Lincoln 2-7 Liverpool

Það var markaveisla þegar Liverpool heimsótti Lincoln í Deildarbikarnum. Klopp stillti upp “varaliðinu” sínu, tveimur unglingum plús Van Dijk og Liverpool vann mjög sannfærandi og þæginlegan sigur og mun nú mæta Arsenal á Anfield í næstu umferð.

Rhys Williams spilaði sinn fyrsta leik í miðverðinum ásamt Virgil Van Dijk og

Xherdan Shaqiri var loksins aftur í liðinu og hann kom Liverpool yfir snemma leiks með frábæru skoti úr aukaspyrnu. Minnti heldur betur á það að hann er með töfra í vinstri fætinum en því miður höfum við séð of lítið af honum hjá Liverpool.

Takumi Minamino, japanski leikmaðurinn sem var keyptur í janúar frá Red Bull Salzburg og reif Liverpool sundur og saman á Anfield í Meistaradeildinni í fyrra – muniði eftir honum? Hann er mættur til leiks og skoraði annað markið með glæsilegu skoti.

Curtis Jones skoraði svo tvö glæsileg mörk áður en flautað var til hálfleiks. Strákurinn sem kom inn í liðið á síðustu leiktíð og vakti athygli og heldur því áfram. Vá hvað hann lítur vel út í treyju nr.17, alvöru Scouser og er erfitt að trúa því ekki að hann verði stór hluti af liðinu á næstu misserum.

Van Dijk fór út af í hálfleik fyrir Fabinho og eftir nokkrar sekúndur í seinni hálfleik skilaði hápressan hjá Minamino öðru marki hjá honum. Lincoln fór svo að sækja í sig veðrið og ógnuðu marki Liverpool nokkuð mikið en Adrian var vel á verði. Þeir skoruðu þó eitt mark áður en Marko Grujic skoraði með fínu skoti fyrir utan teig, fyrsta alvöru mark hans fyrir Liverpool og aðeins fjórði leikur hans fyrir aðalliðið ef ég man þetta rétt.

Lincoln skoraði svo annað mark eftir fast leikatriði og undir lok leiksins skoraði Divock Origi gott mark eftir stungusendingu frá manni leiksins, Takumi Minamino. Við fengum að sjá nýja leikmannin Diogo Jota koma inn á en hann átti fínt skot rétt framhjá markinu.

Mótherjinn var kannski ekki rosa merkilegur en það var margt mjög jákvætt að sjá í liði Liverpool í kvöld. Curtis Jones og Takumi Minamino sýna að þeir munu vera í flottu hlutverki hjá Liverpool í vetur og skoraði mörk sem vonandi kveikja enn meiri neista í þeim, sama með Divock Origi sem strögglaði í leiknum en skoraði gott mark og lagði upp eitt. Shaqiri skoraði gott mark en við höfum nær ekkert séð af honum síðan á þar síðustu leiktíð.

Kostas Tsimikas spilaði sinn fyrsta leik fyrir Liverpool og leit frábærlega út á vinstri vængnum fannst mér. Góðir krossar, fínt spil og upphlaup. Hann mun held ég smella mjög vel í leikstílinn hjá Liverpool.

Marko Grujic var flottur í leiknum en samt á ég kannski pínu erfitt með að sjá hann eiga framtíð hjá Liverpool en ef einhver er að leita að miðjumanni þá væri hægt að gera góð kaup í Grujic. Shaqiri, Grujic og Origi meðal leikmanna sem eru orðaðir við brottför frá Liverpool en þeir skoruðu allir í dag og voru ekkert að skemma fyrir sér í söluglugganum sem þeir gætu hafa fengið þarna.

Diogo Jota kom inn á rétt um miðjan seinni hálfleik og átti ágætis rispur, óheppinn að skora ekki en komst ekki alveg í takt við leikinn sem var orðinn svolítið út um allt þegar hann kom inn á.

Næsti leikur er í deildinni gegn Arsenal á mánudagskvöldið næstkomandi og flott að vinna svona leik á þennan hátt og geta þó hvílt lykilmenn á meðan að “varaskeifurnar” fengu mínútur og komust á blað.

12 Comments

  1. Ertu ekki óþarflega jákvæður Óli, við unnum að vísu stórt og mörkinn falleg en það varla hægt að hæla spilamennskunni mikið, Fabinho átti ekki góða innkomu, Grujic hikandi með boltann og menn að reyna of mikið sjálfir í stað þess að láta bolta fljóta betur
    Adrian átti mjög góðan leik og kom í veg fyrir að við fengjum á okkur fleiri en þessi tvö mörk.
    Ég er kannski óþarflega neikvæður miðað við að þetta voru kjúllar og varamenn að spila fyrir okkur en það breytir því ekki að það var lítið flæði í leiknum og ekki mikið um að við værum að skapa okkur opinn færi.

  2. Ég sá allt sem ég vildi í þessum leik, nema ég hefði viljað sjá Jota koma inná fyrr. Engin ástæða til að hafa áhyggjur af vörninni, þessi varnarlína mun ekki spila annan leik saman nema gegn svona anstæðingi, mér fannst Rhys bara komast vel frá sínu verki á meðan hann var við hlið Dijk og ég sá meira að segja svolitla Dijk takta í honum fannst mér, kannski eru það bara draumórar.

    Minamino er kominn með nóg af bekkjarsetu, hann vill fleiri mínútur og nýtti sitt tækifæri frábærlega. Tsimikas var flottur, Jones var flottur, Elliot er enn að þroskast, nokkrar barnalegar ákvarðanir en hann er spennandi engin spurning. Mér fannst líka Adrian flottur til að minnast á hann, vel settir með hann sem varamarkmann. Ég vill sjá Neco spila með reyndari vængmann fyrir framan sig.

