Spá Kop.is – leiktímabilið 2019 – 2020.

Það er komið að því.

Takið öndina úr hálsinum og sleppið andanum frá ykkur. Vitringarnir á kop.is hafa hent saman spá fyrir leiktímabilið sem framundan er og eru tilbúnir að deila henni með ykkur!!!

Að gríni slepptu þá er það orðinn árviss viðburður hjá okkur félögunum að henda spánum okkar saman í eina allsherjarspá og henda í loftið fyrir fyrsta leik. Það er vissulega margt sem gæti enn mögulega gerst þar til mótið hefst en við stoppum undirbúning spárinnar á miðvikudag og miðum út frá því.

Eins og áður röðum við öllum liðum í sæti, það lið sem verður í 1.sæti í spá hvers okkar fær 20 stig og það í 20.sæti fær 1 stig. Að þessu sinni erum við 9 spámenn og því mest hægt að fá 180 stig en minnst 9 stig. Ef lið eru jöfn samtals vinnur það lið “tie-break” sem er spáð hærra sæti af okkur einhverjum penna og ef það er jafnt þá vinnur það sem fær sjaldnar færri stig…þetta skýrist allt!

Við skulum henda okkur af stað, þráðurinn verður langur þar sem að þessu sinni við ætlum að taka öll liðin í einu, allt frá neðsta sæti til þess efsta!

20.sæti Sheffield United 17 stig

Nýliðarnir í Sheffield United munu verma neðsta sætið að okkar mati. Við fílum alveg stjórann Chris Wilder sem hefur náð frábærum árangri frá því hann tók við liðinu í C-deildinni haustið 2016. Kom þeim strax upp í Championshipdeildinni og þaðan upp á öðru tímabili þar. Liðið hefur leikið skemmtilegan fótbolta undir stjórn Wilder en afskaplega lítil reynsla er í leikmannahópnum þegar kemur að því að leika í efstu deild. Þeir sóttu týnda soninn Phil Jagielka frá Everton en stóru kaupin koma frá liðum sem þeir léku við í fyrra. Ollie McBurnie kom frá Swansea og Luke Freeman frá QPR. Semsagt, eitt ár á meðal þeirra bestu fyrir “The Blades” að þessu sinni.

Hæsta sæti spáð 17.sæti
Lægsta sæti spáð 20.sæti

19.sæti Brighton 24 stig

Eitt suðurstrandaliðanna mun kveðja deildina að okkar mati. Brighton sluppu naumlega við fall í fyrra og drifu sig í að reka stjórann sinn, Chris Hughton og ráða í hans stað Graham Potter sem náði fínum árangri með Swansea eftir að hafa komið þangað frá Östersund í Svíþjóð. Potter vill að sín lið spili fótbolta og var það ein aðalástæðan sem eigendurnir gáfu upp fyrir ráðningu hans, þeim fannst of mikill stórkarlabragur á liðinu hingað til. Potter hefur farið í Championshipdeildina eftir liðsstyrk, fékk varnarmanninn Adam Webster (20 M) frá Bristol City og Neal Maupay (20 M), franskur unglingalandsliðsmaður og framherji kom frá Brentford, auk þess sem þeir sóttu vængmanninn Leandro Trossard til Belgíu. Lewis Dunk fyrirliði liðsins er alger lykill, ef liðið á að ná árangri þarf varnarleikurinn að ganga upp og háaldraður Glenn Murray þarf að skila mörkum. Við höldum að það muni ekki gerast og Brighton fari niður.

Hæsta sæti spáð 17.sæti
Lægsta sæti spáð 19.sæti

18.sæti Norwich 24 stig

Sama heildarstigatala en oftar spáð 17.sæti en Brighton þýðir þó lítið jákvætt fyrir meistaralið Championshipdeildarinnar frá í fyrra. Kanarífuglarnir hennar Deliu Smith munu falla aftur líkt og þeir gera yfirleitt fljótlega eftir að hafa komið upp, sannkallað jójólið á ferð. Stjórinn þeirra kemur frá Þýskalandi, meira að segja þjálfari Borussia Dortmund…B-liðsins þó! Hann tók við slöku Norwichliði haustið 2017, náði fínum árangri það tímabil og eftir brösuga byrjun síðasta tímabil settu hans menn í fluggír og fóru örugglega upp úr deildinni. Norwich leggja upp með að spila með jörðinni og hafa verið mjög sókndjarft lið undir stjórn Daniels Farke en það eitt og sér mun ekki bjarga þeim. Þeir munu þurfa að styrkja varnarleik sinn töluvert og vona að Tim Krul verði með sparihanskana í markinu ef spá okkar á ekki að rætast. Í sumar leitaði Farke í þýska brunninn sinn, sótti svissneska landsliðsframherjann Josip Drmic á frjálsri sölu frá Moenchengladbach. Hann leitaði líka í lánsmarkaðinn þegar hann tók markmanninn Ralf Fahrmann frá Schalke og fróðlegt verður að sjá hvernig vængmanninum Patrick Roberts mun ganga. Hann er svolítið Harry Wilson þeirra City-manna, hefur verið á láni utan Englands síðustu þrjú ár (Celtic og Girona) en á nú að prófa sig í Premier League. Þetta er einfaldlega ekki nóg, Norwich falla á ný.

Hæsta sæti spáð 17.sæti
Lægsta sæti spáð 20.sæti

17.sæti Newcastle 29 stig

Bullandi fallbarátta framundan hjá Steve Bruce og lærisveinum hans í Newcastle. Þeim tókst ekki að halda Rafa lengur enda stjórnunin hjá eiganda félagsins án vafa sú vitlausasta í efstu deild Englands og alltaf nokkuð ljóst að Rafa hafði fengið nóg. Mikill styr hefur staðið um ráðningu Steve Bruce enda ekki náð árangri sem stjóri nú í langan tíma (ef nokkurn tíma). Það er þó mjög skiljanlegt að hann hafi viljað taka við keflinu, uppalinn í borginni sem stuðningsmaður félagsins og gamall draumur að rætast. Þeir misstu sinn öflugasta framherja, Ayoze Perez til Leicester en nú á síðustu dögum gluggans hafa þeir hent út peningum. Slógu metið fyrir leikmannakaupin sín þegar þeir reiddu 40 milljónir punda af hendi fyrir brasilíska framherjann Joelinton frá Hoffenheim (slógu sölumet Hoffenheim í leiðinni, það gamla var salan þeirra á Firmino til okkar) og í kjölfarið komu kaup á franska vængmanninum Allan Saint-Maximin og svo fengu þeir vinstri bakvörðinn Jetro Williems að láni frá Frankfurt, sá á landsleiki með Hollandi. Svo Bruce hefur fengið að eyða aðeins og enn er smá eftir af glugganum og hvísl í gangi að hann muni sækja fleiri lánsmenn til gluggaloka. Neikvæðu bylgjurnar í kringum fótboltalið verða ekki stærri en þær finnast í Newcastle. Mótmæli gegn eigandanum og stefnu félagsins geysuðu í sumar og ef byrjunin verður ekki þolanleg verður dæmið ansi erfitt fyrir þennan risaklúbb í norðaustrinu. Við teljum þó að þeir bjargi sér naumlega frá falli…en skoðanir okkar um það eru þó ansi skiptar.

