Upphitun: Arsenal á Anfield og Suðurlandsins eina von

Það verður meistaramánudagur til magnaðra marka eða mikillar mæðu er Englandsmeistararnir taka á móti samfélagsskylduræknum bikarmeisturunum frá höfuðborginni. Bítlaborgin er senan eftir tvo lélega Lundúnaleiki gegn Skyttunum á stuttum tíma sem fóru verr en vonast var eftir en heilagur Anfield er varnarvirki sem fallbyssur vinna illa á og allt er tilbúið fyrir hörkubardaga!

Mótherjinn

Arsenal er eitt af stórveldunum á Englandi hafandi orðið deildarmeistarar 13 sinnum (þriðju sigursælastir á eftir MUFC og LFC) og oftast allra bikarmeistari í 14 skipti. Liðið hefur þó strögglað við að ná viðlíka árangri utan Englands og eftir mikla gósentíð undir Wenger í byrjun árþúsundsins fjaraði undan velsældinni síðasta áratuginn en þeirra fyrrum leikmaður, Baskinn Mikel Arteta, er kominn á fullt í uppbyggingarstarfi til framtíðar.

Suðurlandsins eina von – Arilíus Marteinsson

Til að fara stöðu mála hjá Fallbyssunum frá Lundúnum þá fengum við reffilega reginskyttu frá Selfossi í spaugsamt spjall til þess að spá í spilin. Hinn mikli meistari sem um ræðir er Suðurlandsins ein von eða enginn annar en Arilíus Marteinsson. Gefum orðið yfir í upphitunar-gullkast með gulldrengnum gráhærða og glæsilega:

MP3: Þáttur 303b

Arsenalíus Marteinsson skellti sér að spjalli loknu í þjálfarastólinn og spáir því að gestirnir muni stilla sínu liði upp á eftirfarandi hátt:

Líklegt byrjunarlið Arsenal í leikskipulaginu 3-4-3

Liverpool

Rauði herinn hefur byrjað tímabil titilárásarinnar með fullu húsi stiga og eftir kamakazi-knattspyrnu í sigri gegn Leeds kom yfirburðarframmistaða á Brúnni gegn meintum meistaraefnum bláliða. Innkomur Thiago og Jota í föstudagsfíling síðustu viku hefur aukið bjartsýni í okkar herbúðum og voru akkúrat þær innkaupafréttir sem áhangendur vonuðust eftir. Hellisbúaþrenningin fór yfir þetta og margt fleira í glæstu Gullkasti gærdagsins.

Enn mætti þó skoða styrkingar fyrir miðri vörninni eftir að Lovren var seldur fyrr í sumar og meiðslatíðni Matip og Gomez er í meira lagi þannig að erfitt er að treysta á að þeir séu heilir í flesta leiki vetrarins. Þar fyrir aftan eru einu hreinræktuð hafsentarnir hinir ungu Billy “the Kid” Koumetio og Sepp van den Berg en hvorugur er tilbúinn í reglulegan EPL-fótbolta ennþá. Fabinho leysti varnarvandamálið frábærlega í síðasta leik en sú redding er á kostnað varnarsinnaðs miðjuhlutverks þar sem hann er mikilvægur og grjótharður boltaspilandi brimbrjótur. Vænlegast til vinnings væri því að styrkja vörnina áður en kaupglugganum lokar í næsta mánuði. Af öllum fregnum að dæma ætti þó Gomez að vera orðinn heill heilsu og spila við hlið VVD á mánudaginn.

Þá má spá því að Thiago komi inn í byrjunarliðið eftir magnaða spilamennsku í seinni hálfleiknum á Brúnni og mín uppstilling á liðinu er eftirfarandi:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3.

Blaðamannafundur

Jürgen Klopp var í föstudagsfíling með fréttamönnum og svaraði spurningum á mis opinskáan hátt:

Arteta hafði einnig ýmislegt um uppkomandi leik að segja og hér er hans blaðamannafundur:

Tölfræðin

Liðin hafa mæst 28 sinnum á Anfield í Úrvalsdeildinni og hefur Liverpool unnið 14 þeirra með slétt 50% vinningshlutfall og er það í takt við hlutfallið aftur í aldir sem er ögn hærra með 54%. Arsenal hefur unnið 6 Úrvalsdeildarleiki á Anfield með 21,4% vinning sem er ögn lægra en allir leikir liðanna á Anfield frá upphafi þar sem þeir hafa 25,2% vinningshlutfall.

Mörk að meðaltali eru 2,2 fyrir heimamenn gegn 1,1 hjá Skyttunum og bara eitt 0-0 jafntefli verið milli liðanna á okkar velli í Úrvalsdeildinni. Síðustu ár hefur verið nóg af mörkum í viðureignunum og Liverpool hafa skorað 20 mörk í síðustu 7 leikjum með bara 9 mörk fengin á sig. Enda hefur LFC uppskorið góða sigra og verið með gott tak á Arsenal upp á síðkastið en síðasta tapið fyrir þeim á Anfield kom árið 2012.

