Stóri Sam kemur í heimsókn

Það er vonandi að jólahátíðin hafi farið vel með lesendur Kop.is, en það er að sjálfsögðu löngu orðið tímabært að fá næsta leik, því nú er næstum vika síðan við sáum piltana okkar spila síðast! Auðvitað jaðrar það við mannréttindabrot. En það verður gerð bragabót þar á á sunnudaginn næstkomandi, þegar WBA mæta á Anfield í heimsókn. Liverpool mætir inn í þennan fyrsta leik eftir jól sem topplið deildarinnar, þriðja árið í röð. Þess má geta að síðast var sama liðið á toppnum á jólunum 3 ár í röð árin 1978-1980, og það var einmitt Liverpool undir stjórn Bob Paisley sem það gerði.

Það er rétt að benda á að okkar menn hafa haft góðan tíma til að undirbúa þennan leik, og svo eru 3 dagar í næsta leik. Önnur lið eru ekki jafn heppin, þannig voru bæði Manchester liðin og Spurs að spila í deildarbikarnum núna í miðri viku, og Chelsea þurfa t.d. að spila tvo leiki með minna en 48 tíma millibili. Reyndar er það svo að aldrei þessu vant eru okkar menn að koma einna best út úr leikjauppröðuninni.

Um andstæðingana

Byrjum aðeins á knattspyrnustjóra andstæðinganna, en eins og kunnugt er tók hinn hugljúfi eiturnetti alræmdi Sam Allardyce við af Slaven Bilić núna á dögunum. Með þessari ráðningu klifraði WBA upp í 2. sætið yfir stólaleikinn sem ensk lið hafa verið að spila, þ.e. “hvaða lið getur sagst hafa ráðið flesta afdankaða knattspyrnustjóra til sín?”. Í augnablikinu er Crystal Palace í efsta sætinu en liðinu hefur nú verið stýrt á einhverjum tímapunkti af Big Sam, Roy Hodgson, Tony Pulis, Alan Pardew og Neil Warnock. WBA vantar núna bara Neil Warnock til að jafna þennan árangur (næst kemur svo West Ham með Allardyce, Moyes og Pardew, en keppninni er hvergi nærri lokið!).

Við fengum að njóta nærveru Stóra Sam síðast árið 2018, þegar hann stýrði Everton frá nóvember og fram til loka tímabilsins. Tímabilið á undan hittum við hann síðast fyrir þegar Crystal Palace komu í heimsókn í aprílmánuði, en sá leikur er einmitt sögulegur því þetta er síðasti tapleikur Liverpool á Anfield í deildinni. Já lömbin mín, það eru komin rúmlega 3 og hálft ár síðan liðið okkar tapaði leik á heimavelli í úrvalsdeildinni, og komnir 66 leikir sem liðið hefur spilað þar sem úrslitin hafa annaðhvort verið sigur eða jafntefli (55 sigrar, 11 jafntefli). Margir stjórar myndu vilja verða sá sem bindur endi á þessa taplausu hrinu, ég er nokkuð viss um að Mourinho hefði gefið ansi margt til að geta verið sá stjóri í leiknum fyrir rúmri viku. Rétt eins er ég viss um að Allardyce er alls ekkert fráhverfur þeirri hugmynd að vera stjórinn sem vann leikina sitt hvoru megin við þessa hrinu. En hvort hann er með lið í það er svo allt annað mál.

WBA lék sinn fyrsta leik undir stjórn Allardyce gegn Aston Villa um síðustu helgi. Sá leikur endaði með sigri Villa 0-3, auk þess sem Jake Livermore fékk beint rautt spjald í leiknum og verður því í banni á sunnudaginn Í augnablikinu eru WBA í 19. sæti deildarinnar með 7 stig, nokkuð örugglega fyrir ofan Sheffield sem eru með 2 stig, en eiga 3 stig upp í Fulham. Sheffield er einmitt eina liðið sem þeir hafa sigrað í deildinni í vetur, en hafa þó náð nokkrum góðum jafnteflum, t.d. var síðasti leikurinn sem Bilić stýrði gegn City og þar náðu þeir í afskaplega gott stig (og komu í veg fyrir jafnvel enn betri 2 stig til City, sem við þökkum þeim kærlega fyrir). Þeirra virðist bíða fallbaráttuslagur í vor, en það er einmitt það sem Stóri Sam á einmitt að koma í veg fyrir.

Ekki voru þeir nú fyrirferðamesta liðið á leikmannamarkaðinum í sumar/haust, en fengu þó vængmanninn Matheus Pereira frá Sporting og hann þykir hafa staðið sig nokku[ vel það sem af er leiktíð. Hann var reyndar í banni í síðasta leik, en ætli séu ekki ágætar líkur á að hann snúi aftur á sunnudaginn. Eins og kom fram ofar verður Jake Livermore í banni, en hann var held ég eini leikmaðurinn hvers nafn var eitthvað nálægt því að hringja bjöllum hjá pistlahöfundi. Það breytir því ekki að uppleggið hjá Big Sam verður örugglega slíkt að leikmenn eigi að vera harðir í horn að taka, sem sést kannski best á því að það var hent í einsog og eitt beint rautt spjald í fyrsta leiknum undir hans stjórn.