Hæsta sæti spáð 14.sæti
Lægsta sæti spáð 20.sæti

16.sæti Aston Villa 55 stig

Eins og þið sjáið teljum við neðstu 4 liðin verða nokkuð sér á parti. Fyrir ofan þau finnum við fyrst eina nýliðann sem við teljum að muni halda sæti sínu í deildinni að tímabilinu loknu. Aston Villa er úrvalsdeildarklúbbur. Það er bara svoleiðis. Næst stærsta borg Englands, frábær fótboltavöllur og bara ansi hreint tryggir aðdáendur liðs sem verið hefur í miklu brasi undanfarin ár. Eftir slaka byrjun í Championshipdeildinni síðasta haust var skipt um stjóra. Heimamaður Dean Smith var sóttur til Brentford og John Terry ráðinn aðstoðarmaður hans. Hægt og rólega náði liðið vopnum sínum og flugi, stórt hlutverk var sett í fætur listamannsins Jack Grealish og tveir magnaðir lánsmenn fóru í gang, Tammy Abraham skoraði að vild og Tyrone Mings varð þeirra akkeri í vörninni. Smith kom liðinu í úrslit Playoffs og vann þar Derby í “dýrasta leik knattspyrnunnar” og búmm, menn á ný í efstu deild. Eigendurnir fóru á fullt í vor, hreinsuðu fyrst út mörg nöfn sem voru hluti af liðinu í fyrra en spiluðu minna og hafa síðan í dag eytt 120 milljónum punda til að styrkja liðið. Byrjuðu á að festa sér Tyrone Mings og þegar ljóst var að Abrahams yrði hjá Chelsea í vetur fóru þeir og keyptu Brazzann Wesley til að leiða framlínuna, annar Brazzi kom frá Man City þegar Douglas Luiz birtist og að auki má nefna markmanninn Tom Heaton frá Burnley og U21s enska hafsentinn Ezri Konsa frá Brentford. Villa-menn ætla sér að stabílisera klúbbinn á fyrsta tímabili en fara svo enn lengra. Við teljum fyrsta skrefið þeirra takast, þeir verða með í deildinni haustið 2020.

Hæsta sæti spáð 14.sæti
Lægsta sæti spáð 17.sæti

15.sæti Burnley 59 stig

Rétt ofan við Villamenn kemur annað fjólublátt lið, nágrannar okkar í Burnley. Stjórinn Sean Dyche er ekkert endilega að velta fyrir sér almennri fegurð fótboltans, liðin hans eru þekkt fyrir mikinn líkamsstyrk og hörku varnarlega í bland við öskufljóta vængmenn og stóran striker. Breski stíllinn semsagt beint í æð. Burnley átti frábært tímabil 2017/2018 en misstu eilítið flugið í fyrra, mögulega út af þátttöku í Evrópukeppnum en líka mikil meiðsli sem spiluðu þar inní. Í sumar hafa óskapleg litlar breytingar orðið á leikmannahópnum. Þeir bættu þó í hópinn Jay Rodriguez frá WBA og Erik Pieters frá Stoke, menn með reynslu af deildinni og nákvæmlega þeim fótbolta sem Dyche praktíserar en misstu engan frá sér. Við viljum ansi margir sjá Dyche fara niður með þetta Burnleylið því hann er einn fárra “risaeðla” eftir í ensku deildinni…og er óskaplega uppsigað við Klopp og Liverpool. Það fílum við ekki, jafnvel þó Jóhann Guðmundsson sé þarna í lykilhlutverki í vetur ef hann helst heill. Því miður höldum við að Dyche verði áfram með liðið á meðal þeirra bestu.

Hæsta sæti spáð 11.sæti
Lægsta sæti spáð 17.sæti

14.sæti Crystal Palace 62 stig

Ekki langt fyrir ofan Burnley eru lærisveinar Hodgson og svo tölum við ekki um hann meir. Palace hefur náð að stabílisera sig ágætlega sem úrvalsdeildarlið og er í raun afskaplega áhugaverður klúbbur úr Suður London sem er úthverfi sem hefur þurft að þola margt í gegnum tíðina og liðið svo sannarlega stolt hverfisins og heimavöllurinn Selhurst Park verið metinn sem einn sá háværasti í deildinni og mikið fjör í kringum leikina þar. Margt mun ráðast af því hvort þeir ná að halda Wilfred Zaha í gegnum þennan leikmannaglugga eftir að hafa misst eitt sitt helsta ungstirni Aaron Wan-Bissaka til United. Þeir hafa afskaplega lítið verslað, Gary Cahill skrifaði undir eftir að hafa verið losaður frá Chelsea og þeir keyptu Jordan Ayew frá Swansea. Lyklarnir í liðinu eru að hluta til frá okkur komnir, Sakho varnarlega og þeir eru enn að treysta Benteke í sókninni þó honum hafi alls ekki vegnað vel undanfarnar leiktíðir. Svo eru þeir kröftugan miðjumann í Cheikhou Kouyaté og með gamewinner í formi Andros Townsend auk þess hefur markmaðurinn Hennesy átt stöðug tímabil. Við reiknum með að þeir haldi Zaha og þá munu þeir halda sér uppi.

Hæsta sæti spáð 12.sæti
Lægsta sæti spáð 16.sæti

13.sæti Southampton 65 stig

Enn er ekki langt á milli liðanna þegar við horfum á milli Palace og Southampton í 13. og 14.sæti. Dýrðlingarnir sitja efstir í næstu “fjögurra liða kippu” í spánni okkar. Þeir skiptu um stjóra upp úr áramótum og sóttu í þýska skólann, Ralph Hasenhuttl fyrrum stjóri RB Leipzig mætti og fór strax í að breyta leikstílnum í átt að pressubolta í anda okkar manna. Southampton áttu fínan endasprett og voru aldrei í alvöru fallhættu en nú þarf Þjóðverjinn ákveðni að taka næsta skref. Hann er afskaplega metnaðarfullur og hefur verið með liðið í ansi kröftugum æfingabúðum í sumar. Þeir staðfestu kaupin á Danny Ings auk þess að sækja framherja Birmingham, Che Adams og belgíska vængmanninn Moussa Djenepo til Standard Liege. Stærstu fréttirnar í þeirra herbúðum eru þó klárlega þær að í fyrsta sinn í langan tíma þurftu þeir ekki að selja lykilmenn frá sér líkt og gerst hefur undanfarin ár. Það eru miklar væntingar til stjórans og þess leikstíls sem hann vill innleiða, þessi mætir á æfingar í stuttbuxunum og lemur sína menn áfram. Liðið er ekki skipað stjörnum og því teljum við þá ekki líklega til að fara í efri hlutann, en sjáum þó möguleika á því að þeir komi á óvart ef að galdrar Ralph virka. Byrjun liðsins á tímabilinu mun skipta lykilmáli þar!

Hæsta sæti spáð 12.sæti
Lægsta sæti spáð 16.sæti

12.sæti Bournemouth 85 stig

Þar með kemur þódáldið bil milli liða. Við erum komnir í miðjupakkann og neðst í honum ætlum við að stilla nágrönnum Southampton upp. Það er eiginlega með ólíkindum að Eddie Howe sé enn að stýra Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni. Af tveimur ástæðum… a) þetta er lang “minnsti” klúbburinn sem hefur verið í þessari deild, völlur upp á 12500 og budget sem er brotabrot af flestum samkeppnisaðilunum og b) það er með ólíkindum að ekkert af stærri liðum deildarinnar hafi sótt þennan lang efnilegasta stjóra deildarinnar til að stýra liðinu sínu. Við teljum Bournemouth vera orðið rútinerað lið á meðal þeirra bestu. Þeir eru með öfluga menn áfram eins og Begovic í markinu, Ake í vörninni, Fraser að skapa og Callum Wilson uppi á topp. Öllum lykilmönnunum ætlar hann að ná að halda og í sumar hefur hann sótt styrk, m.a. til okkar þegar hann vann samkeppnina um lánið á Harry Wilson en líka sigrað samkeppni við okkur þegar hann splæsti 13 milljónum punda á vinstri bakvörðinn Lloyd Kelly hjá Bristol City. Hann splæsti svo í vængmannainn Arnaut Danjuma frá Club Brugge, sá á landsleiki fyrir Holland og þykir mikið afrek fyrir Howe að hafa náð honum til liðsins. Sóknarlína liðsins er orðin ansi spræk og liðið mun halda sér uppi, það hlýtur svo að leiða til þess að stærra lið nappi Howe fyrir næsta tímabil, hann á svo sannarlega það skilið!

