PSG – Eina liðið í París

Arsene Wenger var orðaður við PSG haustið 2010 og lét hafa eftir sér áhugaverð ummæli er hann var spurður út í áhuga franska félagsins

“PSG are the only club in the world based in an area of 10 million inhabitants that doesn’t have any competition [from a rival club]. What needs to be done is to get a group of investors around the table to provide the club with some financial muscle.”

Prófessorinn hefur lengi vitað hvað hann syngur því að mánuði seinna fundaði Tamin bin Hamad Al-Thani sem í dag er Emírinn í Katar með Nicolas Sarcozy Frakklandsforseta, Michel Platini forseta UEFA og Sébastien Bazin eiganda PSG í sjálfri Élysée höllinni þar sem sala á félaginu var handsöluð og grunnur lagður að töluvert fleiri stórum viðskiptum Katar í Frakklandi.

Hvort þessi ummæli Wenger hafi haft áhrif á áhuga nýrra fjárfesta skal ósagt látið en hann hafði rétt fyrir sér. Ótrúlegt en satt þá er PSG eina alvöru liðið í París og raunar situr félagið eitt að úthverfum borgarinnar (Ile-de-France) en það svæði telur töluvert fleiri íbúa en þær rúmlega tværi milljónir sem búa í París. Eins búa þar miklu fleiri og betri knattspyrnumenn.


París situr ein að gríðarlega fjölmennu svæði en til samanburðar má geta að í London eru sex Úrvalsdeildarlið og þrjú Championship lið.

Það sem Wenger kom ekki inná var að mjög margir í úthverfum Parísar hötuðu PSG og þeirra hvítu millistéttar aðdáendur sem þekktir voru fyrir ólæti og þeir verstu (Boulogne Boys) voru lítið annan en fasistar. Aðalvandamálið var samt að stórhluti borgarbúa var skítsama um fótbolta. PSG sem var stofnað í tilefni af byggingu Parc des Princes var í vandræðum með að fylla hann í 40 ár eða þar til Al-Thani fjölskyldan í Katar keypti félagið. Eigendur PSG eru Qatar Sports Investments (QSi) en verum ekkert að flækja þetta, það eru stjórnvöld í Katar sem eiga PSG.

Eina liðið í París

PSG var stofnað árið 1970 við sameiningu tveggja liða. Paris sem stofnað var árið áður samhliða byggingu Parc des Princes og Stade Saint-Germain, félags sem stofnað var árið 1904 og telst vera eiginlegur forveri PSG. Það er því ekki alveg rétt að tala um að félagið sé stofnað 1970 þó það sé tæknilega séð rétt og öll titlasöfnun og annað telur aðeins frá 1970. Stade Saint-Germain var heldur ekkert stórlið og ekki í efstu deild er völlurinn var byggður. Nýtt lið átti að verða höfuðborginni sæmandi og fékk gríðarlega styrki frá borgaryfirvöldum til að ná því. Liðið komst í efstu deild fljótlega eftir að Parc des Princes opnaði árið 1974 en varð aldrei stórveldi í Frakklandi fyrr en á þessum áratug. Þetta var meira bikarlið en titilinn höfðu þeir unnið 1986 og 1994.

Það hefur ekki vantað glamúr eða peninga í kringum félagið en stemmingin í kringum PSG virkaði frekar þvinguð löngu fyrir 2011. Félagið hefur litla sögu, ennþá minni rætur og hvað þá sál. Árið 2005 gerði L’Equipe stóra könnun á því með hvaða liði menn héldu í Frakklandi og niðurstaðan segir töluvert um PSG fyrir tíma Katar.

22% Marseille
17% Lyon
12% Paris SG 
6% Nantes
5% Bordeaux
4% Lens, St Etienne
3% Auxerre, Monaco, Toulouse

Sjónvarpsstöðin Canal Plus keypti félagið árið 1991 og með þeirra hjálp var aðgengi að peningum og góðum leikmönnum en þeir náðu aldrei stöðugleika og voru frekar þekktir fyrir slæm klúður. Flest öll hin liðin hötuðu PSG löngu áður en peningarnir frá Katar komu til sögunnar.

Stuðningsmenn liðsins voru alræmdir og var Parc des Princes einn mest ógnvekjandi völlur Evrópu. Boulogne Boys áttu sviðið á hátindi hooliganismans. Þeir voru staðsettir fyrir aftan annað markið og jafnan mjög ofbeldisfullir. Á níunda áratugnum fóru meira vinstri sinnaðir stuðningsmenn PSG (mikið til af innflytjendaættum) að láta til sín taka í hinum enda vallarins. Þeir voru mun háværari og litskrúðugri en fasistarnir í Boulogune Boys og með þessa hópa á sitthvorum enda vallarins var ekkert grín að fara á leik í París. Þetta hjálpaði liðinu auðvitað innanvallar.