Okkar menn

Þau sérlega skemmtilegu tíðindi bárust fyrir jól að Thiago, Milner og Shaqiri væru allir mættir aftir á æfingasvæðið. Líklegast er þó að þeim verði hlíft strax í fyrsta leik, sérstaklega í ljósi þess að það má alveg búast við að andstæðingarnir verði fastir fyrir. Við skulum því ekki gera okkur grillur um að sjá neinn þeirra í byrjunarliði, mögulega mun einhver þeirra sjást á bekk, en Klopp hefur talað sérstaklega um það að líklega sjáist Thiago ekki fyrr en í Newcastle leiknum í fyrsta lagi, þ.e. á miðvikudaginn milli jóla og nýárs.

Það kom annars lítið bitastætt út úr blaðamannafundinum sem var í dag, jú það var aðeins talað um “stóra fyrirliðamálið” á móti Midtjylland, nei í alvöru heldur einhver að þetta hafi verið eitthvað issue? Annars var mest rætt um hverjir eru að koma til baka, og svo eitthvað almennt spjall um stöðuna á liðinu.

Skellum okkur í að spá um liðið – ég ætla að veðja á að það verði bara hent í sterkasta liðið sem fáanlegt er, og ég ætla að gefa mér það að Curtis Jones sé einfaldlega búinn að spila sig mjög framarlega í röðina yfir þá sem spila á miðjunni í besta byrjunarliði sem Liverpool getur stillt upp. Ég held að við myndum líklega setja Fabinho, Henderson og Thiago eða hugsanlega Gini þar ef allir eru heilir, en Fab verður í miðvarðarhlutverkinu út leiktíðina, og Thiago er ekki klár, svo þá sé ég ekki betur en að Curtis byrji. Mögulega gæti Ox komið í hans stað, en ég held samt að svo verði ekki.

Alisson

Trent – Matip – Fabinho – Robertson

Jones – Henderson – Wijnaldum

Salah – Firmino – Mané

Það er auðvitað ekkert annað í boði en 3 stig út úr þessum leik. Rúm vika frá síðasta leik, nægur tími til að undirbúa sig á æfingasvæðinu. Það er samt ekkert hægt að bóka neitt. Stóri Sam hefur marga fjöruna sopið þegar kemur að því að bjarga liðum frá falli, jú hann hefur einusinni fallið (Notts County 1994), en frasinn “avoided relegation” kemur ótrúlega oft fyrir á Wikipedia síðunni hans. Hann nær þessum árangri ekki með því að spila blússandi blitzkrieg sóknarbolta, heldur með skipulögðum og öguðum varnarfótbolta. Það mun því reyna á öll trixin í bókinni til að brjóta niður varnarmúrinn, og svo þarf að verjast skyndisóknum. Bakverðirnir okkar þurfa að eiga toppleik, því þaðan kemur sóknarógnin um þessar mundir.

Ég ætla að spá 1-0 sigri þar sem Curtis Jones setur sigurmarkið þegar 20 mínútur verða til leiksloka.

KOMA SVO!!!!

20 Comments

  1. Sælir félagar

    Þessi leikur snýst um mótiveringu og ekkert annað. Ef liðið mætir til leiks eins og það gerði á móti T’ham þá verður þetta öruggur sigurleikur og eins ef menn mæta eins og þeir gerðu í seinni á móti Palace. Ef aftur á móti verður byrjað í Fulham gírnum verður þetta erfitt. Ég ætla að spá T’ham gírnum í þetta sinn og við snúum smátt og smátt uppá Allardyce og félaga uns 11 manna varnarmúrinn brotnar undan þrýstingi og markið smellu á 20 mín fyrri hálfleiks. Mane fær boltan á bringuna og lætur hann detta í snúningnum og smelli honum á nær, 1 – 0. Hálfleikurinn endar svo 3 – 0 Salah og Jones með sitt hvort.

    Seinni hálfleikurinn endar svo 0 – 0 þar sem Big Fat Sam múrar uppí búrið með liðsrútunni og varaliðsrútunni líka og dómarinn dæmir ekki þau 5 víti sem Liverpool á að fá í hálfleiknum. Ferlega leiðinlegt en svo sem ekkert við venjubundnum VAR-atriðum að gera. Mané og Salah fá spjöld fyrir leikaraskap í teignum hjá WBA þegar þeir eru snúnir niður með hálstaki (Mané)og hálfum-nelson (Salah) og Matip fær tiltal frá dómaranum fyrir að skalla boltann í netið og markið dæmt af vegna rangstöðu í fyrri hálfleik.

    Það er nú þannig

    YNWA

    11
  2. Fyrst liðið okkar er vel hvílt og vonandi ekki 4 kiloum þyngra sökum ofáts, spái ég þægilegum 4-0 sigri en tek undir með skýrsluhöfundi að þetta gæti orðið erfiður leikur.