Hæsta sæti spáð 10.sæti
Lægsta sæti spáð 14.sæti

11.sæti Watford 90 stig

Í raun má margt svipað skrifa um Watford og liðið þar rétt fyrir neðan þá. Watford er lítill klúbbur í úthverfi norðvestur í London og á meðal minni liðanna á því svæði. Þeir hafa nú verið samfleytt í deildinni síðan haustið 2015 og stöðugt styrkt sig þar í sessi. Þeir eru ekkert endilega að velta mikið fyrir sér fegurð fótboltans, eru líkamlega sterkir og grimmir. Þar fer fremstur meðal jafningja sóknarbuffið Troy Deeney, eins týpískur enskur framherji og mögulega finnst á jarðkúlunni. Abdoulaye Doucoure er sterkur miðjumaður og svo eru tæknilega flottir leikmenn í Will Hughes og Gerard Deloufeu svo við nefnum einhverja til leiks. Þeir bættu tveim reynsluboltum í hópinn í sumar þegar þeir fengu hafsentinn Craig Dawson frá WBA og pikkuðu svo Danny Wellbeck upp frítt frá Arsenal. Býflugurnar (Hornets) frá Watford eru orðnir öflugt miðjumoðslið og verða það áfram undir stjórn Javi Garcia þessa leiktíð.

Hæsta sæti spáð 9.sæti
Lægsta sæti spáð 13.sæti

10.sæti West Ham 95 stig

Þá erum við mættir í efri helminginn og fyrsta liðið þeim megin eru “Hamrarnir” hans Manuel Pellegrini. Þeir fóru af stað frekar höktandi inn í síðasta tímabil en luku vetrinum frekar sterkt eftir að stjórinn hafði náð að setja sitt far á leik liðsins. Liðin hans eru skipulögð og góð í að loka svæðum varnarlega og hafa löngum á að skarta sóknartýpum sem að hafa gæði. Þeir keyptu nokkra leikmenn í fyrra sem einmitt fóru að ná tökup á ensku dildinni þegar inn á mótið leið, má þar nefna helstan Felipe Anderson sem er lykilmaður sóknarlega og hafsentana Issa Diop og Fabian Balbuena. Þeir misstu Andriy Yarmolenko snemma í meiðsli sem var ákveðið áfall og ætla þeir honum hlutverk í vetur. Þeir kvöddu Marco Arnautovic og losuðu um eldri leikmenn sem minna hlutverk höfðu (Samir Nasri, Andy Carroll og Adrian) en bættu við sig tveimur leikmönnum sem þeir ætla stór hlutverk. Spænski landsliðsmiðjumaðurinn Pablo Fornals kom fyrstur á 24 M og stuttu síðar slógu þeir metið sitt í leikmannakaupum þegar franski framherjinn Sebastien Haller kom frá Eintracht Frankfurt á 45 Millur. Þessir tveir eiga að leiða liðið hærra og væntanlega er hugsun eigendanna að liðið fari að blanda sér í slaginn um Evrópudeildarsætin og þar með ná inn á topp 7. Við teljum ekki líkur á að það takist en að West Ham verði rocksolid miðjuklúbbur sem erfitt er að sækja stig til, sérstaklega á heimavellinum þeirra sem er Ólympíuleikvangurinn sjálfur. Þeir hafa nú náð ágætum tökum á þeim velli eftir brösuga byrjun.

Hæsta sæti spáð 9.sæti
Lægsta sæti spáð 12.sæti

9.sæti Wolves 95 stig

Spútniklið síðasta árs án nokkurs vafa. Portúgalinn Nuno Espírito Santo kom þeim upp í úrvalsdeildinni með því að spila góðan fótbolta og tókst að ná frábærum árangri á sínu fyrsta ári á meðal þeirra bestu með sama móti. Fór svo að lokum að liðið náði 7.sæti sem gaf þeim sæti í Evrópukeppni, nokkuð sem liðinu tókst síðast 1981, algerlega frábær árangur. Liðið er fornfrægur klúbbur í Englandi og á nokkra stuðningsmenn á Íslandi sem annað hvort gripu þá á gullaldarárunum upp úr 1950 eða á seinna góða skeiði liðsins um 1980. Heimavöllur þeirra er mikil “úlfagryfja”, minnir eilítið að sögn á heimavöll Stoke. Opinn völlur þar sem oft blása vindar og andstæðingnum gert lífið leitt eins og hægt er, enda menn þá staddir í “Svartalandi” (Black country) eins og landfræðilegt svæðið er kallað. Þar fóru ekki mörg lið með sigur af hólmi, nokkuð sem varð grunnurinn að góðum árangri. Í liðinu eru gæðaleikmenn, margir þeirra portúgalskir eins og stjórinn. Markmaðurinn Rui Patricio er klárlega einn af þeim bestu í deildinni, tveir frábærir miðjumenn koma þaðan líka í formi Joao Moutinho og Ruben Neves og fremstur var svo Mexíkóinn Raul Jimenez. Varnarleikurinn átti þó til að verða smá maus, hann er leiddur af fyrrum fyrirliða U21s liðsins okkar, Conor Coady. Hann er líka fyrirliði Úlfanna og má kannski telja hann þann yngri leikmann Liverpool á síðustu árum sem kvatt hefur félagið sem bestum árangri hefur náð (þó líklega Suso sitji þar í fyrsta sæti). Kínverskt eignarhald er á liðinu og í sumar voru stóru kaupin þau að ná að festa Jimenez eftir lánið í fyrra og síðan keyptu þeir ítalska framherjann Patrick Cutrone auk þess að fá efnilegan hafsent að láni frá Real Madrid, Jesus Vallejo að nafni. Við teljum Úlfana klárlega verða áfram í efri helmingnum en muni þó aðeins gefa eftir. Kemur þar til helst styrking liðanna í kringum þá en líka það að Evrópukeppnin muni taka smá toll af þeim án þess þó að setja þá í nein vandræði. Þeir fóru langt í bikarnum í fyrra og munu gera það einnig í ár. Hörkulið.

Hæsta sæti spáð 6.sæti
Lægsta sæti spáð 10.sæti

8.sæti Leicester 110 stig

Ansi mikið umrótsár að baki hjá Leicester. Í október 2018 lést eigandi liðsins í hræðilegu þyrluslysi á bílastæði við leikvöll þeirra og í kjölfarið fóru í gang vangaveltur hvert liðið myndi stefna, enda sá mæti Vichai Srivaddhanaprabha búinn að ná stórkostlegum árangri í eignarhaldi sínu. Auðvitað þýddi þetta fyrst um sinn bakslag en þó náði liðið í góð úrslit inn á milli sem héldu stjórnanum lengi vel í starfi, má þar helst nefna sigur á Man City heima og jafntefli á Anfield. Eftir stórt tap fyrir Crystal Palace á heimavelli í lok febrúar ákváð nýr eigandi, sonur Vichai, að kominn væri tími á að breyta um mann í brúnni og fékk til starfsins mann sem við þekkjum vel, Brendan Rodgers mætti og er þegar farinn að tala um “commitment” hjá sínum mönnum. Brendan er fínasti stjóri og náði góðum tökum á liðinu þó ekki tækist honum að ná í það stig sem okkur skipti mestu máli, gegn City undir vorið. Kjarni liðsins er enn að vísa í magnaðan meistaratitil liðsins 2016, þar er að telja Kasper Schmeichel í markinu, Wes Morgan í hafsentinum, Marc Albrighton á kantinum og baneitraðan Jamie Vardy frammi. Í fyrra bættust í hópinn öflugir menn í formi James Maddison og Wilfred Ndidi auk þess sem Youri Tielemans kom frá Monaco á láni sem var svo staðfest með kaupum í sumar. Stóru kaup Leicester eru svo framherjinn Ayoze Perez sem ætlað er stórt hlutverk…en stóru fréttirnar voru auðvitað þær að svo fór að Harry Maguire kreysti fram sölu í sumar og varð dýrasti varnarmaður heims. Þegar þetta er skrifað eru Leicester að berjast við að ná í hafsent í hans stað og mun það auðvitað skipta máli. Við teljum þó að liðið sé það sterkt og Brendan það klókur að það verði á svipuðum slóðum og undanfarin ár en vissulega gæti það farið eilítið á annan veg ef þeir ná ekki í mann í stað Harry. Leicester er það lið sem við erum mest ósammála erum um. Það munar 8 sætum á hæsta og lægsta gildi í spám okkar.