Það kom oft til átaka milli þessara hópa stuðningsmanna PSG sem endaði með því að uppúr sauð árið 2010 og einn stuðningsmaður lá í valnum. Viðbrögð PSG voru hörð, allir ársmiðar voru felldir úr gildi og Ultras hóparnir bannaðir. Það vantaði því gríðarlega mikið upp á stemminguna þegar og eftir að Katar keypti félagið ári seinna og þegar PSG fór að fá aukna athylgi með bættu gengi voru margir á því að þetta gæfi ekki rétta mynd af hinu raunverulega PSG. Ultras hóparnir voru leyfðir aftur árið 2016 og komu þá margir aftur á leiki sem ekki höfðu mætt í þessi sex ár. Stemmingin hefur vaxið eftir því og auðvitað með bættu gengi innan vallar. Meira um stuðningsmenn PSG hérna

How PSG lost its soul

Knattspyrnuleysið í París meirihluta síðustu aldar gerði það líklega að verkum að borgarbúar hafa aldrei verið eins helteknir af fótbolta líkt og þekkist mjög víða annarsstaðar. Liverpool er 100% fótboltaborg, Manchester og London líka. Guð minn góður Mílan og Róm. Já eða Madríd og Barcelona.

“Paris just isn’t a man’s town” sagði Tom Waits einhverntíma á einfaldari tímum og þó hann hafi líklega ekki verið að meina það með fótbolta í huga (hvað þá að fótbolti sé bara karlsmannsíþrótt) má heimfæra merkinguna á áhugaleysi þeirra á fótbolta.

Það eru vissulega fleiri lið í París en þeim hefur ekki tekist að búa til neitt stórlið. Það var m.a.s. reynt aftur fyrir HM í Frakklandi 1998 er nýr þjóðarleikvangur var byggður. PSG neitaði að færa sig á nýja völlinn því með því myndu þeir missa styrki frá borgaryfirvöldum. Því var kannað stemmingu fyrir öðru liði (Noisy-le Sec ) sem gekki ekki upp. Hugmyndir þeirra voru að byggja upp lið í kringum alla hæfileikaríku innflytjendurnar (mikið til) frá Afríku og Arabalöndunum sem búa í úthverfum Parísar (þessa sem hötuðu flestir PSG þegar Boulogne Boys stjórnuðu stúkunni). Ekki galin hugmynd á sínum tíma í ljósi þess að þetta er líklega það svæði í heiminum sem býr til flesta elítu knattspyrnumenn í dag.

Úthverfi Parísar – fótbolti er allt

Arsene Wenger hefur oft talað um París í gegnum tíðina og þá á þeim nótum að þar væru ótrúlegir möguleikar. Því þó það vanti töluvert upp á knattspyrnuhefð borgarinnar eru úthverfi hennar yfirfull af innflytjendum frá Afríku og Arabíuskaganum sem hugsa um fótbolta 24/7. Fyrir um áratug sagði Wenger að Parísarsvæðið væri næstbesta talent pool í fótboltaheiminum á eftir Sao Paulo. París er klárlega komin í efsta sætið í dag.

Bara sem dæmi um leikmenn í dag sem koma frá Ile-de-France (Stór-Parísarsvæðið) hefur þetta svæði undanfarin ár alið af sér Paul Pogba, Anthony Martial, N’Golo Kante, Kingsley Coman, Blaise Matuidi og Kylian Mbappe. (O. Dembele er svo fæddur 70 km frá París). Fjórir núverandi leikmanna PSG eru frá París (Alphonse Areola, Presnel Kimpembe, Rabiot og Mbappe). Þetta eru bara þeir sem völdu að spila fyrir Frakkland. Riyad Mahrez og Yacine Brahimi eru einnig uppaldir í úthverfum Parísar en spila fyrir Alsír, sama á við um fjölmarga leikmenn Senegal og Marokkó. Satt að segja koma líklega fleiri elítu knattspyrnumenn frá Ile-de-France en koma frá Asíu, Afríku og N-Ameríku samanlagt eins og Simon Kuper (Soccernomics) heldur fram. Ástæður fyrir þessari ævintýralegu framleiðslu eru auðvitað margvísilegar og ef það væri einhver ein auðveld skýring væru líklega fleiri að framleiða leikmenn eins og útvhverfi Parísar gera.

Væntanlega var glæpsamlega lítið njósnað um þessi hverfi fyrstu áratugina sem PSG var starfandi. Það var t.a.m. enginn frá Ile-de-France í byrjunarliði landsliðsins sem vann EM 1984 á meðan það voru þrír í Heimsmeistarahópi Frakka árið 1998. Wenger nýtti sér einmitt þekkingu sína af markaðnum í Frakklandi og keypti tvo af þessum leikmönnum, Henry og Vieira, sá þriðji heitir Lillian Turam og raunar fluttu foreldrar Zidane fyrst til Parísar er þau komu frá Alsír þó hann hafi fæðst og alist upp í Marseille. Rúmlega þriðjungur af hópi núverandi heimsmeistara kemur frá Ile-de-France svæðinu.

