Liverpool – Leeds (Upphitun)

Þá er komið að því, ríkjandi Englandsmeistarar mæta til leiks á morgun (laugardag kl. 16:30) og hefja titilvörn sína á Anfield þegar við fáum gamla og góða félaga í heimsókn – fyrsti deildarleikur Leeds í EPL síðan vorið 2004 eða í rétt rúm 16 ár!

 

Sagan og spáin

Liðin hafa mæst einu sinni síðan Klopp tók við Liverpool, það var einmitt á Anfield í deildarbikarnum í nóvember 2016 þegar Origi og Ben nokkur Woodburn skoruðu mörk Liverpool í 2-0 sigri. Annars hafa liðin ekki spilað síðasta áratuginn eða svo.

Það þarf að fara rétt tæp 20 ár aftur í tímann eða til apríl mánaðar 2001 til að finna síðasta tap okkar manna gegn Leeds en það var 1-2 tap á Anfield þar sem, oft sem áður, Gerrard var okkar aðalmaður með mark og rautt spjald en Rio nokkur Ferndinand og Lee Bowyer skoruðu mörk gestanna.

Annars er erfitt að ætla að lesa í einhverja sögu, það  er svo langt síðan að þessi lið voru reglulega að leiða saman hesta sína en leikir þessara liða hafa alltaf verið fjörugir – vonandi verður engin breyting þar á!

Spekingar og hinar ýmsu vefsíður hafa verið að birta spá sína fyrir tímabilið síðustu daga. Okkar spá er hér (fyrri hluti / síðari hluti) en menn virðast nokkuð sammála um það að Liverpool og City berjist enn og aftur um titilinn með Chelsea og United þar á eftir. Fotbolti.net og BBC spá City sigri en Guardian spáir Liverpool titlinum.

Leeds

Þetta Leeds lið er hörkuskemmtilegt en það eru alveg stór spurningamerki í kringum liðið. Þeir hafa misst Ben White úr vörninni (var á láni frá Brighton) sem spilaði virkilega vel á síðustu leiktíð en þeir fóru til Þýskalands í staðinn og sóttu Robin Koch frá SC Freiburg og mun mikið mæða á honum í vetur.

Þeirra besti leikmaður s.l. 3 tímabil hefur verið Pablo Hernández og verður spennandi að sjá hvernig hann passar inn í úrvalsdeildina – hann er þó ekkert að verða yngri en hann er þeirra mest skapandi leikmaður á miðjunni og samstarf hans og Rodrigo mun hafa mikið með það að segja hvar Leeds endar þessa leiktíðina – en sá síðarnefndi varð í sumar langdýrasti leikmaður í sögu Leeds þegar þeir sóttu kauða fyrir 27 milljónir punda frá Valencia.

Stjórinn, Marco Bielsa, er virkilega skemmtilegur og skrautlegur karakter og hefur náð að skapa öfluga og góða liðsheild – lið hans eru þekkt fyrir að spila heldur óhefðbundin kerfi en ávalt af miklum ákafa og fer alveg merkilega gott orð af honum m.t.t. að hann hefur ekki unnið marga titla á sínum ferli sem þjálfari.

Ég ætla að spá því að allir nýju leikmennirnir fái eldskýrn á morgun, Rodrigo verði á toppnum með Costa hægra megin og Koch í vörninni:

Meslier

Ayling – Cooper – Koch – Dallas

Hernandez – Phillips – Klich

Costa – Rodrigo – Harrison

Liverpool

Litlar sem engar breytingar hafa orðið á hóp okkar manna í sumar. Nettó eyðslan er nánast á núlli en Tsimikas er sá eini sem hefur komið inn um dyrnar þetta sumarið á meðan Lallana, Clyne, Lovren og Chrivella hafa yfirgefið félagið.

Fyrir leikinn á morgun er vitað að Ox verður frá vegna hnémeiðsla en Tsimikas og Henderson ættu líklega að vera leikfærir en ólíklegt að þeir  byrji leikinn.

Ég ætla að spá því að Liverpool verði ögn sókndjarfari á miðjunni með Keita sem einn af þremur en aðrir “usual suspects” verða á sínum stað:

Alisson

TAA – Matip – Virgil – Robertson

Keita – Fabinho – Gini

Salah – Firmino – Mané

Ég hvet menn til að hlusta á innkastið frá því í gær eða síðasta gullkast þar sem m.a. var hitað upp fyrir helgina.

Spá

Ég held að þetta verði erfiðari leikur en menn gera ráð fyrir. Leeds spilar aggressívan fótbolta sem getur vissulega hentar okkur vel en það gæti jafnframt komið okkur að óvörum, kaldir og ekki komnir í gang. Fyrstu þrír leikirnir eru ekki auðveldir, Chelsea úti og Arsenal heima bíða eftir þennan leik og eru þrjú stig því ekki bara mikilvæg heldur skylda.

Ég ætla að skjóta á 3-1 sigur þar sem að gestirnir annað hvort komast í 0-1 eða jafna 1-1 (Rodrigo) en við siglum svo fram úr þegar líða tekur á leikinn – án þess að hrista þá almennilega af okkur fyrr en undir blálokinn. Mané setur 1, Gini 1 og Firmino ákveður að klára Anfield markið í fyrsta leik þessa leiktíðina.

YNWA

4 Comments

  1. Sælir félagar

    Takk fyrir fyrstu upphitunina á leiktíðinni Eyþór. Það er ekkert sérstakt sem ég get sett fingur á í henni. Vildi þó Hendo frekar en Gini sem þó hefur alltaf verið beztur á Anfield. Þetta er því ef til vill bezta uppstillingin fyrir þennan leik. Ég er sammála því að þetta verði erfitt en ætti þó að hafast. Mín spá sú sama 3 – 1.

    Það er nú þannig

    YNWA

    6
  2. Alltaf erfitt að mæta nýliðum í fyrstu umferðum, líka slæmt að hafa ekki bestu stuðningsmenn í heimi á vellinum. Er samt sammála fyrsta ræðumanni og held við höfum þetta, eigum við að skjóta á hreint lak og 2-0.

    Flott upphitun á frábærri síðu, í gang með þetta.

    YNWA

    4
  3. Sæl og blessuð

    Sorrí en Lídsarar mæta til leiks með 15 ára frústrasjón á bakinu. Þeir skora á 17. mínútu og okkar menn ná ekki að svara fyrir sig þrátt fyrir 75% pósessjón. Það er fúlt að hafa alltaf rétt fyrir sér en þetta er bara byrði sem maður þarf að rogast með…

Innkastið með Kop.is / Pikkið.is

Byrjunarliðin í opnunarleik vs. Leeds United