Hæsta sæti spáð 6.sæti
Lægsta sæti spáð 14.sæti

7.sæti Everton 124 stig

Gylfi Sig og félagar, nágrannarnir okkar hinu megin við garðinn, blánefjarnir í Everton…blue – white – s****. Hvað sem við viljum kalla þá er ljóst að Everton ætla að gera atlögu að því að berjast um Meistaradeildarsæti. Liðið var á miklu hökti lengi vel síðasta ár og verulega hitnaði um tíma undir stjóranum Marco Silva. Þegar leið á tímabilið fór þó að ganga betur, ekki síst vegna frammistöðu Gylfa og marka frá Richarlison sem svo sannarlega er öflugur leikmaður. Íraninn Farhad Moshiri er aðaleigandinn og var að lokum sáttur við 8.sætið sem féll í þeirra skaut um leið og hann fór að tilkynna um það að liðið muni byggja völl í dokkunum við Merseyána og keypti síðan jólaljósin á LiverBuilding…sem voru semsagt blá jólin 2018! Hann ætlar sér árangur og hefur verið duglegur að versla í sumar. Hann tryggði sér André Gomes fast frá Barcelona eftir lán í fyrra, byrjaði á að versla Fabien Delph frá City og því fylgdu kaup á Jean Philippe Gbamain til að vinna á móti sölunni á Idrissa Gueye til PSG og síðan kom framherjinn Moise Kean frá Juventus. Honum er ætlað stórt hlutverk. Á lokadeginum var svo bakvörðurinn Djibril Sidibe kominn í hópinn frá Monaco. Það er algerlega ljóst að Everton ætlar sér að verða liðið sem brýst inn í lokaða elítugrúppu efstu 6 liðanna. Við höldum að það muni ekki takast í vetur en það verði þó klárlega bankað fast á hurðina…en þetta er alltaf háværi litli bróðirinn okkar sem mun fagna því eins og meistaratitli að fá stig út úr leikjunum við okkur, það er þeirra mót ár hvert!

Hæsta sæti spáð 6.sæti
Lægsta sæti spáð 8.sæti

6.sæti Arsenal 139 stig

Arsenal skiptu um stjórann sumarið 2018, kvöddu goðsögnina Arsene Wenger og réðu til starfa Unai Emery. Hann byrjaði á tveimur tapleikjum en svo fylgdi rúmlega 20 leikja hrina án taps og aðdáendur liðsins töldu nýjan Messías mættann. Í desember datt botninn úr úrslitunum í öllum keppnum nema Evrópudeildinni og hægt og rólega fóru gagnrýnisraddir að heyrast um stjórann og ArsenalTV náði nokkrum fínum viðtölum. Stóra vonin um Meistaradeildarsætið fylgdi því að vinna Evrópudeildina en svo fór að þeir steinlágu í úrslitunum fyrir Chelsea og ljóst að vonbrigðatímabil var að baki. Arsenal hafa eytt sumrinu í að styrkja sóknarleikinn, þeir slógu kaupametið sitt með margræddum Nicholas Pepe frá Lille og unnu líka kapphlaupið um að fá Dani Ceballos lánaðan frá Real Madrid. Enn er þó verið að bíða eftir styrkingu á varnarlínunni sem var hreint skelfileg í fyrra og undir lok gluggans virðist þeim ætla að takast að ná í skoska landsliðsbakvörðinn Kieran Tierney og jafnvel kaupa David Luiz frá Chelsea. Mikil hreinsun varð út í Norður London, Petr Cech hætti, David Ospina fór til Napoli, Aaron Ramsey til Juventus og Laurent Koscielny til Bordeaux auk þess sem að Stephan Lichtsteiner og Danny Wellbeck fóru frjálst. Það er enn ansi stór spurning um frammistöðu Emery í starfi. Hann náði í mesta lagi sexu í einkunn í fyrra og leit eiginlega hálf illa út eftir flotta byrjun. Við teljum þá ekki ná í sæti í CL vorið 2020 og ef að svo fer þá hlýtur að verða skipt um stjóra. Verður Arsenal liðið sem krækir í Eddie Howe?

Hæsta sæti spáð 5.sæti
Lægsta sæti spáð 7.sæti

5.sæti Chelsea 142 stig

Evrópudeildarmeistarar, 4.sæti og Meistaradeild…en skiptum samt um stjóra. Saga lífsins hjá Chelsea undanfarin ár og nú fóru þeir nýja leið í ráðningunum þegar þeir sóttu sína eigin goðsögn, Frank Lampard og settu í stólinn. Hann byrjar á því að vera í félagaskiptabanni með liðið sitt og hefur nú fengið skilaboð um það að hann eigi að nýta þá fjölmörgu Chelseamenn sem hafa verið að gera það gott á lánsdílum annars staðar og nýta öflugt unglingastarf. Áður en þeir fóru í bannið höfðu þeir þó fest sér Christian Pulisic og Mateo Kovacic sem báðir munu skipta máli en auðvitað voru stóru fréttirnar þær að þeirra langbesti maður undanfarin ár, Eden Hazard, varð nýjasti Galaticoleikmaður Real Madrid. Hans skarð er vandfyllt þó ekki sé dýpra að orði kveðið! Lampard fékk ágætt kredit fyrir stýringu sína á Derby í fyrra en þetta er risastórt verkefni fyrir hann. Lengi hefur verið talað um “playerpower” hjá Chelsea og er honum ætlað að ná því dæmi niður (enda einn þeirra sem var öflugur í klefanum lengi vel) og fara að gera Chelsea liðið sjálfbærara eins og hinn margrómaði eigandi Roman Abramovich lofaði fyrir löngu. Við höldum að Chelsea verði utan Meistaradeildarsæta og liðið er alls ekki nógu sterkt til að ná árangri í Evrópu í vetur. Hvort að Lampard fær meiri séns en aðrir stjórar með slíkan árangur. Come on…þú þværð ekkert rendurnar af Zebrahesti, þetta er jú Roman sjálfur!

