíma fund með fullltrúum Spirit of Shankly árið 2008 til að fræðast um áherslur stuðningsmanna Liverpool. Hvað þeir myndu vænta af nýjum eigendum. Hún virkaði að sögn vel á fulltrúa SOS sem voru m.a. Neil Atkinson og Andy Heaton sem í dag eru þekkir af The Anfield Wrap.

Hún hefur fyrir það fyrsta byrjað stjórnunartíð sína hjá Newcastle á því að gefa færi á sér við fjölmiðla og sagt allt það rétta. Það er miklu meira en Mike Ashley gerði nokkurntíma hjá félaginu.

Það breytir samt engu um það að árangur Newcastle héðan af verður alltaf svipað ómerkilegur ef svo má segja og árangur Man City og PSG undanfarin ár. Augljóslega ekki í þeim skilningi að þetta séu ekki frábær lið og afskaplega vel mönnuð. En þróun þar sem PSG, Man City og Chelsea eru þrjú af fjórum liðum í undanúrslitum Meistaradeildarinnar er eitthvað sem afar fáir hefðu óskað sér og maður ber voðalega takmarkaða virðingu fyrir. Hvað þá ef Newcastle verður núna fjórða liðið í þeim hópi. Þetta er ekki ósvipað því að hakka FIFA tölvuleikinn og bæta tölurnar hjá öllum í þínu liði.

Enska Úrvalsdeildin er gríðarlega veikburða.

Rök forsvarsmanna ensku úrvalsdeildarinnar fyrir því afhverju í veröldinni jafn ótrúlega umdeildum eiganda og MBS er leyft að kaupa enskt knattspyrnulið halda auðvitað engu vatni.

Tariq Panja kemur einnig með góðan punkt um það afhverju í veröldinni ekki er haldinn blaðamannafundur þar sem þeir sitja fyrir svörum og skýra almennilega hvernig PIF er ekki í eigu ríkisins og afhverju MBS stenst fit & proper eigendaprófið. Sömu sérfræðingar og hafa verið í þrjú ár að smíða afsökun fyrir afhverju það var í lagi að Man City nauðgaði öllum FFP reglum og vann deildina tvisvar á meðan rannsókninni stendur.

Aðalástæðan fyrir því að enska úrvalsdeildin hafnaði PIF undanfarin fjögur ár hafði nákvæmlega ekkert með tengsl félagsins við stjórnvöld í Sádi Arabíu að gera og hvað þá mannréttindabrot þar í landi.

Kaup PIF á Newcastle voru samþykkt nánast um leið og Sádi Arabía samdi við einn mikilvægasta samstarfsaðila ensku úrvalsdeildarinnar, BeIN Sport í Katar. Líkt og komið var inná í pistlinum um PSG hafa Katar annarsvegar og Sádi Arabía og Sameinuðu Arabísku Furstadæmin hinsvegar átt í útistöðum undanfarin ár. BeIN sjónvarpsstöðin hefur t.a.m. verið einn mesti þyrnir í augum Sáda í mörg ár enda óþolandi þegar þeir fá ekki að ráða hvaða boðskap er verið að senda út.

Stjórnvöld í Sádi hafa því undanfarin ár víðsvitandi reynt að skemma fyrir BeIN Sport og streymt leikjum frá stöðinni ólöglega. Deilan um BeIN var auðvitað aðeins partur af deilum þessara ríkja. Núna virðist eitthvað hafa þokað til þar og m.a. verið að aflétta viðskiptaþvingunum. Viti menn, bingó, þá er allt í lagi að MBS kaupi enskt fótboltalið.

Núna er bara eins gott að breskir blaðamenn segi ekki neitt vitlaust um hann.

 

Áhrif

Mögulega full djúpt í árina tekið en svei mér þá ef maður missir ekki aðeins úr áhuga á fótbolta við hverja svona snarvafasama innkomu á stóra sviðið. Njótum a.m.k. áranna með Jurgen Klopp við stýrið því að módelið sem FSG vinnur eftir á lítið í auðæfi Sádi Araba.