    5
  3. Vonandi mæta okkar menn ekki í leikinn sigurvissir með hroka og vanvirðingu fyrir WBA eins og þeir gerðu á móti Brighton og Fulham. Ættu að vinna 3 -0

    4
  4. Voðalega eru menn eitthvað hræddir við litla sam. Þó svo hann hafi verið síðasti stjórinn sem vann leik á Anfield, þá eigum við samt að rúlla yfir þetta drasl lið wba. Ég spái því að okkar menn verði allir í jólaskapi og taki þennan leik 6-0 ! Salah með þrennu, Mane með tvö og OX með eitt kvikindi.
    Það er engin ástæða að hræðast þetta rútulið og þennan rútustjóra. Rúlla bara yfir þetta og áfram gakk, Gleðileg Jól allir Liverpool stuðningsmenn.

    P.s. Flott úrslit í fyrsta leik dagsins, Brendan að gera sitt vel 😉

    5
  5. Sæl og blessuð.

    Gamli Sámur á ekki að vera fyrirstaða og WBA er ekki merkilegur selskapur. Það er helst maður óttist að leikmenn séu úthvíldir um of – það hefur stundum viljað henda að þeir missi módjóið þegar langt hefur liðið á milli leikja.

    En annað á ekki að vera á óttalistanum. Ættum að vinna þetta með öruggum 2-0 sigri og liðið spiar á 60% tempói síðasta stundarþriðjunginn.

    2
  6. Flottur pistill og allt rétt sem hér kemur fram. Ég fagna líka úrslitum dagsins og vonandi munu shitty tapa stigum líka.
    Ég verð að spyrja samt að einu. Til hvers er VAR til staðar þegar kemur í ljós fautaskapur, óheiðarleiki og annað en ekkert tekið á því? Cavani reyndi að kyrkja Evertonleikmann og kemst upp með það. Ég skil hann en það er ekki aðalmalið hér. Ekki þarf að minnast á stærri viðburði eins og með hann Pigford.

    Vonandi keyrum við yfir þetta W.B.A og sýnum skora Sam hvar hann getur keypt hvítvínið í bjorglösum.

    Segjum 3-0.

    4
      • Er ekki bara ágætt að stigin dreifist svolítið hingað og þangað?

        2
    • Nei þegar Everton á í hlut þá vona ég svo sannarlega að þeir tapi stigum það yrði viðbjóður að sjá þetta lið komast í top 6 eiga það ekki skilið eftir líkamsárasir á Liverpool menn í byrjun tímabils það verður aldrei fyrirgefið. óska þeim alls hins versta og vona að þeir nái ekki engu.
      Fjandinn hirði Everton og þeirra menn.

      3
      • Mér hafði á einhvern furðulegan hátt tekist að gleyma Richarlison og Pickford. Ég biðst innilega forláts.

      • Henderson14: þér er alveg fyrirgefið. Það eru þekkt viðbrögð fólks við erfiðum upplifunum – sérstaklega Everton tengdum – að loka á allar minningar um slíkt.

        1
  7. Af einhverjum ástæðum hef ég meiri áhyggjur af liðinu eftir góða hvíld heldur en þegar stutt er á milli leikja. Allra verst er þegar menn hafa fengið að skreppa smá í sól og slökun, þá er voðinn vís??
    En feiti Sam á ekkert í þetta geggjaða Liverpool lið og ef allt er eðlilegt þá vinnur Klopp þetta einvígi.

    5
  8. Er skíthræddur við þennan leik ég man ekki betur en að WBA hafi valdið okkur oftar en einu sinni vidbjodi á Anfield síðan árið 2000 með jafn slakt lið og núna, var ekki annað skiptið Steve Bruce að þjálfa þá. Þetta var algjör við viðbjóður. Er skíthræddur um að þetta geti orðið erfitt í kvöld en ef við skorum snemma og okkar menn mæta gíraðir í leikinn eins og síðustu 2 þá vinnum við 3-5 núll. halda hreinu er líka lykilatriði.

    Markatalan okkar í síðustu 6 leikjum er 15-3… Inni því 5 deildarleikir og leikurinn í Danmörku. Halda áfram að skora svona og halda oftar hreinu og þetta lýtur ansi vel út bara.

  9. Markatalan hjá okkur í síðustu 4 deildarleikjum er einfaldlega bara 14-2 og skömmu áður en það var var 3-0 sigur á Leicester en eitt jafntefli þarna milli við Brighton 1-1. Snilld að sjá markatöluna verða betri og betri og vonandi höldum við áfram að bæta hana í dag..ef við vinnum í dag erum við með 4-6 stig á helstu keppinauta en man utd getir minnkað á okkur í 4 stig með leik sein þeir eiga inni.

    En algjör lykilleikur í dag sem verður að vinnast.

    Spái 5-0. Salah 2. Mane 2 Firmino 1. Erum dottnir í markagírinn

    Vonandi fáum við að sjá Chamberlain eitthvad I dag 🙂

Kjaraviðræður framundan?

Liðið gegn WBA