Hæsta sæti spáð 4.sæti
Lægsta sæti spáð 6.sæti

4.sæti Manchester United 148 stig

Svona erum við innrættir, þrátt fyrir alla okkar óvild gegn Man United ætlum við að tippa á það að Ole Gunnar Solskjaer leiði United aftur inn í Meistaradeildina haustið 2020 sem hlýtur að vera stóra verkefni Djöflanna eftir svakalegan sveifluvetur síðast. Algeru þroti José Mourinho lauk á Anfield (dásamleg stund) áður en Ole fór á mikið hlaup sem endaði á ráðningu hans fast í stjórastólinn, því fylgdi svo annað hrun sem varð til þess að þeir misstu af lestinni í deild og duttu út úr Meistaradeild. Klárlega vonbrigðatímabil hjá þessum risaklúbb sem virðist í bölvuði innviðabrasi, innkaupastjórinn
Ed Woodward er líklega lítið að labba um borgina á kvöldin miðað við vinsældakosningar og eigendurnir eru eiginlega hættir að fljúga til Englands. United fjárfestir í sumar allduglega, Aaron Wan-Bissaka kemur frá Palace og Harry Maguire frá Leicester til að laga til varnarleikinn en þeim hefur þó ekki tekist að fá inn nýtt blóð framávið þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir sem m.a. innihéldu það að skipta Romelu Lukaku í burt. Það gæti enn gerst á lokadeginum því United vilja tryggja sig ef að Pogba karlinn heldur áfram að hamast í því að komast til síns ástsæla Zidane í Madrid. Það mun auðvitað skipta máli en við semsagt teljum liðið ná lágmarksmarkmiði sínu. Því miður. Gætu líka farið langt í Evrópudeildinni.

Hæsta sæti spáð 4.sæti
Lægsta sæti spáð 7.sæti

3.sæti Tottenham 163 stig

Tottenham maður, Liverpool frá árinu áður. Flottur árangur í deild og frábært run í Meistaradeildinni sem endaði á hryggbrotinu sem við gáfum þeim í Madrid, auðvitað afskaplega gleðilegt. Tottenham er að okkar mati með einn af þremur bestu stjórum í deildinni (augljóst hver er bestur) sem hefur náð mögnuðum árangri með þennan hálfsofandi risa í Norður London. Í sumar leyfði hann sér alveg að segja frá því að hann fær ekki að stjórna leikmannakaupum hjá félaginu en er sá sem stjórnar æfingum og velur í liðið, nokkuð sem manni virtist hann ekki glaður með. Þeir hafa þurft að setja heilmiklar upphæðir í nýjan völl sem menn segja að sé einfaldlega sá flottasti á Englandi en þó komu leikmenn til liðsins í sumar, ólíkt því sem gerðist í fyrra. Stóru kaupin hingað til eru í Tanguy Ndombele sem er öflugur box to box miðjumaður og kemur frá Lyon og svo sóttu þeir vængmanninn Jack Clarke frá Leeds, leikmaður sem var á okkar radar um skeið. Það eru þó líklega stærstu kaupin sem eru rétt ódottin inn þar sem að nokkuð ljóst virðist vera að Paulo Dybala muni enda hjá Tottenham sem mun svo væntanlega verða til þess að Christian Eriksen fær að fara til Spánar. Dybala yrði risabiti fyrir Spurs og klárlega geggjuð viðbót í lið sem er þrælmassívt varnarlega með bestu týpísku níuna í enska boltanum og jafnvel heiminum í Harry Kane. Við teljum Tottenham verða það lið sem helst mun stríða topp tveimur og einn okkar meira að segja telur þá verða silfurliðið, semsagt gott ár framundan hjá þeim og hver veit nema að þeir bara haldi áfram að elta okkur frá liðnum tíma, vinna þeir kannski Meistaradeildina 2020???

Hæsta sæti spáð 2.sæti
Lægsta sæti spáð 3.sæti

2.sæti Liverpool 173 stig

Já börnin mín, við höldum áfram að svekkja okkur á þessu tímabili. Ekki titillinn að þessu sinni og biðin því að verða 30 ár a.m.k. Við erum ekkert allir sammála hér og menn munu væntanlega koma með sínar útgáfur í kommentum en heilt yfir þá bara teljum við okkur ekki enn tilbúna að skáka Man. City – það lið bara einfaldlega of sterkt til að slá niður af stallinum. Jurgen Klopp mun ekki styrkja liðið í ágúst með mönnum inn í byrjunarlið þar sem hann segir þá menn sem að geti gert það séu of dýrir fyrir okkur að þessu sinni. Líklega eru menn að klára stórar fjárfestingar í tengslum við nýtt æfingasvæði aðalliðsins og enn er verið að vinna í sölunni á Melwoodsvæðinu, þetta eru risaupphæðir fyrir okkur og virðast menn ætla að halda áfram þeirri stefnu að láta reksturinn ganga vel, sem er auðvitað frábært mál og alveg rétt hjá Klopp að það er ekkert einfalt að finna menn inn í liðið okkar og við bindum miklar vonir við að endurkoma Lallana og þá sérstaklega Ox-Chamberlain muni ná að búa til neista, auk þess sem við teljum Keita eiga heilmikið inni og vonumst eftir meiðslalausu ári hjá Joe Gomez. Mikið ofboðslega sem ég þó vona að þessi spá gangi ekki eftir því maður er að verða alveg ofboðslega þreyttur á silfursætum síðustu ár!

Hæsta sæti spáð 1.sæti
Lægsta sæti spáð 3.sæti

MEISTARAR Man City 177 stig

Semsagt staðfest, miðað við okkar spá eru Manchester City að fara að hirða titilinn þriðja árið í röð og jafna þar með okkar árangur frá gullöldinni uppúr 1980. Við erum 6 af 9 sem spáum þeim titlinum og enginn setur þá neðar en 2.sæti. Þetta er einfaldlega ofurlið hvert sem litið er. Ederson frábær markmaður, Laporte stýrir varnarleiknum auk þess sem þeir bættu lið sitt í hægri bakverði með kaupum á Joao Cancelo frá Juventus. Rodri mun líklega verða þeirra varnarmiðjumaður og gefa De Bruyne, Gundogan, David Silva og Bernardo Silva frjálsræði og uppi á topp eru þeir með Kun Aguero, Raheem Sterling og Gabriel Jesus. Bjartasta vonin okkar liggur í því að allir vita að City horfir sterkt til þess að vinna Meistaradeildina og munu leggja enn meira kapp á það en áður, í því liggur lítið smáatriði sem gæti afvegaleitt þá í deildinni á meðan. Liðið sýndi auðvitað fádæma viljastyrk á almanaksárinu 2019 þegar þeir unnu 27 af 28 knattspyrnuleikjum sínum og náðu í þrennuna á heimasvæðinu sem er árangur sem engu liði öðru hefur tekist. Stjórinn Pep er magnaður karakter þó við séum auðvitað að verða pínu pirraðir á honum vegna árangursins sem hann nær og þrátt fyrir alla þá óvild sem er að byggjast upp á milli þessara tveggja risaliða í efstu sætunum teljum við titilinn verða í þeirra höndum aftur vorið 2020.

Hæsta sæti spáð 1.sæti
Lægsta sæti spáð 2.sæti

Þá er það í húsi, framundan fyrsta upphitun leiktíðarinnar og svo fyrsti leikurinn þegar nýliðar Norwich koma í heimsókn. Endilega hendið inn ykkar spám í athugasemdum við þennan pistil. Það er svo gaman að líta til baka þegar tímabilið er búið og þá sjá hversu nálægt (í mínu tilviki oftast langt) maður er frá raunstöðunni.

20 Comments

 1. Sælir félagar

  Gaman að þessu þó mér finnist að amk. einhverjir spámenn eigi að hafa þrek til að spá LFC 1. sæti. Hitt er svo annað af hverju sú árátta er að spá MU svona hátt. Það lið hefur hvorki stjóra né mannskap fyrir meira en 6. til 7. sæti þó þeir geti með heppni náð 5 sætinu. Aðrar athugasemdir geri ég ekki við þessa spá en benda má á að þessar eru stórvægilegar. Hitt er svo líka að þetta er fyrst og fremst til gamans gert 🙂 Svona til gamans vil ég því segja frá að ég er að fara í fyrramálið til Liverpool (via Manchester) og á opnunarleikinn á Anfield. Það verður eitthvað.