Paul Pogba nelgdi líklega ástæðuna hvað best í viðtali við Kuper 2016 er hann var spurður út í þennan gríðarlega fjölda elítu leikmanna frá sama svæði. Svarið var einfalt og satt:

“because there is only soccer”.

Þó að það sé enganvegin heilög vísindi þá er stundum haldið því fram að flestir elítu íþróttamenn hafi lagt að baki að lágmarki 10.000 klukkutíma af æfingum áður en þeir “meika það”. Fjölmargir af þessum Ile-de-France leikmönnum eiga það einmitt sameiginlegt að hafa náð stórum hluta þessara æfinga í úthverfum Parísar í krefjandi samkeppni við fjölmarga aðra góða leikmenn með sama draum á meðan margir krakkar annarsstaðar verða snjallsímanum að bráð, tónlistarkennslu eða öðru sem truflar fótboltann. Eins og Pogba sagði, þarna hafa sumir EKKERT annað og eru alltaf í fótbolta. Þetta er ekki eina ástæðan en líklega tengja margir Brassar við þetta.

Þessi svæði eru líka undir gríðarlegu eftirliti allra helstu stórliðanna í dag. PSG missir t.a.m. afar fáa í dag en þeir sitja langt í frá einir að markaðnum. Áður en Katar keypti PSG fór Pogba t.a.m. 13 ára til Le Harve sem er 200 km frá París. Hann hefði alltaf farið í PSG í dag. Þaðan fór hann 15 ára til Manchester United. Pabbi hans þjálfaði hann og tvo bræður hans linnulaust og gerði þá alla að atvinnumönnum. Bræður Pogba sem eru tvíburar eru auðvitað ekki á sama leveli og bróðir sinn og gátu þá bara eins og flestir núverandi landsliðsmenn Frakka valið annað landslið, þeir eru báðir í landsliði Gíneu. Pabbi þeirra var alls ekkert eini pabbinn á þessum slóðum sem átti sér þann draum að sonur sinn yrði atvinnumaður í fótbolta og lagði MIKIÐ á sig til að svo mætti verða.

Afhverju keypti Katar PSG?

Jonathan Wilson einn virtasti knattspyrnublaðamaður í heimi tók PSG af lífi eftir fyrri leik Liverpool og PSG í haust

Each season the question seems to become more fundamental: what are PSG? A vanity project for Neymar? A strangely misplaced Nike marketing ploy? A laundromat for Qatar’s international reputation? They’re certainly not a football club in any traditional sense. And if they are supposed to be an agent of Qatari soft power, they really need to start emphasising the power aspect of that phrase rather than the soft.

Katar keypti PSG af nákvæmlega sömu ástæðu og Abu Dhabi keypti Man City og mjög líklega vegna þess að Abu Dhabi keypti Man City. Að eiga eitt af bestu knattspyrnuliðum í heimi er ein áhrifaríkasta, besta og ódýrasta leið sem þeir geta farið til að bæta ímynd Katar. Ekki misskilja, fjárhæðirnar sem Katar hefur sett í PSG eru sturlaðar í knattspyrnuheiminum og ævintýralegar í franska boltanum en ekkert rosalegar í stóra samhenginu fyrir Katar. Þetta er jú ríkasta land í heimi ef miðað er við höfðatöluna okkar. Íbúafjöldi Katar er svolítið á reiki en talið er að um 2,7 milljónir manna búi í Katar en aðeins 10-15% séu ríkisborgarar. M.ö.o. Katarar eru svipað margir og Íslendingar. Það er svo gríðarlega hröð uppbygging sem að mestu er drifin af ódýru vinnuafli (nánast þrælum) frá öðrum Asíulöndum að um 75% af þeim sem eru í Katar eru karlmenn.

“Reputation laundering” er besta lýsingin á því sem Katar og Abu Dhabi eru að gera enda mjög mikilvægt fyrir jafn vafasöm einræðisríki að draga athyglina frá því hvernig þeir stjórna heimafyrir og þá sérstaklega frá öllum mannréttindabrotunum sem þar eru framin og reyna beina athyglinni á eitthvað jákvæðara. Fá fólk til að horfa á þessar þjóðir í öðru og jákvæðara ljósi.

Eignarhaldið á bæði Man City og PSG er dulbúið undir hatti fyrirtækja frá þessum löndum en maður þarf að vera verulega einfaldur til að sjá ekki í gegnum að þessi lið eru bæði í eigu Olíuríkja sem nota bene eru í samkeppni á mun fleiri vígstöðum en bara knattspyrnuvellinum. Það er eitt að knattspyrnulið séu í eigu misvafasamra viðskiptamanna út um allan heim en hreinn óbjóður þegar heilu ríkin eru farin að nota þessa íþrótt til að hefja sig upp. Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær annaðhvort PSG eða Man City vinnur Meistaradeildina, líklega á þessu tímabili, það verður sorglegur dagur.