Auðvitað eru einhverjir sem fagna því að fá aukna samkeppni í boltann og horfa alveg framhjá bæði brotum á settum leikreglum félaganna fjárhagslega og hvað þá mannréttindabrotum eigenda þeirra.

Þetta er ekkert ný þróun í fótboltanum, sérstaklega ekki á Englandi. Einn angi af því held ég að verði á næstu árum að liðunum muni fækka áfram og þau stærri verði stærri. Fótbolti er fyrir það fyrsta ekkert eins ráðandi og hann var kannski áður, fólk hefur miklu fleiri valkosti til afþreyingar en áður og fjárhagsstaða liðanna fyrir neðan efsta lagið er alls ekki glæsileg ansi víða.

Einhverntíma á næstu árum hugsa ég að aftur verði reynt að mynda Ofurdeild þeirra bestu í einhverri mynd sem komi til höfuðs deildunum heimafyrir og/eða Meistaradeildinni.

12 Comments

 1. Sælir félagar

  Takk fyrir þennan pistil Einar. Þetta er ekkert annað en viðbjóður og sýnir að allt er falt fyrir peninga. Þetta mun að lokum ganga af fótboltanum dauðum eins og við þekkjum hann í dag. Aldrei aftur mun það gerast á Englandi að lið eins og Leicester vinni deildina á sama hátt og þeir gerðu síðast fyrir – hvað 4 árum eða svo. Svoleiðis ævintýri eru liðin tíð og síðustu móhíkanar fótboltans, félög eins og Liverpool, munu eiga í sífellt meiri erfiðleikum með að ná árangri í svona peningadeildum sem verið er að búa til. Því miður er rómantíkin og ævintýraljóminn að hverfa af þessum dásamlega leik.

  Það er nú þannig

  YNWA

  9
 2. Það má vera þetta sé ekki vel staðsett borg. En það vantar ekkert upp á stuðninginn og stemninguna á St James’ Park á góðum degi. Ef maður horfir framhjá allri pólitík þá gæti þetta orðið rosalegt lið með svakalegan heimavöll. En þetta er auðvitað ekki að gera neitt gott fyrir íþróttina. Eins og Sigtyrggur bendir á, svona Leicester ævintýri heyra sögunni til. Sem er sorglegt. Þetta verða Money Fights eins og í bardagaíþróttinum. Ofurdeildin er óhjákvæmileg. Vona bara Liverpool verði ekki þar.

  9
 3. Sælir félagar

  Flott grein og málefnaleg umfjöllun að vanda.
  Aðeins samt of topic: Veit einhver hvar ég get náð í miða á Tottenha vs. Liverpool 18.des n.k.?

 4. Frekar hissa þeir skyldu kaupa Newcastle ùtaf staðsetningu hennar ì ùtjarði norður Englandi.
  Eg myndi halda lið eins og lundùna fèlagið West Ham væri betri kostur og verðlagt à £500m.

  • Amanda Staveley dýrkar Newcastle liðið. Kom aldrei neitt annað til greina hjá henni.

   • Já ef þú trúir því, dýrkað þá síðan hún fór á leik með þeim árið 2017.
    Hún var líka voðalega spennt fyrir Liverpool 2008.

    2
   • Það er ekki hægt annað en að trúa henni, Einar Matthías. Þetta er svo falleg saga, hvernig hún „hleypur á staðnum” á leikjum svo að Newcastle skori fleiri mörk… eða einhver mörk amk.