  Það er nú þannig

  YNWA

  25
   • Einar minn maður! Held að það eigi eftir að trufla Man C að hafa ekki lengur caracterinn Kompany þarna og þeir verða í 3 sæti ætla að spá LFC og Tot í titil baráttunni miklu þetta árið held Að Man U verði áfram svolítið frá 4 efst verði í 6 sæti. En eitt Einar ?Maggi spáði okkur pottþétt ekki í fyrsta ef ég þekki hann rétt ?

    YNWA.

 2. Eins gott að þið opinberið ekki hver spáði Man.utd 7.sætinu….. svona í ljósi umræðna síðustu daga um spá Hödda Magg…….

  12
 3. Sæl og blessuð.

  Hef ónotalega tilfinningu fyrir þessu tímabili. Það jákvæða er, að á góðum degi eigum við að geta unnið City. Það gæti þýtt bikar í hús. En ég er hræddur um að við endum í þokkalegu meistaradeildarsæti í PL, nefið segir mér að þriðja sætið bíði okkar. Svo hef ég einhvern grun um að þetta verði tímabil Tottenham sem öllum (öðrum en LS) að óvörum endi efstir í deildinni eftir ærandi endasprett. Gæfan snýst þeim í vil og það frýs í helvíti.

  Svo hef ég afar litla trú á mu, sem glíma við ósamstæðan hóp, enga ærlega stefnu og barn í þjálfarasæti. Pogba og Sansésinn höfðu lítið fram að færa þrátt fyrir ótvíræða hæfileika og himinhá laun og það verður sama í gangi með aðra leikmenn.

  Prentið spádóminn út og hafið í ramma á náttborðinu.

  4
 4. Mín spá 10 efstu:
  1. Shittí
  2. Liverpool
  3. Tottenham
  4. Scumunited
  5. Everton
  6. Arsenal
  7. Chelsea
  8. Leicester
  9. Wolves
  10. Crystal Palace

  2
 5. Ég held að Arsenal verði ofar og í topp 4. Emery búin með eitt tímabil í ensku og reynslunni ríkari og búnir að styrkja sig.
  Spái Chelsea basli, búnir að missa Hazard, ekkert að kaupa og frumraun Lampards í PL. Enda jafnvel neðar en Europa League.
  MUTD eru smá spurningarmerki, finnst þeir ekki vera að styrkja sig á réttum stöðum. Spái þeim neðar en topp 4, sirka 6-7 sæti.
  Sammála með LFC. City hafa styrkt hópinn sem endaði fyrir ofan LFC á síðasta tímabili og því rökrétt að ætla þeim ofar. Styrkur LFC er þó að halda sínum sterkustu mönnum (7-9-13) og fá til baka úr meiðslum sterka leikmenn. En það hafa City líka gert, þannig að það er rökrétt að ætla City sæti ofar en LFC.

  En þetta er langt og strangt tímabil, meiðsli og annað mun örugglega spila inn í. Miðað við snittubakkaskjöldin þá er liðið tilbúið í að spila skemmtilegan fótbolta áfram. Þetta verður eitthvað …

  1
 6. Ég held að þetta sé alveg í takti við það sem ég hef séð í mörgum enskum og íslenskum miðlum. Allavega efstu 7 sætin eru t.d. alveg eins og spá fotbolta.net. Ég vona að þetta sé ekki rétt spá hjá ykkur. Vill skipta á 1 og öðru sæti, annað skiptir mig ekki máli 🙂

  1
 7. 1. LFC
  2. Tham
  3. manc
  4. Arsenal
  5. Chelsea
  6. manu

  Eitt af liðunum 4, 5 og 6 verða Evrópumeistarar, þá meina ég að CFC endi í 3ja sæti síns riðils í CL og spili þá í Evrópudeildini eftir það.
  Manc verða hins vegar CL meistarar, enda verður aðal áherslan hjá þeim á þá keppni.

  YNWA

  2
 8. Kannski maður bara opinberi sig hérna. Svona var spáin sem ég sendi inn:

  1. Liverpool: Já, það er bara þannig. Ég held að biðin sé á enda. Að sjálfsögðu hefði maður viljað sjá einhverja viðbót framávið til að bæta í breiddina, en þetta lið er orðið verulega vel samstillt og hópurinn gríðarlega sterkur. Naby Keita mun sýna hvað í honum býr, heilt tímabil þar sem Fabinho er lykilmaður og Ox mættur í slaginn á ný. Kjarninn í liðinu á frábærum aldri og Klopp er hreint út sagt magnaður stjóri sem mun taka næsta skref með liðið.
  2. Man.City: Það er svolítið galið að spá þeim ekki titlinum þriðja árið í röð, en það er eitthvað sem segir mér að þetta verði aðeins erfiðara en síðustu ár og þeir fái aðeins minni virðingu inni á vellinum núna. Það er bara líffræðilega útilokað að ná enn og aftur í +95 stiga tímabil. Nokkrir lykilmenn að komast á aldur og ég held að það muni sjást í vetur. Það verður jafnframt gríðarleg áhersla á CL sigur.
  3. Tottenham: Spurs eru með einn af þremur bestu stjórunum í deildinni og hafa verið að bæta í stöður sem þeir þurftu að styrkja. Held þeir verði sterkari í ár og muni jafnvel blanda sér í baráttuna um sjálfan titilinn.
  4. Chelsea: Kannski er maður að setja þá of ofarlega, en ég held að ákveðið pressuleysi á Lampard muni skila þeim á þennan stað. Fullt af frábærum fótboltamönnum, en þeir misstu engu að síður Hazard og það verður stórt skarð að fylla fyrir hinn unga Pulisic. Ná þessu sæti með herkjum.
  5. Man.Utd: Þeir voru með hörkumannskap á síðasta tímabili og hafa bætt í hann. Ég hef bara einfaldlega enga trú á Ole við stýrið. Eitthvað styrkja þeir sig aftarlega á vellinum, en miðjan er stórt spurningamerki. Held þetta verði hörkubarátta, en þeir missa enn og aftur af CL sæti þegar upp verður staðið.
  6. Arsenal: Það er mjög erfitt að segja til um röð liðanna í 3-6 sæti. Tel þau verða talsvert frá hinum enn eitt árið, en það sem var helst að hjá Arsenal á síðasta ári var varnarleikur og ég hef ekki séð mikla bætingu á þeim vígstöðvum, þótt síður sé. Ég hreinlega skil ekki kaupstefnu Arsenal, voru að bæta við mjög dýrum sóknarmanni en ekkert gerist aftar á vellinum.
  7. Everton: Hafa sett mikinn pening í að styrkja liðið og ná að vinna 7. sætis bikarinn sinn þetta árið. Það eru gríðarlegar framfarir, enda lent í 8. sæti 2 ár í röð. Mikill peningur settur í að hækka sig um eitt sæti.
  8. Leicester: Rodgers heldur áfram að bæta þetta lið og gætu ef allt gengur upp barist um EL sæti. Tel reyndar bilið í topp 6 ennþá vera of stórt. Þeir munu stríða toppliðunum í einstaka leikjum.
  9. West Ham: Það verður fróðlegt að fylgjast með þeim í vetur, eru með nokkra virkilega skemmtilega leikmenn innan sinna raða og þeir munu jafnvel ná að blanda sér í EL baráttuna. Ekki mjög líklegt, en gæti samt gerst.
  10. Wolves: Spútnik liðið í fyrra, en tímabil 2 er alltaf aðeins erfiðara. Liðin fyrir ofan búin að styrkja sig aðeins betur en gott fyrir þetta lið að tryggja sig sem PL lið.
  11. Watford: Margir spáðu þeim mjög neðarlega á síðustu leiktíð, en þeir eru með fínan mannskap inn á milli. Halda áfram á svipuðum slóðum.
  12. Crystal Palace: Væru ofar ef þeir væru með alvöru stjóra og það er hundfúlt að þurfa að setja þá svona ofarlega. Eru bara samt með fínan mannskap.
  13. Bournemouth: Það er með ólíkindum að þeir skuli ennþá halda Howe. Hvernig má það vera að stærri félög séu ekki búin að reyna að ræna honum? Þeir munu verða enn og aftur í rólegheitum í miðjumoði, enda Howe snillingur.
  14. Aston Villa: Held að þessi 5 neðstu skeri sig úr og Villa sigli lygnan sjó, enda bætt mikið við sig. Held það sé samt gert á skynsamari hátt en Fulham gerði það. Gætu jafnvel teygt sig aðeins ofar.
  15. Southampton: Hef einhverja tröllatrú á þessum stjóra þeirra. Verða ekki í neinni alvöru hættu.
  16. Newcastle: Steve Bruce er svar þeirra við brotthvarfi Rafa. Bara það eitt og sér gerir það að verkum að þeir ættu skilið að falla. Eru bara of stór klúbbur og eiga ekki að vera á þessum stað. Tveir öflugustu sóknarmennirnir farnir (Rondon og Perez) og ég sé ekki hvaðan mörkin eiga að koma. Bjarga sér engu að síður vegna sömu ástæðna og Burnley.
  17. Burnley: Þeir sleppa vegna þessa að þessi þrjú neðstu lið eru einfaldlega ekki með næg gæði. Stórkallabolti Dyche mun halda þeim enn eitt árið í deildinni. Væri svo sannarlega til í að sjá þá niður á kostnað t.d. Norwich.
  18. Norwich: Voru bestir í næst efstu deild á síðasta ári, en gæðin ekki næg fyrir PL. Hefðu þurft að styrkja hópinn meira, því þeir hafa lítið sem ekkert styrkt liðið á milli ára.
  19. Brighton: Hafa verið á niðurleið og það mun ekki stoppa. Hafa verið að daðra við fallið og nú gerist það. Ætla þeir að treysta á að háaldraður Glenn Murray skili þeim mörkunum sem þarf til að halda sér uppi? Held það virki ekki.
  20. Sheffield United: Hafa ekki styrkt hópinn nægilega og ekki með nógu marga leikmenn með PL gæði. Ná sér samt í mikilvægan fallhlífarpening fyrir næstu ár.