Fundurinn í Élysée höllinni þar sem kaupin á PSG voru handsöluð snerist um töluvert fleira enda væri lítil þörf á forseta UEFA og hvað þá forseta Frakklands á slíkan fund.  Platini breytti t.a.m. um skoðun er að kom að stuðningi við HM 2022, hann studdi tillögu Katar í stað Bandaríkjanna og tók með sér töluvert af mikilvægum atkvæðum. Hann hefur haldið því fram að hann hafi bara skipt um skoðun á eigin forsendum en einnig talað um að Salkozy hafi viljað að hann talaði frekar fyrir tillögu Katar. Platini er btw í banni frá fótbolta núna.

BeIN Sports, íþróttastöð Al Jazeera greiddi háar frjárhæðir fyrir sýningaréttinn af franska boltanum og eru einnig með sýningaréttinn af Meistaradeildinni og öllum hinum stóru deildunum í Evrópu fyrir Mið-Austurlönd (og víðar). Að auki voru handsalaðir gríðarlega stórir viðskiptasamningar Qatar Airways um kaup á fimmtíu A-320 Airbus þotum sem smíðaðar eru í Toulouse. Samningur sem hljóðar upp á $19bn eða nógu mikið til að Sarkozy setji pressu á menn að kjósa með Katar á öðrum vígstöðvum.

Al Thani og deilur Persaflóaríkjanna


Rétt eins og önnur Persaflóaríki er Katar einræðisríki sem lengi hefur verið stjórnað af sömu ættinni. Al Thani fjölskyldan sem við Íslendingar ættum að kannast við nafnið á eftir bankahrunið hér á landi hefur farið með völd í Katar frá miðri nítjándu öld en án þess að fara djúpt ofan í sögu Katar þá hefur þessi eyðimörrk við Persaflóan sem á einungis landamæri að Saudi-Arabíu breyst úr fátæku og fámennu ríki í eina auðugustðu þjóð veraldar á tiltölulega skömmum tíma. Þeir fóru að pumpa upp olíu um miðja síðustu öld, fengu endanlega sjálfstæði frá Bretum 1971 og hafa vaxið alla tíð síðan.

Emír (Konungur) Katar er Tamim bin Hamad Al Thani sem tók við af föður sínum árið 2013 aðeins 33 ára gamall. Hann hefur haldið áfram stefnu föður síns (Hamad bin Khalifa Al Thani) að koma Katar á kortið á alþjóðavettvangi. Hamad er aðalmaðurinn í uppbyggingu Katar og auknum áhrifum þeirra á heimsvísu en hann hrifsaði völdin af föður sínum án þess að til átaka kæmi árið 1995. Sá gamli skrapp í frí til Sviss.

Þetta var ekkert í fyrsta skipti sem framið var valdarán í Al Thani fjölskyldunni en Hamad hafði allt aðra og róttækari framtíðarsýn fyrir Katar. Hann sá þá möguleika sem allar auðlindir landsins gáfu og vildi gera Katar miklu sjálfstæðara. Pabbi hans hafði jafnan verið meira í línu við hin Persaflóaríkin sem mörgum í Katar fannst svolítið valta fyrir þeirra fámenna ríki. Nágrannaríki Katar með Saudi Arabíu og Sameinuðu Arabísku Furstadæmin í broddi fylkingar studdu því ekki valdaránið og voru ekki fylgjandi því að skipt væri um Emír með þessum hætti. Aðaláhyggjuefni þeirra var (og er) auðvitað að þarna voru þau að missa tök sem þeir höfðu haft á miklu minna ríki. Þetta hefur verið þrætuepli milli þessara þjóða alla tíð síðan en árið eftir (1996) studdu Saudar annan arm innan Al Thani fjölskyldunnar í valdaránstilraun sem rann út í sandinn (bókstaflega).

Stjórnmál og samskipti arabaríkjanna sjálfra eru verulega flókin, tengsl þessara konungsfjölskyldna eru gríðarlega mikil og jafnvel eins og áður segir átök innan sömu fjölskyldna og deilur því stundum meira persónulegar en endilega pólitískar. 

Katar hefur megnið af þessari öld staðsett sig sem einskonar Sviss Mið-Austurlanda og verið hlutlaust og jafnvel sáttasemjari í deilum mismunandi fylkinga. Einn armur af því er stofnun arabísku sjónvarpsstöðvarinnar Al Jazeera sem Katar setti á fót í kjölfar þess að BBC hætti með arabíska sjónvarpsstöð sína. Al Jazeera óx hratt í það að verða mikilvægasti fréttamiðill Mið-Austurlanda og komst t.d. á kortið á vesturlöndum upp úr aldamótum er Osama Bin Laden fór að senda video á þá til að dreifa sínum boðskap eða hótunum.

