Árlega spáin gerð upp

Eins og ætti nú að vera alkunna þá tökum við Kopverjar okkur til á haustin og spáum fyrir um það hvernig við höldum að deildin fari þetta árið. Þetta hefur verið gert frá ómunatíð (þ.e. síðustu 12 ár). Það varð engin undantekning á þessu síðasta haust, og nú er kominn tími á að gera spána upp.

Eins og áður þá skoðum við annars vegar hvaða sæti lið X lenti raunverulega í, og hins vegar hvaða sæti við svo spáðum liði X í. Munurinn á þessum tveim tölum er skráður fyrir hvert lið, og við reiknum síðan meðaltalið af þessum tölum til að fá lokaeinkunn fyrir árið. Dæmi: við spáðum því að Chelsea yrði í 5. sæti þetta árið, en reyndin varð sú að liðið varð í 4. sæti, og því fær Chelsea töluna 1. Bournemouth var spáð 12. sæti, en endaði í 18. sæti og fær því töluna 6. Þannig erum við alltaf að stefna að því að ná tölunni 0 í einkunn, sem þýðir að við höfum giskað rétt á sæti allra liðanna í deildinni.

Árangurinn undanfarin ár hefur verið þessi:

  • 2018-2019: 1.6
  • 2017-2018: 2.8
  • 2016-2017: 2.8
  • 2015-2016: 3.8
  • 2014-2015: 2.6
  • 2013-2014: 2.8
  • 2012-2013: 3.5
  • 2011-2012: 4.0
  • 2010-2011: 2.3
  • 2009-2010: 2.2
  • 2008-2009: 3.6

Þá höfum við haldið utan um það hverju hver og einn spáði, þannig voru tölur einstakra Kopverja í fyrra allt frá 1.6 upp í 2.6. Sá okkar sem var hvað næst því að spá rétt fyrir á síðasta ári var Ólafur Haukur, en hann náði semsagt að vera með frávik upp á 1.6.

Spáin fyrir síðasta tímabil var gefin út rétt áður en tímabilið byrjaði. Og hvernig skyldi svo okkur hafa gengið þetta árið?

Jú, niðurstaðan er sú að við erum með frávik upp á 3.4 fyrir síðasta tímabil. Aftur var það Óli Haukur sem náði bestum árangri með frávik upp á 3.1, en við vorum svo fjórir sem vorum með frávik upp á 3.7, aðrir voru svo þar á milli.

Það þarf svosem ekkert að fjölyrða um það af hverju árangurinn versnar svona á milli ára hjá okkur. Það var allnokkuð um það að lið væru annaðhvort að spila langtum betur en reiknað var með, nú eða talsvert verr. Stærsta frávikið var hjá Sheffield United, flestir okkar settu það lið í fallsæti, og reyndar voru 7 af 9 sem spáðu liðinu neðsta sæti. Sheffield gáfu okkur og fullt af öðrum spámönnum langt nef, og enduðu í efri hluta deildarinnar. Frávikið var því upp á 11, sem er næstmesta frávik sem sést hefur í þessum spám okkar (mesta frávikið var upp á 16 hjá Leicester árið sem þeir unnu deildina. Það verður seint toppað). Þess má geta að árið áður var hæsta frávikið upp á 4 sæti, svo það er ekki algengt að sjá svona mikil frávik. Það voru annars óvenju mörg lið með mikil frávik í ár: Watford með frávik upp á 8, Bournemouth og West Ham 6, Burnley og Everton 5.

En það voru fleiri spádómar sem voru settir í loftið. Einar Matthías, Maggi og Steini spáðu samviskusamlega (þ.e. eftir minni sem var afskaplega gloppótt) fyrir um úrslit leikja í vetur, og voru þær spár skráðar samviskusamlega í Excel skjal sem ég passa eins og sjáaldur auga míns. Stigagjöfin fyrir það var á það leið að þeim sem tókst að spá rétt fyrir um markatölu úrslita leiksins fengu 3 stig, en ef rétt var spáð fyrir um úrslit (sigur/jafntefli/tap), þá fékkst 1 stig. Nú var það svo að það reyndist ansi gjöfult að spá bara reglulega því að Liverpool myndi vinna, og því reyndi talsvert á spádómsgáfu hlaðvarpsmeðlima hvað varðar markatölur. Úrslitin urðu sem hér segir:

  1. Maggi – 40 stig
  2. Steini – 35 stig
  3. Einar Matthías – 26 stig

Við óskum Magga til hamingju með árangurinn, og hann mun að sjálfsögðu stæra sig af þessu í hlaðvarpsþáttum síðunnar eitthvað vel fram á árið 2022 ef ég þekki hann rétt.

Ein spá stendur svo aðeins út af, því við getum ekki gert hana upp fyrr en glugginn lokar. Það er spá um það hvort Einar Matthías fari á tónleika með Tinu Turner, en hann lofaði að gera það ef Liverpool myndi kaupa Mbappé í sumar. Við bíðum spennt.

7 Comments

  1. Jæja, Liverpool strax komið undir. Kannski ekki skrýtið með þessari C-bakklínu.

One Ping

  1. Pingback:

Wijnaldum að fara?

Æfingaleikur gegn Blackpool á Anfield