    Annars þarf ekkert að greina leikinn í þaula, auka fimmtudagsæfing þannig séð.

    YNWA

    2
  3. Fínn leikur, fannst Minamino, Curtis J og Grujic bestir.
    Seinni hálfleikur bar þess þó merki að leikurinn var þegar afgreiddur.

    Nú bara Arsenal eftir helgi, væri fínt að setja bara 7 þar líka.

    4
  4. Vona að Shaqiri fái fleiri leiki á þessu tímabili, fannst hann duglegur í kvöld og góður að falla til baka og hefja spilið. Marko Grujic gæti líka verið vel nothæfur, fannst hann flottur í leiknum.
    Origi skoraði mark í lokin og lagði upp en fyrir utan það þá var lítið í gangi.

    Ætli Harry Wilson og Rhyan Brewster séu ekki á leiðinni burt fyrst þeir spiluðu ekki í þessum leik?

    1
  5. Kannski ekki vinsælt comment hérna, en ég væri til í að sjá Klopp gefa Grujic fleiri tækifæri á kostnað Milner. Milner á ekki mikið eftir og Grujic hefur alveg hæfileika til að springa út, þessi strákur getur vel skilað mörkum og hann er með precence á miðjunni, hann er 190 cm og getur verið ógn í föstum leikatriðum.

    5
    • Ekkert að því finnst mér að leyfa honum að vera varaskeifa þetta tímabil og sjá hvað setur einmitt í svona leikjum væri það sniðugt alls ekkert að því hann var góður í þessum leik.

      2
    • Held að hann sé of góður til að vera 6-8 kostur á miðjunni hjá Liverpool en ekki nógu góður til að vera fyrir framan núverandi lykilmenn. Hann er klárlega í Úrvalsdeildarklassa og hefur verið að spila í Bundesliga undanfarin ár, en hann þarf að spila miklu meira til að komast ofar en það (elítuklassa) og fær það ekki hjá Liverpool.

      Treysti engum betur en Michael Edwards til að fá góðan pening fyrir hann.

      3
  6. Mitt innlegg í umræðuna:

    Í raun merkilega lítil mótspyrna frá Lincoln. Neðrideildarliðin eru oft erfið viðureignar, en þegar staðan er 4-0 í hálfleik er ljóst að andstæðingarnir eru ekki upp á marga fiska (halló Liverpool-Arsenal í febrúar 2014!)

    Liðsvalið og varamennirnir segir líka einhverja sögu. Adrian var í marki sem er alveg skiljanlegt, en Karius var ekki einusinni á bekk. Nokkuð ljóst að hann mun ekki koma við sögu í liði Liverpool aftur (nema eitthvað stórkostlegt komi uppá).

    Eins er merkilegt þetta með miðverðina. Ég veit ekki betur en að Nat Phillips sé heill, en hann var ekki einusinni á bekk. Sepp VDB var á bekk, en kom ekki inná í hálfleik þrátt fyrir að staðan væri 4-0. Pælingin að það sé verið að gefa Fab fleiri mínútur til að venjast stöðunni, af því að hann muni hugsanlega eyða talsverðum tíma í miðverði á þessu tímabili, er alveg valid. En ef ég væri Sepp eða Nat myndi ég spyrja mig hver staða mín í hópnum væri fyrst Rhys Williams var kallaður til. Auðvitað er alltaf gaman þegar ungu strákarnir fá séns, og vonandi er það eina ástæðan fyrir því að Rhys var kallaður til á undan tvíeykinu, hafandi aldrei spilað aðalliðsleik fyrir klúbbinn áður. En eitthvað segir manni að Sepp hafi e.t.v. ekki heillað þjálfarateymið jafn mikið og menn voru að vonast til.

    Svo er það síðasta skiptingin. Af hverju Keita þurfti að koma inná þegar korter var til leiksloka er mér hulin ráðgáta. Héldu menn að Lincoln væru líklegir til að jafna? Hefði ekki mátt gefa Wilson nokkrar mínútur? Hann hefði a.m.k. getað skipt beint fyrir Shaq. Mögulega er þarna líka verið að hugsa um að bæta mínútum í lappirnar á Keita, a.m.k. er alveg ljóst að fyrst Wilson fékk ekki einusinni að koma inná í deildarbikarleik sem var löngu unninn, að þá munum við ekki sjá hann í Liverpool treyjunni aftur. Líka merkilegt að Grujic hafi t.d. spilað allan leikinn, verandi á sölulista, en Wilson ekki.

    Það er a.m.k. alveg ljóst að þó svo að Klopp sé mjög tilfinningaríkur stjóri, sé duglegur að faðma leikmenn o.þ.h., að þá fær engin tilfinningasemi að komast að þegar kemur að liðsvali. Ef menn eru ekki nógu góðir þá eru þeir ekki nógu góðir. Og salan á Hoever sýnir að menn eru alveg tilbúnir að selja unga og efnilega leikmenn ef verðið er rétt og ef þeir eru ekki líklegir til að koma í staðinn fyrir núverandi byrjunarliðsmenn. Líklega er það leiðin sem er vænlegust til árangurs, þó svo að við sem stuðningsmenn séum alltaf að leita að næsta Owen/Fowler/Gerrard/Trent til að koma úr akademíunni og slá í gegn, og viljum svo gjarnan að næsti ungliði verði þannig leikmaður.

    17

One Ping

  1. Pingback:

Liðið gegn Lincoln – Van Dijk byrjar

Gullkastið – Tökum Willan fyrir verkið