Stöðin og það “frelsi” sem þar er hefur lengi verið þyrnir í augum stjórnvalda í nágrannaríkjunum og er orðið að alvarlegu milliríkjamáli eftir arabíska vorið 2010. Þá misstu nokkrir einræðisherrar völdin og mótmæli voru í flestum arabalöndunum. Stjónvöld í Saudi Arabíu og SAF fannst Al Jazeera bera töluverða ábyrgð á því ástandi og hallast full mikið að og ýta undir uppreisnarmenn eins og Muslim Brotherhood og aðra hópa sem þeir segja vera hryðjuverkahópa. Muslim Brotherhood náði t.a.m. völdum í Egyptalandi 2012 en herinn steypti þeim af stóli árið eftir.

Upp frá þessu fór heldur betur að hitna í kolunum og sér ekki fyrir endan á því ennþá. Saudi Arabía, SAF, Egyptar og Bharein sem eru fjögur næstu nágrannaríki og áður bandalagsríki Katar settu algjört viðskiptabann á Katar í júní á síðasta ári og lokuðu m.a. sendiráðum sínum í Katar í tilraun til að knésetja þá án þess að beita hernaði. Þessi útilokun á Katar stendur ennþá yfir en sett voru þrettán skilyrði sem Katar á að uppfylla svo aflétt verði viðskiptabanni. Sum af þeim óraunhæf og flest eitthvað sem Katar hefur enganvegin í hyggju að verða við. Al Thani fjölskyldan er útsjónarsöm og hefur jafnvel snúið þessu sér í vil og gert nýja hernaðar-og viðskiptasamninga annarsstaðar og opnað á stóra og mikilvæga markaði. Orðum þetta þannig að Katar myndi líklega syngja hástöfum með þegar kemur að íslenska kaflanum í Det var brændevin i flasken.

Ein af kröfum er að loka eða a.m.k. ritskoða Al Jazeera. Þeir vilja ekki að Katar hafi sjálfstæða utanríkisstefnu heldur að þeir dansi í takt. Hér á vesturlöndum setjum við PSG og Man City svolítið undir sama hatt en líklega er einn mesti rígurinn í Evrópuboltanum milli eigenda þessara félaga og þeir ganga ansi langt til að sverta ímynd hvors annars. Þessar deilur eru vel útskýrðar í annarsvegar frábærnum podcast þætti PSG Talk og hinsvegar í eftirfarandi skýringarmyndbandi

Katar hefur enn sem komið er átt svar við öllum aðgerðum nágrannaríkjanna og hafa ef eitthvað er styrkt stöðu sína á alþjóðavettvangi. Katar eitt og sér ætti ekki glætu í Furstadæmin eða Saudi-Arabíu ef til átaka kæmi. Því gerðu stjórnvöld í Katar hernaðarsamninga við öll helstu ríkin á vesturlöndum sem ekki studdu útilokunina á Katar. Auk þess hafa þeir opnað á viðskipti við Tyrki og Írani sem er þyrnir í augum Saudi Araba. Katar er búið að kaupa gríðarlegt magn af hernaðargögnum frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi. Bæði Tyrkir og Bandaríkjamenn eru með mikilvægar herstöðvar í Katar og stóð Katar að kostnaði við þessar herstöðvar. M.ö.o. ef við einföldum þetta verulega þá þeir eru nógu ríkir til að kaupa sér vernd frá voldugum og brútal nágrönnum sínum, ennþá a.m.k.

HM í Katar

Hamad bin Khalifa Al Thani lagði gríðarlega mikla áherslu á að ná HM 2022 og sá fyrir sér að með því móti myndi Katar formlega mæta á alþjóðasviðið. Auk fótbolta hefur Katar undanfarin ár haldið stórmót í fjölmörgum öðrum íþróttum og hafa íþróttir alla tíð verið stór partur af hans plönum.

Til að setja aðeins í samhengi hversu lítið PSG verkefnið er fyrir Katar þá eru þeir að byggja sjö nýja og stórglæsilega velli til að nota á HM. Velli með sérstökum kælibúnaði til að vinna upp á móti því hversu galið það er að halda HM í eyðimörk. Þessir sjö vellir eru allir í og við Doha en lengsta vegalegnd milli valla á HM 2022 eru 72 km. Bygging þessara leikvanga hefur kostað “þrælana” sem eru að byggja þá töluvert meira en blóð, svita og tár en það er önnur og ágætlega vel þekkt saga sem Katar vill alls ekki að við vitum af og gerir lítið til að bæta úr.

Sem dæmi um stjórnrfarið í Katar (sem og nágrannalöndunum) þá setti Tamim ný lög í landinu árið 2014 sem tóku á netglæpum og eru þau sögð vera partur af sameiginlegri reglugerð Persaflóaríkjanna. Lögin kveða á um að það er glæpsamlegt að móðga eða tala illa um konungsfjölskyldunar á svæðinu á nokkurn hátt. Leiðinleg svona basic mannréttindi en þessi ríki óttast ekkert meira en arabískt vor í sínum ríkjum líkt og átti sér stað í mörgum nágrannalöndum þeirra.