Úrvalsdeildarleikir gegn Arsenal á Anfield síðan 2012 – heimild LFChistory.net.

Í fréttum er þetta helst

Tilvitnunin

“A healthy economy only exists if you try to help the ones who need it most. It has to be a common approach. Life is a team sport.” – Pepijn Lijnders fyrr í vikunni um fjárhagslega stuðning við neðrideildarlið og almenna lífsspeki.

“In general people in a better position should help people in a less good position, 100%.” – Jürgen Klopp tók undir orð Pep með þessum orðum á blaðamannafundi gærdagsins.

Spakra manna spádómur

Spámennska þessarar upphitunar kom skýrt fram í sportspjallinu við Suðurlandsins einu von en fallbyssumeistarinn frækni spáði 1-2 útisigri sinna manna með mörkum frá Firmino fyrir LFC og jöfnunarmarki Aubameyang og rándýrt skyndsóknarmark Pepe í lokin. Við Púlarar bindum okkar Norður-Englands einu von við það að Arilíus sé ekki jafn sparkviss í spámennskunni og hann hefur verið með sínum 69 meistaraflokksmörkum á ferlinum.

Greinarhöfundur gerir sitt skásta til að skáka Stokkseyrar-goðsögninni með sínum eigin spádóm og mitt spaklega sparkgisk er 3-1 heimasigur þar sem að Salah, Mané og VVD sjá um markaskorun heimamanna ásamt sárabótarmarki frá Aubameyang. Þá er einnig spástuðull um að KR-ingurinn Rúnar Alex spili sinn fyrsta leik en það myndi krefjast dramatíkur í markmannamálum gestanna.

Í lokin er við hæfi að spila sunnlenskt og vongott upphitunarlag við hæfi og veðurguðinn gefur vonandi góða veðurspá með vænum meðvind fyrir fótboltaveisluna á mánudagskvöldið.

YNWA

12 Comments

  1. Sælir félagar

    Slæmar fréttir af Alisson og Thiago. Leikurinn leggst annzi mikið verr í kig ef þá vantar báða

    Það er nú þannig

    YNWA

    3
  2. Sæl og blessuð.

    Sundurlaus atriði:

    Nýju handboltareglurnar voru í aðtalhlutverki en mister Rogers á nú samt daginn fyrir mér. Svakalega seigur karlinn gegn rándýru en stórlöskuðu City liði. Með þessi útgjöld finnst manni þeir ættu að þola hressileg meiðsli.

    Chelsea að sama skapi í ruglinu. Vörnin einn stór brandari en þó enn fyndnara að sjá útibúninginn. Hvað eru þeir að reykja þarna hjá Nike? Útibúningurinn okkar er ekki miklu skárri.

    Súrt að manséster skyldi stela sigrinum í gær. Stöngin að bjarga. Fátt annað sem virkar þar.

    Verður spennandi að fylgjast með leiknum á morgun. Setur strik í reikninginn ef Alisson og Thiago eru fjarri góðu gamni. Þá verða bara aðrir að stíga upp. Verðum að vinna nallana.

    Svo maður haldi nú tuðinu áfram – mikið eru þeir Hjörvar, Gummi Ben, Tommi og co. skarpari og skemmtilegri en piltarnir á Símanum. Æ hvað þetta er flatt hjá þeim.

    1
  3. Slæmt ef hvorki Allison eða Thiago eru með á morgun. Allison mikilvægasti leikmaður okkar og Thiago mikilvægur þar sem Arteta hefur náð lesa Liverpool ansi vel í síðustu leikjum. Á pappírnum erum við hinsvegar með miklu betra lið og ættum að vinna öruggan sigur.

    3
  4. Held að við eigum eftir að sjá mikið af “óvæntum” töpum hjá stóru liðunum á heimavelli í vetur. Hingað til hafa 16 af 26 leikjum unnist af útivallarliðinu og ekkert lið hefur unnið 2 leiki á heimavelli….þangað til í dag vonandi!

    1
  5. Ótrúlegt að hugsa til þess að við höfum ekki tapað heimaleik síðan í febrúar 2017. Ef það er eitthvað lið sem gæti stoppað svona met þá eru það Arsenal. Vonandi höldum við áfram að vera með hugarfarið sem hefur fleytt okkur svona svakalega langt. Hugarfar meistra og rosaleg gæði leikmanna og þjálfara!

    Arsenal eru búnir að styrkja varnarleikinn sinn svakalega og það verður spennandi að sjá hvernig við náum að brjóta þá niður. Svo eru þeir snöggir fram á við en það erum við líka.

    Ég tippa á mjög erfiðan leik og þá sérstaklega hjá Arsenal.

    Lokatölur 3-1.

    3
    • það er ekki hægt að líta á heima og útileikji sömu augum í dag og áður. Í þeim 26 leikjum sem búnir eru í PL er staðan þannig að 8 heimasigrar hafa unnist, 2, jafnteli og 16 útisigar.

      Mikil breyting að eiga sér stað.

      2

Gullkastið – Tökum Willan fyrir verkið

Liðið gegn Arsenal – Alisson byrjar