    1
 5. Þetta gerir okkur Liverpool stuðningsmönnum erfiðara fyrir enda munu þeir eftir 2-3 ár verða topp topp lið í enska boltanum og Klopp hættur hjá Liverpool.
  Ég get ekki séð hvernig félagið okkur mun berjast við þessi ríku félög um titla og hvað þá þegar að Klopp hættir enda hefur hann verið að gera kraftaverk miðað við það fjármagn sem hann fær og algjör draumaþjálfari fyrir svona eigendur sem vilja ekki setja peninga í leikmannakaup nema að selja fyrst.
  Ég er ekki að segja að ég vildi að eigendur Liverpool væru olíufurstar með botnalausa vasa heldur að þeir gætu verið samkeppnishæfir.
  Langbesti leikmaður í sögu Liverpool á ekki langt eftir á samning og eitthvað segir mér að hann muni verða seldur í sumar til að kaupa efnilega leikmenn.
  En við höfum Klopp eitthvað áfram og við verðum að njóta þessa tíma því ég hef ekki trú á því að við verðum samkeppnishæfir eftir 2-3 ár.

  8
 6. Sæl öll,

  ég var að hlusta á fótbolti.net frá því á laugardaginn og þar var hann Björn Berg að ausa úr visku brunni sínum. Ég var frekar ósáttur við hvernig hann nefndi alltaf Liverpool sem dæmi hvernig klúbbur hefur fjarlægst mikið “local” stuðningsmenn og þetta væru bara túristar fyrir utan Anfield. Nú hef ég ekki farið á Anfield í allt of langan tíma en þegar ég fór voru bara alveg hellingur af Scouserum á vellinum. Því langar mig að beina spurningum mínum til þeirra sem vita eitthvað um þetta mál. Er Liverpool eitthvað ver sett með þetta heldur en hin “stóru” liðin á Englandi?

  1
  • Partur af styrkleika Liverpool rétt eins og t.d. Man Utd og London liðanna er alþjóðlegt fan base félagsins og t.a.m. fjöldi erlendra ferðamanna í borginni á leikdegi. Það eru miklu miklu fleiri erlendir ferðamenn á leikdegi hjá Liverpool en t.d. Everton þannig að svarið er já að vissu leiti. Liverpool borg sem heild þrífst að stórum hluta á þessum ferðamönnum og flestir þarna átta sig alveg á að þetta er mjög mikilvæg auðlind fyrir borgina í heild, ekki bara knattspyrnuliðið.

   Heimamenn eru samt auðvitað í miklu meirihluta á leikdegi og þeir eru algjörlega ráðandi í stefnu og samskiptum gagnvart eigendum. Stórir stuðningsmannahópar t.d. frá Norðurlöndum er eins oftar en ekki í ágætum samskiptum við bretana og styðja þá frekar en vinna gegn þeim þó auðvitað sé alltaf einhver núningur og verður áfram.

   Eins er mjög varasamt að tala um þetta sem vandamál, Liverpool væri ekki eins öflugt án stuðningsmanna utan Liverpool borgar.

   Þetta hefur samt klárlega áhrif á stemmingu á leikjum og á það við bara á Englandi almennt. Það er jafnan mun ódýrara á leiki í Þýskalandi og mikið til heimamenn á leikjunum, stemmingin er því allt öðruvísi. Spurning samt hvort Schalke, Herta Berlín, Leverkuseen o.s.frv. myndu vilja aðeins fleiri ferðamenn í staðin fyrir töluvert betra lið sem er meira samkeppnishæft á alþjóðavísu?

   2
 7. Nei Liverpool er ekkert verra með þetta en hin stóru liðin og jú það er enn hellingur af heimamönnum á vellinum en samt sem allt annað dæmi núna en þegar ég fór fyrst á vollinn árið 2000 sem dæmi. Í dag er eina leiðin að sitja í KOP finnst mér til að fá alvoru stemmningu því hinar stúkurnar eru meira og minna TD mikið af fólki frá Malasíu og löndum þar í kring með myndavélar á lofti allan tímann og kunna ekki staf í songvunum en Íslendingar og Norðmenn eru engu verri en þessir innfæddu hvað varðar að syngja og tralla með og kunna alla söngvana eins og þessir innfæddu.

  2
 8. Eigendur Liverpool minna mig á litlu stúlkuna með eldspýturna. Númer hvað væru þeir á þessum lista?

Fyrsti stórleikur kvennaliðsins á leiktíðinni: heimsókn til Sheffield

Gullkastið – Klopp í sex ár og nýtt Olíufélag