Það sem tengist PSG hvað mest í þessum erjum við konungsfjölskyldurnar í Abu Dhabi og Saudi-Arabíu eru líklega kaupin á Neymar. Katar sá hann og kaupverðið á honum sem frábæra leið til að sýna mátt sinn og auðvitað sanna styrk sinn þrátt fyrir erjurnar við nágrannaríkin. Saudi-Arabía og Abu Dhabi vildu að við værum að fjalla á neikvæðan hátt um Katar og grípa á lofti samsæriskenningar sem þessi ríki dældu út m.a. um afskipti þeirra af stjórnmálum í öðrum ríkjum og stuðningi við öfgasamtök eins og Muslim Brotherhood, al-Qaeda og ISIS. Þess í stað voru allir að tala um stærstu frétt ársins í íþróttaheiminum. Katar vann þessa lotu þó þetta sé auðvitað veruleg einföldun á mjög flóknu máli.

PSG keypti ekki bara tvo dýrustu leikmenn í heimi heldur káluðu þeir metinu með kaupunum á Neymar. Þar til hann var keyptur var Pogba dýrasti leikmaður í heimi, hann fór fyrir £89.3m til United árið 2016. Ári seinna fór Neymar til PSG á £198m og Mbappe fylgdi á eftir á £160m. Katar hefur sett vel rúmlega £1milljarða í PSG síðan 2011 og auðvitað landað fimm síðustu Ligue 1 titlum. Áður en Katar kom til sögunnar hafði verið tap á rekstri PSG tíu ár í röð. Næsta skref er klárlega Meistaradeildin og öll sú jákvæða umfjöllun sem því fylgir.

Stærsta vandamál PSG í dag er franski boltinn. Kaup Katar á PSG er búið að rústa þessari deild svo fullkomlega að hún er hundleiðinleg og snýst aðeins um annað sætið fyrir hin 19 liðin. Vandamál PSG er að þeir fá ekki næga samkeppni heimafyrir og það virðist hamla þeim í Evrópu. Líklega þess vegna eru eigendur stærstu liðanna nú þegar byrjaðir að skoða möguleika á einni súperdeild þeirra stærstu, Katar og Abu Dhabi væru líklega bæði mjög fylgjandi slíku concepti og hafa bolmagn í að koma því á koppinn.

Opinber ástæða þess að Katar keypti PSG og Abu Dhabi keypti Man City er sú að þessi olíuríki eru að reyna undirbúa það að olíulindirnar þorni upp. Markmiðið er að verða ekki eins háð olíu og þau eru í dag. Fótbolti er bara brotabrot af fjárfestingum þessara ríkja út um allan heim. Fótbolti er engu að síður mjög mikilvægur partur af herferð þeirra þegar kemur að orðspori enda mikilvægt upp á að geta tekið þátt í alþjóðlegum samskiptum. Orðspor og jákvæð ímynd er þessum ríkjum gríðarlega mikilvæg og eru æðstu ráðamenn í báðum ríkjum töluvert mikið meira viðkæmir fyrir slæmu umtali en Donald Trump og refsa á mun grimmari hátt fyrir slík brot en jafnvel Erdogan gerir í Tyrklandi. Spáið í manneskjum sem taka gagnrýni verr en Donald Trump!

Aðeins til að setja í samhengi hversu lítið PSG verkefnið er fyrir Katar er gott að grípa niður í frábæra grein David Conn á The Guardian sem fjallar um undirbúning Katar fyrir HM

In a country grown rapidly rich beyond imagining because of its pioneering exploitation of liquid natural gas, the bonanza has created a Gulf city of skyscrapers and malls, which can put on a World Cup from scratch. The official budget for World Cup-specific construction is put by Thawadi at between $8bn and $10bn, although that is buttressed by the $200bn being spent more generally to have a new metro system and huge infrastructure ready for 2022.

Fyrir nokkrum árum var lekið gríðarlegu magni af gögnum sem Der Spiegel í Þýskalandi ásamt hópi rannsóknarblaðamanna hefur unnið úr og hefur verið að birta jafnt og þétt. Þar er m.a. sannað hversu hressilega PSG og Man City hafa brotið Financial Fair Play reglur UEFA og ekki bara það heldur spilað með æðstu menn þessara gjörspilltu samtaka eins og munnhörpu. Infantino var framkvæmdastjóri UEFA þegar kom að því að taka á Abu Dhabi og Katar vegna Financial Fair Play en er núna forseti FIFA og Katar af öllum löndum heldur HM 2022. You do the math!