  3
 9. City taka þetta með meiri mun en í fyrra. Búnir að fá sterkari róteringu við Fernandinho en þeir töpuðu flestum stigum í fjarveru hans á síðasta tímabili. Þá er Cancelo mikil bæting frá Danilo. Fá svo KDB til baka sem er einn af þremur bestu miðjumönnum deildarinnar.

  Við verðum svo öruggir með annað sætið og ættum að ná í a.m.k. einn bikar. Hugsanlega FA Cup og ættum svo að fara langt í Evrópu aftur.

  1
 10. Spái að Chelsea lendi í vandræðum, vandræði Pogba halda áfram. Arsenal með Özil á launaskránni er ekki að gera sig. Eriksen langar í burtu og Sane var að meiðast. Liverpool situr eftir eftir með nóg stig til að landa titlinum.

  1
 11. 1. Man City – Þetta er lið sem er með frábært byrjunarlið og stórkostlegan bekk. Það er erfitt að keppa við svona gæði enda olíu penningar að hjálpa mikið til en það verður ekki tekið af þeim að Pep lætur þá spila frábæran bolta.
  2. Liverpool – okkar menn verða aftur flottur í vetur, góðir í vörn og mörkinn munu alltaf koma. Ég efast um að við sjáum 97 stig í vetur en þetta verður samt gott tímabil.
  3. Tottenham – Þetta lið er einfaldlega mjög vel mannað og hefur verið að auka aðeins á breyddina.
  4. Man utd – Það er mikil pressa á Óla að standa sig og ég held að þeir eiga eftir að loka aðeins vörninni og DeGea kemst í sitt gamla form og þá tapa þeir ekki mörgum leikjum.
  5. Arsenal – Þessi sóknarlína er rosaleg hjá þeim en varnarleikur verður aftur höfuðverkur.
  6. Chelsea – Frank mun þurfa smá tíma að aðlagast og að missa Hazard er mjög slæmt
  7. Everton – Ætla sér stóra hluti og ég held að þeir ná að vera nærr toppnum en á síðustu leiktíð.
  8. Leicester – Setja stefnuna hátt og ná góðum árangri í vetur.
  9. Wolves – Spila skemmtilegan fótbolta og það er ekkert að fara að hætta.
  10. West Ham – Lið sem er með gæðaleikmenn en vantar stöðuleika.
  11. Bournmouth – Held að þeir eiga eftir að eiga mjög gott tímabil, eru með skapandi og flotta sóknarlínu og Wilson á eftir að vera góður.
  12. Watford – Alltaf erfitt að spila við þá. Physical lið sem nær í slatta af stigum.
  13. Southampton – Nýi stjórinn virkar á mann eins og hann viti hvað hann er að gera.
  14. C.Palace (með Zaha) ef þeir missa Zaha þá spái ég fallbaráttu allt til enda.
  15. Aston Villa – Þeir halda sér uppi. Þeir eru búnir að fjárfesta vel og taka ekki Fulham á þetta.
  16. Newcastle – Benitez farinn og þeir detta niður töfluna og stemmningin er lítil en ég spái að þeir halda sér uppi á árangri á heimavelli þar sem einu bestu stuðningsmenns landsins láta í sér heyra.
  17. Burnley – rétt halda sér uppi.
  18. Norwitch – reyna að spila skemmtilegan bolta en fá alltof mörg mörk á sig og það verður þeim að falli.
  19. Brighton – Það er einfaldlega lítið að frétta hjá þessu liði.
  20. Sheffield United – einfaldlega ekki nógu sterkir.

  Ég spái því að Man City muni fljótlega um jólinn stinga aðeins af. Okkar menn verða þarna á eftir en sjá fram á að vinna ekki titilinn en taka FA Cup í ár og komast langt í meistaradeildinni. Svo kemur þarna þéttur pakki fyrir aftan þar sem verður rosaleg barátta um evrópusætinn.

  2
 12. Svona raðaði ég þessu upp, þetta er ekki spá, þetta fer svona.

  1 Liverpool – Það er tilefni til að hafa trú á því að næsta ár eftir annað sæti verði töluvert betra núna en 2002/2009/2014. Liverpool er með einn besta stjórann í boltanum, þjálfara sem er þekktur fyrir að bæta leikmenn og búa til stórstjörnur í stað þess að kaupa þær tilbúnar. Það er mikið betra að láta hann um að þróa lið á besta aldri áfram (og selja engan lykilmann) í stað þess að selja einhvern af bestu leikmönnum liðsins og panic-kaupa menn eins og Diouf og Diao, Aquilani og Keane eða Balotelli og Lambert í staðin.

  2 Manchester City – Besta von Liverpool er að það taki í andlega (og líkamlega) að spila á þeim standard sem City hefur verið undanfarin ár. Haldi Liverpool dami í ár er meira hungur besta von liðsins til að stöðva þetta svindllið City.

  3 Tottenham – Held að Daniel Levy endi silly season með 2-3 nýjum leikmönnum og mögulega einni sölu og styrki hópinn töluvert. Ef ekki fer United uppfyrir þá.

  4 Manchester United – Enn eitt árið kaupir United leikmenn fyrir svakalegar fjárhæðir og í ár styrkja þeir vissulega liðið, en fyrir ofan Solskjaer virðist ekkert hafa breyst og meðan svo er verður United ekki sérstakt áhyggjuefni. Vonandi stríða þeir City meira en Liverpool í stóru leikjunum. 4. sæti ætti að vega algjört lágmark hjá þessum hópi og ég held að Solskjaer sé miklu betri fyrir þetta lið en Mourinho. Liðið mun spila miklu meiri pressu-sóknarbolta og töluvert hraðari (og þar með betri).