Infantno er núna að þykjast vera einhver sáttasemjari á svæðinu þegar hann talar stíft fyrir því að fjölga liðum á næsta HM í 48 og bæta Saudi Arabíu og SAF við sem gestgjöfum. Eitthvað sem Katar hefur ekki tekið vel í og er ólíklegt að af verði úr þessu. Nokkuð ljóst að MBZ í Abu Dhabi og fjölskyldan sem á Man City hefur eitthvað rætt við Infantino um þetta en þeir hafa leynt og ljóst reynt að grafa undan HM í Katar.

Það eru sjö ár síðan Katar keypti PSG og því miður er ekkert sem bendir til þess að þeir ætli sér að slaka á í fjárfestingum á næstunni, ekki frekar en Abu Dhabi. Vonandi geta okkar menn sett strik í reikninginn á miðvikudaginn og sent hann í hraðpósti til Katar.

PSG – Liverpool líkleg byrjunarlið

PSG er þrátt fyrir litla samkeppni heimafyrir klárlega eitt af bestu liðum í heimi. Liverpool var líklega besta lið sem þeir höfðu mætt á þessu tímabili þegar þeir komu á Anfield í haust og voru ljónheppnir að sleppa með 3-2 tap. Satt að segja var ótrúlegt að þeir hefðu komið sér aftur inn í leikinn eftir að hafa lent 2-0 undir og segir kannski eitthvað um þá ógn sem þetta lið býr yfir. Neymar og sérstaklega Mbappe eru að vinna á Matrix hraða. Liverpool gerði vel í að klára leikinn með sigri eftir að hafa misst niður tveggja marka forystu en það ljóst að þetta verður allt annar leikur í París. Raunar var sigurinn á Anfield eina tap PSG í vetur. Þeir hafa unnið alla fjórtán deildarleiki tímabilsins í Ligue 1 sem er auðvitað met og segir það sem þarf um skemmtanagildi deildarinnar. Napoli voru klaufar að vinna ekki a.m.k. annan leikinn gegn þeim í Meistaradeildinni en báðir enduðu með jafntefli.

Liverpool hefur spilað alveg hræðilega á útivelli í Evrópu það sem af er vetri og þetta fer illa ef spilamennskan verður í ætt við það sem við urðum vitni af í Napoli og Belgrad. Á móti gæti PSG á heimavelli hentað ágætlega, Liverpool undir stjórn Klopp hefur jafnan liðið best á móti liðum sem þora að sækja og PSG er sannarlega ekkert varnarlið, alls ekki á heimavelli. Satt að segja var frammistaða okkar manna gegn PSG á Anfield líklega sú besta í vetur og hvað mest í ætt við það sem við sáum á síðasta tímabili.

Liverpool

Það er eins gott að Liverpool er með dýrasta og óumdeilanlega besta varnarmann í heimi sem og næstdýrasta markmann í bransanum til að eiga við tvo dýrustu sóknarmenn sögunnar. Lovren hefur verið í byrjunarliðinu undanfarið hjá Klopp og heldur væntanlega sæti sínu þó Gomez verði aftur leikfær. Samt myndi ég vilja hafa vörnina óbreytta frá fyrri viðureign liðanna, Gomez er miðvörður og við þurfum þann hraða sem hann býr yfir gegn Mbappe.

Wijnaldum, Henderson og Milner byrjuðu allir gegn PSG á Anfield og ég vona að dagar þessarar samsetningar á miðjunni sé nú lokið þó ég óttist að Klopp sé ekki sammála. PSG verða töluvert sterkari á miðsvæðinu með Veratti sem spilaði ekki á Anfield og Draxler sem komið hefur inn í liðið undanfarið. Naby Keita verður að fara koma til hjá Liverpool og ég gæti trúað að hann komi inn í þessum leik.

Frammi væri ég til í að sjá Klopp stilla sóknartríóinu aftur upp eins og hann gerði á síðasta tímabili. Firmino hefur ekki spilað sem striker í vetur og ég sakna hans inni í boxinu.

Byrjunarliðið spái ég að verði eitthvað á þessa leið.

Alisson

Gomez – Lovren – Van Dijk – Robertson

Henderson – Keita – Wijnaldum

Salah – Firmino – Mané

Ágætt að maður getur léttilega séð Milner, Fabinho eða Shaqiri fyrir sér í byrjunarliðinu sem og auðvitað Trent sem gefur til kynna að breiddin er ágæt.

PSG

Það er óhætt að segja að Tuchel hafi róterað töluvert á þessu tímabili og hann skiptir oft um leikkerfi milli leikja. Án þess að þekkja mikið til tippa ég á að Neymar og Mbappe verði stálhressir þrátt fyrir meiðsli um helgina og Tuchel stilli upp svipað og úti gegn Napili. Ansi vel mannað 3-5-2 kerfi.

Buffon

Marquinhos – Silva – Kimpembe

Meunier – Draxler – Veratti – Di Maria – Bernat

Mbappe – Neymar

Þarna vantar t.d. inn Cavani, Areola og Rabiot sem allir hafa spilað mikið í vetur.

Spá

Ég hef slæma tilfinningu fyrir Meistaradeildinni hjá Liverpool í vetur eftir þessa ömurlegu leiki í Belgrad og Napoli og eins finnst mér liðið bara ennþá eiga töluvert inni. Óttast að PSG vinni þennan leik því miður. Liverpool á samt klárlega séns á að vinna þarna og það væri verulega ljúft að tryggja sig áfram. Liverpool var miklu betra en PSG á Anfield og Napoli fór þarna og átti að vinna, yfirspilað PSG jafnaði í uppbótartíma.

Þetta er smá óskhyggja en ég hendi í spá sem hljóðar upp á 1-3 sigur þar sem Liverpool refsar með þriðja markinu undir lokin þegar PSG er að reyna sækja jafntefli.

12 Comments

 1. Setjum fókusinn strax á París enda risaleikur framundan í næstu viku. Þessi upphitun tók sinn tíma og tekur 2-3 kaffibolla (eða Egils Gull) að renna í gegnum. Spáum svo enn meira í liðin sjálf í næsta Gullkasti sem er væntanlegt á þriðjudagiskvöldið.

 2. Takk fyrir frábæra upphitun virkilega flott grein.

  PSG er lið sem eru vanir því að andstæðingarnir sýna þeim virðingu en það munum við ekki gera, hápressa og læti kemur okkur í 0-1 snemma leik.
  Færum liðið aðeins aftar og skorum svo annað mark með skyndisókn í þeim síðari áður en heimamenn minka þetta í restina en við höldum þetta út.
  1-2 sigur Liverpool Salah og Mane með mörkin.

 3. Takk fyrir þessu frábæru upphitun. Að vísu villandi fyrirsögn, betra hefði verið að tala um alvöru lið eða lið í efstu deild. Það eru td amk tvö lið frá París í næstefstu deild og óþarfi að gera lítið úr þeim.
  Leikinn framundan alveg gríðarlega spennandi því segja má að Liverpool sé upp við vegg eftir aulaskap á útivelli í CL í vetur. Verður því hreinlega að sækja til sigurs og ekkert væl. Á venjulegum degi er Liverpool betra lið en PSG og því er allt hægt en 1-0 sigur er alveg nóg fyrir mig, takk.

 4. Flott grein og gaman að lesa. En klárt mál er að þessi lið psg og manc eru á góðri leið að skemma deildirnar í sínum löndum, og því ætti það að vera áhyggjuefni knattspyrnusambanda að minnsta kosti taka hart á því ef þau hafi brotið af sér eins og talið er að þau hafi gert. En svo er auðvitað máttur mikilla peninga mikill, að þeir verði til þess að enska og franska knattspyrnusamböndin loki augunum. Ég spái 1-2.

  YNWA

 5. Sæl og blessuð.

  Glæsileg samantekt og gengi Parísarmanna sýnir það einmitt hversu ójöfn skipting aflagar allt og bjagar. Nú þurfum við að jafna hluti og kenna þeim réttlætislexíu.

 6. Geggjuð upphitun eins og alltaf fra meistara Einari, er annars skithræddur við þennan leik og ekki af þvi eg tel okkar menn ekki geta nað i úrslit þarna þvi ótrúlega oft fara okkar menn krísuvíkurleiðina i evrópukeppni og eg tel þess vegna að við topum og munum þurfa 2 marka sigur a anfield gegn Napoli þann 11 desember til að fara áfram.. það er oft eins og okkar menn elski að fara erfiðiðu leiðina.. spai að við tryggjum okkur afram a 90 minutu gegn Napoli i svaka dramatík svona svipað og við gerðum gegn Dortmund arið 2016.

  En bara eitt sma auka, er buin að hlusta a nokkur podcöst inna rauðu djoflanna síðunni i vetur og hef gaman af þvi að heyra þa væla þegar illa gengur en guð minn góður hvað það podcast er sirka 800 þusund sinnum lelegra en okkar herna a KOP.IS og ekki af þvi það fjallar um man utd heldur virka bara einhver börn og ja bara virkilega slakir . Lelegasta bolta podcast a landinu ekki spurning 🙂

 7. Ef ég má gefa játningu, þá er manu að færast í það að líka bara smá. Vandamálið hjá þeim er auðvitað fyrri störf, af allt öðrum mönnum en nú eru. En, ennþá eru þeir ekki að flagga arabadrengjum, hvað sem síðar verður, og eru að skemma fótboltann. En ég hef prufað að hlusta á podcastið hjá þeim, fæ nóg eftir 1-5 mín, eðlilega. En kannski endurspeglar það af árangrinum, who knows.

  YNWA

 8. Þetta er ROSALEG upphitun!
  Takk kærlega fyrir mig!

  Leikurinn fer því miður bara 1-1 held ég. En ég vona að okkar menn detti almennilega í gang og setji amk 1 fleira en PSG í leiknum.

Kvennaliðið fær Birmingham í heimsókn

Gullkastið – Innistæðulaus neikvæðni