  5 Chelsea – Chelsea er búið að skipta út núverandi stjóra ofurliðs Juventus fyrir stjóra Derby County sem var þar í sínu fyrsta stjórastarfi. Hann tekur við Chelsea liði án síns langbesta leikmanns. Ef að Roman hefur alvöru trú á Lampard til framtíðar ætti hann að gefa honum nokkuð free ride á þessu tímabili og ekki reka hann nái hann bara 5. sæti. Því að á pappír væri það nokkurnvegin á pari, rétt eins og Lampard var að gera hjá Derby.

  6 Arsenal – Arsenal virðist vera í Europa League vítahringnum sem Liverpool var í fyrir nokkrnum árum. Miðað við leikmannamarkaðin ættu þeir að ráða Brendan Rodgers sem stjóra, hann getur stillt upp liði sem sleppir varnarleik algjörlega og ætlar sér bara að skora meira. Arsenal hefðu þurft Maguire panic kaup meira en United og brottför Ramsey á frjálsri sölu er einnig stór skellur.

  7 Leicester – Stórt tímabil fyrir Rodgers og engin Evrópukeppni að trufla annars nokkuð öflugt Leicester lið. Þurfa að nýta Maguire peninginn vel áður en glugganum lokar, geri þeir það eiga þeir alveg séns á að koma sér í topp 6.

  8 Everton – Gylfi fær betri samherja á miðjuna í Delph og Gomes sem Everton er núna búið að kaupa. Kean er eitt mesta efnið í fótboltanum og líklega að gera það sama við Juventus og t.d. Sancho gerði við Man City. Fara í minna lið til að springa út. Gæti vel náð því í vetur og þessu liði vantar sannarlega markaskorara.

  9 West Ham – Pellegrini verður með þá í topp tíu en það er bara spurning hversu hátt þeir ná. Verða sterkari en á síðasta tímabili.

  10 Wolverhampton Wanderers – Europa League er eina ástæðan fyrir því að þeir eru ekki í 7.sæti hjá mér. Magnað að þeir virðast ætla að halda öllum sínum bestu leikmönnum.

  11 Bournemouth – Sóknarlína sem kemur þeir í baráttu um topp tíu mikið frekar en fallbaráttu. Óttast að þetta verði síðasta tímabil Eddie Howe enda ekki mikið lengra sem hann kemst með þetta félag.

  12 Watford – Verða á svipuðum slóðum og þeir voru í fyrra. Bikarkeppnin dró aðeins úr þeim eftir áramót en mögulega búa þeir að reynslunni að fara í úrslit (og reyndar tapa 6-0)

  13 Southampton – Klopp light er ástæða þess að maður spáir Southampton ekki neðar. Eins er Danny Ings besti sóknarmaður liðsins í fjöldamörg ár haldist hann heill. Gætu alveg orðið spútnik liðið í ár og endað mun ofar.

  14 Aston Villa – Smá Fulham vibe í gangi hjá þeim á leikmannamarkaðnum, hafa keypt fjöldan allan af leikmönnum sem enginn hefur heyrt um. Aston Villa fór upp eftir umspil en var besta liðið í Championship síðasta fjórðung tímabilsins 2018/19. Halda sér uppi.

  15 Crystal Palace – Elsti stjóri deildarinnar er að vanda með elsta lið deildarinnar og mun að sjálfsögðu skilja við Palace eins og nánast öll önnur lið sem hann hefur þjálfað, í verra standi en hann tók við því. Halda sér því miður uppi haldi þeir Zaha.

  16 Burnley – Dyche á eflaust eftir að hlæja að þessu og enda í 5.sæti með Burnley. Er samt tími hans tegundar af fótbolta ekki að falla niður í Championship deildina?

  17 Norwich – Unnu deildina nokkuð sannfærandi í fyrra og hafa verið mjög snjallir á leikmannamarkaðnum undanfarin ár. Norwich hefur keypt leikmenn fyrir minna en 10m EUR undanfarin tvö tímabil og selt fyrir 36m. Eina ástæðan fyrir því að ég spái þeim ekki falli eru liðin sem eru fyrir neðan.

  18 Sheffield United – Wilder hefur unnið kraftaverk með þetta lið undanfarin ár en EPL er of mikið.

  19 Brighton – Potter gæti verið spennandi stjóri og náð upp stemmingu í Brighton en ég held að ballið sé búið hjá þeim í bili

  20 Newcastle United – Benitez hélt þessu félagi í heild sinni saman, gengur ekki endalaust að selja sína bestu menn og nota ekki allan peninginn í að styrkja liðið aftur. Alls ekki með Steve Bruce í stað Beintez. Það er eins og Bruce hafi verið ráðinn til að koma þeim aftur upp úr Championship deildinni, hann er góður í því.

  2
 13. 1: liverpool
  2: tottenham
  3: man city
  4: chelsea
  5: everton
  6: arsenal
  7:wolves
  8: man utd

  2
 14. 1. Liv
  2. City
  3. Tot
  4. Ars
  5. Che
  6. Eve
  7. Wol
  8. Lei
  9. Utd (west ham)

  3
 15. Ég veit ekki hvernig deildin endar, en líklega vinnur það lið sem fær fleiri stig í þeim 10 leikjum sem spilast við hin topp 6 liðin. 2018-19 fékk LFC 19 af 30 mögulegum (63%), en ManCity fékk 25 af 30 (83%). Og af þessum 10 leikjum eru innbyrðis leikirnir í raun líklega munurinn: ef við hefðum unnið City en ekki þeir okkur hefðu þessi 19 og 25 stig snúist á hinn veginn.

  En getum við núna þegar glugginn er lokaður farið að tala um fótbolta aftur? Og hætt að tala upp City og hversu æðislegt allt er þar innanhúss?

  Síðast ár var LFC 11.7mm frá því að vinna deildina og fékk (miklu) fleiri stig en öll bestu gullaldarliðin og vann stærsta bikar heims (hvað svosem sem menn vilja fá í hús). Þetta lið spilar skemmtilegasta fótbolta stórliðs í heimi. VIð spiluðum besta leik LFC á Anfield síðan 1892. Á morgun tölum við ekki um ókeyptar stjörnur — við horfum á þær mörgu sem við höfum.

  3
 16. Sæl öll

  Um þessar mundir, þegar Sane er meiddur í nokkra mánuði, sèst vel hvað styrkleiki liða vaggast til við meiðsli lykilmanna. Sane er ekki að staðaldri í first 11 en þegar hann er frá, hver er þá næstur inn Á BEKKINN!!
  Liverpool lendir í verri málum, að mínu mati, ef einn af “skyttunum þremur” meiðist, það vantar breidd fram á við.
  1. ManCity
  2.Tott’ham
  3.LIVERPOOL
  4.manutd
  Ég spái þægilegu móti fyrir shitty en það verður rosalegur rússibani í vetur fyrir liðin í sætum 2-4. Þessi spá veltur þó á því að t.d. manutd haldi sínum bestu mönnum, Evrópa getur sign-að leikmenn til enda Ágúst mánaðar.

 17. Spá:

  1 Liverpool YNWA alesssss o.s.frv
  2 Tottenham
  3 Manchester City
  4 Arsenal
  5 Everton ( finnst eins og þeir hafi verið að gera góð kaup í ár )
  6 Man United
  7 Chelsea
  8 Wolverhampton Wanderers
  9 Aston Villa
  10 West Ham
  11 Burnley
  12 Watford
  13 Bournemouth
  14 Leicester
  15 Crystal Palace
  16 Southampton
  17 Newcastle United
  18 Brighton
  19 Norwich
  20 Sheffield United

Opinn þráður – Silly Season

Tímabilið hefst á Anfield!